Nýtt stjórnmálaafl
4.2.2007 | 13:31
Vel miðar í starfi samherja Margrétar Sverrisdóttur og undirbúningur framboðs er í gangi. Ég vonast til að sjá flokk sem mun taka það besta úr hægri og vinstri stefnum og skilgreini sig sem breiðan miðjuflokk. Ekki er komið nafn á flokkinn og verður það ákveðið í sameiningu með öllum þeim sem munu leggja sitt á vogarskálarnar fyrir góðu brautargengi hans. Ljóst er að mikill hluti úr kjarna Frjálslynda flokksins er með okkur og margt nýtt hæfileikaríkt og duglegt fólk hefur bæst í hópinn. Kynjahlutfall er jafnt, jafnvel aðeins fleiri konur og er það sérlega ánægjulegt. Frjálslyndi flokkurinn hefur misst mikið af þeim konum sem þar voru en konur voru í minnihluta þar fyrir líkt og í svo mörgum stjórnmálaflokkum hingað til. Nú er tækifæri til að breyta þessu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fylgi Frjálslyndra minnkar
1.2.2007 | 22:25
Í Capacent Gallup könnun sem birt var í kvöld og gerð var á dögunum 3. til 30. janúar kom í ljós að fylgi Frjálslyndra fer minnkandi og er nú 9% í stað 11% í síðustu könnun. Þetta er talsvert hrap og verður að teljast ósigur fyrir forystu flokksins. Líklega hrapar fylgið enn meira í næstu könnun því aðeins 1 vika af 4 sem könnunin tekur yfir er eftir landsþing Frjálslyndra. Áberandi er að konur eru bara um 36% af fylgjendum Frjálslyndra og það hlutfall á eftir að minnka enn meir í kjölfar þess að Margréti var ekki veitt brautargengi í flokknum. Kosningabandalag Nýs afls manna og forystunnar sá fyrir því að hún kæmist ekki að þó að meðal venjubundinna flokksmanna væri hún mun vinsælli en Magnús Þór. Það sést nú á því að mikill meirihluti hins virka kjarna flokksins fyrir landsþingið hefur sagt sig úr honum og sumir þeirra sem þó héldu áfram studdu hana í kosningunni. Einungis með gríðarlegri smölun á fólki sem vissi lítil deili á flokksstarfinu, tókst þremur þingmönnum og Nýju afli á Útvarpi Sögu að vinna Margréti. Það fréttist alltaf á Íslandi þegar fólk kemur illa fram og þjóðin kveður upp sinn dóm. Réttast væri að lýsa kosninguna á Landsþinginu ógilda og setjast við samningaborðið. Stefna Frjálslyndra þarf á sameinuðu afli að halda.
Söguleg stund
30.1.2007 | 03:48
Í kvöld átti sér stað söguleg stund í Íslenskri stjórnmálasögu. Margrét Sverrisdóttir lýsti því yfir í gærkveldi að hún væri hætt í flokknum sem hún hefur starfað svo ötullega fyrir frá stofnun hans. Nær 30 manns í Frjálslynda flokknum komu saman undir forystu Margrétar Sverrisdóttur til að ræða pólitíska framtíð sína í kjölfar Landsþings sem verður minnst fyrir þær klúðurslegustu kosningar sem um getur hjá stjórnmálaflokki. Öllu þessu fólki og fjöldi annarra hefur blöskrað atgangur forystumanna flokksins við að bola Margréti Sverrisdóttur frá framkvæmdastjórn flokksins og halda í völd með því að bindast bandalagi við fólk sem þeir kæra sig í raun ekkert um.
Margir fundarmanna hafa setið í miðstjórn flokksins og verið mjög tryggir stuðningsmenn hans til fjölda ára. Nú er svo komið að það telur ekki lengur mögulegt að halda áfram stuðningi við flokkinn vegna algers skipbrots á trausti því sem það bar áður til forystu hans. Stuðningsmenn Margrétar gáfu frá sér yfirlýsingu í tíu fréttunum.
Hér að neðan lýsi ég hluta af aðdraganda þessa máls.
Ítrekað hafði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins sagt við áhyggjufulla miðstjórnarmenn að hann sæi enga ástæðu til að óttast 50 manna smáflokk. Þeir hefðu ekki styrkleika til að komast neitt innan flokksins. Hann þoldi ekki að menn töluðu um Jón Magnússon - hann kæmi þessum málum ekkert við. En hvað gerðist? Hann lét teyma sig í kosningabandalag með Nýju afli til þess að Magnús Þór ynni Margréti. Sjálfsagt hefur fokið í hann fyrst að Margrét vogaði sér að íhuga framboð í hans eigið embætti um tíma. Það var ljóst að Margrét skyldi tapa, sama hvað það kostaði.
Hálfum mánuði fyrir landsþing hélt Magnús Þór því fram við mig að klofningur með Margréti yrði svo lítill að það væri ekki hægt að kalla það klofning. Ég bað hann um að fara ekki í framboð til varaformanns og sýna þannig stórmennsku og sáttavilja. Þannig sýndi hann í verki jafnréttishugsun með því að hleypa jafningja af hinu kyninu að. Hann yrði maðurinn sem hefði lykilinn að sátt í flokknum. Hann hafnaði tillögu minni á þeirri forsendu að hún væri röng. Fólkið í flokknum hefði rétt á því að velja milli þeirra í kosningum, og allt annað væri að möndla við úrslitin. Það gætu þess vegna aðrir boðið sig fram. Hvar Magnús Þór sá slíka frambjóðendur veit ég ekki en kannski hafði hann liðsmenn fyrrum Nýs afls í huga.
Nú standa þeir félagar sem "sigurvegarar" smölunarkosninganna og hafa selt sig miðstjórn flokksins mönnum eins og Eiríki Stefánssyni, fyrrverandi Samfylkingarmanni, með atkvæðaskiptum. Eiríkur þessi er sá sem með offorsi og gífuryrðum hefur nítt niður starf Frjálslynda flokksins og persónu Margrétar á fundum flokksins og endurtekið á Útvarpi Sögu. Hann hafði við orð eins og "ekkert starf hefur verið unnið í Frjálslyndum til undirbúnings komandi kosningum" og gagnrýndi að Margrét væri á launum eftir að sáttanefnd miðstjórnar hafði lagt til að hún tæki launað leyfi frá störfum framkvæmdastjóra flokksins fram yfir landsþing. Í fyrsta lagi var búið að vinna talsvert í sumum kjördæmunum að kosningarmálunum. Í öðru lagi var það Margrét sem beðin að taka leyfi - það var ekki hennar val. Á landsþinginu var greinilega stærsti kosningalistinn samansettur af helmingi fólks frá Nýju afli - Eiríki Stefánssyni og helming frá stuðningsmönnum Guðjóns Arnars og Magnúsar Þór. Kosningabandalagið var augljóst og úrslitin staðfestu það.
Í byrjun desember var Margréti ýtt út úr framkvæmdastjórastöðu flokksins af forystunni fyrir tilstuðlan sáttanefndar. Ástæðan var sú að forystan treysti henni ekki fyrir því að taka við innskráningum í flokkinn. Magnús Þór óttaðist að hún myndi misnota aðstöðu sína og afla sér fylgismanna á meðal nýrra flokksmanna. Með því að þvinga hana í nafni sáttar til að taka sér leyfi, átti að fullnægja hlutleysi og eðlilegum framgangi á undirbúningi landsþings. Þá átti þetta að hjálpa Margréti við að einbeita sér að kosningu á þing. Hvílíkt göfuglyndi. Einhvers staðar brást mér þó að gráta af hrifningu yfir þessari tillitssemi við Margréti. Ég spurði á miðstjórnarfundinum umrædda hvort að hér væru menn ekki bara að sýnast því varla breytti þetta nokkru um raunverulega sátt. Ég skyldi ekki svarið. Ítrekað var að Nýtt afl væri ekki á leiðinni inní miðstjórnina og ekki fylgdi með í sáttinni hvernig átti að tryggja að Magnús Þór hefði ekki aðstöðumun og tögl og haldir á skrifstofu flokksins. Í vikunni fyrir landsþingið reyndist það svo vera Magnús Þór sem svaraði á símasvara flokksins og bauð það velkomið. Hann hafði umsjón með félagaskránni og hélt henni frá Margréti um nokkurra daga skeið.
Magnús Þór og Guðjón Arnar héldu fundi í Vestmannaeyjum og kjördæmisfund Sunnlendinga ásamt Grétari Mar en á þessum fundum héldu þeir langar ræður og Magnús Þór hamraði á eigin ágæti. Í ræðum sínum minntist hann ekki á Karen sem leiddi listann á Akranesi heldur eignaði sér kosningasigurinn þar aleinn. Hann endurtók þessi sömu framkomu í Kastljósinu á móti Margréti og hún grillaði hann á því. Daníel Helgason vogaði sér á Suðurlandsfundinum að minnast á að með Margréti sem varaformann yrði ásýnd og málefnastaða flokksins breiðari að Magnúsi ólöstuðum. Þrátt fyrir þessa nærgætnu ræðu Daníels, trompaðist Magnús Þór og fékk að þruma út úr sér hversu mikill jafnréttissinni hann væri þó að mælendaskrá hefði verið lokað. Sem flokksmaður en gestur á kjördæmisfundinum (er sjálfur í Suðvesturkjördæmi) lagði ég ýmislegt til málana á fundinum til hjálpar hvað starfsreglur kjördæmafélaga varðar en það féll í frekar grýttan jarðveg. Grétar Mar lokaði skyndilega mælendaskrá með því að bera starfsreglurnar upp til atkvæða. Einn fundarmanna reyndi að fá opnun á umræðu á ný en var sagt af Grétari Mar og Magnúsi Þór sameiginlega að það væri of seint. Þá var mér nóg boðið og sagði "fundarstjórnina furðulega". Magnús Þór sýndi mér þá, þá óvirðingu að spyrja mig háðulega "Hvers vegna komstu á þennan fund?". Ég ákvað að fara ekki í orðarimmu við Magnús Þór til að fundurinn héldi smá virðingu og leystist ekki upp í deilur. Baldvin Nielsen sveið þessi framkoma Magnúsar Þór og sagði "hann er nú miðstjórnarmaður!". Annar gestur, Ragnheiður Fossdal, spurði Guðjón Arnar hvort að hann hefði einhvern tíma á þeim tíma eftir að ósættirnar byrjuðu reynt að tala einslega við Margréti. Hann svaraði því að sáttanefndin hefði haft milligöngu.
Eftir þessar ráðstafanir Guðjóns Arnars, Magnúsar Þórs og afvegaleidda sáttanefnd hafði Magnús Þór alla aðstöðu flokksins fyrir sig. Ráðinn var mikill vinur Guðjóns Arnars sem starfandi framkvæmdastjóri fyrir flokkinn og utanflokkskona í stöðu framkvæmdastjóra þingflokks. Fullkomið kosningahreiður. Margrét þurfti að leita utan höfuðstöðva flokksins til að funda með sínu stuðningsfólki. Um framhaldið þarf ekki að fjölyrða. Kosningavél þingflokksins og fyrrum félaga Nýs afls með greiðan og mikinn aðgang að Útvarpi Sögu, tókst vel í smölun, prentuðu yfir 1000 kjörseðla og þóttust svo vera yfir sig hissa á mætingu uppá um 800 manns. Lélegri skipulagningu að fjöldaviðburði hef ég aldrei séð.
Málefni Frjálslynda flokksins eiga mikla framtíð fyrir sér. Nú mun hefjast hrein samkeppni um það hvern fólk vill sem fánabera þeirra. Ljóst er að Frjálslyndi flokkurinn verður ekki samur og hann mun blæða verulega af því fólki sem hefur verið hve ábyrgðafyllst og áhugasamast í trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Þjóðin mun kveða endanlega dóminn í kosningunum í vor hverjum það treystir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ófyrirleitin árás Magnúsar Þórs
25.1.2007 | 09:38
![]() |
Ósannindum um borgarstjórnarflokk Frjálslyndra mótmælt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skoðanakannanir á netinu
27.12.2006 | 14:15
Í tilefni hátíðanna
23.12.2006 | 13:33
Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs
Takk fyrir hið liðna
Dægurmál | Breytt 26.12.2006 kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Írak og friðarríkið Ísland
19.12.2006 | 18:51
Það er með ólíkindum hversu lengi við Íslendingar ætlum að velta okkur uppúr ólýðræðislegri ákvörðun Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar að styðja Bandaríkjamenn og Bréta til stríðs í Írak. Það er ljóst að margar þjóðir voru blekktar til að taka þátt í lista "hinna viljugu þjóða" út frá röngum upplýsingum frá leyniþjónustu Bandaríkjanna um að brjálæðingurinn Saddam Hussein hefði kjarnorkuvopn í fórum sínum. Er fólk búið að gleyma því hversu mikill fantur hann var? Það kom í ljós að Saddam talaði fjálglega um hugsanlega vopnaeign til þess eins að ögra vesturlöndum og sýnast kaldur karl í arabaheiminum. Hann hélt að CIA hefði njósnara á meðal hans og myndi því aldrei trúa orðum hans. Annað kom á daginn. Leyniþjónusta USA (CIA) hafði ekki neinar almennilegar njósnir og studdi grun sinn um hugsanleg gjöreyðingarvopn Saddams því mest megnis á getgátum. Saddam kom ekki til hugar að Bandaríkjamenn gerðu alvöru úr viðvörunum sínum og það reyndist hans banabiti.
Margir hérlendis segja að innrásin í Írak hafi verið hvílík heimska því vitað væri að svona myndi fara. Ég tel að þessi gagnrýni sé ekki alls kostar sanngjörn. Það var langt í frá að það væri álit allra málsmetandi manna að útkoman yrði blóðugt stríð milli trúarhópa og ný uppeldisstöð fyrir hryðjuverkamenn. Margir héldu að fátt gæti verið verra en Saddam Hussein og fólk var þreytt á því að heyra fregnir af sífelldum morðum mannsins og ólifnaði og grimmd sona hans tveggja. Var það ekki þess virði að reyna að steypa morðóðum einræðisherra af stóli og bjóða Írak lýðræðislega stjórnarhætti? Ég bjó í New York í aðdraganda innrásanna í Afganistan og Írak og gat ekki séð að þar ríkti vissa meðal færustu fréttaskýrenda eða annarra fræðinga um að innrás í Írak væri fyrirfram glötuð. Mér fannst reyndar alltaf furðulegt að það væru ekki neinar áberandi raddir á meðal Íraka sjálfra um að fá Saddam steypt af stóli. Ég kynntist Íröskum lækni þar sem átti móður og systur í Írak og hann studdi innrásina. Gat ég vitað betur en hann? Vissu aðrir betur en hann? Mér fannst þetta alls ekki ljóst og mig grunar að svo hafi verið um marga íslenska ráðamenn.
Margir málsmetandi menn í dag, þ.á.m. Kofi Annan fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna telja ástandið verra í dag en í tíð Saddams Hussein og má vissulega færa fyrir því sterk rök. Mér sýnist að almenningur og trúarleiðtogar í Írak hafi ekki raunverulegan skilning á því hvað lýðræði er. Þekkingargrunnurinn og reynslan eru hreinlega ekki fyrir hendi og því hangir þetta allt á bláþræði og lýðræðinu er haldið uppi með valdi yfir fólki sem vill lifa eftir lögum Islam. "Ó, hvað við vorum vitlaus!", er auðvelt að segja núna. Hvað mun það sama fólk segja eftir 20 ár ef raunverulegt lýðræði kemst á í Írak? Trúlega þarf það ekki að hafa áhyggjur því líkurnar virðast ekki miklar. Það verður ekki raunverulegt lýðræði þar nema með hægfara hugarfarsbreytingu og frekari lendingu Islam á jörðina. Það þarf "operation Itsjeehad", þ.e. herferð um gagnrýna hugsun innan Islam til að þessi heimshluti breytist.
Nokkrar hetjur boða þennan nýja hugsunarhátt og siðabót innan Islam. Fremst í flokki má telja Afrísk-kanadíska múslimann og lesbíuna Irshad Manji sem kynnti þessa hugmynd í bók sinni "The problem with Islam today" en sú bók hefur vakið mikla athygli fyrir raunsæi og hreinskilna gagnrýni á hugsunarhátt og hegðun þeirra múslima í heiminum í dag sem fylgja þeirri stefnu sem hún kallar "foundamentalism" og hefur tröllriðið íslömskum meningarheim undanfarna áratugi. Í grein í New York Times var hún kölluð "versta martröð Osama Bin Laden" og verð ég að taka undir það því eftir lestur bókar hennar er enginn spurning að hér er á ferðinni sterk kona með hugann á réttum stað.
Nýlegan og merkilegan baráttumann má nefna hin danska Naser Khader sem ritað hefur "tíu boðorð lýðræðisins" (á ensku) fyrir múslima. Margir spá honum frama í stjórnmálum í Danmörku. Nýlega stóð hann fyrir ráðstefnu um skopmyndamálið þar sem Irshad Manji og fleiri framfarasinnar múslima tóku þátt. Ég bíð spenntur að vita hvernig þessum nýju hugarfarslegu leiðtogum múslima mun vegna í framtíðinni. Árangur þeirra mun skipta sköpum um horfur friðar í heiminum næstu áratugina.
Við Íslendingar þurfum að halda áfram og rannsaka vandamál dagsins í dag í stað þess að sýta endalaust ákvarðanir farinna stjórnmálamanna. Eyðum orkunni í að taka betri ákvarðanir í dag og til framtíðar. Það er sjálfsagt að við segjum aldrei neinni þjóð stríð á hendur að fyrra bragði en ef við tökum þátt í varnarbandalögum kemur að því að við þurfum að taka ákvörðun með eða á móti vinþjóðum okkar sem eiga í stríði. Þar getur ekki alltaf dugað að vera hlutlaus. Hvað segðum við t.d. ef Rússar réðust inn í Noreg að ósekju? Myndum við ekki styðja Noreg og NATO?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.12.2006 kl. 09:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu
18.12.2006 | 16:40
Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að vilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út. Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju. Dóm götunnar er erfitt að taka til baka. Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra. Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.
En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki? Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar? Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi? Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní? Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum. Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun. Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.
Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka. Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig. Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni. Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið. Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari.
Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks. Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi. Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði. Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál. Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína. Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun. Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda. Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja.
Það þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum. Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við. Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna. Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni. Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið". Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar. Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju". Fólkið bara fylgir og hlýðir.
Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla. Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Frjálslyndir sættast
14.12.2006 | 17:31
Í gær tókust sættir á milli þingmanna og framkvæmdarstjóra (og ritara) Frjálslynda flokksins á góðum miðstjórnarfundi á Kaffi Reykjavík. Þar sem framundan er landsþing í lok janúar og líklegt að Margrét Sverrisdóttir bjóði sig fram til varaformanns eða jafnvel formanns var talið rétt af sáttanefnd að Margrét tæki sér leyfi sem framkvæmdarstjóri flokksins fram yfir landsþingið í því skyni að jafna aðstöðu forystumanna flokksins í þeirri kosningabaráttu. Þó að ekki væri endilega ljóst hvernig Margrét hefði af því sérstakan hag að vera í framkvæmdastjórastöðu flokksins eða hvort að líklegt væri að hún myndi nokkurn tíma misnota slíka aðstöðu, þá féllst Margrét á tillögu sáttanefndar miðstjórnar. Að auki benti sáttanefndin á að það þjónaði einnig hagsmunum Margrétar að vera laus við skyldur sem framkvæmdastjóri flokksins þennan tíma. Guðjón Arnar taldi fjármálum flokksins samt best falið í hennar höndum áfram og bað hana um að sinna því áfram þó hún færi í leyfi. Hún samþykkti það enda alltaf öll af vilja gerð að taka á sig ábyrgð og sinna mikilvægum málum fyrir flokkinn. Það fer svo eftir úrslitum kosninga á landsþingi hvort að Margrét heldur áfram sem framkvæmdastjóri eða annar forystumaður flokksins að því loknu.
Margrét verður áfram í framkvæmdastjórn flokksins sem kosinn ritari hans og mun þannig koma að undirbúningi landsþingsins. Þá mun það lenda óhjákvæmilega á henni að þjálfa nýjan starfsmann í stöðu framkvæmdarstjóra þingflokks. Engin ráðning liggur fyrir að svo komnu. Þessi starfsmaður mun væntanlega einnig fá verkefni við að undirbúa landsþingið en það liggur e.t.v. ekki ljóst fyrir nú. Miðstjórnin skipaði undirbúningsnefnd fyrir landsþingið sem skipuð er af Guðjóni Arnari Kristjánssyni formanni, Sólborgu Öldu Pétursdóttur og Eyjólfi Ármannssyni miðstjórnarmönnum.
Þrátt fyrir að betri skilningur og ró hafi komist á í miðstjórninni er framundan kosningarbarátta sem gæti haft talsverð áhrif á flokkinn, sérstaklega ef Margrét byði sig fram í sæti formanns. Þar sem ákveðið traust hefur byggst upp að nýju og öldurnar hefur lægt tel ég farsælast fyrir flokkinn og málefnabaráttu hans að ekki verði farið í kapp um formannssætið. Hvað sem verður vona ég að allir aðilar fari fram á eigin verðleikum og sýni ítrustu sanngirni í allri umfjöllun um keppinautinn. Hér er allt fært fólk á ferðinni sem á að þola samkeppni.
Vera mín í miðstjórn Frjálslyndra frá því ég var kosinn í hana á landsþinginu 2005 hefur verið mjög ánægjuleg. Miðstjórnin er mjög samstillt og nú í þessum erfiðu málum í kjölfar aðkomu Jóns Magnússonar að flokknum og breytilegra viðbragða flokksmanna við því hefur hún sýnt að styrkur hennar til að takast á við ágreining af ábyrgð og festu, er mikill.
Ljóst er að baráttumál Frjálslynda flokksins eru aðal atriðið. Við höfum ekki efni á því að tvístra baráttunni í margar fylkingar. Mikilvægast er að viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum og þroska siðferði í stjórnmálum, ekki síst í innra starfi flokkanna. Forystufólk á að velja eftir getu þeirra til samstarfs, málefnalegs þroska og getu til málflutnings, skrifa og lýðræðislegrar stjórnunar. Fólk sem býður sig fram verður að muna að það er ekki öllu fórnandi fyrir embætti. Tilgangur stjórnmála er m.a. að bæta siðferði og skyldi hver og einn byrja á siðferðislegri tiltekt í eigin túni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Siðmennt aðili að Mannréttindaskrifstofu Íslands
13.12.2006 | 12:12
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
---------------------------------------------------
Siðmennt aðili að Manréttindaskrifstofu Íslands
Aðalfundur Mannréttindaskrifstofu Íslands MRSÍ, sem haldinn var í byrjun desember, samþykkti að veita Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi, aðild að samtökunum.
Starf MRSÍ að mannréttindamálum fellur vel að grundvallar baráttumálum húmanista sem flest snerta mannréttindi á einn eða annan hátt. Starfssemi MRSÍ, sem óháðs aðila, hefur verið ein af meginstoðum mannnréttindastarfs á Íslandi en þrátt fyrir það hefur starfssemin ekki notið óskoraðs stuðnings stjórnvalda til þess að sinna mikilvægu hlutverki sínu.
Starf húmaniskra samtaka eins og Siðmenntar hefur fyrst og fremst snúið að grundvallar mannréttindum s.s. lýðræði, trúfrelsi m.a. baráttu fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og baráttu gegn trúboði í skólum, jafnræði samkynhneigðra í þjóðfélaginu, jafnræði lífsskoðanna, jöfnum réttindum kvenna og karla, réttindi fatlaðra á við aðra í þjóðfélaginu svo stiklað sé á nokkrum baráttumálum. Þá hefur Siðmennt hvatt til að heimilaðar verði stofnfrumrannsóknir til þess að nýta megi vísndauppgötvanir til þess að auka möguleika á því að minnka þjáningar fólks sem veikist af alvarlegum sjúkdómum eins og Alzheimer, Parkinsonsveiki og aðra alvarlega sjúkdóma. Helsta baráttumál Siðmenntar nú er að félagið öðlist jafnan rétt á við önnur trúar- og lífsskoðunarfélög með lagasetningu þar um.
Aðalfulltrúi Siðmenntar í stjórn MRSÍ er Bjarni Jónsson en Hope Knútsson er varafulltrúi.
----------------------------------------------------------------------
Ég fagna með Siðmennt í tilefni þessa góða áfanga í starfi félagsins. Siðmennt hefur nú í tvö ár veitt sérstaka húmanistaviðurkenningu þeim sem hafa skarað fram úr í mannréttindabaráttu á Íslandi. Í fyrra var Samtökunum '78 veitt viðurkenningin fyrir ötula baráttu fyrir samkynhneigða og í ár var Ragnari Aðalsteinssyni hdl veitt viðurkenningin fyrir áralanga mannréttindabaráttu á lagasviðinu.
Það er von mín að ríkistjórnin rétti hlut MRSÍ og veiti þeim mun meira fjármagn til rekstrar en áður hefur verið. MRSÍ er undirmönnuð en þar er unnið mikið og gott starf undir framkvæmdastjórn Guðrúnar D Guðmundsdóttur.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)