Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Með bíblíuna í pontu - orð Árna Johnsen á Alþingi stuðandi

Um breytinguna frá orðalaginu „kristið siðgæði“ yfir í „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ sagði Árni Johnsen á Alþingi Íslendinga nú á dögunum: 

Þá er látið undan dekurrófum, trúleysingjum og stjórnleysingjum víða um heim, fólki sem hugsar mest um sjálft sig en síður um að sinna náunganum af kærleik og góðvild.  Fólki sem hugsar ekki mikið um það að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt, sem er nú grundvallaratriði í því að maður sé manns gaman án þess að nokkur skemmist.   Þetta er millileið og ég vil taka undir orð háttvirts þingmanns Guðna Ágústssonar, að það er miður að menn skuli slaka á klónni.

...

Kristindómur er okkar ankeri.  Við erum ankeri annarra þjóða sem hafa önnur trúarbrögð.

...

Við eigum ekki að hafa neina afsökun á grunni okkar siðfræði og siðgæði [kristnin].

...

Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um.

...

Ræða Árna fór út um víðan völl og barst tal hans að kristniboði.  Um kristniboð sagði Árni:

Hið eina sem voru trúarbrögð í Konsó áður en íslenskir kristniboðar komu þar til starfa, það var að trúa á hið illa.  Það var bara misjafnlega mikið illt sem gat hent fólk og þetta eru einfaldar staðreyndir. 

Og þetta [kristniboðið] olli því að nú er þar fólk sem líður betur.  Stærstur hlutinn kannski af þessari kristindómsfræðslu var heilbrigðisfræði – að kenna hreinlæti, að kenna ræktun, að kenna einfalda hluti sem bættu kjör og bættu líf.   ... Og við eigum að læra af þessu og standa vörð um það sem hefur reynst okkur vel og gæta þess að þynna það ekki út.

Við þurfum að styrkja kristnifræðina í skólum landsins, þó að við getum kennt líka um önnur trúarbrögð, en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það.

 

[feitletrun er mín, en höfuðstafir lýsa hækkaðri rödd Árna]

Það má hlusta á alla ræðu Árna á vef Alþingis hér.

 

Það hryggir mig óumræðanlega að Árni Johnsen skuli slá svona sleggjudóma um fólk sem er Höfundur með Árna á Lundaballi 2006trúlaust því ég tek það til mín og þess góða fólks sem er trúlaust í kringum mig.  Árni þekkir mig persónulega og ég veit ekki betur en að hann viti að ég er trúlaus.  Viðskipti mín við Árna hafa einkennst af góðvild minni í hans garð og vináttu.  Ég er ákaflega sár yfir þessum orðum hans á Alþingi.  Ég er einnig sár fyrir hönd allra þeirra trúlausra á Íslandi sem ég hef ekki nema verulega góða reynslu af og tel alls ekki eiga þessi orð Árna skilið. 

Þá hryggir mig verulega þau orð sem hann hafði um fólk í Konsó.  Í öllum þjóðfélögum er fólk sem hefur velvilja og kærleik.  Öll trúarbrögð, líka þau sem sumir kalla frumstæð, hafa einhvern góðan boðskap.  Útkoman er misjöfn en þessi sleggjudómur Árna yfir þessu fólki og sú upphafning sem hann setur kristniboðið í, er það sem kalla má hroki.  Ef eitthvað er hroki þá er það þetta.  

Með þeirri tillögu að taka út orðin „kristið siðgæði“ úr lögunum var ekki verið að leggja til að taka út kristinfræðikennslu.   Sú tillaga kemur kennsluefninu í raun ekkert við.  Orðin voru í samhengi við gildi sem ætti að hafa að leiðarljósi í öllu skólastarfi.   Það er munur á skólastarfi og aftur námsefni.  Megin línur námsefnis eru ákveðnar í aðalnámsskrá, ekki með lögum nema að því leyti að setja umgjörðina.

Kristinfræði í skólum er nú þegar ríkjandi og kennd út frá sjónarmiði trúmannsins sem setur fram efnið eins og það er einnig sett fram í sunnudagaskólum Þjóðkirkjunnar.  Það er ekki tekið á því fræðilega með því að tala um að það skorti heimildir fyrir ýmsu og að Biblían hafi verið samin löngu eftir dauða Krists.  Það er ekki sagt frá mismunandi fylkingum gyðinga á tímum Jesú og ekki minnst á Dauðahafshandritin.  Það er ekki tekið fram að kristni tók og aðlagaði margt úr trúarbrögðum annarra, m.a. heiðingja.  Hvers vegna heitir sunnudagur sunnudagur?  Engin tilraun er gerð til að bera saman trúarbrögðin á þessum tímum.  Heimsspeki Forn-Grikkja fær sorglega litla umfjöllun en samt er hún helsti grundvöllur endurreisnarinnar, upplýsingarinnar og þróun nútíma siðferðis. 

Sú kristinfræði og boðun Þjóðkirkjunnar sem Árni Johnsen lærði hefur tekist fullkomlega í þeim tilgangi að boða hina „einu sönnu trú“.  Lyktin af yfirganginum, sjálfsánægjunni, valdníðslunni, tröðkun á rétti annarra til að hafa eigin sannfæringu og lifa í friði með hana á opinberum stöðum, rýkur af þingmanninum.  Hvernig er hægt að láta svona heyrast á Alþingi?  Orð Árna „en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það“ og „Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um“, endurspegla manneskju sem hefur engan skilning á orðinu sannfæringar- eða trúfrelsi.  Svona talar fólk sem heimtar að beygja allt og alla undir sig.  Hann talaði um „... það er miður að menn skuli slaka á klónni“.   Hefur þjóðkirkjan kló?  Hefur Alþingi kló?  Af þessum orðum er það helst að dæma að hann vilji koma öðrum undir vilja sinn með aðferðum rándýrsins.  Talar hér maður af heilindum og samkvæmi sem sakar trúlausa um vöntun á auðmýkt?

Þannig virðist hann ekkert hafa lært í skólakerfinu eða lífinu um hvað sannfæringarfrelsi þegna landsins snýst.  Hann skilur ekki mikilvægi aðskilnaðar ríkis og trúar.  Hann skilur ekki hvers vegna 30 ára stríðin voru háð í kjölfar siðaskiptanna og endurreisnartímans sem lauk um miðja 16. öld.  Hann skilur ekki frekar en svo margir aðrir, af hverju ein mikilvægasta þjóðfélagbreyting upplýsingarinnar var aðskilnaður stjórnmála og trúarbragða.  

Ég get haldið lengi áfram en mér blöskraði verulega að hlusta á þessa ræðu Árna.   Sjálfsagt meinar Árni vel og reynir á sinn hátt en það fjarlægir ekki ábyrgð hans á orðum hans.  Hvílík vonbrigði eru það að þessi annars vinalegi maður sem gæddur er ýmsum hæfileikum skuli standa sem einn af fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi talandi þessi orð fordóma og skoðanakúgunar. 


Frumvarp laga um grunnskóla samþykkt á Alþingi í gær.

Svona hljóðaði breytingartillaga menntamálaráðherra sem var víst samþykkt í gær ásamt öllu frumvarpinu með 52 atkvæðum, engu á móti og 11 fjarverandi:

1.      Við 2. gr.
                a.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Ég man að það kom upp sú hugmynd eftir deilurnar í vetur að setja inn fleiri atriði til þess að allir yrðu ánægðir.  Mér sýnist þannig að "kristin arfleifð íslenskrar menningar" eigi þannig að friðþægja kristna og "virðingu fyrir manngildi" að friðþægja húmanista.  Þetta hefur þeim greinilega þótt verulega snjallt og Höskuldur Þórhallsson (xB) gaf þeim síðan í menntamálanefnd hina fullkomnu afsökun fyrir því að halda inni kristninni með því að segja að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MRDE) s.l. sumar hafi alls ekki fjallað um að ekki mætti hafa kristna áherslu.  

Gallinn við þetta er sá að hér er framkvæmd jafnréttis og veraldlegra laga algerlega sniðgengin og misskilin.  Maður gerir ekki lög hlutlaus í anda jafnréttis með því að hlaða inn merkimiðum þeirra sem gala hæst.  Hvernig yrðu mannréttindasáttmálar ef þeir ættu að innihalda alls kyns friðþægingar og eyrnamerkingar lífsskoðunarhópa, hvort sem þeir væru trúarlegir eða ekki?  Slíkir sáttmálar yrðu fljót bitbein mismunandi  þjóðarhópa, trúarhópa og pólitíkusa. 

Húmanistar báðu ekki um að bætt yrði inní þetta "virðingu fyrir manngildi" þó að það reyndar ætti að vera gildi sem allir ættu að geta virt og óháð trú.  Biskup Þjóðkirkjunnar hefur þó talað með fyrirlitningu um áherslu á manngildið í ræðum sínum t.d. um síðustu áramót.  Slíkt virtist ógna "guðgildinu hans".  Aftur orðin "...kristinni arfleifð íslenskrar menningar" eru greinilegur merkimiði einnar trúar og einnar trúarmenningar.   Með þessu er verið að mismuna annarri arfleifð í lögum t.d. arfleifð húmanismans, skynsemishyggjunnar, ásatrúarinnar eða búddismans.  Arfleifð húmanismans er stór á öllum vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning.  Ásatrúin hefur einnig haft sín áhrif þó hún verið kæfð niður að mestu árið 1000. Arfleifð búddismans er nýleg og trúlega ekki mikil en það skiptir ekki máli hver stærðin er. 

Jafnrétti í skólastarfi felur ekki í sér að meirihluti fái sínu framgengt.  Jafnrétti felur í sér að allir fái að senda börn sín í skóla landsins án þess að verða fyrir boðun eða áhrifum arfleifðar eins ákveðins trúfélags, sama hversu stórt eða lítið það er.  Fólk sem vill áhrif ákveðins trúfélags á börnin sín getur sent þau í trúarlega einkaskóla en vonandi verður það nú ekki raunin hér því sameiginlegur hlutlaus skóli er ákaflega dýrmætur fyrir kennslu umburðarlyndis og samlögunar fólks í landinu, sama frá hvaða uppruna eða lífsskoðun það er.   Reynslan af sérstökum skólum trúfélaga er herfileg erlendis því slíkt grefur undan umburðarlyndi og skapar gjá milli fólks vegna trúarbragða.  Ekkert barn á að stimpla "kaþólskt barn" eða "krstið barn" frekar en eftir stjórnmálaflokkum, "íhaldsbarn". 

Nú má vera að ýmsar nauðsynlegar og góðar breytingar hafi verið í frumvarpinu en þessi hluti þess breyttist úr hugrakkri tilraun til jafnréttis með því að taka út "..kristilegt siðgæði" og setja inn nokkur almenn siðferðisgildi, í að vera skrípaleikur til að friðþægja Þjóðkirkjuna, sem með hræðslu sinni um "siðferðilegt tómarými" og "úthýsingu kristinnar menningararfleifðar úr skólunum" gat sveigt menntamálaráðherra á endanum.  Það fólk sem getur neitað sjálfum sér og sínum um sérréttindi er jafnan það sterkasta siðferðilega.  Þorgerður Katrín virtist stefna á þá braut í vetur og svaraði væli Guðna Ágústssonar í Kastljósþættinum eftirminnilega með rökfestu og áræðni.  Þar kom fram að aðspurður taldi Guðni að "kristið siðgæði" væri að "vernda Þjóðkirkjuna".  Eftir hrakfarir Guðna kom annar framsóknarmaður, Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur og alþingismaður, í staðinn fram á sjónarsviðið sem verndarengill kristninnar og hafði nú Þorgerði Katrínu undir með því að aftengja málið frá dóm MRDE.  Mál norsku foreldrana gegn norska ríkinu var flókið en megin niðurstaða þess var sú að ríkinu væri ekki stætt á því að skylda foreldrana til að fá bara undanþágur að hluta fyrir börnin sín frá kennslu um kristni, trúarbrögð og heimspeki, því námsefnið væri augljóslega of vilhallt kristni og framkvæmd hlutaundanþágu væri óraunsæ.  En skipti það í raun nokkru máli hvort að dómur MRDE hafi ekki nákvæmlega fjallað um markmiðalýsingu í lögum um starf í grunnskólum?  Getur ekki hver maður sem skilur hvert dómur MRDE stefndi, séð að hann var norska ríkinu í óhag vegna mismununar og ójafnréttis?  Augljóslega ekki Höskuldur og þingheimur virðist hafa trúað honum eða ekki haft nennu til að skoða málið nánar.

Það þarf ekki úrskurð MRDE til að sjá hversu rangt það er að blanda trúarbrögðum inn í lög um menntun barna.  Börn eru áhrifagjörn og þau á að vernda frá áhrifum utanaðkomandi aðila í skólastarfi.  Hlutverk skólanna er nær einungis að auka þekkingu barna og færni í margs kyns hugarfarslegri tækni auk líkamlegri í leikfimi.   Uppeldið fer fram á heimilinum þó auðvitað seti kennarar gott siðferðilegt fordæmi með framkomu sinni og faglegum kennsluháttum.  Það er ekki hlutverk kennara að siða nemendur sína þó því miður lendi þeir að hluta í þeirri aðstöðu þegar óstýrilát börn eiga í hlut.

Það er virkileg skömm að þessu orðalagi um arfleifð ákveðins trúfélags í grunnskólalögum.  Hver er réttlæting þingmanna á þessu?  Þreyta? Drífa þetta í gegn?  Skiptir ekki máli? Ahh, látum þetta flakka svo deilurnar hætti?  Mistök.  Nú munu deilurnar halda áfram.  Ég mun a.m.k. ekki þagna.  Þetta er verulega dapurt í ljósi þess að nú þykjumst við Íslendingar hafa þroska til þess að sitja í Öryggisráði SÞ.  Hvernig ætlum við að útfæra jafnrétti þar?


Tvennt verulega athyglisvert

Það er tvennt verulega athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ungra vinstri grænna.

Í fyrsta lagi er það hugrekki þeirra og ást á jafnrétti sem skín í gegnum mál þeirra því það eru fáir sem hafa hugrekki til að fjalla um mál lífsskoðana í stjórnmálum í dag.  Í síðustu kosningum voru þessi mál algerlega skilin útundan.

Í öðru lagi er það hugrekki þeirra og heiðarleiki að koma opinberlega fram með gagnrýni á afstöðu eða afstöðuleysi eigin þingmanna í þessu máli. 

Það er alltaf að koma betur í ljós sú vanþekking sem ríkir í þjóðfélaginu og á meðal margra þingmanna úr öllum flokkum á því hvert sé gildi veraldlegrar skipunar á menntakerfinu og hinu opinbera.  Þetta fólk virðist ekki geta skilið á milli þess sem er ríkjandi lífsskoðun eða ríkjandi hópur í stærð eða sögu trúfélaga og þess að leiðbeinandi gildi í skólastarfi (eða t.d. þingmennsku) geta ekki verið eyrnamerkt í lögum slíkum hóp eða hópum.  Lög geta ekki verið tileinkuð einni arfleifð umfram annarrar því annars er verið að mismuna og skapa sundrungu, alveg sama hversu stór við höldum að sú arfleifð sé.  Ekki dettur okkur t.d. í hug að tileinka og merkja lög um störf dómara ákveðinni nefndri hugmyndafræði eða lög um Alþingi ákveðnum stjórnmálaflokkum, þó stærstir séu. 

Skólar eru ekki trúarstofnanir, heldur trúarlega og stjórnmálalega hlutlausar menntastofnanir.  Það þýðir ekki þar með að skólastarf sé tómt hugmyndafræðilega eða villu ráfandi siðferðilega.  Við höfum almenn gildi til að fara eftir líkt og kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og stungið var uppá að færi í lög um skólastarf í stað hins trúarlega mismunandi og óljósa orðalags "kristilegs siðgæðis".  Siðferðisgildin sjálf er allt sem þarf að nefna og lög án merkinga skapa frið um skólastarfið sem á að vera fyrir alla þegna landsins, ekki bara kristna.

Einnig má hér minna á að kristin arfleifð á sér bæði góðar og slæmar hliðar, þannig að hún er umdeild bæði í dag og alla hennar sögu.  Hún er heldur ekki eina arfleiðin og að mínu áliti og margra annarra ekki sú mikilvægasta.  Arfleifð lífsspeki Forn-Grikkja, endurreisnarmanna (1300-1550) og svo hugsuða upplýsingarinnar (u.þ.b. 1650-1850) er sú arfleiðs sem færði okkur einstaklingsfrelsi, kosningarétt, lýðræði, frjálsar ástir, jafnrétti kynjanna, tjáningarfrelsi, sannfæringarfrelsi og vísindalega gagnrýna hugsun.  Oft tíðum náðust þessi verðmæti þrátt fyrir harða andstöðu kirkjunnar (sbr Galilei Galileo og Vatíkanið) þó vissulega væru góðar undantekningar því meðal klerka eða guðfræðinga sem iðkuðu vísindi og færðu okkur nær einstaklingsfrelsi en áður var.  Nefna má þar t.d. guðfræðinginn Desiderius Erasmus frá Rotterdam sem síðar fékk þann heiður fá verk sín listuð á Skrá hinna bannfærðu bóka hjá Páfanum í Róm.

Þó að ég telji hina húmanísku arfleifð mikilvægari en hina kristnu, þá dettur mér ekki í hug að biðja um að nefna húmanisma eða arfleifð hennar í lögum.  Skólastarf mótast fyrst of fremst af faglegri nálgun og þekkingu kennara rétt eins og starf lækna mótast af faglegri nálgun þeirra og sérstökum siðareglum í starfi.  Siðareglur lækna bera ekki trúarlega merkimiða.  Það er algert aukaatriði hvaðan gildin koma, hvort að það var kristinn maður, búddisti, múslimi eða húmanisti sem kom með góðar siðferðishugmyndir.  Það skiptir mestu að gildin sjálf, sem eru sammannleg og algild séu höfð að leiðarljósi.  Þjóðfélag er samstarf og það geta ekki allir skrifað undir eða eignað sér heiður.  Hið sameiginlega, hið opinbera í lífi okkar þarf einfaldlega að virka og vera miðað að ákveðnum markmiðum og tilgangi óháð uppruna eða sögu. 

 


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feginn að vera ekki feigur

Ég var ásamt kærustu minni í Jaipur um síðustu jól. Þetta er falleg borg og full af listum og lífsgleði.   Borgarbúar elska kvikmyndir og mörg bíóhús í gamalklassískum stíl eru þar.  Þarna fá Indverjar margir satt draumum um frelsi í ástum og hetjudáðir sem birtast í Bollywood myndunum. 

Bíóhús í Jaipur

Gamli hluti Jaipur er frá um 1850 þegar konungur Rajasthan ákvað að reisa nýja borg á nokkrum árum með stærðfræðilegu fyrirkomulagi gatna hornréttra á hvor aðra og breiðu markaðsstræti í miðjunni.  Steinar bygginganna báru bleikan lit og því var hún kölluð "Bleika borgin" (Pink city). 

jaipur-bazaar

 

 

Konungur þessi var mjög kænn því honum tókst að halda samstarfssamningi við hina herskáu Mógóla (Muhgals) sem frá 16. öld höfuð sölsað undir sig nær allt Indland og áttu sér höfuðstað í Dehli á þessu tíma en hún er um 200 km norðan við Jaipur.   Hann byggði eina stærstu stjörnuskoðunarstöð heims í Jaipur og er þar enn stærsta sólúr í heimi. 

 

Við fengu leiðsögn um þröng hliðarstræti Jaipur af ljósmyndara sem við hittum þar.  Hann rak eina elstu ljósmyndastofu borgarinnar og átti enn stóru ljósmyndavélina sem afi hans, stofnandi stofunnar, tók myndir með af hermönnum konungs.  Hann sýndi okkur gamlar negatífur máli sínu til sönnunar.  Við fórum uppá þak í húsi frænda hans, sem var málari.  Auðvitað urðum við að kaupa eina mynd af honum til að þakka fyrir túrinn en þannig er það oftast í Indlandi.  Enginn ókunnugur er raunverulega að gefa þér nokkuð eða sýna þér um hverfið af góðviljanum einum.  Lífsbaráttan er svo hörð að hver rúpí er kreistur úr hverjum túrista.  Á húsþökunum voru börnin að æfa flugdrekaflug en 14. janúar hvert ár verður allt vitlaust í Jaipur á degi flugdrekans. Ljósmyndarinn og gamla vélin hans

Þegar ég elti þennan vinsamlega indverja gegnum öngstrætin leið mér ekki of vel.  Það var ekki sú öryggistilfinning sem maður hafði á ferðalagi um Nýja Sjáland tveimur mánuðum síðar.  Maður var frekar smeikur um öryggi sitt.   Nú kemur í ljós að maður hefði getað orðið hryðjuverkum að bráð þarna.  60 manns létu lífið!  Óskemmtileg tilhugsun.  Þetta verður allt miklu raunverulega þegar maður hefur gengið þessar götur.  Ljósmyndarinn sagði okkur af því að menn brenndu stundum konur sínar ef þær kæmu ekki með nægum heimamund.  Hræðilegt ranglæti ætti sér stað.  Hver ætli hugi að sárum þessarra 150 sem særðust í sprenguárásinni?  Það er ekkert opinbert heilbrigðiskerfi. 

Við gengum út úr búð í Jaipur með súkkulaðistöng í hendinni.  Hópur götudrengja gerði aðsúg að okkur og vildu fá súkkulaðið.  Þeir voru frekir og dónalegir og því gáfum við ekki súkkulaðið.  Hvaða framtíð skyldu þeir eiga fyrir sér?  Þó einhverjir þeirra væru klárir ættu þeir litla möguleika á því að brjótast upp úr stétt sinni.  Lægst setta stéttin í Indlandi, dalmítarnir fá að eiga og reka svín sér til lífsviðurværis.  Rétt eins og þeir, voru svínin merkt sem óæðri.  Hugarfarslegir og efnahagslegir múrar eru reistir í kringum þá. 

Skyldi Höll vindanna hafa sprungið?  Það væri sjónarsviptir en hinn dýrmæti friður í Jaipur er þó meira virði.

Höll vindanna - Jaipur

 


mbl.is Útgöngubann í Jaipur á Indlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur skipta menn um skútu í miðri siglingu og taka seglið með sér

Á árum áður gat það gerst öðru hvoru að þingmenn klyfu sig út úr flokki sínu á kjörtímabili sem var ekki nærri liðið, en það var alltaf með þeim hætti að þeir lýstu sig óháða eða gerðu sig líklega til að stofna nýjan flokk.  Þannig var það þar til Gunnar Örn Örlygsson klauf sig frá xF haustið 2005 og gekk rakleiðis í raðir xD.  Þetta var með ólíkindum og fólk gapti, já gapti stórum, nema auðvitað kænir Sjálfstæðismenn, sem földu undrunina en settu upp í staðinn bros og tóku Gunnari Erni báðum höndum líkt og um hetju væri um að ræða.  Ríkisstjórn þeirra með xB stóð tæpt út frá tölu þingmanna og því var liðhlaup Gunnars Örns kærkomið.  Gunnari var launaður greiðinn með 14. sæti í prófkjöri Suðurlandskjördæmis fyrir síðustu kosningar.  Hann var ekki fulltrúi neins lengur.

Nú er Karen að gera svipaðan hlut á Akranesi, en þó með viðkomu sem óháð um nokkurt skeið ef mig minnir rétt.  Magnús Þór hrakti hana fyrst úr xF og svo hraktist hún úr hlutlausri stöðu yfir í xD nú vegna flóttamannamálsins á Akranesi.  Vera kann að hún hafi haft málefnalega ástæðu til að vera ósammála varaformanni xF (og varamanni sínum í bæjarstjórn Akraness) og gat greitt málinu atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu en hafði hún siðferðilegt leyfi til að taka atkvæði sín yfir til xD?  Ég leyfi mér að efast um það.

Sama má segja um hlaup þingmanna úr xS og xB yfir í xF í lok síðasta kjörtímabils en um þau mál má reyndar segja að flokkaskiptin áttu sér stað undir lok kjörtímabilsins og höfðu því lítil áhrif á pólitíkina.

Samkvæmt stjórnarskrá er þingmaður einungis bundinn samvisku sinni og því er ekkert hægt að segja við þessum flokkaskiptum.  Í lögum um stjórnarhætti hins opinbera er alls ekki tekið á þessu.  Þegar pólitíkus fer í framboð er það bæði í nafni eigin persónu og þess flokks sem viðkomandi fer fram fyrir.  Flokkurinn hefur ákveðna málefnaskrá og stefnu þannig að frambjóðandinn er ekki síst kosinn vegna hennar eins og fyrir kosti eigin persónu.  Á bak við hvern sveitarstjórnarmann eða þingmann sem nær kjöri eru hundruð eða þúsundir atkvæða og eru þau óumræðanlega tengd viðkomandi flokki.  Hvernig má það þá vera að kjörnir fulltrúar geti tekið þessi atkvæði og flutt yfir til annars flokks, jafnvel flokks sem hefur talsverða andstöðu við málefnaskrá þess flokks sem hinn kjörni fulltrúi tilheyrði? 

Eftirfarandi spurningum þarf að svara til þess að fá skynsamlega niðurstöðu í þessi mál:

  • Hvar byrja og enda réttindi kjörins fulltrúa gagnvart flokknum og kjósendum hans?
  • Hvar byrja og enda réttindi stjórnmálaflokksins og kjósenda hans gagnvart hinum kjörna fulltrúa?

Það má hugsa sér þá stöðu að kjörinn fulltrúi telji flokk sinn farinn svo langt frá stefnuskrá sinni við kosningar að hagsmunum kjósenda hans sé ógnað og flokkinn orðinn þvert á skoðanir þeirra í mörgum mikilvægum málum.   Í slíku tilviki mætti til sanns vegar færa að atkvæði fulltrúans væri betur varið utan flokksins en aftur má spyrja hvort að réttlætanlegt sé að það fari yfir til annars flokks?  Væri sá flokkur líklegur til að endurspegla vilja þeirra kjósenda sem völdu fulltrúann? 

Geta kjörnir sveitarstjórnarmenn eða þingmenn slitið sig frá vilja þeirra sem kusu þá?  Erum við að kjósa kraftmiklar eldflaugar sem bera ákveðin merki en geta síðan valið sína leið undir nýju merki á sínum eigin "autopilot"? 

Ég er ekki að skrifa um þetta til að styðja mál xF í þessu innflytjendamáli, heldur vegna þess að ég hef áhyggjur af framkvæmd lýðræðis á Íslandi.  Allir flokkar geta lent í því að kjörnir fulltrúar þeirra vilji skyndilega skipta um lit.  Það gæti skipt sköpum um valdajafnvægi og hefur nú gert það á Akranesi.  Þá er einnig áhyggjuefni að fulltrúar geta skilið við stjórnarsamstarf í skjóli leyndar og baktjaldamakks, án samráðs við næstu menn á lista eða flokksforystu.  Hver er réttur fulltrúans og hver er réttur heildarinnar sem hann/hún tilheyrði?  Ábyrg stjórnmálaöfl í landinu þurfa að finna svör við þessu.


mbl.is Lýsa yfir stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref - fyrsta veraldlega útförin á vegum Siðmenntar

Þann 9. maí síðastliðinn stýrði ég fyrstu veraldlegu útförinni á vegum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar.  Þannig fetaði ég í fótspor Jóhanns Björnssonar sem hélt fyrstu veraldlegu giftinguna á vegum félagsins í september síðastliðnum.  Þessir tveir viðburðir marka upphafið af nýjum félagslegum valkostum fyrir fólk sem aðhyllist ekki trú á æðri mátt.  Ahöfnum Siðmenntar er stýrt af athafnarstjórum (enska: celebrant, officiant) og þær eru að flestu leyti sambærilegar kirkjulegum athöfnum hvað uppbyggingu varðar.  Efnistökin eru þó önnur því ekki er farið með ritningar, sálma eða annað trúarlegt innihald.  Farið er með hugvekju því þær geta jú einnig verið veraldlegar.  Tilgangur hugvekju er að vekja til umhugsunar og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.

Eins og er á Siðmennt ekkert húsnæði til að halda athafnir sínar í, þannig að félagið þarf að reiða sig á húsnæði sem reist hefur verið fyrir sameiginleg kirkjugarðsgjöld allra landsmanna.  Í Bænhúsinu í Fossvogi þar sem útförin var haldin er stór viðarkross á endaveggnum en hann er viðarlita og fellur inní bakgrunninn.  Fólkið í Siðmennt gerir sér grein fyrir því að þau húsnæði sem það mun eiga völ á Húmanísk minning - ljósm: Svanur Signæstu árin verða ekki alltaf fullkomlega í takt við lífsskoðun þess, en það pirrar sig ekki á því.  Aðal atriðið er að vera komin af stað með athafnir með því innihaldi sem samræmist lífsskoðun húmanista.  Fólk allra lífsskoðana, trúarlegra og veraldlegra þarf að lifa í sátt saman í landinu og sýna hvort öðru umburðarlyndi.  Vð þurfum alltaf að minnast þess sem við eigum sameiginlegt þó að við deilum og skiptumst á skoðunum einnig. 

Í lok maí mun Siðmennt tilkynna formlega upphaf athafnarþjónustu sinnar.  Í undirbúningi er kynningarefni í formi bæklinga og viðbótarefni við kynningarefni á vefsíðu félagsins.   Sá sem hér skrifar mun halda stutta kynningarfyrirlestra víða um land í framhaldinu. 

Sex athafnarstjórar hafa fengið þjálfun og skammt er í að fyrstu nafngjöfinni verði stýrt af einum þeirra.  Þá verða fyrstu skrefin stigin í öllum fjórum klassísku félagslegu athöfnum fjölskyldna hjá Siðmennt.  Það ver vel á því að þessi skref eru stigin nú þar sem Borgaraleg ferming Siðmenntar á 20 ára afmæli í ár.

Ástæða þess að ekki tókst að bjóða uppá veraldlegar/húmanískar nafngjafir, giftingar og útfarir fyrr er sú að félagið vildi ekki rjúka út í slíka þjónustu án góðs undirbúnings.  Fjármagn hefur einnig skort þar sem félagið nýtur ekki sömu fyrirgreiðslu og trúfélög hjá hinu opinbera vegna laga sem viðurkenna aðeins trúarlegar lífsskoðanir (lög um skráningu trúfélaga).  Í fyrra fékk Siðmennt tvo myndarlega styrki frá einkaaðilum og hefur það verið mikil lyftistöng. 

Í fyrravor fékk félagið kennslu og þjálfun fyrir verðandi athafnarstjóra hjá kennara frá systursamtökum Siðmenntar, Human Etisk Forbund (HEF) í Noregi.  Sú aðstoð var veitt ókeipis.  Ég var svo skipaður umsjónarmaður þjónustunnar og þess undirbúnings sem nauðsynlegur var.  Síðastliðið haust sótti ég ráðstefnu hjá British Humanist Association um húmanískar/veraldlegar athafnir og var það mjög gagnlegt.  Bæði Norðmenn og Brétar hafa áratuga langa hefð í framkvæmd þessara athafna og eiga mikið af bókmenntum um efnið.  Vefsíðu Siðmenntar var breytt til mikilla bóta var Sigurður Hólm Gunnarson umsjónarmaður þess verkefnis.  Allt kynningarefni um veraldlegar/húmanískar athafnir þar hefur verið uppfært og er þar m.a. útskýrt notkun á orðunum veraldlegur, húmanískur og borgaralegur, en það er ekki alveg sama hvernig þau eru notuð.

Ég vil þakka Siðmennt það traust sem það hefur sýnt mér í gegnum allt þetta ferli og fjölskyldunni að Hólastekk fyrir að treysta okkur fyrir útförinni.  Í annað sinn braut hún blað í sögu veraldlegra athafna (sonur þeirra var í fyrsta borgaralega fermingarhópnum 1989) með Siðmennt og er það ákaflega mikils virði fyrir félagið og fólk sem aðhyllist sömu lífsskoðun á Íslandi.  Húmanísk lífsmenning á Íslandi á bjarta framtíð fyrir sér. 


mbl.is Fyrsta útförin á vegum Siðmenntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf Einsteins

Nýlega kom fram í sviðsljósið bréf eftir Albert Einstein þar sem hann tjáir sig um trúmál.  Menn hafa lengi deilt um hvort að Einstein væri trúaður eða trúlaus.  Hann vitnaði stundum í guð en það hefur ýmist verið túlkað sem tilvísun í náttúruna eða sem trú á guð.  Bréfið sem nú er komið fram er skrifað 1954 og hefur verið í einkaeign frá 1955 en nú á að selja það á uppboði.  Þar skýrist talsvert afstaða Einsteins en e.t.v. má enn deila um meiningar hans. 

Bréfið eins og það er birt í The Guardian:

An abridgement of the letter from Albert Einstein to Eric Gutkind from
Princeton in January 1954, translated from German by Joan Stambaugh. It
will be sold at Bloomsbury auctions on Thursday

... I read a great deal in the last days of your book, and thank you very
much for sending it to me. What especially struck me about it was this.
With regard to the factual attitude to life and to the human community we
have a great deal in common.

... The word God is for me nothing more than the expression and product of
human weaknesses, the Bible a collection of honourable, but still
primitive legends which are nevertheless pretty childish. No
interpretation no matter how subtle can (for me) change this. These
subtilised interpretations are highly manifold according to their nature
and have almost nothing to do with the original text. For me the Jewish
religion like all other religions is an incarnation of the most childish
superstitions. And the Jewish people to whom I gladly belong and with
whose mentality I have a deep affinity have no different quality for me
than all other people. As far as my experience goes, they are also no
better than other human groups, although they are protected from the worst
cancers by a lack of power. Otherwise I cannot see anything 'chosen' about
them.

In general I find it painful that you claim a privileged position and try
to defend it by two walls of pride, an external one as a man and an
internal one as a Jew. As a man you claim, so to speak, a dispensation
from causality otherwise accepted, as a Jew the priviliege of monotheism.
But a limited causality is no longer a causality at all, as our wonderful
Spinoza recognized with all incision, probably as the first one. And the
animistic interpretations of the religions of nature are in principle not
annulled by monopolisation. With such walls we can only attain a certain
self-deception, but our moral efforts are not furthered by them. On the
contrary.
 
Now that I have quite openly stated our differences in intellectual
convictions it is still clear to me that we are quite close to each other
in essential things, ie in our evalutations of human behaviour. What
separates us are only intellectual 'props' and 'rationalisation' in
Freud's language. Therefore I think that we would understand each other
quite well if we talked about concrete things. With friendly thanks and
best wishes

Yours, A. Einstein

Því miður hef ég ekki tíma til að þýða bréfið en það er athyglisvert, m.a. að hann telur að

"orðið Guð sé ekkert meira en tjáning og afleiðing mannlegs veikleika og Biblían sé samansafn ærlegra, frumstæðra þjóðsagna sem eru samt sem áður talsvert barnalegar."

En hvers vegna er fólki svona annt um að finna út hvaða skoðun Einstein hafði á trúmálum?  Líklega vegna þess að hann er talinn einn mesti hugsuður 20. aldarinnar og álit hans hlýtur að skipta máli. Vægi orða hans hlýtur þó fyrst og fremst að skapast af rökvísi þeirra og innihaldi, ekki frægð hans sem eðlisfræðings.  Richard Dawkins fjallar heilmikið um Einstein í bók sinni "The God Delusion" og færir þar sannfærandi rök fyrir því að Einstein hafi stundum notað guðshugtakið í því skyni að tákna hið undursamlega og óþekkta í náttúrunni eða himingeimnum, en ekki til að trúa á í sama skilningi og guð kristinna eða gyðinga.  Þetta bréf hér sýnist mér ýta undir þá túlkun.  Þá er nokkuð ljóst að hann hefði ekki tekið þátt í ráðgefandi sérfræðingaráði alþjóðlegu húmanistasamtakanna www.iheu.org við stofnun þess árið 1952 ef að hann hefði verið trúaður.  Ég leyfi Einstein að hafa síðasta orðið:

"Í mínum huga er trú gyðinga rétt eins og öll önnur trúarbrögð, holdi klædd hjátrú eins og þær gerast hve barnalegastar."

 


Hvundagshetja: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Kennari í Grunnskólanum á Egilstöðum, Esther Ösp Gunnarsdóttir komst í fréttir 24-stunda þann 1. maí s.l. (bls 38) af því að hún neitaði að dreifa kynningarbæklingi fyrir kristilegar sumarbúðir til nemenda sinna í 7. bekk.  Haft var eftir henni: "Ætlast var til þess að ég myndi dreifa þessum bæklingi til krakkanna í bekknum mínum.  Það harðneita ég að gera."

Esther Ösp Gunnarsdóttir kennari

Hér er greinilega kona með bein í nefinu sem þorir að standa við sína skoðun á því hvað er rétt og hvað er rangt.   Hún hefur einnig snarpan skilning á því hvernig vernda á börn í opinberum skólum frá mismunun.  Esther Ösp:

"Mér finnst þetta bara svolítið hæpið í ljósi þess að hér á að ríkja trúfrelsi og sífellt að verða lögð meiri áhersla á umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum og fólki af hvaða uppruna sem er, sem er bara af hinu góða.  En þá stangast þetta á við það þegar skólinn er farinn að taka að sér að dreifa kynningarbæklingum um trúarlegt starf." [áherslubreytingar eru mínar]

Að hennar sögn sýndu stjórnendur skólans ákvörðun hennar fullan skilning.  Það er léttir að heyra það en í raun ættu þeir að ganga lengra og biðja hana og aðra kennara afsökunar á þessu og hætta allri dreifingu bæklinga um trúarstarfsemi strax.  Allir skólar landsins ættu að fara að hennar dæmi.

Esther Ösp sagði einnig:  "Ég veit ekki alveg hvort að þetta er fréttnæmt.  Ég hugsa að það hafi fleiri kennarar en ég gert þetta í gegnum tíðina".   

Góður punktur hjá Esther Ösp.  Þetta ætti ekki að vera fréttnæmt því það sem hún gerði á að vera hið viðtekna.  Það sem er í raun fréttnæmt við þetta er að stjórn skólans er að brjóta á jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og grunnskólalaga þar sem segir að ekki megi mismuna fólki eða nemendum í skóla eftir trúarbrögðum.  Að auki er verið á brjóta á siðareglum kennarara þar sem segir að þeir eigi ekki að stunda trúboð í skólum.  Í grunnskólalögum segir að skólinn sé ekki trúboðsstofnun. 

Þá bætti hún við að "sér finndist algjör óþarfi að kennarar sinni einnig starfi bréfbera.  Kennarar hafi nóg að gera þó þeir fari eki að taka að sér hlutverk póstburðarfólks líka, bara til þess að spara kirkjunni örfáar krónur". [áherslur eru mínar]

Þetta er enn einn vinkillinn og rétt athugaður hjá Esther Ösp.  Grunnskólinn er menntastofnun, ekki útibú trúarstofnana.  Til þess að skólinn geti gegnt hlutverki sínu óáreittur þarf hann að vera laus við ágang eða greiðasemi fyrir stjórnmálaflokka eða lífsskoðunarfélög, þ.m.t. trúfélög.  Það er lína sem þarf að draga bæði út frá praktískum sjónarmiðum og verndun barna skólans frá áhrifum félaga utan hans.  Öðru vísi verður heldur ekki tryggt að um mismunun hljótist ekki af vegna trúarskoðana foreldra barnanna og að friður skapist um skólastarfið.  Það er skýlaus réttur foreldra að sjá um skoðanalegt uppeldi barna sinna utan skólans.  Hlutverk skólans er að bera fram upplýsingar í kennsluefni og mennta börnin á hlutlausan máta.  Hann gefur börnunum þau tæki, tól og tækni sem þau þurfa til að gera upp hug sinn um hin ýmsu málefni síðar meir.  Hlutverk skólans er að bera fram staðreyndir á eins hlutlausan máta og hægt er.  Þannig þjónar hann best sannri þekkingu og framtíð barnanna án þess að mismuna uppruna þeirra.

Kennarinn Esther Ösp er hvundagshetjan mín.  Ég tek hatt minn ofan.

---

Sjá umfjöllun 24-stunda (bls 38), fréttablaðsins Austurglugginn og bloggsíðu Estherar Aspar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband