Þrýstum á stóru iðnríkin

Með hverjum deginum sem líður verður ljósara að hlýnun jarðar er óeðlilega mikil og hraði hennar eykst.  Djúpir fossar eru komnir í jökulstál Grænlandsjökuls og hætt er við að eftir 150-200 ár verði hann allur líkt og Vatnajökull.   Í mynd Al Gore, "An inconvenient truth" eru leiddar líkur að því að með bráðnun Grænlandsjökuls og álíka stórs svæðis á Suðurskautslandinu muni yfirborð sjávar hækka um 6 metra.  Ég endurtek 6 METRA!!!   Með þessu áframhaldi getum við hætt að hafa áhyggjur af Kvosinni, Reykjavíkurflugvelli og gamla miðbænum kringum Lækjargötu því hann yrði hreinlega undir sjó.

Það er ekki mikið sem við Íslendingar setjum í andrúmsloftið af koltvísýrlingi (CO2) og því er mjög mikilvægt að þrýsta á lönd eins og Bandaríkjamenn, Rússland og Kína til að minnka þeirra losun.  Ingibjörg Sólrún, ef þú lest þetta, vinsamlegast sendu þessum þjóðum kveðju.


mbl.is Íslenskir jöklar horfnir eftir 200 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhyggjur af trúarinnrætingu í barnaskólum

Það er dapurt að í dag þurfa þeir sem ekki trúa á stokka og steina, álfa og dverga, kukl og guði að hafa áhyggjur af því að börnin þeirra sem hafið hafa nám í grunnskóla gætu átt í vændum einhverja trúarinnrætingu af hálfu kennara eða starfandi presti í skólanum.

Í góðri grein á vantrú.is lýsir Ásta Norrman reynslu sinni og dóttur af íslenska skólakerfinu.  Athugasemdir lesenda eru ekki síður athyglisverðar og lýsa þar fleiri sinni reynslu eða færa fram rök í málinu. 

Trúleysi, hindurvitnaleysi, hjátrúarleysi og kuklleysi á að vera normið.  Það er hinn eini sanni samnefnari því það er eins alls staðar.  Siðferði á að byggja á rökrænni hugsun, ekki bókstaf.  Við búum í þessari dásamlegu veröld og veraldleg hugsun er kjarninn í afkomu okkar og lífsgæðum.  Ímyndunaraflið má nota m.a. til skemmtunar og til þess að skapa huglægar myndir af því sem vísindin segja okkur að sé langt út fyrir okkar skynjun (bylgjur, atóm, segulsvið, útfjólublátt o.s.frv.), en ekki til að búa til "staðreyndir" til að trúa.  Ég tel að trúarbrögðin séu aukaafurð ímyndunarafls okkar og hafi þjónað tilgangi barnalegrar huggunar í litlum heimi.  Við höfum stækkað, "fjölguðatrú"varð að "einguðstrú" og vonandi innan tíðar "núllguðstrú".


Eins og sauðir í rétt

Það er dapurt að sjá nýkjörna þingmenn láta leiða sig samkvæmt kröfu hefðarinnar til kirkju fyrir þingsetningu.  Alþingi á að vera óháð trúarbrögðum og verndun Þjóðkirkjunnar skv. stjórnarskrá er tímaskekkja.  Þeir alþingismenn sem vilja fara í messu fyrir setningu Alþingis geta gert það á eigin vegum.  Til þess að Ísland nái fullum þroska í mannréttindamálum þarf að breyta þessu. 
mbl.is Þingmenn ganga til kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins reykfrí - til hamingju Ísland!

Til hamingju Íslendingar!  Mér er mikil gleði í huga yfir þessum degi vegna gildistöku framkvæmdar laga um reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum.  Bann af þessu tagi hefur nú verið í gildi í nokkur ár á stöðum eins og New York bork, Noregi og Írlandi og hefur heppnast sérlega vel.  Michael Bloomberg borgarstjóri New York borgar kom banninu á í sinni borg árið 2003 (ef mig minnir rétt) og bjóst Brasilísk auglýsingmaður við því að rekstur veitingahúsa biði afhroð.  Annað kom á daginn og eftir 2-3 vikur var sami fjöldi fólks kominn á staðina á ný.  Fyrir mig reyklausan manninn er þetta bann kærkomið og mikil hvatning til að fara oftar út að skemmta mér.  Það er talsvert fælandi að skreppa á bar og verða að setja öll föt í þvott eða hreinsun vegna reykingalyktar, auk þess sem reykmökkurinn er ákaflega pirrandi í öndunarfærum og augum. 

Eftir sambærilegt reykingabann í Írlandi fækkaði reykingarfólki um 14% í heildina.  Það er mikill árangur og kom mér að sjálfu sér ekkert á óvart.  Margir byrja að reykja á skemmtistöðum og margir falla á reykbindindi eftir að hafa fengið sér í glas og hafa reykinn fyrir vitunum.  Ég hef trú á því að hér sé því um mikið framfaraskref að ræða hvað heilsufar þjóðarinnar varðar.   Hér á ekki við að réttur til einstaklingsfrelsis reykingafólks vegi meira en hinna því reykurinn pirrar, óhreinkar og skaðar aðra, sérstaklega starfsfólk staðanna sem fá þannig talsverðar óbeinar reykingar.  E.t.v. vantar eitthvað uppá að rannsóknir á óbeinum reykingum hafi sýnt fram á óyggjandi skaðsemi, en sá efi á að vera hinum reyklausu í hag. 

Enn og aftur - til hamingju með heilbrigðara Ísland!


mbl.is Engin útköll vegna breytinga á lögum um tóbaksvarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin hefur kosið

Nú er það endanlega í garð gengið að ný ríkisstjórn mun taka við löggjafa- og ráðherravaldi landsins.  Tveir stærstu flokkar landsins taka höndum saman og ætla að reyna að bæta þjóðfélagið næstu 4 árin.   Það verður að telja mjög heilbrigðan kost því að baki þessa flokka liggja 63.4% greiddra atkvæða og því 43 þingsæti af 63.  Mannaflinn verður nægur til að takast á við brýn verkefni og engin hætta er á að meirihlutinn falli vegna sinnaskipta einstaka þingmanna.  Ég fagna þessari stjórn og vona að Samfylkingin og nýtt fólk hjá Sjálfstæðismönnum boði breytta tíma með tilliti til mannréttindamála, betur rekins heilbrigðiskerfis, hagkerfis og náttúru landsins.

Það var ljóst að þjóðin vildi breytingar en ekki á kostnað Sjálfstæðismanna því þeir juku við sig fylgi.  Fólk er farið að nýta sér meira útstrikanir og varð Árni Johnsen að gjalda þess með því að falla um eitt sæti.  Björn Bjarnason féll sömuleiðis um sæti en hélt samt ráðherraembætti sínu sem verður að telja frekar á skjön við niðurstöðuna.   Þetta virðast því vera skilaboð frá Geir um að Birni sé vel treystandi þrátt fyrir óánægju um 20% kjósenda xD þar sem hægt var að strika út (þ.e. séu utankjörstaðaratkvæði ekki tekin í reikninginn).  Margir eru ánægðir með verk Björns hjá Lögreglunni en ýmsir eru óánægðir af öðrum orsökum.   Maður getur bara vonað að Björn noti þetta tækifæri til að endurskoða það sem menn benda á að miður hafi farið hjá honum.

Stór lýðræðisleg lexia kom í ljós en ekki er víst að hún hafi verið lærð.  Fullkomlega frambærilegu framboði, Íslandshreyfingunni, var hafnað vegna 5% reglu á jöfnunarsætum.  Að vísu náði framboðið hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni en það þarf 9-11% atkvæða til.  Ljóst er að stjórnarflokkarnir sem settu þessa reglu árið 1999 höfðu ekki áhuga á því að hleypa nýjum stjórnmálaflokkum að og völdu hærri prósentu en tíðkast víða í löndum í kringum okkur.    Miðað við núverandi reglu þarf yfir 9250 atkvæði á landsvísu til að ná inn jöfnunarsætunum þremur og það þyrfti að skoða hvort að raunverulega séu ástæður til að réttlæta þetta háan þröskuld.

Ég vona að hin nýja ríkisstjórn beri gæfu til að hlusta á góðar tillögur, sama hvaðan þær koma, þ.e. frá stjórnarandstöðu, félagasamtökum eða einstaklingum.  Þá á ég við, ekki bara hlusta, heldur einnig taka upp og samþykkja. 

Ég óska hinni nýju ríkisstjórn velfarnaðar.  Ég hef trú á því að hún muni reynast þjóðinni vel.


Listræn kona

Ég rakst á ákaflega skemmtilegt myndsafn á Flickr.com eftir ljósmyndara sem kallar sig "It´s all about Mich!!!"  Þetta er kona sem ég hef ekki nafn á en hún er ótrúlega skapandi og næm á aðstæður.  Hún kemur myndum sínum ákaflega persónulega á framfæri.  Myndunum fylgir jafnan skemmtilegur texti.   Hér er eitt dæmi.  (Ath. það má birta myndina ef maður getur höfundar.  Textinn er hennar).

watch-your-thoughts

Watch your thoughts; they become words.
Watch your words; they become actions.
Watch your actions; they become habits.
Watch your habits; they become character.
Watch your character; it becomes your destiny...

 


Ánægjulegt!

Loksins góðar fréttir.  Ef xD og xS ná samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórnar yrði það besta útkoma þessara kosningaúrslita að mínu mati.  Samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í gær eru flestir á sama máli eða um 4/10 svarenda.  Skynsemin sigri!
mbl.is Geir og Ingibjörg sest á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðum yfirlýsingu Björns Bjarnasonar

Því miður olli löng færsla mín um yfirlýsingu Björns talsverðri skekkju á megin textadálknum þannig að ég varð að taka hana út

Hana má sjá í heilu lagi á www.svanursig.net


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði gert slíkt hið sama

Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir.  Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir.  Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.  Björn sýndi engan skilning.  Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög.  Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning.  Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera.  Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi. 

Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga).   Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.  

Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði.  Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega.  Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna.  Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði.  Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular).  Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár. 

Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979.  Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi.  Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO.  Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley.  Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu. 

Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning.  Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þvælið kosningakerfi - færum 5% niður í 2%

Það er ljóst að núverandi rétt eins og fyrrverandi kosningakerfi er þvælið og illskiljanlegt þeim sem ekki hafa sett sig djúpt í reglurnar.  Það er furðulegt að flokkur sem nær yfir 1.6% atkvæða fái ekki þingmann (100/63 eru 1.6%) og að Samfylkingin fái einum fleiri þingmenn en Sjálfstæðismenn í kjördæmi þar sem þeir síðar nefndu fá 7.2% meira fylgi.  Auðvitað eru ákveðnar jöfnunarreglur kerfisins sem gera þetta að veruleika en það er sárt fyrir Mörð sem var í 4. sæti í Reykjavík Suður að komast ekki á þing á meðan Ellert B Scram sem var í 5. sæti í Reykjavík Norður komst inn þegar munur á fylgi flokksins í kjördæmunum tveimur var bara 0.2% (29.2% og 29.0%). 

Svo er það auðvitað skiptingin í Reykjavík- norður og suður sem á nær engan málefnalegan eða hagsmunalegan grundvöll.  Það þarf að setjast undir feld og skoða kosningareglurnar uppá nýtt.  5953 kjósendur kusu og fengu ekki rödd á þingi.  E.t.v. er það talið að 1-2 þingmenn lítils flokks verði of einmanna á þingi eða það sé ekki húsnæði fyrir þá, nú eða að þeir gætu lent í oddaaðstöðu varðandi stjórnarmyndun og því hlotið of mikil völd.  Hvort að það sé raunveruleg hætta á því síðastnefnda veit ég ekki en það er verulegt álitamál hvort að þessir "gallar" á því að litlir flokkar komist á þing séu nógu stórir til að lýðræðislegur réttur allt að 9250 manna (4.99% af þeim 185.071 sem kusu) fái ekki að ná fram.  Mér finnst þessi tala allt of há og ekki réttlætanleg.  Ég sting uppá 2% sem þröskuld, þ.e. fylgi sem svarar til rúmlega eins þingmanns (ca 3700 atkvæði). 


mbl.is Lenti í 12. sæti í prófkjöri og komst á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband