Tvennt verulega athyglisvert

Það er tvennt verulega athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ungra vinstri grænna.

Í fyrsta lagi er það hugrekki þeirra og ást á jafnrétti sem skín í gegnum mál þeirra því það eru fáir sem hafa hugrekki til að fjalla um mál lífsskoðana í stjórnmálum í dag.  Í síðustu kosningum voru þessi mál algerlega skilin útundan.

Í öðru lagi er það hugrekki þeirra og heiðarleiki að koma opinberlega fram með gagnrýni á afstöðu eða afstöðuleysi eigin þingmanna í þessu máli. 

Það er alltaf að koma betur í ljós sú vanþekking sem ríkir í þjóðfélaginu og á meðal margra þingmanna úr öllum flokkum á því hvert sé gildi veraldlegrar skipunar á menntakerfinu og hinu opinbera.  Þetta fólk virðist ekki geta skilið á milli þess sem er ríkjandi lífsskoðun eða ríkjandi hópur í stærð eða sögu trúfélaga og þess að leiðbeinandi gildi í skólastarfi (eða t.d. þingmennsku) geta ekki verið eyrnamerkt í lögum slíkum hóp eða hópum.  Lög geta ekki verið tileinkuð einni arfleifð umfram annarrar því annars er verið að mismuna og skapa sundrungu, alveg sama hversu stór við höldum að sú arfleifð sé.  Ekki dettur okkur t.d. í hug að tileinka og merkja lög um störf dómara ákveðinni nefndri hugmyndafræði eða lög um Alþingi ákveðnum stjórnmálaflokkum, þó stærstir séu. 

Skólar eru ekki trúarstofnanir, heldur trúarlega og stjórnmálalega hlutlausar menntastofnanir.  Það þýðir ekki þar með að skólastarf sé tómt hugmyndafræðilega eða villu ráfandi siðferðilega.  Við höfum almenn gildi til að fara eftir líkt og kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og stungið var uppá að færi í lög um skólastarf í stað hins trúarlega mismunandi og óljósa orðalags "kristilegs siðgæðis".  Siðferðisgildin sjálf er allt sem þarf að nefna og lög án merkinga skapa frið um skólastarfið sem á að vera fyrir alla þegna landsins, ekki bara kristna.

Einnig má hér minna á að kristin arfleifð á sér bæði góðar og slæmar hliðar, þannig að hún er umdeild bæði í dag og alla hennar sögu.  Hún er heldur ekki eina arfleiðin og að mínu áliti og margra annarra ekki sú mikilvægasta.  Arfleifð lífsspeki Forn-Grikkja, endurreisnarmanna (1300-1550) og svo hugsuða upplýsingarinnar (u.þ.b. 1650-1850) er sú arfleiðs sem færði okkur einstaklingsfrelsi, kosningarétt, lýðræði, frjálsar ástir, jafnrétti kynjanna, tjáningarfrelsi, sannfæringarfrelsi og vísindalega gagnrýna hugsun.  Oft tíðum náðust þessi verðmæti þrátt fyrir harða andstöðu kirkjunnar (sbr Galilei Galileo og Vatíkanið) þó vissulega væru góðar undantekningar því meðal klerka eða guðfræðinga sem iðkuðu vísindi og færðu okkur nær einstaklingsfrelsi en áður var.  Nefna má þar t.d. guðfræðinginn Desiderius Erasmus frá Rotterdam sem síðar fékk þann heiður fá verk sín listuð á Skrá hinna bannfærðu bóka hjá Páfanum í Róm.

Þó að ég telji hina húmanísku arfleifð mikilvægari en hina kristnu, þá dettur mér ekki í hug að biðja um að nefna húmanisma eða arfleifð hennar í lögum.  Skólastarf mótast fyrst of fremst af faglegri nálgun og þekkingu kennara rétt eins og starf lækna mótast af faglegri nálgun þeirra og sérstökum siðareglum í starfi.  Siðareglur lækna bera ekki trúarlega merkimiða.  Það er algert aukaatriði hvaðan gildin koma, hvort að það var kristinn maður, búddisti, múslimi eða húmanisti sem kom með góðar siðferðishugmyndir.  Það skiptir mestu að gildin sjálf, sem eru sammannleg og algild séu höfð að leiðarljósi.  Þjóðfélag er samstarf og það geta ekki allir skrifað undir eða eignað sér heiður.  Hið sameiginlega, hið opinbera í lífi okkar þarf einfaldlega að virka og vera miðað að ákveðnum markmiðum og tilgangi óháð uppruna eða sögu. 

 


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að þú værir ekki í réttum flokki nafni :)

Kveðja og þökk fyrir góðan pistil.

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.5.2008 kl. 16:53

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

He he kæri nafni, flokkslínur eru minna virði en mannréttindi. 

Svanur Sigurbjörnsson, 28.5.2008 kl. 21:42

3 Smámynd: Óli Jón

Ég er algjörlega sammála greinarhöfundi. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna það getur ekki verið almenn sátt um að byggja starf í leik- og grunnskólum á hlutlægum grunni. Það er engum greiði gerður með því að hafa ákvæði sem kveður á um grundvallarskipan í skólastarfi sem er jafn óljóst og það sem vísar í 'kristilegt siðgæði'. Það er einu sinni þannig að það er hægt að túlka það á marga mismunandi vegu.

Slíkt er ekki vænlegt til árangurs. UVG eiga heiður skilinn fyrir að benda á þetta gönuhlaup þingmanna þeirra. Betur færi ef fleiri ungliðar fylgdu góðu fordæmi þeirra.

Óli Jón, 29.5.2008 kl. 00:25

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Já hér er ég eins og raunar alltaf áður, algerlega sammála greinarhöfundi. Haltu áfram þessum skrifum!

Kristján Hrannar Pálsson, 29.5.2008 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband