Heilsubrunnur?

Með Morgunblaðinu í morgun var óvæntur glaðningur: Vikan

Já, Vikan var gefins og boðið uppá sérstakt áskriftartilboð.  Vikan er eitt elsta tímarit landsins og trúlega langsamlega langlífasta vikuritið.  Lífdagana á það trúlega að þakka víðrar skírskotunar til landsmannna og þá sérstaklega kvenna.  Þetta blað er engin undantekning og í því er fullt af ýmsu jákvæðu og skemmtilegu efni.  Vikan hefur ekki farið slúðurblaðsleiðina sem betur fer.  En...já trúlega býst þú lesandi góður við að ég komi með gagnrýni og ég ætla ekki að bregðast þér.

Það hefur verið ljóður á ráði Vikunnar síðasta áratugar að vera málpípa alls kyns kukls og ég hef ekki litið í Viku án þess að í því sé ítarleg umfjöllun um eitthvert kraftaverkagras, brjálaða myglusveppi eða annað nýaldarmoð.  Allt í hinum vinalegasta búningi, það hefur ekki vantað.  Þessi ókeypis Vika brást mér ekki hvað þetta varðar og fletti ég henni spenntur til að vita af hvaða kukli ég gæti átt von á nú... og viti menn, á bls 48-49 blasti við mér dýrðin.

Solla heilsubrunnur

Vá! Mikilvæg lesning... "Heilsubrunnur Sollu!  Basískt fæði - Eitt það heitasta [wow, hot] í heilsuheiminum í dag.  Rétt sýrustig getur skipt sköpum hvað varðar heilsu sem og holdafar." - Sólveig Eiríksdóttir (aka Solla)

Af hverju hef ég misst af þessu? Woundering Hvers vegna hef ég ekki lært um þetta í 10 ára námi í læknisfræði og á öllum lestri mínum um sérstök áhugamál mín, innkirtlafræðina og nýrun, þau fög sem fjalla dýpst um sýru-basa jafnvægi líkamans og sjúkdóma því tengdu?  Skyldi hún Solla luma á einhverju leyndarmáli sem er haldið frá læknum?  Lítum nú á innihaldið:

"Til að losna við fituna verður kroppurinn að verða basískariAuðveldasta aðferðin er að breyta mataræðinu þannig að það verði 70-80% basamyndandi." - rétt er:  Losun á fitu kemur stýringu á sýrustigi líkamans ekkert við.  Að sjálfsögðu þarf líkaminn að viðhalda réttu sýrustigi til þess að viðahalda því umhverfi efnaskipta sem frumur líkamans þurfa til að starfa rétt en stýring á því er ekki vandamálið hjá offeitu fólki og aðferðir til að möndla við það jafnvægi eru mjög varasamar.

"...,því líkaminn notar fituna sem lagergeymslu fyrr alla umframsýru."  - rétt er:  Þetta er algert bull.  Fita er ekki hlaðin sameind og gagnast því ekki við að binda sýru sem er plús hlaðin.  Það eru aftur próteinsameindir og elektrólýtar (málmsölt) sem binda umfram sýru.  Síðan er það hlutverk nýrnanna að losa umfram sýru (í formi prótóna) og því er þvagið yfirleitt súrt og með pH stig í kringum 5.5 (pH stig undir 7 er súrt, yfir 7 er basískt, ekki öfugt eins og hún Solla fræðir lesendur Vikunnar um).   Líkaminn notar einnig öndunina (loftskipti CO2) til að leiðrétta sýru-basa ójafnvægi.

"Einnig hjálpar hreyfing okkur til að verða basískari sem og jákvætt hugarfar, slökun og heilbrigðir lífshættir almennt" - kanntu annan?   Rétt er: Við góða hreyfingu myndast mjólkursýra og niðurbrotsefni sem auka sýrustigið tímabundið og er ekki hættulegt.  Líkaminn losar sig fljótt við sýruna.  "jákvætt hugarfar"  hætti nú alveg, ekki má gleyma alheimslækningunni jákvæðu hugarfari - hvað getur jákvætt hugarfar ekki gert???   Það er nú hið fyrsta af "Geðorðunum 10".   En mikið hrikalega er ég neikvæður að gagnrýna jákvætt hugarfar.  Mér verður ekki bjargað.

Almennt:  Það er minna skaðlegt fyrir líkamann að vera örlítið súr frekar en basískur miðað við það jafnvægi sem hann heldur yfirleitt við 7.4  og hann þolir mun betur langtíma ójafnvægi í átt að súru en of basísku ástandi.  T.d. sjúklingum á öndunarvél er frekar haldið smávegis súrum en basískum.  Hvað segir það þér lesandi góður um basaæði Sollu og "sérfræðinga" hennar?

Áfram hélt Solla með fræðin sín:  "Eðlilegt sýrustig þvags og munnvatns er á milli 7.0 og 7.5"  Kolrangt!  Rétt er:  Sýrustig þvags er eðlilegt í kringum 5.5 en ef það fer yfir 6.5 getur það verið merki um ákveðna nýrnasjúkdóma eða efnaskiptasjúkdóma.

Og meira bull:  "Þegar talað er um basamyndandi mat er ekki verið að tala um sýrustig sjálfrar matvörunnar..., heldur hvaða áhrif maturinn hafi á líkamann þegar hann hefur verið meltur. T.d. eru sítrónur mjög basamyndandi í líkamanum, þrátt fyrir að vera sérlega súr ávöxtur."  Rétt er:  Sítrónur innihalda mikið af sýru, m.a. vegna þess að í þeim er mikið af C-vítamíni sem er súrt.  Þessi sýra skilar sér í blóðið og er því áfram súr, ekki basísk.  Líkaminn bufferar (bindur við basískar sameindir) sýruna í blóðinu, notar sumt af henni en losar svo í þvaginu.  Þess vegna eru súrir ávextir þvaglosandi.  Það er eins og að þessir lygalaupar sem hún Solla hefur fræðin eftir, reyni að ljúga ósennilega, því oft er ósennileg lygi meira sannfærandi, rétt eins og þarna væri einhver frábær nýr sannleikur á ferðinni.

Svo heldur Solla áfram við að telja upp fæði sem er basamyndandi, hlutlaust og loks sýrumyndandi, og gettu nú... Hvað heldurðu að sé hin "sýrumyndandi" fæða?  Hverjir eru vondu karlarnir?, "the usual suspects?" svo ég sletti nú aðeins.  Jú, auðvitað "Hvítur sykur, gervisæta, einföld kolvetni, t.d. hvítt hveiti, hvítt pasta o.s.frv., ..."  Þetta passar við almenn heilsuráð og kemur sýru-basa jafnvægi ekkert við.   Að auki er hveiti ekki einföld kolvetni, hvorki hvítt hveiti né brúnt.  Þetta veit fólk sem er með pínulitla menntun í næringarfræði.  Þetta vissi ég 13 ára eftir lestur bókarinnar "Hollusta og næring" eftir Jón Óttar Ragnarsson, sem ég las utan námsefnis í den.

"Græni liturinn er minn uppáhalds" er síðasta millifyrirsögn Sollu.  Gee! Jí!

Skýringin: "...borða mikið af grænu salati með hverri máltíð..."  og áfram "Munið að við erum að tala um 20-30% súrt og 70-80% basískt.  Þetta er ekkert nýtt, þetta talaði Hippókrates um á sínum tíma svo hér er eingöngu verið að dusta rykið af vel þekktum fræðum."   Þarf hún að draga Hippókrates inní þetta rugl?  Hann var mikilvægur heimsspekingur og siðfræðingur í sögunni en er ekki þekktur fyrir lækningaaðferðir sem við höfum mikil not af í dag utan jú skemmtilegrar aðferðar til að setja í axlarlið.  Hvers vegna halda kuklarar að því eldri sem fræðin sem þeir dusta rykið af eru, því betri séu þau?  Því er yfirleitt öfugt farið.  Við köstum út gömlu og úreltu en byggjum á því sem hægt hefur verið að staðfesta og þróa enn betur.  Sýru-basa fræðin eru mjög ný og skilningur manna á mikilvægi þess í mannslíkamanum var á algeru frumstigi þar til fyrir um 150 árum að hann tók að þróast jafnhliða byltingu í þekkingu á lífefnafræði og blóðrásarkerfinu.  Enginn vísindamaður með meira en baun í hausnum vitnar í Hippokrates sem heimild fyrir sýru-basa fræðum.  Leyfum minningu hans að njóta þess sem var hans.

Neðanmáls gefur Solla upp heimildir sínar um sýru-basa-fæði:

"The pH Miracle" eftir Robert O. Young.  Hvaða vísindamaður skýrir bók sýna "...kraftaverk"?  Á vefsíðum skottulæknavaktarinnar www.quackwatch.org má finna eftirfarandi lýsingu á þessum kappa:

Robert O. Young, author of The pH Miracle, The pH Miracle for Diabetes, and The pH Miracle for Weight Loss, claims that health and weight control depend primarily on proper balance between an alkaline and acid environment that can be optimized by eating certain foods. These claims are false [8].Young offers educational retreats that include a private blood cell analysis and "nutritional consultation" at his 45-acre estate in Valley Center, California. In 1996, under a plea bargain, Young pleaded guilty to a misdemeanor charge of attempted practice of medicine without a license and was promised that the charge would be dismissed if he stayed out of trouble for 18 months. Young claimed that he had looked at blood samples from two women and simply gave them nutritional advice [9]. The blood test he advocates (live-cell analysis) has no scientific validity [10]. Young's "credentials" include doctoral degrees in nutrition, science, and naturopathy from the American Holistic College of Nutrition. His Web site claims that he "has been widely recognized as one of the top research scientists in the world," and his book states that he "has gained national recognition for his research into diabetes, cancer, leukemia, and AIDS." Yet he, too, has had nothing published in a recognized scientific journal.

"Alkalize or Die" eftir Dr. Theodore A. Baroody - Það munar ekki um það.  Skelfandi titill, ekki laust við að maður byrji að skjálfa í hnjánum.  Grípið mig!!  Sjáið þið fyrir ykkur Laufeyju Steingríms öskra á næringarfræðifyrirlestri "étið meira grænmeti ellegar deyið!!!"  Hér má sjá heimasíðu þessa kíropraktors og Naturopaths (Dr. hér merkir ekki læknir).  Það er dásamlegt hversu ófagmannlegir bókatitlar kuklara eru, þannig að maður þarf ekki einu sinni að líta inn fyrir kápuna. 

"The Acid-Alkaline Diet" eftir Christopher Vasey.  Annar Naturopath en það er víst fínn titill í kuklinu.

Rúsínan í pulsuendanum:  Í appelsínugula "Vissir þú..." dálknum auglýsir Solla "Alkalive green" duftið með mynd af dollunni og segir hvar það fæst.  Inntaka græna duftsins í vatni á að vera "...ótrúlega auðveld og fljótleg leið" til að verða basískari.   Af hverju finnst kuklurum sjálfsagt að auglýsa vörur um leið og þeir fræða fólk um heilsufræði sín?  Hvað yrði sagt um lækni sem auglýsti sýklalyf um leið og hann fræddi fólk um sýkingar?  Læknirinn yrði ásakaður harðlega fyrir að skorta hlutleysi og gera sig sekan um að hygla lyfjaframleiðendum.  Mál hans biði hnekki þar sem ekki væri ljóst hvort að tilgangur hans væri að fræða eða selja.  Siðareglur lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks leyfa þetta ekki.  Hvers vegna ætti annað fólk sem fjallar um heilsu að leyfa sér þetta?  Er fólk í náttúrulækningum einhvers annars eðlis siðferðislega?  Byggir trúverðugleiki þeirra á einhverju allt öðru en fagmannlegum vinnubrögðum? 

Ég leyfi Sollu að eiga síðustu orðin:

"..., ég skal segja þér allt um himalayakristallinn í næsta blaði ... "  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sko af því að við erum búin að vera að ræða trúarbrögð, held ég að þessi tegund sé stundum verri en hin. Ekki að ég sé ekki fylgjandi hollustu í matarræði (þó ég fylgi henni kannski ekki alltaf sjálf), og trúi á grænmeti, trefjar, grænt te og fjallagrös sem allra meina bót. Þá kaupi ég ekki einfaldar skýringar og lausnir. Mér þætti líka frekar ósiðlegt að sjá þig auglýsa, ákveðna tegund sýklameðulum svona um leið og þú fræddir mig um sýkingar opinberlega.

Kristín Dýrfjörð, 14.10.2007 kl. 00:11

2 identicon

Værir þú ekki til í að skella svona pistli í Moggann? http://mbl.is/mm/mogginn/adsent/?cats=adsendar :)

Bara til að tryggja það að sem flestir lesi þetta. Nota bara nógu mörg orð sem enginn skilur neitt í, og ekki gleyma að vera brosandi á myndinni sem fylgir - þá ætti boðskapurinn að komast til skila ;)

Annars mætti nú alveg rassskella suma fjölmiðla fyrir að leyfa hverjum sem er að segja hvað sem er um hinar ýmsu misgáfulegu "meðferðir" sem eru í gangi hverju sinni. Hnuss!

María (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 01:57

3 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Þetta er frábær grein og skammarlegt hvað maður sér oft þetta endemis kjaftæði sett fram í vinsælustu vikublöðum landsins sem heilagan sannleik. Blaðamennska af lélegustu sort. Þú ert sem betur fer ein af (alltof fáu) röddum sem tala máli skynseminnar.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.10.2007 kl. 14:58

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir athugasemdir

Þessi grein er reyndar allt of löng fyrir aðsent efni í Mbl en e.t.v. sendi ég stytta útgáfu af henni.  Takk fyrir tillöguna.

Svanur Sigurbjörnsson, 14.10.2007 kl. 15:35

5 identicon

Thad er harret hja ther Svanur, thu hefur misst af miklu thessu 10 ar sem thu hefur verid ad laera laeknisfraedi. Til daemis ad syna odrum tha virdingu ad fjalla um aldargamlar kenningar sem folk velur ad fylgja i stad lyfjalottoinu sem laeknar, margir hverjir, stunda i nafni visinda. Solla er ekki ad skrifa ut fra laeknisfraedisjonarmidum heldur natturuvisindum sem ekki er aetlast til thess ad seu skilgreind odruvisi en slik.

Vont thegar laeknar verda fagidjot thvi vissulega bjarga their mannslifum og eru omissandi. En Solla er lika omissandi, eda thad finnst mer og Ph gildid skiptir miklu mali i detoxfraedunum sem thu veist thvi midur litid um, hef eg sed a skrifum thinum. An audvitad er svona dialogur godur og umraedan thorf.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 17:18

6 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Sæll Svanur.

Frábær pistill! og mjög upplýsandi.   Ég hef stundum velt þessum basísku og súru fræðum fyrir mér og alltaf fundist rosalega skrítið innan náttúrufræðinnar þegar því er haldið fram að sítróna sé basísk

Ég hef þó alveg trú á mörgu innan náttúrufræðinnar og þ.m.t. nauðsyn góðs og fjörbreytts mataræðis. Ég kýs frekar lífrænar vörur ef ég kemst í þær sem dæmi.

Það hafa líka verið lengi á markaðnum hárvörur og baðvörur sem eru auglýstar með lágu ph gildi og sagt að það sé betri sápur fyrir hárið og líkamann. Mér hefur alltaf fundist þessar vörur frekar slæmar. Er þá lágt ph gildi í sápum kannski bara verra fyrir mann? Þar sem varan er súrari? 

Kveðjur. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 14.10.2007 kl. 17:43

7 identicon

Fín grein Svanur.

Þessi sýru-basa kenning varðandi mataræði er með því vitlausara sem komið hefur fram frá kuklheimum lengi.

Heilsupósturinn var með úttekt á þessu fyrirbæri fyrir nokkrum mánuðum þar sem þeir m.a. flokkuðu mat eftir sýrustigi með stórfurðulegum sýrustigskvarða, sem fær efnafræðinga til að ranghvolfa augunum. Það sem mér þótti þó alvarlegra var að þarna var því blákalt haldið fram að fæða sem alls ekki ætti að neyta væri t.d. venjulegt kjöt, ostur, egg, rjómi, súrmjólk, smjör, rúgbrauð vegna of hás sýruinnihalds !

"Solla er ekki ad skrifa ut fra laeknisfraedisjonarmidum heldur natturuvisindum sem ekki er aetlast til thess ad seu skilgreind odruvisi en slik."

Hún kýs samt að nota vísindaleg hugtök á við sýrustig, pH, basískt sem eru vel skilgreind fyrirbæri innan raunvísinda og læknavísinda.

Þá fer hún með svo gríðarlegar rangfærslur að ekki er hægt að taka neitt mark á henni.

Ragnar Björnsson (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 18:05

8 identicon

Svanur!  Þú ert ekki nógu "opin" og "víðsýnn" til að skilja þetta...

 Flott grein!  Um að gera að beina ljósi á þetta heilsu-kukl...

 Og Jónína!..  Það að grasa-kukl hafi verið ástundað í hundruð ára segir EKKERT um hvort þetta fúsk virki.  Einfaldar tilraunir hafa ALLAR leitt í ljós að þessi þarma-sveppa-sýru-basa-grasa-heilunar-rasssaskolandi-"vísindi" virka ekki rassgat!  

Hinsvegar er þetta ágætis leið fyrir suma að skapa sér þægilega innivinnu með þvi að selja samborgurum sínum galdralausnir og villu-vonir.

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 18:24

9 identicon

Jónína, gætirðu setti hér inn skilgreiningu þína á náttúruvísindum? Þú mættir líka skýra frá því hvernig læknisfræðin byggir ekki á þeim, eins og virðist koma fram í máli þínu.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 18:45

10 identicon

Góð grein hjá þér. Allt of margir eru að nýta sér vanlíðan fólks og selja töfralausnir. Hvað finnst þér um andoxunarmælingar? Mælitækið lítur út eins og súrefnismettunarmælir. Mælingin tekur nokkrar sek.  Allir sem mældir eru vantar andoxunarefni. Þau eru seld dýrum domi í pilluformi.  Boðið er upp á efirlit og fólk sett á ;viðhaldsskammt;. Fullyrt er að uppfynningamaðurinn hafi fengið nóbelsverðlaun fyrir uppgötvunina sem þó hefur ekki hlotið náð fyrir augum lækna, að mér skilst vegna einhvers konar öfundar. Verst er þó þegar neyð sjúklinga er notuð til að selja töfralausnir af ymsu tagi. Megrunarsérfr. eru stöðugt að finna upp hjólið og hafa margir hagnast af því. Fólk trúir því sem það vill trúa.

Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 21:54

11 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir að vekja athygli á þessu. Óþolandi að í skjóli "heilsubrunns" fái seljandi að setja fram rakalaust raup um söluvarning í formi greinar en ekki auglýsingar.

Ef efni er "náttúrulegt" (finnst í náttúrunni) eru margir sannfærðir um hollustu þess, óháð skammtastærð. Gleymum ekki að fjölmörg eiturefni eru upprunnin í náttúrunni.

Kristjana Bjarnadóttir, 14.10.2007 kl. 23:18

12 identicon

Vá þetta finnst mér merkilegt !  Hversu mikið getur eiginlega verið kolrangt í lítilli grein...

Pottþétt mjög margir sem taka mark á skrifum Sollu, endilega komdu þessu á framfæri víðar !  Ekki samt til að gera lítið úr henni sjálfri, alls ekki, heldur til að leiðrétta þessar vitleysur. Hún ætti að kynna sér málin mikið mikið betur áður en hún lætur svona frá sér.

Þú ættir kannski að sækja um greinaskrif í Vikunni ? :D

Sigrún Erla (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 23:18

13 identicon

Ég held að vísindamenn þurfi bara að vera meira áberandi í fjölmiðlum, og í umræðum á netinu. Það er allt of mikið af jákvæðri umfjöllun um óhefðbundnar leiðir sem eru illa, eða bara hreint ekki, viðurkenndar vísindalega.

Hvað með íslenska staðreynda- og upplýsingasíðu um óhefðbundnar meðferðir sem eru í boði á Íslandi? (Er hún kannski til?) Með slíku mætti veita þessum meðferðaraðilum aðhald, því mér finnst ríkið ekki standa sig nógu vel í því. Þar mætti fjalla um hverja meðferð fyrir sig, á gagnrýninn hátt. Mér þætti sérstaklega áhugavert að birta upplýsingar um þau verð sem meðferðaraðilar taka fyrir hverja meðferð, sem og greiðslumöguleika - án þess að vilja gefa nokkuð illt í skyn, þá vill svo til að sumir taka aðeins við peningum. Svo mætti auglýsa þessa síðu í tímaritum eins og Vikunni, í hvert skipti sem eitthvert gúrúið flytur ræðu um gagnsemi vitleysu.  

Feedback, fólk! 

María (IP-tala skráð) 14.10.2007 kl. 23:57

14 identicon

„Hvað með íslenska staðreynda- og upplýsingasíðu um óhefðbundnar meðferðir sem eru í boði á Íslandi? (Er hún kannski til?)“

http://www.vantru.is/kjaftaedisvaktin/

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 10:58

15 identicon

Fín grein og vel niðurbrotið en ég vil fá að spyrja þig einnar spurningar. Hvernig í ósköpunum mælirðu pH líkamans án þess að skella líkama í stórann blandara og setja síðan pH próbu í sheikinn. Ég hélt í einfeldni minni að sýrustig víðsvegar í líkamanum væri breytilegt.

Oskar Rudolf Kettler (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 12:07

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl öll og takk fyrir innlegg

Jónína þú segir:

"Solla er ekki ad skrifa ut fra laeknisfraedisjonarmidum heldur natturuvisindum sem ekki er aetlast til thess ad seu skilgreind odruvisi en slik."

Í fyrsta lagi eru náttúrvísindin þau vísindi sem fjalla um lífheiminn, t.d. lífefnafræði og lífeðlisfræði eða líffærafræði og plöntufræði.  Þetta kukl sem Solla er með eru ekki vísindi svo vinsamlegast rænið ekki gildu hugtaki eins og náttúruvísindum fyrir slíkt.  Það má kalla það yfirnáttúru eða náttúruímyndun eða hjánáttúrufræði, því vísindi eru þau ekki.  Ég nota orðið kukl yfir þetta, kannski náttúrukukl. 

Í öðru lagi þá er þessi skilningur þinn að hér sé um eitthvað að ræða sem bera að skilja á allt aðra vegu en fræðin á bak við læknisfræðina afvegaleiddur.  Vísindin eru í raun bara leiðir til að finna sannreynanlegar staðreyndir um efnis- og lífheiminn.  Öll þessi hugtök, "pH, sýrustig, sýra, basi" og efnafræðilegir eiginleikar sameinda sem lýst er í greininni eru fengin úr vísindunum.  Solla og "sérfræðingar" hennar eru því ekki að finna eitthvað út sjálf hérna, heldur misnota vísindalega sannreynd hugtök og fræði.  Þetta er aumkunarvert.  Þessi önnur viðmið sem þú talar um eru hvergi skilgreind, heldur eru þetta kerfi ímyndana sem fólk pikkar upp vegna kunnugleika.  Um leið og manneskja tekur hluti eins og "orkusvið" og "forn heilsfræði" trúanleg án dýpri skoðunar á því hvort að þau gangi upp, er stutt í að sama manneskjan taki við öllum kuklgreinunum enda virðast Naturopathar vera "sérfræðingar" í mörgum í einu.  Þannig er til orðinn heimur gervifræða sem hljóma svolítið vísindalega og virðast hafa eitthvað sem vísindin skorti.   Mesta snilldin felst síðan í því að halda því blákallt fram að þessi fræði lúti allt öðrum reglum en hin raunverulegu náttúruvísindi.  Þannig eru kuklfræðin og fólkið sem stundar þau losuð undan ábyrgð og sönnunarbyrði.  Í þessu felst heilaþvotturinn og þú ert greinilega orðin föst í þessari gildru, rétt eins og vaxandi fjöldi fólks er í dag víða um heim. 

"fagidiot"  eða fagfábjáni (frumlegra orð ).  Ég tek þessu sem hrósi því ég hlýt þá að vera trúr mínu fagi.  Þú getur allt eins sent yfirlýsingu þessa efnis til allra lækna á Íslandi með tilkynningu í Læknablaðið.  Ég er hér að skrifa það sem nær allir læknar hugsa en hafa ekki fyrir að skrifa opinberlega. 

"detoxfræðin" - það er enn einn lygavefurinn sem malar gull fyrir þá sem honum halda uppi, oftast þó í góðri trú.  Ég var búinn að gefa þér athugasemdir á þetta rugl á þinni síðu og þú segir að ég hafi ekki vit á því, þar sem ég var þér ekki sammála.  Annað hvort okkar hefur rangt fyrir sér og fólk mun dæma þar á milli. 

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:28

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét

Takk.   Ég veit ekki hvort að það skipti einhverju máli að hafa pH gildi í lægri kantinu í shampóum.  Hugsanlega hjálpar það við að losa flösu en mestu skiptir að sápan erti ekki húðina of mikið og losi ekki of mikið af fitunni burt.  Húð og hár þurfa örfínt fitulag sér til verndar og því eru of tíðir eða of "sterkir" þvottar ekki góðir.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:35

18 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ragnar

Þarfar ábendingar hjá þér.  Það er ákaflega leitt að heilsutímarit sem ætti að hafa einhvern trúverðugleika sem slík, taki upp svona bull. 

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:37

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Teitur

He he nei ég er ekki nógu opinn.  Hope vinkona mín segir "I like to be open minded but not so much that my brain falls out" 

Já flott innivinna.  5000 kall fyrir að greina "ofnæmi" með rafleiðslu og tölvu.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:40

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Birgir

Já það er óhætt að mæla með "kjaftæðisvakt" Vantrúar.  Þau í Vantrú hafa unnið mikið og gott starf þar með því að fjalla um margt af því kukli sem hefur dunið yfir þjóðina undanfarin ár.

Sæl Hólmdís

Þessi andoxunarmæling sem þú lýsir er tómt rugl.  Andoxun er mikilvæg í líkamanum, ekki spurning, en hún fer fram á mjög mismunandi vegu og í alls kyns vefjum.  Það er enginn einn mælikvarði á andoxun í líkamanum og þetta er miklu flóknara en kuklararir vilja viðurkenna eða læra um.  Já, svo fylgja pillurnar með - það er alltaf stutt í vörurnar hjá kuklurunum.  Fyrst er sjúkdómurinn búinn til, svo er skjólstæðingurinn hræddur og loks er honum seld lausnin á vandanum.   Bingó - "I feel good" ... "I knew that I would.." 

Sæl Kristjana  - já alveg rétt.  Náttúran getur verið eitruð og því eru náttúrafurðir ekkert gefið mál.  Góður punktur.

Sigrú Erla kæra - góð ráð.  Ætli Vikan mundi nokkuð græða á mér?  E.t.v. má þó reyna.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:50

21 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl María

Góðar hugmyndir.  Eins og Birgir benti á, þá er vantrú með safn greina en einnig þyrftu læknar, annað heilbrigðirsstarfsfólk og raunvísindafólk að taka sig saman og láta meira heyra í sér, t.d. með stofnun íslenskrar upplýsingasíðu um þessar greinar græðaranna.  Góð hvatning.  Auglýsa í Vikunni he he, þetta yrði næstum eins og áletrunin á sígarettupökkunum.  "Varúð?  Í Vikunni er gjarnan kukl sem gott er að lesa um á vef heilbrigðisstarfsfólks til þess að heyra sannleikann"

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 14:55

22 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Dagný, Helgi og "Grasa-Gudda"

Sæll Oskar Rudolf

Það er rétt að sýrustig líkamans er misjafnt eftir því hvaða "vökvahólf" þú ert að tala um.  Almennt talað er verið að miða við sýrustig blóðsins (7.4) því það endurspeglar oftast nægilega vel sýrustigið í millifrumuhólfinu og innanfrumuhólfinu.  Þá skiptir miklu máli að nýrun geti haldið getu sinni til að losa sýru út í þvagið því að það er nettó framleiðsla á sýru (prótónum) á hverjum sólarhring, sem þarf að losa.  Þannig er það eðlilegt fyrir þvagið að vera frekar súrt eða kringum pH 5.5   pH blóðsins og pH þvagsins eru því helstu eftirlitsmælingarnar og nægja til þess að meta ástandið.   Stundum þarf að mæla pH í maga, vélinda, fleiðruvökva, fríum kviðvökva og mænuvökva.   Það er of langt mál að fara út í tilefni og gagnsemi þess hér.   Takk.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.10.2007 kl. 15:06

23 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Þó að ég sé ekki ginkeyptur fyrir mörgu af bullinu sem haldið er fram af fólki sem aðhyllist óhefðbundnar lækningar, þá má ekki afskrifa það allt sem kukl og sölumennsku. Allavega þekki ég allmörg dæmi þess að fólk hafi fengið verulega bót meina sinna (jafnvel fullan bata) með hjálp grasaseyða og með ýmsum óhefðbundnum aðferðum þegar "nútímalegir læknar" hafa lítið sem ekkert geta hjálpað því og staðið ráðþrota. En vissulega þarf að varast loddara og sölumenn í þessum geira eins og öðrum...og ekki þá síst lobbýista risa lyfjafyrirtækja...og minni.

Margir kvarta undan því að læknar í dag gefi sér alltof lítinn tíma með hverjum sjúklingi og hraðinn og fljótaskriftin sé svo mikil á öllu á sjúkrahúsunum og alltof mikið álag sé á starfsfólkinu, einnig að margir læknar hlusti ekki nægilega vel á hvað sjúklingnum finnst eins og t.d um daginn, þegar barn hafði gleypt sleikipinnaprik sem festist í hálsi, stúlkan hélt kvalin um hálsinn á sér og móðirin var þess fullviss að vandamálið væri í hálsinum, en læknirinn var búinn að greyna vandamálið strax(kolvitlaust reyndar) og hlustaði ekki mæðgurnar...hefði getað farið annsi illa. 

Vinkona mín fótbrotnaði un daginn sen væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þegar hún fór og hitti síðan lækni, tjáði honum strax að hún væri þess fullviss að hún væri brotin(maður finnur slíkt nokk vel hefði maður haldið), nei nei...læknarinn var þess fullviss eftir nokkurra sekúndna skoðun að það væri hún alls ekki, sagði henni að fara heim og ekki hlífa fætinum, þetta myndi lagast hraðar ef að hún beitti fætinum eins og hún þyldi. Hún asnaðist til að taka mark á manninum og fór að hans ráðum sárþjáð. 2 dögum seinna þolir hún ekki lengur við og fer aftur, fær rétta greiningu og í gifs, var víst heppin að brotið var ekki byrjað að gróa vitlaust saman svo að ekki þurfti að brjóta aftur. Tíminn sem hún var frá vinnu vegna þess að læknirinn var of "lærður" til að taka mark á sjúklingnum lendist verulega fyrir vikið.

Georg P Sveinbjörnsson, 15.10.2007 kl. 15:16

24 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir fróðlegan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.10.2007 kl. 20:41

25 Smámynd: Morten Lange

Frábær grein !  Tek undir með þeim sem segja að efnið eigi erindi við fleiri en gesti þessara bloggsíðu.

Að koma upplýsandi efni á framfæri og stilla upp rök er þörf í mjög mörgum efnum.  Ég hef haft þá trú síðastliðin ár að Wikipedia ætti að vera góður vettvangur  til þess, sérstaklega þegar fólk fer að nota Wikipedia meira.  Kostir  Wikipedia eru

  • að efnið ekki er hverfullt, ( reyndar kostar líka peninga að rekja Wikipediu )
  • Öll rök  studd  tilvitnunum í fræðigreinum hefur greiðan aðgang
  • greinar úr Wikipedia eru ekki sjaldan ofarlega á lista þegar leitað er á netinu eftir orð sem tengjast ýmis fræði, og ætti því að ná til margra
  • að  reglur kveðja skýrt á um  óhlutdræga umfjöllun, og oftar en á flestum öðrum stöðum fá  ólík sjónarmið, rök og mótrök að njóta sér hlið við hlið
Ókosturinn er náttúrulega að nánast engin ritstjórn er í Wikipedia og hún er mjög seinvirk, Ákveðin hætta er á skemmdarverkum. Annað sem er bæði kostur og galli er ákvæðið um "no original research", sem sagt sama hversu góð gögn eða góðar hugmyndir maður hefur, þá má ekki birta það þarna, nema búið sé að birta þessu annarsstaður áður og helst í vísindatímariti, eða gefið út hjá virtum útgefanda.  En ég held og vona  að það megi koma með rök sem ekki er studd tilvitnunum  á umræðusíðu sem fylgir hverri grein. 

Morten Lange, 16.10.2007 kl. 00:12

26 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Jenný Anna og Morten

Rétt að vekja athygli á Wikipediunni.  Hún er mjög gagnleg og ég hef ekki orðið var við slæm vinnubrögð þar.

Georg P - takk fyrir athugasemd.

Þú segir: "þá má ekki afskrifa það allt sem kukl og sölumennsku".   Það held ég að enginn geri, ekki ég a.m.k.  Hins vegar varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég kynnti mér allar þær greinar sem nú eru í Bandalagi Íslenskra Græðara og sá að þær voru allar kukl.  Sama má segja um ótal margt annað sem hefur komið fram síðustu misseri, t.d. heilun stofnfruma, blóðflokkamataræði, kertaljós í eyrun, "kinesiology" (ekki hin hefðbundna), segla, jónunarmælingar o.s.frv.  Allt eru þetta greinar sem byggja á einhverri hugmyndfræði sem stenst engan veginn skoðun eða rannsóknir.  Homeopatían er stærst þeirra og einnig eitt mesta bullið.  Það eina sem ég afskrifa ekki sem algert bull af því sem ég hef kynnt mér eru náttúrulyf úr jurtum, svona eins og gert var á gamla mátann hér í den.  Jurtir hafa virk efni og því eru möguleg líffræðileg áhrif þarna á ferðinni.  Grasalækningar eru þó talsvert frá því að standast þær kröfur sem við gerum til lyfja og lyfjaframleiðenda. 

Þú fellur í þá gryfju að nefna dæmi sem segja lítið sem slík.  Auðvitað gera læknar mistök, það er ekkert nýtt, en dæmi um slíkt setja ekki niður vísindin, því þau eru það besta sem við höfum í dag.  Læknar eru ekki vélar og það er margt sem getur truflað þá, bæði þeirra eigin einbeitingaleysi og/eða skortur á upplýsingum frá sjúklingi.  Þá getur þá brostið þekkingu en með skipulögðum vinnubrögðum og öryggiskerfi þar sem hægt er að vísa erfiðum tilvikum áfram, endar þetta nú oftast vel.  Framfarirnar sem hafa orðið s.l. 150 ár eru massívar.  Það er öllum holl lesning að lesa um sögu fólks og lifnaðarhætti á 19. öld. 

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2007 kl. 01:40

27 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ aftur.

Frábært að lesa skrifin hérna.

Sonur minn sem er að verða 18 ára og er á náttúrufræðibraut í MR, last pistilinn þinn og fékk bara hláturkast þegar hann las ýmislegt sem Solla heldur fram Ég er mjög þakklát fyrir að eiga svona vel gefinn son og kláran á þessu sviði Á reyndar tvo stráka og þeir eru báðir frábærir.

Mér finnst læknar oft verða fyrir ansi miklum árásum frá fólki og oft er mjög ómaklega að þeim vegið. Sjaldan er mikið um þakklæti.  Kröfurnar himinháar. Ég get þó þakkað því að vera á lífi í dag frábærri læknisþjónustu.  

Það er síðan ýmislegt í náttúrunni sem við getum nýtt okkur, gömul og ný fræði, sem hjálpa okkur með heilsuna. Það er ýmislegt vitað um virkni jurta og mörg góð náttúrulyf úr þeim til. Ég veit sem dæmi að mjög miklar rannsóknir hafa verið gerðar hérna á Íslandi á hvönn og virkni hennar m.a. á krabbamein og það verður spennandi að fylgjast með þróun mála þar, því rannsóknirnar lofuðu góðu.

Ég veit líka að formæður okkar notuðu mikið seiði af maríustakk við miklum blæðingum og tíðarverkjum. Fjallagrösin okkar þykja líka mjög góð til að vinna á smá pestum.  Í gamla daga á vestfjörðum var eitthvað um það að fjallagrös voru notuð í sláturgerð.  

Kveðjur. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 16.10.2007 kl. 02:30

28 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sú bók, sem elst er og oftast útgefin hér yfir mataræði og hollustu, er einmitt um þetta, svo ég skil ekki hvað er svona nýtt og hott við þetta.  Orkar vafalaust tvímælis, enda byggði höfundurinn bókina á observasjónum sínum á mataræði húsdýra á bóndabænum sínum t.d. að kýr virtust stundum sækja í þurrt og skrælnað gras, þótt nóg væri af grænu og safaríku, sleiktu klappir í steinefnaöflun ofl.  Þetta er jú náttúran eins og hún starfar án inngripa og tískuhæpa. Við balanserum sýrustig líkamans átómatískt.  Ótrúleg sölumennska segi ég.

Bókin sem vísað er í er Læknisdómar Alþýðunnar eftir D.C. Jarvis og hefur hún verið húsgangur hér síðan fyrir stríð.  Kannski Solla hafi fundið hana í fornbókabúð.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2007 kl. 04:37

29 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að Sollan sé nú bara að verða hættuleg heilsu manna frekar en hitt. Algerlega sammála þér um þessar fullyrðingar hennar og slembivísindi.  Ég held að læknar ættu að grípa inn í þetta áður en hún verður einhverjum sakleysingjanum að fjörtjóni.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2007 kl. 04:42

30 identicon

Það er fátt betra og heilsusamlegra en að vera með álpappír á hausnum, eyrnakerti í eyrunum og Himalayakristal í rassinum og með fæturna í sálrænu hreinsinuddtæki, sjáið bara hvað Solla er hressileg í útliti... eða ætli það sé vegna photoshop

DoctorE (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 09:33

31 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Já og borga svona 50 þúsund kall fyrir herlegheitin. 

Solla er flott.  Hún hlýtur að gera eitthvað rétt.

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2007 kl. 09:42

32 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ágæti kollegi:

Ég ætla að byrja á að þakka þér fyrir afskaplega vel skrifaða og góða pistla á vefsíðu þinni. Við læknar látum alltof of hina og þessa vitleysisumræðuna yfir okkur ganga og látum ekki í okkur heyra. Þetta gildir að vísu ekki einvörðungu um okkar stétt heldur hefur samfélagið í heild sýnt mikla þolinmæði gagnvart slíkri bullumræðu. "Kúltúral relativismi" hefur vaðið uppi þar sem enginn sannleikur er til, vísindin eru einungis sögð tól í valdabaráttu vestrænnar menningar. Hjávísindi, kukl og jafnvel virtir fræðimenn í ákveðnum geirum kultural relativismans fá að vefja sig vísindalegum ljóma með misnotkun á hugtökum eins kaostheoría og quantum physics. Bjánaleg grein eins og þessi sem þú vitnar í um sýru-basa fræðin er einmitt af þessum meiði. Kuklið sem byggir á engum vísindum vefur sig ljóma með að nota vísindaleg orð eins og sýrur og basar, en síðan stendur ekki steinn yfir steini.

Það eru fjölmörg önnur dæmi um slíkan hugtakastuld. Ég lenti í athyglisverðri lífsreynslu fyrir nokkrum misserum. ég lenti í því að ræða um DNA heilun í sjónvarpi við manneskju sem virtist ekki vita hvað DNA er. En þrátt fyrir að hafa ekki þá lágmarksþekkingu á hugtakinu DNA þá kenndi hún þrátt fyrir það námskeið um DNA heilun til að "lækna" aðskiljanlegustu hluti eins áfengissýki og margt annað. Ekki nóg með að jafn vel skilgreint fyrirbæri og  DNA væri afbjagað af fáránlegum fræðum þá kom líka í ljós að viðkomandi DNA heilari talaði sínkt og heilagt við stofnfrumuna sína!! Auðvitað hefur hver sem er frelsi til að misnota hugtök. Við lifum í frjálsu samfélagi. En þegar hugtök eru misnotuð og afbjöguð þá ber þeim sem hugtökin þekkja og skilja að benda viðkomandi á misskilninginn. Ef að hugtakaruglið er notað til að sannfæra sjúklinga um ágæti sinnar "söluvöru" eða "hjálækninga" þá er skyldan enn ríkari.

Hvorki ég né Svanur getum fullyrt hvort að einhver sem stundar "sýru-basa" fræðin, "DNA heilun" eða eitthvað ámóta geti ekki látið gott af sér leiða. En okkur sem og öðrum sem verða vitni af slíkri misnotkun á vel skilgreindum hugtökum getum bent á með fullum rétti ef umræðan stenst engan vegin lágmarksstaðla skynsamlegrar umræðu. Sýrustig er hægt að mæla, við vitum hvernig líkaminn stjórnar þessu og við vitum hvenær sýrustigið fer úr lagi. Það sama gildir um DNA, við getum raðgreint DNA við sagt fyrir um hvort stökkbreytingar hafi orðið og við eigum ekki að líða það að einhverjir ræni slíkum fyrirbærum til þess að varpa ljóma á kukl sitt og vefja það fræðilegri skikkju.

Jónína, gerðist einmitt sek um slíkan hugtakastuld. Hún sagði að sýru-basa ruglið byggðist á náttúrVÍSINDUM. Þarna stal hún ekki einvörðungu einu vísindalegu hugtaki heldur heilli fræðigrein í einu vetfangi. Geri aðrir betur.

Magnús Karl Magnússon, 16.10.2007 kl. 11:26

33 identicon

Úr því að umræðan hérna snýst um vísindi og sérfræðingar í læknavísindum skýla sér á bak við vísindi sín með þröngsýni sína þá langar mig til að fjalla um þessi læknavísindi og hvernig þau eru útfærð. Kannski er ekkert að vísindunum í sjálfu sér en það er hvernig þeim er beitt. Það voru læknar og vísindamenn sem stunduðu rannsóknir í útrýmingabúðum nasista og það sem þar fór fram var í nafni vísindannna.

Nú nýlega kom fram gagnrýni heimilslæknis á gengdarlausa sýklalyfjadýrkun íslenskra lækna sem eru á góðri leið með að eyðileggja ónæmiskerfi landsmanna með því að byrla sjúklingum lyf sem hefur engin áhrif á þann vanda sem hrjáir það (sýklalyf virka ekki á vírusa).

Nú skaðsemi sýklalyfja er löngu þekkt. Fyrir um 25 árum gerði BBC sjónvarpsþátt um misnotkun sýklalyfja í Bretlandi sem sýndur var víða í Evrópu. Í þættinum komu fram nákvæmlega sömu upplýsingar og heimilslæknirinn íslenski var að tjá sig um núna á dögunum. Að misnotkun sýklalyfja geri fólk ónæmt fyrir sýklalyfjum og valdi mörgum dauðsföllum þar sem ekki er hægt að stöðva einfalda bakteríusýkingar vegna ónæmis. Newsweek var með forsíðu um þennan vanda fyrir mörgum árum.

Ég á sautján ára gamlan son og þegar hann var lítill fékk hann ítrekaðar eyrnabólgur. Læknirinn ávísaði sýklalyfjum sem ég var mjög mótfallinn en hafði ekki styrk til að neita. Röksemd læknisins var að betra væri að gefa of mikið að sýklalyfjum en að fá barnið með heilahimnubólgu á spítalann. Nokkrum árum seinna neitaði sami læknir að gefa sýklalyf nema sýni væri tekið og sannað að um bakteríusýkingu væri að ræða. Það sem hafði breyst í millitíðinni hjá lækninum var að börn voru farin að koma á sjúkrahúsið fárveik en sýklalyfin virkuðu ekki útaf fyrri gagnslausri byrlun sýklalyfja.

Það eru meira en tíu ár síðan þessi læknir hætti að gefa sýklalyf nema vegna bakteríussýkinga en samt er í dag meira ávísað af sýklalyfjum á Íslandi en í nokkru örðu landi í heiminum. Þá spyr ég hvaða vísindi eru það sem læknar sem ávísa sýklalyfjum daglega án þess að hafa hugmynd um hvaða sjúkdómur er í gangi byggja á. Hvað er verið að kenna í háskólanum og dettur ykkur læknum til hugar að það sé eitthvað mark á takandi á þessum vísindum. Í þessu sýklalyfjafeni er ekki hægt að tala um  læknamistök, heldur vísar þetta á fáfræði, þröngsýni og lyfjadýrkun.

Hákon Oddsson (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 12:21

34 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ég vil síður fara að nota heimasíðu Svans til að munnhöggvast við aðra aðila en þar sem ég tel að gagnrýni Hákons hér að ofan beinist að e-u leyti að kommenti mínu þá neyðist ég til að svara örstutt. Mitt innlegg snérist um hugtakastuld þeirra sem vilja klæða sig vísindalegri skikkju án þess að nokkur skilningur liggi að baki þeim hugtökum sem þeir sveipa í kringum sig. Að sjálfsögðu ber þó að gagnrýna læknisfræði og hvernig þau eru stunduð, og það ber að gera á málefnalegan hátt. Vilhjálmur Ari sem Hákon vísar í (heimilislæknirinn) hefur á bak við sig margra ára rannsóknir og þungvæg rök um að ofnotkun sýklalyfja sé vandamál. Þetta er auðvitað flókið efni, í mörgum tilfellum er lífsnauðsynlegt að nota sýklalyf en OFnotkun getur verið til skaða fyrir alla og um það eiga að fara fram málefnalegar umræður. Vilhjálmur Ari á þar hrós skilið fyrir sitt innlegg. Þetta er auðvitað dæmi um það hvernig rannsóknir og vísindaleg aðferðafræði leiðir til framfara í þekkingu og í kjölfarið framfara í lækningum.

Dæmið um nasistana er auðvitað á hinn bóginn gott dæmi um hugtakastuld. Þeir voru þar ekki að stunda vísindi. Þeir voru að stunda pyntingar - stálu hugtakinu vísindi til að skýla sér á bak við. Það er heldur snautlegt að reyna að halda því fram að þegar ég segi að fagstéttir eigi að láta í sér heyra, að þá sé ég að segja að þessar stéttir séu á sama tíma hafnar yfir gagnrýni. Heldur Hákon virkilega að pyntingar lækna í nafni nasismans á föngum hafi verið afleiðing vísindahyggju eða gagnrýnnar hugsunar? Nei, þau voru afleiðing þeirrar ómannúðlegu stefnu sem ríkti í því þjóðfélagi. Þeir sem slíkar pyntingar stunduðu geta ekki skýlt sér bak við hugtök eins og vísindi eða lækningar - og þá skiptir engu hvort viðkomandi hafi fengið menntun sem læknir.

Hugmyndir lækna og læknavísindin almennt eiga að vera í stöðugri endurskoðun. Framfarir sjúklingum til hagsbóta eru byggðar á rannsóknum þar sem hægt er að benda á vel útfærðar rannsóknir sem sýna fram á gagnsemi eða gangsleysi mismunandi læknisverka. Ef að við höfum þetta í heiðri þá hef ég trú á að við munum halda áfram að sjá framfarir - ef ekki, þá má ekki búast við miklu.

Magnús Karl Magnússon, 16.10.2007 kl. 14:14

35 identicon

Mig langar að benda þér á að innan Bandalags íslenskra græðara er td nudd - heilsunudd. Hingað til hefur það ekki verið kallað kukl og langar til að benda þér á að nota orðin "allt" og "alltaf" sparlega. Þau eiga ekki alltaf við. En þér finnst nudd kannski vera kukl?

Kær kveðja

Helga Dröfn (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 14:29

36 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Magnús Karl

Takk fyrir jákvæð orð og undirtektir.  Gott að sjá fagfélaga í baráttunni.

Já akkúrat hin menningarlega eða siðferðislega afstæðishyggja er búin að gera okkur að varnarlausum meinleysingjum sem geta ekki sagt meiningu sína án þess að vera hræddir um að móðga fólk af annarri menningu.

Þú andmæltir DNA heiluninni vel í Kastljósinu.  Því miður var það ekki nærri alltaf sem heilbrigðisstarfsfólk fékk tækifæri til að segja vísindalegu hliðina á þessum svokölluðu "greiningum eða meðferðum"

Ég vil nú reyndar efast um að af kuklinu komi nokkuð gott nema ef kuklarinn gefi af sér sem manneskja í formi umhyggju.   Það er þó undarleg umhyggja að selja fólki þjónustu og vörur fyrir tugi þúsunda sem munu ekki virka betur en "koss á bágtið" eða sykurtafla.  Sú umhyggja er of dýru verði keypt í bæði töpuðu fé, tíma, vinnuframlagi og skemmd á menntun og þekkingu fólks.  Komi kuklið einhverju góðu til leiðar held ég að það sé frekar í formi óætlaðra áhrifa tengdum þeim mannlegu samskiptum sem skapast.  Þann kost ætti miklu frekar að nota í annarri skynsamlegri meðferð sem innihéldi ekki kuklkenningar og þ.a.l. hefði raunveruleg ætluð áhrif til betri líðan eða bata skjólstæðingsins.

Sammála þér varðandi hugtakastuldina.

Við skulum hvetja lækna og aðra í heilbrigðsstéttum til að tala hug sinn um kuklið.  Það má ekki banna það en með menntun veit fólk þá a.m.k. að hverju það gengur.  Bk

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2007 kl. 23:35

37 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hákon

Ég hef engu við svar Magnúsar Karls að bæta annað en það að þú ert að draga rangar ályktanir út frá ákveðnu vandamáli varðandi mat lækna á því hvenær eigi að gefa sýklalyf og hvenær ekki.  Þó að lyf séu af og til notuð út frá röngum forsendum þá þýðir það ekki að vísindunum sé ekki treystandi.   Það er enginn að halda því fram að við höfum öll svör, allar leiðir, alltaf öruggar greiningar eða meðferðir við öllu.  Hér er að ræða afmarkað vandamál við notkun ákaflega virkrar meðferðar en aftur kuklið er að bjóða greiningar og meðferðir sem eru algerlega úr lausi lofti gripin og virka ekki umfram lyfleysu og geta í versta falli verið skaðleg.   Vísindin sem þú ert hér að gagnrýna bjarga aftur heilsu þúsunda Íslendinga á hverjum degi án þess að á því leiki nokkur vafi.  Hvers virði er það þér?

Magnús Karl - velkominn í rökræðuna eins og aðrir.  Hér þarf enginn að munnhöggvast, einungis segja sína skoðun kinnroðalaust.

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2007 kl. 23:47

38 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Helga Dröfn

Takk fyrir þennan punkt um nuddið.  Ég hef ekki á móti klassísku nuddi þegar það er ætlað til vellíðunar og mögulegrar losunar á stífni og verkjum.  Það skortir e.t.v. góðar rannsóknir á nuddi og bati af því við t.d. vöðvabólgum er ekki staðfestur. 

Hér gildir að munurinn á aðferðum eins og nuddi og kukli (t.d. viðbragðafræði eða Bowen tækni), er sá að klassíski nuddarinn básúnar ekki alls kyns ímyndaðar lækningar af nuddinu og hefur ekki sett saman eitthvað fornspekilegt útskýringarkerfi um það hvernig nuddið eigi að virka.  Nuddið stendur því bara fyrir það sem það er, þ.e. fólki kann að líka það vegna vellíðan sem það fær við það.   Þetta er því ekki blekking, ekki kukl en ósönnuð meðferð.  

Sama má segja um hnykkingar og ýmsar hand-færslur á líkamanum (liðum eða vöðvum) þar sem í raun er eitthvað mekanískt að gerast.   Svo lengi sem ekki er verið að selja einhverja gervihugmynd, rangindi og falsvonir með slíku og meðferðin hefur sjálfstætt gildi til vellíðunar, skammvinnrar eða mögulega langvinnrar, þá tel ég það fyllilega réttlætanlegt.

Svanur Sigurbjörnsson, 16.10.2007 kl. 23:59

39 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Helga Dröfn

Ástæðan fyrir því að ég sagði "allar greinar innan BÍG" er sú að mér fannst sú lýsing sem gefin var á heilsunuddinu í nuddskólanum ekki falla undir það sem ég fjalla um í færslu 41 hér að ofan, þ.e. talað um "heildrænt" nudd og vísan í "orkufræði" og ýmislegt vafasamt.  Hins vegar er þarna þegar betur er gáð einnig talað um "klassískt nudd" og það tel ég ekki kukl.  Ég biðst því afsökunar á þessari ónákvæmni og það hefði verið réttara að nota "nær allar" í staðinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 17.10.2007 kl. 00:04

40 Smámynd: Fríða Eyland

Takk kærlega fyrir fróðleikinn Svanur, ég verð að viðurkenna fáfræði mína varðandi sýrustig líkamans, en batnandi mönnum er best að lifa nú veit ég smá.

Ég fæ bjánahroll þegar ég hugsa um DNA heilunina og viðbjóðstilfinningu þegar fólk skýlir sér að bakvið "ýmislegt" til að pilla aura af samferða fólki sem líður illa, en stundum er tengin læknar=lyf mér töm, því miður.

Það hefur komið fyrir að læknar ávísi á börnin mín lyf af óþörfu, fyrst nefni ég sýklalyf við eyrnabólgum, ég hef mikla og góða reynslu af hvítlauk við þessu þjóðarmeini. Sonur minn var þriggja mánaða er hann fyrst greindist með eyrnabólgu og vildi læknirinn skrifa útá pensilín. Dóttir mín tveggja ára var nýkomin með rör eftir níu x sjö daga kúra ( aukaverkanir: niðurgangur, tannholdsbólgur, munnangur og listarleysi ). Ég vildi ekki gefa hvítvoðungi sýklalyf, hugnaðist ekki heldur að sníða hvítlauksbita í hlustina, ég pressaði nokkra hvítlauksgeira bætti olíu saman við og gerði þykkt mauk ( ráð frá konu ). Nuddaði maukinu síðan á iljar barnsins sem auðvitað leið betur við nuddið og sem betur fer var ég ekki að sprauta bragðvondum vökva ofaní unga sem aldrei hafði bragðað neitt annað en sæta móðurmjólkina. Læknirinn varð viðskotaillur og fúll þegar við hittumst þrem dögum síðar, ekki vegna þess að eyrnabólgan var horfin ( sem hann botnaði ekkert í, læknast án sýklalyfja ! ), heldur mátti hann ekki heyra minnst á að hvítlaukur virkaði. Í dag setjum við tilsniðið hvítlauksrif í hlustina strax við fyrstu einkenni hlustaverks og það virkar.

Í öðru lagi vil ég nefna lyf við magabólgum. Eitt barna minna greindist með magabólgur, ekki virkaði lyfið sem læknirinn benti á og er ekki lyfseðilsskylt, þá var ávísað á annað lyf, það virkaði og verkurinn hvarf. Nema hann kom aftur ef inntakan stoppaði í tvo daga, nú var krakkinn búin að taka lyfið í þrjá mánuði, læknirinn hafði sent hann í segulómun og sent beiðni fyrir magaspeglun(sem er ekkert grín). Læknirinn vildi prófa annað lyf, ég viðurkenni að ég lét í það skína að ég sætti mig illa við að gefa pillur sem ekki virka, ég var svo heppin að finna bók sem í stóð að niasin B-3, væri gott við magabólgum. Eftir fortölur krakkinn hafði vonda reynslu af því að sleppa pillunum var gerð tilraun með að skipta yfir í B vítamín( (Rétt skammtastærð) og það virkaði.

Það má fara milliveg og stundum eru lausnirnar ekki lyf, ég veit að lyf bjarga en þessi dæmi eru sönn og mæli ég með að læknar komi til móts við fólkið af virðingu. Hér er ég ekki að tala um þig heldur þennan sem ég hitti í eyrnabólgudæminu hér að ofan, ég var ung og óreynd en átti fleiri börn með fjölbreytta sjúkrasögu annars hefði ég ekki staldrað við og hugsað.  Af hverju er ekki B-3 reynt sem fyrsti möguleiki við magabólgum?  Ég veit að læknar í dag viðurkenna að hvítlaukur er bakteríudrepandi enda vísindalega sannað af hverju þá ekki að læra af reynslu annarra? 

Úr því að þetta er orðið allt of langt þá má ég til að koma með eitt húsráð frá Sollu, í sultugerð er gott að nota döðlumauk, ég er ekki að grínast það er gott.

Fríða Eyland, 17.10.2007 kl. 04:52

41 identicon

Svanur

Þér verður tíðrætt um kukl og virðist þú tala í krafti 10 ára náms í læknisfræði. Ég býst við að þú hafir lesið öll 60 rit Hippokratíusar og vitir þess vegna allt um hans skrif; „Hann var mikilvægur heimsspekingur og siðfræðingur í sögunni en er ekki þekktur fyrir lækningaaðferðir sem við höfum mikil not af í dag“ svo ég vitni í þín eigin skrif. Hins vegar skrifaði Hippokratíus rit sem fjalla um áhrif umhverfis á velllíðan okkar og enn önnur um matarræði eða um líffræði. Kannski var lestri þeirra sleppt í náminu hjá þér.

En snúm okkur að skrifum þínum um sítrónur. Fyrst ætla ég að segja frá eigin reynslu. Það eru gott að hafa reynslu af  því sem um er rætt. Fyrir nokkrum árum var mér ráðlagt að fá mér morgundrykk úr safa af pressuðum sítrónum. Það sem ég uppgötvaði var að drykkurinn sem bragðaðist súr kom jafnvægi á magann á mér en ég hafi lengi þjáðs af súrum maga og örðum fylgikvillum, ég fann þetta gerði mér gott.

Á undanförnu misserum hefur komið fram umfjöllun um sýru-basa jafnvægi í matarræði. Það sem kom mér á óvart var að mínar hugmyndir um súrt og basíkst stemdu ekki við það sem fram kom t.d. um að áhrif ávaxta og grænmetis væru basísk. Nú er ég ekki efnafræðingur svo ég læt þá um að mæla þessa virkni. Síðan les ég mér til um niðurstöðurnar og get þá skilið betur af hverju sítrónan sem skilgreinist með basíks áhrif virkar svona vel í magnum á mér.

Samkvæmt niðurstöðum Remer og Manze (1995) þá mælist sítrónusafi -2,5 mEq og gildi undir 0 teljast hafa basísk áhrif. Og nú Svanur er um að ræða þýska vísindamenn sem eru að mæla þessa virkni og birta niðurstöður sínar. En passar þetta við þín fræði „Rétt er: Sítrónur innihalda mikið af sýru, m.a. vegna þess að í þeim er mikið af C-vítamíni sem er súrt. Þessi sýra skilar sér í blóðið og er því áfram súr, ekki basísk.“ Nei þetta stemmir ekki. Þá er spurning hvort verið sé að skoða sömu hlutina og líklega liggur svarið í því. Ert þú Svanur sannur vísindamaður sem ert tilbúinn að meðtaka nýjan fróðleik eða ertu afturhaldsseggur með rörsýn á lífið og réttlætir þröngsýnar skoðanir þínar með orðinu vísindi?

Nú sé ég fyrir mér að einhver sem lesi þetta segi hvaða mEq gildi er þetta. Við mælum sýrystig í pH gildum. Einmitt og þess vegna bendi ég fróðleiksfúsum á að skoða vef  http://www.saeure-basen-forum.de en þar er mikill fróðleikur um þessi fræði og m.a. vitnað í skýrslu Remer og Manze.


Hakon Oddsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 14:44

42 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Hákon

Þú talar fullur af sjálfstrausti um einhverja sítrónusögu og magann þinn.  Af fínu svari Helga Briem sérðu að sítrónan er örlítið basískari en magasýran þannig að hún hafði ekki skaðleg áhrif á magann en heldur ekki sérlega bætandi.  Það var því fyrir aðrar sakir að þú lagaðist.  Reynslusögur sem þessar hafa nálægt því ekkert gildi í vísindum.  Bara það að þér detti í hug að setja þetta fram af einhverri sannfæringu og kunna ekki meira en þetta en raun ber vitni vekur furðu mína. 

Ég reyndi að kíkja á þessa þýsku síðu en ég kann ekki mikið í málinu þannig að það kemur mér ekki að neinum notum.  Ef þeir Remer og Manze halda því fram að sítróna sé basísk og vitna í einhvern allt annan mælikvarða án haldbærra raka er ekki ástæða til að hlusta á þá frekar.  Þú segir þá "vísindamenn".  Hvaða menntun hafa þeir?  Veistu það?  Naturopathar?  Helgi fann ekki neina grein eftir þá í vísindariti.  Ég á þó a.m.k. eina he he.  Það er fullt af svona ruglukollum á netinu með fínar vefsíður sem flagga alls kyns fræðihugtökum sem þeir eru að misnota.  Þetta er góður business því það er fullt af illa menntuðu fólki sem trúir því ekki að eitthvað sem lítur út vísindalega og innihaldi boðskap um "heildræni, eigin lækningarmátt, lífrænt, orkubrautir og forn heilsufræði" geti verið fals.   Mér sýnist þú vera einn af þeim sem láta glepjast.  Kallaðu mig "þröngsýnan" eða "afturhaldssegg" eins og þig lystir en á meðan þú hefur ekki haldbær rök og gögn fyrir þínu máli skora ég á þig að sýna meiri ábyrgð og varkárni gagnvart því sem þú trúir og setur fram.

Svanur Sigurbjörnsson, 17.10.2007 kl. 18:16

43 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Páll

Fínt að benda á frábærar síður James Randi.

Svanur Sigurbjörnsson, 17.10.2007 kl. 18:18

44 Smámynd: Fríða Eyland

Hvað með hvítlaukinn og B-3 niasin sem ég talaði um er það kukl eða kellingabækur ? 

Skil ekki til hvers ég var að skrifa þessa langloku...

"Rökræðan er besta lausnin á hvers kyns rangindum" hélt að það væri mottó

Kveðja Fríða frekja 

Fríða Eyland, 17.10.2007 kl. 19:00

45 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Fríða

Sjálfsagt.  Ég lít á hlutverk mitt einnig til að mennta.  Okkar góða þjóð gaf mér menntun og ég reyni að skila til baka.

Hvítlaukurinn.  Það að nudda olíu blandaðri með hvítlauk við iljar barns með eyrnabólgu og draga síðan þá ályktun að það hafi virkað er því miður ekki haldbært.  Húðin tekur alltaf upp eitthvað af uppleystum efnum sem á hana er borin og fer það eftir tímalengd, stærð sameinda, fituleysanleika/vatnsleysanleika og hvar á húðinni er borið.  Ilin er með frekar þykkri hún (þykkari í fullorðnum þó) og tekur því ekki eins mikið upp.  Hugsanlegt er að einhver efni úr hvítlauksolíunni hafi borist inn í blóðrásina og hugsanlega hafa einhver þeirra hamlandi eða deyðandi áhrif á bakteríur.  Áhrifameira hefði veriði að borða hreinlega hvítlaukinn.  Það er ólíklegt að mikið náist inn af virku efni gegnum ilina og óvíst að efnið nái mælanlegum styrk í miðeyranu þar sem sýkingin er.  Það er einhver möguleiki að þarna náist virkni og væri það þá í raun vegna lyfhrifa virks efnis úr hvítlauknum.  Þú varst því að gefa barninu lyf en með mjög óskilvirkri innkomuleið.  Hvítlaukurinn gæti ert húðina, rétt eins og sýklalyf gæti ert görnina.   Nú kynnir þú að segja: Hvítlaukurinn er náttúrulegri og því betri.  Þetta er ekki endilega rétt, því penicillin er náttúrulegt efni líka og það lyf sem oftast er gefið við eyrnabólgu.  Því má svo ekki gleyma að 80% vægra eða meðal slæmra eyrnabólga lagast af sjálfu sér og því getur þú ekki sagt að batinn hafi verið útaf hvítlauknum.  Hættan við ályktun þína er sú að ef barnið fengi alvarlega sýkingu, t.d. í eyrnagöngin, er hætt við að hvítlauksmeðferð gæti tafið fyrir sannreyndri meðferð og því orðið mikill skaði af.  Maður á aldrei að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli.   Þetta er oft flóknara en það sýnist.

Nákvæmlega það sama gildir um magasöguna nema hvað hún er enn ósennilegri því B3 vítamín (nicotinic acid, niacin) hefur ekki þekkt magaverndandi áhrif í umfram magni.  Skortur á því er afar fátíður því það er víða í fæðunni.   Það er mikið verið að selja sérstök vítamín, málmsölt, steinefni og ýmis milliefni í efnaskiptum líkamans sem einhverjar lausnir á sértækum vandamálum en grunnurinn fyrir þessu er enginn.   B3 vítamín er notað sem lyf í háum skömmtum við of háum blóðfitum en er vandkvæðum bundið vegna aukaverkana sem eru m.a. magaóþægindi og ógleði.

Þú nefnir hvítlauk og bakteríudrepandi áhrif hans.  Það er hægt að finna mörg bakteríudrepandi efni en vandkvæðin eru sú að þau þurfa að eiga greiða leið inn í líkamann og vera skaðlaus í því magni sem til þarf til að drepa sýklana.  Olía í eyrað er ekki endilega betri meðferð en venjubundið sýklalyf því það teppir heyrnina og er e.t.v. ertandi og óþægileg í eyrað, sérstaklega ef olían inniheldur rokgjörn efni.  Það hefur enginn á móti fólki sem er að reyna að finna lækningar en það gilda sömu kröfur um allt sem sett er fram, hvaðan sem það kemur.   Það er gífurleg vinna og pæling að baki þeim lyfjum sem við höfum í dag og mörg lyfjafyrirtæki hafa þurft að draga vörur sínar til baka eftir áralangar rannsóknir.

Takk fyrir matreiðsluráðið

Svanur Sigurbjörnsson, 17.10.2007 kl. 19:38

46 identicon

Mig langar aðeins að fá að leiðrétta það sem sem sagt var um að sýruskalinn nái einungis frá 0 upp í 14. Þetta á við um flestar lausnir að vera með sýrustig þarna á milli en það er vel hægt að hafa sterkari sýru og sterkari basa en þetta.

3.6 % saltsýra eða HCl(aq) er til dæmis með pH=0 og 37 % (fullsterk) saltsýra er með pH = -1 . Þá er rafgeymasýra í kringum pH= 0.5 að mig minnir. Þess skal reyndar einnig geta að sýrustigsjöfnunar verða töluvert flóknari í notkun við mjög lágt sýrustig.

Ég fann eitthvað um greinar eftir Remer og Manz (ath. e-i var ofaukið í Manz) á PubMed.

Þeir hafa eitthvað verið að rannsaka sýruáhrif matvæla á þvag sýnist mér (Potential renal acid load) og hafa útbúið töflur með matvælum þar sem þeir lista matvælin eftir PRAL (Potential Renal Acid Load) gildinu sem er mælt í mEq (milli-jafngildi) per 100g.

Hérna er annars greinin góða frá 1995, (háskólaaðgangur ef til vill nauðsynlegur): http://tinyurl.com/3xjmbq

Hérna erum við komin út fyrir mitt svið (og ég nennti ekki að lesa alla greinina) en mér skilst nú að það sé ósköp eðlilegt að pH þvags sé breytilegt eftir því hvað maður lætir ofan í sig. Hvort það sé hentugur mælikvarði á hollustu matvæla og heilbrigði mannsins finnst mér afskaplega hæpið. Eða hvað segir Svanur ?

Ragnar Björnsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 21:38

47 Smámynd: Fríða Eyland

Takk fyrir svarið ég vil árétta að við notum ekki hvítlauksolíu í hlustina heldur bita. Hvítlauksmaukið sem ég notaði á son minn á sínum tíma var eins þykkt og ég nuddaði hann í góða stund í einu kannski upptakan hafi verið á milli tánna eða eyrnabólgan hans ein af 80% sem þú nefnir.

þá vaknar spurningin af hverju læknar dæla út sýklalyfjum við eyrnabólgu ef þess þarf ekki.  

Ég las um B vítamínið í Bætiefna biblíunni þar var talað um skammtastærðir og bent á í of stórum skömmtum gæti það valdið ógleði og óþægindum í maga.

Kveðja 

Fríða Eyland, 17.10.2007 kl. 22:17

48 identicon

Sæll Svanur, 

þú virðist vera dagfarsprúður maður sem langar til að koma að gagni í samfélaginu. Það er gott því það er alltaf rúm fyrir gott fólk. Mig langar þó að benda þér á að fleiri munu taka mark á þér ef þú leggur metnað í að vera málefnalegur og rökræða á þann máta að þú gerir ekki lítið úr öðru fólki. Í rökræðum er rúm til að gagnrýna eða leiðrétta það sem fólk segir en alls ekki að hæðast að annarri manneskju. Það gerir einungis lítið úr þeim sem það gerir.

Góðar stundir.

Bergþóra Eyjólfsdóttir (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 23:11

49 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ragnar og takk fyrir góðar ábendingar.

Þeir virðast hafa viðurkennda menntun þeir Remer og Manz og greinin þeirra virðist vera vel unnin.   Prótein virðast skv. þessu skila mestri sýru í þvagið og fitur, grænmeti og ávextir minnst.  Rannsóknin er gerð til að komast að því hvaða fæði gæti helst orsakað nýrnasteina en þar skiptir sýrustig og innihald oxalats í fæðunni máli.  Þá er því velt fyrir sér hvort að basískt fæði geti aukið afköst íþróttamanna og vitnað í rannsókn þar sem 10 sundmenn tóku inn basískan drykk, hlutlausan eða engan fyrir 91.4 m sundspretti.  Basinn kom best út en þetta var ákaflega lítið rannsókn.  Einhverjar nýlegri rannsóknir eru til sem ég náði ekki að lesa.  

Ekki er minnst á þau áhrif sem Solla taldi að basíska fæðið ætti að gera.  Einnig passar taflan þeirra ekki við upptalningu Sollu um hvað ylli basísku, hlutlausu eða súru þvagi, nema að grænmeti er talið sem basískt hjá báðum.  Solla segir sítrónur basískar en aftur ávaxtasafa súran, en Remer og Manz segja hvort tveggja basísk fyrir þvagið, sem er mun skiljanlegra.  Það sem er ljóst að heimildarmenn Sollu eru ekki þessi menn heldur Naturopathar sem virðast túlka þessa hluti út um víðan völl. 

Svanur Sigurbjörnsson, 17.10.2007 kl. 23:44

50 identicon

Svavar

Þú gerir lítið úr reynslu minni sem er því miður það sem virðist einkenna marga lækna í dag þeir gefa lítið fyrir reynslu annarra í fullvissu um eigið ágæti. Nú verða skrif mín kannski full persónuleg en það er sá andi sem þetta blogg er byggt á og þú kaust að hefja þessa umræðu með. Sjálfur tel ég reynslu mína meiri virði en fordóma þína.

Þú skrifar „ Ég reyndi að kíkja á þessa þýsku síðu en ég kann ekki mikið í málinu þannig að það kemur mér ekki að neinum notum.“ því miður kemurðu illa upp um vísindavinnubrögðin. Ef þú hefðir nennt að opna síðuna þá hefði blasað við þér texti á ensku því linkurinn sem ég gaf upp vísar á enska upphafssíðu.

Það virðist hópur sanntrúaðra um rétta hugsun standa vörð að baki þér en Helgi fann ekki rannsóknina þeirra Remer og Manze. Og hann er með einhvert yfirlæti gagnvart þeim mælikvarða sem þeir miða við mEQ sem líka er útskýrt á síðunni þannig að meira segja fávís alþýða getur skilið en þeir miðuðu niðurstöður við milliequivalents per 100 g. Rannsóknina er hægt að finna á http://www.basica.de/literaturservice/sbf/ (sjá rannsókn númer tvö í röðinni og Abstract er á ensku þannig að allir ættu að geta lesið).

Ég er eiginlega orðlaus yfir því að þú hafir dæmt þær rannsóknir sem ég lagði fram án þess að nenna einu sinni að skoða þær og hef því ekki mikið meira um málið að segja að sinni. Málflutningur þinn dæmir sig sjálfur.


Hakon Oddsson (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 00:18

51 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Bergþóra

Ég nota sjaldan háð en einhver púki kom upp í mér við að lesa grein Sollu.  Hún keyrði alveg um þverbak.  Takk fyrir áminninguna.

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 18.10.2007 kl. 10:30

52 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hákon

Ég lýsi í færslu 54 því að ég hafi farið yfir grein eftir þá Remer og Manz.  Lastu það ekki?  Þú kvartar mikið yfir því að ég hafi ekki lesið gögnin eftir þá.  Því miður fann ég ekkert á ensku í fyrstu tilraun með þeim hlekk sem þú gafst mér.  Ég hef ekki ótakmarkaðan tíma til að leita.   Viltu meina að niðurstöður þeirra styðji mál Sollu?

Svanur Sigurbjörnsson, 18.10.2007 kl. 10:32

53 identicon

Sæll vinur minn.

Frábær grein!  Tek undir að þú ættir að reyna að fá hana birta á pappír...

Kveðja,

Hlynur.

Hlynur Níels (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 12:38

54 identicon

Vísan í comment 42; Þegar þú vísar í greinar nuddskólans ber það vott um fáfræði þína á þessu sviði :) Með fullri virðingu!

Hljómar "heildrænt" framandi fyrir þig? Held að þú ættir að kynna þér hlutina betur áður en þú ferð að slá því föstu að það sé eitthvað "skrítið" . Orðið heildrænt þýðir eingöngu að það er verið að vinna með heildina (frá toppi til táar), hugsanlega nota fleiri en eina aðferð í meðhöndluninni og ekki endilega fylgja fyrirfram ákveðnu formi eins og klassíska nuddið og íþróttanuddið. Þar er "flæðið" meira og meðhöndlunin/nuddið frekar miðað að einstaklingnum en ekki bara formið. Hugsanlega notaðar ilmkjarnaolíur (sem nota bene margar hafa verið rannsakaðar og notaðar á spítölum víða erlendis í meðhöndlunum) og vissulega væri kannski hægt að segja að í heildrænni meðferð séu notaðar órannsakaðar aðferðir. En fyrir mér er orðið "heildrænt" eingöngu vísan í það að ekki sé einblínt of stíft á eitthvað eitt svæði þar sem verkurinn kemur út, eins og læknavísindin (sjúkraþjálfun og fleira) lítur á dæmið.  Þar er oft of mikil áhersla lögð á vandamálið sem sést, einkennin.

En við getum bitist á um þetta um aldur og ævi. Hér koma saman 2 ólíkir heimar sem hafa samt sama markmið og eru ekki svo ólíkir ef vel er að gáð. Ég von svo í framtíðinni getum við öll unnið saman.  Mín skoðun er sú að við getum ekki verið án hvors annars (ég er ekki að tala um þetta á persónulegum velli heldur um stéttirnar :)) ég myndi ekki vilja vera án læknavísindanna en guð hjálpi mér ef að ég hefði ekki haft náttúruvísindin þegar hitt hentaði ekki! Ég vona svo að öll dýrin í skóginum verði vinir sem fyrst. Vonandi verður þú hluti af þeirri heild þegar það gerist.

Gangi þér vel og farðu vel með þig.

Helga Dröfn (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 11:14

55 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Hlynur

Bestu kvedjur

Hef verid erlendis.  That verdur vidtal vid mig a Ras 1 a fimmtud 25. okt um kl 11:30 um thessi mal.

Sael Helga Drofn

Vissulega getur "heildraent" haft gildi en that er oft bara klysja i kuklinu og solutrikk.  Svo eru laeknar sakadir um ad hugsa ekki heildraent sem a litid rett a ser.  That ma alltaf gera betur og folk tharf ad hlusta a hvad annad en that er ekki haegt ad taka um hvada imyndunarheim sem er inni heilbrigdiskerfid.  That tharf tho ad finna thvi folki sem vill vinna ad heilbrigdi farveg til ad koma sinum goda vilja til leidar a skynsaman mata og verda ekki fornarlomb kuklsins sem malar milljarda um heim allan.  Bestu kvedjur Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 22.10.2007 kl. 20:53

56 Smámynd: Guðmundur Ragnar Guðmundsson

Sæll Svanur

Ég get ekki látið vera.

Mær finnst þessi umræða vera á fremur lágu plani og hreint ekki vísindaleg.

Væri ekki nær að ráðast á t.d. Aspartam.

Persónulega / óvísindalega hef ég óbeit á læknum og forðast þá sérstaklega sem ráðast gegn afleiðingum fremur en orsökum.

Getur verið að það sé eitthvað vit í einhverju sem Solla heldur fram?

Tilgáta.. menningarsjúkdómar eru mjög tengdir mataræði og ein skýringin gæti falist í þessu sýrustigs áhrifum.

Veist hvort svo sé? Nei þú veist það ekki.

 Robert Anton Wilson var hugsanlega með hærri greindarvísitölu en þú og ég held að hann hafi meðal annars sagt:

"Is," "is." "is" - the idiocy of the word haunts me. If it were abolished, human thought might begin to make sense. I don't know what anything "is"; I only know how it seems to me at this moment. 

Kveðja

Guðmundur Ragnar 

Guðmundur Ragnar Guðmundsson, 24.10.2007 kl. 22:59

57 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Himalaya-kristall er SALT! Gúrmei-salt, ekki steinn til "heilunar" eða slíkt. Vildi bara leiðrétta þetta. Við reynum að vera með fjölbreytt efni hjá Vikunni og m.a. koma greinar um dulræn málefni, sem er mjög vinsælt, og stundum ýmislegt sem fær fólk kannski til að segja: "Ja, hver rækallinn, allt er nú til undir sólinni!" Lesendur eru engir bjánar sem fara að trúa á stokka og steina þótt þeir lesi um manneskju sem gerir slíkt. Sjálf hef ég voða lítinn áhuga á súru og basísku mataræði og hef ekkert sett mig inn í það, "trúi" frekar á það að borða sem fjölbreyttast en viðurkenni að greinar Sollu hafa æst mig upp í að kaupa meira grænmeti, spínat er t.d. í uppáhaldi núna sem var ekki áður. Mér fannst þessi færsla mjög athyglisverð hjá þér en vildi bara leiðrétta þetta með kristalinn. Með bestu kveðju.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.10.2007 kl. 17:29

58 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Guðmundur Ragnar

Þú segir að "umræðan sé á fremur lágu plani og hreint ekki vísindaleg" en kemur svo ekki með nein rök til þess að styðja þessa fullyrðingu.

Þú segist hafa óbeit á læknum og þú hefur þá óbeit á mér.  Ég ætti ekki að virða þig svari en eitt af því sem læknar gera er að hjálpa öllum, líka þeim sem eru ruddalegir í framkomu og með sleggjudóma á stéttina.  Einhver læknir á líklega eftir að lengja líf þitt einhvern daginn, bjarga þér frá örkuml eða snemmdauða, en það virðist ekki breyta því að þú hefur óbeit á þeim.  Siðferðishugsun þinni virðist vera ábótavant. Það þarf bæði að ráðast á afleiðingar og orsakir, því við lifum ekki í fullkomnum heimi forvarna.  Forvarnir hafa mikið með heilsupólitík að gera og því er ábyrgð stjórnmálamanna ekki síðri en lækna og heilbrigðisstarfsfólks í þeim tilgangi. 

Þú segir "Getur verið það sé eitthvað vit í einhverju sem Solla heldur fram?"  Nei - lastu ekki greinina?  Svo spyrðu hvort ég viti um sýrustig og menningarsjúkdóma og svarar svo sjálfur að ég geri það ekki.  Þetta er frámunaleg framkoma og dónaskapur.  Telurðu þína tegund af umræðu á háu plani?  Heldurðu að þessi framkoma þín auki þér virðingu eða er þér nokk sama?

Merkilegt þetta með greindarvísitöluna og tilvitnun í orð þessa RA Wilson um huglægt mat.  Á ég að taka þetta til mín?  Vinsamlegast gættu meiri kurteisi hér í bloggi á minni síðu.  Ég mun ekki leyfa endurtekið bull og fyrirlitningu hér.

Svanur Sigurbjörnsson, 30.10.2007 kl. 17:42

59 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Guðríður

Merkilegt að hún kalli salt þessu nafni.  Skyldi einhver dulspeki liggja að baki?  Það kemur líklega í ljós.

Efnið er vinsælt hjá nokkuð stórum hóp þjóðarinnar og selur því fyrir Vikuna.  Það breytir því ekki að það er ekki vandað og því miður eru fjölmargir sem trúa því sem Solla segir þarna eða taka hluta af því nægilega alvarlega til að blekkingin virki.  Þetta er ekki saklaust "...allt er nú til undir sólunni" efni því heilsu fólks verður maður að taka alvarlega og gera sitt besta til að leiða það ekki til að kaupa gagnslaust duft og fæðubótarefni.  Ritstjóri Vikunnar ætti að vita það ef hann er "ekki bjáni".

Svanur Sigurbjörnsson, 30.10.2007 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband