Varast xD - læknisfræðileg niðurstaða?

 

Í 23. athugasemd við grein mína "Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl" vitnar Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir í næstsíðustu málsgrein mína þar sem ég segi:

"Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi."

og spyr svo:

"Svanur er þetta læknisfræðileg niðurstaða þín?

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 09:04"

Svar mitt:

Sæl Adda Þorbjörg - þetta er skemmtilega rugluð spurning hjá þér þar sem ég blanda ekki starfi mínu við stjórnmál, en ég ætla að svara þér af gamni (og smá alvöru).

Hugtakið "heilbrigð dómgreind" er stundum nokkuð sem læknar verða að velta vöngum yfir þegar spurning er um hvort að sjúklingur hafi misst tökin á raunveruleikanum og geti e.t.v. ekki tekið ákvarðanir um líf sitt og heilsu.  Í slíku tilviki er verið að tala um ansi alvarlegt stig missis á heilbrigðri dómgreind og í reynd algeran missi á dómgreind (sturlun). 

Í tilviki þess sem ætlar að kjósa xD eftir 18 ár af nýfrjálshyggju, græðgisvæðingu, sjálftöku, efnahagshruni og siðferðislegri spillingu á ýmsum sviðum stjórnmálanna og stjórnkerfisins, þá er um vægari skerðingu að ræða því viðkomandi er orðinn hlekkjaður hugarfarslega við þennan tiltekna flokk og hættur að beita heilbrigðri gagnrýnni hugsun varðandi val á stjórnmálaflokki.  Í slíku tilviki er engu líkara en að flokkurinn sé heilagur og það sé óhugsandi að hugsa sér aðra og betri kosti. 

Þetta er kannski ekki ólíkt fyrirbærinu meðvirkni.  Sá meðvirki lætur tilfinningar og ástfóstri ráða frekar en skynsemi og framsýni.  Sá meðvirki sér ekki að með því að styðja áfram þann sem er í ruglinu, heldur vandamálið áfram að grassera og versna.  Það er því ekki góð dómgreind að mínu mati og óheilbrigð pólitískt séð þó ekki gangi ég svo langt að kalla hana óheilbrigða í læknisfræðilegum skilningi. 

Fyrir fólk sem hefur sett mikið starf, tengsl og fjármuni í xD skil ég vel að það vilji halda áfram að byggja upp flokkinn sinn og hefja endurbætur, en fyrir hina sem eru óháðir kjósendur, ætti það ekki að vera spurning í ljósi atburða undanfarin ár að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hæfur til að sitja í ríkisstjórn næstu árin.  Þar höfum við "greininguna" en "meðferðin" felst í að kjósa það illskásta sem er í boði núna, þ.e. xS, xVg eða jafnvel xO.  Á vanda stjórnmálanna finnst engin fullkomin lausn líkt og svo oft með vandamál heilsunnar. 

Ertu sátt við "greiningu og meðferð" Adda Þorbjörg?


Ótti Sjálfstæðismanna við stjórnarskrárbreytingar

Á vef Samfylkingarinnar segir:

"Hörð andstaða Sjálfstæðisflokksins við einfaldar en mikilvægar breytingar á stjórnarskrá á sér rætur í hefðbundnum viðhorfum til valda og lýðræðis.

Þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru lagðar til ganga út á þrjú lykilatriði:

  • Að afnema varanlega vald til að gefa eða selja einkaaðilum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar.
  • Færa almenningi vald til að geta haft bein áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur.
  • Færa almenningi beinna vald til breytinga á stjórnarskrá með ákvæði um hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga og með stjórnlagaþingi.

Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hamast gegn þessum sjálfsögðu breytingum með þeim rökum að verið sé að svipta Alþingi einhverju af verkefnum sínum eða völdum horfa þeir framhjá því að Alþingi er ekki uppspretta valds. Valdið á uppruna sinn hjá almenningi og svo þiggja þingmenn vald sitt frá fólkinu sem fulltrúar kjósenda.

Í þessum átökum kristallast því gamalkunnugt stef um mismunandi sjónarmið jafnaðarstefnunnar annars vegar og varðstöðu um völd og sérhagsmuni hins vegar.

Ein afleiðing þess að hafna því að stjórnarskrá megi breyta í samræmi við þjóðarvilja á miðju kjörtímabili í stað þess að aðeins Alþingi geti gert slíkt á tvennum þingum, er sú að tefja lyktir mögulegra samninga við Evrópusambandið um aðild óháð vilja kjósenda eða stöðu á þeim tíma."

Viljir þú bætt lýðræði og út með spillingu - kjóstu þá xS!   ;-)


Kæri sjálfstæðismaður - ertu sem límdur við brotna fjöl?

Kæri sjálfstæðismaður - Það vekur hjá mér furðu að nokkuð heiðvirt fólk ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem gæti alveg eins heitið Sjálftökuflokkurinn.  Sjálfsagt er ýmislegt gott við flokkinn og enn eru í honum fólk sem hefur almennan velvilja, metnað og stolt, en stefna og framistaða hans síðasta áratuginn er á við forsjá ofdrykkjusjúklings í afneitun.  Hvers virði er flott ásjóna ef innviðurinn er fúinn?  Metnaður er ekki nóg ef markmiðin eru þröngsýn og sjálflæg.  Lítum aðeins yfir feril flokks þíns (sem rétt eftir stofnun sína tafði lögsetningu vökulaganna um 4 ár - já, stétt með stétt).

Hér er sitthvað úr "afrekalista" Sjálfstæðisflokksins:

  • Einkavinavæðing í stjórnkerfinu og sölu bankanna á spottprís - með málverkasöfnum.
  • Óhóf í utanríkisstefnu.  Fyrirfram glötuð umsókn um sæti í öryggisráði SÞ. 
  • Geggjuð hugmyndafræði nýfrjálshyggju þar sem markaðurinn átti að tempra sig sjálfur,
  • Hunsun viðvarana um hrun,
  • Rauntekjulækkun þeirra lægst launuðustu með rýrnun persónuafsláttarins í áraraðir. 
  • Utanlandsferðir æðstu ráðamanna til að verja áhættusækinn fjármálageira,
  • Skipun vina og ættingja í dómstóla í mótsögn við hæfnismat,
  • Tregða til framfara í mannréttindum og jafnræði þó einhverjar hafi orðið.  Mannréttindalöggjöf er um 15 árum á eftir þeirri sænsku til dæmis.
  • Karlaflokkur
  • Óhófleg kosningabarátta, ósiðleg móttaka ofurstyrkja eða styrkja frá opinberum fyrirtækjum,
  • Viðhald kvótakerfis sem brýtur á atvinnuréttindum og leyfði framsal kvóta frá mikilvægum byggðarlögum.  Þetta setti tóninn fyrir sjálftöku auðmanna í fjármálageiranum.
  • Sjálftaka með svívirðilegum eftirlaunalögum,
  • Valdhroki, ráðherraræði - nær engin góð mál þingmanna eigin flokks eða stjórnarandstöðu fengu brautargengi á þingi.
  • Fjáraustur í eitt trúfélag - þjóðkirkjuna, langt umfram önnur.
  • Ómannúðleg útlendingalöggjöf og fjársvelti Mannréttindaskrifstofu Íslands.  
  • Stuðningur við stríðsrekstur USA í trássi við SÞ.
  • Fjármálaklúður, farsi og valdagræðgi í borginni - ófyrirleitinn valdaleikur með ginningu Ólafs F. 
  • Ráðning Davíðs Oddsonar í Seðlabankann,
  • Sérhlífni eftir hrunið (engar afsagnir) og ekki brugðist við reiði þjóðarinnar. 

Ég veit að ég er að gleyma fullt af "afrekum".   Kannski geturðu hjálpað mér við upptalninguna.

Nú koma í ljós fjármálahneyksli flokksins, sem á sama tíma var að setja lög um fjárframlög til flokka, m.a. vegna langvarandi þrýstings frá stjórnarandstöðunni og öllu þjóðfélaginu.  Geir Haarde er svo augljóslega að fela sannleikann þegar hann segir "ég einn bar ábyrgð" því hann þurfti ekki að taka það sérstaklega fram.  Lítill strákur í stórum líkama.  Nú er tekinn við flokknum stór strákur með bál í bláum augum sem segist ekkert vita um hvað þessar milljónir áttu að fara í, annað en "fjáröflun fyrir kosningar".  Ýmsar spurningar vakna eins og hvort að stjórnendur Landsbankans (Sigurjón Árnason o.fl.) hafi með þessum 25 milljón króna styrk til xD ætlað sér að kaupa sér áframhaldandi vinnufrið með Icesave reikningana sína (stofnaðir í maí 2006) og velvild í stað gagnrýni valdamesta flokks landsins?  Hver sem ástæðan var, er ljóst að þarna mynduðust óeðlileg hagsmunatengsl sem boðið gátu uppá misbeitingu valds eða vanbeitingu réttarvalds gagnvart þessari gríðarstóru fjármálabólu sem Landsbankinn var orðinn.  Með sjálfstæðismann í forystu hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum var þessi mögulega vanbeiting eftirlits og aðhalds enn líklegri og með því að þiggja svona styrk er traustið rofið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt að hann er flokkur tækifæranna, sama hver þau eru og sama hversu siðleg eða ósiðleg þau eru.  Á meðan það er löglegt er það í lagi hjá forræðismönnum flokksins.  Siðferðishugsunin nær ekki lengra.  Ekki vantar að flokkurinn hefur viðhaldið ásjónu ytri myndugleika en hvar er heiðurinn?  Hvar er hin raunverulega reisn heiðviðra manna?  Flokkurinn þykist bera hag allra stétta fyrir brjósti - "stétt með stétt!", eru ein af kjörorðum flokksins, en í tíð hans varð bilið milli efnalítilla og auðmanna aldrei stærra í Íslandssögunni og kakan stóra sem átti að hjálpa öllum var bara blekking sem molnaði eftir áratug sukks og ofurlauna. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn komu á einum þeim lægstu sköttum á fjármagn og arð fyrirtækja sem þekkist, en samt launaði þetta nýríka fólk þjóðinni með því að fela fjármagn sitt í skattaparadísum með hjálp banka sem eitt sinn voru ríkisbankar og báru eitt sinn ábyrgð gagnvart þjóðinni.  Eigendur sumra stórfyrirtækja skilaðu kinnroðalaust inn skattframtali með hlægilega lágum launatekjum og fengu sínar tekjur gegnum arð sem bar aðeins 10% skatt.  Kerfið sem átti að minnka stórlega undanskot frá skatti ól aðeins á meiri græðgi og undanskotum.  Fylgjendur frjálshyggjunnar virðast margir hverjir ekki skilja að skattskil byggja fyrst og fremst á siðferðilegri afstöðu og ábyrgðartilfinningu heldur en nákvæmlega hver prósentan er.  Nú þarf að hækka þennan skatt t.d. upp í 14% (sem áfram væri lágt) því þjóðarskútan er á kúpunni, en formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að slíkt komi ekki til greina.  Hann heldur greinilega enn að fyrirtækin steli minna undan skatti ef þau þurfi nær ekkert að greiða í skatt.  Hann telur að fyrirtækin geti ekki tekið á sig byrðarnar eins og aðrir, og þau megi ekki snerta.  Hann telur sig hinn stóra vin einkaframtaksins og með því nái þjóðin flugi á ný.

Hvernig getur þú hugsað þér að kjósa þennan flokk sem enn segist hafa aðhyllst rétta hugmyndafræði?  Hvernig geturðu kosið flokk sem klappar úr sér lófana yfir aðsóknarsjúkri og hrokafullri háðsræðu Davíð Oddssonar á landsþingi flokksins? 

Kannski á Sjálfstæðisflokkurinn sér viðreisnar von en þess sjást ekki mikil merki nú.  Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til lýðræðisbóta með breytingum á stjórnarskrá sem þarf þingið nú og þingið eftir kosningar til að samþykkja, en Sjálfstæðisflokkurinn ber við alls kyns ómálefnalegum málflutningi (kvartar yfir vinnubrögðum) og beitir málþófi til að reyna að koma í veg fyrir breytingarnar.  Nú beitir flokkurinn fyrir sér félagasamtökum með dýrum auglýsingum í blöðum og sjónvarpi.  Hræðslan við að dreifa valdinu og breyta því kerfi sem flokkurinn hefur nærst á og sótt völd sín til undanfarna áratugi er mikil.  Flokkurinn sem viðhélt alls kyns skattníðslu í formi jaðarskatta (stimpilgjöld, tekjutengingar bóta, notendagjöld) segir nú að alls ekki megi setja á neina nýja skatta eða skattahækkanir, en jafnframt vill skera verulega niður í opinberri þjónustu og setja gjöld á veikt fólk sem þarfnast innlagnar á spítala (aðgerðir Guðlaugs Þórs).  Lausnir í atvinnumálum eru áfram stóriðja og blóðmjólkun landsins gæða með nýjum haug af orkuverum.  Þetta er allt blessunarlega laust við hófsemi og aðgæslu gagnvart náttúru landsins, auk þess sem eggin eiga greinilega að liggja öll í sömu álverskörfunni, háð því að álverð haldist gott. 

Auðvitað má finna að ýmsu hjá stjórnarflokkunum xS og xVg, en nú eins og alltaf þarf að velja illskásta kostinn sem er í boði.  Sýndu mér fram á að xD sé sá kostur og ég skal skipta um skoðun, en þangað til verð ég að efast um heilbrigða dómgreind þess sem ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þann 25. apríl næstkomandi.  Aldrei hefur þetta verið eins skýrt í huga mér og ég skora á þig sjálfstæðismaður að líma þig ekki við brotna fjöl.  Kjóstu betra siðferði og ekki aðeins efnahagslega hagsæld heldur einnig félagslega farsæld og mannvirðingu næstu 4 árin með því að kjósa annan hvorn ríkisstjórnarflokkinn!  Það er ekkert að því að vera fyrrverandi sjálfstæðismaður!


Að loknum landsfundum - hjónabandslöggjöf og lífsskoðunarfélög

Hjónabandslöggjöfin og samkynhneigðir

Fyrst skulum við skoða baráttuna fyrir því að í landinu ríki aðeins ein hjúskaparlög, þ.e. að samkynhneigðir verði ekki lengur meðhöndlaðir sem annars flokks þegnar með því að kalla hjónaband þeirra "staðfesta samvist" .  

Það er gleðilegt frá því að segja að Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn hafa allir ályktað að

  • Sameina eigi hjónabandslöggjöfina í ein lög.  

Í stefnuskrá Frjálslynda flokksins er ekki ritað sérstaklega um þetta en sagt í almennri yfirlýsingu að samkynhneigðir eigi að njóta sömu mannréttinda og jafnréttis og aðrir (fann ekkert nýrra á vefsíðu þeirra).

Samfylkingin ályktaði til viðbótar:

  • Að flokkurinn skuli taka til við að endurskoða hjónabandslögin varðandi eðli þess sem borgaraleg stofnun þannig að hugsanlega eigi lagalegi hluti þess að vera alfarið í höndum sýslumanna.

Þessi tillaga var sett á dagskrá hjá Sjálfstæðismönnum en okkur er ekki kunnugt um afdrif hennar.  Ýmsir guðfræðingar í flokknum andmæltu henni hart á spjallvef flokksins.  Nokkrir guðfræðingar í Samfylkingunni andmæltu þessu einnig.

Jafnræði lífsskoðunarfélaga.

Leggja niður þjóðkirkjuskipanina

Aðeins Frjálslyndi flokkurinn hefur það í stefnuskrá sinni frá stofnun flokksins að stefna skuli að aðskilnaði ríkis og kirkju.  Flokkurinn hefur lítið unnið að þessu mikilvæga máli, en formaður þess hafði þó smíðað tillögu þess efnis sem fékk ekki brautargengi á Alþingi í tíð stjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Stórtíðindi!

Vinstri grænir ályktuðu á sínu landsþingi í ár að:

  • Stefna skuli að aðskilnaði þjóðkirkju og ríkisvalds. Mikilvægt er að stuðla að víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samstarf ríkis og trúfélaga.

Þeir eru nú stærsti stjórnmálaflokkurinn sem hefur sent frá sér ályktun um aðskilnað þjóðkirkju og ríkisvalds.

Önnur mikilvæg mál lífsskoðanafrelsis og jafnræðis

Vinstri grænir og Samfylkingin hafa samþykkt á landsfundum sínum í ár, eftirfarandi:

  • Hætta skal sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður
  • Veraldleg lífsskoðunarfélög öðlist sömu lagaleg réttindi og þau trúarlegu.  Þetta mun þýða að Siðmennt fái skráningu sem lífsskoðunarfélag og fái að njóta sóknargjaldakerfis ríkisins.
  • Virða beri réttindi foreldra til þess að ráða trúaruppeldi barna sinna.  Trúboð eða trúarlega starfsemi eigi því ekki að leyfa í leik- eða grunnskólum.

Vinstri grænir ályktuðu að auki:

  • Afnema skuli 125. grein almennra hegningarlaga um guðlast.   Samfylkingin beindi þessari tillögu til framkvæmdarstjórnar.

Samfylkingin ákvað að skoða nánar lög um helgidagafrið og guðlastslögin hjá framkvæmdastjórn.  Sömuleiðis var tillögu um að leggja niður 62. grein stjórnarskrárinnar um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja, vísað til framkvæmdarstjórnar.  Málið var talið of skammt komið í umræðunni til að greiða um það atkvæði, en finna mátti á mörgum landsfundarfulltrúum að málið átti hljómgrunn.

Hvorki Framsóknarflokkurinn né Sjálfstæðisflokkurinn ályktuðu um þessi mál og þeir hafa ekki látið frá sér aðrar yfirlýsingar en að styðja eigi við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög.  Ekkert minnst á að laga þurfi þá mismunun sem ríkir eða viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög.

Nýju flokkarnir; Borgarahreyfingin (xO), Fullveldissinnar (xL) og Lýðræðishreyfingin (xP), taka ekki afstöðu til þessara mála enda yfirlýst stofnaðir til að taka á afmarkaðri stórmálum.


Óbrigðul réttlætisást

Viljum við leiðtoga eftir 25. apríl sem gætir þeirra sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu eða viljum við leiðtoga sem elur á ótta um að eigendur fyrirtækja fái ekki nægilega gott skattaumhverfi.  Þetta er nokkurn veginn munurinn á Jóhönnu og Geir eða ráðherra úr röðum xS/xVg eða xD/xB.  Hinn blái ráðherra segist ala önn fyrir öllum stéttum, en talar fyrst og fremst til hinna sterku og auðugu eða þeirra sem stefna þangað.  Ráðherra jafnaðarstefnu gætir fyrst að því að hinir efnalitlu og veiku fái aðhlynningu og sanngjörn tækifæri til að ná lágmarks lífsgæðum í formi húsaskjóls og viðráðanlegs matarverðs auk heilbrigðisþjónustu.  Hlutverk ríkisins er ekki að hjálpa sérstaklega einkaframtaki, heldur byggja upp þjónustukerfi (menntun, heilbrigði, samgöngur o.fl.) og gæta að jafnrétti og vernd gegn glæpum. 

Jóhanna Sigurðardóttir gerir vel í því að láta þetta álit í ljós á siðlausri arðgreiðslu til hluthafa HB Granda þegar verkamenn tóku á sig launaskerðingu.  Þannig sýnir hún forystu í því að bæta siðferði landsmanna.  Þjóðin þarf þannig leiðtoga.


mbl.is Siðlausir eigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkur listi - baráttan heldur áfram!

Úrslit prófkjörsins koma mér ekki sérlega á óvart því Árni Páll hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum undanfarna mánuði og komið fram af mikilli festu og öryggi.  Það stimplar sig í huga fólks og gefur tiltrú.  Hann er mikill talsmaður aðildar að ESB og hefur sérþekkingu á þeim málum, sem hann hefur látið óspart í ljósi t.d. á málefnafundum bæjarmálafélaganna í SV-kjördæmi.   Aðildarviðræður við ESB er í miklum brennidepli hjá virku fólki í flokknum og því er eðlilegt að það vilji styrk Árna Páls á því sviði í fremstu víglínu.  Ég sé hann fyrir mér sem utanríkisráðherra.  

Auk Árna Páls komu Þórunn Sveinbjarnardóttir og Lúðvík Geirsson sterkt til greina í forystusætið og var víst mjótt á mununum með að Lúðvík kæmist upp fyrir Árna Pál.  Bæði Lúðvík og Þórunn eru verulega frambærilegir stjórnmálamenn og hafa þekkingu og reynslu til að leiða lista.  Það hefur líklega háð Lúðvík eitthvað að hann hefur ekki verið áberandi í landsmálapólitíkinni og því á hann eftir að sanna sig á þeim vettvangi þrátt fyrir mikla reynslu og góða stöðu í sveitastjórnarmálum.  Þórunn kann að hafa liðið fyrir að hafa verið ráðherra í ríkisstjórn sem endaði með ósköpum en fjórða sætið er vel skipað með hana þar.  Katrín Júlíusdóttir spilaði mjög skynsamlega úr sínu og náði því í 2. sætið.  Hún nýtur þess að vera komin með tveggja ára reynslu á þingi og hafa ekki verið í eldlínu ásakana í efnahagshruninu.  Katrín er því eflaust enn í hugum fólks sem ferskur vindur endurnýjunar og glæsilegur fulltrúi kvenna á þingi. 

Magnús Orri Schram var sigurvegari nýliða í hópnum og náði 5. sætinu, sem verður jafnframt baráttusæti flokksins í alþingiskosningunum.  Ég hef trú á því að Magnús Orri eigi eftir að standa sig verulega vel í þeirri baráttu enda er hann mjög skipulagður og kemur máli sínu vel til skila.  Hann er búinn að starfa lengi með Samfylkingunni, m.a. sem kosningastjóri og því er hann vel að því kominn að fá þennan góða stuðning í sínu fyrsta prófkjöri.

Amal Tamimi mun fá 6. sætið því samkvæmt fléttureglunni þarf Magnús M. Norðdahl að færast niður.  Vinni listinn 5 þingsæti 25. apríl, verður Amal fyrsti varaþingmaður flokksins í kjördæminu og mun líklega fá að verma eitthvað bekki Alþingis, því ósjaldan þurfa þingmenn einhver leyfi frá störfum á fjögurra ára tímabili.  Þetta er sigur fyrir baráttu Amal fyrir jafnrétti og gegn mismunun að hvaða tagi sem er.  Hún talar máli aðflutts fólks og hefur kynnt sig m.a. á litháísku og ensku á vefsíðu sinni.

Magnús M. Norðdal er mikill talsmaður mannréttinda og jafnaðar  og á mikla reynslu að baki í stjórnmálastarfi.  Ég hefði viljað sjá hann ofar á lista en þegar einvalalið manna er til staðar geta ekki allir verið á toppnum í einu.   Hans tími kemur síðar enda er hann þrautseigur með eindæmum.

Sætin 8 til 15 voru ekki gefin upp opinberlega, en ég get sagt ykkur að ég fékk atkvæði frá 766 kjósendum og er ég mjög ánægður með það.  Ég tók þátt aðeins til reynslu, með skömmum fyrirvara og hafði ekki byggt upp nein tengslanet fyrir prófkjörið eins og tíðkast hjá reyndum stjórnmálamönnum.  Ég lít á þetta prófkjör einungis sem eitt skref af mörgum sem ég þarf að taka ásamt öðrum til að bæta mannréttindi og lýðræði á Íslandi.   Baráttan heldur áfram.

Þátttakan er búin að vera mjög lærdómsrík og hefur styrkt þá skoðun mína að frambjóðendur Samfylkingarinnar eigi skilið að fá góða kosningu 25. apríl nk. vegna góðra málefna og mannkosta. 

Ég var ánægður að heyra að umræðan um aflagningu kvótakerfisins er langt frá því að vera dauð innan flokksins og almennur áhugi á mannréttindum er mikill.  Margir tóku undir með mér um mikilvægi jafnrétti lífsskoðunarfélaga og kröfuna um eina hjónabandslöggjöf.

Með þennan mannauð ætti flokknum að vegna vel í SV-kjördæmi í komandi alþingiskosningunum.  Knörrinn er ferðbúinn og kominn með byr í seglin!

 


mbl.is Árni Páll sigraði í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi í öndvegi!

Enn á fjöldi skráðra kjósenda hjá Samfylkingunni í SV-kjördæmi eftir að skila inn sínu atkvæði í prófkjörið.  Í dag 14. mars er síðasti dagur kosningarinnar og fyrir þá sem eru að skoða fyrir hvað frambjóðendurnir standa þá vil ég kynna fyrir hvað ég stend.  Eftirfarandi eru mín áhersluatriði og eru manréttindi höfð í öndvegi.

Hið Nýja Ísland á að byggjast á endurreisn siðferðisins á öllum sviðum þjóðfélagsins og sérstök áhersla verði lögð á kennslu siðfræði og heimspeki í skólum landsins.   Þetta var megin niðurstaða opins vinnufundar á vegum Háskóla Íslands í febrúar þar sem saman voru komnir fulltrúar fjölmargra frjálsra félagasamtaka og fræðimenn úr háskólanum.  Ég vil að þetta verði að veruleika og legg að auki til að:    

Byrja á því að bæta siðferði í stjórnmálum og stjórnsýslu.  Þróa og koma í kring þroskaðra lýðræði.  Tryggja meiri valddreifingu.

  • Minnka vald prófkjara.  Röð megi breyta í alþingiskosningum. 
  • Stjórnlagaþing kjörið á 8 ára fresti til að endurskoða stjórnarskrána.  Þjóðaratkvæði. 
  • Endurskoða ráðherravaldið og starfsreglur ríkisstjórnarinnar – leggja af „ráðstöfunarfé ráðherra“.  Takmarka meira ráðningavald ráðherra í dómstóla.
  • Afnema 5% kjörþröskuld flokka.  Segjum nei við dauðum atkvæðum.
Mannréttindi snúast um að gefa öllum jöfn tækifæri og þegar misrétti er leiðrétt veldur það oft þeim sem nýtur forréttinda, óþægindum vegna minnkaðra fjárhagslegra gæða, áhrifa og valda.  Þetta fólk vill gjarnan ekki missa ofurlaunin sín eða skinhelgi sína og mun koma með óvægna gagnrýni á þá sem óska eftir jafnrétti.  Þetta þekki ég af eigin reynslu og er tilbúinn í baráttuna.Við höfum náð langt í land með sumt, en enn vantar að:

Útrýma launamisrétti og ráðningamisrétti kynjanna.

Sameina öll ástarsambönd í eina hjónabandslöggjöf.  

Í öðru höfum við vart byrjað að vinna í og löngu kominn tími til að sýna kjark með því að:
  •  Afnema stöðu evangelísk-lútersku kristnu kirkjunnar sem þjóðkirkja.   Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkinu.  
  • Leggja af sérréttindi og fyrirgreiðslur þjóðkirkjunnar (jöfnunarsjóð og laun) ellegar veita öðrum félögum hið sama.  Afnema opinbera skráningu barna í trúfélög.  Spara má 2-3 milljarða með þessu sem nýta má til heilbrigðis- og menntamála. 
  • Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) og gefa lagaréttindi til jafns við trúfélög.  Bæta hlutlausan húsakost til útfara í Fossvogskirkjugarði.  
  • Afnema ýmis bönn í lögum tengd helgidögum þjóðkirkjunnar.  Afnema guðlastslög. 
  • Afnema einkaaðgang þjóðkirkjunnar að leik- og grunnskólum.  Samkvæmt grunnskólalögum eru skólar ekki trúboðsstofnanir.  Banna dreifingu trúarrita í skólum.
  • Afnema einkaaðgang þjóðkirkjunnar að alþingismönnum við setningu Alþingis og að þjóðinni með reglubundnum messum í ríkisútvarpi og sjónvarpinu á tyllidögum. 
  • Færa aðalnámskrá í Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði í hlutlægt form þannig að í henni sé ekki þær stórkostlegu ýkjur fyrir mikilvægi kristninnar á kostnað annarra lífsskoðana eins og nú er þar ritað.

Eftirfarandi verður heldur ekki of oft kveðið:

  • Færa auðlindir sjávarins aftur í fang þjóðarinnar.  Afnema kvótakerfið.       
  • Samræma löggjöf gegn mismunun og auðvelda einstaklingum að sækja mál.     
  • ESB aðildarviðræður – mannréttindalöggjöf ESB er til fyrirmyndar og langtum fremri okkar.
  • Uppbygging fjölbreytts atvinnulífs án þess að skaða landið – ekki fleiri álver!
Ég vil vera kyndilberi ofangreindra mála á Alþingi til aukins jafnréttis á Íslandi.  Siðaðra og betur upplýst þjóðfélag í samfélagi vinaþjóða er ein farsælasta leiðin til meiri hamingju okkar allra.

Ég óska eftir stuðningi skráðra kjósenda í  3.-6. sæti á lista Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi.   

---

PS:  Skráðir félagar í Samfylkinguna sem búa í SV-kjördæmi geta vitjað lykilorðs í heimabankanum sínum undir "Rafræn skjöl".  Sé ekki til staðar skjal með lykilorðinu þar má heimsækja síðunu www.vefprofkjor.is, velja kjördæmi og slá inn kennitöluna sína.  Þar er hægt að velja "endursenda lykilorð" og vitja þess á ný í heimabankanum.  Það ætti ekki að taka nema 2-3 mínútur.  Látum atkvæðin tala og veljum gott fólk til forystu.


Reynsla mín af kosningabaráttu í prófkjöri

Atkvæðin rúlla inn! 

Nú er liðinn einn sólarhringur frá því að kosning hófst í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi og hafa liðlega 300 manns hafa kosið skv. bráðabirgðatölum um þátttöku frá kjörstjórn.  Það telst góð byrjun og lofandi fyrir mikla þátttöku.

Ég er einn af 15 frambjóðendum og er þetta í fyrsta sinn sem ég tek þátt í prófkjöri.  Hópurinn er breiður og sterkur þannig að ég geri mér engar grillur um sæti framarlega þó auðvitað tæki ég slíku tækifæri fagnandi ef það gæfist.  Kosningabaráttan hefur farið einstaklega vel fram og frambjóðendur sýnt vináttu í garð hvors annars og verið í alla staði málefnalegir.  Skipulag kjörstjórnar hefði mátt vera aðeins betra, en hefur verið í öllum aðal atriðum mjög traust.  Það er mikilvægt að það má raða 6-8 frambjóðendum á kjörseðlinum því þá verður kosningin tölfræðilega marktækari fyrir 8 efstu sætin.  Samkvæmt reglunum eru 5 efstu sætin bundin, þ.e. kjörstjórn má ekki breyta röð þeirra nema til að uppfylla fléttulistaákvæðið.  

Það er sérlega jákvætt að fjöldi karla og kvenna í kjöri er jafn og gerðist það án þess að nokkrum þrýstingi væri beitt til að fá konur til framboðs.  Slíkt er merki þroskaðs flokks.  Fléttureglan gæti orðið einhverjum körlum til bjargar, en ekki konum.   Ég lít á það sem jákvætt "vandamál".

Það er búin að vera jákvæð og skemmtileg reynsla að funda með íbúum sveitarfélaganna í kjördæminu og hvernig sem fer í prófkjörinu þá tel ég að þau mál sem ég ber fyrir brjósti hafi nú heyrst víðar og vonandi vakið fleiri til umhugsunar.  Þau tvö mál sem ég var sá eini sem hélt á lofti í framboðsræðunum svo ég viti til voru:

  1. Eina hjónabandslöggjöf fyrir alla.
  2. Jafnrétti lífsskoðunarfélaga - aðskilnaður ríkis og einnar kirkju í stjórnarskrá og lögum.

Allir frambjóðendur höfðu sínar málefnaáherslur eða leiðir en gegnumsneitt var ánægjulegt að heyra að mikil samstaða var um að:

  1. Lyfta þjóðinni úr öldudal græðgi og spilltra stórnmála.  Bæta lýðræðisskipan.
  2. Að stjórnarsamstarf við xD sé óhugsandi og lýsa eigi yfir áhuga á samstarfi með Vg.
  3. Að lágmarkskrafa og nauðsynlegt sé að fara í aðildarviðræður við ESB.
  4. Stefna að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og veðja ekki á fá stór egg.
  5. Greiðsluaðlögun og stuðningur við fjölskyldurnar í landinu. 
  6. Efla klassíska jafnaðarstefnu- skipta kökunni jafnt og búa öllum jöfn tækifæri.

Hægt er að kjósa fram til 16:00 á laugardaginn séu menn félagar í xS eða hafi skráð sig á stuðningsmannalista flokksins fyrir 10. mars sl. 

Ég ætla ekki að spá um úrslit, en hver sem þau verða mun Samfylkingin hafa á að skipa mjög traustu fólki - með hjartað á réttum stað - fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl næstkomandi.  

Um stefnumál mín má lesa um í framboðsgreinum mínum merktum I-V hér neðar á blogginu. 

Ég hvet þá sem þetta lesa að taka þátt í skoðanakönnunum mínum hér í dálknum hægra megin. 

Ég þakka öllum meðframbjóðendum og þeim sem hafa veitt mér stuðning undanfarnar 2 vikur. 

 


Skref í rétta átt!

Það var ekki fyrr en árið 2006 að ég áttaði mig á því að sú hefð að skrá ómálga börn í trúfélög er fásinna og brot á rétti þeirra til að vera ekki stimpluð af skoðunum foreldra þeirra.  Engum dettur í hug að skrá börn í stjórnmálaflokka eða kalla þau eftir þeim, t.d. sjálfstæðisbarn eða samfylkingarbarn.  Ég hafði ekki hugsað út í þessa hluti og það var heimildamynd Richard Dawkins um trúarbrögð sem vakti athygli mína á þessari stimplun barna. 

Börn eiga að hafa frelsi til að móta sínar eigin skoðanir og þurfa ekki að mæta þrýstingi til að skrá sig í félög sem lúta að flóknum hugmyndakerfum eins og lífsskoðunarfélög (trúarleg eða veraldleg) eða stjórnmálafélög innihalda.  Hjá Siðmennt er ekki tekið við skráningum í félagið fyrr en við 16 ára aldur.  Ungmenni í borgaralegri fermingu þurfa því ekki að ganga í félagið og þurfa ekki að játa neina lífsskoðun umfram aðra.  Það er til mikils ætlast af 13-14 ára ungmenni að játast trúarleiðtoga en í kristinni fermingu er tekið af þeim heitið:  "Vilt þú leitast við að að gera Jésu Krist að leiðtoga lífs þíns?"  Þetta eru stór orð og óeðlileg að mínu mati.  Hvers vegna ætti nokkur manneskja að gera einhverja eina aðra manneskju að "leiðtoga lífs síns" og bugta sig fyrir fulltrúa hans?  Í kringum siðaskiptin um miðja 16. öld var til kristin deild manna sem lét ekki skírast fyrr en á fullorðinsaldri.  Þetta voru svokallaðir anababtistar.  Þetta hugnaðist ekki kaþólsku kirkjunni og var þessu fólki því útrýmt í Evrópu með fjöldamorðum.  Lúther skrifaði þeim til varnar í byrjun, en gerði ekkert meir. 

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra ætlar að láta velferð barnsins ráða í þessu máli.  Ég vona að svo verði og að hún geri sér ljóst að ríkið á ekki að taka þátt í því að skrá börn í trúfélög og að sú sjálfkrafa skráning í trúfélag móður sem nú á sér einnig stað er einnig brot á rétti foreldrisins til að taka meðvitaða ákvörðun um það hvort að það vill skrá barnið eða ekki.


mbl.is Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðsgreinar: hluti V - yfirlitsgrein áherslumála minna

Hér að neðan fer yfirlit þeirra mála sem ég stend fyrir í stjórnmálum og baráttu fyrir mannréttindum.   

Kæru kjósendur!

Ég heiti Svanur Sigurbjörnsson og er 44 ára læknir sem starfar á heilsugæslustöð Mosfellsbæjar og Slysa- og bráðamóttöku Lsh í Fossvogi.  Ég er giftur Soffíu Lárusdóttur, viðskiptafræðingi og á uppkomna dóttur í háskólanámi.  Ég hef starfað víða á landsbyggðinni og 7 ár erlendis.

Ég sækist eftir 3.-6. sæti á lista flokksins í SV-kjördæmi.   

Stefnumál mín eru flest í samræmi við stefnuskrá Samfylkingarinnar og helstu áhersluatriði mín eru:

·         Endurreisa efnahaginn með leikreglum sem gæta jafnvægis í bæði frelsi og taumhaldi, þannig að óvarleg áhættusækni verði ekki verðlaunuð, en frumkvæði fái að njóta sín.   

·         Nýta alla möguleika til greiðsluaðlögunar og sveigjanleika fyrir heimilin og fyrirtæki sem hafa ekki fyrirgert öllum möguleikum á því að rétta úr kútnum.  

·         Byggja upp atvinnuvegi sem skaða ekki „land eða lungu“.  Stóriðjustopp takk! 

·         Fara í aðildarviðræður við ESB.  Meta kosti og galla og ganga svo til þjóðaratkvæðagreiðslu.   

·         Bæta siðferði í stjórnmálum og stjórnsýslu.  Þróa og koma í kring þroskaðra lýðræði.

o   Minnka vald prófkjara.  Röð megi breyta í alþingiskosningum.

o   Stjórnlagaþing kjörið á 8 ára fresti til að endurskoða stjórnarskrána.  Þjóðaratkvæði.

o   Endurskoða ráðherravaldið og starfsreglur ríkisstjórnarinnar – leggja af „ráðstöfunarfé ráðherra“.  Takmarka meira ráðningavald ráðherra í dómstóla.

o   Afnema 5% kjörþröskuld flokka.  Segjum nei við dauðum atkvæðum. 

·         Mannréttindamál:

o   Útrýma launamisrétti og ráðningamisrétti kynjanna.

o   Eina hjónabandslöggjöf takk.  

o   Samræmda löggjöf gegn mismunun.  Gera fólki betur kleift að sækja mál. 

·         Afnám stöðu evangelísk-lútersku kristnu kirkjunnar sem þjóðkirkja.

o   Afnema ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni – þessu má breyta með lagabreytingu.  Forsetinn sé ekki verndari kirkju og Alþingi hefjist ekki í kirkju.  Árið er 2009 en ekki 1609!!

o   Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkinu.   Leggja af sérréttindi og fyrirgreiðslur þjóðkirkjunnar (jöfnunarsjóð og laun) ellegar veita öðrum félögum hið sama.  Spara má 2-3 milljarða með þessu sem nýta má til heilbrigðis- og menntamála.

o   Afnema ýmis bönn í lögum tengd helgidögum þjóðkirkjunnar.  Afnema guðlastslög.  Afnema aðgang þjóðkirkjunnar að leik- og grunnskólum.

o   Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög (Siðmennt) og gefa lagaréttindi til jafns við trúfélög.  Bæta hlutlausan húsakost til útfara í Fossvogskirkjugarði.

o   Leggja af Guðfræðideild HÍ og stofna þess í stað fag í trúarbragðafræðum almennt.  Efla hlutlausa trúarbragðafræði og heimspeki í grunnskólum.  

·         Menntamál.  Auka veg kennara og efla kennslu í siðfræði, heimspeki, rökfræði, samskiptum, stjórnmálafræði og hugmyndasögu.  Auka úrræði gegn einelti og félagslegri einangrun. 

·         Heilbrigðismál

o   Reka metnaðarfullt heilbrigðiskerfi sem nýtur ákveðins forgangs í fjárlögum.

o   Spara með því að ríkið greiði niður valdar lyfjategundir.  Bæta fjármálastjórnun svo  heilbrigðisstofnanir borgi ekki milljónir í dráttarvexti vegna vanskila við byrgja.   

o   Stefna að sameiningu bráðamóttöku og bráðadeilda stóru spítalanna, en gera það með varanlegum hætti í nýjum spítala.  Milliplön kosta mikið. 

o   Bæta heimaþjónustu og byggja næg hjúkrunarrými fyrir aldraða.  Slíkt sparar mikið og greiðir fyrir þjónustu bráðasjúkrahúsanna.

o   Tvo forvarnardaga á ári í formi opinna laugardaga á heilsugæslustöðvum.  Byggja upp heilsteyptari áætlun forvarna, t.d. gagnvart ristilkrabba sem verði á leitarstöð, en annað í gegnum heilsugæsluna.  Vernda bólusetningakerfið frá áróðri gervivísinda.

o   Möguleika á 15 tímum á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá heilsugæslulækni.  Þetta gæti stuðlað að minni notkun geðlyfja og bættri geðheilsu.

o   Bæta tannvernd

·         Landbúnaður – Minnka miðstýringu.  Auka möguleika á milliliðalausri sölu afurða til fólks.

·         Sjávarútvegsmál – nú er lag til að leiðrétta það misrétti sem felst í kvótakerfinu.

·         Unga fólkið – Á krepputíma þarf styðja við fjölbreytta menntun, ekki síst verklega.  Innganga í ESB stuðlar að þeim stöðuleika sem þarf til að afnema verðtryggingu lána. 

Ég stend fyrir vönduðum málflutningi og vinnubrögðum innan flokks sem utan og hafna óhóflegri flokkspólitík því það er sama hvaðan gott kemur. 

Ég set málefnin ofar valdabrölti og eiginhagsmunapoti.  Ég vil stuðla að aukinni stjórnmálalegri þekkingu og bættri lýðræðisþróun.  

Stuðningur við framboð mitt gefur skilaboð um að ofangreind málefni eigi að njóta stuðnings og að mér sé treystandi til að framfylgja þeim á Alþingi.  Ég óska eftir því trausti frá þér og stuðningi til að hljóta 3.-6. sætið í prófkjöri SV-kjördæmis Samfylkingarinnar. 

Baráttukveðjur

Svanur Sigurbjörnsson 

- - - 

Prófkjörið er haldið 12.-14. mars með netkosningu eða með kosningu á kjörstöðum 14. mars í Hafnarfirði, Kópavogi eða Mosfellsbæ.   Það er opið félagsmönnum og skráðum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, sem þurfa ekki að ganga í flokkinn við það tækifæri.  Hægt er að skrá sig á www.samfylkingin.is á þar til gerðu formi í síðasta lagi 10. mars.  Skráðir félagar og stuðningsmenn fá úthlutað lykilorði í gegnum heimabanka.  Nánari leiðbeiningar eru á samfylkingin.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband