Hít þvælunnar - Alþingi Íslendinga

Það er með ólíkindum hversu heimskuleg umræða á sér nú (í þessum skrifuðum orðum) stað á Alþingi í aðdraganda atkvæðagreiðslu þess um það hvort fulltrúar þjóðarinnar megi kanna hvaða samning ESB bjóði okkur við hugsanlega aðild. 

Listin að gera einfalt mál flókið er þar iðkuð af mikilli áfergju og miklum kröftum eitt í að ausa út tortryggni sinni varðandi aðildarviðræður.

Toppur heimskunnar kom frá Sigmundi Davíð formanni xB þegar hann rétt í þessu ásakaði ríkisstjórnina um að vera að fjalla um þetta mál í júlímánuði þegar enginn væri að fylgjast með.  Er maðurinn á sama landi og við? Er maðurinn á landi þar sem allt bankakerfið hrundi og það þarf að taka til hendinni? Loksins þegar Alþingi fer ekki í langt sumarfrí þegar mest ríður á, fer formaður Framsóknarflokksins að væla yfir því að verið sé að þoka umræðunni áfram.  Ég held að xB þurfi fljótlega að skipta aftur um formann.  Það getur varla nokkur flokkur sem einhvern heiður hefur horft upp á svona barnaskap.

Það er með ólíkindum að þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar séu að setja þetta mál að veði fyrir það að annað mikilvægt mál, IceSave málið, nái ákveðnum lyktum.  Þetta er einnig barnaskapur og ekki vænleg leið til að öðlast virðingu fólks.  Örvænting og þvinganir eru ekki það sem við viljum sjá hjá þingmönnum þjóðarinnar.

Fari svo að Alþingi felli tillögu ríkisstjórnarinnar nú, mun það kosta þjóðina hundruði milljóna og það eru hundruðir milljóna sem við eigum ekki til.  Heil þjóðaratkvæðagreiðsla og öll sú orka, tími og fjármunir sem fara í auglýsingar og fleira fyrir slíkt er gríðarlega kostnaðarsamt - og fyrir hvað? Slík kosning yrði út í bláinn því að við getum ekki vitað hvað ESB mun bjóða okkur varðandi landbúnaðinn og sjávarútveginn nema að við setjumst að samningarborðinu með sambandinu. 

Í stað þess að sýna dálítið traust og leyfa aðildarviðræðum að hefjast karpar digurmannlegt fólk á Alþingi - stofnunni sem við ættum að vera stoltust af, en nú vill maður helst bera hauspoka af skömm yfir þessari þvælu.  Bjarni Benediktsson, formaður xD gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir að vera "flækta í neti" þess að greiða atkvæði með tillögu stjórnarinnar þó að hún vildi ekki ganga í ESB.  Ég aftur hrósa henni fyrir að sýna stjórninni það traust að fara með þetta mál og kanna málið til hlýtar með aðildarviðræðum.  Þannig á fólk að starfa saman.  Rétt eins og hjónaband, þá getur farsælt samstarf og uppbyggileg vinna, ekki byggt á öðru en á ákveðnu lágmarks trausti.  Ef við treystum ekki hvort öðru, hvernig ætlum við að byggja upp traust alþjóðasamfélagsins á okkur?  Fjárfestingarbrjálæðið rúði okkur trausti og nú þurfum við að starfa saman af skynsemi og heiðarleika. 

Að loknum samningarviðræðum við ESB er það þjóðin sem ákveður.


mbl.is „Bjart yfir þessum degi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Svanur nú verður þú að taka hauspokann niður, það eru margir sem styðja þessa ríkisstjórn sem vildu bera slíkan í dag.

Þegar þú vilt gera málið einfalt verður þú að fara rétt með. Tillaga ríkisstjórnarinnar snýst ekki um það að fara í aðildarviðræður, heldur að sækja um aðild. Það er grundvallaratriði.

Þegar þú gagnrýnir stjórnarandstöðuna sem örugglega má gera, ættir þú að líta í garðinn þinn og spyrja hvað hefur þessi ríkisstjórn gert frá því að hún tók við. Jón Baldvin svaraði því ágætlega í morgunþætti Bylgjunnar á sunnudaginn. Af stóru málunum hefur ekkert verið afgreitt.

Sigurður Þorsteinsson, 16.7.2009 kl. 13:33

2 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Sorgardagur á Íslandi í dag 2 flokkar föðurlandssvikara náðu frumvarpi sínu í gegn um framsal á fullveldi Íslands til Brussel í dag :( er ekki hægt að dæma þetta fólk fyrir landráð og föðurlandssvik og taka af þeim Íslenskan ríkisborgararétt og síðan vísa þeim úr landi. Í Noregi í seinni heimstyrjöldinni vara svona fólk sem sveik þjóð sína kallað Kvislingar og það var skotið ef ég man rétt allavega eitthvað af því.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 16.7.2009 kl. 20:59

3 identicon

Hvílíkir vitleysingjar þarna suður frá í Evrópu að setja umsóknina á undan viðræðunum í ferlinu.

Þeir skilja greinilega ekkert hvernig ferlið gengur fyrir sig.

Samfylkingin þarf að standa fyrir fyrirlestraferð til að upplýsa. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 23:35

4 Smámynd: Sigurjón

Þetta er í raun ágætt.  Nú fer samningaferlið af stað og að lokum fær þjóðin að sjá þvílík smán sá samningur verður, enda ESB marg oft búið að gefa það út að við fáum engar undanþágur eða fyrirgreiðslur að neinu tagi.  Þá mun þjóðin fella samninginn og þá getum við farið að undirbúa jarðarför Samfylkingarinnar, því þetta er hennar eina mál.  Alla vega þegja þeir um Evrópumálin að sinni...

Sigurjón, 17.7.2009 kl. 02:50

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Sigurður Þorsteinsson

Ég er ekki með "hauspoka" vegna ríkisstjórnarinnar, heldur vegna þvælunnar sem ýmsir úr stjórnarandstöðunni láta út úr sér. Þetta fór nú allt vel þó fyrst að tillaga ríkisstjórnarinnar um að fara í aðildarviðræður hélt velli.

Þegar þú þykist vera að leiðrétta mig með því að segja að tillaga ríkisstjórnarinnar snúist um að "sækja um aðild" en ekki að "fara í aðildarviðræður" sýnist mér þú vera að segja að xS ætli sér ekki að ná góðum samningi, heldur einungis ganga að skilmálum ESB. Ég skil ekki þennan ótta þinn því bæði xS og xVg eiga allt sitt undir að vel semjist og reyndar er það svo að Steingrímur J. Sigfússon hefur lýst því yfir að viðræðum verði ekki haldið áfram ef óásættanleg samningsatriði komi upp snemma í ferlinu. Þú getur kosið að sýna nýkjörinni ríkisstjórn vantraust, en endanlegur dómur yfir niðurstöðu viðræðnanna við ESB verður í höndum þjóðarinnar.

Sæll Marteinn Unnar

Ég ráðlegg fólki að bíða rólegt og sjá hvað kemur út úr viðræðunum áður en það æpir sig hást yfir þessu. Það að líkja aðildarviðræðum við landráð er hrein vitleysa. Það er bara þannig að ef að þjóðir ætla sér að skapa flæði milli sín og vinna náið saman, verður að samræma ákveðnar reglur og gefa til heildarinnar svo maður fái notið einhvers frá heildinni. Við getum ekki, þó lítil séum, ætlast til þess að fá allt á silfurfati án þess að gefa eitthvað til baka, hvort sem það er í formi niðurfellingu verndartolla eða einhverrar samnýtingar á hluta fiskimiðanna. Það eru meiri líkur en minni að við fáum að njóta mun stærri hluta í staðinn af ESB. Komi annað í ljós, þ.e. að ESB aðild hafi ekkert nógu bitastætt í för með sér (umfram EES aðild) sem réttlæti það sem við þyrftum e.t.v. að láta af hendi, þá er ekkert annað að gera en að hafna samningnum. Það mun hver skoða fyrir sig, óháð hvaða flokki hann eða hún hefur kosið.

Sæll Sigurjón

ESB aðild er langt í frá að vera eina mál Samfylkingarinnar. Flokkurinn varð stærsti flokkur landsins vegna glundroða xD í efnahagsmálum og þess mannauðs sem xS hefur byggt upp á undanförnum kjörtímabilum. Flokkurinn er innbyrðis sterkur og því hefur hann náð árangri, ásamt því að hafa sterka málefnastöðu á mjög breiðu sviði. Það byggir enginn upp stóran stjórnmálaflokk á einu máli. Hvað undanþágur varðar þá verðum við bara að sjá hvað kemur út úr viðræðum við ESB og meta svo kosti og galla. Að sitja uppi með örgjaldmiðil er mikill ókostur og því væri heimska að kanna ekki hver "kostnaðurinn" við ESB aðild væri. Það er óþarfi að pissa í sig af hræðslu yfir viðræðum við ESB eins og ýmsir eru að gera þessa dagana.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.7.2009 kl. 18:19

6 Smámynd: Sigurjón

Sæll Svanur.

Nei, Samfylkingin er ekki innbyrðis sterkur Svanur minn og þú veizt það.  Ekki frekar en að Sjálfstæðisflokkurinn er sterkur innbyrðis.  Í báðum flokkum er hver höndin upp á móti annarri.

Ef einhver flokkur er sterkur innbyrðis, er það Vinstri-grænir.  Þeir eru þó alla vega lang flestir sammála því að vera á móti öllum sköpuðum hlutum...

Evrópumálin eru það eina sem sameinar þá sem kjósa Samfylkinguna.  Let's face it...

Sigurjón, 21.7.2009 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband