Kompás leiðir líkur að stórfelldu misferli af hálfu stjórnanda á meðferðarheimilinu Byrginu

Það er stórvafasamt fyrir fjölmiðla að vasast í möguleg sakamál en ég skil samt löngun þeirra að Guðmundur Jónssson forstöðumaður Byrgisinsvilja fletta ofan af einhverju sem lítur ekki vel út.   Hættan við þetta er sú að sýnd séu gögn í röngu samhengi þannig að sök gæti virst mun stærri en í raun er, nú eða einhver bendlaður við mál að ósekju.  Dóm götunnar er erfitt að taka til baka.  Í svona málum þarf mikillar nákvæmni við og gæta þess að allar upplýsingar séu réttar og metnar út frá vitnisburði allra.  Þetta ætti því að vera í höndum rannsóknarlögreglu.

En hvað á að gera ef stjórnendur svona stofnunar, starfandi fagaðilar þar, heilbrigðisyfirvöld, fjármálaeftirlit og lögregluyfirvöld standa sig ekki?  Hvað á að gera ef það er ekki hlustað á þetta fólk sem kvartar?  Ef enginn þorir að kæra þó nægar ástæður séu fyrir hendi?  Verða þá ekki einkaaðilar með hjálp fjölmiðla að grípa inní?  Einhvers staðar þarf að byrja baráttuna og fjölmiðlar hafa geysilegan áhrifamátt og því óbeint vald til þess að hreyfa við hlutum.   Ég er ekki viss um að það sé alltaf hægt að álasa fjölmiðlum fyrir svona umfjöllun.  Fjölmiðlar eru nokkurs konar sjáaldur þjóðarinnar og þessar fréttir hljóta að hafa nokkurn fælimátt gagnvart illvirkjum.

Í kjölfar svona frétta hefur skort vitræna siðferðislega umræðu um hlutverk fjölmiðla og fólk hefur varpað fram ásökunum fram og til baka.  Það er auðvelt að áfellast fjölmiðla, sérstaklega ef sá aðili sem um er rætt fremur sjálfsmorð, en ég held að hvert tilfelli verði að skoða fyrir sig.  Málfrelsi þarf að koma með ábyrgð og hina ýmsu siðferðislegu verðmæti eða hagsmuni þarf að meta hverju sinni.  Ég sé t.d. ekki tilgang í því að birta frétt um útbrunninn glæpamann sem er hættur að vera nokkrum ógnun en meti þáttagerðamaður það svo að efnið sé áríðandi vegna tregðu í löggæslu- og réttarkerfinu, neyðar þolenda og hugsanlegrar áframhaldandi hættu af brjótanda, get ég hugsanlega séð að varfærin frétt um málið þjóni tilgangi og geti verið til gagns þegar á heildina er litið.  Í því sambandi þarf að taka í reikninginn að ættingjar brjótanda geta liðið fyrir fréttina og því þarf ástæðan fyrir birtingunni að vera þeim mun sterkari. 

Í þessu tilviki þar sem maðurinn er umsjónarmaður meðferðarheimilis er um mjög stóra hagsmuni að ræða, þ.e. hagsmuni mikils fjölda fólks.  Heilsa og líðan margra til ófyrirséðrar framtíðar er í húfi.  Þá virðast einnig miklir fjárhagslegir hagsmunir í veði.  Sé um mikla sóun á fé ríkisins til meðferða að ræða er það stóralvarlegt mál.  Margar heilbrigðisstofnanir eru sveltar fjárveitingum og þurfa sífellt að skera við nögl og takmarka starfsemi sína.  Það er verulega alvarlegt mál ef tugum milljóna króna er skotið undan af ófaglæruðum aðilum sem byggja meðferðir á halelújasamkomum og múgsefjun.   Þetta er bæði fjárhagslegt og faglegt ábyrgðarleysi af hálfu yfirvalda.  Svona starfsemi á ríkið ekki að styðja. 

Guðmundur leggur hendur á í ByrginuÞað þarf að koma trúarofstæki út úr áfengis- og fíkniefnameðferðum.   Það samræmist ekki mannréttindum né faglegum starfsaðferðum að fólk sé ítrekað hvatt til að trúa á æðri mátt í svokallaðri tólf spora meðferð sem ekki virðist mega hreyfa við.  Það er margt gott í þessum sporum og víkur það að innri skoðun og breytingu á hegðun en tengingu þeirra við trúarbrögð þarf að linna.  Í byrginu virðist hafa farið fram öfgakennd útgáfa af þessum tólf sporum og kristni.  Það er stutt í öfgarnar þegar opnað er á "fagnaðarerindið".   Sjálfmiðað fólk getur notfært sér veikleika eiturlyfjaneytenda og notað erindi í biblíunni til að véla fólk til ákveðinna skoðana og hegðunar.  Þegar trúariðkun er í höndum slíkra glæpamanna er ekki spurt "af hverju".  Fólkið bara fylgir og hlýðir.

Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr þessari frétt Kompás þó mörg munu tárin falla.  Það er deginum ljósara að meðferðarkerfi fíkla þarf að skoða vandlega og ríkið og heilbrigðiskerfið þarf að taka fulla ÁBYRGÐ!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll.

Ég er að öllu sammála þér í þessari grein.  Og sammála því að trúarofstæki á ekki heima í afeitrun.  Átta mig þó ekki á hvað þú átt við með því að það megi ekki hreyfa við trú á æðri mátt.

Flest hinna svokölluðu 12 spora samtaka tala um tengingu við æðri mátt, eins og við skilgreinum hann.  Þar er ekki lögð stund á trúarbrögð, né trúarofstæki. Aðeins að trúa á eitthvað þér æðra.  Má vera Elvis, þess vegna, ef það hjálpar.   Margir í AA, til að mynda ég, tala um Guð sem æðri mátt, ekki hinn eina mátt. 

Og hvað Guð varðar, þá stendur skrifað að "Guð er kærleikurinn í okkur sjálfum". 

Þú, og aðeins þú og þín samviska kemur þér frá neyslu.  Æðri máttur er þín trú á þinn eigin kærleika, ofar þinni samvisku, sem leiðir þig frá eigingirni, sjálfselsku og frá því að skaða sjálfan þig og aðstandendur.   

Meðferð á fíklum er vandmeðfarin.  Þarna eru brotnar sálir með enga sjálfsmynd.  Siðferðislega brenglað fólk og sjálflægt á ekki erindi til þeirra.

Kveðja,

Haukur 

Haukur (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 15:03

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Haukur og takk fyrir athugasemdina

Ég vil leiða fíkniefnameðferð frá trú á æðri mátt.  Vissulega er það form sem þú lýsir mildara og á lítið skylt við kristni nema trú á guð en jafnvel þessi hófsamari persónulega trú er ekki skynsamleg að mínu viti.  Það sem niðurbrotið fólk þarf er fótfesta og hana þarf að byggja á raunverulegum hlutum, ekki tímabundnum gervilausnum.  Það þarf að skiljast að stuðningshópa og uppbyggjandi hugmyndakerfi er æskilegast að byggja á bestu þekkingu okkar á atferlisfræði og siðfræði hverju sinni.   Kærleikurinn sem þú nefnir er ekkert annað en vinarþel og hjálpsemi sem fólk í neyð getur sýnt hvert öðru og meðferðarfulltrúar/læknar/hjúkrunarfólk sýnt þeim sem illa eru staddir.  Það þarf ekkert hugtak um æðri mátt í formi elvis, guðs eða annars til að slíkt virki.  Mannvirðing, vinátta og hjálpsemi verða alltaf þeir hornsteinar sem AA samfélagið mun byggja á.  Ég vil að þau skref innan tólf spora kerfisins sem ráðleggja trú á æðri mátt verði tekin út og slíkt látið eftir hverjum og einum sem persónulegt val.  Margt fólk í meðferð hefur orðið fyrir því að ítrekað sé reynt að fá það til að taka upp trú á æðri mátt og slíkt samræmist ekki ákvæðum um trúfrelsi og rétt til að trúa ekki á æðri mátt.  Um þetta eru skýrar reglur í bæði mannréttindasáttmála Evrópu og Sameinuðu Þjóðanna.  

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 20.12.2006 kl. 16:13

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Svanur.

Trú mannsins á æðri mátt, hjálpar það hafa rannsóknir sýnt mér best vitanlega varðandi til dæmis lækningar, alveg burtséð frá því á hvern viðkomandi trúir.

Það atriði að ein trú umfram aðra sé viðmið hvers konar meðferðarúrræða er hlutur sem ég tel ekki eiga heima í nútímasamfélagi.

Það má segja að ekki þurfi að gera einfalt mál flókið að þvi leyti til að oftrú mannsins á sjálfan sig er óholl og trú mannsins á æðri mátt sér ofar geri það að verkum að viðkomandi lærir að treysta fleirum en sjálfum sér einungis sem aftur eykur virðingu í samskiptum manna meðal.

Trúfrelsi byggist á því að hver einn og einasti maður hafi frelsi til þess að trúa eða trúa ekki á hvað sem er í raun, sjálft er ég kristinnar trúar en virði samferðamenn mína sem hafa aðra trú ellegar hafa ekki trú.

kveðja.gmaria. 

Guðrún María Óskarsdóttir., 23.12.2006 kl. 02:47

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Guðrún María

Ég veit ekki til þess að vel hannaðar meðferðarrannsóknir hafi sýnt fram á að trú á æðri mátt hjálpi umfram það sem kalla má fram með lyfleysuáhrifum (placebo effect).  Rannsóknir á geðlyfjum hafa t.d. sýnt að lyfleysuáhrif geta haft talsverð áhrif í byrjun en þverr á 2-3 árum á meðan verkun lyfja með raunverulega verkun helst.  Það er slatti af litlum ómarktækum rannsóknum sem virðist sýna fram á gagnsemi trúar á æðri mátt en þær uppfylla ekki þær kröfur sem vísindasamfélagið setur upp.  T.d. ýmsar minni rannsóknir á bænum hafa ekki verið nægilega vel gerðar.  Í fyrra kom út stór rannsókn í Kanada sem notaði tvíblinda aðferð við að meta árangur bæna fyrir sjúklinga sem biðu hjartaaðgerðar og kom í ljós að þeim sem beðið var fyrir vegnaði jafnvel örlítið verr en hinum sem ekki var beðið fyrir.  Þessi rannsókn var kostuð af trúarhópum þar. 

Ég met það þannig að ekki þurfi trú á æðri mátt til að læra að vega og meta sínar eigin takmarkanir.  Það er gott að biðja aðra um hjálp og ráð.  Ég reyni iðulega að læra af fólki í kringum mig og vera ófeiminn við að spyrja og opinbera því vanþekkingu mína á vissum sviðum.   Ég þarf ekki æðri mátt til að koma mér í skilning um slíkt.  Ég verð að treysta fyrst og fremst á sjálfan mig þó, í flestum málum því ábyrgðin er f.o.f. mín fyrir mínu eigin lífi, hegðun minni, lífsskoðunum og framkomu.  Þó maður treysti á sjálfan sig er þar með ekki sagt að maður leiti ekki hjálpar þegar á bjátar.  Samfélag ættingja og vina er manni mikils virði auk þeirrar faglegu hjálpar sem maður getur fengið í heilbrigðiskerfinu.  Fyrir mér er æðri máttur bara til að flækja málin og bætir engu gagnlegu við.   Við erum því ekki sammála um þetta.

Um trúfrelsið er ég þér sammála.  Ég var eitt sinn kristinn en lagði af trú eftir frekar slæma reynslu af persónulegri trú á orð Biblíunnar þegar ég var um 14 ára aldurinn.   Allt sem ég hef reynt og spáð í síðan hefur sannfært mig enn frekar að enginn guð eða æðri máttur sé til.  Ég virði yfir höfuð samferðafólk mitt sama af hvaða trú það er nema það hegði sér almennt óafsakanlega og /eða viðhaldi óréttlátum eða hættulegum trúar- og lífsskoðunum.  Ég geri því greinamun á því að virða manneskju og svo aftur bera ekki endilega virðingu fyrir þeim skoðunum hennar sem ég tel slæmar. 

Kveðja

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 26.12.2006 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband