Frumvarp laga um grunnskóla samþykkt á Alþingi í gær.
30.5.2008 | 02:25
Svona hljóðaði breytingartillaga menntamálaráðherra sem var víst samþykkt í gær ásamt öllu frumvarpinu með 52 atkvæðum, engu á móti og 11 fjarverandi:
1. Við 2. gr.
a. 2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.
Ég man að það kom upp sú hugmynd eftir deilurnar í vetur að setja inn fleiri atriði til þess að allir yrðu ánægðir. Mér sýnist þannig að "kristin arfleifð íslenskrar menningar" eigi þannig að friðþægja kristna og "virðingu fyrir manngildi" að friðþægja húmanista. Þetta hefur þeim greinilega þótt verulega snjallt og Höskuldur Þórhallsson (xB) gaf þeim síðan í menntamálanefnd hina fullkomnu afsökun fyrir því að halda inni kristninni með því að segja að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MRDE) s.l. sumar hafi alls ekki fjallað um að ekki mætti hafa kristna áherslu.
Gallinn við þetta er sá að hér er framkvæmd jafnréttis og veraldlegra laga algerlega sniðgengin og misskilin. Maður gerir ekki lög hlutlaus í anda jafnréttis með því að hlaða inn merkimiðum þeirra sem gala hæst. Hvernig yrðu mannréttindasáttmálar ef þeir ættu að innihalda alls kyns friðþægingar og eyrnamerkingar lífsskoðunarhópa, hvort sem þeir væru trúarlegir eða ekki? Slíkir sáttmálar yrðu fljót bitbein mismunandi þjóðarhópa, trúarhópa og pólitíkusa.
Húmanistar báðu ekki um að bætt yrði inní þetta "virðingu fyrir manngildi" þó að það reyndar ætti að vera gildi sem allir ættu að geta virt og óháð trú. Biskup Þjóðkirkjunnar hefur þó talað með fyrirlitningu um áherslu á manngildið í ræðum sínum t.d. um síðustu áramót. Slíkt virtist ógna "guðgildinu hans". Aftur orðin "...kristinni arfleifð íslenskrar menningar" eru greinilegur merkimiði einnar trúar og einnar trúarmenningar. Með þessu er verið að mismuna annarri arfleifð í lögum t.d. arfleifð húmanismans, skynsemishyggjunnar, ásatrúarinnar eða búddismans. Arfleifð húmanismans er stór á öllum vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning. Ásatrúin hefur einnig haft sín áhrif þó hún verið kæfð niður að mestu árið 1000. Arfleifð búddismans er nýleg og trúlega ekki mikil en það skiptir ekki máli hver stærðin er.
Jafnrétti í skólastarfi felur ekki í sér að meirihluti fái sínu framgengt. Jafnrétti felur í sér að allir fái að senda börn sín í skóla landsins án þess að verða fyrir boðun eða áhrifum arfleifðar eins ákveðins trúfélags, sama hversu stórt eða lítið það er. Fólk sem vill áhrif ákveðins trúfélags á börnin sín getur sent þau í trúarlega einkaskóla en vonandi verður það nú ekki raunin hér því sameiginlegur hlutlaus skóli er ákaflega dýrmætur fyrir kennslu umburðarlyndis og samlögunar fólks í landinu, sama frá hvaða uppruna eða lífsskoðun það er. Reynslan af sérstökum skólum trúfélaga er herfileg erlendis því slíkt grefur undan umburðarlyndi og skapar gjá milli fólks vegna trúarbragða. Ekkert barn á að stimpla "kaþólskt barn" eða "krstið barn" frekar en eftir stjórnmálaflokkum, "íhaldsbarn".
Nú má vera að ýmsar nauðsynlegar og góðar breytingar hafi verið í frumvarpinu en þessi hluti þess breyttist úr hugrakkri tilraun til jafnréttis með því að taka út "..kristilegt siðgæði" og setja inn nokkur almenn siðferðisgildi, í að vera skrípaleikur til að friðþægja Þjóðkirkjuna, sem með hræðslu sinni um "siðferðilegt tómarými" og "úthýsingu kristinnar menningararfleifðar úr skólunum" gat sveigt menntamálaráðherra á endanum. Það fólk sem getur neitað sjálfum sér og sínum um sérréttindi er jafnan það sterkasta siðferðilega. Þorgerður Katrín virtist stefna á þá braut í vetur og svaraði væli Guðna Ágústssonar í Kastljósþættinum eftirminnilega með rökfestu og áræðni. Þar kom fram að aðspurður taldi Guðni að "kristið siðgæði" væri að "vernda Þjóðkirkjuna". Eftir hrakfarir Guðna kom annar framsóknarmaður, Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur og alþingismaður, í staðinn fram á sjónarsviðið sem verndarengill kristninnar og hafði nú Þorgerði Katrínu undir með því að aftengja málið frá dóm MRDE. Mál norsku foreldrana gegn norska ríkinu var flókið en megin niðurstaða þess var sú að ríkinu væri ekki stætt á því að skylda foreldrana til að fá bara undanþágur að hluta fyrir börnin sín frá kennslu um kristni, trúarbrögð og heimspeki, því námsefnið væri augljóslega of vilhallt kristni og framkvæmd hlutaundanþágu væri óraunsæ. En skipti það í raun nokkru máli hvort að dómur MRDE hafi ekki nákvæmlega fjallað um markmiðalýsingu í lögum um starf í grunnskólum? Getur ekki hver maður sem skilur hvert dómur MRDE stefndi, séð að hann var norska ríkinu í óhag vegna mismununar og ójafnréttis? Augljóslega ekki Höskuldur og þingheimur virðist hafa trúað honum eða ekki haft nennu til að skoða málið nánar.
Það þarf ekki úrskurð MRDE til að sjá hversu rangt það er að blanda trúarbrögðum inn í lög um menntun barna. Börn eru áhrifagjörn og þau á að vernda frá áhrifum utanaðkomandi aðila í skólastarfi. Hlutverk skólanna er nær einungis að auka þekkingu barna og færni í margs kyns hugarfarslegri tækni auk líkamlegri í leikfimi. Uppeldið fer fram á heimilinum þó auðvitað seti kennarar gott siðferðilegt fordæmi með framkomu sinni og faglegum kennsluháttum. Það er ekki hlutverk kennara að siða nemendur sína þó því miður lendi þeir að hluta í þeirri aðstöðu þegar óstýrilát börn eiga í hlut.
Það er virkileg skömm að þessu orðalagi um arfleifð ákveðins trúfélags í grunnskólalögum. Hver er réttlæting þingmanna á þessu? Þreyta? Drífa þetta í gegn? Skiptir ekki máli? Ahh, látum þetta flakka svo deilurnar hætti? Mistök. Nú munu deilurnar halda áfram. Ég mun a.m.k. ekki þagna. Þetta er verulega dapurt í ljósi þess að nú þykjumst við Íslendingar hafa þroska til þess að sitja í Öryggisráði SÞ. Hvernig ætlum við að útfæra jafnrétti þar?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heimsspeki og siðfræði, Lífsskoðanir, Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 02:34 | Facebook
Athugasemdir
Ég er fyllilega sammála ofangreindu og vil benda á að það er tilgangur laga að búa til sem skýrastan ramma utan um viðfangsefni sitt. Upptalningin var afar skýr og greinargóð áður og innihélt atriði sem allir geta skilið og túlkað með nokkuð samræmdum hætti. Hins vegar varð þessi lagagrein afar óskýr þegar viðbótinni var skotið inn:
Lögin eru því verri fyrir vikið, áhóð því hvort við séum sammála um viðbótina eða ekki. Að setja inn svona óljóst hugtak er skref í ranga átt. Þetta opnar fyrir margvíslega möguleika á mis- og rangtúlkun í bland við rétta túlkun, auðvitað. Við munum bara aldrei vita hvenær viðbótin er rétt túlkuð því það veit enginn! Viðbótin er vond vegna þess að enginn getur sagt um hvað hún stendur fyrir!
Óli Jón, 30.5.2008 kl. 02:54
Þetta er algerlega út í hött, enda hristist jörðin sem kristlingar ættu að taka sem merki um að þetta er ekki réttlæti, eða jafnvel merki um að þetta er rangur guddi ;)
Tvímælalaust merki um vanþroska þingmanna.
DoctorE (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 07:21
Röksemdir þeirra þingmanna sem mest höfðu sig í frami þegar þetta ákvæði er rætt segir í raun allt sem segja þarf um hve dapurlegt þetta mál allt er. Ég mæli með að fólk hlusti á ræður Guðna Ágústsonar, Bjarna Harðarsonar og síðast en ekki síst Árna Johnsen. Hér má hlusta á þessar ræður. Mér finnst með ólíkindum að heyra viðhorf sem þessi á Alþingi Íslendinga árið 2008.
Arnold Björnsson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 10:06
"Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi."
Þó svo Íslendingar tækju upp Islamtrú á morgun þá mótast starfshættir um land allt af kristinni arfleifð ísl. menningar. Þetta er merkingalaus setning sem vísar til fortíðar. Alveg eins hefði mátt standa -fornar katólskar arfleiðar- hún er við hvert skref í Þjóðminjarsafninu.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 30.5.2008 kl. 11:55
Takk fyrir pistilinn.
Kristín Dýrfjörð, 30.5.2008 kl. 12:58
Ég er sammála Gísla, þetta er í raun merkingarlaust. Ég vil alls ekki trúarlegt starf innan skóla og veit ekki til þess að trúboð sé nokkurs staðar stundað í skólastarfi.
Hins vegar finnst mér það vera hluti af því að vera vel upplýstur að vita af hverju við höldum jól og páska og hvað gerðist t.d. á Hvítasunnunni, jafnvel þótt margir tengi Hvítasunnuna fyrst og fremst við ferðalög, páskana við skíði og jól við gjafir og góðan mat. Kristilegar hátíðir og táknmál trúarinnar (jafnvel enn frekar) væri jafnt hluti af menningu okkar þótt öll trú leggðist af. Hið trúlausasta fólk á það til að vitna í orð Jesú, af því að margt af því sem hann sagði stendur fyllilega fyrir sínu, hvort sem menn líta á hann sem skáldsagnapersónu, heimspeking eða Guðs son.
Ég á tvær dætur, aðra í háskóla og hina í menntaskóla, báðar fermdar en hvorki þær né nokkrar vinkonur þeirra gátu svarað því í spurningaleik fyrir fáum árum, hver sagði: maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Ég verð að viðurkenna að það kom dálítið á mig!
Annars er öll þessi tilvitnun í raun orðagjálfur þar til unnið er úr henni. Hvernig á til dæmis að koma "virðingu fyrir manngildi" í framkvæmd? Hefur þetta merkingu eða eru þetta tilmæli um að allir innan skólakerfisins kunni almenna mannasiði og séu kurteisir?
Eða hvernig á kærleikur heima í skólastarfi? Með ástúð og persónulegum tengslum? Eða er verið að mælast til þess að fólk leggi ekki stein í götu annarra og geri sitt besta til að skapa þægilegt og vinveitt andrúmsloft?
Mér finnst þetta skrítin grein í heild sinni og mér finnst skrítið að það skuli vera tekið fram að fólk axli ábyrgð í vinnunni.
Kolgrima, 30.5.2008 kl. 13:31
Takk fyrir hlekkinn Arnold. Ég hlustaði á Árna og blöskraði hvað hann er fordómafullur.
Sammála Kolgríma. Það á ekki að þurfa að hafa þessi sérstöku gildi í lögunum. Ég treysti kennurum þessa lands til að starfa faglega og af heilindum. Starfsreglur þeirra ættu að nægja en þar er auðvitað áríðandi að viðmiðin séu góð, rétt eins og fyrir lækna.
Svanur Sigurbjörnsson, 31.5.2008 kl. 00:25
Hvenær urðu þessar siðareglur kennara svo óábyggilegar að hnykkja þurfi á þeim með sérstakri lagasetningu með hinni algerlega óskilgreinnda Kristilegu arfleifð Íslenskrar menningar??
Jón Steinar Ragnarsson, 3.6.2008 kl. 00:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.