Færsluflokkur: Mannréttindi

Gagnsemi?

Ég ber mikla virðingu fyrir hugsjónum og baráttu John Lennons og Yoko Ono hefur verið fánaberi hennar síðan hann var myrtur.   Hins vegar er ég efins um gagnsemi hluta eins og upplýstra friðarsúlna.  Vissulega er viðburðurinn og upplýstur himininn áminning um að gleyma ekki friðarbaráttu og þjáningum þeirra sem verða fyrir barðinu á stríði, en hverju fær þetta áorkað á endanum?  Tryggir þetta einhverjar framkvæmdir?  Hætta talibanar og Al-quada við sitt jihad?  Róast herskáir Baskar?  Fæðast nýjar hugmyndir og nálganir að friðarferlum?  Mætti verja fénu sem fer í fyrirbærið í eitthvað annað gagnlegra?

E.t.v. kann ég ekki að meta nóg framtak frægs fólks til að vekja athygli á ákveðnum málaflokkum og er ekki nógu menningarlega sinnaður.  Maður fær svolítið á tilfinninguna að í enn eitt skiptið sé fræg manneskja að vekja mest athygli á sjálfri sér og sínum nánustu með flottum minnisvörðum og yfirborðslegri umfjöllun um frið.  Auðvitað þykir okkur Íslendingum þægilegt að geta baðað okkur í sviðsljósi þessa dáða fólks og hirt upp nokkra brauðmola í leiðinni, en er þetta ekki pínulítið gervilegt? Verður uppskeran einhver önnur en sú að okkur líði örlítið betur með okkur sjálf? Er eitthvað af viti í gangi hér?  Er búið að bjóða einhverjum stríðandi aðilum í umræður í tengslum við þetta?  Það hefði ég viljað sjá. 

Ég vona að ég hafi hryllilega rangt fyrir mér og að þessi viðburður sé mikilvægur og marki einhver skref í átt til friðar í heiminum.  Ljóssúlan verður án efa stórkostleg sem slík og þetta verður voða kósí viðburður og stemming, en þangað til ég sannfærist um eitthvert raunverulegt gildi hennar er hún nánast bara "symbolic" í mínum huga.   Woundering


mbl.is Ein friðarsúla nægir Yoko Ono
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magni! Gneisti!

Í Fréttablaðinu í gær 5. okt 07, á bls 24 var birt grein Sr. Hjartar Magna Jóhannssonar sóknarprests í Fríkirkjunni sem bar heitið "Eru húmanistar óvinir Krists?"  Í greininni ræðir hann um það hversu jákvæð lífsskoðun húmanista sé og að hún eigi samleið með þeim boðskap Krists í að "reis[a] upp þá niðurbeygðu og ger[a] heila og mynduga þá sem á vegi hans verða".  Þessu er ég algerlega sammála.  Mannvirðingin er í kjarna húmanisma og þessa boðskapar Krists.  Hjörtur Magni lýsir þeirri kristni sem hann aðhyllist og hún er greinilega umburðarlynd og stefna sameiningar um góða hluti, ekki sundrungar og fráhrindinga.  Hjörtur Magni er sá veglyndasti og siðferðislega þroskaðisti prestur sem ég hef kynnst og fylgst með.

Í Blaðinu í gær á bls 15 skrifar Óli Gneisti Sóleyjarson um þá gagnrýni sem prestar Þjóðkirkjunnar höfðu uppi um gifinguna á vegum Siðmenntar í Fríkirkjunni í síðasta mánuði í greininni "Um guðs hús, krónur og aura".  Hann veltir því fyrir sér hvort að prestarnir séu argir út í Siðmennt vegna þess að þeir sjái fram á tekjutap við að athafnir færist yfir til Siðmenntar.  Ég hef ekki heyrt neinn prest kvarta yfir því beinum orðum, en e.t.v. er þetta einhver minni ástæða sem þeir hafa ekki nefnt.  Hins vegar ósköpuðust þeir mikið yfir því að þetta væri vanhelgi.  Óli Gneisti bendir réttilega á að Siðmennt hafi enga eigin aðstöðu eins og er, og því ættu prestar að styðja félagið í að fá skráningu sem lífsskoðunarfélag og sömu réttindi og trúfélög.  Þannig yrði félagið smám saman fært um að koma sér upp sínu eigin húsnæði. 

Um 19.1% þjóðarinnar (+/- 2.5%) segjast "ekki trúaðir" samkvæmt stórri könnun Gallup árið 2004.  Er ekki kominn tími til að þessi 1/5 hluti þjóðarinnar fái tækifæri til að skrá sín "sóknargjöld" í það lífsskoðunarfélag sem höfðar mest til hans?


Húmanismi - lífsskoðun til framtíðar

Hér fer grein mín sem birtist i Mbl í gær sunnud. 30. sept 07.:

Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum  víða um heim og þá sérstaklega í hinum „vestræna“ hluta hans. Fólk  hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu. Óskorað vald karlmanna hefur smám saman orðið að víkja og stærsti sigurinn vannst þegar konur fengu kosningarrétt á fyrri hluta 20. aldarinnar þrátt fyrir mikla andstöðu kirkjudeilda og íhaldssamra stjórnmálaafla.   Mismunun vegna kynþáttar eða kynhneigðar hefur víða mátt víkja en helst eru það trúfélög sem standa á móti rétti samkynhneigðra til að njóta sömu þjóðfélagsstöðu og aðrir í heiminum. 

Í húmanismanum felst heimsspekileg náttúruhyggja (að lífið eigi sér náttúrlegar skýringar), skynsemishyggja (treysta á vitræna getu okkar) og efahyggja, þ.e. að nýjar staðhæfingar eða tilgátur séu ekki teknar trúanlegar nema að þær standist rökfræðilega skoðun og prófanir, t.d. með aðferðum vísindanna.   Einn stærsti sigur húmanískra hugsjóna var stofnun Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) og gerð mannréttindayfirlýsingar þeirra.   Alþjóðasamtök húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) hafa alla tíð starfað náið með SÞ og það var fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, líffræðingurinn Julian Huxley sem var einnig fyrsti forseti menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, UNESCO árið 1946.  Einn þekktasti trúleysingi og mannúðarsinni síðustu aldar var Englendingurinn Bertrand Russell (1872-1970) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1950 fyrir skrif í þágu frálsrar hugsunar.

Nú á tímum upplýsingaflæðis og alþjóðavæðingar er á ný sóst að skynsemishyggju og húmanískum gildum með lúmskri trúarlegri innrætingu, „pólitískt réttum“ yfirgangi bókstafstrúarfólks og uppgangi gervivísinda sem notfæra sér glundroða þann sem ófullnægjandi raungreinakennsla og stundum óvandaður fréttaflutningur um vísindi og læknisfræði hafa skapað í hugum fólks.  Vegna þessa hafa fjölmargir fylgjendur manngildissins og velferðar hins lýðræðislega samfélags risið upp og komið saman í æ meira mæli sem húmanistar víða um heim.  Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því að það eru ekki aðeins bókstafstrúarmenn sem ógna húmanískum gildum eins og mannréttindum heldur einnig hin svokölluðu hófsömu trúarbrögð með því að viðhalda grunninum að hinum trúarlega og forneskjulega hugmyndaheimi þeirra.

Margt  fólk er að vakna til vitundar um mikilvægi húmanismans, t.d. sem sú lífsskoðun sem er öflugusta vopnið gegn kúgun kvenna víða um heim.  Fyrirlestar baráttukonunnar Maryam Namazie á dögunum báru þess glöggt vitni.  Sómalski rithöfundurinn, femínistinn og trúleysinginn Ayaan Hirsi Ali benti einnig á hættuna af trúarlega tengdu siðferði í sjónvarpi og blöðum nýlega.

Á Íslandi hafa húmanistar átt sitt lífsskoðunarfélag frá 1990 en það heitir Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Á næsta ári á borgaraleg (veraldleg) ferming 20 ára afmæli og er það sérstakt ánægjuefni því nær 1000 ungmenni hafa hlotið húmaníska lífssýn í gegnum fermingarfræðslu félagsins  á þessum árum.  Það stefnir nú í metþátttöku á afmælisárinu.  Siðmennt nýtur ekki þeirra fríðinda að fá félagsgjöld í formi "sóknargjalda" innheimt og afhent af ríkinu líkt og trúfélög á Íslandi fá, þrátt fyrir að standa fyrir þau gildi sem stuðla að hvað mestri mannvirðingu, jafnrétti og bestu menntun allra landsmanna.  Ég vil hvetja það fólk sem telur sig vera húmanista að skrá sig „utan trúfélaga“ á skrifstofu Þjóðskrár og ganga til liðs við Siðmennt. Vefsíða félagsins er www.sidmennt.is. Þetta er mikilvægt því húmanistar þurfa að standa saman og verja og rækta gildi sín. Siðmennt þarfnast þess að fólk sem telur sig eiga samleið með húmanískum lífsgildum gangi til liðs við félagið til að stuðla að uppbyggingu veraldlegra valkosta við félagslegar athafnir eins og útfarir, nefningar og giftingar.  Það er sérstaklega ánægjulegt að í vetur mun Siðmennt bjóða uppá þjálfaða athafnarstjóra fyrir veraldlegar útfarir í fyrsta sinn.  Tökum höndum saman.

Imagine - minnisvarði um John Lennon

Þegar George Harrison dó árið 2001, var minnisvarðinn um John Lennon í Central Park, skreyttur blómum og fólk kom þar saman og söng lög eftir Harrison.   Það var eftirminnileg stund.  Þessi mynd er frá þeim stað árið 2004.  Minnisvarðinn "Imagine" vísar til samnefnds lags Lennons þar sem hann yrkir: "ímyndið ykkur heiminn án trúarbragða". 


50 grænir þingmenn

Fylgjendur Sri Chinmoy á Íslandi fengu undirskrift 50 íslenskra þingmanna til stuðnings þeirri tillögu að Sri Chinmoy fengi friðarverðlaun Nóbels.  Þessir þingmenn virðast hafa gert þetta í trausti þess að sá sem mælti með Sri Chinmoy vissi sínu viti og að Sri Chinmoy væri friðarhetja.  Af mikilli velvild og okkar séríslenska græningjahætti gagnvart óviljandi misnotkun skrifuðu 50 fulltrúar lýðveldisins undir.

Vissulega lítur maðurinn friðarlega út í kuflinum sínum og hugleiðsla er jú ákaflega friðsæl.  En hafði hann gert eitthvað annað en að vera gúrú?  Hefur Sri Chinmoy skilað einhverju markverðu til friðarmála annað en tala um frið á samkomum?  Ég hef ekki séð neitt sem sannfærir mig um slíkt og talsmaður hans í kastljósinu í vikun bar ekki fram neinn sannfærandi vitnisburð um slíkt.  Það gæt þó verið að hann hefði stuðlað að friði einhvers staðar.  Ég ætla ekki að útiloka það.

Hins vegar er það umhugsunarefni að Sri Chinmoy er leiðtogi samtaka sem að mörgu leyti minna á trúarkölt.  Ýmsar reglur sem hann leggur fólkinu sem aðhyllist kenningar hans eru óeðlilegar, eins og þær að kynlíf sé slæmt og það er erfitt að yfirgefa hópinn án þess að sæta miklum ámælum.  Þá eru kraftasýningar hans brandari og ákaflega barnalegar.  Þá á hann að hafa málað 13 milljónir blómamynda á 13 árum og ort ótrúlegan fjölda ljóða.  Það er nánari lýsing á þessum atriðum á þessari síðu Vantrúar og vitnað þar í heimildir til frekari upplýsingar um Sri.  Einnig má sjá umfjöllun á síðu Rick A Cross en hann er með gagnagrunn um varasöm költ.

Mér finnst ekki verjandi að mæla með manni sem gasprar um frið um allar trissur en lætur svo eins og einhver heilagleiki, heldur fáránlegar kraftasýningar, ýkir gróflega afköst sín í listum og hvetur fólk í samtökum sínum til alls kyns heftandi hegðunar.  Maður sem maður mælir með til friðarverðlauna hlýtur að þurfa að sýna af sér fyrirmyndar hegðun og búa yfir persónuleika sem hægt er að bera virðingu fyrir mörgum sviðum.  Viðkomandi þarf að hafa víðtæka skírskotun til fólks og geta með samræðum og jákvæðum áhrifum sínum á stríðandi aðila haft raunveruleg áhrif til friðar og bættra samskipta.   Það er ekki hægt að kjósa menn út á friðelskandi ímynd eina saman.

Eigum við ekki frekar að stinga uppá Ástþóri Magnússyni, fyrrverandi forsetaframbjóðenda?  Maðurinn elskaði jú friðinn.  Halo


Til útskýringar á hugtökum og orðum

Undanfarin blogg hafa mörg hver innihaldið myndbönd þar sem umræða um trúarbrögð (religion) og hinar ýmsu lífsskoðanir og hugtök þeim tengd hafa komið fram á ensku.  Fyrir þá sem eru ekki vanir að hlusta á ensku sem tengist þessum málum getur verið erfitt að skilja öll þau orð og hugtök sem notuð eru í þessum myndböndum.  Ég ætla því að setja hér nokkrar þýðingar og útskýringar á nokkrum þeirra.

Religion - trúarbrögð, faith - trú

Life stance organization - lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför).  Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda.  Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar.  Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.

Islam - Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð.  Á arabísku þýðir orðið "undirgefni" eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns.  Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.

Islamist - Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða.  Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga.  Lög Islam kallast sharia.  Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði.  Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.

Hijab, burka - arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima.  Burkan hylur allt nema augun.  Veil - blæja eða hula.

Intimidation - það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum

Secularism / secularity - veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum.  Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri. 

secular - veraldlegur.  Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú.  Dæmi: secular funeral - veraldleg jarðarför.  Secular socitey - veraldlegt þjóðfélag.   Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum. 

Transgression - brot gegn ríkjandi lögum. 

misogynist religion/society - trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti

Apologist - Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni.  Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.

Atheist - Guðleysingi eða trúleysingi.  Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds.  Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.

Humanist - húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma.  Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu.   Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi.  Hope Knútsson er formaður þess.

Cultural relativism - Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism - siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað.  Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa.  Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir.  Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.

Universal values, universal rights, natural rights - algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna.  Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi.  Afkvæmi þessa voru mannréttindin.  Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi.   Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.

Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við.  Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna.  Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.


"Berjum eiginkonuna létt til hlýðni!"

Ég starfaði á spítala í New York borg í 6 ár (1998-2004) og vann þar meðal heilbrigðisstarfsfólks úr öllum hornum heimsins, þar á meðal múslimum frá Jórdaníu, Írak, Sýrlandi, Íran, Indlandi, Pakistan og nokkrum Afríkulöndum.   Flestir múslimarnir á minni deild (lyflækningar) voru karlmenn en ein kona var frá Íran og önnur frá Jórdaníu.  Hvorugar þeirra báru höfuðblæju en tvær konur sem voru læknar á barnadeild huldu hár sitt.   Sú Jórdanska á minni deild var eiginkona umsjónarlæknis unglæknanna og var hann einnig frá Jórdan.  Þau sögðu sig reyndar vera frá Palestínu upphaflega en foreldrar hans höfðu misst sitt land þar.  Aðspurð um lausn deilunnar við Ísraelsmenn sagði konan að það ætti að reka Ísraelsmenn á haf út.  Engin málamiðlun þar.  Eiginmaðurinn hét Ryan og sökum hversu strangur og ósveigjanlegur hann var við unglæknana fékk hann viðurnefnið "Private Ryan", þ.e. hermaðurinn Ryan.  Það voru allir fegnir þegar hann hætti og fékk stöðu á öðrum spítala.  Á meðan hann var við lýði fékk konan hans næturvaktir yfir Ramadam (föstumánuðinn) tímann þannig að þá gat hún borðað á nóttunni og sofið af sér föstuna á daginn.  Þetta komust þau upp með tvö ár í röð. 

Árið eftir að Ryan hætti var konan hans (vil ekki nefna nafn hennar) áfram í prógramminu að ljúka sínu síðasta ári.  Einn daginn fréttum við að því að hún hafði tilkynnt sig veika en hún átti að starfa á gjörgæsludeildinni og það var slæmt að missa af læknum þaðan vegna mikils vinnuálags.  Hún kom aftur til vinnu tæpri viku síðar.  Þegar ég sá hana brá mér en því miður var ég ekki alls kostar hissa á því sem ég sá.  Hún hafði glóðarauga kringum bæði augu og hægri handleggurinn var í fatla.  Hún sagðist hafa dottið en það var deginum ljósara að hún hafði verið barin í spað.  Hún var ólík sjálfri sér, var hljóð og hélt sig út af fyrir sig.  Ég hugsaði eiginmanni hennar þegjandi þörfina en ég var ekki nógu hugaður til að skipta mér af þessu eða reyna að tala við hana um þetta.  Mér fannst að það myndi ekki breyta neinu í lífi hennar.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að vinur minn Steindór J Erlingsson benti mér á myndbandið sem fér hér að neðan og sýnir þá óskammfeilni sem talsmenn Kóransins sýna með því að bera upp á borð kvenhatandi ritningar þeirrar bókar í sjónvarpi án þess að blikna.  Þessi vel klæddi íslamski karlmaður lítur út eins og nútímamaður en trú hans er vel framreidd villimennska.

Þessi maður gæti rétt eins verið Dr. Ryan

 


Fyrirspurnir til Maryam Namazie á Hallveigarstöðum

Hér að neðan fer videoupptaka mín frá fyrirspurnartíma á fyrirlestir Maryam Namazie að Hallveigarstöðum 5. september s.l.  Fundurinn var haldinn í boði Kvenréttindafélgas Íslands og fjallaði aðalega um blæjuna og stöðu kvenna í löndum þar sem Islam er við lýði.

Ég vil hvetja alla landsmenn til að kynna sér hvað Maryam Namazie hefur að segja því það hefur mikið gildi hvað stefnumótun og afstöðu við hér á landi viljum taka til mikilvægra mannréttindamála og hvernig við eigum að berjast gegn yfirgangi Islamista og bókstafstrúarfólks sem vill koma trú sinni í hið opinbera kerfi og fá pólitísk völd.


Stórmerk baráttukona heimsækir Ísland

Í byrjun september mun baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie heimsækja Ísland í boði Alþjóðamálastofnunar Hí, Siðmenntar og Skeptikus. Hún mun halda hér tvo opinbera fyrirlestra dagana 5. og 6. september.

Sá fyrri verður þann 5. september í boði Kvenréttindafélags Íslands sem stendur fyrir s.k. súpufundi kl. 12:00 í samkomusal Hallveigastaða. Á fundinum mun Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: "Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule", sem á íslensku merkir "Réttindi kvenna, blæjan og íslamskt yfirvald".

Sá síðari verður þann 6. september kl. 12:15-13:15 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, flytur hún fyrirlesturinn "Afneitun trúarinnar, fyrrum múslímar og áskoranir pólitísks islams"
Maryam Namazie flytur erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Siðmenntar og Skeptíkusar. Maryam Namazie fjallar um afneitun trúarinnar, fyrrum múslima og þær áskoranir sem pólitískt islam stendur frammi fyrir. Hér fjallar hún um uppgang pólitísks íslams í Evrópu og leiðir til að sporna gegn því.

Maryam Namazie

Maryam Namazie er baráttukona, álitsgjafi og útvarpskona um málefni Írans, Austurlanda nær, kvenréttinda, menningarlegrar afstæðishyggju, veraldarhyggju, húmanisma, trúarbragða, Íslams og hins pólitíska Íslams.

Hún er talsmaður Ráðs fyrrum múslima í Brétlandi. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sleitulaus störf sín í þágu mannréttinda.

Maryam Namazie fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún hlaut síðar menntun sína í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í gegnum tíðina hvað varðar mannréttindi kvenna, Íslam, flóttamenn, Íran og. fl.

Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar og bloggsíðu

Í tilefni komu þessarar aðdáunarverðu konu hef ég þýtt grein hennar

Blæjan og ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögum

með leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007 og birt í fullri lengd á vef Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Hér fer kröftug ræða hennar á blaðamannafundi þegar Ráði fyrrum múslima í Brétlandi var ýtt úr vör

 


Hefði gert slíkt hið sama

Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir.  Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir.  Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.  Björn sýndi engan skilning.  Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög.  Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning.  Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera.  Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi. 

Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga).   Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.  

Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði.  Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega.  Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna.  Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði.  Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular).  Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár. 

Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979.  Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi.  Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO.  Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley.  Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu. 

Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning.  Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framsókn stækkar á kostnað Sjálfstæðisflokks

Fyrirsögn Mbl.is er sérstök ("Samfylking og Vg bæta við sig").  Af henni mætti ráða að xS og xV væru í sókn en í raun eru þau saman með 2 þingmönnum minna en fyrir 2 dögum síðan.  Það er auðvitað hægt að miða við gærdaginn en það var í fyrradag sem einhver marktæk breyting varð á fylgi Fylgi flokka 7-9 mai 07flokkanna.  Fyrirsögnin ætti því að vera "Framsókn heldur enn í fylgisaukningu sína".    Það er ljóst að Framsókn hefur fengið mest af þessu nýja fylgi frá Sjálfstæðismönnum en etv. voru fylgismenn þeirra í "felum" þar og eru nú að sækja í viðjur vanans (eða hlýða fjölskyldunni) heim til xB. 

Frjálslyndir hafa fengið 4. manninn og því hefur Kaffibandalagið aðeins misst 1 mann frá því fyrir 2 dögum og hefur samtals 31 þingmann.   Stjórnin hangir á bláþræði með 32 þingmenn. 

Íslandshreyfingin er föst í 2-3% og atkvæði þeirra eru því miður dauð, þ.e. gagnast engum.  Að vísu virtist slatti af atkvæðum þangað koma frá Sjálfstæðismönnum (um 4% af fyrri kjósendum þeirra, þ.e. 4% af 36%) samkvæmt könnunni fyrir 2 dögum síðan og birt var í prenti á síðum Morgunblaðsins.   Talsvert færri komu frá Vinstri grænum (3.6% af 9%) og fylgi frá xB og xS var vart mælanlegt.  Þessar tölur gáfu ekki til kynna hversu mikið af nýjum kjósendum væru að kjósa Íslandshreyfinguna en mér sýnist að óhætt sé að álykta að framboð flokksins sé ekki að valda töpuðum jöfnunarsætum frá stjórnarandstöðunni og er það mér léttir.

Kjósa þarf stjórnarandstöðuflokkana og koma ríkistjórninni frá af eftirfarandi ástæðum:

  • Stöðva þarf ofþenslu í efnahagslífinu og koma stýrivöxtum niður en þeir stýra m.a. því hversu miklir vextir eru á yfirdráttarheimildum.
  • Stöðva þarf frekari stóriðju, sérstaklega á suðvestur horninu.  Eina álverið sem ég sæi mögulegt til viðbótar er álver við Húsavík en náttúra landsins er betur sett án þess.  Getur ein ríkasta þjóð heims virkilega ekki fundið annað að gera en að reisa mengandi stóriðju?
  • Með því að hætta við frekari stóriðju kólnar hagkerfið og því skapast skilyrði til að afnema þá ósanngjörnu skattheimtu á íbúðarkaupendur sem kallast stimpilgjald (1.5% af lánsupphæð til íbúðarkaupa).  Ríkisstjórnin braut loforð sitt um að afnema þennan óréttláta skatt á kjörtímabilinu.  Því ættum við að treysta þeim nú til að gera það?
  • Gera þarf innflytjendalöggjöf manneskjulegri.  Burt með 24-ára makaregluna sem ríkisstjórnin kom á.  Dómstólar hafa dæmt hana á skjön við stjórnarskránna.  Leyfa þarf innflytjendum að kjósa fyrr, t.d. eftir 2 ára fasta búsetu hér. 
  • Leiðréttum kjör aldraða og öryrkja með því að taka af þessar fáránlegu skerðingar og setjum fé í að auka heimaþjónustu og byggja fleiri hjúkrunarrými (fyrir þá mest heilsuskertu).   Það eru enn tugir eldra fólks á bráðdeildum Landspítalans og ríkisstjórnin hefur ekki náð að ráða við þennan vanda s.l. 16 ár.   Við erum verr sett í þessu en fátækasta borgarhverfi New York borgar, Suður-Bronx en þar vann ég á spítala í 7 ár.  Fólk er aldrei lagt þar inn á ganga eins og tíðkast hér enn.
  • Hækka þarf persónuafsláttinn og frítekjumarkið.  Sú breyting gagnast þeim lægst launuðu best.  Ég er ekki fylgjandi hátekjuskatti því að hann skekkir launasamanburð og kemur niður á fólki sem leggur á sig mikla vinnu. 
  • Aðskilja þarf ríki og kirkju, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum.  Kirkjan kostar ríkið tæpa 4 milljarða í rekstri á ári hverju.  Prestar fá of há laun (prestur í sæmilega stóru prestakalli fær betri grunnlaun en sérfræðingur á sjúkrahúsi) og vinna þeirra og kaup ætti að vera háð markaðslögmálun en ekki föstum launum frá ríkinu.  Allar nútímalegar stjórnarskrár í ríkjum Evrópu kveða á um aðskilnað ríkis og trúar.  Við lifum við veraldlegt stjórnarfar að grunni til og við eigum að hafa það algerlega á hreinu að svo sé á öllum sviðum.  Núverandi fyrirkomulag hangir í trúarhefð sem á ekki rétt á sér og sást það m.a. á áhrifum kirkjunnar á lagasetningu varðandi leyfi trúfélaga til að gefa saman samkynhneigða.  Ferð alþingismanna í kirkju fyrir setningu alþingis er brot á jafnrétti og þeirri kröfu að þjóðin sé að kjósa sér veraldlega fulltrúa á þing, ekki trúarlega.  Alþingi er ekki trúarstofnun og á ekki að eiga nein viðskipti við þjóðkirkjuna eða aðrar slíkar.   Þó að aðeins Frjálslyndi flokkurinn sé sá eini sem hafi það skýrt í stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju, þá eru það stjórnarflokkarnir sem halda fastast í núverandi fyrirkomulag. 
  • Aðskilja þarf kirkju og skóla.  Þjóðkirkjan er með trúarlega starfsemi í nokkrum skólum undir heitinu "Vinaleið".   Menntamálaráðherra hefur bent á skólana og skólarnir bent á ráðherrann.  Margir hafa ályktað gegn þessari starfsemi, m.a. samtökin Heimili og skóli, Siðmennt, SUS í Garðabæ, Ungir Vg og fleiri.  Afnema þarf klausuna "kristilegt siðferði" í grunnskólalögunum því það er "almennt siðferði" sem gildir í skólum landsins. 
  • Gefa þarf lífsskoðunarfélögum (félög sem fjalla um siðferði, lífssýn, heimssýn og félagslegar athafnir fjölskyldunnar) sömu réttarstöðu og trúfélögum, þ.e. að þau fái skráningu og "sóknargjöld" rétt eins og þau.  Til þess að svo verði þarf lagabreytingu en Allsherjarnefnd Alþingis og Björn Bjarnason dóm- og kirkjumálaráðherra hafa ekki haft áhuga á því að verða við þessari sjálfsögðu breytingu.   Því á Siðmennt að líða fyrir það að trúa ekki á æðri mátt?  Um 19.1% (+/- 2.6%) eru trúlausir á Íslandi.  Þetta er stór hópur og ætti að hafa rétt á því að það lífsskoðunarfélag sem er fánaberi skoðunnar þeirra njóti jafnréttis í landinu.
  • Jafnrétti í launaþróun kynjanna.  Við erum með versta launamun kynjanna í nær allri Evrópu!!  Hvar er beiting núverandi stjórnvalda fyrir leiðréttingu á þessu?
  • Vinnuþjörkun.  Við vinnum þjóða mest í vestur-Evrópu.  Er ekki tími til kominn að hlúa betur að fjölskyldum þjóðfélagsins og gera okkur kleift að lifa lífinu utan vinnutímans?  Við búum í okursamfélagi þar sem höft á samkeppni (t.d. stimpilgjöldin) og jaðarskattar eru að klyfa heimilin.  Ég hef ekki séð þetta mál á dagskrá hjá stjórnarflokkunum.
  • Menntun.  Stjórnarflokkarnir eru líklegri en hinir að halda áfram með gjaldtöku í skólakerfinu og auka skráningargjöld.  Menntun er grundvallarforsenda áframhaldandi framþróunar og vaxtarsprota og fjölbreytni í atvinnulífinu.  Menntun á að vera öllum aðgengileg, líka fólki úr fjölskyldum sem hafa tekjur undir svokölluðum fátæktarmörkum.
  • Sjávarútvegsmál.  Sanngjarnari atvinnustefna og betri fiskveiðistefna verður ekki tekin upp hjá núverandi stjórnvöldum.  Þarna er verulega brýnt að snúa þróuninni við og kjósa stjórnarandstöðuna.  Allir í bátana, krefjumst atvinnuréttar okkar!

Íslenskt stjórnarfar þarf breytingu og aukna áherslu á mannréttindi og bætt kjör þeirra verst settu.  Náttúra Íslands þarf aðhlynningu og stóriðjustefnan þarf að víkja.  Efnahagskerfið þarf kælingu og stýrivextir og verðbólga að lækka - þannig minnkar sjálfkrafa streymi erlends verkafólks inn í landið.  Það er kominn tími á áherslubreytingar og framfarir á sviðum sem stjórnarflokkarnir eru blindir á.  Því miður eru atkvæði greidd Íslandshreyfingunni "dauð" nema að þau komi frá fyrrum kjósendum stjórnarflokkanna. 

Kjósum til breyttra og betri tíma, kjósum nýja stjórn!

 


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband