Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lífsskoðanir – hvað er húmanismi?

Húmanistar eru þeir einstaklingar sem aðhyllast svokallaðan húmanisma (manngildishyggju) en hann hefur í raun fylgt manninum frá örófi alda þó að skilgreiningin sjálf sé ekki nema um 150 ára gömul.  Húmanismi birtist t.d. í því að manneskjan hefur þurft að reiða sig á rökvísi sína, fyrirhyggju og jákvætt samstarf við annað fólk til þess að komast af.  Þegar við lýsum tegundinni manninum (homo sapiens) sem „hinum viti borna manni“ erum við í raun að höfða til kjarna húmanismans.  Það er geta mannsins til að skoða umhverfið og finna í því eiginleika sem eru jafnvel utan beinnar skynjunar skilningarvitanna og nota þá sér í hag.  það er hin greinandi hugsun og getan til að búa til verkfæri og flytja þekkinguna á milli kynslóða.

Lífsskoðanir  (life stance) eru samansafn þeirra hugmynda sem líta að því hvernig við horfum á heiminn, hvernig við útskýrum lífríkið og náttúruna og hvaða aðferðum við viljum beita til að afla nýrrar þekkingar (þekkingarfræði) og vita hvernig við eigum að hegða okkur gagnvart hvert öðru og umhverfi okkar (siðfræði).   Þá eru menningarlegar hugmyndir um framkvæmd mannfagnaða vegna persónulegra lífsáfanga og tryggðarbanda oft samofinn hluti af lífsskoðunum fólks.  

Þekkingarfræði húmanista byggir á því að notast einungis við rökfræðilegar (vísindalegar) aðferðir og tilraunir á hinum þekkta efnisheimi til að afla staðreynda um heiminn, lífið og tilveruna.  Húmanismi (manngildishyggja) byggir á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. 

lífsskoðunarfélögum má skipta í annars vegar trúfélög og svo aftur veraldleg félög sem ekki trúa á guð eða guði eins og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Hin almenna skilgreining á trú er sú að fylgjandinn trúi á einhvers konar æðri mátt eða guðlegan anda.  Húmanistar eru því ekki trúaðir og eiga það sameiginlegt með trúleysingjum  (non-believers) og guðleysingjum (atheists).   Guðleysi og trúleysi eru hins vegar mun afmarkaðari hugtök en manngildishyggja því þau skilgreina í raun einungis að manneskjan sé ekki trúuð, burt séð frá öðrum lífsskoðunum hennar.  Það eru því til trúleysingjar sem gætu ekki talist til húminasta þó trúleysið sé þeim sameiginlegt.  

Á meðal lífsskoðana má einnig telja skoðanir fólks á stjórnmálum þó svo flest lífsskoðunarfélög (þ.m.t. trúfélög) taki oftast ekki sterka pólitíska afstöðu.   Það er þó ljóst að trúfélög hafa áhrif á stjórnmál  því siðferðislegar hugmyndir eru nátengdar pólitík og lagagerð.   Húmanistar styðja lýðræðislega skipan þjóðfélaga, jafnrétti kynjanna, trú- , tjáningar- og lífskoðunarfrelsi, jafnan rétt til náms og afnám dauðarefsingar.    

Þá telja húmanistar að veraldlegur (secular) grunnur laga, stjórnskipulags, dómskerfis, menntunar og heilbrigðiskerfis verði að vera fyrir hendi til að tryggja jöfnuð og trúarlegt hlutleysi hins opinbera.   Sagan hefur sýnt að trú og stjórnmál eru ákaflega ófarsæl blanda sem leitt hefur til alls kyns ójöfnuðar og tíðra stríða milli þjóða eða þjóðarbrota.  Í Tyrklandi nútímans má sjá baráttu hins veraldlega og betur menntaða hluta þjóðarinnar við hin trúarlegu afturhaldsöfl sem hafa náð þar völdum.  

Í mörgum samfélögum hafa  „veraldleg“ og „húmanísk“ viðhorf í flestum tilvikum farið saman.   Á því eru þó undantekningar og það má segja með nokkru réttu að kommúnisminn hafi verið veraldlegur þar sem hann byggði ekki á trú.  Hann var hins vegar alls ekki húmanískur því hann gekk á móti mikilvægum siðferðisgildum eins og lífsskoðunarfrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.   Það þarf því meira en veraldlega skipan (skipulag án trúar) hins opinbera til að skapa réttlátt og siðferðislega þroskað þjóðfélag.   

Veraldleg skipan verður þó alltaf hornsteinn þess að vernda þegnana gegn kreddufullum trúarkenningum og trúboði.  Ísland öðlast ekki fyllilega veraldlega skipan fyrr en við hættum að halda þjóðkirkju og afnemum forréttindi trúarbragða úr lögum og stjórnarskrá landsins.  Aðskilja ber ríki og trú, opinbera starfsemi og kirkju.

  Þessi grein var birt í Fréttablaðinu 13. september en í styttri útgáfu án samráðs við mig.  Ég kann Fréttablaðinu því 2/3 þakkir fyrir birtinguna.  Wink  Hér geta áhugasamir lesið greinina alla. 


Hvað höfum við lært?

Eins og hjá svo mörgum er 11. september 2001 mér ógleymanlegur.  Atburðirnir voru svo ótrúlegir, svo grimmir og hörmulegir að maður átti erfitt með að virkilega trúa sínum eigin augum. 

Ég bjó í New York borg þennan dag, nánar tiltekið talsvert norðarlega á Manhattan, móts við 171. stræti á 26. hæð turnbyggingar.  Rétt eftir kl 09 þennan morgun stoppaði umferðin á hraðbrautinni og lögreglan tók að blikka ljósum sínum.  Í útvarpinu var þáttastýrandi sem lýsti í hálfgerðri vantrú að flugvél sem líktist e.t.v. herflugvél hefði flogið inn í annan Tvíburaturninn og hann stæði í ljósum logum.  Íbúðin mín snéri í norður og ég sá að hin risavaxna G.Washington brú var auð, auð í fyrsta sinn frá því að hún var opnuð.  Lögreglan hafði lokað útgönguleiðum af Mannhattan. Tilkynnt var að önnur vél hefði flogið inn í hinn turninn og ég fór yfir til nágranna sem sá til turnanna í fjarska um suðurglugga.  Við vissum ekki hvað við áttum að halda.  Ég tók nokkrar myndir með 200 mm linsu.

WTC loga

Á innan við einni stundu hrundu svo turnarnir en á því átti ég ekki vona á.  Ég hafði farið að horfa á sjónvarpsútsendinguna og kom til baka og tók þessa mynd hér að neðan.  Ég teiknaði útlínur turnanna þar sem þeir stóðu.  Reykmökkurinn var ógurlegur, nærri því eins og við eldgos.

 WTC turnarnir fallnir

Fljótlega varð ljóst hvað hafði gerst eða laust eftir kl 10.  Hið óhugsandi hafði átt sér stað og í fyrsta sinn í sögunni höfðu Bandaríki nútímans orðið fyrir meiriháttar árás á þeirra eigin grundu.  Það var þó ekki fyllilega ljóst hverjir stóðu að árásinni fyrr en síðla dags.  Mig grunaði strax að lítið væri hægt að hjálpa til því annað hvort hefði fólk komist t.t.l. heilt út eða dáið undir byggingunum.  Ég fór þó og skráði mig á lista blóðgjafa á St. Lukes spítala á 115. stræti.  Annað gat maður ekki gert og ekki vildi ég fara að snuðra í kringum staðinn og vera fyrir því fólki sem stóð í björgunarstörfum.  Á setustofu stúdenta við Columbia háskóla sátu allir stjarfir og hljóðir af óhugnaði.   Ég vonaði að ég myndi vakna daginn eftir og að allt hefði verið slæmur draumur.

Ættingjar heima reyndu að ná í mig en það náðist ekki samband í nokkrar klukkustundir vegna álags.  Loks náðist það gegnum landlínu og það var andað léttar.  Auðvitað var ekki mikill möguleiki á því að maður hefði verið í WTC og farist en samt ekki útilokað.  Veturinn áður hafði ég sótt fyrirlestur þar og átt góðan kvöldverð á veitingastað efstu hæðar syðri turnsins sem hét "Windows on the World".  Maturinn og þjónustan var í meðallagi en útsýnið,... já útsýnið var ólýsanlegt.

Næstu dagar og öll vikan ætlaði aldrei að líða.  Allt farþegaflug lamaðist í nokkra daga.  Maður fylgdist með angist ættingja og ástvina þeirra sem fórust reyna að finna þá en enginn fannst utan einhverjir örfáir í byrjun.  Langar biðraðir mynduðust við gömlu aðal lögreglustöðina í Lower East. Fólk tók að safnast saman ofan við 14. stræti þar sem miðbærinn var girtur af og hugga sig með söng og listrænni tjáningu um allt Union torg.  Áberandi voru myndir um allt sem fólk hafði dreyft um hverfið í þeirri veiku von að einhver myndi þekkja ástvini þeirra á þeim og tilkynna að þeir væru á lífi.  Dag og nótt hélt fólk sig á torginu og miklar kertaborgir urðu til í kringum ljósastaura.  Allar stéttir voru þaktar krítarmyndum  og styttur alsettar álímdum miðum, myndum og áletrunum.  Aðra eins allsherjar sorg og opinbera tjáningu tilfinninga hef ég aldrei séð fyrr né síðar.

Sorgarvaka á Union Square

Óttast var að æstur múgur myndi ráðast á múslima í USA en bandaríkjamenn sýndu mikla stillingu og aðeins fá atvik komu upp þar sem múslimar eða einhverjir sem líktust þeim (t.d. shikar) urðu fyrir árásum.  Rudy Giuliani borgarstjóri stóð sig vel í að sefa fólkið og telja í það kjark og velja uppbyggjandi leiðir fyrir reiði sína og tilfinningu um hjálparleysi.  Skyndilega var fólki ljóst að það var ekki lengur öruggt fyrir hryðjuverkamönnum handan við höfin miklu.  Ekkert var öruggt lengur.  Sýn Bandaríkjamanna á heiminn var breytt endanlega.

Höfum við lært eitthvað af þessum viðburðum?  Höfum við gert okkur grein fyrir alvarleika þess að milljónir manna, ríkra og fátækra eru aðhyllendur og auðsveipir þjónar trúarbragða sem kenna fyrirlitningu, kúgun, réttdræpi og sjálfsögð yfirráð yfir þeim sem ekki þjóna guði þeirra eða ógna útbreiðslu kenninga spámanns þeirra?  Gerum við okkur grein fyrir því að fólk alið í sterkri trú hegðar sér eftir bókstafnum, ekki eftir því sem okkur vesturlandabúum þykir skynsamlegt og sjálfsagt?  Gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að verja veraldleg siðferðisgildi okkar umfram allt annað?

Lítum á þessa mikilfenglegu sjón sem ég fangaði sumarið 1999 á siglingu niður Hudson fljót og spyrjum okkur hvað við þurfum að gera til þess að slíkir hlutir verði ekki teknir aftur frá okkur í framtíðinni.

WTC og kennsluskúta á Hudson fljóti 1999


mbl.is Þess minnst að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Berjum eiginkonuna létt til hlýðni!"

Ég starfaði á spítala í New York borg í 6 ár (1998-2004) og vann þar meðal heilbrigðisstarfsfólks úr öllum hornum heimsins, þar á meðal múslimum frá Jórdaníu, Írak, Sýrlandi, Íran, Indlandi, Pakistan og nokkrum Afríkulöndum.   Flestir múslimarnir á minni deild (lyflækningar) voru karlmenn en ein kona var frá Íran og önnur frá Jórdaníu.  Hvorugar þeirra báru höfuðblæju en tvær konur sem voru læknar á barnadeild huldu hár sitt.   Sú Jórdanska á minni deild var eiginkona umsjónarlæknis unglæknanna og var hann einnig frá Jórdan.  Þau sögðu sig reyndar vera frá Palestínu upphaflega en foreldrar hans höfðu misst sitt land þar.  Aðspurð um lausn deilunnar við Ísraelsmenn sagði konan að það ætti að reka Ísraelsmenn á haf út.  Engin málamiðlun þar.  Eiginmaðurinn hét Ryan og sökum hversu strangur og ósveigjanlegur hann var við unglæknana fékk hann viðurnefnið "Private Ryan", þ.e. hermaðurinn Ryan.  Það voru allir fegnir þegar hann hætti og fékk stöðu á öðrum spítala.  Á meðan hann var við lýði fékk konan hans næturvaktir yfir Ramadam (föstumánuðinn) tímann þannig að þá gat hún borðað á nóttunni og sofið af sér föstuna á daginn.  Þetta komust þau upp með tvö ár í röð. 

Árið eftir að Ryan hætti var konan hans (vil ekki nefna nafn hennar) áfram í prógramminu að ljúka sínu síðasta ári.  Einn daginn fréttum við að því að hún hafði tilkynnt sig veika en hún átti að starfa á gjörgæsludeildinni og það var slæmt að missa af læknum þaðan vegna mikils vinnuálags.  Hún kom aftur til vinnu tæpri viku síðar.  Þegar ég sá hana brá mér en því miður var ég ekki alls kostar hissa á því sem ég sá.  Hún hafði glóðarauga kringum bæði augu og hægri handleggurinn var í fatla.  Hún sagðist hafa dottið en það var deginum ljósara að hún hafði verið barin í spað.  Hún var ólík sjálfri sér, var hljóð og hélt sig út af fyrir sig.  Ég hugsaði eiginmanni hennar þegjandi þörfina en ég var ekki nógu hugaður til að skipta mér af þessu eða reyna að tala við hana um þetta.  Mér fannst að það myndi ekki breyta neinu í lífi hennar.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að vinur minn Steindór J Erlingsson benti mér á myndbandið sem fér hér að neðan og sýnir þá óskammfeilni sem talsmenn Kóransins sýna með því að bera upp á borð kvenhatandi ritningar þeirrar bókar í sjónvarpi án þess að blikna.  Þessi vel klæddi íslamski karlmaður lítur út eins og nútímamaður en trú hans er vel framreidd villimennska.

Þessi maður gæti rétt eins verið Dr. Ryan

 


Fyrirlestur Maryam Namazie í Odda 6. sept 2007

Hér að neðan fer upptaka mín á fyrirlestri Maryam Namazie í Odda, Háskóla Íslands, þann 6. september s.l.

Fyrirlestur hennar fjallaði m.a. um Ráð fyrrum múslima, baráttuna gegn pólitísku Íslam og réttinn til þess að láta af trú.  Henni var ákaflega vel tekið á þessum fundi sem fór frami fyrir troðfullum sal.  Ég birti fyrirspurnartímann síðar.


Merkur fyrirlestur Maryam Namazie

Hér fer fyrirlestur írönsku baráttukonunnar Maryam Namazie sem hún hélt á Hallveigarstöðum í gær í boði Kvenréttindafélags Íslands.  Þetta er mín upptaka en því miður voru birtuskilyrði ekki þau bestu á tökustað.  Maryam er hingað til lands komin í boði Siðmenntar, Alþjóðamálastofnunar og Skeptikus.  Þýðing mín á grein hennar um sama efni, þ.e. blæjuna og Íslam má lesa á vef Siðmenntar.

Ég vil hvetja alla til að hlusta á þennan 22 mín fyrirlestur um efni sem margir Íslendingar hafa litla þekkingu á en er sérlega gagnlegt að fræðast um þar sem heimurinn "smækkar" með hverjum deginum sem líður.

Ég mun setja hér síðar fyrirspurnahlutann.   Sjá einnig viðtal Kastljóss við hana í gærkveldi 5. sept.


Egill fer röklausum hamförum

Egill Helgason "í Silfrinu" fer hamförum í túlkun sinni á Richard Dawkins og Vantrú á bloggsíðu sinni.  Þar heldur hann ýmsu fram án frekari rökstuðnings.  Hér ætla ég aðeins að fjalla um þessa færslu Egils því hann býður ekki uppá athugasemdir á eigin bloggi.  Pistill Egils heitir "Ofstæki" og fer hér að neðan skáletraður og með mínu athugasemdum á milli.

"Ofstæki

richardgalapagosdiary.jpg

"Vandinn við Richard Dawkins er að hann er síst minni ofstækismaður en margt af því fólki sem hann er að fjalla um."

Hér ruglar Egill saman sterkum áhuga og ofstæki.  Margir falla í þess gildu dómgreindarleysis.  Dawkins er einarður baráttumaður gegn haldvillum trúarbragðanna og gervivísindanna.  Hann fjallar um þessi mál á opinskáan og gagnrýnin máta rétt eins og Egill leyfir sér að gagnrýna stjórnmálin hart.  Hvað er ofstæki í huga Egils?  Er það skoðun sem er öðruvísi en hann á að venjast (en ekki endilega röng) eða er það skoðun sem veldur skaða og er hættuleg?  Hvernig getur Egill sagt að Dawkins sé eitthvað í líkingu við morðóða talibana eða hómófóbíska Evangelista?  Dawkins er harður af sér en málstaður hans er sú hógværa krafa að fólk láti af blindri trú og kukli.  Það virðist því miður vera til of mikils mælst að áliti Egils.  Annars skil ég ekki þessi orð hans því hann færir hreinlega engin rök fyrir þeim

"Nýskeð var ég í Glastonbury sem telst vera miðstöð nýaldarfólks og alls kyns kukls. Mér fannst þetta bara frekar vinalegt."

Já, það er vinalegt að sjá fullt af vel meinandi fólki reyna að bæta heilsu annara en það er bara toppurinn á ísjakanum.  Lítur Egill ekki undir yfirborðið í þessum málum eins og honum er svo tamt að gera í stjórnmálunum?  Er Egill blindur hvað nýaldarkuklið varðar?  Það kukl sem nýaldarbylgjan endurfæddi veldur geysilegum fjárútlátum og skemmdum á menntun þjóðarinnar.  Líkt og órökstuddar trúarhugmyndir er kuklið kerfi haldlausra hugmynda sem tefja framfarir og skaða á endanum.  Í besta falli eru þær meinlausar lyfleysur en margt verra hlýst af þeim eins og ég hef fjallað um hér í fyrri færslum.

Ég get hugsað mér svo ótalmargt verra sem fólk getur fundið sér til að gera. Það geta ekki allir verið skynsamir.

Já vissulega er hægt að hugsa sér margt verra en það gerir ekki vitleysuna betri fyrir vikið og ekki er gott að hún breyðist út.  "Það geta ekki allir verið skynsamir"  Hvílík uppgjöf!  Er þá bara í lagi að gera ekki neitt til að bæta skynsemi fólks?  Ég vildi gjarnan bæta skynsemi Egils því að hann hefur trúlega nóg af gráu efni innanborðs til að meðtaka rök. 

Í þessu felst líka ákveðin þversögn. Dawkins og hans fólk (sem mér liggur við að kalla sértrúarsöfnuð) er mjög uppsigað við það sem má kalla trúarþörf. En sóknin í nýaldargutlið ber vott um mikla þörf fyrir að trúa – við getum jafnvel kallað það trúgirni.

Aftur ruglar hér Egill og sér ekki muninn á áhuga og trú.  Hver er þversögnin?  Ég er ekki nógu gáfaður til að sjá hana í skrifum Egils.  "Dawkins og hans fólki" er ekki uppsigað við trúarþörfina, heldur trúarhugmyndirnar sem slíkar.   Egill þarf að skoða myndbönd Dawkins og lesa bók hans The God Delusion vandlega áður en hann kastar svona rugli fram.   Dawkins tekur fyrir þessa þörf sem eina af hugsanlegum ástæðum fyrir sókn fólks í trú.  Um þessa þörf hefur farið fram mikil umræða og er þörfin ekki endilega sókn í trú upprunalega, heldur þörf fyrir huggun og sýn á eitthvað til bjargar.  Dawkins bendir á að það séu aðrar leiðir en trú til að fullnægja sömu þörf.

Ljóst er að Egill ber ekki mikla virðingu fyrir "nýaldargutlinu" eins og hann kallar það en hann getur ekki unað "Dawkins og hans fólki" að gagnrýna það af krafti.  Þá er það "ofstæki".   Ég vil hvetja Egil til að skilgreina betur fyrir sjálfum sér hvert hann vill að fólk stefni og koma með einhver rök þegar hann gagnrýnir góða fulltrúa rökhyggju og skynsemi á borð við Dawkins og Vantrú.


Eru sáðkorn villimanna á meðal vor?

Titillinn er minn en ég vil með þessari færslu vísa á grein Sam Harris, The sacrifice of Reason, í The Washington Post nýlega.  Þar rekur hann hvernig fornir menningarheimar hafa jafnan fórnað Sam Harrismannslífum til að þóknast guðunum og hvernig kristnin nýtti sér þá hugmynd einnig.  Þá vitnar hann í nýleg bréf "Móður Theresu" sem nýlega hafa verið gerð opinber, en í þeim lýsir hún djúpum efa um tilvist Guðs og að hún í raun trúi á hann.  Lokasetning Sam Harris er hreint frábær. 

Ég las bók hans "The End of Faith" og mæli ég með henni fyrir þá sem vilja kynna sér gagnrýni á trúarbrögð frekar.


Mér er óglatt

Á vefsíðunni Atheist Media Blog rakst ég á myndina sem ég hef sett hér að neðan.  Ég hafði heyrt um hreyfingar í USA og Noregi á meðal kristinna manna sem styðja einhliða Ísraelsmenn í Miðausturlöndum og trúa því að múslimar sé hið illa.   Þetta fólk trúir bókstaflega á endalok heimsins og að Kristur komi aftur.  Allt þetta var frekar ótrúlegt og fjarlægt þannig að ég hélt að þetta væri einhver fámennur, valdalaus hópur en videoið hér sýnir að svo er alls ekki raunin.  Nokkrir af valdamestu og áhrifamestu mönnum USA eru beint tengdir þessari hræðilegu trú og þ.á.m. Joseph Lieberman öldungardeildarþingmaður frá Connecticut sem hefur verið framarlega í framboði til tilnefningar til forsetaframboðs undanfarnar 2 kosningar.  Hann er gyðingur en ég hélt að hann væri skynsamur og tæki ákvarðanir út frá veraldlegu siðferði.  Ég hef oft séð hann tala í USA og virtist hann vera með þeim skárri pólitíkusum sem ég hef hlustað á þar.  Það var svekkjandi að sjá hann í þessum félagsskap.  Þessi mynd erti vagus-taugina mína.

Rapture ready: The Christians United for Israel Tour


Stórmerk baráttukona heimsækir Ísland

Í byrjun september mun baráttukonan og húmanistinn Maryam Namazie heimsækja Ísland í boði Alþjóðamálastofnunar Hí, Siðmenntar og Skeptikus. Hún mun halda hér tvo opinbera fyrirlestra dagana 5. og 6. september.

Sá fyrri verður þann 5. september í boði Kvenréttindafélags Íslands sem stendur fyrir s.k. súpufundi kl. 12:00 í samkomusal Hallveigastaða. Á fundinum mun Maryam Namazie flytja erindi er nefnist: "Women´s Rights, the Veil and Islamic Rule", sem á íslensku merkir "Réttindi kvenna, blæjan og íslamskt yfirvald".

Sá síðari verður þann 6. september kl. 12:15-13:15 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, flytur hún fyrirlesturinn "Afneitun trúarinnar, fyrrum múslímar og áskoranir pólitísks islams"
Maryam Namazie flytur erindi á vegum Alþjóðamálastofnunar, Siðmenntar og Skeptíkusar. Maryam Namazie fjallar um afneitun trúarinnar, fyrrum múslima og þær áskoranir sem pólitískt islam stendur frammi fyrir. Hér fjallar hún um uppgang pólitísks íslams í Evrópu og leiðir til að sporna gegn því.

Maryam Namazie

Maryam Namazie er baráttukona, álitsgjafi og útvarpskona um málefni Írans, Austurlanda nær, kvenréttinda, menningarlegrar afstæðishyggju, veraldarhyggju, húmanisma, trúarbragða, Íslams og hins pólitíska Íslams.

Hún er talsmaður Ráðs fyrrum múslima í Brétlandi. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sleitulaus störf sín í þágu mannréttinda.

Maryam Namazie fæddist í Íran en fluttist síðar með fjölskyldu sinni til Bretlands. Hún hlaut síðar menntun sína í Bandaríkjunum þar sem hún bjó um nokkurt skeið. Hún er nú búsett á Bretlandi og hefur látið mjög að sér kveða í gegnum tíðina hvað varðar mannréttindi kvenna, Íslam, flóttamenn, Íran og. fl.

Frekari upplýsingar um Namazie er að finna á heimasíðu hennar og bloggsíðu

Í tilefni komu þessarar aðdáunarverðu konu hef ég þýtt grein hennar

Blæjan og ofbeldi gagnvart konum í íslömskum þjóðfélögum

með leyfi útgefanda úr International Humanist News, ág. 2007 og birt í fullri lengd á vef Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Hér fer kröftug ræða hennar á blaðamannafundi þegar Ráði fyrrum múslima í Brétlandi var ýtt úr vör

 


Harður veruleiki

Þessi frétt er augljóslega að mestu sögð út frá sjónarmiði konunnar.  Lögreglan hefur skyldu til að fá blóð- og þvagsýni þegar rannsaka þarf bæði áfengismagn (blóðið) og leita að eiturlyfjum/róandi lyfjum (í þvagi), þegar hún hefur í varðhaldi manneskju sem liggur undir þeim grun að hafa ekið undir áhrifum.  Það þýðir ekki að bjóða manneskjunni að koma síðar, þ.e. eftir hennar/hans hentugleika, því sum lyfin og áfengið renna úr líkamanum innan sólarhrings.  Það er enginn beittur valdi við töku þessara sýna nema viðkomandi neiti sýnatökunni án haldbærra ástæðna.  Það eru ákaflega fáar aðstæður sem gætu gefið hinum grunaða undanþágu en þær yrðu að vera læknisfræðilegar, eins og t.d. veruleg nýrnabilun þar sem viðkomandi framleiddi hreinlega ekki þvag.  Lögum og reglugerðum samkvæmt ber lögreglu og því heilbrigðisstarfsfólki sem fengið er til að biðja um sýnatökuna og framkvæma hana, skylda til að fá sýnin með góðu eða eins litlu valdi og mögulegt er.  Það er algengt að halda þurfi ölvuðu fólki við blóðtöku en í þessu tilviki þurfti að halda konu við ísetningu þvagleggs og töku þvagsýnis, sem að sjálfsögðu er viðkvæmara mál þar sem þvagfæri og kynfæri eru á sama svæði.  Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna. 

Það er mjög alvarlegt mál að aka undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja.  Það er dauðans alvara.  Brjóti maður þannig á lögunum og stofni lífi annarra vegfarenda þannig í hættu, er maður ekki í sömu réttarstöðu og aðrir.  Manni ber að gera allt það sem eðlilegt þykir að lögregla biðji mann, ellegar sæta ákveðinni valdbeitingu sem getur falið í sér t.d. sýnatöku með valdi, fangelsun, forræðissviptingu (t.d. fólk í sturlunarástandi eða maníu) og innlögn á spítala með gæslu allan sólarhringinn.  Þetta er því miður nauðsynleg valdbeiting því annars væri ekki hægt að framfylgja lögum, koma á ró og reglu, fá sönnunargögn, vernda saklausa borgara frá ofbeldisseggjum eða koma sjúku fólki (í óráði eða öðru dómgreindarleysi) undir læknishendur.  Þetta er mjög þungbært bæði lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki, og alls ekki gert að nauðsynjalausu.  Miðað við það sem ég hef upplifað í USA í starfi mínu sem læknir er valdbeiting hér á landi mun minni og betur farið með það fólk sem þarf að svipta frelsi tímabundið.   Lögregla og heilbrigðisstarfsfólk þarf oft að þola miklar svívirðingar og stundum árásir af hálfu fólks undir áhrifum áfengis og/eða lyfja.  Um það er ekki mikið fjallað og þetta fórnfúsa starfsfólk fer ekki með slíkt í blöðin enda þarf að gæta trúnaðar við fangann/sjúklinginn þrátt fyrir slæma hegðun hans.

Ég hvet fólk til að dæma ekki of hart í þessu máli í skrifum sínum og velta fyrir sér ofangreindu.  Nú veit maður ekki nákvæm málsatvik og því er best að segja sem minnst um þetta mál á þessu stigi.   Það er í höndum þess vel þjálfaða og menntaða fólks sem fer með dómsvaldið í þessu landi að kveða upp sinn úrskurð.

-----------

Viðbót 23.08.07

Hér að ofan sagði ég " Konan hafði í raun ekki val hér samkvæmt lögunum, annað en að láta af hendi þvagið með góðu eða sæta þessari valdbeitingu af hálfu framkvæmdaraðila laganna.  "

Ég vil taka það fram að ég tel ekki eðlilegt eða rétt að þessi sýnataka á þvagi með þvaglegg með valdbeitingu í fangelsi og í viðurvist lögreglumanna fari fram.   Það geta þó verið tilvik þar sem í ljósi einhvers afbrots þurfi úrskurð dómara til að leyfa slíka sýnatöku en hún ætti þá að fara fram á spítala við bestu aðstæður og hugsanlega gerð í svæfingu.   Allt sem ég segi hér er þó með þeim fyrirvara að trúlega eru manni ekki öll rök í málinu kunn og því gæti álit manns breyst að einhverju leyti í ljósi nýrra upplýsinga.


mbl.is Konu haldið niðri og þvagsýni tekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband