Kominn úr bloggfríi
17.8.2007 | 13:54
Nú er bloggfríi mínu lokið enda búinn að hlaða á batteríin eftir ferðir sumarsins á hálendið. Ég gekk í góðu föruneyti Fimmvörðuhálsinn, Laugaveginn og Öskjuveg. Þá fór ég í skemmtilega jepplingaferð með minni heittelskuðu um Snæfellsnesið. Það nes hættir aldrei að koma mér á óvart hvað fegurð varðar. Nýji þjóðgarðurinn yst á nesinu er til fyrirmyndar hvað merkingar varðar og það gerði ferðina skemmtilegri. Snæfellsnesið skartar miklu fuglalífi og þar hafði krían greinilega nóg æti.
Nú stendur Græna ljósið fyrir kvikmyndahátíð í Regnboganum og mun þar sýna m.a. góðra mynda, nýjasta afsprengi baráttumannsins Michael Moore sem heitir "Sicko". Myndin fjallar um kosti og galla Bandaríska heilbrigðiskerfisins og ber hann það einkum saman við hið Kanadíska. Á netinu rakst ég á umfjöllun Kanadísks fréttablaðs um læknisfræði um myndina en það fékk nokkra sérfræðinga þar í landi til að gefa álit sitt. Myndinni var bæði hælt og gefin gagnrýni. Athyglisvert er að einn viðmælandanna heitir Adalsteinn Brown.
Í ritstjórnargrein New York Times 12. ágúst s.l. er fjallað í góðu en gagnorðu yfirliti um takmarkanir Bandaríska heilbrigðiskerfisins. Greinin heitir "World's best medical care?". Ýmislegt í greininni kannaðist ég við frá því að ég starfaði í New York árin 1998-2004. Þó að ýmsir gallar séu á kerfinu þeirra má margt læra af Bandaríkjamönnum, eins og t.d. öguð vinnubrögð og viðhald lágmarks staðla í umönnun án undantekninga. Hér á ég við hluti eins og að leggja aldrei bráðveikt fólk inn á ganga legudeilda og koma öldruðu fólki fyrir á hjúkrunarheimilum í stað langlegu á bráðadeildum. Í fátækasta hverfi NY borgar, The Bronx var betur staðið að þessum málum en í Reykjavík.
Ég vona íslenskt heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur í kerfinu okkar sjái "Sicko" því myndin er prýðis hugvekja um þessi mál.
Meginflokkur: Heilsa | Aukaflokkar: Ferðalög, Kvikmyndir, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvað segir fólkið um "Sicko"?
Ég fór á hana í vikunni og þótti hún góð. Vissulega er hún ekki sérstaklega vísindaleg þar sem það er ekki farið í talnalegan samanburð en þess þarf trúlega ekki þar sem gallarnir á Bandaríska einkatryggingakerfinu eru svo augljósir. Hér er nóg að benda á slatta af dæmum sem augljóst er að hefðu fengið aðra meðhöndlun í Kanada, Brétlandi eða Frakklandi. Hins vegar fannst mér Kúbuferðin ekki sýna raunveruleikann. Spítalar á Kúbu eru vanbúnir tækjum og ýmsu er þar ábótavant undir harðstjórn Castrós. Hins vegar er þar ókeipis þjónusta sem er jú betra en Bandaríkjamenn bjóða sínum þegnum. Upptökurnar á Kúbu báru keim af sviðsetningu. Annars ánægður með Sicko
Svanur Sigurbjörnsson, 26.8.2007 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.