Framboðsgreinar: hluti IV - Umhverfismál og atvinnustefna þeim tengd

Það er deginum ljósara að við þurfum raforku til að lýsa upp heimilin og elda matinn.  Við þurfum hana til að knýja ýmis raftæki, þ.á.m.t. tölvur og netþjóna.  Við ætlum ekki til baka 100 ár og afneita okkur þessum gæðum.  Við þurfum því virkjanir og einhverja viðbót við þær eftir því sem mannfjöldinn eykst.  Sólarupprás við Grundartanga

Virkjanir kosta okkur – ekki aðeins fjármuni, heldur einnig ásjónu landsins og valda breytingum á gróðri og dýralífi.  Fleiri vegir, fleiri rafmagnsstaurar, fleiri varasamar lagnir, fleiri skipulögð svæði í óspilltri náttúru. Við þurfum atvinnuvegi til að fæða og okkur og klæða, en hvar erum við stödd og hvaða valkosti höfum við til uppbyggingar á þeim?  Erum við svo illa stödd að stóriðja verður að vera í myndinni til að skapa lífsviðurværi handa hluta þjóðarinnar? Erum við svo aðþrengd með valkosti til uppbyggingar atvinnu að orkufrekur stóriðnaður og risavaxin netþjónasetur eru óumflýjanleg svo forða megi of miklu atvinnuleysi og langvarandi fjármálakreppu?

Dugir ekki lágorkuiðnaður, ferðaþjónusta, ræktun, búvöruframleiðsla, sjávarútvegur, hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki, verslun, útflutningur fullunninnar vöru og annað margt smálegt í sniðum en stórt í heild?  Ég tel að þetta dugi. 

Eða er ástæðan fyrir brennisteinspúandi borholum, risastíflum, uppistöðulónum og álverum einfaldlega sú að erindrekar snjallra drengja  í forstjóraleik vilja nýta alla möguleika landsins til að snúa orkuframleiðslu í fjármuni?  Sjáið fyrir ykkur eftirfarandi með mér!
Maðurinn vill verða forstjóri og aðal hluthafi 500 megavatta virkjunar í einhvers konar „ríkis-einkaeign“,   Hann sér fyrir sér stálið og strókinn á himninum um leið og gormet elskandi megabeibið við hlið hans gefur frá sér sælubros yfir 800 fermetra sumarbústaðssetrinu sem er í byggingu.  Það stendur hátt uppi á fegurstu hæð náttúruperlu í innsveitum, sem gleymst hafði að friða.  Hann væri jafnframt virtur af hundruðum manna fyrir að skapa þeim atvinnu.  Þetta fólk teldi að án hans hefði það lifað í fátækt.   Millinafn hans væri „kaupmáttarauki“ og það myndi kosta hálfan milljarð að reka hann.  Fólki þætti það sanngjarnt vegna gríðarlegrar ábyrgðar sem felst í forstjórastarfinu. 

Höfum við ekki sagt nei við þessari sýn nú?  Bless 1997-2007!  Megi draugar græðgi þinnar koðna.

Við verðum alltaf að spyrja okkur; Erum við of gráðug og óþolinmóð eða erum við að gera það illskásta í stöðunni af brýnni nauðsyn?  Erum við að hugsa um að gera það nauðsynlegasta og valda sem minnstu náttúruraski eða viljum við framleiða orku og málm af því að það blasir við sem efnahagslegt páskaegg af stærð 8?  Við fullorðna fólkið eigum að vita að stærstu eggin eru ekki endilega þau hollustu fyrir okkur eða skila okkur mestri vellíðan á endanum.   Ég vil ekki fleiri virkjanir og stóriðjur, en renni upp sá dagur að hagfræðingar færi mér mjög góð og gild rök fyrir því að þjóðin þurfi nauðsynlega akkúrat slík úrræði til að forða sér frá fátækt og langvarandi atvinnuleysi, skal ég endurskoða afstöðu mína.   Líkt og þegar læknir hugar að meðferðarúrræðum fyrir skjólstæðing sinn, ætti fyrsta reglan í úrræðum til uppbyggingar atvinnu að vera; sköðum ekki!

Framboðsgreinar: hluti III - nánar um þrjá málaflokka

Málefni lífsskoðana, menntunar og heilbrigðiskerfis:

·         Aftenging ríkis og trúar, þ.e. aflögn þjóðkirkju.  Jafnræði lífsskoðunarfélaga

o   Leggja af þjóðkirkju og sérstaka verndun hennar skv. stjórnarskrá.   Hún verði að taka upp annað heiti og biskup hennar verði ekki „biskup Íslands“.  Forsetinn á að vera verndari allra þegna landsins, ekki einungis eða sérstaklega evangelísk-lúterskra kristinna manna.  Alþingi komi saman í Háskóla Íslands og hlusti á stutta ræðu rektors í stað þess að fara í dómkirkju kristinna.  Einnig má sleppa alfarið slíku fyrir setningu Alþingis. 

o   Halda sóknargjaldakerfinu til handa trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum, en önnur fjárhaldsleg tenging ríkisins við félögin verði ekki.

o   Greiða öðrum en þjóðkirkjunni jöfnunarsjóðsgjöld í 3 ár og leggja svo sjóðinn niður.  Jöfnunarsjóður byggir á 18% upphæð af sóknargjöldum.  Jafna þarf aðeins það mikla misrétti að einungis þjóðkirkjan hefur notið þessa sjóðs síðustu öld.

o   Lækka laun presta þjóðkirkjunnar um 25% á ári í 2 ár og hætta svo launagreiðslum eftir 3 ár.  Með þessu næst mikill sparnaður fyrir ríkið en vilji þjóðin ekki spara á þennan hátt verður að greiða samsvarandi launakostnað til annarra lífsskoðunarfélaga einnig.  Slíkt yrði aukning um 15% í launakostnaði í stað sparnaðar.

o   Hætta skráningu barna undir 16 ára aldri í trúfélög, þ.m.t. sjálfkrafa skráningu þeirra í trúfélag móður.  (Sóknargjöld miðast við skráða einstaklinga 16 ára eða eldri).

o   Viðurkenna veraldleg lífsskoðunarfélög  - þau fái sóknargjöld og lagastöðu til að gifta.  Nefna í lögum um útfarir athafnarstjóra sem faglærða aðila sem stýra útförum og tryggja að óvígðir grafreitir séu í kirkjugörðum.  Rýmka lög um ráðstöfun ösku látinna. 

·         Efling menntunar.  Rökfræði, siðfræði og aðferðafræði vísinda gerð mun betur skil.

o   Bæta kjör kennara og lengja aðeins skólaárið.  Efla raunvísindi.  Áfram frían háskóla.

o   Kenna hugmyndasögu og heimspeki til jafns við aðra sögu. 

o   Efla aga og taka á gerendum eineltis í skólakerfinu.  Færa þarf úrræði í hendur kennara og skólastjórnenda svo foreldrar þurfi að gera eitthvað í málunum einnig.

·         Heilbrigðiskerfið: 

o   2 forvarnardaga á ári í formi opinna laugardaga á heilsugæslustöðvum.  Byggja upp heilsteyptari áætlun forvarna, t.d. gagnvart ristilkrabba sem verði á leitarstöð, en annað í gegnum heilsugæsluna.

o   Fimmtán tíma á ári hjá sálfræðingi gegn tilvísun frá heilsugæslulækni

o   Taka meira þátt í tannvernd.

o   Sameina spítala höfuðborgarsvæðisins undir eitt þak hið fyrsta.  Þetta á sérstaklega við um bráðamóttöku og legudeildir bráðveikra ásamt öllum skurðdeildum sem sinna bráðatilvikum.  Til að gera þetta á öruggan máta þarf nýtt hús.  Það þarf ekki að vera eins gríðarlega stórt og upphaflega var áætlað.   Slík framkvæmt gæti reynst góð innspýting í atvinnulífið.

o   Banna með reglugerð eða lögum innlagnir á ganga spítaladeilda.

 

Fleira má tína til en ég vil nefna það að í niðurstaða vinnuhópa á nýlegum fjöldafundi sem haldinn var á vegum HÍ, þar sem fólki úr ýmsum frjálsum samtökum og félögum var boðið, var sú að mikilvægast til að byggja upp "nýtt Ísland" var að efla siðfræði og siðferði í landinu, m.a. með eflingu menntunar um slíkt á öllum stigum grunnskóla.  Ég var mjög ánægður að sjá þá niðurstöðu og gefur mér von um að við getum gert breytingar á þjóðfélaginu til aukinnar farsældar (en ekki einungis hagsældar) og hamingju.

Í dag hefst skráning stuðningsmanna Samfylkingarinnar (þ.e. fólks sem vill taka þátt í prófkjörinu þó að það sé svanur-framboð3-6ekki skráðir félagar í xS) á www.samfylkingin.is og lýkur henni 10. mars.  Viljir þú lesandi góður styðja mig í að koma ofangreindum málum á framfæri og í lög okkar landsmanna getur þú skráð þig og greitt mér atkvæði í netkosningu (eða farið á kjörstað) dagana 12-14. mars í 3-6 sæti, því ofar, því betra auðvitað ;-) .  Nánari upplýsingar liggja einnig fyrir í bæklingi sem dreift er í dag til allra íbúa í SV-kjördæmi.  Skrifa má mér á netfangið svanurmd hjá gmail.com fyrir nánari upplýsingar. 


Framsókn í hnoði

Í stað þess að vera flokkur sem styður stjórnina falli í þessa fáu daga sem hún starfar, þarf Framsóknarflokkurinn að vera í hnoði til þess að slá sig til riddara og reyna að láta líta út eins og þeir séu framhjólið á þríhjólinu.  Formaður þeirra segir að með tillögum sínum hafi þeir viljað hjálpa til og flýta fyrir, en með því að koma með þar innan um draumórakennda tillögu um 20% niðurfellingu skulda, tókst þeim akkúrat hið gagnstæða.  Það er ekki hægt annað en að svara slíkri tillögu og slíkt tefur og tekur orku frá þeim mönnum sem eiga að einbeita sér að samningu aðgerða.  Getur Framsókn ómögulega setið á strák sínum (eða hverju sem þeir sitja á venjulega) og gefið þeim flokkum sem tóku ábyrgð á ríkisstjórn landsins frið til að vinna?  Auðvitað eru þeir æstir í að sýna sig og sanna með nýtt fólk við stjórnvölin, en of mikið pot getur hreinlega virkað öfugt, enda sýnir sig að uppsveifla þeirra hefur hjaðnað talsvert í síðustu skoðanakönnunum.  Hott hott Framsóknarfákur!
mbl.is Fundað um stjórnarsamstarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboðsgreinar - hluti II: Lýðræði og kosningar

img_3683-ptrt-adj-400sh.jpgEins og í sagði í síðasta bloggi mínu, þá býð ég mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi 12-14. mars.  Rétt til að kjósa í prófkjörinu hafa skráðir félagsmenn xS í kjördæminu og svo fólk sem skráir sig á lista stuðningsmanna Samfylkingarinnar á www.samfylkingin.is frá og með 4. mars.

Lýðræði og kosningar

Við búum við fulltrúalýðræði á Íslandi.  Nánast engar þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni fara fram þannig að kjörnir þingmenn ráða málum eftir að þeir hafa náð kjöri.  Í stóru flokkunum er ákveðið í tiltölulega smáum prófkjörum hverjir fá að fara á þing og þingkosningarnar sjálfar hafa nær ekkert um það síðan að segja, hvernig röð manna er.  Útstrikanir á nafni Björns Bjarnasonar í síðustu kosningum höfðu t.d. ekkert að segja og maðurinn var meira að segja gerður að ráðherra eftir þá útreið sem hann fékk í kosningunum.  Flokksforystan gaf kjósandanum fingurinn.

Prófkjör geta farið sæmilega fram, en oftar en ekki fara þau herfilega fram.  Þeir ríkustu og frekustu smala saman fólki sem þekkir frambjóðandann aðeins af afspurn eða á sameiginlegt póstnúmer með viðkomandi, og massa inn atkvæðum frá fólki sem nýgengið er í flokkinn.  Þetta eru ekki upplýstar ákvarðanir sem þarna eru teknar, heldur breytast stjórnmálin þarna í eins konar íþrótt og smölunarlist.  Í ljósi þess hversu mikilvægar ákvarðanir eru teknar í prófkjörum og með hliðsjón af þessum alvarlegu vanköntum þeirra er vald þeirra of mikið.  Ég er því hlyntur því að ekki séu birtir listar með númerum (þó raðað sé skv. prófkjöri) á kosningaseðlunum, heldur geti kjósandi viðkomandi flokks breytt röðun kjörmanna í kosningunum sjálfum.  Einfaldar meirihlutareglur gildi þar, þ.e. ef meira en 50% kjósenda vill einhvern mann niður um sæti (eða upp), gildi það, en ekki útkoma prófkjörs.  Í þingkosningum er ekki hægt að smala á sama máta og við prófkjör og því er þetta mun lýðræðislegri máti.  Einnig eru frambjóðendur búnir að fá lengri tíma til að kynna sig.

Annað sem ég vil breyta varðandi kosningar er sá þröskuldur framboða sem þarf til að ná manni á þing.  Í dag þarf 5% fylgi sem þýðir að ná þarf a.m.k. þremur mönnum inn til að ná einhverjum á þing.  Nóg ætti að vera að geta náð einum manni inn því þannig er í raun verið að leyfa visst form af einstaklingsframboði sem svo margir hafa óskað eftir.  Vissulega geta stakir þingmenn skapað ákveðin vandamál í myndun ríkisstjórna, en ég tel að það vandamál skipti minna máli en réttur manna til að njóta sannmælis af fylgi sínu.

Þjóðaratkvæði - þau á að gera mögulegri.

Stjórnarkreppa eða umboðskrísa.  Til þurfa að vera viðmiðunarreglur um það hvenær ríkisstjórn hafi misst traust og eigi að boða til nýrra kosninga.  Það má ekki gerast að stjórnir þaulsitji eins og steinrunnir þursar þegar mikilvægar forsendur kosningar þeirra á alþingi eru brostnar.

Flokkaskipti þingmanna.  Skoða þarf af alvöru slík mál.  Það er mótsögn í því að þingmaður fari með fylgi sitt í allt annan flokk en kaus hann.  Þarna þarf nýjar viðmiðunarreglur og þætti mér ekki óeðlilegt að slíkt sé leyfilegt 4-6 mánuðum fyrir lok kjörtímabils, en ekki fyrr. 

Meira síðar.  Hvað finnst þér?


Býð mig fram í 3-6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi!

Kæru lesendur moggabloggs

Ég hef skráð mig í prófkjör Samfylkingarinnar á Kraganum sem mun fara fram með netkosningu félaga og skráðra stuðningsmanna Samfylkingarinnar dagana 12.-14. mars (fim-lau) nk.

Svanur SigurbjörnssonÞetta er í fyrsta sinn sem ég býð mig fram á lista til alþingiskosninga, en áður kom ég að stjórnmálastarfi í Frjálslynda flokknum og Íslandshreyfingunni.  Það kom aldrei til þess að ég byði mig fram með þessum flokkum því mér leist ekki nógu vel á gang mála hjá þeim þegar dró nær kosningum.  Valdabarátta og ósætti gekk að þeim fyrrnefnda nær dauðum og hinn þjáðist af óskipulagi og ólýðræðislegum vinnubrögðum.  Ég gekk því í Samfylkinguna 1 mánuði fyrir kosningarnar fyrir 2 árum.   Samfylkingin hefur höfðað til mín frá því að hún var stofnuð, en ég var ekki nógu sáttur við að mér fannst skorta á baráttu gegn kvótakerfinu og jafnræði lífsskoðunarfélaga (t.d. afnám ríkistrúar).  Þó að enn skorti þar á, hefur flokkurinn alla möguleika á því að bæta þar um og sá mannauður sem þar er, er grundvallarforsenda þess að hægt sé að koma góðum málum gegnum Alþingi.  Þau tæpu 2 ár nú sem ég hef verið í Samfylkingunni hafa sannfært mig um að hér sé flokkur sem hafi mestu möguleikana á því að gera þjóðinni hve mest gagn næstu árin.  Í framboði nú í prófkjörinu í SV-kjördæmi er jafnt hlutfall kvenna og karla, en það ber því vitni að flokkurinn hefur náð þeim þroska að hann höfðar jafnt til beggja kynja.  Þetta er einn sá besti gæðastimpill sem flokkur eða félag getur fengið. 

Í mínum huga eru það tvenns konar málefni sem skipta okkur mannfólkið mestu.   Það eru annars vegar lífsskoðunarmál og hins vegar stjórnmál.  Þessi mál skarast oft og eru hver öðru háð.

Lífsskoðunarmálin varða siðferði okkar, tengsl, fjölskyldulíf og hverju við trúum að sé gild þekking.  Þau snúast einnig um félög og leiðtoga tengdu þessu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög eru fjölmennust og trú á guð eða guði hefur ráðið hugum margs fólks með góðu eða illu um þúsundir ára.  Veraldleg lífsskoðunarfélög (húmanistar, efahyggjufólk, skynsemishyggjufólk o.fl.) hafa fengið að anda frjálst í aðeins nokkra áratugi þó hugmyndafræði þeirra sé miklu eldri og má t.d. rekja til ýmissa hugsuða Forn-Grikkja.  Lífsskoðunarmálin eru f.o.f. mikilvæg því þau taka afstöðu til þess hvernig við breytum siðferðilega og innifala spurningar og svör um það hvaðan siðferði okkar kemur.  Lög og mannréttindi byggja algerlega á siðferðinu og því hafa lífsskoðanir veruleg áhrif á þjóðfélagsgerðina og réttarfarið.  Þær eru því valdamiklar og afdrifaríkar, rétt eins og stjórnmálaskoðanir.  Það vald sem þær fela í sér er best aðskilið frá öðrum valda- og menntastofnunum ríkisins, því út á það gengur trygging lýðræðisins.  Valddreifingin er líflína siðaðs þjóðfélags og forsenda þess að ekki skapist spilling.  Við Íslendingar stöndum okkur ekki nógu vel í þessu tilliti.

Stjórnmálin ganga út á það hvernig við getum lifað farsællega saman í landfræðilega afmörkuðum hrærigraut og í sátt við aðra grauta heimsins.  Í gegnum mannkynssöguna er afrekalisti okkar mannanna hreint hörmulegur.  Það er mesta furða að við höfum ekki endanlega tortímt hvort öðru og miklu af öðru lífi jarðarinnar með.  Þrátt fyrir djúpa efnahagskreppu nú hafa síðastliðin 64 ár friðar á milli stórvelda gefið tilefni til bjartsýni og ástæðu til að brosa (sjá mynd af mér ;-)  Hugmyndum okkar um mannréttindi og framkvæmd þeirra hefur fleygt fram, en því miður hefur mikill fjölda þjóða utan hins vestræna heims ekki notið ávaxtanna af þessu.  Við skynjum æ meir að mannkynið er ein heild og afdrif fátækra í Afríku eða Indlandi varða okkur öll.  Við viljum geta skoðað alla náttúru heimsins og ferðast án þess að óttast um öryggi okkar.  Siðferðisvitund okkar krefst þess nú að við kaupum ekki bara kaffi á hræódýru verði því kaffibóndinn í Guatemala á ekki að vera þræll, heldur njóta sanngirni og virðingar eins og við teljum sjálfsagt hér heima.  Slíkt minnkar einnig áhuga þeirra á því að rækta plöntur fyrir eiturlyf og það minnkar líkur á notkun eiturlyfja hér heima. 

Stjórnmálin ganga út á að:

  • Halda vörð um dýrmæt siðferðisgildi, t.d. verndun lífs, frelsis og eigna fólks með lögum og réttarkerfi.  Gæta mannréttinda.
  • Búa til samtryggingu
    • Fjárhagsleg - varasjóðir, félagsaðstoð, húsnæðiskerfi
    • Heilsufarsleg - heilbrigðiskerfi, hreinlæti o.s.frv.
    • Menntunarleg - fólk geti menntað sig óháð efnahag.
    • Menningarleg - verndun og vöxtur menningu.  Söguritun og fornleifar.
  • Byggja upp sameiginlega aðstöðu til að ferðast og koma saman.  Samgöngukerfi.
  • Reka eða styðja við ákveðna atvinnuvegi - stundum bara til að koma á legg, stundum alla tíð.
  • Tryggja samráðsvettvang og fjölmiðlun - flæði upplýsinga til allra
  • Hafa samskipti og samvinnu (og viðskipti) við aðrar þjóðir og bandalög þjóða.
  • Vernda umhverfið og hindra spillingu landsins.   Gæta að öðru dýralífi. ;-)
  • Tryggja dreifingu valds og stefna að sem mestri hamingju fyrir sem flesta. 

Síðast en ekki síst er það stjórnmálanna að greina á milli þess sem ríkið á að skipta sér af eða tengjast og þess sem það á að láta vera utan sinna anga.  Þetta er mikilvægt bæði vegna þess að ríkið á ekki að láta fé í starfsemi sem á að vera rekin af óháðum aðilum og vegna þess að ríkið þarf að halda jafnræði og hlutleysi gagnvart ólíkum þegnum sínum. 

Ríkið á fyrst og fremst að tryggja farvegi og aðstöðu, en ekki vera handbendi eða sjóður fyrir forréttindahópa.  Það virðist sem að þetta ættu allir að skilja, en raunveruleikinn er annar í íslensku þjóðfélagi.  Hér ríkir mismunun á ýmsum sviðum:

  • Launamisrétti kvenna og karla - enn eigum við nokkuð í land, heil 15% eða svo.
  • Atvinnuréttindi í sjávarútvegi - kvótakerfi í bága við mannréttindi (skv. MRNSÞ)
  • Hagkerfi sem þjónar vel fyrirtækjum en illa einstaklingum.  Fólkið situr í súpunni og þarf að greiða alls kyns gjöld tengd lánum og húsnæðiskaupum.  Launafólkið ber skattbyrðarnar.
  • Undanfarin 17 ár hafa stöðuveitingar verið veittar flokksgæðingum xD og xB.  Gengið fram hjá hæfu fólki sem stöðuveitinganefndir hafa mælt með. 
  • Lífsskoðunarfélögum mismunað og haldið uppi ríkistrú.  Ímyndið ykkur að einn stjórnmálaflokkur yrði sérstaklega verndaður með stjórnarskrárákvæði, sem "þjóðflokkurinn" og um hann mætti aldrei kjósa því hann hefði flesta skráða félaga frá fæðingu.  Það er ekki siðaðri þjóð sæmandi að hafa ríkistrú í formi þjóðkirkju, sem auk milljarða króna í fyrirgreiðslum og launum, fær sérstakan aðgang að hugum þingmanna fyrir hverja þingsetningu.  Trúarleg lífsskoðunarfélög utan þjóðkirkjunnar fá smá kökubotn (sóknargjöld) en veraldleg lífsskoðunarfélög (aðeins Siðmennt nú) fá ekki einu sinni mylsnu.  Ljótt mál!
  • Jafnréttislöggjöf á Íslandi er um 15 árum á eftir ESB og það vantar skilvirkt eftirlitskerfi t.d. stjórnsýslustofnun sambærileg við Jafnréttisstofu.  Tryggja þarf betri og auðveldari aðgang að dómskerfinu.  Lög þurfa að ná til fjölþættrar mismununar og fleiri jaðarhópa.
  • Innleiða þarf alla ESB löggjöfina um bann við mismunun en ríkisstjórnir xD hafa talið það óþarfa í sinni valdatíð.

Úr þessum málum og fleirum vil ég að bætt verði úr.  Ég mun útlista það frekar í blogggreinum og víðar á næstu 2 vikum.   Af mörgu er að taka og siðferði stjórnmálanna sjálfra er eitt af þeim mikilvægustu málum sem taka þarf til hendinni í.  Vinnubrögð ríkisstjórna, ráðherraveldið og fleira þarf gagngera endurskoðun. 

Ég leita eftir stuðningi félaga í Samfylkingunni (eða skráðra stuðningsmanna) í SV-kjördæmi til að berjast fyrir þessum málum á Alþingi og til þess þarf að kjósa mig í 3-6. sæti í prófkjörinu, helst 4. eða 5. sæti. 

Hér má sjá nánar um reglur og fyrirkomulag prófkjörsins ásamt lista yfir alla frambjóðendur.

Svanur Sigurbjörnsson


Leiddir sem sauðir inní lestur haturfulls trúarljóðs

Einhverjir þingmenn (Steingrímur J Sigfússon hóf lesturinn) hafa tekið að sér að lesa passíusálma Hallgríms Péturssonar á hverju kvöldi næstu daga.  Gera þeir sér grein fyrir því gyðingahatri sem fjöldamörg vers í þessum sálmum innihalda?  Ef svo er, finnst þeim það bara í góðu lagi að slíkt sé haldið í heiðri?  Sjálfsagt er venjulegur kristilegur boðskapur í sálumunum einnig og það hlýtur þá að vera nóg að lesa þau erindi, en þetta gyðingahatur skyggir ansi mikið á það orð sem fer af sálmunum.  Hallgrímur lærði greinilega af Lúther því hann fyrirskipaði að brenna skyldi gyðinga.  Það var einnig eftir siðaskiptin að galdrafárið hófst í Evrópu og á Íslandi.  Siðabót?

Sjá nánari umfjöllun og dæmi úr passíusálmunum hér.


Kauphöllin eða Laugardalshöllin?

Á myndinni sjáum við Teit Örlygsson fagna hressilega sigri Stjörnunnar í bikarmótinu nýlega.  Það er nokkuð á þessari mynd sem sker mig í augað.  Hvað með þig?  Er myndin tekin í Kauphöllinni eða Laugardalshöllinni?

Ég á við fötin sem þjálfarinn sigursæli skartar.  Um nokkurt skeið hafa íslenskir körfuboltaþjálfarar Teitur fagnar (mynd: Vilhelm)tekið um klæðavenju starfsbræðra sinna í NBA deildinni í USA, en það er sterkasta og vinsælasta deild heimsins í körfubolta.  Sjálfsagt er að læra af þeim merku þjálfurum sem þar eru en þurfa íslenskir þjálfarar að apa allt eftir þeim eins og páfagaukar?  E.t.v. voru þeir bara eins og aðrir í góðærinu að læra af Wall Street, kauphöll þeirra í USA.  Við vitum hvernig það fór.  Íþróttafélögin hafa undanfarin ár selt allt sem þau gátu til styrktaraðila sinna.  Íþróttahúsin og deildirnar sjálfar bera nöfn fyrirtækja og verðlaunin sömuleiðis.  En þurfa þjálfararnir að vera í klæðnaði fjármálageirans?  Sem betur fer hefur þetta ekki gerst í handboltanum.  Hugsið ykkur Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara æpandi á hliðarlínunni á næsta EM í stífum jakkafötum! 

Ég vil hvetja þjálfara körfuknattleiksmanna að halda í íþróttahefðir og klæða sig úr jakkafötunum.  Maður tekur ekki svona villt fagnaðaróp í Höllinni klæddur eins og markaðsstjóri.  Höfum smekk og ofurseljum ekki íþróttir.


Hugsun út úr flækju fornalda

Það þarf jafnan sjálfstæða og þó nokkra hugsun til að kasta af sér hindurvitnum fornalda sem lúra enn á meðal okkar.  Myndbandið hér að neðan sýnir frá nokkrum slíkum sem jafnframt eru frægt fólk fyrir ýmis afrek sín.  Sum andlitin komu þægilega á óvart.  :-)


Loksins vitur heilbrigðisráðherra

Mér sýnist á öllu að Ögmundur Jónassson sé að taka mjög góðar ákvarðanir eftir að hann tók við embætti heilbrigðisráðherra.  Í þetta embætti þarf reynslubolta og fólk sem veit hvar hjartað slær í heilbrigðismálum landsmanna.  Ljóst er að þær skurðstofur sem á St. Jósefs eru, er erfitt að fella niður þar sem ekkert í kerfinu getur komið í staðinn eins og er.  Þá er St. Jósefs spítali nauðsynlegur sem legudeild fyrir sjúklinga sem Lsh á Hringbraut eða Fossvogi getur ekki hýst vegna þess plássleysis sem þar er alltaf öðru hvoru til staðar.  Það er ekki fyrr en eitt sameiginlegt stórt háskólasjúkrahús er byggt að hægt er að breyta St. Jósefs spítala.

Ákvörðun Ögmunds sem tilkynnt var í kvöld um að nota ódýrari lyf eins og simvastatin í stað atorvastatin til lækkunar á kólesteróli er einnig mjög skynsamleg.  Meirihluti þess fólks sem er á þessum "statin" lyfjum á að geta verið á simvastatini.  Það er ekki alveg eins öflugt og atorvastatin, sérstaklega hvað varðar lækkun á þríglýseríðum, en það gerir alveg heilmikið gagn.  Með bættu mataræði og hreyfingu má bæta sér upp restina.  Það fólk sem er allra hæst í kólesteróli og í mestu áhættunni (með illa stíflaðar kransæðar og með hjartaöng) getur farið á atorvastatin.

Þar sem ég vann í Bandaríkjunum (New York) var löngu búið að gera þetta.  Norðmenn hafa einnig sparað á þennan máta. Ég sat í lyfjalaganefnd árið 2005-2006 og stakk uppá þessum breytingum, en talaði fyrir daufum eyrum. 

Ég vona að Ögmundur haldi áfram að finna gáfulegar leiðir til sparnaðar.  Við þurfum Ögmund áfram í þessu embætti eftir næstu kosningar.  Áfram Ögmundur! 


mbl.is Óbreytt starfsemi á St. Jósefsspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Darwin dagurinn 12. febrúar 2009

 

Fimmdudaginn 12. febrúar nk. verður víða um heim haldið uppá 200 ára fæðingarafmæli vísindamannsins Charles Robert Darwins og um leið fagnað 150 ára afmæli útgáfu tímamótaverks hans, Uppruna tegundanna, þar sem færð vorufram í fyrsta sinn sannfærandi gögn og rök fyrir þeirri tilgátu að lífverur jarðar hefðu tekið þróunarlegum breytingum yfirDarwin54 milljónir ára. Nokkru síðar birti Darwin útskýringar á þróun mannsins og kynbundnu vali í náttúrunni í bókinni Ætterni mannsins og kynbundið náttúruval (1871), en sú bók olli miklum usla meðal margra samtímamanna hans, sem fannst niðurlægjandi að vera bendlaðir við sameiginlegan uppruna með öpum.

Charles Darwin var háskólagenginn frá Edinborg og Cambridge, en þar lærði hann m.a. þær guðfræðilega sprottnu skýringar á tilurð lífheimsins, að guð hefði hannað lífheiminn. Darwin lét það ekki hefta sína frjálsu hugsun og hóf sína eigin leit að svörum með því að skoða gögnin, þ.e. lífheiminn þar sem hann er hve fjölbreyttastur og ríkastur af magni við strendur Suður-Ameríku. Hann byrjaði með autt blað, þ.e. hans athugun og tilgáta yrði sett fram sem óháð vísindi sem líkur væru á að stæðust ítarlega skoðun um langan aldur. Hann hafði ekki áhuga á hugmyndafræðilegu stríði við klerka eða konunga, enda voru það aðrir menn sem héldu vörnum uppi fyrir tilgátur hans eftir að kristnir klerkar hófu árásir sína á þær. Þeirra frægastur var líffræðingurinn Thomas Henry Huxley (1825-1895) og fékk hann viðurnefnið „bolabítur Darwins" fyrir vaska framgöngu sína. Tilgáta Darwins var staðfest sem vísindakenning eftir að síðari tíma rannsóknir studdu hana, sérstaklega á sviði erfðafræðinnar. Hún varð til þess að heimsmyndin gjörbreyttist og vald trúarbragðanna yfir hugmyndaheimi fólks fjaraði út að miklu leyti.

Afkomandi Thomas Huxleys, Julian hélt uppi merki ættföðursins á 20. öldinni, með því að verða fyrsti framkvæmdastjóri UNESCO og þingforseti fyrsta þings alþjóðasamtaka húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) árið 1952. Húmanistar um allan heim halda mikið uppá Charles Darwin og hans arfleifð.

Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi er samstarfsaðili að málþingi því sem haldið verður í HÍ á afmælisdegi Darwins, en
Steindór J. Erlingsson hafði milligöngu að því fyrir félagið. Málþingið ber yfirskriftina: Hefur maðurinn eðli?  Fulltrúi Siðmenntar, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, lektor í heimspeki við HÍ, flytur þar erindið „Að hálfu leyti api enn". Aðrir fyrirlesarar verða Ari K. Jónsson tölvunarfræðingur, Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur, Jón Thoroddsen heimspekingur, og Skúli Skúlason rektor Háskólans á Hólum. Á málþinginu verða einnig afhent verðlaun í ritgerðarsamkeppni sem haldin var á meðal framhaldsskólanema um Darwin og áhrif þróunarkenningarinnar á vísindi og samfélög. Málþingið er öllum opið og verður haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, stofu 132 og hefst kl. 16:30. Dagskrána má sjá á www.darwin.hi.is.

Alþjóðlega dagskrá má sjá á http://www.darwinday.org


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband