Til útskýringar á hugtökum og orðum

Undanfarin blogg hafa mörg hver innihaldið myndbönd þar sem umræða um trúarbrögð (religion) og hinar ýmsu lífsskoðanir og hugtök þeim tengd hafa komið fram á ensku.  Fyrir þá sem eru ekki vanir að hlusta á ensku sem tengist þessum málum getur verið erfitt að skilja öll þau orð og hugtök sem notuð eru í þessum myndböndum.  Ég ætla því að setja hér nokkrar þýðingar og útskýringar á nokkrum þeirra.

Religion - trúarbrögð, faith - trú

Life stance organization - lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför).  Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda.  Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar.  Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.

Islam - Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð.  Á arabísku þýðir orðið "undirgefni" eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns.  Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.

Islamist - Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða.  Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga.  Lög Islam kallast sharia.  Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði.  Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.

Hijab, burka - arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima.  Burkan hylur allt nema augun.  Veil - blæja eða hula.

Intimidation - það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum

Secularism / secularity - veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum.  Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri. 

secular - veraldlegur.  Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú.  Dæmi: secular funeral - veraldleg jarðarför.  Secular socitey - veraldlegt þjóðfélag.   Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum. 

Transgression - brot gegn ríkjandi lögum. 

misogynist religion/society - trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti

Apologist - Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni.  Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.

Atheist - Guðleysingi eða trúleysingi.  Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds.  Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.

Humanist - húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma.  Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu.   Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi.  Hope Knútsson er formaður þess.

Cultural relativism - Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism - siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað.  Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa.  Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir.  Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.

Universal values, universal rights, natural rights - algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna.  Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi.  Afkvæmi þessa voru mannréttindin.  Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi.   Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.

Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við.  Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna.  Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Sigurðsson

Sæll Svanur, kærkomin fróðleikur í minn garð :)

Ég copy pastaði þetta inn á minn privat harða disk, vonandi er það í lagi.

Takk takk.

Mbk. Sigurjón Sigurðsson

Sigurjón Sigurðsson, 10.9.2007 kl. 09:04

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Sigurjón

Það er meira en velkomið  - Bk

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 10.9.2007 kl. 21:22

3 identicon

Takk kærlega fyrir Svanur,

ekki hafði ég öll þessi atriði á hreinu. Ég er ánægður með að hafa loksins ratað á efni sem á morgun er ekki hægt að kalla 'gömul dægurmál' eins og jafnan er tilfellið með krækjur mbl.is og reyndar fréttir almennt. Það er ótrúlegt til þess að hugsa hve margt við prentum á pappír á hverjum degi sem ekki getur talist til almennrar fræðslu þó að fróðleikur rati raunar oft óbeint til lesanda dagblaða.

Í dag eyddi ég tíma mínum í að lesa sömu frétt frá tveimur miðlum um að Nawaz Sharif væri í flugvél á leiðinni til Pakistan og aðra um að stuðningsmenn væru "að undirbúa heimkomu hans".  Þessar fréttir teljast ekki merkilegustu fréttirnar úr pakistönskum stjórnmálum þessa vikuna því það að Sharif hafi ákveðið að fljúga til Pakistan, og svo að Sharif hafi verið handtekinn í Pakistan og sendur heim stuttu eftir lendingu eru hvoru tveggja talsvert merkilegri fréttir. Þær gera, hvor um sig, fréttina um að Sharif sitji í flugvél óþarfa.

Gerum greinarmun á tímabundnum og klassískum fróðleik og lærum að meta þann síðarnefnda!

Þessi skrif mín eru kannski skild nöldri fólks um birtingu slúðurs í fjölmiðlum. Nöldrað hef ég í þegjandi hljóði yfir slúðri.  Því hef ég greinilega rekið augu mín vísvitandi í fyrirsagnir og slúðurfréttir í subbulegri hlutum dagblaða og , eins og kemur fram hér að ofna, lesið upp til agna flugsögur glataðra pakistanskra stjórnmálamanna. 

 Kv.

Gunnar Geir 

Gunnar Geir Pétursson (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 22:19

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Gunnar Geir

He he já maður dettur stundum í að lesa um ómerkilega hluti eða glápa á lélegt sjónvarpsefni.

Vefsíðan þín á blogspot er athyglisverð.  Ég verð að finna mér tíma í vikunni og lesa ferðasögurnar þínar.   Ég er að fara til Indlands í vetur.  Það verður eflaust heilmikil upplifun.

Svanur Sigurbjörnsson, 10.9.2007 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband