Þrekmótamenningin - öflugur samruni grunníþrótta

Merkileg þróun á sér stað í íslensku íþróttalífi sem segja má að hafi átt ákveðið upphaf í byrjun 9. áratugarins (1980 og áfram).  Ég er að tala um þrekmótin sem eru sprottin úr grasrót ófélagsbundinna íþróttamanna sem komu á fót þrekmótum annað hvort byggðum á eigin hugmyndum eða samkvæmt erlendum fyrirmyndum.  Áður en ég lýsi þrekmótunum ætla ég að fara aðeins í þann sögulega aðdraganda að myndun þessara þrekgreina, sem ég þekki, en er alls ekki tæmandi lýsing.

Upp úr 1980 hófst nýtt tímabil í líkamsræktarmenningu Íslendinga þegar fólk gat komið úr felum kjallara og bílskúra þar sem það lyfti lóðum eða spennti út gorma og byrjað að æfa styrktaríþróttir í nýtilkomnum líkamsræktarstöðvum.  Þessar stöðvar voru í fyrstu litlar (sbr. Orkubótina í Brautarholti) en stækkuðu og fjölgaði nokkuð ört næstu árin á eftir (Ræktin Laugavegi og stöðvar í Engihjalla og Borgartúni og íþróttahúsinu Akureyri).  Fyrir þennan tíma var skipuleg kraftþjálfun aðeins stunduð af kraftíþróttamönnum og var frægastur æfingastaða þess tíma Jakabólið í Laugardalnum.  Það var því ekki tilviljun að fyrrum ólympískir lyftingamenn (jafnhöttun og snörun) og kraftlyftingamenn (bekkpressa, hnébeygja og réttstöðulyfta) voru á meðal frumkvöðla í rekstri þessara stöðva og að auki kom inn nýtt blóð áhugamanna um vaxtarrækt sem byggði á hugmyndinni um hið fullkomna stærðarjafnvægi vöðvahópanna í fagurfræðilegu flæði. 

Kostur vaxtarræktarinnar fram yfir kraftsportið átti að vera aukin áhersla á fleiri endurtekningar og meira alhliða þjálfun með þætti þreks, en í reynd fór lítið fyrir því og sportið varð fórnarlamb massagræðginnar.  Mikil steranotkun í bæði kraftgreinunum og vaxtarræktinni skyggði alltaf á orðstírinn og þessar greinar náðu aldrei sérstökum vinsældum þó að lengi framan af hefði vaxtarræktin dregið að sér mikið af forvitnum áhorfendum sem oftar en ekki voru í aðra röndina að hneykslast á ofurskornu og íturvöxnu útliti keppendanna.  Ég æfði mikið á þessum tíma og tók mikinn þátt í skipulagningu móta um 3 ára skeið (1986-1989).  Það var þó ljóst að þetta var að bresta og sú breiða tilhöfðun sem vonast var til með að vaxtarræktin hefði, varð aldrei að veruleika.  Ég man að ég sá fyrir mér í kringum 1990 að það þyrfti að koma inn með einhverja "function" í vaxtarræktarhugtakið.  Sýningin ein á vöðvabyggingunni náði ekki flugi m.a. vegna þess að "free posing" hluti keppninnar krafðist listræns þroska til þess að einhver skemmtan væri af því að horfa á.  Afar fáir keppendur náðu almennilegu valdi á því.  Það var einhvern veginn vonlaus staða að búast við því að testósterónlyktandi hörkutól legðu stund á fagurfræðilegan vöðvadans í ætt við listdans á skautum.  Einn helsti meistari slíkrar listar var Frank Zane sem vann Mr. Olympia keppnina 3 ár í röð (1977-79) og í sögu vaxtarræktarinnar einn af aðeins þremur sem nokkru sinni náðu að vinna Arnold Schwartzengger.  Upp úr 1984 þegar hinn ofurmassaði Lee Haney hóf sigurgöngu sína, var massinn ráðandi yfir hinum fagurfræðilegu þáttum vaxtarræktarinnar og æ fleiri "mind blowing" massatröll komu fram á sjónarsviðið.  Fræðimenn í heilbrigðisgeiranum komu fram með hugtakið "öfugt lystarstol" (reverse anorexia, Adonis complex) yfir þá áráttufullu massasöfnun sem þessir íþróttamenn virtust vera haldnir.  Áráttan náði út fyrir alla skynsamlega varkárni í æfingum og notkun vaxtaraukandi hormóna.  Þá fór að bera á alls kyns efnanotkun eins og notkun þvagræsilyfja til að losa vatn fyrir keppni og örvandi efna til að öðlast meiri æfingahörku.  Það kom fyrir að keppendur drápu sig með þessari iðkan og gerðist það bæði erlendis og hérlendis, a.m.k. með óbeinum hætti, þ.e. óheilbrigðar aðferðir við undirbúning móta áttu þátt í dauðsföllum.  Þrátt fyrir þetta var enginn raunverulegur áhugi innan kraftíþrótta og vaxtarræktar til að reyna að "hreinsa upp" þessar greinar.  Sem dæmi, þá var frekar tekið það til bragðs að segja Kraftlyfingasambandið úr ÍSÍ, en að gegna boði um löglega boðað skyndilyfjapróf á Jóni Páli Sigmarssyni (af hálfu lyfjanefndar ÍSÍ).  Árið 1991 sá ég að vaxtarræktin var ofurseld massagræðginni og ég missti áhugann á íþróttinni.  Sú hugsjón sem ég hafði heillast af, þ.e. alhliða þjálfun vöðvahópa líkamans í átt að þeirri fagurfræðilegu möguleikum (samræmi og fallegt flæði) sem hver einstaklingur bjó yfir, hafði lotið í lægra haldi fyrir takmarkalausri massasöfnun.  Mér fannst að þessi íþrótt ætti e.t.v. séns (í átt til heilbrigðis) ef inní hana kæmi "function", þ.e. að við hana væri bætt keppni í þreki eða einhvers konar leikni.  Að sama skapi yrði að setja þak á massann því annars kynni fólk ekki að hætta.  Með hömlulausri lyfjanotkun var ekki ljóst hvort að nokkur takmörk væru fyrir massasöfnuninni.  Ég hætti afskiptum og fylgdist ekki einu sinni með, nema hvað auðvitað fór það ekki fram hjá manni að stóru mennirnir Jóhann Möller yngri og Jón Páll Sigmarsson létust um 1-2 árum síðar, langt um aldur fram.  Engar einhlítar skýringar eru á dauða þeirra, en í tilviki Jóns Páls þar sem talsverð opinber umræða hefur farið fram, hefur möguleikinn á skaðsemi mikillar steranotkunar nánast verið kæfður.  Jón Páll var elskaður af þjóðinni fyrir nánast barnslega jákvæðni sína, baráttuvilja, húmor og útgeislun gleði og áhyggjuleysis.  Hann varð ímynd þess að við Íslendingar gætum allt, bara ef við gæfum okkur öll í verkefnin.  Ekki ósvipað því viðhorfi sem stuðlaði að "efnahagsundrinu Ísland" sem á endanum hrundi í blindri afneitun í október 2008.  Ekkert mátti skyggja á þessa fallegu ímynd Jóns Páls og ofurhetjumynd kraftíþróttanna og enn þann dag í dag hef ég ekki séð heiðarlegt mat á þessum skuggaheimi kraftíþróttanna í riti eða mynd. 

Breytingar áttu sér þó stað og sú hugmynd sem ég fékk var greinilega í hugum margra annarra og varð að veruleika nokkrum árum síðar, þ.e. "function" kom inn í dæmið og alls kyns fitness keppnir spruttu upp.  Vinsældir strongman keppnanna hafa eflaust haft sín áhrif einnig því í þeim var mikið líf og keppendur þurftu nokkurt þrek auk gífurlegra krafta til að eiga séns á sigri.  Síðar komu einnig inn keppnir sem erlendis eru kallaðar Classical bodybuilding, þ.e. klassísk vaxtarrækt þar sem takmörk eru sett á þyngd keppenda miðað við hæð þeirra og þannig í raun sett þak á massasöfnunina.  Nafnið er athyglisvert því í því virðist felast viðurkenning á því að hin upphaflega klassíska vaxtarrækt hafi í raun ekki haft endalausan vöðvamassa að takmarki sínu.  Í rúman áratug stóð þátttaka í vaxtarrækt nánast í stað og afar fáar konur vildu taka þátt, en eftir að fitness keppnirnar byrjuðu virðist hafa losnað um stíflu í þeim efnum.  Þessar keppnir leggja meiri áherslu vissar staðalímyndir kvenleika og nýta sér ákveðin atriði úr fegurðarsamkeppnum eins og að nota háhælaða skó.  Massinn á að vera minni en mér sýnist á myndum frá keppnum fitness.is að hann sé síst minni en var áður hjá íslenskum vaxtarræktarkonum, en er auðvitað langt frá því að vera eins og þær erlendu (aðallega USA og Evrópa) voru orðnar í massastríði 9-10. áratugarins.  Ég get ekki að því gert að mér finnst þessi hugsun að vera á háhæluðum skóm í bikiníi sem myndar V-laga uppskorning beggja vegna þannig að í eitlaríkt nárasvæðið skín og rasskinnarnar berast nær alveg, en aftur kviðvöðvarnir sjást minna, vera hálfgerð keppni í því að þora að sýna það sem áður mátti ekki sýna frekar en að hafa eitthvað íþróttalegt eða fagurfræðilegt gildi.  Nárasvæðið er eitt hið óásjálegasta svæði líkamans þegar öll fita er farin í kringum eitlana og við blasa óreglulegar kúlur.  Litur sérkennilegra samfastra bikinía í módelfitness keppninni er oftar en ekki verulega sterkur og væminn með gljándi doppum eða glansandi leðri.  Aftur hugmynd sem ég tengi frekar við spilavíti, súlustaði, chorus line stelpur, cheer leaders og aðrar kynlífshlaðnar kvenímyndir, en íþróttir.  Að auki er ljóst að brjóstastækkunaræði nýfrjálshyggjumenningarinnar lifir þarna það góðu lífi að brjóst sumra keppenda hafa nánast sigrast á þyngdaraflinu.  Með því að gifta saman vöðva- og þrekíþrótt, fegurðarsamkeppni, ímyndir úr módel- og kynlífsbransanum, brúnkukremsbransann og fæðubótarbransann hafa fitnesskeppnirnar náð að líta út eftirsóknarverðar í augum fleiri ungra kvenna en áður.  Þó að það gleðji mig að massagræðgin hafi fengið þak, þá finnst mér þessi þróun í raun ekki hafa gert mikið til að gera vaxtarræktar-tengdar íþróttir heilbrigðari og þá á ég ekki bara við hið líkamlega.  Það er svo ótrúlegt að það virðist ekki vera hægt að sýna líkamsvöxt sinn án þess að gera úr því gervihlaðna glamúrsýningu.  Meðalhófið fær ekki að njóta sín. 

Annað fitness þróaðist einnig hraðbyri uppúr 9. áratugnum þó upphaf þess megi rekja 10-15 ár fyrr, en það var skokkið og svo maraþonæðið.  Æðsti draumur skokkarana var ekki lengur Neshringurinn plús 400 metra skriðsund í Vesturbæjarlauginni, heldur hálft maraþon og svo heilt árið eftir.  Svo dugði það ekki til og allir vildu teljast flottir hlupu Laugaveginn (Landmannalaugar-Þórsmörk) eða fóru í einhvers konar ofur-þolíþróttir eins og hrikaleg hjólreiðamaraþon, Vasa-skíðagangan, iron-man þrígreinar (sund, hjól og hlaup) og svo 100 eða 200 km hlaup og loks 48 klst vegalengdakapphlaup (langt í frá tæmandi listi). 

Þessar þol- og kraftíþróttir má kalla grunngreinaíþróttir því þær beinast að þessum grundvallarþáttum í líkamlegri getu, krafti og þoli.  Greinar eins og fimleikar sem komu inn með grunnþættina snerpu og liðleika auk krafta og náðu einnig meiri vinsældum á meðal almennra iðkenda. Fimleikafólk hafði oft einn besta grunninn fyrir fitness greinarnar nýju (t.d. Kristján Ársælsson margfaldur icefitness meistari).  Áður en þessar grunngreinar fóru að splæsast saman í nýjar greinar þróuðust þær í hömlulausar útgáfur sínar, þar til ákveðinn hópur fékk nóg og þörf fyrir skynsamlegar takmarkanir sköpuðust.  Enn halda menn áfram í að kanna hversu langt þeir/þær geta gengið án þess að hreinlega drepa sig (sumir drepa sig reyndar eða missa heilsuna), en blikur eru á lofti að nýjar greinar sem hafa þær lengdartakmarkanir sem þær gömlu höfðu (t.d. 800 m hlaup), en byggja á alhliða getu úr öllum tegundum grunngreinanna, séu að ná talsverðum vinsældum.  Þetta eru því nokkurs konar tugþrautir hinna almennu sportista sem krefjast ekki þeirrar miklu tækni og stærðar valla sem greinar tugþrautarinnar gera. 

Þetta eru þrekmótin Þrekmeistarinn, Lífsstílsmeistarinn, Crossfit leikarnir, BootCamp keppnin og loks Skólahreysti fyrir eldri grunnskólabörnin.  Hér er um hreinar "function" keppnir í orðsins fyllstu merkingu að ræða því gríðarlegt alhliða þol, líkamsstyrk, snerpu og að nokkru liðleika þarf til að ná árangri í þessum mótum. 

Þrekmeistarinn og Lífsstílsmeistaramótið byggja á 10 greina braut sem ljúka á á sem bestum tíma en Crossfit leikarnir er mót með breytilegum æfingum sem sameina krafta og snerpu lyftingagreinanna tveggja (ólympískar og kraft) auk greina úr vaxtarrækt (t.d. upphýfingar), gamallar útileikfimi (burpees hopp), ýmissa áhalda (ketilbjöllur og þyngdarboltar) og gamla góða skokksins (en upp brekku að hluta).  Áberandi er að þátttakendur í þessum þrekmótum koma úr öllum áttum íþrótta og öllum aldri.  Mjög góð samkennd og velvilji ríkir á milli keppenda þrátt fyrir harða keppni um toppsætin.  Mikil íþróttamennska ríkir og ekkert prjál er í gangi.  Það er því að skapast ákveðin þrekmótamenning sem lofar góðu.  Helsti vandinn hefur verið að fá keppendur til að framkvæma allar æfingar rétt og ganga sumir þeirra á lagið ef dómarar eru linir og kjarklitlir við að refsa fyrir ógildar lyftur.  Keppendum til hróss má þó segja að þeir hafa verið mjög umburðarlyndir gagnvart mismunun sem þetta hefur stundum skapað og er það til marks um þann almenna anda gleði yfir þátttöku og jákvæðni sem hefur ríkt. 

Nú í fyrsta sinn í ár er efnt til svokallaðrar þrekmótaraðar 4 keppna þar sem allir helstu aðilar þrekmóta munu krýna allsherjar meistara þrekmótanna eftir að keppni í mótunum öllum líkur.  Samstarfsaðilarnir eru Lífsstíll í Keflavík (Lífsstílsmeistarinn 14. mars), CrossFitSport (Kópavogi og Seltjarnarnesi, CrossFitleikarnir 23. maí) BootCamp (BootCamp-leikar) og Þrekmeistarinn Akureyri (Íslandsmót þrekmeistarans í nóvember).  Allt eru þetta ný mót nema Þrekmeistarinn og því er að skapast mikil breidd og fjölbreytni í þrekmótum. 

Crossfitleikarnir eru nýafstaðnir og reyndi þar meira á kraftaþátt þreksins en í Þrekmeistaramótunum og Lífsstílsmeistaranum.  Leikarnir voru haldnir úti á malbikiðu plani í Elliðaárdalnum móts við Ártúnsbrekkuna.  Þessi útivera skilaði algerlega nýjum og ferskum vinkli á sportið og aðrar áherslur mótsins miðað við hin skiluðu breyttri sætaröðun keppenda því hreint þol (aerobic endurance) hafði minna að segja. Almennt var mikil ánægja með mótið og dómgæslan tókst að mestu með ágætum.  Crossfitleikarnir eru sérstakir að því leyti að þeir skiptast tvær deildir keppenda, meistaraflokk og almennan flokk, þannig að hinn almenni "dútlari" eins og ég gátu tekið þátt án þess að lenda í beinum samanburði við "ofurmennin" í meistaradeildinni.  Keppendur í almenna flokknum hjá konum og körlum voru þó almennt í góðu formi.  Má segja að þáttaka mín hafi verið ákveðin núllstilling, þ.e. þá sást hvað hinir voru í góðu formi miðað við hinn almenna kyrrsetumann (hef bara æft þetta í 2 mánuði).  Áberandi var að allir fengu hvatningu og mottóið var að ljúka sínu, sama hver tíminn væri.  Íþróttaandi jafnræðis og virðingu fyrir jákvæðri viðleitni sveif því yfir Elliðaárdalnum þennan tiltölulega veðurmilda laugardag.  Sérstaklega fannst mér ánægjulegt að sjá hversu ríka hvatningu til annarra keppinauta og þeirra sem áttu í mestu erfiðleikunum, kom frá Sveinbirni Sveinbjörnssyni, sigurvegara meistaraflokks karla.  Þar fer mikill íþróttamaður sem er gefandi á öllum sviðum íþróttamennskunar.  Konan mín, Soffía Lárusdóttir náði 3. sæti í almenna flokki kvenna og er ég ákaflega hreykinn af henni. 

Ég bind nokkrar vonir við þetta þreksport því í því liggja þeir möguleikar að fara ekki með það út í algert stjórnleysi og samfélagið í kringum það getur nært mjög alhliða þrek-líkamsrækt sem hentar breiðum hópi fólks.  Æfingarnar eru kröfuharðar en um leið aðlagaðar einstaklingum.  Hver og einn gerir sitt besta og oftast gott betur því með hjálp hvatningarinnar og milds jákvæðs hópeflis ná menn mun betri árangri en með því að dútla í sínu eigin horni.  Dálítið mismunandi aðferðir og áherslur eru á milli þessara æfingakerfa og virðist Cross-fit kerfið eiga erindi til breiðari aldurshóps en BootCamp kerfið sem hefur átt það til að vera talsvert óvægið og því meira innan álagsþols yngri hópsins.  Bæði kerfin hafa skilað iðkendum sínum miklum árangri.  Það er stundum stutt á milli árangurs og meiðsla og því þurfa þjálfararnir að hafa vakandi auga fyrir einstaklingum sem eru ekki tilbúnir í hörð átök og byggja þá upp hægar en hina.  Mikill áhugi á skólahreysti mótunum á örugglega eftir að skila sér í meiri þátttöku þrekmótanna þegar fram líður.  Þá held ég að þessar þjálfunaraðferðir eigi eftir að skila sér í aukni mæli í grunnþjálfun boltaíþróttanna eða annarra tæknilegra íþróttagreina.  Það verður spennandi að sjá hver þróunin verður næstu árin.  Vonandi fáum við sport sem leggur áherslu á heilbrigða hugsjón ekki síður en kappið.  Maður leyfir sér að dreyma stundum.  ;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Þórðardóttir

Frábær grein og svo margt sem ég er innilega sammála. Ég hef sjálf keppt bæði í fitness og Þrekmeistaranum og ætla ekki að líkja því saman. Fitnessið dró úr mér allan mátt með ströngu mataræði, óeðlilegum útlitsstöðlum sem vonlaust var fyrir lyfjalausan einstakling að keppa við. Þrekmeistarinn hins vegar jók sjálfstraustið og jók keppnisandann í mér. Mér fannst ég í raun hafa afrekað eitthvað, þvert á móti í fitness keppninni þar sem ég lá í þunglyndi á eftir sem ég vil meina að hafi verið sálrænar afleiðingar af "deprivation" sem er alltof algengt hjá fitness/vaxtarræktar keppendum.

Takk fyrir frábæra grein.

Ragnhildur Þórðardóttir, 25.5.2009 kl. 06:26

2 Smámynd: Helgan

Frábær grein:)

Helgan, 25.5.2009 kl. 07:33

3 identicon

Afskaplega skemmtileg grein og fróðleg. Nóg til að vekja upp gamlan draum hjá mér um líkamsræktartímarit með áherslu á heilsueflingu með margvíslegum hætti. En þangað til slíkt verður raunhæft er gaman að lesa grein sem þessa.

Brynjólfur Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 09:23

4 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Ragnhildur

Takk fyrir að deila reynslu þinni með okkur.  Mikilvægur punktur þetta með "deprivation" vaxtarræktargreinanna sem ekki hefur tekist að takmarka og hefur valdið heilsuskaða.  Þar fer saman ákveðin anorexíu og reverse anoroxiu árátta í sama sportinu.  Öll fita verður óvinur og húðin á helst að verða gegnsæ en um leið hrikalega brún.  Já og líðan keppandans eftir keppni í þrekmóti og aftur fitness/vaxtarrækt er ólík eins og þú lýsir.  Það segir ansi margt um heilbrigðið.

Takk Helgan. :-)

Takk Brynjólfur Þór.  Ég kannast við þessa tilfinningu með líkamsræktartímaritin.  Muscle & Fitness magazine var grasrót líkamsræktarmenningarinnar upp úr 1970 og náði miklum vinsældum.  Mikil gróska var í myndun þjálfunarkenninga sem urðu til úr reynsluheimi vaxtarræktarmanna í Mekka þeirra við Golden beach Kaliforníu og tekið saman af fagstétt lífeðlisfræðinga, íþróttafræðinga eða sjálfsprottina fræðinga sem Joe Weider safnaði saman, réði sem penna og nýtti sér, íþróttini og tímaritinu til framdráttar.  Mikill fróðleikur safnaðist saman þarna og margt úr þessum tilraunaheimi hefur staðist tímans tönn þó ýmislegt reyndist vera bara gamalt vín á nýjum belgjum.  Eftir að mikilvæg "principle" í þjálfun höfðu komið fram varð næsta bylting í formi hönnunar og smíðabyltingu líkamsræktartækjanna og "gym-ið" þróaðist enn meira. 

Svanur Sigurbjörnsson, 25.5.2009 kl. 11:35

5 Smámynd: Ragnhildur Þórðardóttir

Mig langar að benda þér á grein eftir Scott Abel sem kemur inn á afleiðingar "deprivation" og "metabolic damage", annar þáttur tengdur vaxtarrækt/fitness sem mætti beina meiri athygli að. Hér er slóðin: http://www.bodybuildingweekly.com/vip_writers/scott_abel_php/scott_abel_metabolic_damage_among_figure_and_bodybuilding_compet.html

Ragnhildur Þórðardóttir, 25.5.2009 kl. 11:59

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kaffi og sígarettur duga mér vel. Hef aldrei sett mig inn í þessi mál. Hálfgerð hebreska. Gaui litli vinur minn var upptekinn af þessum patentlausnum og ímyndarposession eða narcissisma. Nóg að hafa fylgst með því.

Annars var ég að uppgötva að vinnufélagi minn hér á sigló er góðvinur þinn. Hún Ella gella. Frábær stelpa.

Jón Steinar Ragnarsson, 25.5.2009 kl. 12:09

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Ragnhildur

Þetta er ljómandi grein hjá honum Scott Abel og óvenjuleg í vaxtarræktartímariti þar sem venjulega er íþróttin upphafin á alla kanta eða a.m.k. ekki talað um vankantana.   Í lokin hvetur hann lesendur til að keppa en skera sig niður á mun skynsamari máta.  Ég held að það dugi því miður ekki því staðallinn varðandi skurðinn er slíkur að fituprósentan er orðin hættulega lág.  Það þarf að endurskilgreina markmið þessara íþrótta og gera þau heilbrigðari. 

Sæll Jón Steinar

Vonandi geturðu látið kaffið duga því sígóið er killer no. 1.   Bið kærlega að heilsa Ellu gellu.  Já alveg yndisleg.  Við Ella hittumst bráðum í gönguferð með vinahópnum Vinum og vinum vina.  Vonandi get ég heimsótt ykkur á Sigló einhvern tíman.  Eru ekki göngin að verða tilbúin? :-)

Sæll Helgi

Ánægjulegt að heyra hversu vel þú fílar þig nú eftir að þú hófst að æfa og sniðugt hjá þér að nota cross fit aðferðir.  Já ég skil þetta með "frjálslega stílinn".  Það er ákaflega varasamt upp á meiðsli að gera.  Margir keppendurnir (þ.á.m. ég) þurfa að læra betri tækni.  Gangi þér vel!

Svanur Sigurbjörnsson, 25.5.2009 kl. 18:02

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Göngin verða tæplega klár fyrr en næsta vor, en þú værir ætið aufúsugestur, hverja leiðina sem þú kæmir að.  Annars er ég að tak mér frí frá þessu prójekti og fara í bíómynd, svona til að halda sönsum. Ég skil Ellu blessaða eftir í kösinni og hef hálfgert samviskubit, því þetta er ekki eins manns tak.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.5.2009 kl. 01:13

9 identicon

Flott og skemmtileg grein hjá þér Svanur og athyglisvert samhengi sem þú setur hana í. Það verður einmitt mjög fróðlegt að sjá hvernig þrekmótin þróast sem íþrótt. Eins og staðan er í dag er samkenndin allsráðandi. Ég held ég geti fullyrt að allir fremstu keppendurnir í karla- og kvennaflokki eru góðir félagar og styðja hvern annan í því að ná sem mestum árangri í að byggja upp alhliða form. Megi það endast sem lengst. Ég tel einnig alveg nauðsynlegt að viðhalda farvegi fyrir almenningin í svona keppnum, því það er mín persónulega hugsjón fyrst og fremst, að efla heilsu og lífsgæði almennings með kröftugri og árangursríkri líkamsrækt. Þessi mót gefa frábæra innspýtingu í mitt starf og virka sem mikil hvatning á þá sem æfa hjá CrossFit Sport. 

Eitt orð um athugasemd Helga Briem: 

Helgi á það sammerkt með sumum öðrum að  hafa áhyggjur af ólympískum lyftingaæfingum undir álagi (þ.e. margar endurtekningar teknar á tíma). Í kerfisbundinni CrossFit þjálfun er reynt að gæta þess að alltaf sé lagður góður tæknigrunnur undir æfingar áður en þær eru teknar undir fullu álagi og það er ekkert sem bendir til þess að ástundun slíkra æfinga sé varasöm, sé þessari forgangsröðun fylgt (fyrst tækni, svo áreiðanleiki, svo álag). Sé fólk að æfa CrossFit á eigin vegum, án þjálfara, er ábyrgðin auðvitað alfarið þeirra. Á CrossFit.com vefsíðunni er nýliðum bent á að lesa eftirfarandi texta (http://www.crossfit.com/cf-info/start-how.html ) þar sem fólk er hvatt til að verja 1-2 mánuðum í að læra hreyfingarnar, helst af til þess bærum aðila, áður en farið er út í fullt álag. En aftur, hvað fólk kýs að gera er auðvitað á þess eigin ábyrgð.  

Svo vil ég bæta við að ýmislegt bendir til þess að jafnvel þó menn og konur fari glannalega í æfingum sínum, sé meiðslatíðni furðulega lág. Þetta hef ég frá stofnanda CrossFit og hugmyndasmið, Greg Glassman. 

Ég hvet áhugsama til að horfa að horfa á annað eða bæði af eftirfarandi erindum. Það fyrra (í þremur hlutum) er haldið á ráðstefnu ASEP (American Society of Exercise Physiologist) 

http://journal.crossfit.com/2009/04/asep-lecture.tpl 

Það seinna (í fjórum hlutum) var haldið fyrir framtíðarstjórnendur bandaríska hersins: 

http://journal.crossfit.com/2009/01/national-war-college-speech-part-1.tpl

http://journal.crossfit.com/2009/01/national-war-college-speech-part-2.tpl

http://journal.crossfit.com/2009/01/national-war-college-speech-part-3-qa-1.tpl

http://journal.crossfit.com/2009/02/national-war-college-speech-part-4-qa-2.tpl

Það verður enginn svikinn af því að hlusta á Coach Glassman tala.

Kær kveðja,
Leifur Geir Hafsteinsson, Ph.D.
Stofnandi CrossFit Sport
Dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík

Leifur Geir Hafsteinsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 10:24

10 identicon

Virkilega flott grein hjá þér og skemmtileg lesning.
Gaman að heyra hvað þú hefur fjölbreyttan bakgrunn og sérstaklega gaman þá að heyra hversu vel þér líkar við Þrekmótin. Það sem mér finnst heillandi við þetta æfingarform er eins og þú segir fjölbreytnin sem einstaklingarnir þurfa að búa yfir. Það er ekki nóg að vera sterkur, eða geta hlaupið hundruðir km eða vera ofur brúnn og rakaður ;) Þessi mót og æfingarform reynir ótrúlega á líkaman sem og hugan, það má ekki gleyma því hversu mikið þetta reynir á hausinn líka.

Ég trúi að þrekmótin eigi bara eftir að verða vinsælli og vinsælli með tímanum. Fólk sem mætir á mót hrífst einmitt af ánægjunni, samstöðunni og gleðinni sem er hjá þeim sem taka þátt. Þetta æfingarform bíður upp á svo miklu meira en að vera bara að lyfta lóðum í sal, hópeflið er mikið, öflugur félagsskapur og hreint ótrúlegur andi.

Kveðja
Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Bootcamp

Sveinbjörn Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 11:11

11 identicon

Flott grein og dagsönn.

Daði Rúnar (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 11:58

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Leifur Geir fyrir innleggið.  Frábært að heyra þitt álit.

Ég er sammála þér í því að það er mikilvægt að halda inni möguleikum fyrir minna þjálfað fólk, hinn almenna iðkanda, til að taka þátt í mótunum.  Almenni flokkurinn hjá ykkur í Crossfit-leikunum þjónar vel þeim tilgangi, en auðvitað fer enginn í þá keppni samt án nokkurra mánaða undirbúnings hið minnsta. 

Því miður get ég ekki opnað þessa hlekki sem þú settir inn, hvernig sem á því stendur.  Við hljótum að finna lausn á því síðar.

Takk Sveinbjörn.  Ánægjulegt að heyra þitt álit og hversu bjartsýnn þú ert á framtíð þrekmótanna.  Sigurvegarar verða alltaf mikilvægar fyrirmyndir og hafa áhrif á móral og yfirbragð keppnanna hvort sem að þeim líkar betur eða verr.  Áhrif þeirra geta stundum verið jafn mikil eða jafnvel meiri en mótshaldaranna og því fylgir því ábyrgð að sigra, hvort sem þeir vilja eða ekki. 

Ég er þeirrar skoðunar að sú hugmyndafræði, heimspeki og siðfræði sem sett er í sköpun nýrrar íþróttar og keppnisgreinar sem lítur að markmiðum hennar og tilgangi fyrir iðkendurnar skipti mestu máli.  Það er sama hversu flott æfingakerfið er eða þjálfunarfræðin á bakvið íþróttina (þó mikilvægt sé einnig), ef sigurþráin og sigurvegaradýrkunin (og forréttindi) verða alger þungamiðja hennar, þá mun hún aldrei leiða til heilbrigði og hamingju sem flestra iðkenda hennar og vera skammgóður vermir fyrir sigurvegarana sjálfa.  Það er einnig mun meiri heiður og innihald í því að sigra í virðingarverðri íþrótt en afvegaleiddri.  Það er því ágætt að hugsa um nýja íþrótt sem hvítvoðunginn sinn sem maður vill að vaxi upp og dafni sem manneskja með heilbrigðan líkama og hugsun.  Það þarf að hugsa til þess hvar eigi að draga mörk snilligáfu og geðveiki, þ.e. að það er takmörkunum háð hversu langt íþróttamenn eiga að ganga til að öðlast endalaust meiri líkamsgetu.  Hver þau takmörk eru getur verið mjög mismunandi en þau markast jafnan af því að fara ekki út í iðkun hluta sem misbjóða heilsufarslegu jafnvægi til þess eins að kreista allt út úr vöðvakerfinu.  T.d. notkun efna sem geta skaðað innri líffæri þó að þau auki getu stoðkerfisins á einhvern hátt.  Það er ekki öllu fórnandi fyrir sigur í íþróttakeppni því íþróttin er ekki undanskilin hamingjuleitinni.  T.d. sigur byggður á einhvers konar svindli eða skaðlegum undirbúningi (líkamlegum sem hugarfarslegum) er alltaf þjakaður af skugga slæmrar samvisku og ótta við að upp um athæfið komist.  Þess utan rýrir slíkur sigur gildi íþróttarinnar fyrir iðkandann fyrr eða síðar.  Það sem skilar mestri hamingju við iðkun góðrar íþróttar er leiðin sjálf að betri árangri eða sigri, ekki sigurinn sjálfur og vel unninn sigur á heiðarlegan og heilbrigðan máta er margfalt sætari en sá illa fengni.  Heiðurinn skiptir miklu máli, þ.e. að hafa ekki aðeins tekið þátt (og jafnvel náð verðlaunasæti), heldur hafa einnig sýnt samkeppendum og sjálfum sér þá virðingu að fara eftir settum reglum þó svo að á móti blási.  Sú græðgi að vilja komast á spjöld sögunnar "no matter what" er fallvölt og gefur aðeins ásýnd hamingju, en ekki raunverulega þegar uppi er staðið.  Með þetta í huga þarf að fóstra með sér heilbrigt viðhorf í íþróttum sem og öðru í lífinu. 

Takk Daði Rúnar.

Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 26.5.2009 kl. 23:24

13 identicon

Fróðleg, skemmtileg og vel rituð lesning.

Þrekmótaröðin verður vonandi árviss stórviðburður sem mun smita út frá sér. Það er líka gaman að sjá metnaðinn sem Evert og Leifur Geir lögðu í CrossFit Leikana sem setti alveg nýjan staðal fyrir þetta form keppna hérlendis. Það er líka bara þannig að ef fleiri sjá keppni sem þeir gætu séð sjálfa sig mögulega iðkað, geta vinsældirnar ekki annað en aukist.

Svo er það bara þannig að keppnir sem þessar smita út frá sér í aðrar iðkanir sem þú taldir upp, tam. Ultra-Maraþonið, fjölmörg götuhlaup og víðavangshlaup, þríþrautir, hjólakeppnir o.fl.

Hver veit nema fullyrðing Everts rætist og Ísland verði heilbrigðasta land í heimi !?

Kv.
Ómar Ómar / Progress.is : AST á Íslandi
BootCamp

Ómar Ómar (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 21:54

14 identicon

Vil benda á að Frank Zane vann aldrei Arnold heldur vann þegar Arnold keppti ekki. Eini maðurinn sem vann Arnold var Sergio Olivia  í Mr. Olympia 1969 sem var jafnframt fyrsta Mr. Olympia keppni Arnolds. Eftir það Vann Arnold allar þær keppnir sem hann tók þátt í (Mr. Olympia 1970-75 og 1980).

Stefnir Benediktsson (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 23:31

15 Smámynd: Ólafur Tryggvason

Frábær grein hjá þér Svanur og flottar umræður!!

Það er samt rétt að árétta að árangur þinn Svanur í Crossfitleikunum var magnaður og sínir sennilega best út á hvað Crossfit gengur að mínu mati, það er að standa fyrir framan þolraun og komast í gegnum hana á eigin forsendum. Sigrast á þeim takmörkunum sem hugur mans setur manni.

Ég sá það sennilega manna best hvað þetta var mikil þolraun sem þú gekkst í gegnum þar sem ég var dómarinn sem fylgdi þér í gegnum þrautina!!

Einnig langar mig að minnast á þessa frábæru járnkarla eins og Sveinbjörn og Ómar (og allra hina topp íþróttamannanna sem kepptu á leikunum) sem sannarlega gefa amatörum eins og mér gríðarlegan innblástur til að halda áfram og gera enn betur á æfingum. Og drullast svo til að keppa sjálfur á næsta ári, hehe.

En aðeins að meiðslaumræðunni, ég hóf að stunda Crossfit fyrir fimm mánuðum síðan. Undanfarinn ár hef ég verið í vandræðum með vinstra hné og þurft að fara í þrjár speglanir sökum þess og verð ég að viðurkenna að ég var í byrjun hræddur við þessar fjölmörgu ólympísku æfingar sem reyna mikið á hnén. Nú fimm mánuðum seinna hef ég aldrei verið betri í hnénu og er farinn að hoppa um eins og fjandinn sjálfur, eitthvað sem ég hef farið ákaflega varlega í undanfarinn ár.

Eins og Leifur segir réttilega hér að ofan þá leggja Crossfitþjálfarar mikið upp úr því að iðkendur geri æfingarnar rétt og allur undirbúningur (grunnur) gengur út á að byggja upp réttar hreyfingar til að fyrirbyggja eins og kostur er möguleg meiðsl. Það er því með bros á vör sem ég hugsa til minna frábæru þjálfara, Everts og Arnars, þegar ég nú hleyp um eins og vindurinn, eitthvað sem ég var alveg hættur að reyna út af þessu helvítiss hné!!!

Góðar stundir!

Ólafur Tryggvason, 28.5.2009 kl. 23:36

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Ómar Ómar

Takk fyrir innlegg.  Ótrúleg barátta í þér í mótinu og þú náðir að vinna upp 15 sekúndna forskot þriðja manns í WOD nr. 2.  (Crossfit-latína). 

Já, þeir sem eru í þrekinu geta keppt í nánast hverju sem er.

Hvort að við verðum heilbrigðasta þjóð í heimi veltur á ýmsu.  Skemmtilegt að heyra um þennan metnað Everts.  Karlar á miðjum aldri eru ákaflega latir að taka á sínum heilsufarsmálum og offitan herjar á okkur.  Þá þurfum við enn að sigrast betur á reykingunum og efla persónuþroska barna til að þau hafi mótstöðuafl gegn fíkniefnum síðar á ævinni.  Allir þurfa að taka inn D-vítamín (og sumir kalk) á Íslandi vegna sólarleysisins, því sýnt hefur verið fram á skort og beinþynning er alvarlegt vandamál.  Þá þarf að setja inn skipulega skimun fyrir ristilkrabba allra 50 ára og eldri.  Að mörgu þarf að hyggja en grasrótarsport eins og umræddar þrekgreinar eru að sjálfsögðu góð viðbót við þá valkosti sem við höfum til bættrar líkamsgetu og heilbrigðis.

Sæll Stefnir

Frank Zane vann aldrei Arnold í Mr. Olympia keppninni heldur á minna móti skömmu eftir að Arnold kom til Bandaríkjanna.  Arnold var massaður en algerlega klumpaður og lítið skorinn.  Hann gerði ekki þau mistök aftur.

Sæll Ólafur og takk kærlega fyrir dómgæsluna, hvatninguna og að "leyfa" mér ekki að hætta.  Þú ert alveg einstaklega jákvæður.  Sammála því að Sveinbjörn og Ómar Ómar voru miklar baráttusprautur þarna að öðrum ólöstuðum, enda af mörgum frábærum dæmum að taka.  Ánægjulegt að heyra þetta með hnéð.  Það getur vissulega hjálpað í liðavandamálum að styrkja vöðvana í kring.  Hreyfingin er bólguminnkandi ef að ekki er komið svo illa fyrir að öll hreyfing valdi bara ertingu og meiri bólgu.  Oft er ráðið að hvíla og gefa tognuðum liðum frið, en stundum er til mikilla bóta að hreyfa lið á þann vegu að tognaða sinin/vöðvinn/liðbandið sé ekk í beinu átaki, heldur njóti bara góðs af auknu blóðflæði um svæðið.  T.d. vel stýrðar hnébeygjur, passlega djúpar og án þess að fara yfir sársaukamörkin fyrir hné sem tognað er um hliðarliðbandið utaná.  Allt svona þarf að prufa varlega í fyrstu og sjá svo til hversu langt er hægt að fara án þess að versna á ný.  Gastu tekið hoppin á 50 cm pall?  Það væri frábært ef þú yrðir með á næsta Crossfit móti.  Kannski verð ég þá í dómarahlutverkinu  ;-)

Baráttukveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 29.5.2009 kl. 00:40

17 Smámynd: Ólafur Tryggvason

50 cm pallur er bara "pís of...." :o)

Við verðum báðir með að ári, það verður nóg af guttum eins og mér að gægjast inn og láta það duga að vera bara dómari þar sem þeir þora ekki að stíga skrefið til fulls og taka þátt!!!

Ólafur Tryggvason, 29.5.2009 kl. 08:48

18 identicon

Það er vissulega ánægjulegt að sjá vakningu í líkamsræktarheiminum og tel ég CrossFit persónulega vera frábært æfingarform. Það frábært, að það eigi ekki samleið með hinum þrekkeppnunum sem að eru partur af svokallaðri Þrekmótaröð.

Eftir að hafa kynnst CrossFit fyrir um ári síðan, og hafa stundað það með hléum síðan, þá var ég mjög vonsvikinn með að CrossFit hafi verið troðið inn í Þrekmótaröðina.

Í Lífstílsmeistaranum, sem að var fyrsta mótið í Þrekmótaröðinni var t.d. keppt í niðurtogi, en þeir sem að hafa stundað CrossFit vita að niðurtogs æfingin á enga samleið með því æfingakerfi. Auk þess þykir mér lögð mun meiri áhersla á styrk efri líkama yfir styrk í fótum.

Liðakeppni, þar sem að hver meðlimur liðs sérhæfir sig í einni æfingu er einnig eitthvað sem að gengur þvert á hugmyndafræði CrossFit. Því er alveg fáránlegt að liðakeppni sé partur af CrossFit móti. Liðakeppnin var þó líklegast nauðsynleg ef að CrossFit-menn vilja halda sér inni í Þrekmótaröðinni.

Maður fer því að velta fyrir sér ástæðum fyrir því af hverju skipuleggjendur CrossFit leikanna hafa ákveðið að troða þeim inn í Þrekmótaröðina.

Fyrri ástæðan er sú að það sé einhverskonar gróðafíkn skipuleggjenda, eða athyglissýki. Ég ætla rétt að vona að svo sé ekki.

Seinni ástæðan gæti verið sú að verið sé að nota sér sviðsljós Þrekmótaraðarinnar til þess að koma CrossFit á framfæri og að ætlunin sé að slíta CrossFit Leikana frá Þrekmótaröðinni í framtíðinni.

Þó að seinni ástæðan hafi verið sú rétta þá þykir mér samt ekki vera viðunandi að hafa Leikana part af Þrekmótaröðinni. Ég persónulega vil ekki koma nálægt svona móti og efast ég ekki um að Greg Glassman yrði fyrir vonbrigðum ef að hann kæmist að því hvernig CrossFit leikunum hér á landi er háttað.

Haraldur Gísli Sigfússon (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 21:56

19 Smámynd: Pétur Eyþórsson

Skemmtileg grein hjá þér Svanur og góðar umræður.

Þú átt hrós skilið fyrir þessa grein, mjög sammála þér með flest þau atriði sem þú kemur inná þarna.

Það eina sem vantar við þessar íþróttir er að þær gangi í, og verði viðurkendar innan ÍSÍ svo að þeir íþróttamenn sem stunda þessar íþrótt fái þá réttmæta viðurkenningu fyrir sýn afrek, á meðal íþróttafréttamanna og almenings.

Pétur Eyþórsson, 31.5.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband