Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Þjóðin hefur kosið

Nú er það endanlega í garð gengið að ný ríkisstjórn mun taka við löggjafa- og ráðherravaldi landsins.  Tveir stærstu flokkar landsins taka höndum saman og ætla að reyna að bæta þjóðfélagið næstu 4 árin.   Það verður að telja mjög heilbrigðan kost því að baki þessa flokka liggja 63.4% greiddra atkvæða og því 43 þingsæti af 63.  Mannaflinn verður nægur til að takast á við brýn verkefni og engin hætta er á að meirihlutinn falli vegna sinnaskipta einstaka þingmanna.  Ég fagna þessari stjórn og vona að Samfylkingin og nýtt fólk hjá Sjálfstæðismönnum boði breytta tíma með tilliti til mannréttindamála, betur rekins heilbrigðiskerfis, hagkerfis og náttúru landsins.

Það var ljóst að þjóðin vildi breytingar en ekki á kostnað Sjálfstæðismanna því þeir juku við sig fylgi.  Fólk er farið að nýta sér meira útstrikanir og varð Árni Johnsen að gjalda þess með því að falla um eitt sæti.  Björn Bjarnason féll sömuleiðis um sæti en hélt samt ráðherraembætti sínu sem verður að telja frekar á skjön við niðurstöðuna.   Þetta virðast því vera skilaboð frá Geir um að Birni sé vel treystandi þrátt fyrir óánægju um 20% kjósenda xD þar sem hægt var að strika út (þ.e. séu utankjörstaðaratkvæði ekki tekin í reikninginn).  Margir eru ánægðir með verk Björns hjá Lögreglunni en ýmsir eru óánægðir af öðrum orsökum.   Maður getur bara vonað að Björn noti þetta tækifæri til að endurskoða það sem menn benda á að miður hafi farið hjá honum.

Stór lýðræðisleg lexia kom í ljós en ekki er víst að hún hafi verið lærð.  Fullkomlega frambærilegu framboði, Íslandshreyfingunni, var hafnað vegna 5% reglu á jöfnunarsætum.  Að vísu náði framboðið hvergi inn kjördæmakjörnum þingmanni en það þarf 9-11% atkvæða til.  Ljóst er að stjórnarflokkarnir sem settu þessa reglu árið 1999 höfðu ekki áhuga á því að hleypa nýjum stjórnmálaflokkum að og völdu hærri prósentu en tíðkast víða í löndum í kringum okkur.    Miðað við núverandi reglu þarf yfir 9250 atkvæði á landsvísu til að ná inn jöfnunarsætunum þremur og það þyrfti að skoða hvort að raunverulega séu ástæður til að réttlæta þetta háan þröskuld.

Ég vona að hin nýja ríkisstjórn beri gæfu til að hlusta á góðar tillögur, sama hvaðan þær koma, þ.e. frá stjórnarandstöðu, félagasamtökum eða einstaklingum.  Þá á ég við, ekki bara hlusta, heldur einnig taka upp og samþykkja. 

Ég óska hinni nýju ríkisstjórn velfarnaðar.  Ég hef trú á því að hún muni reynast þjóðinni vel.


Listræn kona

Ég rakst á ákaflega skemmtilegt myndsafn á Flickr.com eftir ljósmyndara sem kallar sig "It´s all about Mich!!!"  Þetta er kona sem ég hef ekki nafn á en hún er ótrúlega skapandi og næm á aðstæður.  Hún kemur myndum sínum ákaflega persónulega á framfæri.  Myndunum fylgir jafnan skemmtilegur texti.   Hér er eitt dæmi.  (Ath. það má birta myndina ef maður getur höfundar.  Textinn er hennar).

watch-your-thoughts

Watch your thoughts; they become words.
Watch your words; they become actions.
Watch your actions; they become habits.
Watch your habits; they become character.
Watch your character; it becomes your destiny...

 


Ánægjulegt!

Loksins góðar fréttir.  Ef xD og xS ná samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórnar yrði það besta útkoma þessara kosningaúrslita að mínu mati.  Samkvæmt skoðanakönnun sem birtist í gær eru flestir á sama máli eða um 4/10 svarenda.  Skynsemin sigri!
mbl.is Geir og Ingibjörg sest á fund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðum yfirlýsingu Björns Bjarnasonar

Því miður olli löng færsla mín um yfirlýsingu Björns talsverðri skekkju á megin textadálknum þannig að ég varð að taka hana út

Hana má sjá í heilu lagi á www.svanursig.net


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði gert slíkt hið sama

Það er ekki tilviljun að Björn Bjarnason fékk svona margar yfirstrikanir.  Það er ekki einungis Jóhannes í Bónus sem er ósáttur við hans gjörðir.  Ég er ósáttur við að Björn hefur ekki sýnt réttindabaráttu húmanista á Íslandi neinn skilning.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur tvisvar sótt um sömu réttindi og trúfélög fá, þ.e. að fá skráningu og sóknargjöld gegnum ríkið en var hafnað af nefnd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.  Björn sýndi engan skilning.  Svo frá janúar 2006 hefur Siðmennt reynt að fá í gegn lagabreytingartillögu þess efnis að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt (þ.e. félag sem hefur siðferðisboðsskap og lífssýn, sér um félagslegar athafnir eins og fermingar og hefur sýnt fram á samfellu og staðfestu í starfi) fái sömu lagalegu stöðu og trúfélög.  Til þess að fá fram lagabreytingu þarf að fara í gegnum stjórnarflokkana og bað Siðmennt Allsherjarnefnd að taka upp lagatillöguna en nefndin sýndi henni takmarkaðan áhuga en nokkurn skilning.  Siðmennt bað Björn Bjarnason um það sama en hann sendi svarbréf þar sem hann sagði að Siðmennt gæti starfað eins og hvert annað félag í landinu og hann hefði annað við tímann að gera.  Sem sagt hin kristni Björn sýndi réttindamálum húmanista engan áhuga og algert skilningsleysi. 

Þó að Siðmennt sé lítið félag eða með rétt rúmlega 200 skráða félaga, er það nálægasti lífsskoðunarfulltrúi um 19.1% (+/- 2.6%) landsmanna sem telja sig "ekki trúaða" (könnun Gallup feb-mars 2004 um trúarlíf Íslendinga).   Flestir trúleysingjar eru húmanistar í lífsskoðun, þ.e. treysta á siðferði reist á rökum og skynsemi en ekki heilögum bókum eða æðri mátt.  

Þjóðfélagið er í heild sinni að mestu veraldlegt og er það vegna þjóðfélagslegra framfara sem af stórum hluta má rekja til hugmynda húmanista um vísindi og lýðræði.  Vissir forn-Grikkir (sjöttu öld f. at.) eins og Þales ("þekktu sjálfan þig"), Anaxagóras (fyrsti fríþenkjarinn, lagði grunn að vísindum), Prótogóras og Demókrítus sem gerðu sér ljóst að siðferðishugsun byggðist ekki á trú á hið yfirnáttúrulega.  Períkles var nemandi Anoxogórasar og hann hafði áhrif á þróun hugmynda um lýðræði, hugsanafrelsi og afhjúpun hjátrúar og hindurvitna.  Það var svo með endurreisnartímunum á níundu, tólftu og fjórtándu öld að smám saman tókst að brjótast undan skoðanakúgun kristninnar og menn eins og Kópernikus (sólarmiðjan), Galileo Galilei (jörðin hnattlaga) og Desiderius Erasmus (Hollandi, mannvirðing) og fleiri lögðu grunninn að húmanískri hugmyndafræði.  Upplýsingin á 18. öld, iðnbyltingin, franska byltingin, stjórnarskrá Bandaríkjanna og svo þróunarkenning Darwins voru allt hlutir sem kenndu fólki að hugsa út fyrir ramma trúarbragðanna og smám saman urðu þjóðfélög hins vestræna heims og síðar Austu-Asíu að mestu leyti veraldleg (secular).  Þetta var og er húmanismi en af því að húmanistar hafa ekki skipulagt sig mikið í sérstaka hópa sem slíkir hafa þeir ekki verið sérlega áberandi fyrr en síðari ár. 

Í Noregi er lang stærsta húmanistafélag í heimi miðað við íbúafjölda en í Human Etisk Forbund (HEF) eru um 70 þúsund félagar og HEF hefur verið skráð sem jafngilt trúfélögum þar í landi allar götur frá 1979.  Nokkur þúsund ungmenna ferma sig árlega á vegum HEF í Noregi.  Siðmennt og HEFeru aðilar að International Humanist and Ethical Union (IHEU) sem er alþjóðafélag humanista og nýtur það mikillar virðingar sem álitsgjafi hjá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.á.m. UNICEF og UNESCO.  Fyrsti forseti IHEU var einmitt einnig fyrsti forseti UNESCO, Julian Huxley.  Margir af merkustu hugsuðum síðustu aldar voru húmanistar og má þar nefna Albert Einstein (hann var í ráðgjafanefnd The First Humanist Society of New York) og Englendinginn Bertrand Russell en hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1950 fyrir þýðingarmikil skrif í þágu baráttu fyrir hugsanafrelsi og mannúðarstefnu. 

Það er ljóst að Siðmennt er mikilvægt lífsskoðunarfélag á Íslandi og það er mjög miður að þjóðin skuli hafa haft dóms- og kirkjumálaráðherra sem sýnir því engan skilning.  Ef ég hefði kosið xD hefði ég einnig strikað út nafn Björns Bjarnasonar á kjörseðlinum, ekki spurning.

 


mbl.is Rúmlega 2500 strikuðu yfir nafn Björns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þvælið kosningakerfi - færum 5% niður í 2%

Það er ljóst að núverandi rétt eins og fyrrverandi kosningakerfi er þvælið og illskiljanlegt þeim sem ekki hafa sett sig djúpt í reglurnar.  Það er furðulegt að flokkur sem nær yfir 1.6% atkvæða fái ekki þingmann (100/63 eru 1.6%) og að Samfylkingin fái einum fleiri þingmenn en Sjálfstæðismenn í kjördæmi þar sem þeir síðar nefndu fá 7.2% meira fylgi.  Auðvitað eru ákveðnar jöfnunarreglur kerfisins sem gera þetta að veruleika en það er sárt fyrir Mörð sem var í 4. sæti í Reykjavík Suður að komast ekki á þing á meðan Ellert B Scram sem var í 5. sæti í Reykjavík Norður komst inn þegar munur á fylgi flokksins í kjördæmunum tveimur var bara 0.2% (29.2% og 29.0%). 

Svo er það auðvitað skiptingin í Reykjavík- norður og suður sem á nær engan málefnalegan eða hagsmunalegan grundvöll.  Það þarf að setjast undir feld og skoða kosningareglurnar uppá nýtt.  5953 kjósendur kusu og fengu ekki rödd á þingi.  E.t.v. er það talið að 1-2 þingmenn lítils flokks verði of einmanna á þingi eða það sé ekki húsnæði fyrir þá, nú eða að þeir gætu lent í oddaaðstöðu varðandi stjórnarmyndun og því hlotið of mikil völd.  Hvort að það sé raunveruleg hætta á því síðastnefnda veit ég ekki en það er verulegt álitamál hvort að þessir "gallar" á því að litlir flokkar komist á þing séu nógu stórir til að lýðræðislegur réttur allt að 9250 manna (4.99% af þeim 185.071 sem kusu) fái ekki að ná fram.  Mér finnst þessi tala allt of há og ekki réttlætanleg.  Ég sting uppá 2% sem þröskuld, þ.e. fylgi sem svarar til rúmlega eins þingmanns (ca 3700 atkvæði). 


mbl.is Lenti í 12. sæti í prófkjöri og komst á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrslit með ólíkindum

Minn óskalisti var: Lettland, Holland, Ungverjaland (blúsinn), Albanía, Noregur, Georgía, Makedonia, Króatia, Ísland og Kýpur. 

Fast þar á eftir setti ég Serbíu, Danmörku, Portúgal, Eistland, Tékkland og Austurríki. 

Þar neðan við setti ég Hvíta-Rússland, Pólland, Tyrkland og Slóveniu - öll slöpp.

Allra lélegust fannst mér Búlgaría (horror), Belgía, Ísrael, Montenegro, Sviss, Moldavía, og Malta.  

þau breiðletruðu komust áfram og eru úr öllum flokkum hjá mér.  Merkilegt að Albanía og Króatía skyldu ekki komast áfram en kannski eru Albanar ekki með í samkrullinu þar sem þeir eru að miklu leyti múslímar.  Nei maður botnar ekkert í þessu og því miður finnur maður sömu skítalykt og Eiríkur Hauksson.  Búlgaría í úrslit!?eiki-hauks

Ég held að Vestur-Evrópa verði bara að taka upp sína eigin keppni því þetta er bara skrípaleikur.  


mbl.is Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn stækkar á kostnað Sjálfstæðisflokks

Fyrirsögn Mbl.is er sérstök ("Samfylking og Vg bæta við sig").  Af henni mætti ráða að xS og xV væru í sókn en í raun eru þau saman með 2 þingmönnum minna en fyrir 2 dögum síðan.  Það er auðvitað hægt að miða við gærdaginn en það var í fyrradag sem einhver marktæk breyting varð á fylgi Fylgi flokka 7-9 mai 07flokkanna.  Fyrirsögnin ætti því að vera "Framsókn heldur enn í fylgisaukningu sína".    Það er ljóst að Framsókn hefur fengið mest af þessu nýja fylgi frá Sjálfstæðismönnum en etv. voru fylgismenn þeirra í "felum" þar og eru nú að sækja í viðjur vanans (eða hlýða fjölskyldunni) heim til xB. 

Frjálslyndir hafa fengið 4. manninn og því hefur Kaffibandalagið aðeins misst 1 mann frá því fyrir 2 dögum og hefur samtals 31 þingmann.   Stjórnin hangir á bláþræði með 32 þingmenn. 

Íslandshreyfingin er föst í 2-3% og atkvæði þeirra eru því miður dauð, þ.e. gagnast engum.  Að vísu virtist slatti af atkvæðum þangað koma frá Sjálfstæðismönnum (um 4% af fyrri kjósendum þeirra, þ.e. 4% af 36%) samkvæmt könnunni fyrir 2 dögum síðan og birt var í prenti á síðum Morgunblaðsins.   Talsvert færri komu frá Vinstri grænum (3.6% af 9%) og fylgi frá xB og xS var vart mælanlegt.  Þessar tölur gáfu ekki til kynna hversu mikið af nýjum kjósendum væru að kjósa Íslandshreyfinguna en mér sýnist að óhætt sé að álykta að framboð flokksins sé ekki að valda töpuðum jöfnunarsætum frá stjórnarandstöðunni og er það mér léttir.

Kjósa þarf stjórnarandstöðuflokkana og koma ríkistjórninni frá af eftirfarandi ástæðum:

  • Stöðva þarf ofþenslu í efnahagslífinu og koma stýrivöxtum niður en þeir stýra m.a. því hversu miklir vextir eru á yfirdráttarheimildum.
  • Stöðva þarf frekari stóriðju, sérstaklega á suðvestur horninu.  Eina álverið sem ég sæi mögulegt til viðbótar er álver við Húsavík en náttúra landsins er betur sett án þess.  Getur ein ríkasta þjóð heims virkilega ekki fundið annað að gera en að reisa mengandi stóriðju?
  • Með því að hætta við frekari stóriðju kólnar hagkerfið og því skapast skilyrði til að afnema þá ósanngjörnu skattheimtu á íbúðarkaupendur sem kallast stimpilgjald (1.5% af lánsupphæð til íbúðarkaupa).  Ríkisstjórnin braut loforð sitt um að afnema þennan óréttláta skatt á kjörtímabilinu.  Því ættum við að treysta þeim nú til að gera það?
  • Gera þarf innflytjendalöggjöf manneskjulegri.  Burt með 24-ára makaregluna sem ríkisstjórnin kom á.  Dómstólar hafa dæmt hana á skjön við stjórnarskránna.  Leyfa þarf innflytjendum að kjósa fyrr, t.d. eftir 2 ára fasta búsetu hér. 
  • Leiðréttum kjör aldraða og öryrkja með því að taka af þessar fáránlegu skerðingar og setjum fé í að auka heimaþjónustu og byggja fleiri hjúkrunarrými (fyrir þá mest heilsuskertu).   Það eru enn tugir eldra fólks á bráðdeildum Landspítalans og ríkisstjórnin hefur ekki náð að ráða við þennan vanda s.l. 16 ár.   Við erum verr sett í þessu en fátækasta borgarhverfi New York borgar, Suður-Bronx en þar vann ég á spítala í 7 ár.  Fólk er aldrei lagt þar inn á ganga eins og tíðkast hér enn.
  • Hækka þarf persónuafsláttinn og frítekjumarkið.  Sú breyting gagnast þeim lægst launuðu best.  Ég er ekki fylgjandi hátekjuskatti því að hann skekkir launasamanburð og kemur niður á fólki sem leggur á sig mikla vinnu. 
  • Aðskilja þarf ríki og kirkju, bæði í stjórnarskrá og almennum lögum.  Kirkjan kostar ríkið tæpa 4 milljarða í rekstri á ári hverju.  Prestar fá of há laun (prestur í sæmilega stóru prestakalli fær betri grunnlaun en sérfræðingur á sjúkrahúsi) og vinna þeirra og kaup ætti að vera háð markaðslögmálun en ekki föstum launum frá ríkinu.  Allar nútímalegar stjórnarskrár í ríkjum Evrópu kveða á um aðskilnað ríkis og trúar.  Við lifum við veraldlegt stjórnarfar að grunni til og við eigum að hafa það algerlega á hreinu að svo sé á öllum sviðum.  Núverandi fyrirkomulag hangir í trúarhefð sem á ekki rétt á sér og sást það m.a. á áhrifum kirkjunnar á lagasetningu varðandi leyfi trúfélaga til að gefa saman samkynhneigða.  Ferð alþingismanna í kirkju fyrir setningu alþingis er brot á jafnrétti og þeirri kröfu að þjóðin sé að kjósa sér veraldlega fulltrúa á þing, ekki trúarlega.  Alþingi er ekki trúarstofnun og á ekki að eiga nein viðskipti við þjóðkirkjuna eða aðrar slíkar.   Þó að aðeins Frjálslyndi flokkurinn sé sá eini sem hafi það skýrt í stefnu sinni að aðskilja ríki og kirkju, þá eru það stjórnarflokkarnir sem halda fastast í núverandi fyrirkomulag. 
  • Aðskilja þarf kirkju og skóla.  Þjóðkirkjan er með trúarlega starfsemi í nokkrum skólum undir heitinu "Vinaleið".   Menntamálaráðherra hefur bent á skólana og skólarnir bent á ráðherrann.  Margir hafa ályktað gegn þessari starfsemi, m.a. samtökin Heimili og skóli, Siðmennt, SUS í Garðabæ, Ungir Vg og fleiri.  Afnema þarf klausuna "kristilegt siðferði" í grunnskólalögunum því það er "almennt siðferði" sem gildir í skólum landsins. 
  • Gefa þarf lífsskoðunarfélögum (félög sem fjalla um siðferði, lífssýn, heimssýn og félagslegar athafnir fjölskyldunnar) sömu réttarstöðu og trúfélögum, þ.e. að þau fái skráningu og "sóknargjöld" rétt eins og þau.  Til þess að svo verði þarf lagabreytingu en Allsherjarnefnd Alþingis og Björn Bjarnason dóm- og kirkjumálaráðherra hafa ekki haft áhuga á því að verða við þessari sjálfsögðu breytingu.   Því á Siðmennt að líða fyrir það að trúa ekki á æðri mátt?  Um 19.1% (+/- 2.6%) eru trúlausir á Íslandi.  Þetta er stór hópur og ætti að hafa rétt á því að það lífsskoðunarfélag sem er fánaberi skoðunnar þeirra njóti jafnréttis í landinu.
  • Jafnrétti í launaþróun kynjanna.  Við erum með versta launamun kynjanna í nær allri Evrópu!!  Hvar er beiting núverandi stjórnvalda fyrir leiðréttingu á þessu?
  • Vinnuþjörkun.  Við vinnum þjóða mest í vestur-Evrópu.  Er ekki tími til kominn að hlúa betur að fjölskyldum þjóðfélagsins og gera okkur kleift að lifa lífinu utan vinnutímans?  Við búum í okursamfélagi þar sem höft á samkeppni (t.d. stimpilgjöldin) og jaðarskattar eru að klyfa heimilin.  Ég hef ekki séð þetta mál á dagskrá hjá stjórnarflokkunum.
  • Menntun.  Stjórnarflokkarnir eru líklegri en hinir að halda áfram með gjaldtöku í skólakerfinu og auka skráningargjöld.  Menntun er grundvallarforsenda áframhaldandi framþróunar og vaxtarsprota og fjölbreytni í atvinnulífinu.  Menntun á að vera öllum aðgengileg, líka fólki úr fjölskyldum sem hafa tekjur undir svokölluðum fátæktarmörkum.
  • Sjávarútvegsmál.  Sanngjarnari atvinnustefna og betri fiskveiðistefna verður ekki tekin upp hjá núverandi stjórnvöldum.  Þarna er verulega brýnt að snúa þróuninni við og kjósa stjórnarandstöðuna.  Allir í bátana, krefjumst atvinnuréttar okkar!

Íslenskt stjórnarfar þarf breytingu og aukna áherslu á mannréttindi og bætt kjör þeirra verst settu.  Náttúra Íslands þarf aðhlynningu og stóriðjustefnan þarf að víkja.  Efnahagskerfið þarf kælingu og stýrivextir og verðbólga að lækka - þannig minnkar sjálfkrafa streymi erlends verkafólks inn í landið.  Það er kominn tími á áherslubreytingar og framfarir á sviðum sem stjórnarflokkarnir eru blindir á.  Því miður eru atkvæði greidd Íslandshreyfingunni "dauð" nema að þau komi frá fyrrum kjósendum stjórnarflokkanna. 

Kjósum til breyttra og betri tíma, kjósum nýja stjórn!

 


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindi eða gervivísindi - þekkjum þau í sundur

VísindiGervivísindi (kukl)
Niðurstöður þeirra eru f.o.f. birtar í vísindatímaritum sem taka aðeins við efninu eftir rýni nefndar óháðra vísindamanna og viðhalda ströngum stöðlum um heiðarleika og nákvæmni.Niðurstöður þeirra eru birtar í ritum sem beint er að almenningi. Það er engin rýni annarra, engir staðlar, engin leit að staðfestingu frá öðrum rannsóknum, og engar kröfur um nákvæmni.
Krafist er að hægt sé að endurtaka rannsóknina með sömu niðurstöðu; skýra þarf mjög nákvæmlega frá rannsóknaraðferðum svo þær megi framkvæma annars staðar og þær endurbættar.Niðurstöðurnar er ekki hægt að endurtaka eða sannreyna af öðrum. Rannsóknaraðferðunum, ef til staðar, er iðulega svo óljóst lýst að er ekki hægt að skilja hvernig þær fóru fram eða út á hvað þær gengu.
Horft er eftir villum eða neikvæðum niðurstöðum og þær rannsakaðar áfram því rangar tilgátur geta oft leitt til annarra réttra ályktana með endurskoðun hlutanna.Horft er framhjá neikvæðum niðurstöðum eða þær afsakaðar, faldar, logið um þær, minnkaðar, gefnar gerviskýringar, látnar líta út eðlilegar eða látnar gleymast hvað sem það kostar.
Með tímanum er meira og meira lært um þau efnislegu ferli sem rannsökuð eru.  Búin eru til tæki (t.d. rafeindasmásjá) byggð á því sem lærst hefur.Engin efnisleg fyrirbæri eða ferli finnast eða eru rannsökuð.  Engar framfarir verða; ekkert haldbært er lært.  Engin tæki eru smíðuð út frá þeim
Sannfæra með vísun í rannsóknargögn, með rökræðu sem byggist á rökrænni og/eða stærðfræðilegri málfærslu, að því marki sem gæði gagnanna leyfa. Þegar nýjar niðurstöður eru betur studdar en þær gömlu, eru þær nýju teknar upp og þær gömlu aflagðar.Sannfæra með vísun í trú og traust. Gervivísindi hafa sterkan trúarlegan blæ: þau reyna að snúa, en ekki sannfæra. Maður á að trúa þeim þrátt fyrir staðreyndir málanna, ekki vegna þeirra.  Upphaflega hugmyndin er aldrei aflögð, sama hvað staðreyndirnar segja.

Vísindamaður vinnur ekki við, mælir með, né markaðssetur ósannaða vöru eða þjónustu. 

Hann segir frá bæði kostum og göllum meðferðarúrræða.

Gervivísindamaður (kuklari) vinnur fyrir sér að hluta eða að fullu með því að selja vafasamar heilsuvörur  (t.d. bækur, námskeið, og fæðubótarefni) og/eða þjónustu (t.d. ofnæmisgreiningu, persónulestra og skilaboð að handan).  Hann segir ekki frá göllum/ takmörkunum vörunnar eða þjónustunnar.

Mikil spenna

Þessi könnun er stærri (1150 manns í úrtaki) og því marktækari en þessar venjubundnu 800 manna kannanir.  Svarhlutfallið er að vísu áfram lágt eða um 63% en það er þannig líka í fyrri könnunum.  Það er því ekki víst að hið "óákveðna fylgi" sé neitt komið á hreyfingu.

Ljóst er að ríkisstjórnin hangir á bláþræði og þrátt fyrir aukið fylgi til xB nú er xD að dala.  Frjálslyndir eru líkt og kötturinn með 9 líf og hangir inni.  Athyglisvert er að nú eru xS og xV komnir saman með 29 þingmenn og með xF uppí 32.  Kaffibandalagið er því heldur að hitna á ný og með 2-3 sætum í viðbótum gætu það myndað starfshæfan meirihluta.  Fylgi flokka 4-7 maí

Þrátt fyrir margt gott er Íslandshreyfingin ekki að hrífa kjósendur eða hreinlega tíminn var of naumur til að skapa nauðsynlegt traust.  Eitt af megin markmiðum stofnunar hennar var að skapa valkost rétt hægra megin við miðju sem gæti höfðað til talsverðs hluta fólks úr stjórnarflokkunum og þannig stuðlað að því að ríkisstjórnin falli.  Þetta markmið hefur ekki náðst og nú er hætt við að atkvæðin til Íslandshreyfingarinnar falli niður dauð og hjálpi áframhaldandi stóriðjustefnu.  Best væri að hún drægi framboð sitt til baka til að Kaffibandalagsflokkarnir eigi meiri séns, en það hefur frekar virst að kjósendur flokksins samsamist frekar vinstri flokkunum en þeim hægri.  Miðað við að það eru 63 þingmenn eru 1.59% atkvæða á bak við hvern þeirra en samkvæmt kosningalögum (110. grein) sem sett voru í gildi af Alþingi árið 1999 þarf framboð að ná að lágmarki 5% fylgi á landsvísu til að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta.  Í SV-kjördæmi þarf 8.3% til að ná manni inn í kjördæmið (12 sæti) en 11.1% í NV-kjördæmi (9 sæti).  Þetta er harður raunveruleiki fyrir Íslandshreyfinguna en hér gildir að horfast í augu við staðreyndir og taka illskásta kostinn.   Ég hvet stuðningsmenn hennar að kasta ekki atkvæði sínu á glæ og kjósa ríkisstjórnina burt með þeim hætti sem nú er mögulegur.

Annars vil ég aftur vekja athygli á hjálpartæki kjósenda á http://xhvad.bifrost.is/

 


mbl.is Fylgi Samfylkingar og Framsóknarflokks eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband