Ekki lengi gert - undirskriftirnar gefa sterk skilaboð!
24.1.2008 | 13:49
Það var tók ekki nema 2 daga sýnist mér að safna þessum 5930 undirskriftum þar sem hátterni Ólafs F og borgarstjórnarflokks xD er mótmælt með afgerandi hætti. Mér þykja þetta vera mjög skýr skilaboð til þeirra um að valdabrölt þeirra er ekki vel liðið. Af viðtölum við fólk á förnum vegi hjá RÚV og Stöð 2 kom hið sama í ljós. Stærstur hluti viðmælenda voru gáttaðir á þessum skrípaleik.
Gott framtak hjá Lísu Kristjánsdóttur.
![]() |
5.930 skrifuðu undir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Björninn í dvala
24.1.2008 | 10:13
Það er skammt á milli stórra tíðinda í stjórnmálabaráttu borgarinnar. Nú er Björn Ingi búinn að binda sinn endahnút, þessi bjarti drengur með baugana sem með mikilli elju og nokkrum klókindum tókst að koma Framsókn á blað í borginni eftir hræðilegar niðurstöður í skoðanakönnunum nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar. Ég sé ekki í fljóti bragði að öðrum framsóknarmanni hefði tekist þetta, enda kom þarna ferskur vindur úr annars stöðnuðu apparati.
Veturinn 2005-2006 var ég með vikulegan útvarpsþátt á Útvarpi Sögu og var m.a. með umfjöllun um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík áður en flokkarnir voru farnir að virkilega gera upp hug sinn fyrir kosningarnar í því máli, sem hafði náð að sofna um hríð. Aðeins Frjálslyndir voru harðákveðnir í að halda Flugvellinum í Vatnsmýrinni og kom þar Sveinn Aðalsteinsson (kosningarstjóri F-listans) og talaði fyrir þeirra hönd. Björn Ingi kom fyrir Framsókn og talaði mjög hreinskilningslega um þessi mál. Hann sagðist ekki vera kominn með ákveðna staðsetningu í huga á þeim tíma. (síðla hausts 2005). Mér fannst hann koma vel fyrir og svara skynsamlega en umræðan kom m.a. inná sjúkraflutningana og flugöryggi í landinu. Mér fannst þetta efnilegur stjórnmálamaður en vissulega voru kynnin of stutt til að sjá manninn allan.
Í þeirri mjög svo grafísku og lifandi kosningaherferð sem hann og flokkur hans stóðu svo fyrir fyrir kosningarnar 2006, lenti Björn í flugvallarmálinu uppá Lönguskerjum. Einhvern veginn fannst mér eins og þessi stefna væri bara í raun stefna til að skapa sér sérstöðu frekar en alvara væri á baki en margt var á huldu um kosti og galla þess kosts á þeim tíma. Ákvörðunin var þó hentug kosningastefna því óákveðni í þessu máli boðaði ekki á gott.
Söguna síðan þekkjum við og því miður virðist Birni Inga hafa fatast flugið á einhvern hátt. Mér þótti afar sérkennilegt (lesist óskynsamlegt) af honum að koma fram skælbrosandi og áhyggjulítill þegar REI deilan stóð sem hæst og vera svo kominn í nýtt stjórnarsamstarf morguninn eftir. Það hefur dregið dilk á eftir sér og virðist sem ýmsir hafa reynt að finna höggstað á honum síðan. Þá hafa ýmis innri mál í Framsókn hafa orðið þrúgandi og þetta fatamál hefði varla komið upp nema af þvi að eitthvað annað liggur undir.
Enn og aftur molast úr Framsóknarflokknum. Vandamál þess forna bændaflokks virðast hvergi nærri til lykta leidd og djúpstæður ágreiningur virðist plaga hann. Ég óska staðgengli Björns Inga góðs gengis og einnig Birni Inga í lífi sínu utan hringiðu stjórnmálanna. Hann hefur alla vega lagt hér eitthvað af mörkum undir lokin til að skapa frið í kringum starfið í borginni.
![]() |
Björn Ingi hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Metnaður sums fólks til valda og fallegra titla fyrir sjálfan sig á sér fá takmörk og ákaflega slök siðferðisleg landamæri. Í dag kl 19 horfðum við uppá eina þá mestu valdanauðgun sem átt hefur sér stað í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár þegar Ólafur F. Magnússon, nýupprisinn oddviti gamla F-listans (og óháðra), tekur upp á sitt einsdæmi að yfirgefa fyrirvaralaust samstarfið við borgarstjórnarmeirihlutann til þess að verða borgarstjóri Reykjavíkur.
Ólafur F er ekki vitgrannur þó þessi liðsfórn hans til tímabundins ávinnings í pólitísku valdatafli sé algerlega siðlaus fyrir margar sakir. Hann veit að hann þarf stóra gulrót til að sefa borgarbúa og með loforðum um frítt í strætó fyrir öryrkja og aldraða (auk barna og unglinga), 100 ný hjúkrunarrúm á hverju ári, skjótri ákvörðun um Sundabraut, varðveislu 19. aldar myndar laugavegsins og svo stóru loforði um að ekki verði tekin ákvörðun um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar á kjörtímabilinu, þykist hann hafa réttlætt þennan rýting sem hann setti í bakið á Degi, Svandísi, Birni Inga og Margréti Sverrisdóttur, sem stóð vaktina fyrir hann af miklum dugnaði á meðan hann var ófær um að sinna því dapurlega starfi að vera í minnihluta í borgarstjórn í um hálft ár.
Framboð F-listans og óháðra fékk um 10% fylgi og átti með rétti að fá tækifæri til að vinna með xD að nýrri borgarstjórn strax eftir kosningar. Sjálfstæðismenn vildu ekki Ólaf og xF þó að þannig væri meirihluti atkvæða kjósenda á bakvið meirihlutann. Í sjálfu sér var ekki meiri málefnaágreiningur á milli xD og xF heldur en xD og xB. Góður árangur xF í þeim kosningum var hlunnfarinn.
Sjálfstæðismenn gera alvarleg mistök í rekstrarmálum orkufyrirtækja og missa völdin sökum trúnaðarbrests bæði innan flokks og milli þeirra og Björns Inga. Borgarbúar horfa á sirkusinn í forundran og varpa öndinni léttar þegar nýr meirihluti tekur til starfa. Björn Ingi selur ekki siðferði sitt eða starfsheiður með því að heimta borgarstjórastöðu, heldur tekur til starfa með nýjum meirihluta á jafningjagrundvelli og til samstarfs um málefnin. Skyndileg umskipti hans voru þó frekar vafasöm en í ljósi þess óróa sem á undan gekk verður að telja að það geti notið ákveðins skilnings. Dagur B Eggertsson tók rösklega til starfa og blés mikilli orku og persónutöfrum í borgarstjórastarfið. Ljóst var að ekki átti að taka ákvörðun á tímabilinu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar því rannsóknir á veðurfari á Hólmsheiði standa yfir og lýkur ekki í bráð. Ekki heyrðist neitt af óánægju frá hinum nýja forseta borgarstjórnar Ólafi F Magnússyni og borgarbúar horfðu loks fram í pólitískan frið og stöðugt starfsumhverfi í stjórnkerfinu fram til næstu kosninga. Eðlilegt var að Vilhjálmur Þ og xD tækju sínu hlutskipti af rósemi og festu og öxluðu þannig ábyrgð af mistökum sínum. Starfsfriður í borginni hlyti að skipta miklu máli út kjörtímabilið sem er nú nær hálfnað... eða hvað?
Nei, Vilhjálmur Þ og félagar sáu sér leik á borði. Samkvæmt því sem fram kom á fréttafundinum áttu sjálfstæðismenn frumkvæði að því að tala við Ólaf F Magnússon. Nú var tækifæri til að ná aftur völdum og þó að það gæti kostað verulega eftirgjöf í baráttumálum þeirra og gjöf borgarstjórastöðunnar til Ólafs F í eitt ár eða svo, væri það þess virði. Ekkert er jú meira niðurlægjandi en að vera valdalaus, hvað þá valdalaus eftir klúður. Hví skyldi Ólafur F ekki semja við þá. Hann var að vísu niðurlægður af þeim eftir kosningarnar en það var ekkert sem góðir plástrar gætu ekki bætt.
Hér er það sem blasir við:
- Ólafur F yfirgefur eigið bakland og sinn dygga stuðningsmann og baráttukonu Margréti Sverrisdóttur til þess að taka einhliða upp samstarf við xD og fá að vera Borgarstjóri.
- Ólafur ber fyrir sig að hann hafi ekki fengið málefnum sínum framgengt undir "góðri stjórn Dags B Eggertssonar". Trompið hans í síðustu kosningum - flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni er sett fram sem mál sem gangi nú í gegn en í raun átti hvort eð er ekki að taka ákvörðun um staðsetninguna á þessu kjörtímabili. Alger núll-punktur.
- Ólafur kemur fram sem bjargvættur aldraðra og öryrkja í strætómálum.
- Ólafur kemur fram sem bjargvættur almannaeignar borgarbúa á orkufyrirtækjum þeirra.
- Ólafur segir að fulltrúar F-listans hafi ekki fengið nægilega marga fulltrúa sem skyldi í ráðum og nefndum borgarinnar. Nú hefur hann enga fulltrúa frá xF með sér og hvernig ætlar hann því að bæta úr þessu?
- Ólafur reyndi ekki að lýsa óánægju sinni eða fá fram breytingar á málefnum með afgerandi hætti dagana áður en hann sökkti skyndilega skipinu. Passar það við mann sem setur málefnin á oddinn og gætir heiðarleika í samstarfi?
- Ólafur nær að verða Borgarstjóri með aðeins um 10% atkvæða borgarbúa á bak við sig. Sjálfstæðismenn beygja sig undir þetta til þess að ná völdum á ný og halda andlitinu sem hinn ráðandi flokkur. Hvað með starfsfriðinn í borginni? Hvað með kjósendur xD. Vilja þeir völd undir hvaða formerkjum sem er og undir stjórn Ólafs F Magnússonar? Vilja þeir Vilhjálm Þ. aftur sem borgarstjóra?
- Ólafur fær borgarstjórastólinn feita en hvaða vini á hann? Formaður Frjálslyndra er ánægður með hann og hann tekur honum eflaust fagnandi aftur inn í flokkinn, en mun það bæta mannorð Ólafs og tryggja honum pólitíska framtíð? Ólafur gæti nú eflaust runnið "ljúft" inn í Sjálfstæðisflokkinn rétt eins og Gunnar Örn Örlygsson gerði hér um árið, en verður hann annað en peð í þeim flokki og getur xD stillt honum upp sem trúverðugum frambjóðanda?
Þetta er að mínu mati eitt hið dapurlegasta pólitíska "sjálfsmorð" sem ég hef séð en jafnframt eitt það dramatískasta. Ólafur hefur tryggt stað sinn í sögubókunum sem borgarstjóri Reykjavíkur, en hvernig munum við minnast hans sem manneskju? Hvernig fordæmi teljum við Ólaf vera að setja fyrir ungt fólk í landinu? Mun þessi valdaleikur hans hvetja heiðarlegt og dugmikið fólk til að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig mun Reykjavík taka þessari stjórnfarslegu nauðgun?!!
Það mátti skilja orð Dags að nýtt samstarf S, B, V og óháðra / Íslandshreyfingarinnar væri möguleiki í stöðunni. Reynsla borgarbúa af stökum sætum í borgarstjórn er ekki góð nú og spurning er hvort endurreistur R-listi verði íhugaður af alvöru á ný. Úr því sem komið er verður hlutskipti hins venjulega Reykvíkings að fylgjast með þriðja borgarstjóra kjörtímabilsins og hinna bláu vina hans uppfylla öll loforðin.
![]() |
Nýr meirihluti í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.1.2008 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
Ég mótmæli!
17.1.2008 | 17:11
Ég mótmæli þeirri misnotkun á ráðherravaldi sem Árni Mathiesen beitti við veitingu héraðsdómarastöðu nýverið. Af öllum þeim upplýsingum (bæði á prenti og af persónulegum vitnisburði) sem ég hef séð og heyrt um málið þykir mér ljóst að það er mikill munur á reynslu og hæfni þeirra þriggja sem dæmdir voru best hæfir af dómnefndinni og þeim sem stöðuna fékk. Sá munur er ekki stöðuþega í hag.
Hingað og ekki lengra!
Þessari geðþóttamennsku í stjórnmálum verður að linna og fólk sem kosið hefur verið til hárra embætta verður að taka ábyrgð á svona dómgreindarleysi með því að stíga til hliðar. Kannski var þetta eitt hliðarspor á annars ágætum ferli Árna, en hvert er traust þjóðarinnar til hans nú? Sorgleg staða en engu að síður óumflýjanleg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.1.2008 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Orð í tíma sögð!
17.1.2008 | 16:34
Sjá meira á vefsíðu þessarar merku baráttukonu
Skammsýn samlíking
11.1.2008 | 00:52
Í Kastljósi kvöldsins voru rithöfundarnir Auður Jónasdóttir og Haukur Már Helgason til viðtals og spjalls um nýútkomna bók þeirra; "Íslam án afsláttar".
Í bókinni eru ýmsar greinar um Íslam og ýmis mál sem hafa komið upp í samskiptum múslima og annarra þegna landanna í kringum okkur. Talsvert er fjallað um "skopmyndamálið" svokallaða, en það átti sér stað eftir að danskt dagblað birti skopmyndir af Múhameð spámanni múslima. Trúarleiðtogar múslima þar í landi fóru til miðausturlanda og fengu þar hjálp við að skipuleggja mótmæli í miklum fjölda Íslamskra landa. Þessi mótmæli fóru gjörsamlega úr böndunum og sendiráð Dana voru sums staðar brennd og danskar útflutningsvörur hunsaðar. Ofbeldi braust út á sumum stöðum. Þessi ofbeldisfullu og hatrömmu viðbrögð voru réttlætt með því að guðlast hefði verið framið og að það væri eðlilegt að múslimum sárnaði verulega.
Nú er ég ekki að skrifa þetta til að dæma þessa bók enda hef ég ekki lesið nema lítinn hluta af henni. Ég er að skrifa um það sem kom fram í Kastljósinu en þar lýstu þau Auður og Haukur Már kaldhæðnum skopmyndum sem áttu að vera móðgandi fyrir það sem Íslendingum væri "heilagt". Merkilegt var að aðeins ein myndanna beindist að algengustu trú landsmanna, kristninni og gat ég ekki greint hvað ætti að vera meiðandi við hana. Allar hinar myndirnar beindust að mögulegum siðferðislegum veikleikum þjóðarinnar eins og efnishyggjunni og ímyndinni um hreinan kynstofn sem sumir rækta með sér (Skopmynd: Iceland - purest blood in the world).
Í allri umræðunni sem fram fór í Kastljósinu var ekki vikið að aðal atriðum þessa skopmyndamáls eftir myndbirtingu Jyllandsposten um árið. Aðal atriðið er að trúarhugmyndir eiga ekki að teljast heilagar og eiga ekki að njóta sérréttinda umfram aðrar. Skopmyndir eru leyfðar og ekkert réttlætir ofbeldisfullar aðgerðir vegna þeirra, hvorki í nafni trúarlegrar móðgunar né annars. Háð er vandmeðfarið og þegar gert er grín að minni máttar er oft gengið yfir strik velsæmis. Nú var ekki um minni máttar að ræða og þó svo þannig væri málum háttað, er aldrei hægt að réttlæta rangt með röngu. Hugmynd þeirra Auðar og Hauks Más um að leyfa okkur Íslendingum að finna til einhvers konar sams konar særinda eða móðgunar vegna skopmynda missir algerlega marks.
Í umræðu um málfrelsi og aftur trúfrelsi sagði Haukur Már að enginn hefði velt fyrir sér málfrelsi og rétti þeirra sem létu lífið í róstursömum mótmælum gegn skopmyndunum. Ríkistjórn þeirra landa þar sem þetta gerðist hefðu sent her á mótmælendur og drepið suma þeirra, sagði Haukur Már. Á manni nú að líða illa yfir því að hafa gagnrýnt þessa fánabrennandi, hatursfullu mótmælendur sem hótuðu Dönum limlestingum? Eiga gerðir þeirra að afsakast vegna enn verri gerða stjórnvalda í löndum þeirra? Nei, það er Haukur Már sem er ekki að sjá hinn siðferðislega kjarna þessa máls. Það verður ekki liðið að fólk, sama hverrar trúar það er, fari með ofbeldi og efni til haturs og skemmdaverka fyrir sakir teiknimynda. Það fólk sem ætlar að nærast á frelsi og umburðarlyndi vestrænna þjóðfélaga þarf sjálft að virða það frelsi og sýna umburðarlyndi í verki. Réttindi, frelsi og skyldur þjóðfélagsins ganga á báða vegu, ekki bara handa sjálfvöldum útvöldum einstaklingum eða hópum.
Það er ekki vel til fundið að reyna að benda á einhvern flein í auga okkar varðandi þetta skopmyndamál. Maður geldur ekki stríðni með ofbeldi og skemmdaverkum, skop með skotum, móðgun með drápum, gagnrýni með hatri eða frelsi með kröfu um sérréttindi. Við höfum okkar vandamál og ófullkomleika en við þurfum ekki lama dómgreind okkar og ákvörðunarrétt með tilbúinni sektarkennd og ótta við að móðga framandi menningu (menningarleg afstæðishyggja).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
Manngildi og siðferði mannsins vegna er nóg
30.12.2007 | 23:34
Í prentútgáfu Morgunblaðsins í dag 30. desember bls 44, birtist eftir mig svargrein sem fer hér að neðan. Ég sendi með greininni mynd sem Mbl birti ekki (líklega vegna plássvanda). Myndin verður því með hér en hún er tekin af Matthíasi Ásgeirssyni og kann ég honum þakkir fyrir að leyfa birtinguna.
----
Þann 21. okt. s.l. birtist svargrein Sigurðar Pálssonar fyrrverandi sóknarprests Þjóðkirkjunnar við grein minni frá 30. sept. Húmanismi lífsskoðun til framtíðar. Það er ánægjulegt að Sigurður tekur undir með mér um mikilvægi húmanismans, en hann skrifar hins vegar greinina til að mótmæla því sem hann kallar að [ég] spyrði saman guðleysi og húmanisma. Honum sárnar greinilega að ég nefni ekki einhverja trúmenn sem jafnframt hafi verið málssvarar húmanískra lífsgilda.
Sigurður segir: Að skilgreina húmanismann eða manngildisstefnuna fyrst og fremst sem guðlaust lífsviðhorf er fölsun. Hann vísar svo til þess að í mannkynssögunni sé fjarri því að allar greinar [manngildisstefnunnar] hafni trúarlegri sýn á tilveruna.
Fyrst vil ég nefna að hvergi í umræddri grein sagði ég að kristnir gætu ekki tileinkað sér húmanísk gildi eða hefðu ekki gert það fyrr á öldum. Hins vegar hafa ekki nema örfáir trúarleiðtogar verið í forsvari fyrir manngildishyggju og miklu oftar barist gegn straumum frelsis og manngildis. Þannig var það með trúfrelsi, aðskilnað ríkisvalds og dómsvalds frá kirkjunni, afnám þrælahalds, kosningarrétt kvenna og nú síðast réttindi samkynhneigðra.
Forysta Þjóðkirkjunnar hefur ekki enn áttað sig fyllilega á rökréttum nútímaviðhorfum gagnvart samkynhneigð. Hún barði lengi vel hausnum við stein í aumkunarverðri tilraun sinni til að halda í bókstafinn og hvatti Alþingi til þess að skerða réttindi annarra trúfélaga til að taka sjálfstæða ákvörðun um hjónavígslu samkynhneigðra þar til nýlega.
Þau alþjóðasamtök sem s.l. 56 ár hafa borið nafn húmanismans, International Humanist and Ethical Union (IHEU), hafna hindurvitnum og þ.á.m. trú á guði. Almennt þegar talað eru um samtök húmanista og húmanisma er átt við IHEU og þann húmanisma sem þar er haldið á lofti. Siðmennt er aðildarfélag að þeim. Hinn venjubundni húmanismi nútímans er trúlaus og þar liggur mín skírskotun.
Vissulega hafa húmanísk lífsviðhorf verið til innan trúarbragða og fyrstu húmanistar endurreisnarinnar eins og t.d. Desiderius Erasmus frá Rotterdam voru trúaðir. Þeir fengu viðurnefnið húmanistar árið 1589 vegna þess að skrif þeirra lögðu meiri áherslu á frelsi mannsins en áður þekktist. Þeir grófu þannig óbeint undan guðdómleikanum og því óskoraða valdi sem kirkjan hafði tekið sér á hugum og líkamlegu frelsi fólks. Þjóðfélög þessa tíma voru gegnsýrð af kristinni bókstafstrú og það var ávísun á dauðann að segja sig trúlausan. Thomas Jefferson, sem var uppi um tveimur öldum síðar var einarður gagnrýnandi trúarbragða og taldi að siðferði væri ekki komið frá guðdómi heldur eðlislægri dómgreind mannsins.
Sigurður sagði svo: Guðlaus lífsviðhorf fæddu ekki af sér manngildishugsjónina. Þessu er ég algerlega ósammála. Manngildishugsjónin hefur enga þörf fyrir guðshugmyndina og stendur algerlega sjálfstæð án hennar. Þó að bæði trúaðir og ótrúaðir hugsuðir sögunnar hafi komið fram með húmanískar skoðanir, þá byggðu þær ekki á guðfræði eða trúarlegum innblæstri. Þau trúarbrögð sem í dag teljast hófsöm og skynsamari öðrum eru það vegna þess að þau hafa fjarlægst nákvæma trú á orð trúarrita sinna og skilið eftir þann kjarna sem hvað helst samræmist húmanískum gildum og skynsemi. Þannig skiptir trúin á upprisuna og hina heilögu þrenningu ákaflega litlu máli fyrir megin hluta kristinna Íslendinga. Samkvæmt stórri Gallup könnun sem var gerð hérlendis árið 2004 trúa aðeins 8.1% því að þeir fari til himna eftir sinn dánardag. Siðferðislegt, lagalegt og menningarlegt umhverfi okkar er fyrst og fremst húmanískt, þ.e. óður til frelsi mannsins, hugvits og mannúðar, en ekki trúarlegrar náðar eins og forysta Þjóðkirkjunnar básúnar við hvert tækifæri.
Svo hneykslaðist Sigurður yfir því að ég vogaði mér að segja að hófsöm trúarbrögð búi í haginn fyrir hin öfgafullu heittrúarbrögð. Það er langt mál að færa fyrir því full rök en hér vil ég nefna eitt dæmi sem er okkur nærri. Á dögunum fór fram svokölluð Bænaganga sem margir kristnir trúarsöfnuðir stóðu að, þ.á.m. Þjóðkirkjan. Gengið var niður á Austurvöll og beðið um aukna kristinfræði og trúarlega starfsemi í skólum. Aðalskipuleggjandi göngunnar var maður sem vitað er að talar mjög niðrandi um samkynhneigða opinberlega. Í göngunni voru svo hermannaklæddir karlar sem báru fána og yfirbragð göngunnar varð því mjög þjóðernislegt (sjá mynd). Á meðan forgöngumaðurinn predikaði böðuðu þátttakendur út örmum líkt og öfga-evangelistar gera í Bandaríkjunum (Sjá grein Brynjólfs Þorvarðarsonar Gengið gegn gleðinni í Mbl, 18.11.07 bls 50). Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur beðið skólayfirvöld undanfarin ár að gæta hins hlutlausa veraldlega grunns í menntastofnunum landsins og gæta þannig mannréttinda barna, sem voru dómfest í Mannréttindadómstóli Evrópu í sumar. Í stað þess að virða þennan dóm er Þjóðkirkjan tilbúin að ganga með öfgatrúuðum í baráttu fyrir auknum trúarlegum afskiptum í skólum. Hvað segir þetta manni um húmanisma Þjóðkirkjunnar og með hverjum hún stendur?
Heimsspeki og siðfræði | Breytt 31.12.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
Veraldlega grunnskóla takk!
22.12.2007 | 04:11
Menntamálaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir Alþingi á haustþingi 2007. Í frumvarpinu er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.
Ég er mjög ánægður með lagatillögu Þorgerðar Katrínar því hún tekur nú mjög mikilvægt skref til enn betri veraldlegs grunns í íslensku laga- og menntakerfi. Sem betur fer er sjaldgæft að lagagreinar hafi skírskotun í einhver ákveðin trúarbrögð og fyrir því eru góðar ástæður. Á síðustu 5 öldum eða svo hafa hin vestrænu þjóðfélög smám saman skilið mikilvægi þess að skilja að trú og stjórnmál því trúarleg íhlutun í veraldlegt vald endaði alltaf með hörmungum. Í dag hefur fólk trúfrelsi en hinn sameiginlegi lagalegi og stjórnarfarslegi grunnur þjóðanna verður að vera óháður trú og laus við slíka merkimiða. Öðru vísi var og er ekki hægt að útfæra jafnrétti og koma í veg fyrir sérréttindi fjölmennra trúarhópa á kostnað annarra.
Þróun í siðferði síðustu alda átti sér stað vegna aukinnar áherslu á sjálfstæði manneskjunnar og rétt hennar til að hafa áhrif á stjórnarfar og val til menntunar og atvinnu. Manngildishyggja og veraldlegt siðferði, sem hefur það eitt að marki að hámarka hamingju og lágmarka þjáningar með rökfræðilegri nálgun olli straumhvörfum. Bandaríkjamenn stofnuðu ríki með aðskilnaði ríkis og kirkju, sigruðust á þrælahaldi og verkamenn fengu verkfallsrétt og vinnutímavernd. Baráttukonur beggja vegna Atlantshafs áunnu konum rétt til fjárhagslegra eigna og svo kosningarétt þrátt fyrir mikla andstöðu íhaldssamra stjórnmálaafla og kirkjuleiðtoga. Byltingin gegn alræðisvaldinu var löng og ströng en náði loks stórum áfangasigri með lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og stofnun Sameinuðu Þjóðanna. Þær byggja sína mannréttindasáttmála á algildum siðferðisverðmætum óháð trúarbrögðum eða menningarheimum og því eru þeir leiðbeinandi fyrir allar þjóðir, allt fólk á jörðinni.
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg í sumar var skýr og fordæmisgefandi. Trúarlegt starf í opinberum skólum á ekki að eiga sér stað og lög um opinbera menntun geta ekki dregið taum ákveðinnar trúar eða ríkjandi kirkjudeildar. Tíma barna og kennslu í opinberum skólum verður að vernda frá trúboði eða pólitískri innrætingu. Kennarar eða leiðbeinendur barna geta ekki yfirfært sín persónulegu trúarbrögð á skólastarfið og eiga að halda bænum, ritningarlestri, kirkjuferðum eða heimsóknum presta frá reglubundnu skólastarfi. Það á að láta hverri fjölskyldu það eftir í sínum einkatíma hvert uppeldi barna þeirra verður hvað varðar lífsskoðanir og trúarbrögð. Hlutverk skóla er að mennta en ekki innræta. Þannig skal fræða um trú, heimsspeki, húmanisma, trúleysi, efahyggju og samanburð lífsskoðana á hlutlausan máta með námsefni sem er tekið saman af fagfólki en ekki ákveðnum trúar- eða lífsskoðunarhópum.
Þann 10. desember s.l. átti Mannréttindayfirlýsing SÞ 60 ára afmæli og því væri samþykkt þessa frumvarps á Alþingi nú eitt það besta sem ráðamenn þjóðarinnar geta gert til að heiðra yfirlýsinguna og tryggja betur mannréttindi barna í landinu. Ég vona að um þetta náist þverpólitísk samstaða. Styðjum frumvarpið!
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 04:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Fögnum 60 ára afmæli Mannréttindasáttmála SÞ!
10.12.2007 | 03:07
Í dag 10 desember á Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 60 ára afmæli!
Í tilefni þess er vefsíðan www.KnowYourRights2008.org hleypt af stokkunum á vegum SÞ.
Þetta er mikill gleðidagur því mikilvægi sáttmálans verður seint ofmetið. Á þessum árum hafa hundruðir mannréttindamála unnist vegna þeirrar fyrirmyndar sem sáttmálin hefur sett öllum þjóðum heims. Sáttmálinn er viðurkenning á því að um heim allan gilda algild siðferðislögmál sem taka tillit til hvers einasta einstaklings og réttar hans til að lifa sómasamlegu lífi og eiga rödd sem hlustað er á án tillits til uppruna, kynþáttar, kyns, þjóðfélagsstöðu o.s.frv.
Sáttmálinn hafnar því að munur á menningu réttlæti t.d. kúgun og ofbeldi gegn konum eða minnihlutahópum.
Þá er það mikilvægt að sáttmálinn hafnar mismunum byggða á lífsskoðunum, þannig að trúarskoðanir og lífsskoðanir án trúar eigi að njóta sömu tækifæra og meðhöndlunar af opinberum aðilum. Börn eiga þann skýlausa rétt að njóta skólagöngu án afskipta utanaðkomandi félaga sem boða lífsskoðanir eða pólitískar stefnur. Menntun barna á að vera á faglegum forsendum eingöngu og í höndum menntaðra kennara.
Þessu hefur Siðmennt talað fyrir og verið sjálfstæður verndari og stuðningsaðili Mannréttindasáttmálans á Íslandi. Félagið er hluti af alþjóðlegum samtökum siðrænna húmanista sem kallast International Humanist and Ethical Union (www.iheu.org) en þau eru bara 5 árum yngri en sáttmálinn (stofnuð 1952). IHEU hefur átt náið samstarf við SÞ og verið ráðgefandi aðili frá stofnun þess. Fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, þróunarlíffræðingurinn Julian Huxley varð síðar fyrsti framkvæmdarstjóri UNESCO við stofnun þess. UNESCO er Mennta-, vísinda- og menningarmáastofnun SÞ. Stefnumál IHEU og Siðmenntar eru í anda Mannréttindasáttmálans.
Það er von mín að biskup Þjóðkirkjunnar, Sr. Karl Sigurbjörnsson sjái að sér og beri til baka ummæli sín um að Siðmennt séu "hatrömm samtök". Slík ummæli varpa skugga á baráttuna fyrir viðurkenndum mannréttindum og eru ekki til þess fallin að effla vináttu eða mannvirðingu á meðal fólks.
Siðmennt hefur vaxið mikið undanfarna 10 daga og það er fagnaðarefni að félagafjöldi hefur aukist um 15% á þeim tíma. Það er ljóst að margir hafa skilið mannréttindabaráttu þess og vilja búa börnum landsins menntakerfi sem hefur góð og algild siðferðisgildi að leiðarljósi án trúarlegra merkimiða, sérréttinda, boðunar, iðkunar eða trúarlegrar starfsemi í skólum.
Sem manneskja og húmanisti fagna ég þessum merkilega áfanga í "lífi" Mannréttindasáttmálans og segi: Skál! Megi hann lengi lifa! húrra! húrra! húrra! HÚRRA!!
![]() |
Siðmennt svarar biskup |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 03:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Staksteinum sunnudagsins 2. des 07 svarað
2.12.2007 | 18:52
Í Morgunblaðinu í dag, sunnud. 2. des, voru skrif Staksteina að venju. Í þetta skipti ákvað höfundur pistilsins að gagnrýna Siðmennt þó að hann/hún passi að nefna félagið ekki á nafn. Höfundurinn getur þó vart vikið sér undan því að hann á við Siðmennt því ekki hefur verið talað um annað en Siðmennt í samhengi þeirrar gagnrýni og lyga sem hann kemur fram með.
Staksteinar dagsins byrja svona:
Hér að neðan fer svar mitt sem ég setti í athugasemdafærslu Staksteinabloggsins.
---
Sæll höfundur Staksteina
Eðlilegt væri að vita nafn þitt. Er það rétt skilið hjá mér að Styrmir Gunnarsson sé höfundur þessa skrifa í Staksteinum? Skrifaðir þú þetta Styrmir?
Samrýmist það siðareglum Blaðamannafélagsins að skrifa hvassa gagnrýni á vegum fjölmiðils undir dulnefni?
Ég er Svanur Sigurbjörnsson, húmanisti og stjórnarmaður í Siðmennt.
Á fimmtudaginn fóru af stað hroðalegar árásir á ákaflega gott frumvarp Katrínar Þorgerðar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra í kjölfar kynningar á frumvarpinu og einkafundar Karls Sigurbjörnssonar biskups með henni. Frumvarpið tók út merkimiða eins trúfélags úr lögunum og setti í staðinn almennt orðalag um siðferðisgildi sem allir geta verið sammála um óháð úr hvaða trúfélagi þeir/þær eru.
Þetta er í fullu samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg frá í sumar og ályktanir Mannréttindanefndar SÞ undanfarin ár. Mikilvægi þessa er að gæta þess að lög séu ekki trúarleg (eins og þau nánast öll eru) en samt leiðbeinandi um almenn siðferðisverðmæti.
Frá því að ljóst var að trúarleiðtogar gætu ekki haft dómsvald eða lagalega íhlutun og vestræn þjóðfélög komu á veraldlegri (secular) stjórnskipan smám saman síðustu 4-5 aldir hafa orðið gífurlegar framfarir og réttindi og hamingja einstaklinga þessara landa hafa stóraukist. Hlutlæg hugsun skilaði þannig miklum pólitískum framförum og jafnfram geysilegum tækniframförum og þekkingu á mannlífi og lífrænum ferlum. Úr varð bylting í læknisfræði og sóttvörnum og mikil fólgsfjölgun fylgdi í kjölfarið. Aðskilnaður beinna trúarafskipta frá stjórnarfari og menntun var og er lykilatriði þeirrar velgengi sem vestræn þjóðfélög búa við. Einn stærsti viðburður sögunnar í þá veru var samþykkt Bandarísku stjórnarskrárinnar við stofnun þess lýðveldis.
Við megum ekki gleyma eðli þess veraldlega stjórnskipulega grunns sem forfeður okkar fórnuðu oft á tíðum lífi sínu fyrir eða var kastað í fangelsi um lengri tíma. Ekki sér maður setningar eins og "í Jesú nafni" á eftir lagagreinum, um t.d. refsimál eða bílbeltanotkun. Lögin okkar eru veraldleg til að halda hlutleysi og einbeita okkur að markmiðunum einum. Þannig eru Mannréttindasáttmálar Evrópu og SÞ skrifaðir. Lög geta ekki dregið taum eins trúfélags eða einnar trúarhugmyndar þó að hún sé í meirihluta meðal þjóðar.
Hér er ekki um það að ræða að "minnihluti sé að kúga meirihluta" eins og heyrist víða, m.a. hjá Karli Sigurbjörnssyni biskup. Hér er farið fram á jafnrétti fyrir lögum líkt og fatlaðir einstaklingar njóta. Ekki er spurt að því hvort þeir séu í minnihluta þegar setja á upp lyftur eða bæta aðgang fatlaðara í byggingar. Er það "frekur minnihluti" þegar beðið er um textun fyrir heyrnarlausra hjá RÚV?
Varðandi lygar um Siðmennt.
Á síðasta kirkjuþingi heyrðist frá einhverjum ræðumönnum að félagið væri á móti kristinfræðslu og kennslu í trúarbragðafræði. Siðmennt er búið í gegnum árin að margítreka að svo er ekki en samt heldur þessi lygi áfram. Svo tekur þú, höfundur Staksteina þetta beint upp án þess að hafa fyrir því að kynna þér stefnumál Siðmenntar á www.sidmennt.is eða það bréf sem við sendum ritstjórn Morgunblaðsins á föstudaginn til að leiðrétta þetta. Leiðréttingin var birt á Mbl.is sama dag.
Þá var það einnig leiðrétt að Siðmennt er EKKI á móti Litlu-jólunum eins og blaðamaður 24-stunda leyfði sér að túlka í föstudagsblaðinu. Samt apar þú þetta upp eins og þú hefðir fengið gullið tækifæri til að níða félagið. Vinnubrögð þín og ábyrgðarleysi við skrif þessa Staksteina í dag eru með ólíkindum og bera ekki þess vitni að þú hafir starfað við einn stærsta og áhrifamesta fjölmiðil landsins í tugi ára. (Ég geri ráð fyrir að ég sé að skrifa til Styrmis Gunnarssonar). Þetta er til skammar.
Ég vona að Morgunblaðið sjái að sér og bæti fyrir burð þessara lyga á félagið með því að birta alla fréttatilkynningu Siðmenntar í blaðinu á morgun eða þriðjudag á áberandi stað. Svonalagað má ekki eiga sér stað í siðuðu þjóðfélagi.
Kveðja
Svanur Sigurbjörnsson, Stjórnarmaður í Siðmennt
---
Ég vil einnig benda á svar Sigurðar Hólm Gunnarssonar og skrif hans á www.skodun.is
Fréttatilkynnig Siðmenntar og umfjöllun um frumvarp menntamálaráðherra má sjá hér.
Þá vil ég einnig hvetja þig lesandi góður að horfa á Silfur Egils frá í dag en þar færir Matthías Ásgeirsson formaður Vantrúar og félagsmaður í Siðmennt ákaflega sterk rök fyrir afstöðu Siðmenntar og Vantrúar (hann talar þó ekki sem fulltrúi Siðmenntar, heldur Vantrúar).
Nú er mál að lygum um Siðmennt linni og fólk taki nokkra djúpa andardrætti og líti á heimildir áður en það skrifar um félagið og tímamótatillögu ráðuneytsins um breytingu á grunnskólalögum.