"Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni..."?
23.8.2009 | 21:53
Í vor sýndi RÚV fréttaskýringaþátt í umsjón Boga Ágústssonar sem fjallaði um ýmis vandamál sem steðja að ensku Biskupakirkjunni, en hún varð til við klofning Hinriks 8. frá Kaþólsku kirkjunni og uppkomu mótmælendahreyfingarinnar á 16. öld. Í Englandi varð ekki til evangelísk-lútersk grein líkt og á Norðurlöndunum heldur sérstök útgáfa mótmælendatrúar í formi Biskupakirkjunnar. Enska Biskupakirkjan á sér ekki neinn yfirbiskup og ákvarðar sín mál með þingum biskupa frá breska Samveldinu og greinum Biskupakirkjunnar í Bandaríkjunum og Afríku.
Biskupakirkjan hefur ekki fylgt eins vel þeim endurbótum sem mótmælendakirkjur á Norðurlöndum og Norðvestur-Evrópu, hafa komið á að nokkru leyti, t.d. varðandi vígslu kvenna í biskupsembætti og aukna sátt við samkynhneigð. Í Bandaríkjunum gerðist það í frjálslyndu norðaustur fylki að samkynhneigður prestur var vígður til biskupdóms þar af Biskupakirkjunni amerísku. Þetta olli miklum skjálfta og deilum innan alþjóðlega hlutans og var þessu ákaft mótmælt á þingi þeirra í Bretlandi. Sumir biskuparnir ákváðu að sniðganga þingið í mótmælaskyni. Mikilar deilur urðu innan Biskupakirkjunnar og voru skiptar skoðanir. Ýmsir kirkjumeðlimir gerður aðkast að bandaríska samkynhneigða biskupnum á fundi og þeir tjáðu óánægju sína með hann í viðtölum. Hvort að þessir meðlimir eru hinir dæmigerðu veit ég ekki, en ljóst er að þeir eiga stuðning hjá ýmsum biskupum.
Að mörgu leyti minnti þetta mig á vandræðagang og kirkjuþingsdeilur innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar það þurfti mikil átök til að fá meira bókstafstrúaðan hluta hennar til að slaka á kreddu sinni gagnvart vígslu samkynhneigðra para. Það mál er ekki enn til lykta leitt því útgáfa þjóðkirkjunnar á hjónaböndum samkynhneigðra sem "staðfest samvist" er ekkert annað en mismunun. Báðir stjórnarflokkarnir hafa séð í gegnum þetta og samþykktu á síðustu landsþingum sínum að lögin í landinu skyldu kveða á um eina hjónabandslöggjöf. Eftir að búið er að ganga frá IceSave málinu, verður vonandi hægt að snúa sér að gerð laga um bætt mannréttindi á landinu.
Aftur að Biskupakirkjunni. Hvers vegna sætta margir biskupar hennar og meðlimir sig ekki við samkynhneigðan biskup? Þegar grannt er skoðað, snýst málið um hvað er siðferðislega rétt og rangt í þeirra huga. Þetta er skólabókardæmi um muninn á siðferði byggðu á guðfræði og trú annars vegar og hins vegar mannvirðingu og skynsemi einni saman.
Skoðum þetta nánar:
Kirkjugestur Biskupakirkjunnar í Englandi var spurður álits af fréttamanni RÚV um þessi mál:
Konan, sem augljóslega er kristin lýsti áhyggjum sínum og skoðun: "Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni, hvað stendur þá eftir? Bara skoðanir fólks.. og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð."
Það þarf ekki vitnanna við um að konan, sem endurspeglar áhyggjur biskupanna einnig, er hér að koma að kjarna þess máls og dregur fram tvo mjög mikilvæga guðfræðilega punkta:
- "Bara skoðanir fólks.." Samkvæmt kristinni kenningu eru skoðanir Guðs mikilvægari en skoðanir fólks og því er konan trú sinni trú. Ef þið trúið mér ekki, gluggið þá aðeins í Biblíuna.
- "Og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð." Um þetta standa reyndar talsverðar deilur innan kristinna trúfélaga og utan. Fólk sem tekur alla Biblíuna alvarlega er flest sammála þessari konu, en þeir sem jafnan líta á kristni sem nær eingöngu orð Jesú Krists, eru snöggir að benda á að hann hafi ekki látið nein styggðaryrði falla í garð samkynhneigðra. Reyndar eru engin orð um samkynhneigð eignuð Jesú í Biblíunni, hvorki neikvæð né jávæð, þannig að það er skiljanlegt að fólk sem leitar til Biblíunnar í leit að leiðsögn um afstöðu gagnvart samkynhneigð taki orð Páls postula sem hina gildu kristnu afstöðu. Rómverjabréfið 1:26-28
Þess vegna hefur Guð ofurselt þá [mennina] svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.
Í bréfi Páls postula til Korintumanna segir (6:9-10):
Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífsmenn, né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.
Það fer því ekki milli mála að Páll postuli, sem á mikinn hluta efnis Nýja Testamentsins og einn helsti frumkvöðull kristninnar, telur samkynhneigð svívirðilega girnd, skömm, villu, kynvillu og saurlifnað. Er því nokkuð óeðlilegt að kristið fólk sem vill taka orð Biblíunnar alvarlega og haga sér orðinu samkvæmt, skuli fordæma samkynhneigð? Eins og kristna konan hér að ofan spyr, stendur þá nokkuð annað eftir en "bara skoðanir fólks" ef ekki er farið eftir boðun Guðs samkvæmt Páli postula í Biblíunni?
Dæmið um samkynhneigð er ekki hið eina sem sýnir að boðun Biblíunnar er á skjön við ýmsar þær húmanísku eða heimspekilegu skoðanir sem flest vestræn (sk. þróuðu löndin) þjóðfélög nútímans aðhyllast. T.d. eru kvenréttindi, réttur til fóstureyðinga, réttur til að trúa ekki á Guð, réttur allra til frelsis yfir líkama sínum (afnám þrælahalds), mynd okkar af heiminum (ekki sköpunarverk), traust á læknisfræði (ekki bænir eða kraftaverk), samviskufrelsi (laus við erfðasynd og helvíti), siðfræði (t.d. nytjahyggjan), söfnun fjárs (frjáls markaður) og fleira komin til vegna frjálsrar hugsunar byggða á manngildi (húmanisma) óháð trúarlögmálum.
Það er í raun ógerlegt fyrir siðaða manneskju nútímans að ætla sér að fylgja Biblíunni utan ákveðinna almennra grundvallaratriða í henni sem hvort eð eru sammannleg, eins og:
- Góðvilji og hjálpsemi - kærleikur. Gullna reglan. Setja sig í spor annarra.
- Sigra illt með góðu (gengur ekki allt upp þó). Sbr "mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði" (Orðskv. 15:1).
- Gefa glaður (sælla er að gefa en þiggja)
- Hógværð - enga fégirni, frekar andlega fjársjóði.
- Monta sig ekki af góðverkum (ekki beint stefnan í dag).
- Gestrisni
- Virðing fyrir verkamönnum
- Elska náungann - huga að hag annarra
- Gefast ekki upp - barátta (Leitið og þér munið finna).
- Nota tímann viturlega
- Minnast þjáninga bandingja - minnsti bróðurinn
- Virða stjórnvöld og að þau hafi sérstakt vald (guðsríki nær því ekki yfir öll svið, sbr. "Gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er")
- Þreytast ekki að gera (rétt) gott, þ.e. þolgæði.
- Æðruleysi - hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. Stóismi Forn-Grikkja og Rómverja 1-2. aldar var háþróuð heimspeki æðruleysis og því var æðruleysið ekkert nýtt.
- Lof barna eftirsóknarvert. Barngæska.
- Miskunnsemi - æri misjöfn þó í Biblíunni og talsverð dómharka í sumu.
- Huga að bágstöddum - ein af rósum frumkristninnar í Róm, sem vann henni hve mest fylgi.
- Heill hinum réttlátu - réttlætishungur.
- Vera seinn til reiði, þ.e. taumhald skapsmuna, en ekki tókst mörgum kristnum leiðtogum vel upp í þessu í gegnum aldirnar.
- Jafnræði - "það rignir yfir réttláta sem rangláta" - dæma ekki of hart. Aftur, talsverðir misbrestir hafa orðið á þessu.
- Annar séns gefinn - "sæll er sá er afbrotin eru hulin".
- Friður metinn - "sælir eru friðflytjendur". Aftur - ýmislegt sem boðaði eða réttlætti stríð þó.
- Virða eignarétt - "þú skalt ekki stela".
- Virða líf
- Virða loforð um trúsemi við maka
Þessi listi sýnir e.t.v. best af hverju kristið siðgæði er auðugt af ýmsu góðu og hefur lifað af gegnum aldirnar, en þegar jákvæða leiðbeiningu ritningarinnar skortir eða að orð hennar eru hreinlega andstæð nútíma hugmyndum okkar um mannvirðingu, jafnrétti, jafnræði, einstaklingsfrelsi og siðferðilegar ákvarðanir í flóknum siðferðilegum álitamálum (fóstureyðingar, líknardráp, ákvarðanir í réttarkerfinu, refsingar og margt fleira), vandast málið verulega fyrir kristnar manneskjur.
Í stórum könnunum (Gallup og Félagsvísindastofnun HÍ) hérlendis hefur komið í ljós að aðeins 8-10% Íslendinga trúa á hinn guðfræðilega kjarna kristninnar (allt "guðstalið" eins og það er gjarnan kallað), eins og trú á upprisun, meyfæðinguna eða líf í himnaríki eftir dauðann. Þó að um 50% segjast vera kristnir og um 90% séu skráðir í kristin trúfélög, virðast samkvæmt þessu aðeins um 8-10% sem nota bókstaf Biblíunnar til að leiðbeina sér. Með öðrum orðum; 9 af hverju 10 í kristnum söfnuðum (en 1/5 þeirra sem skilgreina sig kristna), eru líklegir til að velja sér hin almennu siðaboð kristninnar (í listanum hér að ofan) samkvæmt því sem á hljómgrunn í almennri skynsemi þeirra og passar við prófun við raunveruleikann, frekar en að fylgja boðun Biblíunnar í einu og öllu sem þar er skrifað. Flestir í kristnum söfnuðum eru því það sem má segja "menningarlega" kristnir og fylgja í raun bara tíðaranda þjóðfélagsins í heild og eigin dómgreind hvað siðferðilega leiðbeiningu varðar. Þetta er að mestu húmanískt viðhorf, þ.e. að skynsemi og raunsæi sé það sem mestu skipti. Merkilegt er að þetta passar einnig við hina svokölluðu Fjallræðu Jesú þar sem hann átti að hafa sagt að kærleikurinn sé trú og von fremri. Hin húmaníska útgáfa er sú að velviljinn sé lykilatriði í siðferðinu og saman með frelsi, mannvirðingu og samábyrgð.
Það er því margt líkt með kristni og húmanisma, en guðstrúin hefur "yfirbyggingu" sem manngildishyggjan sér ekki þörf fyrir eða tilgang með. Í kristni er siðferðið útskýrt með því að það komi frá yfirvaldinu "Drottni almáttugum, skapara himins og jarðar" og þarfnast það því ekki eiginlegs rökstuðnings. Sem betur fer eru mörg hin almennu siðaboð kristninnar í ágætu samræmi við skynsemishyggju húmanismans og almenna raunhyggju í þjóðfélaginu, en þegar siðaboð kristninnar gera það ekki (t.d. varðandi samkynhneigð), vandast málið, vegna upprunans. Eins og kirkjugesturinn hér að ofan segir, þá standa bara eftir "skoðanir fólksins". Það er ekkert grín fyrir hinn sanntrúaða og leggja nákvæm orð Drottins til hliðar og fylgja túlkun hinna frjálslyndu (menningarlega kristnu) um að Jesú hefði viljað slaka á málum í nafni kærleikans. Slíkt myndar stóra holu óöryggis og ótta um að kirkjan sé að spillast. Hinn sanntrúaði (trúir samkvæmt bókstafnum) á ekki þann valkost að hugsa siðferðisleg álitamál út frá eigin skynsemi því siðfræði kristninnar byggir ekki á rökleiðslu eða stefnumiðaðri skoðun (T.d. nytjahyggjan setur stefnuna á hámörkun hamingjunnar) málanna, heldur eingöngu því að fylgja orði Guðs eins og það er ritað í hinni heilögu ritningu.
Hinn sannkristni einstaklingur hefur því læst sig í endalausa klemmu milli orða Guðs og tíðaranda samtímans sem kemst að nýrri niðurstöðu vegna sífelldrar endurskoðunar mála og þróun rökræðunnar (hin vísindalega og skynsama nálgun). Þannig hefur kristnin orðið að gefa bókstafinn (sértækar leiðbeiningar ritninganna) smám saman upp á bátinn vegna þrýstings frá húmanískri þróun, sérstaklega í vestrænum þjóðfélögum. Þetta gerist með eftirfarandi móti:
- Kirkjan segir að Biblían hafi verið rangtúlkuð. T.d. Páll postuli tali ekki fyrir munn kristinna í máli samkynhneigðra og almennur kærleiksboðskapur Jesú sé það sem gildi.
- Kirkjan segir að ákveðinn hluti Biblíunnar sé í rauninni ljóð eða líkingarmál, sbr. sköpunarsagan, sem af "sjálfsögðu" útskýri ekki þróun lífvera eða tilurð mannsins. Samt hætta þeir ekki að þylja upp orð eins og "sköpunarverkið" og "skapari himins og jarðar".
- Kirkjan segir að um þýðingarvillur sé að ræða, eða hreinlega breytir Biblíunni undir yfirskyni "nýrrar þýðingar" til að gera hana boðlegri samtímanum. T.d. breyting á persónufornöfnum í nýjustu "þýðingunni" til þess að höfða til beggja kynja, í stað einungis karlmanna.
- Kirkjan segir að Gamla Testamentið (sem er fullt af hinum reiða, hefnigjarna Guði og ýmsu ofbeldi) sé hluti af gamalli arfleifð en ekki í raun (hin siðbætta) kristni samkvæmt Frelsaranum.
- Kirkjan gefur eftir án sérstakra útskýringa. Stundum verður biskup að segja af sér eða annar trúarleiðtogi nær yfirhöndinni, til þess að breytingin nái í gegn.
Það er ljóst að boðorðasiðfræði (guðfræði: The Divine Command Theory) trúarbragða gengur aldrei upp til lengdar. Það er vissulega til mikillar einföldunar fyrir marga að eitthvað sé bara "bannað af Guði" og þannig þurfi ekki að blanda neinum tilfinningum í málið eða efast um hlutlægni þeirra sem taka ákvarðnir skv. boðorðum Guðs. Ef allir fara eftir lögmáli Guðs virðist ekki vera gert upp á milli fólks. Þá helgast meðalið af því að uppskera verðlaun á himnum á efsta degi. Hinn trúaði þarf ekki að leita annars tilgangs fyrir því að gera rétt.
Sé þessi guðfræðilega forsenda siðferðis samþykkt lendum hins vegar við í alvarlegri þversögn sem t.d. Forn-Grikkinn Sókrates koma auga á löngu áður en kristnin fæddist. (Boðorðanotkun trúarbragða var ekki ný á nálinni í kristninni) Lítum á valkosti hins trúaða til útskýringar á siðferði samkvæmt boðskap Biblíunnar:
- Við eigum að vera sannsögul því að guð fyrirskipar það. Sannsögli er því mögulega hvorki góð né slæm, heldur einungis rétt af því að guð setti fram boðorð um hana. Guð getur búið til boðorð eftir eigin vilja og gæti því skipað fólki að ljúga. Lygin yrði þannig að dygð ef hún væri skipuð af Guði. Geðþótti Guðs ræður (eins og afstaða hans til samkynhneigðar) og það á að vera gott það sem hann boðar hvort sem að það er sannsögli eða lygar. Með þessu fellur hugmyndin um óbrigðula "gæsku Guðs" því það gengur ekki upp að Guð sé jafn lofsverður fyrir að fyrirskipa sannsögli eða lygar.
- Guð segir okkur að segir okkur að segja satt af því að það er rétt. Guð sem er alvitur veit að sannsögli er betri en fals og því eru ákvarðanir hans ekki háðar geðþótta. Um hann má því segja að hann sé góður. Þetta virðist hafa leyst allan vanda guðfræðinnar en í raun hafnar þetta hinum guðfræðilega skilningi á réttu og röngu. Með þessu erum við að segja að það sé til mælikvarði á það hvað sé rétt og rangt óháð vilja Guðs. Það að guð viti eða sjái að sannsögli er réttari en fals, er allt annað en að segja að hann geri hana rétta. Þannig að ef að við viljum vita af hverju við eigum að vera sannsögul, er ekki mikið vit í svarinu "af því að Guð skipar svo fyrir". Það má þá spyrja áfram; "af hverju skipar Guð svo fyrir".
Frá trúarlegu sjónarmiði er vart hægt að sætta sig við að boðorð Guðs byggist á geðþótta og að gæska Guðs sé ekki til staðar (1) og því verður að fallast á að til sé mælikvarði á rétt og rangt, sem sé óháður vilja Guðs (2). *
Þessi rökleiðsla sýnir að siðferði byggt á boðorðasiðfræði (boðorðakenning) lendir í andstöðu við hugmyndina um gæsku Guðs (og dómgreind) og því er það guðlaus mælikvarði sem í raun er viðmiðið. Þetta hafa frægir guðfræðingar (d.d. Tómas frá Aquino) viðurkennt, en ýmsir aðrir maldað í móinn og sagt að samt komi Guð einhvern veginn inní það hvað sé rétt og rangt. Málið fer þá bara í endalausa hringi. Rétt eins og það er ekki hægt að sýna fram með neinum rökum að Guð sé til, þá er ekki hægt að sýna fram á það með rökum að siðferði geti byggt á skipunum algóðs Guðs.
Til þess að lifa af og falla ekki í djúpa ónáð hjá íbúum vestrænna þjóða þarf kirkjan að fallast á hinn óguðlega mælikvarða góðs og ills, rétts og rangs (veraldlegur mælikvarði skynsemishyggju og manngildis) og nota þær afsakanir (sjá að ofan) sem hún hefur svo oft notað í "ósigrum" sínum frá því að Upplýsingin með húmanismanum tók að breyta heiminum frá miðri 16. öld. Til þess að sundrast ekki og missa ekki alla fylgjendur sína þarf kirkjan að fylgja hinum móralska tíðaranda. Hún hefur sjaldnast sjálf átt frumkvæði að breytingum því að lögmál Guðs Biblíunnar um að hún sé heilög festir kirkjuna í kreddufestu og íhaldssemi. Bókstafurinn tapar því á endanum, ellegar tapar kirkjan fólkinu. Þesskonar eftirgjöf verður því í raun "sigur" kirkjunnar því að hún verður húmanískari og meira í sátt við hinn almenna meðlim í kjölfarið.
Það er því innbyggð hræsni (eða siðferðileg mótsögn) í kristni og þeim trúarbrögðum sem byggja á boðorðasiðferði. Þegar boðin og bönnin ganga ekki upp, er þeim kastað burt til að halda í vinsældir, lifibrauð og völd yfir hugarfari og siðferði fólks. Sagan er jafnvel fölsuð og framfarirnar þakkaðar eingöngu umbótaeðli kristninnar, þegar í raun varð kristnin að gefa eftir vegna þróunar í húmanísku siðferði. (Sjá má slíka sögufölsun í inngangi Aðalnámsskrár í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði þar sem sagt er að siðferðisgildi þjóðarinnar séu upprunin úr kristni en ekki minnst á t.d. ásatrú eða húmaníska heimspeki. Sjá gagnrýni mína nánar hér) Forsendur siðferðis geta aldrei verið vegna "algóðs Guðs" eins og hér hefur verið rakið. Í hinum endurbætta siðferðiskjarna er síðan áfram haldið að klæða hann guðfræðilegum búningi með skrautlegum seremóníum, fallegum trúarbyggingum, bænum og fögru orðagjálfi um sköpunarverkið og að Guð sé kærleikur sem gæði lífið æðri tilgangi. Áfram er haldið uppi blekkingunni um að allt eigi upphaf í Guði, þrátt fyrir að hafa fallist á annað í raun. Þessum leik er síðan haldið uppi af ríkinu.
Án samfélagsins, þ.e. meðlima sinna væri kristin kirkja lítið annað en úrelt lífsskoðunarkerfi sem hugsanlega hafði ýmsar framfarir að færa fyrstu 1200 útbreiðsluárin sín til þjóðfélaga sem skorti t.d. skipulega hjálp til bágstaddra í menningu sína, en hefur um leið verið helsti dragbítur framfara (einstaka prestar þó góðar undantekningar) og sérstaklega síðustu 800 ár sín eða svo. Þvert ofan í boðskap eigin ritningu hefur hún safnað gríðarlegum auði og situr á öllum sérréttindum sem hún hefur aflað sér eins og ormur á gulli. Eins og listi hins góða boðskaps kristninnar hér að ofan gefur til kynna þá hefur hún stuðlað að ýmsu góðu, en það er kominn tími til að þróa okkur áfram og yfirgefa hina óþörfu og ímynduðu hugmynd um "Guð" þar sem hún hjálpar okkur ekki til að vita muninn á réttu og röngu. Fyrir þjóðfélög að burðast með trúarbrögð er eins og að reyna að aka inní framtíðina með handbremsuna á. Guðshugmyndin er ekki bara óþörf, heldur er hún einnig til travala.
Á endanum eru það "bara skoðanir fólks" sem bera okkur inní framtíðina því það er í raun ekkert "bara". Skoðanir okkar, fólksins, eru ein dýrmætasta eign okkar og við þurfum að halda flækjustiginu sem minnstu og sem flestum upplýstum til að skapa betra líf. Vanmetum ekki hugann og það sem við getum áorkað með velvilja og raunsæi að leiðarljósi!
Góðar stundir og þakkir fyrir að hafa þolinmæði til að lesa þetta langa grein!
* Sjá nánar í bókinni Straumar og stefnur í siðfræði, kafli 4; Eru trúarbrögð forsendur siðferðis, höf. James Rachels (þýð. Jón Á Kalmannsson), Siðfræðistofnun HÍ og Háskólaútgáfan 1997.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Húmanismi, Lífsskoðanir | Breytt s.d. kl. 23:24 | Facebook
Athugasemdir
Frábær grein!
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 02:44
Takk Helgi Hrafn
Sæll Skorrdal. Hafðu ekki áhyggjur af mér. Líklega er það rétt hjá þér varðandi biskupinn en þá þarf húmanískari biskup til að taka við svo að breyting verði og það er e.t.v. ekki sjálfgefið þó að auðvitað verði þrýstingur hins móralska tíðaranda á það. Ég skil annars ekki hvernig samkynhneigt fólk getur verið kristið, með þessa forneskju, Biblíuna sem heilagt trúarrit sitt. Eins og ég bendi á í greininni þá verður sú bók og átrúnaðurinn á Guð alltaf dragbítur framfara. Kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 24.8.2009 kl. 06:08
Þetta tekur svo langan tíma vegna þess að biskupar og kuflar breyta biblíu smátt og smátt til að falla að mannlegu siðgæði... það þarf að þýða biblíu í nokkur skipti svo þeir nái að lauma inn breytingu á orði hins ímyndaða fjöldamorðingja í geimnum AKA Guddi. :)
Annarrs vilja samkynhneigðir örugglega gifta sig í kirkju því þeir voru fræddir á kærleika Gudda og Sússa sem börn.
Allir íslendingar eru fræddir á því hversu rosalega kærleiksríkir þeir eru... kuflar sleppa því algerlega að nefna að þeir voru eins og geðsjúkir fjöldamorðingjar samkvæmt bókinni.
Þið vitið bókin sem er faktískt ekkert nema skurðgoð/idol.. sem er algerlega bannað samkvæmt sömu bók :)
DoctorE (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 08:04
Takk fyrir góða grein. Það er annars merkilegt hvað maður nennir að velta sér upp úr þessu öllu saman og vera sífellt að lesa pistla og greinar um húmanisma og ádeilur á trúarbrögð. Ég er að mestu hættur að sjá neitt nýtt og afstaða mín er skír.
Það er bara svo erfitt að horfa upp á þessa endalausu dellu sem tröllríður öllu í heiminum. Endalaus átök um tóma vitleysu og ímyndaða heimsmynd, og fáránlega frekju þessa heilaþvegna skríls sem telur sig sérstaka fulltrúa einhversskonar almættis. Sérstaklega finnst mér merkilegt að fólk skuli sjá ástæðu til að móðgast fyrir hönd guðs og finnast það þurfa að refsa öðru fólki í hans nafni, því að ef hann er almáttugur eins og haldið er fram þá ætti hann að vera fullfær um að sjá um þessi mál einn og óstuddur.
Theódór Gunnarsson, 24.8.2009 kl. 09:53
Stundum held ég að ég sé bilaður að tala um þessi heimsku mál, ímyndanir og kjaftæði... en ef við tölum ekki um þetta þá vaða þeir trúuðu yfir allt og alla með sitt bronsaldarbull AKA glópabull.
Kannski það sem ég skil verst í þessu sé það að fólk sjái ekki að trúarritin þeirra hljóta að vera mesta guðlast evar... samkvæmt þessum bókum öllum saman þá eru guðir snarruglaðir fávitar... af hverju sér fólk þetta ekki... er fólk svo rosalega blindað af meintum mútum að það sér ekki það augljósa, að guðinn er vitleysingur + að' bókin er það heimskasta af öll heimsku.. æ dónt get it
DoctorE (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 10:40
Væri gaman að vita hvað Karli biskup finnst um hjónabönd; saurlífsmanna (og kvenna), skurðgoðadýrkenda, hórkarla, þjófa, ásælna, drykkjumanna (og kvenna), 'lastmálna' eða ræningja. Ef tveir alkar giftast (karl og kona), jafngildir það þá að henda hjónabandinu á haugana?
Og, ef refsing samkynheigðra er að komast ekki til himnaríkis, hvað eru trúaðir að skipta sér af því hvað þeir (samkynhneigðir) gera í sínu daglega lífi?
Arnar, 24.8.2009 kl. 11:00
Hræsnin kemur svo vel í ljós núna þegar foreldrar hafa ekki efni á að setja börn í skóla... koma fram kuflar geimgaldrakarlastofnunar ríkisins og væla.. ríkið verður að hjálpa.
HALLÓ þessi eina stofnun tekur til sín þúsundir milljóna árlega, kemur svo fram og vælir og hendir súpuskál í hausinn á fólki; Við erum svo næs, guddi elskar ykkur.. munið hvernig Sússi bannaði grjótkast og alles... en svo gleyma þeir algerlega að Guddi hatar peninga, Sússi segir að allir alvöru fylgisveinar(Viljandi ;) ) verði að selja allt sem þeir eiga og gefa fátækum, hafna algerlega veraldlegum auð... Biskup er með milljón á mánuði, margir prestar eru með hundruð þúsunda... búnir að steypa þjóðinni í miklar skuldir vegna bygginga og viðgerða á himnadildóum.
DoctorE (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 12:45
Annað hvort er fólk kristið eða ekki.
Ef fólk er kristið að þá eru alveg skýrar línur.
Sjá blogg:Trúmál
Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:07
Mr. Jón.. já annaðhvort er fólk fórnarlömb kukls og svínarís eða ekki.... ég er að bíða eftir að fólk komi og segist vera Nígerískt.. vegna þess að það féll fyrir tölvupóst frá Nígeríu...
Persónulega myndi ég fela slík mistök... hvað þá að segjast trúa á Zombie Jeebu$... hlægilegt alveg.
Kristni hefur ekki neitt gildi fyrir island... langflestir íslendingar láta ekki sjá sig í kirkju eða öðru trúartengdu rugli... fólk skráist í kirkju vegna hefðar, fólk vill ekki styggja mömmu eða ömmu... en málið er að við verðum að styggja mömmu og ömmu í þessum málaflokk, við skuldum ömmu og mömmu það að við ráðust að því sem þær sjálfar voru blekktar til að taka þátt í.
Hættum í þessu rugli fyrir mömmu og ömmu.... gerum það fyrir alla sem hafa verið blekktir með þessu rugli í gegnum tíðina... fyrir alla þá sem voru rændir jörðum sínum.. rændir réttindum sínum.
Do it now
DoctorE (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:57
"Annað hvort er fólk kristið eða ekki. Ef fólk er kristið að þá eru alveg skýrar línur."
Glæsilegt cop-out. ;)
Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 16:31
Hæ
Já, eins og Arnar bendir á þá ættu drykkjumenn að vera í sama flokki og samkynhneigðir samkvæmt Páli postula. Drykkjumenn eru hins vegar tilvaldir til boðunar á kristni og AA samtökin eiga sinn þátt í því með 12 sporunum.
Sæll Theodór. Já það er mesta furða að maður nenni að skrifa þetta, því það er eins og að berja höfðinu við steininn að tala við hið bókstafstrúaða fólk. Hins vegar er það von mín að greinar sem þessar gefi fólki sem stendur í rökræðunni efni og rök í farteskið. Orð eru til alls fyrst og því má ekki leggja árar í bát.
Sæll Jón "Scout" Þórhallsson. Já, það eru skýrar línur fyrir þá sem ákveða að trúa orðum Biblíunnar í einu og öllu, en þær línur setja þig upp á móti talsvert mörgu sem talið er rétt og gott í dag (en ekki fyrir 1800 árum). Það er dapurt að sjá að þú setur orð Páls postula gegn samkynhneigðum sem kynningartexta við "höfundur" á blogginu þínu. Ótrúlegt að þessi afstaða sé enn til og skýrist einungis út frá viðhaldi kristninnar. Lastu nokkuð annars greinina? Þú kemur ekki með neitt andsvar í raun.
Svanur Sigurbjörnsson, 24.8.2009 kl. 20:13
Takk fyrir góða grein og samantekt - kom mér í rauninni ánægjulega á óvart hversu lítill hluti samþykkir í rauninni yfirnáttúrulega hlutann af kristninni.
Sennilega telja flestir hinna sig trúaða vegna þess að þeir samþykkja siðferðið sem þeir eigna kristninni (eða kristnin eignar sér) - sem er auðvitað hvorki upprunnið þaðan né á kristnin nokkurn einkarétt á því.
Þetta er auðvitað fólkið sem þarf að ná til, ekki þeir sem trúa í blindni, það er auðvitað tilgangslaust að rökræða við þá.
En... punkturinn er að ég er í bjartsýniskasti eftir að hafa lesið þetta - að það þurfi kannski ekki svo mikið til að stór hluti viðurkenni að þeir eigi ekki samleið með kirkjunni.
Skondin athugasemd frá Jóni, ætli enginn hafi bent honum á mótsagnirnar í biblíunni?
Valgarður Guðjónsson, 24.8.2009 kl. 23:50
Sæll Valgarður
Mikið er ég ánægður með að skrif mín gefa einhverjum ástæður til að vera í bjartsýniskasti. :-) Maður hefði haldið að það væri nú auðvelt að fá fólk til að þróa aðra lífsskoðunarmenningu hérlendis en þá trúarlegu, en gamlar venjur sitja fast og er viðhaldið með mikilli boðunarmaskínu sem byrjar að herja á leikskólabörnin og hefur fagið Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði algerlega í sínum höndum. Þá er sjálfkrafa skráning barna í trúfélag móður og mikill húsakostur í boði ríkisins ákaflega hjálplegt við að halda þessu í sama farinu. Þetta mjakast þó í rétta átt þar sem þjóðkirkjan er nú með undir 80% fólks skráð í sínar raðir. Ef það er hægt að byggja upp veraldlegu valkostina og auka skilnings fólki á eðli trúar, þá ættu hjólin að fara að snúast :-) Sammála þér með nálgunina - það er fyrst og fremst hið menningarlega kristna fólk sem hægt er að sannfæra um hluti byggða á rökum. Bestu kveðjur. Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 25.8.2009 kl. 16:14
Sæll Svanur og Valgarður.
Ég er líka í bjartsýniskasti, enda ekki hlekkjaður af trú á yfirnáttúrulegar verur eða vilja þeirra. Þessi pistill er holl lesning, ekki sízt til þeirra sem telja sig kristna og vilja ekkert hafa með yfirnáttúrulega hluta kristninnar. Það þarf ekki mikla skynsemi til að vera sammála flestu sem Jesú sagði, þ.e. um kærleika, hjálpsemi og fleira sem er einfaldlega mannlegt, en ekki guðlegt.
Ég gæti jafnvel talið mig kristinn að því leyti að ég er sammála flestu sem Jesú sagði, enda tel ég hann mesta húmanista sögunnar. Kraftaverk hans voru ein bezt útfærðu töfrabrögð sem um getur og því tel ég hann einn mesta galdrameistara líka.
Hafið þökk fyrir þetta strákar báðir og hafið einnig góða helgi!
Sigurjón, 28.8.2009 kl. 03:18
Það kemur mér á óvart hve barnaleg umræðan er hérna. Það er skotið í allar áttir; Alhæft um allskyns túlkanir mismunandi kristinna kirkna, "Kirkjan segir (?), Húmanistar (?). Það ægir öllu saman hjá þér. Eru ekki alkar í AA hættir að drekka? Hafa snúið frá villu síns vegar...
Þú talar um boðunarsiðferði. Hvernig líður lygara? Hvernig líður útrásarvíkingi í dag (Þú skalt ekki stela). Boðorðin eru heilræði um það hvernig þú átt að lifa ef þú vilt lifa án skammar.Þið hafið snúið öllu á hvolf. Biblían er ekki að boða neitt (fyrirskipa) Hún er kennslubók skrifuð á löngum tíma á mismunandi tímum. Hún kennir okkur (mér) hvernig ég með ástundun ákveðinna lögmála get öðlast það að vera "sannur". Þú þarft að reyna það til að skilja. Til að einfalda hlutina þá er spurningin kannski að það haldist í hendur hugur og hönd, vitund og verund. Þetta lærir þú ekki hjá Brian Tracy eða á Dale Carnegie.
This above all: to thine own self be true,
And it must follow, as the night the day,
Thou canst not then be false to any man.. (Shakespeare) T Þetta segir nokkuð mikið um boðskapinn.
Ps Ég ætlaði mér aldrei hérna inn og kem ekki aftur. Mér fannst þú virkilega dónalegur við, mig minnir að nafnið hafi verið zoe eitthvað. Það var ekki kristilegu umburðarlyndi fyrir að fara hjá þér!
Villi (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 10:08
heill og sæll Sigurjón
Gott að þú ert líka í bjartsýniskasti ha ha ha. Það er nauðsynlegt að gleyma því ekki hvað er líkt með kristni og húmanisma, því við þurfum öll að lifa saman í sátt og samlyndi. Auðvitað verða alltaf einhverjir núningar milli lífsskoðunarfélaga sem eru í virkri umræðu á opinberum vettvangi, en svo lengi sem menn halda sig við rökræðuna og forðast skítkastið ætti allt að ganga vel.
Ég held ég geti ekki verið sammála þér í því að Jesú hafi verið "mesti húmanisti sögunnar" því guðfræðin skemmir þar of mikið fyrir. Hins vegar er margt sem gerir hann að merkum trúarlegum húmanista og hans boðskapur bjargar algerlega "Javhe" (Guði) gamla testamentisins, sem var hefnigjarn og morðóður harðstjóri. Kristnin væri bara guðfræðilegt bull ef að ekki væri boðskapur mannvirðingar og tillitssemi þar í einnig.
Sæll Villi
Er það barnaskapur í þínum huga að skoða hlutina út frá ýmsum aðstæðum og sjónarhornum? Þú segir "Alhæft um allskyns túlkanir mismunandi kristinna kirkna" - Hvar eru alhæfingarnar Villi? Það er ekki hægt að taka þig alvarlega ef að þú kemur með einhverja dóma um skrifin hér en nefnir hvorki dæmi, né kemur með rök fyrir máli þínu.
Ég sé ekki að þú skiljir hvað er átt við "boðunarsiðferði". Það er átt við að það sé skrifað boðorð (eða "lögmál" eins og þú kallar það einnig) sem eigi að fara eftir af því að Guð segi að það sé gott. Það er ekki aðal atriðið hér hvort að þetta sé skipun eða val (þó að það geti skipt máli líka), heldur hverjar eru forsendur siðalögmálsins. Um það fjallar rökleiðslan og ég ætla ekki að endurtaka hana hér aftur. Það er því engu "snúið á hvolf".
Svo segir þú: "Hún kennir okkur (mér) hvernig ég með ástundun ákveðinna lögmála get öðlast það að vera "sannur". Þú þarft að reyna það til að skilja." Þetta segir mér ekkert um forsendur þeirra lögmála sem sett eru fram. Þú getur talið þig verða "sannan" við að fylgja þeim, en það hlýtur að ráðast af gæðum þeirra hvort að þessi einkunn "sannur" hafi eitthvað gildi. T.d. finnst mér fólk sem fer eftir fyrsta boðorði kristninnar ekkert "sannara" en annað fólk eða ekkert "sannara" við að hefja trú á slíkt boðorð. Það að ég þurfi "að reyna það til að skilja" segir mér heldur ekki neitt og hljómar ákaflega undarlega í þessu samhengi.
"To thine own self be true" - Ég held að flestir geti fallist á þetta svo framarlega sem "own self" er eitthvað af viti. Það að vera sjálfum sér samkvæmur er sammannlegt gildi í fjölmörgum menningarheimum.
Varðandi PS athugasemdina þína. Það hljómar eins og þú hafðir illu heilli komið hingað á bloggið mitt og að þetta hafi verið skelfileg reynsla fyrir þig að lesa það sem fyrir augu þín bar. Já, eða svona "barnalegt" eins og þú orðaðir það. Því miður er ég og hinir sem hér hafa skrifað ekki á hærra plani fyrir þig. Gangi þér vel að finna eitthvað fullorðins. Ef að þú kemur fram með gagnrýni þar sem fólk skiptist á skoðunum þá er nú frekar slappt að skjóta sig í fótinn fyrirfram með því að segjast ekki koma aftur.
Æ, var ég "virkilega dónalegur" við zoa? Geturðu útskýrt á hvern hátt sá dónaskapur var? Hvers vegna ætti ég að haga mér eftir einhverju "kristilegu"? Ég er ekki kristinn þó að ég reyni að vera umburðarlyndur. Ég hef hins vegar takmarkaða þolinmæði gagnvart fólki sem kynnir sig ekki (eins og t.d. þú sem skrifar undir sem "Villi" sem segir mér ekkert hver þú ert), kemur með furðulegar spurningar (eins og zoa sem spurði hvort að það skipti máli í væntanlegu svari mínu hvort að hún væri kona) þar sem búist er við einhverju svari til að setja út á, og fólki sem kemur með alls kyns dóma um málefni eða persónur án þess að færa fram nokkur rök. Þá er einnig leiðinlegt þegar fólk talar um fólk hér en ekki við fólk sem hefur tjáð sig.
Það er rökræða hér í gangi og hún gengur út á það að fólk komi fram með eitthvað sem hægt er að skilja og hefur erindi í þá umræðu sem boðið var uppá (haldi sig við efnið nokkurn veginn). Sumir koma með einlægar spurnngar og það er meira en velkomið, en sumir koma með spurningar sem eru í raun einhvers konar staðhæfingar eða dylgjur um tilgang þess sem ég er að skrifa eða um mína persónu. (T.d. spurning eins manns um það hvort að ég væri lýtalæknir - var að ýja að því að ég óttaðist samkeppni við Jónínu Ben) Því miður hef ég ekki alltaf skapsmuni til að sýna slíku einhverja sérstaka tillitssemi og hef því engin sérstök blíðmælgi við þegar ég svara slíku. Ég leyfi þó nánast undantekningalaust öllum athugasemdum að standa því að lesendur sjálfir geta dæmt um það hversu viðeigandi þau eru.
Vertu sæll Villi - væntanlega í síðasta sinn ef að þér snýst ekki hugur.
Svanur Sigurbjörnsson, 28.8.2009 kl. 13:40
Svona til að gefa lesendum tækifæri á því að dæma um það sjálft hvort að ég hafi verið "virkilega dónalegur" við zoa (sem kynnti sig aldrei með nafni) eins og Villi hér að ofan segir mig hafa verið, set ég hér öll samskipti okkar zoa niður:
Færsla nr. 60 við blogg mitt "Hvers vegna gagnrýna kukl og hindurvitni?"
zoa spyr:
Hvað myndirðu segja ef ég héldi því fram að ibufen virki alls ekki á túrverki, en að naproxen virki undantekningarlaust á slíka verki?
Myndirðu trúa mér?
PS Ég er kvenkyns.
zoa (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 15:29
Sæl Zoa
Ég skil ekki tilgang spurningar þinnar um Ibufen og Naproxen. Staðhæfingin sem þú spyrð um er þess eðlis að það þarf að spyrja nánar út í hvað stendur á bak við hana, áður en maður gefur svar. Ef staðhæfingin er nákvæmt orðuð (ekki rangt sett fram miðað við það sem þú í raun meinar) og engar aðrar upplýsingar fylgja, þá myndi ég ekki trúa henni (þér). Ibufen og Naproxen hafa líka verkun en Naproxen er sterkara per mg efnis. Staðhæfingin gæti því byggt á misskilningi á notkunarmöguleikum lyfjanna.
"PS Ég er kvenkyns" - já, þú segir nokkuð. Vinsamlegast útskýrðu hvert þú ert að fara með þessu öllu saman.
Kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 18.8.2009 kl. 02:37
Svona virka nefnilega læknavísindin.
Rannsóknir sýna e.t.v. að þessi lyf hafi líka verkun, en skv. minni reynslu þá slær Ibufen ekkert á mína túrverki, jafnvel þótt ég taki 1000 mg, en naproxen lætur verkina hverfa á innan við hálftíma, þótt ekki sé nema 250 mg. Engin önnur verkjalyf, sem ég hef prófað og verið ráðlagt, virka á túrverkina. Bara naproxenið.
Ég er að tala um mjög mikla verki, með því mesta sem gerist, og ég er mjög sársaukaþolin.
Það var heimilislæknir sem benti mér á að prófa þetta lyf, sem hann sagði annars vera gigtarlyf.
Það var ekki fyrr en ansi mörgum árum seinna sem farið var að selja þetta lyfseðilslaust sem túrverkjalyf.
Það sem ég er m.a. að benda á, er að læknavísindin eru talsvert svona happa- og glappavísindi.
Einnig, að það er reynsla hvers einstaklings fyrir sig, sem skiptir máli, en ekki hvernig stærsti hluti einhvers tilraunahóps bregst við gagnvart virkni einhverra lyfja.
Að þú virðist ekki fatta það, að sú staðreynd að ég er kvenkyns er höfuðatriði, er nokkuð skondið, og sýnir einmitt á hvaða villigötum maður getur lent ef maður kýs að trúa blint á rannsóknarniðurstöður, í stað þess að trúa reynslu manna af eigin upplifun:
Það er mín eigin reynsla af því að fara á túr, í hverjum einasta mánuði í tugi ára, sem gefur mér þessa algerlega óvéfengjanlegu niðurstöðu á virkni þessara lyfja.
Engar sterkar rannsóknarniðurstöður, með eða á móti, breyta nokkru þar um.
Hvað siðferðiskennd lækna viðkemur, þá getur - í Evrópu m.a.s. - reynst næsta ómögulegt að láta gera á sér lífsnauðsynlegar aðgerðir ef maður býður ekki mútur.
Það finnst mér ekki par flott.
Kveðja,
zoa (IP-tala skráð) 18.8.2009 kl. 19:40
Ég svaraði þessu ekki.
Síðan í 9. færslu við blogg mitt "Hvað er Kukl?" skrifar zoa:
Títtnefnd ´viðurkennd þekking´ hefur flaskað nægilega oft til að ekki er hægt að nota hana sem einhvern gæðastimpil.
Eins og þú bendir sjálfur á, er fjöldi áhangenda ekki endilega staðfesting á sannleiksgildi.
Þegar fólk lendir ítrekað í því að hin ´viðurkenndu vísindi´ virka ekki - þá neyðist það til að setja stórt spurningarmerki við gildi þessara ´viðurkenndu vísinda´(ó, hve næs ef þau hefðu virkað!), og prófa eitthvað annað.
Þetta bendir ekki til heimsku, heldur þvert á móti skarprar gagnrýninnar hugsunar.
zoa (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 15:54
og í 17. færslu:
Hvernig geta læknar komist að mismunandi niðurstöðum, ef það er til einhver ´staðall´ (... sem menn eiga að treysta ... okkur öllum til heilla LOL)?
Finnst mönnum þetta meika sens?
(DoctorE: Ertu svo forlagatrúar?! ;) )
zoa (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 22:16
Svar mitt í færslu 19:
Rannsakendur úr röðum lækna eða annarra faga geta komist að mismunandi niðurstöðum af mjög mörgum ástæðum og þær þekkja allir sem hafa lært eitthvað um rannsóknir. Ég sé ekki að þú sért að spyrja í einhverri einlægni hér zoa með þitt "LOL" og "meika sens?" rétt eins og þú vitir svarið við spurningunni sem þú lagðir fram. Ef þú hefur ekkert betra til málanna að leggja hér eða hefur engar einlægar spurningar, þá vil ég biðja þig um að setja ekki inn fleiri færslur hér.
Svanur Sigurbjörnsson, 20.8.2009 kl. 23:32
------
Var ég dónalegur við zoa? Var zoa dónaleg við mig, t.d. með sýnu LOL (laughing out lout) þegar hún spyr mig? Lesendur geta ákveðið það sé fyrir því áhugi.
Kveðja - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 28.8.2009 kl. 14:08
Sæll aftur Svanur.
Fyrir forvitnissakir: Hver telur þú að sé ,,mesti húmanisti" allra tíma? Ég hef bara verið að velta þessu fyrir mér nánar...
Kv. Sigurjón
Sigurjón, 28.8.2009 kl. 18:08
Sæll Sigurjón á ný
Ég hef ekki neina skýra hugmynd um það hver "mesti húmanisti" allra tíma geti verið. Nokkrir góðir sem mér dettur í hug eru:
Bertrand Russell, Denis Diderot, Thomas Jefferson, David Hume, Julian Huxley, Albert Einstein og fullt fleiri. Það yrði að skoða það grannt út frá ýmsum hliðum hvernig maður myndi meta einhverja röð. Það er því miður þannig að það er ekki endilega besta fólkið sem hefur fengið mestu frægðina eða athyglina.
Svanur Sigurbjörnsson, 28.8.2009 kl. 18:47
Ég kannske reyni að kynna mér verk þessa manna betur og átta mig á því sjálfur...
Sigurjón, 28.8.2009 kl. 22:44
Sæll. Já það er vel þessi virði að kynna sér þá, t.d. Russell, Jefferson og Hume.
Svanur Sigurbjörnsson, 29.8.2009 kl. 02:31
Það er erfitt að að rökræða við skeptikera. Maður vill ræða trú og mátt trúar en þá þarf alltaf að fara í Kirkjur og stofnanir hennar, túlkanir mismunandi manna etc. Meira að segja Dawkins fellur alltaf í þessa gryfju.
´Varðandi Biblíuna þá verðum við að hafa í huga að hún er skrifuð á löngum tíma og við mismunandi aðstæður. Hugsum okkur að þjóðfélag sé allt í upplausn; mikið um þjófnað, mútur hverskyns saurlifnað, annarhver maður með sárasótt, lauslæti mikið, svik og undirferli, mikill ósómi. Fólk telst heppið að ná 35 ára aldri. Læknar þess tíma ráða ekkert við þetta, nota blóðsugur og hverskyns görótta seiði en ráða lítið við. Fólk tilbiður regnguði og sólina osfrv. Nú þarna koma saman einhverjir menn sem átta sig á samhengi hlutanna og vilja hjálpa. Þeir hafa fundið Guð og vilja kenna fólki þessa leið. Það er erfitt að snúa fólki af villu síns vegar og þurfa þeir því að færa í stílinn. Þeir búa til hverskyns reglur og refsingar við reglubrotum. Á þessum tímum er fólk óupplýst og fáfrótt þannig að að það dugir ekkert minna en dauði við mörgum brotum. Nú svona einhvernveginn urðu fyrri hlutar Biblíunnar til. Nú seinna urðu aðrir til og nú voru kannski allt aðrar þjóðfélagsaðstæður og önnur túlkun hinna ýmsu spámanna.
Segjum að það væri til Biblía í læknisfræði sem dekkaði nokkrar aldir. Hvernig væru elstu kaflar þeirrar Biblíu? Væri ekki vitlaust af mér að gagnrýna lækni nútímans og vitna í “Mengele” eða einhverja 15. aldar lækna. Víst eru til allskonar söfnuðir sem vilja halda í heiðri Gamla Testamentið og allar öfgarnar þar. Og svo eru söfnuðir sem eru meira liberal á okkar mælikvarða.
Krossinn, Vegurinn, Mormónar etc. Þetta eru allt stofnanir sem hafa verið stofnaðar um ákveðna nálgun á trúna. Það segir ekkert um Trúna. Ég er jafnaðarmaður og er í Samfylkingunni (er trúaður?) þar með er ekki sagt að ég sé sammála öllu sem forystan segir eða gerir. Það breytir ekki því að ég reyni að praktisera jafnaðarmennsku á minn hátt..
Það sem ég er að segja að það má ekki rugla saman trú og trúarbrögðum (kirkjum).
Varðandi nafnleyndina. Við búum í þjóðfélagi þar sem blá hönd og hverskyns fasismi hefur ríkt (menn fengið að gjalda skoðana sinna) og ég hef ekki enn öðlast traust á því að stjórnarskrárbundinn réttur minn sé virtur...
Villi (IP-tala skráð) 29.8.2009 kl. 14:27
Sæll Villi ....son? á ný
Það er leitt að þú skulir telja þig ekki geta tjáð skoðanir þínar í þjóðfélagi okkar vegna ótta um að þú fáir að gjalda málfrelsisins. Ég skora á þig að láta reyna á það. Það er fátt vesælla en að hrópa eitthvað úr felustöðum.
Það er þörf ábending hjá þér að það er gott að skoða forn rit eins og Biblíuna í ljósi þess þjóðfélags og daga sem hún var skrifuð í. Þú leiðir líkur að því að það hafi þurft að "færa í stílinn" og hafa refsingar strangar. Það er erfitt fyrir okkur 1700-1900 árum síðar að meta hvað hafi verið réttlætanlegt að skrifa til að helga meðalið í þá daga. Það má þó eflaust kafa ofan í það að einhverju leyti en það er vandasamt verk.
Vegna þessa beinist gagnrýni mín fyrst og fremst að því að nota Biblíuna sem leiðbeinandi rit fyrir fólk nútímans. Það má vissulega nota einhvern kjarna í henni eins og ég bendi á í greininni, en það þarf að halda áfram um veg skynseminnar og leyfa fornmunum að vera fornmunir. Það er ekki lengur við hæfi að reyna að leiða fólk undir flaggi yfirnáttúrlegrar veru.
Auðvitað er nokkur munur á trú einstaklinga (eða ritaðri trú) og aftur trúarbrögðum, en þetta eru samt nátengdir hlutir. Þegar ég gagnrýni tilteknar kirkjudeildir (eða trúarbrögð) tala ég um einhverjar skoðanir sem eru ríkjandi eða hafa umtalsvert fylgi innan þeirra, en auðvitað ekki um einstaka einstaklinga innan þeirra. Þetta segir eitthvað um trú, t.d. þar sem tiltekin skoðun byggir t.d. á orðum Páls postula. Það er ekkert sem heitir "Trúin", því trúarbrögð eru fjölbreytt. Aðal atriðið í umræðunni er að maður skilgreini vel það sem maður er að tala um, svo að það sé skiljanlegt og hægt sé að rökræða það.
Kveðja - Svanur
Sæll Skorrdal
Já, það er betra að geta svarað fyrir sig og loka ekki dyrum. Ég fæ ekkert út úr því að segja "I told you so", en er ánægður yfir því að menn loki ekki á rökræður og sýni jákvæðni.
Bestu kveðjur - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 30.8.2009 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.