Færsluflokkur: Húmanismi
"Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni..."?
23.8.2009 | 21:53
Í vor sýndi RÚV fréttaskýringaþátt í umsjón Boga Ágústssonar sem fjallaði um ýmis vandamál sem steðja að ensku Biskupakirkjunni, en hún varð til við klofning Hinriks 8. frá Kaþólsku kirkjunni og uppkomu mótmælendahreyfingarinnar á 16. öld. Í Englandi varð ekki til evangelísk-lútersk grein líkt og á Norðurlöndunum heldur sérstök útgáfa mótmælendatrúar í formi Biskupakirkjunnar. Enska Biskupakirkjan á sér ekki neinn yfirbiskup og ákvarðar sín mál með þingum biskupa frá breska Samveldinu og greinum Biskupakirkjunnar í Bandaríkjunum og Afríku.
Biskupakirkjan hefur ekki fylgt eins vel þeim endurbótum sem mótmælendakirkjur á Norðurlöndum og Norðvestur-Evrópu, hafa komið á að nokkru leyti, t.d. varðandi vígslu kvenna í biskupsembætti og aukna sátt við samkynhneigð. Í Bandaríkjunum gerðist það í frjálslyndu norðaustur fylki að samkynhneigður prestur var vígður til biskupdóms þar af Biskupakirkjunni amerísku. Þetta olli miklum skjálfta og deilum innan alþjóðlega hlutans og var þessu ákaft mótmælt á þingi þeirra í Bretlandi. Sumir biskuparnir ákváðu að sniðganga þingið í mótmælaskyni. Mikilar deilur urðu innan Biskupakirkjunnar og voru skiptar skoðanir. Ýmsir kirkjumeðlimir gerður aðkast að bandaríska samkynhneigða biskupnum á fundi og þeir tjáðu óánægju sína með hann í viðtölum. Hvort að þessir meðlimir eru hinir dæmigerðu veit ég ekki, en ljóst er að þeir eiga stuðning hjá ýmsum biskupum.
Að mörgu leyti minnti þetta mig á vandræðagang og kirkjuþingsdeilur innan íslensku þjóðkirkjunnar þegar það þurfti mikil átök til að fá meira bókstafstrúaðan hluta hennar til að slaka á kreddu sinni gagnvart vígslu samkynhneigðra para. Það mál er ekki enn til lykta leitt því útgáfa þjóðkirkjunnar á hjónaböndum samkynhneigðra sem "staðfest samvist" er ekkert annað en mismunun. Báðir stjórnarflokkarnir hafa séð í gegnum þetta og samþykktu á síðustu landsþingum sínum að lögin í landinu skyldu kveða á um eina hjónabandslöggjöf. Eftir að búið er að ganga frá IceSave málinu, verður vonandi hægt að snúa sér að gerð laga um bætt mannréttindi á landinu.
Aftur að Biskupakirkjunni. Hvers vegna sætta margir biskupar hennar og meðlimir sig ekki við samkynhneigðan biskup? Þegar grannt er skoðað, snýst málið um hvað er siðferðislega rétt og rangt í þeirra huga. Þetta er skólabókardæmi um muninn á siðferði byggðu á guðfræði og trú annars vegar og hins vegar mannvirðingu og skynsemi einni saman.
Skoðum þetta nánar:
Kirkjugestur Biskupakirkjunnar í Englandi var spurður álits af fréttamanni RÚV um þessi mál:
Konan, sem augljóslega er kristin lýsti áhyggjum sínum og skoðun: "Ef við sleppum hendinni af rótum okkar í Biblíunni, hvað stendur þá eftir? Bara skoðanir fólks.. og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð."
Það þarf ekki vitnanna við um að konan, sem endurspeglar áhyggjur biskupanna einnig, er hér að koma að kjarna þess máls og dregur fram tvo mjög mikilvæga guðfræðilega punkta:
- "Bara skoðanir fólks.." Samkvæmt kristinni kenningu eru skoðanir Guðs mikilvægari en skoðanir fólks og því er konan trú sinni trú. Ef þið trúið mér ekki, gluggið þá aðeins í Biblíuna.
- "Og Biblían er mjög skýr í sambandi við samkynhneigð." Um þetta standa reyndar talsverðar deilur innan kristinna trúfélaga og utan. Fólk sem tekur alla Biblíuna alvarlega er flest sammála þessari konu, en þeir sem jafnan líta á kristni sem nær eingöngu orð Jesú Krists, eru snöggir að benda á að hann hafi ekki látið nein styggðaryrði falla í garð samkynhneigðra. Reyndar eru engin orð um samkynhneigð eignuð Jesú í Biblíunni, hvorki neikvæð né jávæð, þannig að það er skiljanlegt að fólk sem leitar til Biblíunnar í leit að leiðsögn um afstöðu gagnvart samkynhneigð taki orð Páls postula sem hina gildu kristnu afstöðu. Rómverjabréfið 1:26-28
Þess vegna hefur Guð ofurselt þá [mennina] svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.
Í bréfi Páls postula til Korintumanna segir (6:9-10):
Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífsmenn, né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.
Það fer því ekki milli mála að Páll postuli, sem á mikinn hluta efnis Nýja Testamentsins og einn helsti frumkvöðull kristninnar, telur samkynhneigð svívirðilega girnd, skömm, villu, kynvillu og saurlifnað. Er því nokkuð óeðlilegt að kristið fólk sem vill taka orð Biblíunnar alvarlega og haga sér orðinu samkvæmt, skuli fordæma samkynhneigð? Eins og kristna konan hér að ofan spyr, stendur þá nokkuð annað eftir en "bara skoðanir fólks" ef ekki er farið eftir boðun Guðs samkvæmt Páli postula í Biblíunni?
Dæmið um samkynhneigð er ekki hið eina sem sýnir að boðun Biblíunnar er á skjön við ýmsar þær húmanísku eða heimspekilegu skoðanir sem flest vestræn (sk. þróuðu löndin) þjóðfélög nútímans aðhyllast. T.d. eru kvenréttindi, réttur til fóstureyðinga, réttur til að trúa ekki á Guð, réttur allra til frelsis yfir líkama sínum (afnám þrælahalds), mynd okkar af heiminum (ekki sköpunarverk), traust á læknisfræði (ekki bænir eða kraftaverk), samviskufrelsi (laus við erfðasynd og helvíti), siðfræði (t.d. nytjahyggjan), söfnun fjárs (frjáls markaður) og fleira komin til vegna frjálsrar hugsunar byggða á manngildi (húmanisma) óháð trúarlögmálum.
Það er í raun ógerlegt fyrir siðaða manneskju nútímans að ætla sér að fylgja Biblíunni utan ákveðinna almennra grundvallaratriða í henni sem hvort eð eru sammannleg, eins og:
- Góðvilji og hjálpsemi - kærleikur. Gullna reglan. Setja sig í spor annarra.
- Sigra illt með góðu (gengur ekki allt upp þó). Sbr "mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði" (Orðskv. 15:1).
- Gefa glaður (sælla er að gefa en þiggja)
- Hógværð - enga fégirni, frekar andlega fjársjóði.
- Monta sig ekki af góðverkum (ekki beint stefnan í dag).
- Gestrisni
- Virðing fyrir verkamönnum
- Elska náungann - huga að hag annarra
- Gefast ekki upp - barátta (Leitið og þér munið finna).
- Nota tímann viturlega
- Minnast þjáninga bandingja - minnsti bróðurinn
- Virða stjórnvöld og að þau hafi sérstakt vald (guðsríki nær því ekki yfir öll svið, sbr. "Gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er")
- Þreytast ekki að gera (rétt) gott, þ.e. þolgæði.
- Æðruleysi - hafa ekki áhyggjur af morgundeginum. Stóismi Forn-Grikkja og Rómverja 1-2. aldar var háþróuð heimspeki æðruleysis og því var æðruleysið ekkert nýtt.
- Lof barna eftirsóknarvert. Barngæska.
- Miskunnsemi - æri misjöfn þó í Biblíunni og talsverð dómharka í sumu.
- Huga að bágstöddum - ein af rósum frumkristninnar í Róm, sem vann henni hve mest fylgi.
- Heill hinum réttlátu - réttlætishungur.
- Vera seinn til reiði, þ.e. taumhald skapsmuna, en ekki tókst mörgum kristnum leiðtogum vel upp í þessu í gegnum aldirnar.
- Jafnræði - "það rignir yfir réttláta sem rangláta" - dæma ekki of hart. Aftur, talsverðir misbrestir hafa orðið á þessu.
- Annar séns gefinn - "sæll er sá er afbrotin eru hulin".
- Friður metinn - "sælir eru friðflytjendur". Aftur - ýmislegt sem boðaði eða réttlætti stríð þó.
- Virða eignarétt - "þú skalt ekki stela".
- Virða líf
- Virða loforð um trúsemi við maka
Þessi listi sýnir e.t.v. best af hverju kristið siðgæði er auðugt af ýmsu góðu og hefur lifað af gegnum aldirnar, en þegar jákvæða leiðbeiningu ritningarinnar skortir eða að orð hennar eru hreinlega andstæð nútíma hugmyndum okkar um mannvirðingu, jafnrétti, jafnræði, einstaklingsfrelsi og siðferðilegar ákvarðanir í flóknum siðferðilegum álitamálum (fóstureyðingar, líknardráp, ákvarðanir í réttarkerfinu, refsingar og margt fleira), vandast málið verulega fyrir kristnar manneskjur.
Í stórum könnunum (Gallup og Félagsvísindastofnun HÍ) hérlendis hefur komið í ljós að aðeins 8-10% Íslendinga trúa á hinn guðfræðilega kjarna kristninnar (allt "guðstalið" eins og það er gjarnan kallað), eins og trú á upprisun, meyfæðinguna eða líf í himnaríki eftir dauðann. Þó að um 50% segjast vera kristnir og um 90% séu skráðir í kristin trúfélög, virðast samkvæmt þessu aðeins um 8-10% sem nota bókstaf Biblíunnar til að leiðbeina sér. Með öðrum orðum; 9 af hverju 10 í kristnum söfnuðum (en 1/5 þeirra sem skilgreina sig kristna), eru líklegir til að velja sér hin almennu siðaboð kristninnar (í listanum hér að ofan) samkvæmt því sem á hljómgrunn í almennri skynsemi þeirra og passar við prófun við raunveruleikann, frekar en að fylgja boðun Biblíunnar í einu og öllu sem þar er skrifað. Flestir í kristnum söfnuðum eru því það sem má segja "menningarlega" kristnir og fylgja í raun bara tíðaranda þjóðfélagsins í heild og eigin dómgreind hvað siðferðilega leiðbeiningu varðar. Þetta er að mestu húmanískt viðhorf, þ.e. að skynsemi og raunsæi sé það sem mestu skipti. Merkilegt er að þetta passar einnig við hina svokölluðu Fjallræðu Jesú þar sem hann átti að hafa sagt að kærleikurinn sé trú og von fremri. Hin húmaníska útgáfa er sú að velviljinn sé lykilatriði í siðferðinu og saman með frelsi, mannvirðingu og samábyrgð.
Það er því margt líkt með kristni og húmanisma, en guðstrúin hefur "yfirbyggingu" sem manngildishyggjan sér ekki þörf fyrir eða tilgang með. Í kristni er siðferðið útskýrt með því að það komi frá yfirvaldinu "Drottni almáttugum, skapara himins og jarðar" og þarfnast það því ekki eiginlegs rökstuðnings. Sem betur fer eru mörg hin almennu siðaboð kristninnar í ágætu samræmi við skynsemishyggju húmanismans og almenna raunhyggju í þjóðfélaginu, en þegar siðaboð kristninnar gera það ekki (t.d. varðandi samkynhneigð), vandast málið, vegna upprunans. Eins og kirkjugesturinn hér að ofan segir, þá standa bara eftir "skoðanir fólksins". Það er ekkert grín fyrir hinn sanntrúaða og leggja nákvæm orð Drottins til hliðar og fylgja túlkun hinna frjálslyndu (menningarlega kristnu) um að Jesú hefði viljað slaka á málum í nafni kærleikans. Slíkt myndar stóra holu óöryggis og ótta um að kirkjan sé að spillast. Hinn sanntrúaði (trúir samkvæmt bókstafnum) á ekki þann valkost að hugsa siðferðisleg álitamál út frá eigin skynsemi því siðfræði kristninnar byggir ekki á rökleiðslu eða stefnumiðaðri skoðun (T.d. nytjahyggjan setur stefnuna á hámörkun hamingjunnar) málanna, heldur eingöngu því að fylgja orði Guðs eins og það er ritað í hinni heilögu ritningu.
Hinn sannkristni einstaklingur hefur því læst sig í endalausa klemmu milli orða Guðs og tíðaranda samtímans sem kemst að nýrri niðurstöðu vegna sífelldrar endurskoðunar mála og þróun rökræðunnar (hin vísindalega og skynsama nálgun). Þannig hefur kristnin orðið að gefa bókstafinn (sértækar leiðbeiningar ritninganna) smám saman upp á bátinn vegna þrýstings frá húmanískri þróun, sérstaklega í vestrænum þjóðfélögum. Þetta gerist með eftirfarandi móti:
- Kirkjan segir að Biblían hafi verið rangtúlkuð. T.d. Páll postuli tali ekki fyrir munn kristinna í máli samkynhneigðra og almennur kærleiksboðskapur Jesú sé það sem gildi.
- Kirkjan segir að ákveðinn hluti Biblíunnar sé í rauninni ljóð eða líkingarmál, sbr. sköpunarsagan, sem af "sjálfsögðu" útskýri ekki þróun lífvera eða tilurð mannsins. Samt hætta þeir ekki að þylja upp orð eins og "sköpunarverkið" og "skapari himins og jarðar".
- Kirkjan segir að um þýðingarvillur sé að ræða, eða hreinlega breytir Biblíunni undir yfirskyni "nýrrar þýðingar" til að gera hana boðlegri samtímanum. T.d. breyting á persónufornöfnum í nýjustu "þýðingunni" til þess að höfða til beggja kynja, í stað einungis karlmanna.
- Kirkjan segir að Gamla Testamentið (sem er fullt af hinum reiða, hefnigjarna Guði og ýmsu ofbeldi) sé hluti af gamalli arfleifð en ekki í raun (hin siðbætta) kristni samkvæmt Frelsaranum.
- Kirkjan gefur eftir án sérstakra útskýringa. Stundum verður biskup að segja af sér eða annar trúarleiðtogi nær yfirhöndinni, til þess að breytingin nái í gegn.
Það er ljóst að boðorðasiðfræði (guðfræði: The Divine Command Theory) trúarbragða gengur aldrei upp til lengdar. Það er vissulega til mikillar einföldunar fyrir marga að eitthvað sé bara "bannað af Guði" og þannig þurfi ekki að blanda neinum tilfinningum í málið eða efast um hlutlægni þeirra sem taka ákvarðnir skv. boðorðum Guðs. Ef allir fara eftir lögmáli Guðs virðist ekki vera gert upp á milli fólks. Þá helgast meðalið af því að uppskera verðlaun á himnum á efsta degi. Hinn trúaði þarf ekki að leita annars tilgangs fyrir því að gera rétt.
Sé þessi guðfræðilega forsenda siðferðis samþykkt lendum hins vegar við í alvarlegri þversögn sem t.d. Forn-Grikkinn Sókrates koma auga á löngu áður en kristnin fæddist. (Boðorðanotkun trúarbragða var ekki ný á nálinni í kristninni) Lítum á valkosti hins trúaða til útskýringar á siðferði samkvæmt boðskap Biblíunnar:
- Við eigum að vera sannsögul því að guð fyrirskipar það. Sannsögli er því mögulega hvorki góð né slæm, heldur einungis rétt af því að guð setti fram boðorð um hana. Guð getur búið til boðorð eftir eigin vilja og gæti því skipað fólki að ljúga. Lygin yrði þannig að dygð ef hún væri skipuð af Guði. Geðþótti Guðs ræður (eins og afstaða hans til samkynhneigðar) og það á að vera gott það sem hann boðar hvort sem að það er sannsögli eða lygar. Með þessu fellur hugmyndin um óbrigðula "gæsku Guðs" því það gengur ekki upp að Guð sé jafn lofsverður fyrir að fyrirskipa sannsögli eða lygar.
- Guð segir okkur að segir okkur að segja satt af því að það er rétt. Guð sem er alvitur veit að sannsögli er betri en fals og því eru ákvarðanir hans ekki háðar geðþótta. Um hann má því segja að hann sé góður. Þetta virðist hafa leyst allan vanda guðfræðinnar en í raun hafnar þetta hinum guðfræðilega skilningi á réttu og röngu. Með þessu erum við að segja að það sé til mælikvarði á það hvað sé rétt og rangt óháð vilja Guðs. Það að guð viti eða sjái að sannsögli er réttari en fals, er allt annað en að segja að hann geri hana rétta. Þannig að ef að við viljum vita af hverju við eigum að vera sannsögul, er ekki mikið vit í svarinu "af því að Guð skipar svo fyrir". Það má þá spyrja áfram; "af hverju skipar Guð svo fyrir".
Frá trúarlegu sjónarmiði er vart hægt að sætta sig við að boðorð Guðs byggist á geðþótta og að gæska Guðs sé ekki til staðar (1) og því verður að fallast á að til sé mælikvarði á rétt og rangt, sem sé óháður vilja Guðs (2). *
Þessi rökleiðsla sýnir að siðferði byggt á boðorðasiðfræði (boðorðakenning) lendir í andstöðu við hugmyndina um gæsku Guðs (og dómgreind) og því er það guðlaus mælikvarði sem í raun er viðmiðið. Þetta hafa frægir guðfræðingar (d.d. Tómas frá Aquino) viðurkennt, en ýmsir aðrir maldað í móinn og sagt að samt komi Guð einhvern veginn inní það hvað sé rétt og rangt. Málið fer þá bara í endalausa hringi. Rétt eins og það er ekki hægt að sýna fram með neinum rökum að Guð sé til, þá er ekki hægt að sýna fram á það með rökum að siðferði geti byggt á skipunum algóðs Guðs.
Til þess að lifa af og falla ekki í djúpa ónáð hjá íbúum vestrænna þjóða þarf kirkjan að fallast á hinn óguðlega mælikvarða góðs og ills, rétts og rangs (veraldlegur mælikvarði skynsemishyggju og manngildis) og nota þær afsakanir (sjá að ofan) sem hún hefur svo oft notað í "ósigrum" sínum frá því að Upplýsingin með húmanismanum tók að breyta heiminum frá miðri 16. öld. Til þess að sundrast ekki og missa ekki alla fylgjendur sína þarf kirkjan að fylgja hinum móralska tíðaranda. Hún hefur sjaldnast sjálf átt frumkvæði að breytingum því að lögmál Guðs Biblíunnar um að hún sé heilög festir kirkjuna í kreddufestu og íhaldssemi. Bókstafurinn tapar því á endanum, ellegar tapar kirkjan fólkinu. Þesskonar eftirgjöf verður því í raun "sigur" kirkjunnar því að hún verður húmanískari og meira í sátt við hinn almenna meðlim í kjölfarið.
Það er því innbyggð hræsni (eða siðferðileg mótsögn) í kristni og þeim trúarbrögðum sem byggja á boðorðasiðferði. Þegar boðin og bönnin ganga ekki upp, er þeim kastað burt til að halda í vinsældir, lifibrauð og völd yfir hugarfari og siðferði fólks. Sagan er jafnvel fölsuð og framfarirnar þakkaðar eingöngu umbótaeðli kristninnar, þegar í raun varð kristnin að gefa eftir vegna þróunar í húmanísku siðferði. (Sjá má slíka sögufölsun í inngangi Aðalnámsskrár í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði þar sem sagt er að siðferðisgildi þjóðarinnar séu upprunin úr kristni en ekki minnst á t.d. ásatrú eða húmaníska heimspeki. Sjá gagnrýni mína nánar hér) Forsendur siðferðis geta aldrei verið vegna "algóðs Guðs" eins og hér hefur verið rakið. Í hinum endurbætta siðferðiskjarna er síðan áfram haldið að klæða hann guðfræðilegum búningi með skrautlegum seremóníum, fallegum trúarbyggingum, bænum og fögru orðagjálfi um sköpunarverkið og að Guð sé kærleikur sem gæði lífið æðri tilgangi. Áfram er haldið uppi blekkingunni um að allt eigi upphaf í Guði, þrátt fyrir að hafa fallist á annað í raun. Þessum leik er síðan haldið uppi af ríkinu.
Án samfélagsins, þ.e. meðlima sinna væri kristin kirkja lítið annað en úrelt lífsskoðunarkerfi sem hugsanlega hafði ýmsar framfarir að færa fyrstu 1200 útbreiðsluárin sín til þjóðfélaga sem skorti t.d. skipulega hjálp til bágstaddra í menningu sína, en hefur um leið verið helsti dragbítur framfara (einstaka prestar þó góðar undantekningar) og sérstaklega síðustu 800 ár sín eða svo. Þvert ofan í boðskap eigin ritningu hefur hún safnað gríðarlegum auði og situr á öllum sérréttindum sem hún hefur aflað sér eins og ormur á gulli. Eins og listi hins góða boðskaps kristninnar hér að ofan gefur til kynna þá hefur hún stuðlað að ýmsu góðu, en það er kominn tími til að þróa okkur áfram og yfirgefa hina óþörfu og ímynduðu hugmynd um "Guð" þar sem hún hjálpar okkur ekki til að vita muninn á réttu og röngu. Fyrir þjóðfélög að burðast með trúarbrögð er eins og að reyna að aka inní framtíðina með handbremsuna á. Guðshugmyndin er ekki bara óþörf, heldur er hún einnig til travala.
Á endanum eru það "bara skoðanir fólks" sem bera okkur inní framtíðina því það er í raun ekkert "bara". Skoðanir okkar, fólksins, eru ein dýrmætasta eign okkar og við þurfum að halda flækjustiginu sem minnstu og sem flestum upplýstum til að skapa betra líf. Vanmetum ekki hugann og það sem við getum áorkað með velvilja og raunsæi að leiðarljósi!
Góðar stundir og þakkir fyrir að hafa þolinmæði til að lesa þetta langa grein!
* Sjá nánar í bókinni Straumar og stefnur í siðfræði, kafli 4; Eru trúarbrögð forsendur siðferðis, höf. James Rachels (þýð. Jón Á Kalmannsson), Siðfræðistofnun HÍ og Háskólaútgáfan 1997.
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Hið sammannlega og hamingjan - Dalai Lama, Barack Obama, A.H. Maslow og Aristóteles
8.6.2009 | 02:11
Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með heimsókn Dalai Lama og horfa á það sjónvarpsefni sem bæði RÚV og Stöð 2 hafa boðið uppá um þennan merka mann. Hann er vel að þeim heiðri kominn sem Parísarbúar eru nú að veita honum.
Í viðtali við hann í þætti RÚV sagði Dalai Lama eftirfarandi (endursagt):
Ég [Dalai Lama] er ein manneskja af 6 milljörðum sem byggja jörðina. Mitt hlutverk í þessari röð er:
- Að öðlast innri frið og hjartahlýju. Sýna samhygð (empathy) gagnvart öðru fólki. Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra.
- Að vera búddisti.
- Að rækta skyldur við þjóð mína, Tíbet og að vera þjóðinni Dalai Lama. Ef í framtíðinni verður ekki þörf fyrir stofnunina Dalai Lama fyrir Tíbet þá verður hún lögð af, annars ekki. Ég ákveð það ekki.
Það virðis í fljóti bragði að þetta séu sjálfsagðir hlutir, en svo er ekki og viskan í þessum orðum Dalai Lama felst fyrst og fremst í því hver forgangsröð þessara atriða er. Hann setur manneskjuna fremsta og þann mikilvæga eiginleika að finna til samhygðar og hjartahlýju. Leitin að innri gildum, frið og sátt við aðra er mikilvægust. Þar á eftir koma hans eigin trúarbrögð, búddisminn og loks skyldur hans sem Dalai Lama gagnvart Tíbet. Hann skynjar að staða hans er ekki endilega eilíf og sýnir þá auðmýkt og raunsæi að hugsanlega verður ekki embætti Dalai Lama í framtíðinni. Hann setur því velferð annarra fram fyrir þörfina fyrir að viðhalda því embætti sem hann gegnir. Þá sagði Dalai Lama að mikilvægt væri að láta skynsemina ráða í öllu því sem við gerum.
Í bók sinni: "The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52, segir hann:
Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.
Annað sem er sláandi (fyrir trúarleiðtoga), er að hann viðurkennir að fjárhagslegar þarfir (ytri gildi)eru eðlilegar, en á sama tíma vill brýna fyrir fólki að það megi ekki vanrækja hin innri gildi, sem nauðsynleg eru til að öðlast lífsfyllingu. Hugsa þurfi allar ákvarðanir út frá stóru samhengi hlutanna, ekki aðeins þeim fjárhagslegu.
Þetta er í samræmi við þann boðskap sem Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur flutt, en hann talar um að ekki þurfi einungis að stoppa í fjárlagagatið heldur þurfi ekki síður að leiðrétta "samhygðarhallann" (empathy deficit) í heiminum. Lykillinn að betri heimi er að setja okkur í spor annarra. Sjá umfjöllun á baráttuvefnum change.org
Bandaríski sálfræðingurinn Abraham Harold Maslow (1908-1970) var þekktur fyrir kenningar sínar á sviði húmanískrar sálfræði og var valinn húmanisti ársins árið1967 af Húmanistafélagi Ameríku (Am. Hum. Assoc.). Hans þekktasta tillegg er kenningin um þarfapýramídann sem lýsir þörfum hverrar manneskju í 5 stigum þar sem fyrsta skrefið lýtur að þörfum líkamans fyrir fæði og vatn, annað stigið þörfin fyrir öryggi og húsaskjól, þriðja stigið þörfin fyrir ást og að tilheyra, fjórða stigið þörfin fyrir sérstaka virðingu og að afreka eitthvað, og loks fimmta stigið að öðlast lífsfyllingu (self-actualization, sjálf-raungervingu) gegnum siðferðilegan þroska, getu til sköpunar og lausnar á vandamálum, sátt við staðreyndir og hugsun án fordóma. Mikilvægasta þörfin sé hin fimmta, en bæði fjórða og fimmta stigið lýsa fólki sem hugsa ekki síður um velferð annarra en sína eigin. Síðari kennimenn hafa bent á að þessi röðun sé ekki endilega til staðar í lífi fólks, en hvað sem því líður, þá er þarfapýramídi Maslows athyglisvert módel til að skilja betur mismunandi ásigkomulag manneskjunnar og e.t.v. hvar hamingjuna er að finna.
Forn-Grikkir; Sókrates sagði: "Hið órannsakaða líf er ekki þess virði að lifa" og Aristóteles sagði að hin vel ígrundaða manneskja sem ræktaði gáfur sínar ætti mestan möguleikann á hamingju.
Í fjallræðunni á Jesús að hafa sagt að kærleikurinn sé trúnni meiri. Þetta er í raun það sem Dalai Lama er að segja, en vandi kristninnar er að þessi orð Jesú eru í mótsögn við margt annað sem stendur í Biblíunni. Í henni er ítrekað því haldið fram að Guð sé kærleikurinn og aðeins í gegnum hann sé elskan möguleg. Martin Luther (1483-1546), faðir mótmælendatrúarinnar sagði eitt sinn: "Tortíma skal allri skynsemi úr kristnu fólki". Sem sagt manneskjan er ekki fær til að meta sjálf hvað sé henni fyrir bestu og allt þurfi að skoðast fyrst í gegnum gleraugu trúarinnar á guð. Frjálslyndir mótmælendaprestar í dag lifa eftir kærleiksboðinu og leyfa sér að nota skynsemina í formi óyfirlýstrar manngildishyggju (t.d. Bjarni Karlson og Hjörtur Magni Jóhannsson), en biskupar á borð við Karl Sigurbjörnson hafa átalið manngildið og í ræðu sem hann nefndi "undan eða á eftir tímanum" og flutti í Hallgrímskirkju 2. desember 2007, sagði hann:
Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.
Þrátt fyrir ýmis orð í Biblíunni þar sem kristnir eru hvattir til að hugsa ekki, heldur treysta á Guð, vilja kristnir menn gjarnan eigna sér einum skynsemina einnig og þær framfarir sem vísindin og þróun félagslegs réttlætis sem áttu sér stað með tilkomu Endurreisnarinnar (1450-1550)og Upplýsingarinnar (upp úr 1650). Karl Sigurbjörnsson skrifaði grein þess efnis sem hann nefndi "Sigur skynseminnar" 17. október 2006 og má lesa á tru.is ásamt fjölmörgum andsvörum, m.a. frá Steindóri Erlingssyni vísindasagnfræðingi. Þessari eignun íslensku lútersku kirkjunnar á sögulegum áhrifum og siðferðisgildum, sér m.a. merki í útlistun fagsins "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2007, því þar stendur í inngangi fagsins (bls. 5) (og á bls. 7 í inngangi núgildandi aðalnámskrár frá 14. febrúar 2009):
Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.
Takið eftir að engar aðrar rætur grundvallargildanna eru nefndar, svo sem ásatrúin og manngildishyggjan (eða mannhyggjan), en hin síðarnefnda braut smám saman aftur valdakerfi konunga og biskupa og átti mestan þátt í því að réttindi einstaklinga, hinna almennu borgara fengu að líta dagsins ljós. Á síðu íslensku wikipediunnar um Endurreisnartímann má sjá eftirfarandi umsögn um mannhyggjuna (húmanismann):
Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða húmanisminn sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar.
Dalai Lama sagði að öll trúarbrögð heimsins hafi í sér möguleika á því að gefa af sér innri frið, en væntanlega gerist það ekki nema að hið sammannlega, samhygðin og hjartahlýjan sé sett í fyrsta sætið.
Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleikskorn í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla í vegg, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis. Baggi hins óþarfa og óheilbrigða í stóru trúarbrögðum heimsins er það stór að hinn sammannlegi kjarni samhygðar og velvilja mannkynsins verður oft útundan í ákvörðunartöku trúaðra þrátt fyrir góðan ásetning. (T.d. vanþóknun páfa á notkun getnaðarvarna).
Af öllu þessu fólki má draga þann einfalda og áhrifamikla lærdóm að hin hugsandi manneskja (sbr. homo sapiens), sem metur samhygð og velvilja gagnvart samferðarfólki sínu á jörðinni, æðst allra gilda, sé sú sem líklegust er til að verða hamingjusöm og stuðla um leið að hamingju annarra. Hamingjan er lykillinn að friði og velferð (í víðasta skilningi þess orðs) í heiminum og því þurfum við öll að líta ábyrgum augum til þess sem Dalai Lama setur fremst í forgangsröðunina.
Dalai Lama heiðraður í París | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 02:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Mikil fjölgun húmanískra giftinga í Skotlandi
22.7.2008 | 01:42
Á nokkrum árum hefur fjöldi húmanískra giftinga á Skotlandi nærri nífaldast (frá 81 upp í 710 í fyrra) og eru nú fjórða algengasta form giftinga á meðal lífsskoðunarhópa þar, en borgaralegar giftingar án afskipta lífsskoðunarfélaga eru algengastar þar.
Sagt er frá þessu í frétt BBC á sunnudaginn 20. júlí síðastliðinn. Þessi fjölgun gerist á sama tíma og giftingum fækkar í heild hjá trúfélugum.
Hér má lesa aðra frétt um málið og heimsækja hér vefsíðu skoskra húmanista, en þeir hafa fengið samþykkt lög í Skotlandi þar sem þeir mega ganga frá lagalegu hlið giftingarinnar rétt eins og trúfélögin. Því er ekki til að dreifa hérlendis.
Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hóf formlega sína athafnaþjónustu 29. maí síðastliðinn og hafa athafnarstjórar félagsins stýrt tveimur giftingum og þrjár til viðbótar eru í undirbúningi á næstu mánuðum. Þetta fer rólega af stað en án efa mun vaxandi fjöldi fólks nýta sér þennan möguleika í framtíðinni.
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Misnotkun trúarhugtaksins af hinum trúaða
16.6.2008 | 04:06
Það er með ólíkindum hversu margir fara frjálslega með hugtakið trú og eru það sérstaklega þeir/þær sem vilja halda uppi einhvers konar vörnum fyrir sína eigin trú, sem þeir/þær kalla ósjaldan "barnatrúin mín".
Dæmigert er að heyra:
"Þú ert ekki trúlaus [við trúleysingja]. Það eru allir trúaðir innst inni!"
Á svipuðum nótum var sagt eftir fyrri heimstyrjöldina
"Það eru engir trúleysingjar í skotgröfum!".
Allt bendir þetta í sömu átt - að gera lítið úr vesalings trúleysingjanum og koma því inn í kollinn á honum, hvort sem honum líkar betur eða verr, að hann er trúaður eftir sem áður. "ÞÚ ERT TRÚAÐUR og hana nú!" Trúleysinginn verður líkast til skelfingu lostinn ef hann trúir þessum með barnatrúna og ímyndar sér að hinn trúaði trúi því að hinn hvítskeggjaði Faðir á himnum segi glaðhlakkalega "Ha ha þú sleppur ekki því trúleysi er ekki hægt á meðal manna, ha ha ha.."
Hvílíkur skortur á sjálfstæðri athugun og ályktun! John Lennon söng: "Ímyndið ykkur, heiminn án trúarbragða - það er auðvelt ef þú reynir!" Já, það er auðvelt og því auðveldara eftir því sem maður athugar málið nánar.
Barnatrú! Hvað með fullorðinsárin? Stenst barnatrúin skoðun fullþroska manneskju sem ákveður hvað er satt og hvað er tóm ímyndun út frá gagnrýnni skoðun og eðlilegri kröfu um að sönnunarbyrðin liggi hjá þeim sem kemur fram með hið ólíklega?
Við erum ekki öll trúuð innst inni. Fólk sem treystir á skynsemina og skoðanir sem reistar eru á vel hugsuðu máli hefur ekki faldar skoðanir inní sér sem allt í einu spretta út þegar illa árar eða komist er í hann virkilega krappann. Einn frægasti fjallagarpur síðari tíma, Joe Simpson tók það sérstaklega fram í kvikmyndinni "Touching the void" að þegar hann lá einn og yfirgefinn með brotið hné í djúpri jökulsprungu, kom honum ekki til hugar að biðja æðri mátt um hjálp. Hann var trúlaus fyrir þessa þrekraun, á meðan henni stóð og eftir. Sannfæringu hans var ekki bifað í þessum efnum og þannig er það með alla þá trúleysingja sem eru það af vel hugsuðu máli. Joe vissi að hann yrði að treysta á eigin rammleik og eyddi ekki tíma sínum í að bíða eftir kraftaverki.
Trú er trú á almætti, æðri mátt, guð eða goð. Trú er ekki það að tilheyra trúfélagi ef að viðkomandi trúir ekki á guðfræðina. Sumir eru það sem kalla má menningarlega kristnir/trúaðir en trúa ekki á guð, upprisuna, heilagan anda, kraftaverk eða eilíft líf. Þetta fólk þylur faðir vorið og trúarjátninguna eins og þeim var kennt að þylja þau sem börn, að mestu úr tengslum við innihald textans, en er í snertingu við fólkið í kringum sig sem kyrjar af sama vana. Kunnugleikinn og tilfinning um eitthvað sameiginlegt, samveru eða það að tilheyra gefur hinum menningarlega kristna/trúaða nægilegan tilgang með þessu öllu saman. Svo ræðst hann/hún jafnvel á trúleysingjann og segir: "Þú ert ekki trúlaus!"
Aftur hugtakið sannfæring er víðara og má nota um bæði trúarlegar og veraldlegar skoðanir.
Hjá samtökunum Atheist Alliance International er oft sagt:
"Guðleysi er ályktun, ekki trú".
Þetta er nokkurn veginn allt sem þarf að segja. Rétt eins og sú ályktun að Jólasveinninn sé bara hugarburður þá er guðleysi/trúleysi hið sama. Hún er bara ein ályktun af mörgum um hluti sem maður hefur ekki not fyrir og fyrirfinnast ekki í raunveruleikanum öðru vísi en hugmynd sem stjórnar ansi mörgu fólki að miklu eða litlu leyti.
Hinn rómverski heimspekingur og stjórnmálamaður Lucius Annaeus Seneca (f. 4- d.65) sagði:
"Trú er talin af almenningi sem sannleikur, af hinum vitru sem fals og af valdsmönnum gagnleg".
Svei mér þá ef þetta er bara ekki sannleikur víða enn í dag. Á Íslandi eru aðeins um 20% íbúa sem segja sig "ekki trúa" samkvæmt könnun Gallup árið 2004, en í Svíþjóð og Englandi eru þessar tölur hærri. Skelfing höfum við "gengið götuna skammt fram um veg".
Ég hvet þig lesandi góður að hlusta, já virkilega hlusta á innihald næstu messsu eða athafnar sem þú ferð í hjá þeirri kirkju sem þú tilheyrir og spyrja þig: Á þetta virkilega erindi við mig? Játast ég þessu? Vil ég að börn játist þessu? Hvað kostar menningarleg kristni þjóðarbúið árlega? Vil ég taka þátt í því? Eru aðrir valkostir?
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
Mikilvægt skref - fyrsta veraldlega útförin á vegum Siðmenntar
14.5.2008 | 13:17
Þann 9. maí síðastliðinn stýrði ég fyrstu veraldlegu útförinni á vegum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar. Þannig fetaði ég í fótspor Jóhanns Björnssonar sem hélt fyrstu veraldlegu giftinguna á vegum félagsins í september síðastliðnum. Þessir tveir viðburðir marka upphafið af nýjum félagslegum valkostum fyrir fólk sem aðhyllist ekki trú á æðri mátt. Ahöfnum Siðmenntar er stýrt af athafnarstjórum (enska: celebrant, officiant) og þær eru að flestu leyti sambærilegar kirkjulegum athöfnum hvað uppbyggingu varðar. Efnistökin eru þó önnur því ekki er farið með ritningar, sálma eða annað trúarlegt innihald. Farið er með hugvekju því þær geta jú einnig verið veraldlegar. Tilgangur hugvekju er að vekja til umhugsunar og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.
Eins og er á Siðmennt ekkert húsnæði til að halda athafnir sínar í, þannig að félagið þarf að reiða sig á húsnæði sem reist hefur verið fyrir sameiginleg kirkjugarðsgjöld allra landsmanna. Í Bænhúsinu í Fossvogi þar sem útförin var haldin er stór viðarkross á endaveggnum en hann er viðarlita og fellur inní bakgrunninn. Fólkið í Siðmennt gerir sér grein fyrir því að þau húsnæði sem það mun eiga völ á næstu árin verða ekki alltaf fullkomlega í takt við lífsskoðun þess, en það pirrar sig ekki á því. Aðal atriðið er að vera komin af stað með athafnir með því innihaldi sem samræmist lífsskoðun húmanista. Fólk allra lífsskoðana, trúarlegra og veraldlegra þarf að lifa í sátt saman í landinu og sýna hvort öðru umburðarlyndi. Vð þurfum alltaf að minnast þess sem við eigum sameiginlegt þó að við deilum og skiptumst á skoðunum einnig.
Í lok maí mun Siðmennt tilkynna formlega upphaf athafnarþjónustu sinnar. Í undirbúningi er kynningarefni í formi bæklinga og viðbótarefni við kynningarefni á vefsíðu félagsins. Sá sem hér skrifar mun halda stutta kynningarfyrirlestra víða um land í framhaldinu.
Sex athafnarstjórar hafa fengið þjálfun og skammt er í að fyrstu nafngjöfinni verði stýrt af einum þeirra. Þá verða fyrstu skrefin stigin í öllum fjórum klassísku félagslegu athöfnum fjölskyldna hjá Siðmennt. Það ver vel á því að þessi skref eru stigin nú þar sem Borgaraleg ferming Siðmenntar á 20 ára afmæli í ár.
Ástæða þess að ekki tókst að bjóða uppá veraldlegar/húmanískar nafngjafir, giftingar og útfarir fyrr er sú að félagið vildi ekki rjúka út í slíka þjónustu án góðs undirbúnings. Fjármagn hefur einnig skort þar sem félagið nýtur ekki sömu fyrirgreiðslu og trúfélög hjá hinu opinbera vegna laga sem viðurkenna aðeins trúarlegar lífsskoðanir (lög um skráningu trúfélaga). Í fyrra fékk Siðmennt tvo myndarlega styrki frá einkaaðilum og hefur það verið mikil lyftistöng.
Í fyrravor fékk félagið kennslu og þjálfun fyrir verðandi athafnarstjóra hjá kennara frá systursamtökum Siðmenntar, Human Etisk Forbund (HEF) í Noregi. Sú aðstoð var veitt ókeipis. Ég var svo skipaður umsjónarmaður þjónustunnar og þess undirbúnings sem nauðsynlegur var. Síðastliðið haust sótti ég ráðstefnu hjá British Humanist Association um húmanískar/veraldlegar athafnir og var það mjög gagnlegt. Bæði Norðmenn og Brétar hafa áratuga langa hefð í framkvæmd þessara athafna og eiga mikið af bókmenntum um efnið. Vefsíðu Siðmenntar var breytt til mikilla bóta var Sigurður Hólm Gunnarson umsjónarmaður þess verkefnis. Allt kynningarefni um veraldlegar/húmanískar athafnir þar hefur verið uppfært og er þar m.a. útskýrt notkun á orðunum veraldlegur, húmanískur og borgaralegur, en það er ekki alveg sama hvernig þau eru notuð.
Ég vil þakka Siðmennt það traust sem það hefur sýnt mér í gegnum allt þetta ferli og fjölskyldunni að Hólastekk fyrir að treysta okkur fyrir útförinni. Í annað sinn braut hún blað í sögu veraldlegra athafna (sonur þeirra var í fyrsta borgaralega fermingarhópnum 1989) með Siðmennt og er það ákaflega mikils virði fyrir félagið og fólk sem aðhyllist sömu lífsskoðun á Íslandi. Húmanísk lífsmenning á Íslandi á bjarta framtíð fyrir sér.
Fyrsta útförin á vegum Siðmenntar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
In memoriam - Sir Edmund Hillary
22.2.2008 | 23:53
Eg leyfi mer ad birta her tilvitnun i Sir Edmund Hillary af sidu humanista i Nyja Sjalandi.
Sir Edmund Hillary
Sir Edmund Hillary and Sherpa Tensing (pictured in Wellington in 1971) were the first to climb Mount Everest in 1953. Hillary lived a life of philanthropic achievement and adventure. He died 11 January 2008
picture Reference No. EP/1971/3690/6A-F timeframes.natlib.govt.nz National Library of NZ
"There are many people who, when they're in a moment of danger, will resort to prayer and hope that God will get them out of this trouble. I've always had the feeling that to do that is a slightly sneaky way of doing things. If I've got myself into that situation, I always felt it's up to me to make the effort somehow to get myself out again and not to rely on some super-human human being who can just lift me out of this rather miserable situation.
That may be a slightly arrogant approach, but I still feel that in the end, it's up to us to meet our challenges and to overcome them." -Ed Hillary
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Manngildi og siðferði mannsins vegna er nóg
30.12.2007 | 23:34
Í prentútgáfu Morgunblaðsins í dag 30. desember bls 44, birtist eftir mig svargrein sem fer hér að neðan. Ég sendi með greininni mynd sem Mbl birti ekki (líklega vegna plássvanda). Myndin verður því með hér en hún er tekin af Matthíasi Ásgeirssyni og kann ég honum þakkir fyrir að leyfa birtinguna.
----
Þann 21. okt. s.l. birtist svargrein Sigurðar Pálssonar fyrrverandi sóknarprests Þjóðkirkjunnar við grein minni frá 30. sept. Húmanismi lífsskoðun til framtíðar. Það er ánægjulegt að Sigurður tekur undir með mér um mikilvægi húmanismans, en hann skrifar hins vegar greinina til að mótmæla því sem hann kallar að [ég] spyrði saman guðleysi og húmanisma. Honum sárnar greinilega að ég nefni ekki einhverja trúmenn sem jafnframt hafi verið málssvarar húmanískra lífsgilda.
Sigurður segir: Að skilgreina húmanismann eða manngildisstefnuna fyrst og fremst sem guðlaust lífsviðhorf er fölsun. Hann vísar svo til þess að í mannkynssögunni sé fjarri því að allar greinar [manngildisstefnunnar] hafni trúarlegri sýn á tilveruna.
Fyrst vil ég nefna að hvergi í umræddri grein sagði ég að kristnir gætu ekki tileinkað sér húmanísk gildi eða hefðu ekki gert það fyrr á öldum. Hins vegar hafa ekki nema örfáir trúarleiðtogar verið í forsvari fyrir manngildishyggju og miklu oftar barist gegn straumum frelsis og manngildis. Þannig var það með trúfrelsi, aðskilnað ríkisvalds og dómsvalds frá kirkjunni, afnám þrælahalds, kosningarrétt kvenna og nú síðast réttindi samkynhneigðra.
Forysta Þjóðkirkjunnar hefur ekki enn áttað sig fyllilega á rökréttum nútímaviðhorfum gagnvart samkynhneigð. Hún barði lengi vel hausnum við stein í aumkunarverðri tilraun sinni til að halda í bókstafinn og hvatti Alþingi til þess að skerða réttindi annarra trúfélaga til að taka sjálfstæða ákvörðun um hjónavígslu samkynhneigðra þar til nýlega.
Þau alþjóðasamtök sem s.l. 56 ár hafa borið nafn húmanismans, International Humanist and Ethical Union (IHEU), hafna hindurvitnum og þ.á.m. trú á guði. Almennt þegar talað eru um samtök húmanista og húmanisma er átt við IHEU og þann húmanisma sem þar er haldið á lofti. Siðmennt er aðildarfélag að þeim. Hinn venjubundni húmanismi nútímans er trúlaus og þar liggur mín skírskotun.
Vissulega hafa húmanísk lífsviðhorf verið til innan trúarbragða og fyrstu húmanistar endurreisnarinnar eins og t.d. Desiderius Erasmus frá Rotterdam voru trúaðir. Þeir fengu viðurnefnið húmanistar árið 1589 vegna þess að skrif þeirra lögðu meiri áherslu á frelsi mannsins en áður þekktist. Þeir grófu þannig óbeint undan guðdómleikanum og því óskoraða valdi sem kirkjan hafði tekið sér á hugum og líkamlegu frelsi fólks. Þjóðfélög þessa tíma voru gegnsýrð af kristinni bókstafstrú og það var ávísun á dauðann að segja sig trúlausan. Thomas Jefferson, sem var uppi um tveimur öldum síðar var einarður gagnrýnandi trúarbragða og taldi að siðferði væri ekki komið frá guðdómi heldur eðlislægri dómgreind mannsins.
Sigurður sagði svo: Guðlaus lífsviðhorf fæddu ekki af sér manngildishugsjónina. Þessu er ég algerlega ósammála. Manngildishugsjónin hefur enga þörf fyrir guðshugmyndina og stendur algerlega sjálfstæð án hennar. Þó að bæði trúaðir og ótrúaðir hugsuðir sögunnar hafi komið fram með húmanískar skoðanir, þá byggðu þær ekki á guðfræði eða trúarlegum innblæstri. Þau trúarbrögð sem í dag teljast hófsöm og skynsamari öðrum eru það vegna þess að þau hafa fjarlægst nákvæma trú á orð trúarrita sinna og skilið eftir þann kjarna sem hvað helst samræmist húmanískum gildum og skynsemi. Þannig skiptir trúin á upprisuna og hina heilögu þrenningu ákaflega litlu máli fyrir megin hluta kristinna Íslendinga. Samkvæmt stórri Gallup könnun sem var gerð hérlendis árið 2004 trúa aðeins 8.1% því að þeir fari til himna eftir sinn dánardag. Siðferðislegt, lagalegt og menningarlegt umhverfi okkar er fyrst og fremst húmanískt, þ.e. óður til frelsi mannsins, hugvits og mannúðar, en ekki trúarlegrar náðar eins og forysta Þjóðkirkjunnar básúnar við hvert tækifæri.
Svo hneykslaðist Sigurður yfir því að ég vogaði mér að segja að hófsöm trúarbrögð búi í haginn fyrir hin öfgafullu heittrúarbrögð. Það er langt mál að færa fyrir því full rök en hér vil ég nefna eitt dæmi sem er okkur nærri. Á dögunum fór fram svokölluð Bænaganga sem margir kristnir trúarsöfnuðir stóðu að, þ.á.m. Þjóðkirkjan. Gengið var niður á Austurvöll og beðið um aukna kristinfræði og trúarlega starfsemi í skólum. Aðalskipuleggjandi göngunnar var maður sem vitað er að talar mjög niðrandi um samkynhneigða opinberlega. Í göngunni voru svo hermannaklæddir karlar sem báru fána og yfirbragð göngunnar varð því mjög þjóðernislegt (sjá mynd). Á meðan forgöngumaðurinn predikaði böðuðu þátttakendur út örmum líkt og öfga-evangelistar gera í Bandaríkjunum (Sjá grein Brynjólfs Þorvarðarsonar Gengið gegn gleðinni í Mbl, 18.11.07 bls 50). Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur beðið skólayfirvöld undanfarin ár að gæta hins hlutlausa veraldlega grunns í menntastofnunum landsins og gæta þannig mannréttinda barna, sem voru dómfest í Mannréttindadómstóli Evrópu í sumar. Í stað þess að virða þennan dóm er Þjóðkirkjan tilbúin að ganga með öfgatrúuðum í baráttu fyrir auknum trúarlegum afskiptum í skólum. Hvað segir þetta manni um húmanisma Þjóðkirkjunnar og með hverjum hún stendur?
Húmanismi | Breytt 31.12.2007 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
Hugsjónakona heiðruð
2.11.2007 | 00:18
Það var sérlega ánægjulegt að vera viðstaddur veitingu húmanistaviðurkenningar Siðmenntar 2007. Tatjana Latinovic er vel að heiðrinum komin enda mikil baráttukona fyrir bættri stöðu nýbúa og kvenna á Íslandi og hefur sett jákvætt mark sitt á þjóðfélagið þau 13 ár sem hún hefur verið hér. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi starf í þágu mannréttinda á Íslandi en húmanismi gengur einmitt út á það að lifa eftir, varðveita og framfylgja mannréttindum eins og þeim er lýst í Mannréttindasáttmálum Sameinuðu Þjóðanna og Evrópu.
Tatjana Latinovic fékk húmanistaviðurkenningu Siðmenntar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Húmanismi | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Húmanismi - lífsskoðun til framtíðar
1.10.2007 | 00:42
Hér fer grein mín sem birtist i Mbl í gær sunnud. 30. sept 07.:
Lífsskoðanir okkar hafa djúp áhrif á það hvernig okkur reiðir af og hvernig lífshlaup okkar verður í því samfélagi sem við búum í. Uppgangur húmanískra siðferðishugmynda hefur orðið til þess að miklar framfarir hafa orðið í mannréttindamálum víða um heim og þá sérstaklega í hinum vestræna hluta hans. Fólk hefur losað sig undan kreddukenndum hugmyndum trúarbragða, afvegaleiddrar þjóðernishyggju og forræðishyggju, sem lifði góðu lífi á gullöldum kirkjulegra valda í Evrópu. Óskorað vald karlmanna hefur smám saman orðið að víkja og stærsti sigurinn vannst þegar konur fengu kosningarrétt á fyrri hluta 20. aldarinnar þrátt fyrir mikla andstöðu kirkjudeilda og íhaldssamra stjórnmálaafla. Mismunun vegna kynþáttar eða kynhneigðar hefur víða mátt víkja en helst eru það trúfélög sem standa á móti rétti samkynhneigðra til að njóta sömu þjóðfélagsstöðu og aðrir í heiminum.
Í húmanismanum felst heimsspekileg náttúruhyggja (að lífið eigi sér náttúrlegar skýringar), skynsemishyggja (treysta á vitræna getu okkar) og efahyggja, þ.e. að nýjar staðhæfingar eða tilgátur séu ekki teknar trúanlegar nema að þær standist rökfræðilega skoðun og prófanir, t.d. með aðferðum vísindanna. Einn stærsti sigur húmanískra hugsjóna var stofnun Sameinuðu Þjóðanna (SÞ) og gerð mannréttindayfirlýsingar þeirra. Alþjóðasamtök húmanista, International Humanist and Ethical Union (IHEU) hafa alla tíð starfað náið með SÞ og það var fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, líffræðingurinn Julian Huxley sem var einnig fyrsti forseti menningar-, mennta- og vísindastofnunar SÞ, UNESCO árið 1946. Einn þekktasti trúleysingi og mannúðarsinni síðustu aldar var Englendingurinn Bertrand Russell (1872-1970) sem hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1950 fyrir skrif í þágu frálsrar hugsunar.
Nú á tímum upplýsingaflæðis og alþjóðavæðingar er á ný sóst að skynsemishyggju og húmanískum gildum með lúmskri trúarlegri innrætingu, pólitískt réttum yfirgangi bókstafstrúarfólks og uppgangi gervivísinda sem notfæra sér glundroða þann sem ófullnægjandi raungreinakennsla og stundum óvandaður fréttaflutningur um vísindi og læknisfræði hafa skapað í hugum fólks. Vegna þessa hafa fjölmargir fylgjendur manngildissins og velferðar hins lýðræðislega samfélags risið upp og komið saman í æ meira mæli sem húmanistar víða um heim. Í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001 hafa æ fleiri gert sér grein fyrir því að það eru ekki aðeins bókstafstrúarmenn sem ógna húmanískum gildum eins og mannréttindum heldur einnig hin svokölluðu hófsömu trúarbrögð með því að viðhalda grunninum að hinum trúarlega og forneskjulega hugmyndaheimi þeirra.
Margt fólk er að vakna til vitundar um mikilvægi húmanismans, t.d. sem sú lífsskoðun sem er öflugusta vopnið gegn kúgun kvenna víða um heim. Fyrirlestar baráttukonunnar Maryam Namazie á dögunum báru þess glöggt vitni. Sómalski rithöfundurinn, femínistinn og trúleysinginn Ayaan Hirsi Ali benti einnig á hættuna af trúarlega tengdu siðferði í sjónvarpi og blöðum nýlega.
Á Íslandi hafa húmanistar átt sitt lífsskoðunarfélag frá 1990 en það heitir Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi. Á næsta ári á borgaraleg (veraldleg) ferming 20 ára afmæli og er það sérstakt ánægjuefni því nær 1000 ungmenni hafa hlotið húmaníska lífssýn í gegnum fermingarfræðslu félagsins á þessum árum. Það stefnir nú í metþátttöku á afmælisárinu. Siðmennt nýtur ekki þeirra fríðinda að fá félagsgjöld í formi "sóknargjalda" innheimt og afhent af ríkinu líkt og trúfélög á Íslandi fá, þrátt fyrir að standa fyrir þau gildi sem stuðla að hvað mestri mannvirðingu, jafnrétti og bestu menntun allra landsmanna. Ég vil hvetja það fólk sem telur sig vera húmanista að skrá sig utan trúfélaga á skrifstofu Þjóðskrár og ganga til liðs við Siðmennt. Vefsíða félagsins er www.sidmennt.is. Þetta er mikilvægt því húmanistar þurfa að standa saman og verja og rækta gildi sín. Siðmennt þarfnast þess að fólk sem telur sig eiga samleið með húmanískum lífsgildum gangi til liðs við félagið til að stuðla að uppbyggingu veraldlegra valkosta við félagslegar athafnir eins og útfarir, nefningar og giftingar. Það er sérstaklega ánægjulegt að í vetur mun Siðmennt bjóða uppá þjálfaða athafnarstjóra fyrir veraldlegar útfarir í fyrsta sinn. Tökum höndum saman.
Þegar George Harrison dó árið 2001, var minnisvarðinn um John Lennon í Central Park, skreyttur blómum og fólk kom þar saman og söng lög eftir Harrison. Það var eftirminnileg stund. Þessi mynd er frá þeim stað árið 2004. Minnisvarðinn "Imagine" vísar til samnefnds lags Lennons þar sem hann yrkir: "ímyndið ykkur heiminn án trúarbragða".
Húmanismi | Breytt 11.10.2007 kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Tímamót: Siðmennt giftir í fyrsta sinn
22.9.2007 | 04:52
Það gleður mig að tilkynna hér að í dag lagardaginn 22. september verður brotið blað í sögu siðræns og veraldlegs húmanisma á Íslandi.
Eftirfarandi fréttatilkynning var send frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi á dögunum í tilefni þess að í fyrsta sinn á Íslandi verður par gefið saman í hjónaband af athafnarstjóra Siðmenntar.
Þann 22. september verða gefin saman ___ og ___ kl 14:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík, af Jóhanni Björnssyni athafnarstjóra Siðmenntar. Þetta er í fyrsta sinn sem veraldleg gifting fer fram á vegum Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi og er hún haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík þrátt fyrir að ekki sé um trúarlega athöfn að ræða.
Siðmennt er lífsskoðunarfélag og hefur boðið uppá borgaralegar fermingar undanfarin 19 ár. Félagið er nú í óðaönn að útvíkka þjónustu sína og mun fljótlega bjóða uppá veraldlegar giftingar og útfarir allt árið um kring. Þessar veraldlegu þjónustur við félagslegar athafnir fjöldskyldunnar eru góður valkostur fyrir fólk sem telur sig trúlaust, efahyggjufólk eða húmanista og eru í örum vexti víða um heim.
Parið mun fá borgaralega giftingu hjá sýslumanni rétt fyrir hina veraldlegu hjá Siðmennt.
Ég útskýrði þetta og fleira á Morgunvakt rásar 1 í gærmorgun í stuttu viðtali en ég er fyrir nefnd hjá Siðmennt sem sér um uppbyggingu veraldlegra athafna félagsins.
Sjá einnig á heimasíðu Siðmenntar
Húmanismi | Breytt 25.9.2011 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)