Darwin dagurinn 12. febrúar 2009
10.2.2009 | 09:05
Fimmdudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfir milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.
Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn. Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku. Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur. Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær. Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið bolabítur Darwins" fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar. Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti.
Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 20. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952. Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi er samstarfsaðili að málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins, en Steindór J. Erlingsson hafði milligöngu að því fyrir félagið. Málþingið ber yfirskriftina: Hefur maðurinn eðli? Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið Að hálfu leyti api enn". Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum. Á málþinginu verða einnig afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30. Dagskrána má sjá á www.darwin.hi.is.Alþjóðlega dagskrá má sjá á http://www.darwinday.org
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Lífsskoðanir, Menntun og skóli, Umhverfi og náttúra | Breytt s.d. kl. 12:16 | Facebook
Athugasemdir
Darwin var alger snilli!!
Ertu búinn að sjá Attenborough: Charles Darwin & the tree of life
http://doctore.blog.is/blog/doctore/entry/799999/
Ég hef líka pósta meira um kappann.. viðtal við Dawkins ofl ofl ofl ofl
DoctorE (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 09:25
Flott færsla Svanur, ég ætla að vísa á hana frá flugumiðstöðinni.
Arnar Pálsson, 10.2.2009 kl. 10:18
Þessi grein er býsna fróðleg líka:
http://www.nytimes.com/2009/02/10/science/10essa.html?_r=1
Guðmundur (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 10:33
Takk fyrir þetta DoctorE og Arnar
Svanur Sigurbjörnsson, 10.2.2009 kl. 10:47
...og Guðmundur.
Greinilega mikill áhugi fyrir deginum. :-)
Svanur Sigurbjörnsson, 10.2.2009 kl. 10:47
Læknavísindaritið The Lancet gaf nýlega út sérblað um Darwin og áhrif hans, sem er hlaðið mörgum stuttum áhugaverðum greinum. Hér er hlekkur á þetta hjá blaðinu.
Svanur Sigurbjörnsson, 10.2.2009 kl. 11:42
Kærar þakkir fyrir þennan pistil. Darwin og bókin hans Origin of species er mitt uppáhald :-)
Kv.
Guðrún
Beinamannfræðingur
Guðrún Hulda, 10.2.2009 kl. 12:08
Takk...Darwin var snillingur!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.2.2009 kl. 19:44
Glæsileg grein Svanur.
Hér er áhugaverð grein sem fjallar um hvort Darwin sé of mikill persónugervingur Þróunarkenningarinnar:
Darwinism Must Die So That Evolution May Live
og hér er gott andsvar:
Darwin is already dead, and we know it
Svona til að krydda umræðuna :)
mbk,
Kristinn Theódórsson, 11.2.2009 kl. 13:21
Takk öll
Já ég las þessa grein í NY Times "Darwinism Must Die..." og er ekki alveg sannfærður um ágæti hennar þó vissulega sé það góður punktur að það voru mun fleiri sem komu að sönnunarbyrði þróunarkenningarinnar en Darwin. Höfundurinn segir að Darwin hafi meira að segja ekki komið með þróunarkenningu og er það nýtt fyrir mér og kemur á óvart. Hann rökstyður það ekki sérstaklega, en virðist hafa vit á málum. E.t.v. er of mikið lesið úr skrifum Darwins og því blandað við það sem síðar var komið fram með, t.d. úr ranni erfðavísindanna.
Ég hlakka til ráðstefnunnar á morgun. kveðjur - Svanur
Svanur Sigurbjörnsson, 11.2.2009 kl. 13:45
Heyrðu Svanur, varstu ekki með vídjókameru á málþinginu?
Ég var að velta fyrir mér hvort þú hafðir hugsað þér að gera þetta aðgengilegt á netinu?
Sveinn Þórhallsson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 00:52
Flott grein og Darwin var líka flottur
Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.2.2009 kl. 03:21
Takk Margrét
Ég tók upp málþingið. Það er ekki búið að taka ákvörðun um netbirtingu, en líklega verður af því og ég mun tilkynna það hér síðar meir.
Svanur Sigurbjörnsson, 13.2.2009 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.