Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Vesalings guðskerti flugmaðurinn

Ég skil vel manninn - leitin að "Guði" getur gert menn hreint sturlaða.  Maðurinn var "hátt uppi" og samt fann hann ekki guð.  Hræðilegt, svo ekki sé minna sagt, hreint hræðilegt!  Frown

Nei líklega verður samt að þakka Guði fyrir að varaflugmaðurinn náði ekki völdum í vélinni og keyrði hana í jörðina af sturlun í leit sinni að samtali við Guð.  Hvað hafði Guð annars að gera með að tala við sturlaðan mann?  Hann getur bara látið Guð í friði, sveiattan!  Guð elskar hann samt líka, en vill bara ekki tala við hann í svona ástandi.  Af guðlegri forsjá var þetta bara varaflugmaður og þeir mega missa sín.

En kannski nær varaflugmaðurinn sambandi við Guð á Írlandi.  "Clever move" hjá honum að fá lendingu þar, því á Írlandi hafa menn marga hildi háð vegna þess að þeir fundu Guð, en fengu bara mismunandi leiðbeiningar um hvað hann vildi.  Írar eiga marga sérfræðinga á þessu sviði og varaflugmaðurinn fær áreiðanlega hjálp.  Með Guðs hjálp mun hann fljúga á ný!  Grin

----

Ps: Whistling


mbl.is Flugmaður fékk taugaáfall í flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðli Morgunblaðsins og Molar úr lífsspeki trúmannsins - sjá bls 47 í Mbl sunnudagsins.

Morgunblaðið hefur borið þá gæfu að leyfa öllum lesendum að skrifa greinar á lesendasíður blaðsins svo fremi sem ekki sé um eitthvað verulega meiðandi eða ósiðsamlegt efni að ræða.  Þannig hefur Morgunblaðið marga áratugi hjálpað landanum að koma skoðunum sínum á framfæri við aðra landsmenn og er það vel.  Einhverjir hafa kvartað yfir að fá lítið pláss eða að vissum einstaklingum sé hampað með stórum greinum í lesbókum eða sérstökum dálkum.  Mér sýnist ýmislegt til í þessu en Morgunblaðið er ekki ríkisblað, heldur einkafjölmiðill og ber því ekki skylda að meðhöndla alla jafnt og getur leyft sínum gæðingum og uppáhöldum að njóta sín sérstaklega.  Það er þó aðdáunarvert að oft hafa pólitískir andstæðingar Moggans fengið drjúgt pláss og góð viðtöl.  Þessi aðdáun er þó nokkuð sem á ekki að vera aðdáun, heldur bara venjubundin virðing fyrir því sem sjálfsagt er fyrir fjölmiðil sem í krafti útbreiðslu sinnar hefur þann möguleika að skýra frá vel flestum skoðunum og málssvörum sem láta að sér kveða í þjóðfélaginu.   Þannig er þeirra háttur sem una málfrelsi og lýðræðislegri umræðu.

En hverjir eru sérhagsmunir Morgunblaðsins? Það er nokkuð ljóst að stefna og stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins fá þar sérstaklega góða umfjöllun og tækifæri.   Hin óundirritaða en oft háðuga og hvassa gagnrýni á andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í dálknum Staksteinar og einnig í ritstjórnarpistli eða Reykjavíkurbréfi sýnir hvaða stjórnmál standa á bak við eigendur og ritstjórnendur blaðsins.   Þá er ljóst að Morgunblaðið er málpípa Þjóðkirkjunnar og fær hún mikið pláss til að koma sínu fólki, trúarskoðunum og dagskrá á framfæri.  Sem stærsta dagblað landsins og með mestu útbreiðsluna hafði Mbl og boðun þess því algera yfirburði í áratugi eða þar til Fréttablaðið sló útbreiðslu þess út.   Blaðið og svo 24-stundir sem Mbl keypti meirihluta í er nú orðið að nánast sama málssvara (en bara með meira efni fyrir dægurmál) og mátti sjá þess glöggt vitni í umræðunni um grunnskólafrumvarpið í desember s.l.  Leiðarar 24-stunda voru mjög vilhallir Þjóðkirkjunni og óttuðust hinn "freka minnihluta" sem bað um veraldleg lög í landinu.   Við þetta er ekkert að athuga - einkarekin fyrirtæki ráða sínum skoðunum sjálf. 

Í Morgunblaðinu í dag sunnud. 27. janúar 08 fékk Sr. Sigurður Ægisson tvo heildálka sem tileinkaðir eru "Hugvekju" og fjallar þar um það sem hann setur í fyrirsögn undir "Lífsspeki".  Þetta vakti forvitni mína því fátt er jú mikilvægara en lífsspeki.  Við þurfum öll að hafa tileinkað okkur ákveðna lífsspeki til að taka farsælar ákvarðanir í okkar daglega lífi.  Sr. Sigurður segir í inngangi að þetta sé síðasta hugvekjan hans í bili, en síðan 2001 hafi hann skrifað 325 hugleiðingar, flestar frumsamdar.  Hann þakkaði samfylgdina og tók svo fram að sú lífsspeki sem hann valdi til birtingar kæmi úr bók Jóns Hjaltasonar, Lífsspeki sem kom út árið 2003.

Hér koma nokkur dæmi (án leyfis höfundar):

"Talið um frægð, virðingu, skemmtun og auðæfi - allt þetta er einskis virði samanborið við ástúð vináttunnar"  Þetta er einstaklega krúttlegt og sætt.  Hins vegar finnst mér virðing ekki einskis virði samanborið við "ástúð vináttunnar" enda felst mikil virðing í vináttunni.  Reyndar fer um mig smá hrollur varðandi þessa ástúð því ég þigg bara ástúð frá minni heittelskuðu.   Þetta er nú bara minn þröngi skilningur á orðinu og óska ég öllum gleðilegrar ástúðar hjá þeim sem þess óska.  Næsta.

"Þvílíkt himnaríki væri ekki hér á jörðu ef við höguðum okkur eins gagnvart meðbræðrum okkar og hundinum okkar"  Gúlp! Blush  Hundar þurfa að dúsa inni heilu dagana og sofa stundum í búrum.  Þá eru þeir skotnir fljótt ef þeir fá ólæknandi sjúkdóm eða lifa við verki.  Þar förum við reyndar betur með þá en það fólk sem óskar eftir aðstoð við að stytta óbærilegt líf sitt.  Já ætli það sé ekki bara heilmikill sannleikur í þessu þó ég óski engum að lifa á hundakexi.

"Með því að hefna sín gerir maðurinn sig aðeins að jafningja óvinar síns; en með því að láta það ógert sýnir hann yfirburði sína".   Sammála.  Hér er átt við siðferðislega yfirburði.   Í dag iðkum við refsingu í formi fangelsisvistar en tilgangurinn með henni er ekki síður að vernda aðra frá fólki sem líklegt er til að brjóta af sér aftur".   Dauðarefsingin er aftur form hefndar og ætti aldrei að vera í gildi því það er ekki hægt að vera alltaf viss um að rétti aðilinn sé sakfelldur.

Ljómandi er  nú allt þetta að ofan skemmtilegt en "Adam var ekki lengi í Paradís" og guðleysingjarnir .... já hvers mega þeir gjalda greyin því næsta "lífsspeki" Sigurðar (og Jóns) var:

"Erfiðustu stundir guðleysingjans eru þær þegar hann er barmafullur af þakklæti fyrir eitthvað en veit ekki hverjum hann á að þakka".   W00t  Dísus fo..ing kræst.   Hvílík vandræði!  Hvílík opinberun!   Hér er vandamál sem ég hafði aldrei hugsað út í.  Ég hef verið guðlaus frá 15 ára aldri (og að 6 ára aldri) og hef alveg misst af þessum erfiðu stundum en samt hef ég haft svo mikið til að vera þakklátur samferðafólki mínu og allra mest foreldrum og þeim forfeðrum landsmanna sem bjuggu í haginn fyrir velferð okkar og frelsi.  Ég er þakklátur ríkinu fyrir að hafa veit mér tækifæri til menntunar út háskólanám og byggt upp heilbrigðiskerfi sem styður mig í veikindum utan þess þegar tennurnar í mér sýkjast, brotna eða skemmast.  Mér sýnist að sá sem þessa "lífssteypu" samdi hafi ekki notið þess að hugsa með báðum heilahvelunum og haft erfiðleika við að sjá neðar en ímyndað himnaríkið.   Við hann og Sigurð segi ég:  "Líttu í kringum þig - í láréttu plani!"

Endahnútinn rekur Sigurður svo með þessari dásamlega niðurlægjandi tilvitnun í orð gamallar konu:

"Það er að vísu satt að Darwin hefur sannað að Guð sé ekki til.  En Guð er svo góður að hann mun fyrirgefa honum það" - Gömul kona við andlát Charles Darwin. 

Konan viðurkennir fyrst að Darwin hafi sannað að Guð sé ekki til en talar svo þvert ofan í þá viðurkenningu með því að telja Guð muni fyrirgefa honum það.  Þetta er dæmi um þversögn eða öfugmælaskrýtlu (enska: oxymoron) sem oftar en ekki er dæmi um það sem varast á sem heimsku frekar en að taka sem lífsspeki.   Til eru bækur sem innihalda safn slíkra öfugmæla eða þversagna.   Þetta á ekki heima í bók um lífsspeki en sjálfssagt þykir sumum viturt það sem öðrum þykir heimskt.  Merkilegt að Sigurður tæki þetta dæmi sem guðfræðingur en þetta er ágætis brandari, bara á kostnað trúaðrar konu.  Aftur trúmaðurinn telur þetta brandara á kostnað Darwins þar sem Guð sé svo góður og fyrirgefandi, en stóri brandarinn í þessu öllu saman er sá að Darwin setti ekki fram þróunarkenningun til höfuðs trú fólks um tilveru Guðs.  Þróunarkenningin kemur ekkert guði eða trú við.  Hún er vísindakenning um þróun lífvera í árþúsundanna rás  - ekkert annað.  Hins vegar kom hún í stað sköpunarsögunnar sem útskýring á lífríkinu fyrir marga þá sem áður höfðu trúað á slíka sögu eða vantaði góða skýringu á aldri og þróun lífheimsins.  Það var mörgum bókstafstrúarmanninum áfall og ekki var lengur verjandi að kenna sköpunarsöguna sem líffræðilega útskýringu í skólum lengur. 

Vonandi velur Sigurður betri lífsspeki til birtingar í framtíðarvettvangi sínum.  Það verður spennandi að sjá hvaða visku eftirmaður hans með dálkinn "Hugvekja" í sunnudagsblaði Mbl mun færa lesendum blaðsins.   Hið kristilega íhald hefur vin í Morgunblaðinu.


Ég minni á úreldingu kaþólskra kenninga um hjónaband og kynlíf

Já páfinn lifir áfram í skírlífsheimi sínum þar sem hann telur að ekkert megi sundur skilja sem Guð hefur gefið saman, sama hversu ömurlegt samband það er.  Þessi forneskjulega trúarstofnun hafnar getnaðarvörnum og viðheldur þannig offjölgun, fátækt og útbreiðslu kynsjúkdóma með trúarkreddu sinni.  Auðvitað hlusta skynsamir "kaþólikkar" ekki á þetta bull og skilja ef hjónabandið leiðir til óhamingju og þjáninga.  Meira að segja "svæðisbundin kirkjuyfirvöld" þeirra eru farin að fylgja eigin skynsemi og óhlýðnast páfagarði ef marka má þessa frétt.  Nú bíður maður bara eftir hinni kaþólsku kynlífsbyltingu, þó hún verði e.t.v. ekki fyrr en hálfri öld eftir að hún átti sér stað hjá öðrum á vesturlöndum - eða verður hún aldrei?  Hvenær hafa kynlífssveltir kaþólskir prestar misnotað nógu mikið af börnum áður en skírlífskreddunni verður aflétt?  Meira en 50 þúsund kærur hafa litið dagsins ljós í USA.  Þarf meira?


mbl.is Páfi minnir á varanleika hjónabandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð dagsins - Sjálfstæðismaður í ósanngjörnum heimi

Í fréttum RÚV í dag var sýnt var frá fundi Sjálfstæðismanna í dag um borgarmál þar sem þeir reyndu að sleikja sárin og stappa í sig stálið eftir að þeim varð ljóst hversu siðlausri hegðun foringi (VÞV) og flugumaður (KM) þeirra urðu vísir að í vikunni.  Hanna Birna viðurkenndi að flokkurinn hefði skaðast og að um stjórnmál þeirra gætu ríkt efasemdir.

Eftir fundinn voru nokkrir þeirra sem sóttu fundinn spurðir fyrir utan ýmissa spurninga um umfjöllun þjóðfélagsins um málin.  Sjálfstæðismaður að nafni Jón Kári Jónsson var spurður hvort að honum hafi þótt umræðan og umfjöllunin í fjölmiðlunum hafa verið svolítið ósanngjörn. 

Jón Kári Jónsson Angry ákveðinn "Já .. , mér finnst hún afar ósanngjörn!"Jón Kári Jónsson xD svarar

Fréttamaður: "hvernig þá?"

Jón Kári Jónsson:   FootinMouth nú hikandi og hugsi  "uh.. uh... Woundering..  ja.. fjölmiðlar bara verið alltof hallir undir vinstrimenn"

Þetta fær Razzi-verðlaunin að minni hálfu sem lokahnykkurinn í mikilli spakorðaveislu frá yfirstrump sjálfstæðismanna í borginni, strengjabrúðum og afsakendum hans þessa örlagaríku viku. 


"Föst leikatriði" hjá Fótboltastofnun Íslands

Það eru rúm tvö ár síðan ég heyrði fyrst íþróttafréttamenn tala um "föst leikatriði" í fótbolta.  Mér hefur aldrei líkað við þetta orðalag en ekki alveg gert mér grein fyrir því hvers vegna.  Ég ætla gera tilraun til að útskýra það hér.  Ég hef alltaf haft taugar til fótboltans frá því er ég var krakki og vil halda boltanum frá því að hljóma eins og uppfinning úr tækniháskóla.

Í fyrsta lagi þá hef ég aldrei vitað til þess að fótbolti innihéldi eða samanstæði af "atriðum".   Orðið "atriði" er eitthvað sem ég hef f.o.f. tengt við leikhús, en kannski hafa menn hin síðustu ár farið að líta á knattspyrnuna sem einhvers konar leikhús eða sirkus.  Crying 

Í öðru lagi fæ ég ekki séð hvernig "laus leikatriði" gætu litið út en ætli það megi ekki tala um stungusendingar, þríhyrningaspil, kantspil og hraðaupphlaup sem slík?  Samkvæmt því mætti því tala um tæklingar, stunguskalla og pot sem "lárétt leikatriði".  

Í þriðja lagi sé ég ekki þörf á því að yfirgefa venjubundið knattspyrnumál og taka upp orðanotkun sem hljómar eins og út úr eðlisfræðiformúlu, leikhúsi eða skipulagsnefnd hjá borginni.  Fótbolti er leikur og á að hafa hressilegt tungumál.  Hvað varð um "fríspörkin"?  Nú er bara talað um aukaspyrnur.  Má ekki tala um fríspörk eða einhver önnur "-spörk" sem samheiti yfir horn og aukaspyrnur?  Kannski "dómspörk", t.d. "Eftir dómspörk var liðið á fá á sig mörk og bar það vitni lélegs varnarleiks.  (eða verður talað um "varnarleikatriði" eftir nokkur ár?)

Ég grátbið KSÍ að taka þetta hræðilega gelda stofnanamál úr knattspyrnunni.  Bjarni Felix hlýtur að "lúta í gras" fyrir þessu.  Er ég annars einn um þessa tilfinningu?  Hvað segja "kratspyrnubullur"? Tounge


Ljómandi tillaga í lok stjórnmálastarfs

Björn Ingi sýnir að hann hefur smekk fyrir góðum málum og þessi hugmynd um að reisa Robert J Fischer minnisvarða við Laugardalshöllina finnst mér vel við hæfi.  Heimsmeistaraeinvígi RJF og Boris Spassky árið 1972 í Laugardalshöll verður alltaf með þeim stærstu og minnisstæðustu viðburðum sem þar hafa farið fram.   Mér er til efs um að nokkur annar félagslegur viðburður hafi vakið jafn mikla athygli á Íslandi og þetta einvígi fyrir utan e.t.v. friðarfund Reagans og Gorbatsjovs. 

Sigur Bobby Fishcer hafði gríðarlegar afleiðingar, bæði í skáklífi um allan heim (t.d. fjöldi félaga í Bandaríska skáksambandinu tvöfaldaðist) og gagnvart pólitísku harðlífi fyrrum Sovétmanna sem töldu með yfirburðum sínum í ríkisstyrktri skákinni væru þeira að sýna fram á yfirburði kommúnismans.  Fischer braut á bak aftur jafnteflismaskínur þeirra og lyfti skákinni upp á stig áður óþekktrar aðferðar og snilli.  Þá hafði heimtufrekja Fischers þau áhrif að ekki var hægt að halda bestu stórmeisturunum (áskorendum heimsmeistaranna) lengur á horreiminni og keppnisaðstæður voru stórbættar.  Það var því undarlegt og nokkur þversögn að eigingirni Fischers gagnaðist þannig þeim sem á eftir komu.  Þrátt fyrir bresti Fischers var hann mikill íþróttamaður sem hafði mikil áhrif sem slíkur og minnisvarði um afrek hans væri góður staður fundinn við Laugardalshöll.  Skorti peninga skal ég gefa til þess 2000 krónur.


mbl.is Vill láta reisa Bobby Fischer minnisvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lengi gert - undirskriftirnar gefa sterk skilaboð!

Það var tók ekki nema 2 daga sýnist mér að safna þessum 5930 undirskriftum þar sem hátterni Ólafs F og borgarstjórnarflokks xD er mótmælt með afgerandi hætti.  Mér þykja þetta vera mjög skýr skilaboð til þeirra um að valdabrölt þeirra er ekki vel liðið.  Af viðtölum við fólk á förnum vegi hjá RÚV og Stöð 2 kom hið sama í ljós.  Stærstur hluti viðmælenda voru gáttaðir á þessum skrípaleik. 

Gott framtak hjá Lísu Kristjánsdóttur. 


mbl.is 5.930 skrifuðu undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björninn í dvala

Það er skammt á milli stórra tíðinda í stjórnmálabaráttu borgarinnar.  Nú er Björn Ingi búinn að binda sinn endahnút, þessi bjarti drengur með baugana sem með mikilli elju og nokkrum klókindum tókst að koma Framsókn á blað í borginni eftir hræðilegar niðurstöður í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar.  Ég sé ekki í fljóti bragði að öðrum framsóknarmanni hefði tekist þetta, enda kom þarna ferskur vindur úr annars stöðnuðu apparati. 

 Veturinn 2005-2006 var ég með vikulegan útvarpsþátt á Útvarpi Sögu og var m.a. með umfjöllun um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík áður en flokkarnir voru farnir að virkilega gera upp hug sinn fyrir kosningarnar í því máli, sem hafði náð að sofna um hríð.  Aðeins Frjálslyndir voru harðákveðnir í að halda Flugvellinum í Vatnsmýrinni og kom þar Sveinn Aðalsteinsson (kosningarstjóri F-listans) og talaði fyrir þeirra hönd.  Björn Ingi kom fyrir Framsókn og talaði mjög hreinskilningslega um þessi mál.  Hann sagðist ekki vera kominn með ákveðna staðsetningu í huga á þeim tíma.  (síðla hausts 2005).   Mér fannst hann koma vel fyrir og svara skynsamlega en umræðan kom m.a. inná sjúkraflutningana og flugöryggi í landinu.  Mér fannst þetta efnilegur stjórnmálamaður en vissulega voru kynnin of stutt til að sjá manninn allan.

Í þeirri mjög svo grafísku og lifandi kosningaherferð sem hann og flokkur hans stóðu svo fyrir fyrir kosningarnar 2006, lenti Björn í flugvallarmálinu uppá Lönguskerjum.  Einhvern veginn fannst mér eins og þessi stefna væri bara í raun stefna til að skapa sér sérstöðu frekar en alvara væri á baki en margt var á huldu um kosti og galla þess kosts á þeim tíma.  Ákvörðunin var þó hentug kosningastefna því óákveðni í þessu máli boðaði ekki á gott. 

Söguna síðan þekkjum við og því miður virðist Birni Inga hafa fatast flugið á einhvern hátt.  Mér þótti afar sérkennilegt (lesist óskynsamlegt) af honum að koma fram skælbrosandi og áhyggjulítill þegar REI deilan stóð sem hæst og vera svo kominn í nýtt stjórnarsamstarf morguninn eftir.  Það hefur dregið dilk á eftir sér og virðist sem ýmsir hafa reynt að finna höggstað á honum síðan.  Þá hafa ýmis innri mál í Framsókn hafa orðið þrúgandi og þetta fatamál hefði varla komið upp nema af þvi að eitthvað annað liggur undir.  

Enn og aftur molast úr Framsóknarflokknum.  Vandamál þess forna bændaflokks virðast hvergi nærri til lykta leidd og djúpstæður ágreiningur virðist plaga hann.  Ég óska staðgengli Björns Inga góðs gengis og einnig Birni Inga í lífi sínu utan hringiðu stjórnmálanna.  Hann hefur alla vega lagt hér eitthvað af mörkum undir lokin til að skapa frið í kringum starfið í borginni.


mbl.is Björn Ingi hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Riddarinn hugumprúði eða hjóm tækifærismennskunnar og ósvífni valdagræðginnar

Metnaður sums fólks til valda og fallegra titla fyrir sjálfan sig á sér fá takmörk og ákaflega slök siðferðisleg landamæri.  Í dag kl 19 horfðum við uppá eina þá mestu valdanauðgun sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár þegar Ólafur F. Magnússon, nýupprisinn oddviti gamla F-listans (og óháðra), tekur upp á sitt einsdæmi að yfirgefa fyrirvaralaust samstarfið við borgarstjórnarmeirihlutann til þess að verða borgarstjóri Reykjavíkur.  

Ólafur F er ekki vitgrannur þó þessi liðsfórn hans til tímabundins ávinnings í pólitísku valdatafli sé algerlega siðlaus fyrir margar sakir.  Hann veit að hann þarf stóra gulrót til að sefa borgarbúa og með loforðum um frítt í strætó fyrir öryrkja og aldraða (auk barna og unglinga), 100 ný hjúkrunarrúm á hverju ári, skjótri ákvörðun um Sundabraut, varðveislu 19. aldar myndar laugavegsins og svo stóru loforði um að ekki verði tekin ákvörðun um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu, þykist hann hafa réttlætt þennan rýting sem hann setti í bakið á Degi, Svandísi, Birni Inga og Margréti Sverrisdóttur, sem stóð vaktina fyrir hann af miklum dugnaði á meðan hann var ófær um að sinna því dapurlega starfi að vera í minnihluta í borgarstjórn í um hálft ár. 

Framboð F-listans og óháðra fékk um 10% fylgi og átti með rétti að fá tækifæri til að vinna með xD að nýrri borgarstjórn strax eftir kosningar.  Sjálfstæðismenn vildu ekki Ólaf og xF þó að þannig væri meirihluti atkvæða kjósenda á bakvið meirihlutann.  Í sjálfu sér var ekki meiri málefnaágreiningur á milli xD og xF heldur en xD og xB.  Góður árangur xF í þeim kosningum var hlunnfarinn.

Sjálfstæðismenn gera alvarleg mistök í rekstrarmálum orkufyrirtækja og missa völdin sökum trúnaðarbrests bæði innan flokks og milli þeirra og Björns Inga.  Borgarbúar horfa á sirkusinn í forundran og varpa öndinni léttar þegar nýr meirihluti tekur til starfa.  Björn Ingi selur ekki siðferði sitt eða starfsheiður með því að heimta borgarstjórastöðu, heldur tekur til starfa með nýjum meirihluta á jafningjagrundvelli og til samstarfs um málefnin.  Skyndileg umskipti hans voru þó frekar vafasöm en í ljósi þess óróa sem á undan gekk verður að telja að það geti notið ákveðins skilnings.  Dagur B Eggertsson tók rösklega til starfa og blés mikilli orku og persónutöfrum í borgarstjórastarfið.  Ljóst var að ekki átti að taka ákvörðun á tímabilinu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar því rannsóknir á veðurfari á Hólmsheiði standa yfir og lýkur ekki í bráð. Ekki heyrðist neitt af óánægju frá hinum nýja forseta borgarstjórnar Ólafi F Magnússyni og borgarbúar horfðu loks fram í pólitískan frið og stöðugt starfsumhverfi í stjórnkerfinu fram til næstu kosninga.  Eðlilegt var að Vilhjálmur Þ og xD tækju sínu hlutskipti af rósemi og festu og öxluðu þannig ábyrgð af mistökum sínum.  Starfsfriður í borginni hlyti að skipta miklu máli út kjörtímabilið sem er nú nær hálfnað... eða hvað?

Nei, Vilhjálmur Þ og félagar sáu sér leik á borði.  Samkvæmt því sem fram kom á fréttafundinum áttu sjálfstæðismenn frumkvæði að því að tala við Ólaf F Magnússon.  Nú var tækifæri til að ná aftur völdum og þó að það gæti kostað verulega eftirgjöf í baráttumálum þeirra og gjöf borgarstjórastöðunnar til Ólafs F í eitt ár eða svo, væri það þess virði.  Ekkert er jú meira niðurlægjandi en að vera valdalaus, hvað þá valdalaus eftir klúður.  Hví skyldi Ólafur F ekki semja við þá.  Hann var að vísu niðurlægður af þeim eftir kosningarnar en það var ekkert sem góðir plástrar gætu ekki bætt. 

Hér er það sem blasir við:

  • Ólafur F yfirgefur eigið bakland og sinn dygga stuðningsmann og baráttukonu Margréti Sverrisdóttur til þess að taka einhliða upp samstarf við xD og fá að vera Borgarstjóri.
  • Ólafur ber fyrir sig að hann hafi ekki fengið málefnum sínum framgengt undir "góðri stjórn Dags B Eggertssonar".  Trompið hans í síðustu kosningum - flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni er sett fram sem mál sem gangi nú í gegn en í raun átti hvort eð er ekki að taka ákvörðun um staðsetninguna á þessu kjörtímabili.  Alger núll-punktur.
  • Ólafur kemur fram sem bjargvættur aldraðra og öryrkja í strætómálum.
  • Ólafur kemur fram sem bjargvættur almannaeignar borgarbúa á orkufyrirtækjum þeirra.
  • Ólafur segir að fulltrúar F-listans hafi ekki fengið nægilega marga fulltrúa sem skyldi í ráðum og nefndum borgarinnar.  Nú hefur hann enga fulltrúa frá xF með sér og hvernig ætlar hann því að bæta úr þessu?
  • Ólafur reyndi ekki að lýsa óánægju sinni eða fá fram breytingar á málefnum með afgerandi hætti dagana áður en hann sökkti skyndilega skipinu.  Passar það við mann sem setur málefnin á oddinn og gætir heiðarleika í samstarfi?
  • Ólafur nær að verða Borgarstjóri með aðeins um 10% atkvæða borgarbúa á bak við sig.  Sjálfstæðismenn beygja sig undir þetta til þess að ná völdum á ný og halda andlitinu sem hinn ráðandi flokkur.  Hvað með starfsfriðinn í borginni? Hvað með kjósendur xD.  Vilja þeir völd undir hvaða formerkjum sem er og undir stjórn Ólafs F Magnússonar?  Vilja þeir Vilhjálm Þ. aftur sem borgarstjóra?
  • Ólafur fær borgarstjórastólinn feita en hvaða vini á hann?  Formaður Frjálslyndra er ánægður með hann og hann tekur honum eflaust fagnandi aftur inn í flokkinn, en mun það bæta mannorð Ólafs og tryggja honum pólitíska framtíð?  Ólafur gæti nú eflaust runnið "ljúft" inn í Sjálfstæðisflokkinn rétt eins og Gunnar Örn Örlygsson gerði hér um árið, en verður hann annað en peð í þeim flokki og getur xD stillt honum upp sem trúverðugum frambjóðanda?

Þetta er að mínu mati eitt hið dapurlegasta pólitíska "sjálfsmorð" sem ég hef séð en jafnframt eitt það dramatískasta.  Ólafur hefur tryggt stað sinn í sögubókunum sem borgarstjóri Reykjavíkur, en hvernig munum við minnast hans sem manneskju?  Hvernig fordæmi teljum við Ólaf vera að setja fyrir ungt fólk í landinu?   Mun þessi valdaleikur hans hvetja heiðarlegt og dugmikið fólk til að taka þátt í stjórnmálum?  Hvernig mun Reykjavík taka þessari stjórnfarslegu nauðgun?!!

Það mátti skilja orð Dags að nýtt samstarf S, B, V og óháðra / Íslandshreyfingarinnar væri möguleiki í stöðunni.  Reynsla borgarbúa af stökum sætum í borgarstjórn er ekki góð nú og spurning er hvort endurreistur R-listi verði íhugaður af alvöru á ný.  Úr því sem komið er verður hlutskipti hins venjulega Reykvíkings að fylgjast með þriðja borgarstjóra kjörtímabilsins og hinna bláu vina hans uppfylla öll loforðin. 


mbl.is Nýr meirihluti í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mótmæli!

Ég mótmæli þeirri misnotkun á ráðherravaldi sem Árni Mathiesen beitti við veitingu héraðsdómarastöðu nýverið.  Af öllum þeim upplýsingum (bæði á prenti og af persónulegum vitnisburði) sem ég hef séð og heyrt um málið þykir mér ljóst að það er mikill munur á reynslu og hæfni þeirra þriggja sem dæmdir voru best hæfir af dómnefndinni og þeim sem stöðuna fékk.  Sá munur er ekki stöðuþega í hag.

Hingað og ekki lengra!

Þessari geðþóttamennsku í stjórnmálum verður að linna og fólk sem kosið hefur verið til hárra embætta verður að taka ábyrgð á svona dómgreindarleysi með því að stíga til hliðar.  Kannski var þetta eitt hliðarspor á annars ágætum ferli Árna, en hvert er traust þjóðarinnar til hans nú?  Sorgleg staða en engu að síður óumflýjanleg.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband