Eru sáðkorn villimanna á meðal vor?

Titillinn er minn en ég vil með þessari færslu vísa á grein Sam Harris, The sacrifice of Reason, í The Washington Post nýlega.  Þar rekur hann hvernig fornir menningarheimar hafa jafnan fórnað Sam Harrismannslífum til að þóknast guðunum og hvernig kristnin nýtti sér þá hugmynd einnig.  Þá vitnar hann í nýleg bréf "Móður Theresu" sem nýlega hafa verið gerð opinber, en í þeim lýsir hún djúpum efa um tilvist Guðs og að hún í raun trúi á hann.  Lokasetning Sam Harris er hreint frábær. 

Ég las bók hans "The End of Faith" og mæli ég með henni fyrir þá sem vilja kynna sér gagnrýni á trúarbrögð frekar.


Mér er óglatt

Á vefsíðunni Atheist Media Blog rakst ég á myndina sem ég hef sett hér að neðan.  Ég hafði heyrt um hreyfingar í USA og Noregi á meðal kristinna manna sem styðja einhliða Ísraelsmenn í Miðausturlöndum og trúa því að múslimar sé hið illa.   Þetta fólk trúir bókstaflega á endalok heimsins og að Kristur komi aftur.  Allt þetta var frekar ótrúlegt og fjarlægt þannig að ég hélt að þetta væri einhver fámennur, valdalaus hópur en videoið hér sýnir að svo er alls ekki raunin.  Nokkrir af valdamestu og áhrifamestu mönnum USA eru beint tengdir þessari hræðilegu trú og þ.á.m. Joseph Lieberman öldungardeildarþingmaður frá Connecticut sem hefur verið framarlega í framboði til tilnefningar til forsetaframboðs undanfarnar 2 kosningar.  Hann er gyðingur en ég hélt að hann væri skynsamur og tæki ákvarðanir út frá veraldlegu siðferði.  Ég hef oft séð hann tala í USA og virtist hann vera með þeim skárri pólitíkusum sem ég hef hlustað á þar.  Það var svekkjandi að sjá hann í þessum félagsskap.  Þessi mynd erti vagus-taugina mína.

Rapture ready: The Christians United for Israel Tour


Stórmerk baráttukona heimsækir Ísland

Í byrjun september mun baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie heimsækja Ísland í boði Alþjóðamálastofnunar Hí, Siðmenntar og Skeptikus. Hún mun halda hér tvo opinbera fyrirlestra dagana 5. og 6. september.

Sá fyrri verður þann 5. september í boði Kvenréttindafélags Íslands sem stendur fyrir s.k. súpufundi kl. 12:00 í samkomusal Hallveigastaða. Á fundinum mun Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: "Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule", sem á íslensku merkir "Réttindi kvenna, blæjan og íslamskt yfirvald".

Sá síðari verður þann 6. september kl. 12:15-13:15 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, flytur hún fyrirlesturinn "Afneitun trúarinnar, fyrrum múslímar og áskoranir pólitísks islams"
Maryam Namazie flytur erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Siðmenntar og Skeptíkusar. Maryam Namazie fjallar um afneitun trúarinnar, fyrrum múslima og þær áskoranir sem pólitískt islam stendur frammi fyrir. Hér fjallar hún um uppgang pólitísks íslams í Evrópu og leiðir til að sporna gegn því.

Maryam Namazie

Maryam Namazie er baráttukona, álitsgjafi og útvarpskona um málefni Írans, Austurlanda nær, kvenréttinda, menningarlegrar afstæðishyggju, veraldarhyggju, húmanisma, trúarbragða, Íslams og hins pólitíska Íslams.

Hún er talsmaður Ráðs fyrrum múslima í Brétlandi. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sleitulaus störf sín í þágu mannréttinda.

Maryam Namazie fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún hlaut síðar menntun sína í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í gegnum tíðina hvað varðar mannréttindi kvenna, Íslam, flóttamenn, Íran og. fl.

Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar og bloggsíðu

Í tilefni komu þessarar aðdáunarverðu konu hef ég þýtt grein hennar

Blæjan og ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögum

með leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007 og birt í fullri lengd á vef Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Hér fer kröftug ræða hennar á blaðamannafundi þegar Ráði fyrrum múslima í Brétlandi var ýtt úr vör

 


Fallnar hetjur

Um miðbik 20. aldarinnar náði virðing almennings fyrir nútíma læknisfræði og vísindum hámarki.  Stórfelldar framfarir urðu á sviðum skurðlækninga og smitsjúkdómalækninga og ungbarnadauði minnkaði á dramatískan máta.  Læknar voru litnir á sem eins konar guðir því fólkið var þeim og vísindunum svo þakklátt og taldi þá vita best.  Fólk sá að vísindin og rökhyggjan virkaði og bætti lífsgæði þeirra á mjög áhrifaríkan máta. 

Nú 40-50 árum síðar er þetta óðar að gleymast.  Fólk er vant því að fá hátækniþjónustu og að börnin þeirra vaxi úr grasi án teljandi áfalla.  Fólk er farið að gleyma því af hverju það hefur það svo þægilegt í dag, af hverju það þarf ekki að hreinsa kamarinn sinn sjálft, af hverju það deyr ekki lengur úr lungnabólgu á besta aldri eða örkumlast hægt og rólega úr holdsveiki.  Læknarnir og vísindamennirnir eru ekki lengur hetjur, heldur ófullkomnir heilbrigðisstarfsmenn sem verða á sífelld mistök og eru hluti af stóru bákni sem skilar "tapi" á ári hverju.  Langur biðtími, hneyksli, lokanir, dýr lyf, hnýsni í persónuupplýsingar, mótsagnakenndar niðurstöður rannsókna og annað neikvætt er sífellt borið á borð almennings gegnum fjölmiðla landsins á meðan kuklarar fá ókeipis auglýsingu á remidíum sínum gegnum kynningar í blöðum og sjónvarpi.   Kerfi kolbrenglaðra hugmynda um starfsemi líkamans og hvernig hægt sé að lækna fólk fær að flæða óhindrað og ógagnrýnt um upplýsingarásir þjóðfélagsins með þeim árangri að almenningur eyðir nú hundruðum milljóna árlega í argasta kukl sér til tímabundins hugarléttis.  Krafan um viðurkenningu kuklins verður æ háværari og þær raddir hafa heyrst að ríkið eigi að reka kuklstofnanir líkt og Þjóðverjar eða Englendingar hafa leiðst út í, í einhverjum mæli.   Ég sé fyrir mér að brátt verði ekki milljónum heldur milljörðum eytt í þessi endurgerðu "nýju föt keisarans" hér á landi.  Þessi þróun er verulega varasöm og veldur ekki bara töf á greiningu sjúkdóma og einstaka sorgleikjum heldur einnig skemmdum á menntun þjóðarinnar. 

Nýlega greindi ég útbreidda sveppasýkingu í húð barns, hvers foreldri hafði farið fyrst til hómeopata og fengið smyrsl hjá honum sem innhélt m.a. vaselín.  Útbrotið stækkaði.  Barnið vældi stanslaust á biðstofunni af vanlíðan.  Sýkingin er auðveldlega meðhöndluð með réttri greiningu og lyfjafræðilega framleiddu lyfi úr apóteki.  Ég get ekki álasað sterkt foreldrinu því hegðun þess er einungis einkenni þjóðfélags sem er orðið sjúkt af ranghugmyndum kuklsins.

Professor Richard Dawkins er einn af þeim vísindamönnum sem hefur tekið að sér að fjalla um þessi mál og vara við hættunni af þessari þróun.  Í nýlegri tveggja þátta röð heimildamyndar sem hann kallar "Óvinir skynseminnar" tekur hann fyrir hjátrú og haldvillur kuklsins.  Hér er hlekkur á upptöku af seinni þættinum.  Það er öllum hollt að horfa á þessa mynd.


Harður veruleiki

Þessi frétt er augljóslega að mestu sögð út frá sjónarmiði konunnar.  Lögreglan hefur skyldu til að fá blóð- og þvagsýni þegar rannsaka þarf bæði áfengismagn (blóðið) og leita að eiturlyfjum/róandi lyfjum (í þvagi), þegar hún hefur í varðhaldi manneskju sem liggur undir þeim grun að hafa ekið undir áhrifum.  Það þýðir ekki að bjóða manneskjunni að koma síðar, þ.e. eftir hennar/hans hentugleika, því sum lyfin og áfengið renna úr líkamanum innan sólarhrings.  Það er enginn beittur valdi við töku þessara sýna nema viðkomandi neiti sýnatökunni án haldbærra ástæðna.  Það eru ákaflega fáar aðstæður sem gætu gefið hinum grunaða undanþágu en þær yrðu að vera læknisfræðilegar, eins og t.d. veruleg nýrnabilun þar sem viðkomandi framleiddi hreinlega ekki þvag.  Lögum og reglugerðum samkvæmt ber lögreglu og því heilbrigðisstarfsfólki sem fengið er til að biðja um sýnatökuna og framkvæma hana, skylda til að fá sýnin með góðu eða eins litlu valdi og mögulegt er.  Það er algengt að halda þurfi ölvuðu fólki við blóðtöku en í þessu tilviki þurfti að halda konu við ísetningu þvagleggs og töku þvagsýnis, sem að sjálfsögðu er viðkvæmara mál þar sem þvagfæri og kynfæri eru á sama svæði.  Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna. 

Það er mjög alvarlegt mál að aka undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja.  Það er dauðans alvara.  Brjóti maður þannig á lögunum og stofni lífi annarra vegfarenda þannig í hættu, er maður ekki í sömu réttarstöðu og aðrir.  Manni ber að gera allt það sem eðlilegt þykir að lögregla biðji mann, ellegar sæta ákveðinni valdbeitingu sem getur falið í sér t.d. sýnatöku með valdi, fangelsun, forræðissviptingu (t.d. fólk í sturlunarástandi eða maníu) og innlögn á spítala með gæslu allan sólarhringinn.  Þetta er því miður nauðsynleg valdbeiting því annars væri ekki hægt að framfylgja lögum, koma á ró og reglu, fá sönnunargögn, vernda saklausa borgara frá ofbeldisseggjum eða koma sjúku fólki (í óráði eða öðru dómgreindarleysi) undir læknishendur.  Þetta er mjög þungbært bæði lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki, og alls ekki gert að nauðsynjalausu.  Miðað við það sem ég hef upplifað í USA í starfi mínu sem læknir er valdbeiting hér á landi mun minni og betur farið með það fólk sem þarf að svipta frelsi tímabundið.   Lögregla og heilbrigðisstarfsfólk þarf oft að þola miklar svívirðingar og stundum árásir af hálfu fólks undir áhrifum áfengis og/eða lyfja.  Um það er ekki mikið fjallað og þetta fórnfúsa starfsfólk fer ekki með slíkt í blöðin enda þarf að gæta trúnaðar við fangann/sjúklinginn þrátt fyrir slæma hegðun hans.

Ég hvet fólk til að dæma ekki of hart í þessu máli í skrifum sínum og velta fyrir sér ofangreindu.  Nú veit maður ekki nákvæm málsatvik og því er best að segja sem minnst um þetta mál á þessu stigi.   Það er í höndum þess vel þjálfaða og menntaða fólks sem fer með dómsvaldið í þessu landi að kveða upp sinn úrskurð.

-----------

Viðbót 23.08.07

Hér að ofan sagði ég " Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna.  "

Ég vil taka það fram að ég tel ekki eðlilegt eða rétt að þessi sýnataka á þvagi með þvaglegg með valdbeitingu í fangelsi og í viðurvist lögreglumanna fari fram.   Það geta þó verið tilvik þar sem í ljósi einhvers afbrots þurfi úrskurð dómara til að leyfa slíka sýnatöku en hún ætti þá að fara fram á spítala við bestu aðstæður og hugsanlega gerð í svæfingu.   Allt sem ég segi hér er þó með þeim fyrirvara að trúlega eru manni ekki öll rök í málinu kunn og því gæti álit manns breyst að einhverju leyti í ljósi nýrra upplýsinga.


mbl.is Konu haldið niðri og þvagsýni tekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn úr bloggfríi

Nú er bloggfríi mínu lokið enda búinn að hlaða á batteríin eftir ferðir sumarsins á hálendið.  Ég gekk í góðu föruneyti Fimmvörðuhálsinn, Laugaveginn og Öskjuveg.  Þá fór ég í skemmtilega jepplingaferð með minni heittelskuðu um Snæfellsnesið.  Það nes hættir aldrei að koma mér á óvart hvað fegurð varðar.  Nýji þjóðgarðurinn yst á nesinu er til fyrirmyndar hvað merkingar varðar og það gerði ferðina skemmtilegri.  Snæfellsnesið skartar miklu fuglalífi og þar hafði krían greinilega nóg æti.

Nú stendur Græna ljósið fyrir kvikmyndahátíð í Regnboganum og mun þar sýna m.a. góðra mynda, Michael Moorenýjasta afsprengi baráttumannsins Michael Moore sem heitir "Sicko".  Myndin fjallar um kosti og galla Bandaríska heilbrigðiskerfisins og ber hann það einkum saman við hið Kanadíska.  Á netinu rakst ég á umfjöllun Kanadísks fréttablaðs um læknisfræði um myndina en það fékk nokkra sérfræðinga þar í landi til að gefa álit sitt.  Myndinni var bæði hælt og gefin gagnrýni.  Athyglisvert er að einn viðmælandanna heitir Adalsteinn Brown.

Í ritstjórnargrein New York Times 12. ágúst s.l. er fjallað í góðu en gagnorðu yfirliti um takmarkanir Bandaríska heilbrigðiskerfisins.  Greinin heitir "World's best medical care?".  Ýmislegt í greininni kannaðist ég við frá því að ég starfaði í New York árin 1998-2004.  Þó að ýmsir gallar séu á kerfinu þeirra má margt læra af Bandaríkjamönnum, eins og t.d. öguð vinnubrögð og viðhald lágmarks staðla í umönnun án undantekninga.  Hér á ég við hluti eins og að leggja aldrei bráðveikt fólk inn á ganga legudeilda og koma öldruðu fólki fyrir á hjúkrunarheimilum í stað langlegu á bráðadeildum.  Í fátækasta hverfi NY borgar, The Bronx var betur staðið að þessum málum en í Reykjavík.

Ég vona íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur í kerfinu okkar sjái "Sicko" því myndin er prýðis hugvekja um þessi mál. 


Sigur mannréttinda - dómurinn samantekinn

Hér að neðan er þýðing mín og samantekt úr lengri enskri opinberri samantekt Mannréttindadómstóls Evrópu (ME) í máli fimm norskra foreldra gegn norska ríkinu.

Mannréttindadómstóll Evrópu (ME) í Strasbourg  kvað upp sögulegan dóm í máli nokkurra norskra foreldra gegn norska ríkinu þann 29. júní s.l.  Um var að ræða 5 foreldra sem eru meðlimir í félagi húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund) og börn þeirra sem öll höfðu verið talin beitt misrétti vegna fyrirkomulags kennslu í kristinfræði, trúfræði og lífsskoðunum (KRL – kristendomskunnskap med religions- og livsynsorientering) í norska skólakerfinu að mati foreldrana.  Mál þessa 5 foreldra fyrir ME hefur staðið frá 20. febrúar 2002.  Málið hafði heitið "Folgerø and Others v. Norway" og er hægt að nálgast opinberu útgáfuna á ensku hér.

Niðurstaða

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að norska ríkið hefði brotið á rétti foreldrana til að börn þeirra fái tilhlýðilega menntun (lagagrein 2 í ákvæði nr 1), fái notið fulls trú- og samviskufrelsis (lagagrein 9) og sé ekki mismunað, (lagagrein 14) í tengslum við þessa kennslu.  Þessi dómur er í samræmi við ályktun Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna 25. mars 2002 í máli annarra fjögurra foreldra  frá Noregi sem kærðu norska ríkið fyrir að leyfa þeim ekki að gefa börnunum fulla undanþágu frá námi í kristinfræði sem þau töldu ekki nógu hlutlaust og skapa mismunun milli barna þeirra og kristinna foreldra.  Í dómnum nú fyrir ME segir að þrátt fyrir að markmið kennslulaga í Noregi frá 1998 hafi verið að tryggja góða og fjölmenningarlega kennslu í Kristinfræði, öðrum trúarbrögðum og heimspeki hafi bæði magn og gæði kennsluefnis hallað talsvert á önnur trúarbrögð og heimspeki.   Illfært hafi verið fyrir foreldra að fylgjast með því hvenær kennt yrði það efni sem þeim fannst ekki við hæfi fyrir börn sín og því hafi hin takmarkaða undanþága skv. lögunum frá kennslu í KRL ekki gagnast þessu fólki.    Þá kom fram að iðkun bæna, sálmasöngs, kirkjuþjónustu og trúarlegra skólaleikrita hafi farið fram og börnum þessara foreldra var ekki fyllilega leyft að forðast slíkt því þeim var gert skylt að vera viðstödd og horfa á.  Dómurinn taldi að undanþága með áhorfi  uppfyllti ekki fyllilega rétt þeirra til undanþágu að hluta.  Að auki var það kveðið hreint út að „Noregur hefur ekki gætt þess nægilega að upplýsingar og fræðsluefni það sem námsefnið innihélt væri borið fram á hlutlausan, gagnrýninn og fjölmenningarlegan máta“ og uppfyllti því ekki skilyrði lagagreinar 2, ákvæðis nr 1.

Túlkun

Dómur þessi hlýtur að þrýsta nú verulega á norsk stjórnvöld að endurskoða námsefni sitt í KRL og færa til hlutlausari og gagnrýnni  vegu.  Siðmennt og fleiri aðilar hérlendis hafa bent á sams konar galla á íslensku námsefni í þessum fögum og skort á fullkomnu hlutleysi í Námsskrá Grunnskóla, sem er nú í endurskoðun.   Verulega skortir á jafnvægi í námsefni yngri bekkjardeildana en það kemst fyrst jafnvægi á síðustu þrjú ár skólaskyldunnar.  Þá hefur Siðmennt og fleiri bent á að trúarlegar athafnir eins og bænir, kirkjuferðir og trúarleg leikrit og söngvar fari ekki saman með fjölmenningarlegu hlutleysi og aðskilnaði trúar og skóla.  Þessu tengist einnig starfsemi Þjóðkirkjunnar í nokkrum skólum með svokallaðri Vinaleið, sem getur ekki talist annað en trúarleg starfsemi og íhlutun.  Það er ljóst að dómur ME í máli þessa 5 foreldra frá Noregi rennur stoðum undir þessa gagnrýni hér á landi.  Það er von mín að stjórnvöld beiti sér fyrir því að bæta fyrirkomulag þessa mála svo ekki þurfi að koma til málareksturs gegn íslenska ríkinu einnig.

Niðurstaðan er fagnaðarefni og hafa þær fjölskyldur sem stóðu að málinu og félag húmanista í Noregi (Human-Etisk Forbund, HEF) fagnað að því loknu.  Dómarar voru 17 í málinu og málið tók yfir 5 ár og því má ætla að þetta sé verulega vel ígrunduð niðurstaða. Hér er mynd frá því þegar sækjendur málsins fengu fréttirnar.  Ég óska foreldrunum, HEF og öllum norðurlöndunum til hamingju með þessa niðurstöðu.

 Aðstandendur málsins fagna í Strasbourg

Fréttatilkynningu Siðmenntar má lesa í heild sinni hér.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur mér ekki á óvart - því miður

Lengi vorum við Íslendingar með þeim fátækari í Evrópu og jafnvel þó víðar væri leitað en upp úr árum seinni heimsstyrjaldar höfum við efnast verulega hvern áratug.  Við keppumst nú við að verða sem ríkust og flottust.  Í gagnrýni minni fyrir alþingiskosningarnar benti ég á hversu illa ríkisstjórnin hefði staðið sig í mannréttindamálum.  Nægir að nefna hér lélegt framlag hennar til Mannréttindaskrifstofu Íslands, "24 ára reglan" og ójafnræði milli trú- og lífsskoðunarfélga.  Við virðumst nú hafa gleymt því hvernig er að vera virkilega fátæk.  Hvers vegna ættum við ekki að greiða 0.7% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar?  Hvernig getum við á sama tíma verið að sækja um há embætti (öryggisráðið) hjá SÞ og brotið loforð okkar?  Erum við enn að hugsa að það séu við sem þurfum aðstoð?  Erum við enn "litla Ísland"?
mbl.is Þúsaldarmarkmiðin: Til skammar hvernig íslensk stjórnvöld hafa hagað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarleysi

Ein megin ógæfa mannkyns (og þess sem verður fyrir barðinu á því) er varnarleysi mikils þorra fólks gagnvart snjöllum málabrellumönnum.  Þessir snillingar eru meistarar í hártogunum, útúrsnúningum, málaflækjum, rökflækjum, rökbrellum og snjöllum en blekkjandi röksemdafærslum.  Yfir þetta háttarlag er til hugtak sem heitir á lélegri íslensku sófismi (sbr. sophism). 

Þeir sem rituðu Biblíuna og Kóraninn voru að mörgu leyti meistarar í sófisma.  Með uppbyggingu hugsanakerfis sem fékk fólk til að trúa á guðdómlega veru, ellegar kveljast í helvíti, komast ekki til himnaríkis eða uppskera fordæmingu samfélagsins, gátu þessir meistarar stýrt fólki eins og vel tömdum hundum - og jafnvel betur.  Þrátt fyrir það frelsi sem húmanísk hugsun manna eins og Thomas Jefferson færði okkur stendur heiminum enn mikil hætta af bókstafstrú sem nærist m.a. í jarðvegi hófsemdartrúar og misskilnings á hugtakinu umburðarlyndi.

Í athugsemdum við síðasta bloggi mínu benti Jón Frímann á hlekk til vefsíðu þar sem Steven nokkur Schaferman skrifar um rökbrellur og málaflækjur sköpunarsinna sem reyna að finna þróunarkenningunni allt til foráttu.   Ég fór að kynna mér manninn nánar og ljós kemur að hann er steingervingafræðingur (paleontologist) að mennt og starfi.  Hann er einnig húmanisti og opinber mótmælandi gervivísinda. Heimasíða Stevens, freeinquiry.com er full af fróðleik og gagnlegum greinum.  Rétt er að taka fram að síðan er ekki rekin af Council for Secular Humanism sem gefur út tímaritið Free Inquiry.  Steven mælir þó (eðlilega) með heimsókn þangað á sinni síðu. 

Í framhaldi af tali mínu um sófista (sem margir hverjir eru trúlega ekki sófistar vegna heimsku eða illgirni, heldur vegna óhepplegrar upptöku gallaðra hugmynda sem geta af sér aðrar stórgallaðar) vil ég vekja athygli á fyrirlestri Richard Dawkins uppúr nýjum formála kiljuútgáfu bókar hans "The God Delusion" og fyrirlestri Christopher Hitchens um skaðsemi trúarbragða og þá sérstaklega Með Dawkins í Bláa lóninu 2006herskárrar Íslam.   Christopher Hitchens gaf nýlega út bók sem heitir "God is not great".

Í fyrirlestri Dawkins vil ég vekja sérstaka athygli á því sem hann segir um þá málaflækju þegar fólk sakar áhugasaman húmanista / trúleysingja um bókstafstrú vegna hins mikla áhuga sem viðkomandi sýnir á málefninu.  Sama hefur t.d. verið sagt um áhuga fólks á fótbolta, þ.e. að það séu líkt og trúarbrögð.  Þetta var náttúrulega meint í upphafi sem grín en margir nota þessa hugsun sem röksemdafærslu.  Sorglegt.

Skynsemin sigri! 


Afturför

Þegar ég var unglingur 1978-84 lærði ég um þróunarkenninguna, fyrst í gagnfræðiskóla og síðar meira í menntaskólanum.  Á þeim tíma var óhugsandi í mínum huga að einhver tryði rykfallinni biblíusögu um gráhærðan mann á himnum sem átti að hafa búið til jörðina og himininn og allt líf á 6 dögum.. og hvílt sig þann sjöunda.   Hvílík fantasía!  Ég man eftir því að hafa séð gamla svart-hvíta bíómynd (Inherit the Wind, 1960) þar sem deilt var um þetta fyrir rétti og niðurstaðan var óumræðanlega sú að sköpunarsinninn reyndist vera kreddufullur og heimskur bókstafstrúarmaður.  Ég prísaði mig sælan fyrir að búa ekki í slíkum heimi og hugsaði hlýtt til þeirra góðu kennara sem ég fékk að njóta gegnum skólagönguna. 

Bandaríkjamenn eiga tækniframförum og lýðræðisskipan að þakka fyrir þau lífsgæði sem þeir njóta, allt komið af sama hugsunarhætti og Charles Darwin beitti þegar hann vó og mat skoðun sína á nátttúrunni á fleyingu MS Beagle fyrir um 150 árum síðan.  Trú á sköpunarkenninguna (sem er í raun bara saga, ekki kenning) og kennsla hennar sem sannleik í barnaskólum Bandaríkjamanna er móðgun við þessa hugsun og hugsjónina um að leita staðreynda og þekkingar úr náttúrunni óháð trúarsetningum.  Bókstafstrúin í Bandaríkjunum er verulega hættuleg því sú þjóð hefur gífurleg áhrif á alþjóðavettvangi og á yfir að ráða stærsta og öflugasta her í heimi.  Ég vil ekki hugsa til þess hvað gæti gerst ef einfeldingar mið- og suðurríkjanna næðu algerum völdum þar í landi.  Sem betur fer er sterkur menntahópur í strandríkjunum og norðaustur horninu sem mun ekki láta þennan bjánaskap viðgangast endalaust.  Svo eru bestu grínistar Bandaríkjanna sem betur fer mjög skynsamir og gera óspart grín af vitleysunni.  Ég mæli t.d. með atriði George Carlin þegar hann fækkar boðorðunum 10 í tvö. 

 


mbl.is Þróunarkenningin og sköpunarkenningin báðar réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband