Lífsskoðanir – hvað er húmanismi?

Húmanistar eru þeir einstaklingar sem aðhyllast svokallaðan húmanisma (manngildishyggju) en hann hefur í raun fylgt manninum frá örófi alda þó að skilgreiningin sjálf sé ekki nema um 150 ára gömul.  Húmanismi birtist t.d. í því að manneskjan hefur þurft að reiða sig á rökvísi sína, fyrirhyggju og jákvætt samstarf við annað fólk til þess að komast af.  Þegar við lýsum tegundinni manninum (homo sapiens) sem „hinum viti borna manni“ erum við í raun að höfða til kjarna húmanismans.  Það er geta mannsins til að skoða umhverfið og finna í því eiginleika sem eru jafnvel utan beinnar skynjunar skilningarvitanna og nota þá sér í hag.  það er hin greinandi hugsun og getan til að búa til verkfæri og flytja þekkinguna á milli kynslóða.

Lífsskoðanir  (life stance) eru samansafn þeirra hugmynda sem líta að því hvernig við horfum á heiminn, hvernig við útskýrum lífríkið og náttúruna og hvaða aðferðum við viljum beita til að afla nýrrar þekkingar (þekkingarfræði) og vita hvernig við eigum að hegða okkur gagnvart hvert öðru og umhverfi okkar (siðfræði).   Þá eru menningarlegar hugmyndir um framkvæmd mannfagnaða vegna persónulegra lífsáfanga og tryggðarbanda oft samofinn hluti af lífsskoðunum fólks.  

Þekkingarfræði húmanista byggir á því að notast einungis við rökfræðilegar (vísindalegar) aðferðir og tilraunir á hinum þekkta efnisheimi til að afla staðreynda um heiminn, lífið og tilveruna.  Húmanismi (manngildishyggja) byggir á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. 

lífsskoðunarfélögum má skipta í annars vegar trúfélög og svo aftur veraldleg félög sem ekki trúa á guð eða guði eins og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Hin almenna skilgreining á trú er sú að fylgjandinn trúi á einhvers konar æðri mátt eða guðlegan anda.  Húmanistar eru því ekki trúaðir og eiga það sameiginlegt með trúleysingjum  (non-believers) og guðleysingjum (atheists).   Guðleysi og trúleysi eru hins vegar mun afmarkaðari hugtök en manngildishyggja því þau skilgreina í raun einungis að manneskjan sé ekki trúuð, burt séð frá öðrum lífsskoðunum hennar.  Það eru því til trúleysingjar sem gætu ekki talist til húminasta þó trúleysið sé þeim sameiginlegt.  

Á meðal lífsskoðana má einnig telja skoðanir fólks á stjórnmálum þó svo flest lífsskoðunarfélög (þ.m.t. trúfélög) taki oftast ekki sterka pólitíska afstöðu.   Það er þó ljóst að trúfélög hafa áhrif á stjórnmál  því siðferðislegar hugmyndir eru nátengdar pólitík og lagagerð.   Húmanistar styðja lýðræðislega skipan þjóðfélaga, jafnrétti kynjanna, trú- , tjáningar- og lífskoðunarfrelsi, jafnan rétt til náms og afnám dauðarefsingar.    

Þá telja húmanistar að veraldlegur (secular) grunnur laga, stjórnskipulags, dómskerfis, menntunar og heilbrigðiskerfis verði að vera fyrir hendi til að tryggja jöfnuð og trúarlegt hlutleysi hins opinbera.   Sagan hefur sýnt að trú og stjórnmál eru ákaflega ófarsæl blanda sem leitt hefur til alls kyns ójöfnuðar og tíðra stríða milli þjóða eða þjóðarbrota.  Í Tyrklandi nútímans má sjá baráttu hins veraldlega og betur menntaða hluta þjóðarinnar við hin trúarlegu afturhaldsöfl sem hafa náð þar völdum.  

Í mörgum samfélögum hafa  „veraldleg“ og „húmanísk“ viðhorf í flestum tilvikum farið saman.   Á því eru þó undantekningar og það má segja með nokkru réttu að kommúnisminn hafi verið veraldlegur þar sem hann byggði ekki á trú.  Hann var hins vegar alls ekki húmanískur því hann gekk á móti mikilvægum siðferðisgildum eins og lífsskoðunarfrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.   Það þarf því meira en veraldlega skipan (skipulag án trúar) hins opinbera til að skapa réttlátt og siðferðislega þroskað þjóðfélag.   

Veraldleg skipan verður þó alltaf hornsteinn þess að vernda þegnana gegn kreddufullum trúarkenningum og trúboði.  Ísland öðlast ekki fyllilega veraldlega skipan fyrr en við hættum að halda þjóðkirkju og afnemum forréttindi trúarbragða úr lögum og stjórnarskrá landsins.  Aðskilja ber ríki og trú, opinbera starfsemi og kirkju.

  Þessi grein var birt í Fréttablaðinu 13. september en í styttri útgáfu án samráðs við mig.  Ég kann Fréttablaðinu því 2/3 þakkir fyrir birtinguna.  Wink  Hér geta áhugasamir lesið greinina alla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Já, gaman að lesa þetta en það þyrfti að fara að ræða þessa merkilegu afstöðu Fréttablaðsins til texta lesanda og hvort það brjóti hreinlega ekki við lög að stytta svona texta án heimildar.

María Kristjánsdóttir, 21.9.2007 kl. 00:56

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Svanur.

Með fullri virðingu fyrir skoðunum þínum í þessu efni þá vil ég segja það að ég álít að fólk sem trúir og tilheyrir ákveðnum trúarhópum geti jafnframt verið húmanistar ásamt trú sinni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 21.9.2007 kl. 01:11

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir athugasemdir

Sæl María.  Ertu að meina þá höfundarréttarlög eða eitthvað slíkt?  Ég veit ekki hvort það á við um óbirt efni.  Hins vegar er þetta ekki mikil kurteisi en þeir hjá Fbl telja líklega betra að birta hluta en ekkert.  Það er þó ekki gefið að maður vilji láta birta hálfa grein eftir sig bara til að koma einhverju að.

Sæl Guðrún María.  Það er rétt að margar húmanískar hugmyndir rúmast innan trúarbragða og margir af þeim mönnum í sögunni sem færðu þjóðfélögin í átt að meira einstaklingsfrelsi og lýðræði voru trúaðir að meira eða minna leyti.  T.d. Thomas Jefferson afneitaði aldrei trúnni svo ég viti til en hann gagnrýndi Biblíuna og trúarbrögð af miklum krafti.  Hann og margir af "founding fathers" Bandaríkjanna teljast til "deista", þ.e. þeirra sem töldu að Guð hefði komið heiminum af stað en síðan látið náttúrulögmálin ráða ferðinni og að Guð væri því ekki lengur til staðar.  Þetta eru bara næstu bæjardyr við að vera trúlaus. 

Sæl Sigga.  Gott að heyra.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.9.2007 kl. 08:58

4 identicon

Það er púra misrétti að hafa ríkistrú og ekkert nema blaut tuska framan í það fólk sem er ekki í henni.
Öll trúfélög jafnt og trúfrjálsir eiga að standa algerlega undir sér sjálfir og fá enga sérmeðferð í einu né neinu
Það er hrein skömm þegar biskup galar yfir þjóðina að trúfrjálsir og aðrir sem eru ekki á sömu skoðun og hann séu hættulegir þjóðfélaginu, bara galgopaháttur hagsmunaaðila og til þess eins að skapa sundrungu og illindi 

DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 09:17

5 identicon

Hafðu þökk fyrir pistilinn Svanur:)

Það gengur þó illa í hrútshausinn að miða beri allt við hinn þekkta efnisheim... 8=0

Skiljum við t.d. tímann? Það þyrlast um hrútshausinn að Steinn Steinarr hafi komist áleiðs með þá skilgreiningu þegar hann orti að tíminn væri eins og vatnið... !-)

Er þetta hrútheimskt %-(

Hrúturinn (IP-tala skráð) 21.9.2007 kl. 11:32

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Hrútur

Nei alls ekki heimskt.  Það sem ég á við um með "efnisheimi" er að við förum ekki að ímynda okkur einhverja heima og geima sem engar sannanir eru fyrir.  Það eru til rafsegulbylgjur og slíkt sem er ekki efni í venjulegum skilningi en þetta eru fyirbrigði sem eru sannanlega til. 

Dæmi um hlut sem ekki hefur verið hægt að sýna fram á er sálin.  Slíkt og aðrar fantasíur sem mannshugurinn hefur fundið uppá falla því ekki undir viðurkennda þekkingu meðal húmanista en má hafa gaman af sem lístrænni hugsun eða eitthvað slíkt.

Svanur Sigurbjörnsson, 21.9.2007 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband