Færsluflokkur: Lífsskoðanir

Misnotkun trúarhugtaksins af hinum trúaða

Það er með ólíkindum hversu margir fara frjálslega með hugtakið trú og eru það sérstaklega þeir/þær sem vilja halda uppi einhvers konar vörnum fyrir sína eigin trú, sem þeir/þær kalla ósjaldan "barnatrúin mín".

Dæmigert er að heyra: 

"Þú ert ekki trúlaus [við trúleysingja].  Það eru allir trúaðir innst inni!" 

Á svipuðum nótum var sagt eftir fyrri heimstyrjöldina

"Það eru engir trúleysingjar í skotgröfum!". 

Allt bendir þetta í sömu átt - að gera lítið úr vesalings trúleysingjanum og koma því inn í kollinn á honum, hvort sem honum líkar betur eða verr, að hann er trúaður eftir sem áður.  "ÞÚ ERT TRÚAÐUR og hana nú!"  Trúleysinginn verður líkast til skelfingu lostinn ef hann trúir þessum með barnatrúna og ímyndar sér að hinn trúaði trúi því að hinn hvítskeggjaði Faðir á himnum segi glaðhlakkalega "Ha ha þú sleppur ekki því trúleysi er ekki hægt á meðal manna, ha ha ha.." 

Hvílíkur skortur á sjálfstæðri athugun og ályktun!  John Lennon söng: "Ímyndið ykkur, heiminn án trúarbragða - það er auðvelt ef þú reynir!"  Já, það er auðvelt og því auðveldara eftir því sem maður athugar málið nánar.

Barnatrú!  Hvað með fullorðinsárin? Stenst barnatrúin skoðun fullþroska manneskju sem ákveður hvað er satt og hvað er tóm ímyndun út frá gagnrýnni skoðun og eðlilegri kröfu um að sönnunarbyrðin liggi hjá þeim sem kemur fram með hið ólíklega?

Við erum ekki öll trúuð innst inni.  Fólk sem treystir á skynsemina og skoðanir sem reistar eru á vel hugsuðu máli hefur ekki faldar skoðanir inní sér sem allt í einu spretta út þegar illa árar eða komist er í hann virkilega krappann.  Einn frægasti fjallagarpur síðari tíma, Joe Simpson tók það sérstaklega fram í kvikmyndinni "Touching the void" að þegar hann lá einn og yfirgefinn með brotið hné í djúpri jökulsprungu, kom honum ekki til hugar að biðja æðri mátt um hjálp.  Hann var trúlaus fyrir þessa þrekraun, á meðan henni stóð og eftir.  Sannfæringu hans var ekki bifað í þessum efnum og þannig er það með alla þá trúleysingja sem eru það af vel hugsuðu máli.  Joe vissi að hann yrði að treysta á eigin rammleik og eyddi ekki tíma sínum í að bíða eftir kraftaverki.

Trú er trú á almætti, æðri mátt, guð eða goð.  Trú er ekki það að tilheyra trúfélagi ef að viðkomandi trúir ekki á guðfræðina.  Sumir eru það sem kalla má menningarlega kristnir/trúaðir en trúa ekki á guð, upprisuna, heilagan anda, kraftaverk eða eilíft líf.  Þetta fólk þylur faðir vorið og trúarjátninguna eins og þeim var kennt að þylja þau sem börn, að mestu úr tengslum við innihald textans, en er í snertingu við fólkið í kringum sig sem kyrjar af sama vana.  Kunnugleikinn og tilfinning um eitthvað sameiginlegt, samveru eða það að tilheyra gefur hinum menningarlega kristna/trúaða nægilegan tilgang með þessu öllu saman.  Svo ræðst hann/hún jafnvel á trúleysingjann og segir:  "Þú ert ekki trúlaus!" 

Aftur hugtakið sannfæring er víðara og má nota um bæði trúarlegar og veraldlegar skoðanir.

Hjá samtökunum Atheist Alliance International er oft sagt:

  "Guðleysi er ályktun, ekki trú".  

Þetta er nokkurn veginn allt sem þarf að segja.  Rétt eins og sú ályktun að Jólasveinninn sé bara hugarburður þá er guðleysi/trúleysi hið sama.  Hún er bara ein ályktun af mörgum um hluti sem maður hefur ekki not fyrir og fyrirfinnast ekki í raunveruleikanum öðru vísi en hugmynd sem stjórnar ansi mörgu fólki að miklu eða litlu leyti. 

Hinn rómverski heimspekingur og stjórnmálamaður Lucius Annaeus Seneca (f. 4- d.65) sagði:

"Trú er talin af almenningi sem sannleikur, af hinum vitru sem fals og af valdsmönnum gagnleg".

Svei mér þá ef þetta er bara ekki sannleikur víða enn í dag.  Á Íslandi eru aðeins um 20% íbúa sem segja sig "ekki trúa" samkvæmt könnun Gallup árið 2004, en í Svíþjóð og Englandi eru þessar tölur hærri.  Skelfing höfum við "gengið götuna skammt fram um veg". 

Ég hvet þig lesandi góður að hlusta, já virkilega hlusta á innihald næstu messsu eða athafnar sem þú ferð í hjá þeirri kirkju sem þú tilheyrir og spyrja þig:  Á þetta virkilega erindi við mig? Játast ég þessu? Vil ég að börn játist þessu? Hvað kostar menningarleg kristni þjóðarbúið árlega? Vil ég taka þátt í því? Eru aðrir valkostir?

 


Betur má ef duga skal

Það er vissulega fagnaðarefni að nú skuli trúfélögum heimilt að gefa saman samkynhneigða í staðfesta samvist.

Svona er breytingartillagan sem var samþykkt nú í lok þings:

Lög


um breytingu á lögum um staðfesta samvist, nr. 87/1996,
með síðari breytingum.


1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „framkvæma staðfestingu á“ í 1. mgr. kemur:  staðfesta.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er heimilt að staðfesta samvist.
  3. Í stað orðanna „framkvæmd staðfestingar“ í 2. mgr. kemur: staðfestingu samvistar.
 
2. gr.
Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig geta prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga leitað um sættir.
3. gr.
Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2008.

Það er athyglisvert að lesa þær umsagnir sem bárust til allsherjarnefndar á lokastigum meðhöndlunar ríkistjórnarinnar á frumvarpinu.  Þær eru nær allar með tillögum um enn frekari bætur á lögunum og telja að þetta breytingarfrumvarp gangi ekki nógu langt til að tryggja algert jafnrétti.  Ég sagði - nær allar - því umsagnir frá Biskupsstofu og Prestafélagi Íslands hljóðuðu uppá stuðning við frumvarpið óbreytt og án athugasemda. 

Hvað var það sem stungið var uppá í hinum umsögnunum?  Hér að neðan fer efnisleg samantekt úr þeim:

A.  Samtökin '78, Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra (FAS) og Félagsráðgjafafélag Íslands bentu á: 

Að nýju lögin leyfi prestum Þjóðkirkjunnar að neita samkynhneigðum pörum um þjónustu, en það samrýmist ekki sérstakri stöðu hennar og presta sem opinberra starfsmanna.  Þetta hljóti að brjóta í bága við jafnræðisreglu Stjórnarskrárinnar. 

B. Samtökin '78, FAS og Siðmennt bentu á:

Sameina þarf alla hjúskaparlöggjöfina í ein lög til að það sé fyllilega ljóst að jafnræði eigi að ríkja.  Samtökin'78 lögðu ríka áherslu á þetta í lok umsagnar sinnar.

C. Samtökin '78, FAS og Félagsráðgjafafélag Íslands bentu á:

Í stað þess orðanna "staðfesta samvist" ætti að standa "vígja samvist" þar sem prestar framkvæma vígslur en ekki staðfestingar í gagnkynhneigðum hjónaböndum.

D.  Siðmennt benti á:

Í stað þess að kalla þetta staðfesta samvist ætti að kalla athöfnina giftingu og að samkynhneigð pör gengju því í hjónaband rétt eins og gagnkynhneigð pör gera.  Það er mismunun að viðhafa önnur nöfn fyrir gift samkynhneigð hjón. 

Siðmennt átaldi löggjafann fyrir að hugsa meira um hagsmuni eins trúfélags en að koma á fullum mannréttindum.  Orðrétt stendur í umsögn félagsins:

Alþingi á ekki að lúta vilja einstaka trúfélaga, óháð stærð þeirra, um það hvernig mannréttindum er útdeilt á Íslandi.  Löggjafavaldið á í ákvörðunartökum sínum að vera algerlega aðskilið trúarlegum hagsmunahópum og gæta þess að allir séu jafnir fyrir lögunum.   Skylda löggjafans er fyrst og fremst til mannréttinda, ekki til trúarhópa.  Kirkja á að vera aðskilin ríki og löggjafinn óháður og frjáls til þess að stuðla að lagabótum eins fljótt og auðið er.   Hvert trú- og lífsskoðunarfélag hefur svo frelsi til að fylgja sinni eigin sannfæringu svo lengi sem hún brýtur ekki á frelsi og réttindum annarra.

E. Samtökin'78 bentu einnig á:

Í nýja frumvarpið vantar heimild fyrir sendiráðspresta og ræðismenn Íslands erlendis (eða erlenda presta og sendiherra hérlendis) til að vígja samkynhneigða í samvist.

Pæling

Umsagnirnar bárust á dögunum 5-19. maí 2008 og því gafst ákaflega lítill tími til að vinna úr þeim og koma með breytingartillögur á frumvarpinu.  Hvað gerðist?  Ekki var tekið tillit til neinna af óskum þessara ofangreindra aðila og frumvarpið fór í gegn óbreytt.  Er það eðlilegt?  Nei, það finnst mér ekki því það er alveg ljóst að það var hægt að gera miklu betur.

Það er einnig alveg ljóst að löggjafinn fór hér algerlega eftir (nauðbeygðum) vilja Þjóðkirkjunnar og í athugasemdum þeim sem fylgdu til útskýringar á lögunum var sagt að frumvarpið væri komið til vegna nýrrar sáttar innan Þjóðkirkjunnar.  Kannski er þetta skrifað í þeirri kænsku að láta Þjóðkirkjuna halda að hún stjórni þessu en það lítur samt þannig út að löggjafinn gangi aðeins svo langt í að veita samkynhneigðum full mannréttindi eins og Þjóðkirkjan er samþykk. 

Á löggjafinn að taka tillit til stærsta og elsta samfleitt starfandi trúfélags landsins? Vissulega, en sú tillitssemi getur aðeins gengið að því marki að sjálfsagt frelsi og réttindi fólk sé ekki fótum troðið.  Það er ekki hlutverk löggjafans að kalla hjónabönd samkynhneigðra eitthvað annað en hjónaband eða nota yfir giftingu þeirra orðskrípi eins og "staðfest samvist".   Þjóðkirkjan básúnar oft að hún sé sjálfstæð, ráði sér sjálf í sínum innri málum og sé þannig ekki "ríkiskirkja".   Þá á hún að axla ábyrgð samkvæmt því og ef að hún vill kalla hjónabönd samkynhneigðra eitthvað annað eða staðfesta þau í stað þess að vígja, er það algerlega hennar.  Löggjafinn á ekki að skipta sér af slíku og einungis veita nauðsynlegar heimildir og stuðla að lagaramma sem tryggir þeim trúfélögum sem vilja tækifæri til að gefa samkynhneigðum algerlega sömu þjónustu og öðrum. 

Þá eiga lög framtíðar að gera ráð fyrir að bæði trúarleg og veraldleg lífsskoðunarfélög séu skráð og hafi heimild til að vígja eða leiða saman pör, óháð kynhneigð, til hjónabands.  Það óréttlæti ríkir nú að Siðmennt hefur ekki heimild til að ganga frá lagalega hluta giftingarinnar því lög gera einungis ráð fyrir því að trúarleg lífsskoðunarfélög séu til í landinu.   Í athöfnum Siðmenntar er parið leitt saman til heityrða en ekki vígt, þar sem vígsla er trúarlegt hugtak.  Í lögum framtíðar þarf að taka tillit til þessa. 

Þetta nýja frumvarp sem var nú samþykkt er stór framför í átt til bættra mannréttinda og því ber að fagna.  Ég óska trúfélögum og samkynhneigðum félögum þeirra til hamingju með þetta nýfengna frelsi. 

Ég tel þó að okkur beri að spyrja hvort að svona afgreiðsla á lagafrumvörpum er það sem viljum sjá í framtíðinni, þ.e. að allar ábendingar þeirra sem eiga undir högg að sækja og þeirra sem vilja ganga alla leið til þeirra mannréttinda sem við þekkjum best, séu einungis til málamynda, en að eitt trúfélag sem er stærst og samvaxið ríkinu á naflanum fái að hafa síðasta orðið?  Hvað heldur ríkisstjórnin að sé vilji þjóðarinnar í þessum efnum?  Fer vilji þjóðarinnar saman við vilja Þjóðkirkjunnar?  Á ríkisstjórnin að fara eftir sinni bestu samvisku, bestu ábendingum, vilja þjóðarinnar eða Þjóðkirkjunni í mannréttindamálum?

 


mbl.is Eitt erfiðasta deilumál kirkju og samfélags til lykta leitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega hugrökk kona - Wafa Sultan lætur Íslamista heyra það!

Arabísk-ameríski sálfræðingurinn Wafa Sultan gaf Íslamistum það sem þeir þurfa að heyra á múslímsku sjónvarpsstöðinni Al-Hayad í Kýpur nú 29. maí síðastliðinn.  Þettar er kona með bein í nefinu og talar hreint út.  Ég hef heyrt hana tala áður á arabískri sjónvarpsstöð og virðing mín fyrir henni fer stöðugt vaxandi.  Hún er frelsishetja og baráttukona á borð við þær Irsjad Manji, Maryam Namazie, Taslima Nasreem og Ayyan Hirsi Ali.

Hér er viðtalið við Wafa Sultan:

 

Hún gagnrýnir m.a. árásina á danska sendiráðið í Sýrlandi fyrir nokkrum árum og það má segja að sú gagnrýni hafi komið á réttum tíma nú þar sem sendiráð Dana í Pakistan varð nú fyrir sprengjuárás á dögunum.   Hún er ófeimin að benda á þá staðreynd að það eru trúarbrögðin sem leggja grunninn að þessum vandamálum og ofbeldi.  Múslímar þurfa fleiri svona fulltrúa sinnar menningar.


Sagan öll: Múhameð - mildur og réttlátur með dashi af illnauðsynlegri valdbeitingu.. eða hvað?

Hér kemur hún greinin sem ég talaði um að ég væri að vinna að þegar Skúli var rekinn út af moggablogginu. 

Saga Múhameðs spámanns múslíma hvítþvegin í tímritinu Sagan öll.

Ég fagna því að það eru nú tímarit á íslensku sem fjalla um sögu og gera það á aðgengilegan, líflegan og fræðandi máta fyrir alla.  Eitt þeirra Sagan öll hefur að undanförnu tekið fyrir sögu trúarbragða og þá sérstaklega helstu spámanna eða upphafsmanna þeirra.   Fyrir nokkrum mánuðum var tímaritið með umfjöllun um Jesú og kom þar með alls kyns snepla sem maður hafði ekki heyrt um áður, a.m.k. ekki í kristinfræðinni á meðan maður gekk í grunnskóla.   Greinin virtist a.m.k. tilraun til að lýsa staðreyndum byggðum á heimildum frekar en sögusögnum og gefa sjónarhorn fræðimannsins í stað þess sem gleypir við öllu hráu.

Í 2. tölublaði Sögunnar allrar 2008 er á forsíðu mynd af Múhameð spámanni múslíma með fyrirsögninni;  Múhameð – Kaupmaðurinn sem varð spámaður Allah“.  Þetta vakti forvitni mína og keypti ég blaðið í þeirri von að nú fengi ég að líta raunsanna frásögn af Múhameð í íslensku tímariti. Í ritstjóraspjalli tímaritsins skrifar Illugi Jökulson að ákveðið hafi verið að birta virðulegar myndir af spámanninum því „...að sú hefð í vestrænni blaðamennsku sem við fylgjum beinlínis krefst þess að myndir séu gerðar að viðfangsefninu.  Annað væri fáránlegt.   Gott og vel, en á bak við þessa hefð liggja mun meiri verðmæti, þ.e. tjáningarfrelsið og því þarf Illugi ekki að útskýra ákvörðun tímaritsins með vísan í hefðir.  Hefðir koma og fara en tjáningarfrelsi er varanlegt siðferðisgildi.  Forsíða 2 tbl Sagan öll 2008

Greinin um Múhameð spámann greinir í byrjun frá því þegar hann fær „vitrun“ og ákveður að hann verði að boða trú á Allah einan, meira að segja þó að hann væri „nauðugur viljugur í fyrstu“.   Æh! aumingja Múhameð - það er ekki allra að axla svo miklar byrðar.  Greinin rekur hvernig hann komst til áhrifa og valda á Arabíuskaganum og átti stutta valdatíð uns hann dó árið 632, aðeins 10 árum eftir að hann hélt úr Mekka með fáa fylgismenn.  Eftir lestur fyrstu síðunnar af fjórum varð mér ljóst að hér væri verið að birta mjög hvítþvegna hluta úr ævisögu spámannsins, svona eins konar barnasöguútgáfu.  Eftir lestur allrar greinarinnar var ég verulega vonsvikinn  því að það vantaði mikilvæga hluti í sögu Múhameðs miðað við það sem ég hef lesið í öðrum heimildum.   Hluti sem þægilegast er að þegja um.

Lesandinn fékk ekki að vita um þau fjöldamorð sem Múhameð bar ábyrgð á og í sérstakri aukagrein um „Konur Múhameðs“ var það fegrað hvað varð til þess að hann giftist Zaynab, áður eiginkonu stjúpsonar síns.   Ef ég hefði ekki lesið um sögu spámannsins annars staðar hefði ég haldið eftir lestur þessarar greinar að Múhameð hefði verið velviljað mikilmenni sem „nauðugur“ hefði háð stríð til að koma á réttlæti (í sínum stíl) og betri trú.   Hann hefði reyndar verið svolítill ruplari og strangur sem veraldlegur höfðingi í stríði, en maður sem þráði að útrýma skurðgoðadýrkun (sem hlaut að vera slæm), lifa í friði með Gyðingum (sem hann svo myrti í stórum stíl) og stunda góðgerðastarfsemi.    Svolítið harður af nauðsyn og kúl andlegur leiðtogi sem vildi smælingjum vel.

Það er að vísu minnst á að hann „hafi ekki verið neitt lamb að leika sér við“ sem veraldlegur höfðingi.   Sagt var frá því að eftir að flestum Gyðingaættbálkunum í „Jaþrib“ (ekki haft fyrir því að útskýra að það er Medína nútímans er hét áður Yathrib) hafi verið vísað burt hafði þeim eina ættbálki sem eftir var verið gert að snúast til hins nýja siðar.  Fáeinir undirgengust það en þeir karlmenn sem vildu halda fast í trú sína voru hálshöggnir; konur og börn hneppt í þrældóm“.   Þetta var því tillegg Múhameðs til „góðrar sambúðar við Gyðinga“ eins og sagt er að hann hafi viljað.  Allt er þetta nú látið líta út þannig að það hafi verið Gyðingarnir sem létu ekki Múhameð í friði þannig að hann hafi orðið að verja sig.  Það er næstum alveg sleppt að minnast á að flestir aðrir á Arabíuskaganum voru einnig á móti Múhameð þangað til að valið stóð um að annað hvort að fylgja honum ellegar vera drepnir.   Love and peace baby, yes love and peace!

Þá er undarlegur hluti frásagnarinnar í greininni þegar því er lýst að menn Múhameðs hafi unnið mikilvæga orrustu árið 624 við Badr.  Sagt er að þarna hafi verið um að ræða „frægan sigur og orðspor spámannsins óx mjög um allan Arabíuskaga.  Menn fóru að leggja eyrun við: kannski hafði þessi undarlegi kenningasmiður eitthvað fram að færa!  Vissulega var þetta eins konar „kenningasmiður“ sem notaði heiðna siði, gyðingatrú og Zoroastríanisma (7 himnaríki), til að bræða saman Islamstrú, en hví skyldu menn ætla að hann hefði eitthvað gagnlegt fram að færa út frá því ofbeldi sem hann beitti eða hernaðarsigrum?“  Kannski í hugum þeirra sem bugtuðu sig fyrir sverðinu.  Undarleg framsetning og ég sé ekki samhengið.  Ef maður hefur í huga að orðið „Islam“ á arabísku þýðir „hlýðni, undirgefni eða uppgjöf eða undirlægni*“ þá er e.t.v. ekki skrítið að þetta þyki mikilvægur atburður, þ.e. fyrsta mikla uppgjöfin fyrir Múhameð og jú, afsakið, auðvitað Allah.Bók Ibn Warraq

Önnur frásögn frumrita

Hér kemur að því að segja frá því hvernig fræðimaðurinn og fyrrum músliminn Ibn Warraq segir sögu Múhameðs í bók sinni; Why I am not a muslim - Prometheus books, NY, 2003.  Þessi bók er fagmannlega unnin og ríkulega studd með frumheimildum og beinum tilvitnunum í þær.

Á bls 93 í bók Warraq segir að eftir sigur Múhameðs við Badr hafi hann gerst mun ásæknari og hafið grimma herferð gegn öllum þeim sem mæltu honum mót. 

Fyrst tók hann al-Nader höndum en sá maður hafði gert grín að Múhameð þegar hann var í Mekka.  Al-Nader baðst vægðar og spurði Múhameð hver myndi sjá um dóttur sína: „Logar helvítis!“ hrópaði spámaðurinn og maðurinn var höggvinn niður.  Í súru 8.68 er aftakan blessuð: „It has not been for any prophet to take captives until he has slaughtered in the land.“  Ég treysti mér ekki að þýða þetta nákvæmlega en það er ljóst að spámaðurinn átti ekki að þurfa að halda föngum lifandi.

Næsta fórnarlamb Múhameðs var ljóðskáldið Asma bint Marwan sem tilheyrði Aws ættbálk araba.  Hún hafði aldrei farið leynt með andúð sína á Islam og taldi það kjánaskap að treysta ókunnugum manni sem barðist gegn eigin fólki.  Hún lýsti eftir því í ljóði hvort að einhver heiðursmaður myndi ekki stöðva Múhameð , en hann var fljótur að svara fyrir sig og sendi mann inn á heimili hennar í skjóli nætur þar sem hún var myrt innan um börn sín.  Fjölskylda hennar varð svo að taka upp Íslamstrú.  Hann lét svo myrða í svefni öldunginn Abu Afak sem hafði dirfst að gagnrýna hann í ljóði.

Múhameð hafði í byrjun gert friðarsamning við stóru gyðingaættirnar en fann leið til að ógilda þann samning.  Minniháttar rifrildi á markaðstorgi réttlætti árás spámannsins á Banu Qaynuqa ættbálkinn sem varð að gefast upp eftir umsátur og yfirgefa Medina fyrir fullt og allt.  Það var aðeins fyrir bón annars af stóru arabaættbálkunum (Khazrajites) að spámaðurinn þyrmdi lífi gyðinganna.  Múhameð fékk 1/5 af eigum þeirra og restin gekk til manna hans.  Á þessum tíma varð spámaðurinn fyrir þeirri vitrun sem segir frá í súra 3.12-13:  Segðu þeim sem eru vantrúa – Þið verðið sigraðir og safnað saman í helvíti, og hvílíkt illur hvílustaður er það!  Múhameð hélt áfram morðum sínum og þar sem hann vantaði liðsstyrk beitti hann brögðum eða fyrirsátum.   Menn hans plötuðu gyðinginn Kab ibn al-Ashraf með því að þykjast vera vinir hans og eftir það sagði Múhameð við menn sína: „Drepið alla gyðinga sem þið náið valdi yfir“.  Þetta varð m.a. til þess að fylgismenn hans fóru að drepa að óvörum vini sína meðal gyðinga.  Einn morðinginn sagði:  Ég dræpi bróður minn fyrir Múhameð!

Árið 627 reyndu ættbálkar frá Mekka að ráða niðurlögum Múhameðs í Medina með umsátri en mistókst.  Síðasti ættbálkur gyðinga í Medina sk. Banu Qurayza tóku að hluta til þátt í vörnum borgarinnar en voru að mestu hlutlausir á meðan umsátrinu stóð  (skv. afsakendum Múhameðs áttu þeir að hafa barist gegn honum). Múhameð ákvað samt að ráðast gegn þeim og þeir gáfust upp eftir stutta varnarbaráttu.  Þeir báðu um að yfirgefa borgina án eigna sinna en Múhameð bað mann af Banu Aws ættbálkinum að kveða upp dóm yfir þeim, en sá maður hafði hlotið slæm sár í herferðinni.  Dómurinn var dauðadómur yfir öllum karlmönnum Banu Qurayza gyðinganna og voru á milli 700-800 þeirra hálshöggnir á heilum degi.  Konur og börn voru hneppt í þrældóm og eignum skipt á milli fylgismanna spámannsins.  Ekki brást það svo að Múhameð fékk guðlega vitrun sem lagði blessun á dóminn. 

Í grein Sögunnar allrar segir um þetta:  Eftir [umsátur Mekka-manna] var síðasta Gyðingaættbálknum í Jaþríb [Medína] skipað að snúast til hins nýja siðar. Fáeinir undirgengust það en þeir karlmenn sem vildu halda fast í trú sína voru hálshöggnir; konur og börn hneppt í þrældóm.  Punktur.  Ekkert er minnst á hversu mikil slátrun þetta var og ekkert minnst á að í raun var dómur kveðinn upp yfir þeim öllum.  Í bók Warraqs er ekki minnst á að gyðingarnir hafi haft val um að snúast til Íslamstrúar í þessu tilviki.  Það væri hvort eð er ekki hægt að réttlæta morðin þó að slíkt „val“ hefði verið í boði.

Sagnfræðingar (skv. Warraq) hafa ýmist talið þennan verknað Múhameðs óheyrilega ranglátan,  fullkomlega afsakanlegan í ljósi stríðs eða hvorki réttlátan né rangan þar sem ekki sé hægt að dæma þetta út frá siðgæðisstöðlum nútímans.  Hinir síðast nefndu hafa farið frekar mildum orðum um örlög gyðinganna sem „bitur“ og að stríðsreglur þessa tíma hafi verið „harkalegar“.   Biturt og harkalegt í hugum hverra? Fólks á 20. öld eða 7. öld? Var skárra að deyja á 7. öld?  Voru fjöldamorð þá ásættanleg?  Ef það er ekki hægt að gagnrýna stríðsglæpi 7. aldar, er þá nokkuð hægt að hrósa því sem vel var gert á 7. öld eða 1. öld?  Warraq gagnrýnir slíka afstæðishyggju í siðferðislegri túlkun á mannkynssögunni og er ég honum sammála. 

Tengdadóttirin varð eiginkona

Frásögn þess sem skrifar í Söguna alla um aðdraganda þess að Mohameð spámaður tók sér tengdadóttur sína, Zainab fyrir konu er mjög frábrugðin frásögn Ibn Warraq.  Vitna ég nú í hina fyrrgreindu:

„Sænat bint Jasj var gift Saíd sem var ættleiddur sonur Múhameðs og Khadíju.  ... Saíd og Sænat áttu ekki skap saman og skildu og þá kvæntist Múhameð henni.  Sá ráðahagur mætti nokkurri gagnrýni þar sem hún hafði áður verið gift ættleiddum syni hans en sú gagnrýni var kveðin í kútinn.“

Vá, þetta er allt önnur frásögn en í bók Ibn Warraq sem byggir á frumheimildum.  Takið eftir orðunum „áttu ekki skap saman“ og „mætti nokkurri gagnrýni“.   Hver ætli hafi verið „kveðinn í kútinn“ og með hverju?  Sorry, ég bara spyr.

Hér er frásögnin eins og hún er birt í bók Warraqs:

„Dag einn fór spámaðurinn í heimsókn til fóstursonar síns, Zaid.  Zaid hafði verið einn af þeim fyrstu, reyndar sá þriðji sem hafði  tekið Íslamstrú og var mjög hliðhollur spámanninum.  Hann var giftur Zaynab bint Jahsh, frænku spámannsins.  Hún var mjög fögur.  Þegar spámanninn bar að dyrum þeirra var Zaid ekki heima en Zaynab lauk þeim upp og var ekki hulin miklum klæðnaði þannig að kyntöfrar hennar komu berlega í ljós.  Spámanninum varð að orði „Náðarsamlegi Drottinn, Góðir Himnar! hversu þú snýrð hjörtum karlmanna!“  Hann neitaði að ganga inn og snéri brot t í dálítilli ringulreið.  Zaynab hafði heyrt til spámannsins og sagði Zaid frá þeim þegar hann kom heim.  Zaid fór strax til spámannsins og af skyldurækni bauðst til að skilja við konu sína fyrir hann.  Múhameð hafnaði því og sagði „haltu konu þinni og óttastu Guð“.    Samt sem áður var Zainab gagntekin af þeirri hugmynd að giftast spámanninum og Zaid, sem sá að Múhameð þráði hana áfram, ákvað að skilja við hana.  Múhameð óttaðist þó almenningsálitið því sá verknaður að giftast fyrrum konu fóstursonar síns var talinn sifjaspell.   Eins og svo oft áður fékk hann vitrun sem gerði honum kleift að losna við hömlur sínar.   Hann sat við hlið konu sinnar Aisha þegar hann skyndilega féll í vitrunartrans og sagði: „Hver mun fara og óska Zaynab til hamingju og tilkynna að Drottinn hefur gefið mér hana í hjónaband?“.  Í Súrunni 33.2-33.7 segir því:  „Guð hefur ekki gefið karlmanni tvö hjörtu ... né hefur Hann gert ættleida syni þína að þínum eigin.  ... Láttu ættleidda syni þína bera nafn þeirra eigin feðra.  Þetta er réttlátara í augum Guðs.“  Við þessari vitrun átti kona spámannsins átti að hafa sagt af nokkurri hæðni; „Sannarlega virðist Guð þinn hafa verið fljótur að uppfylla bænir þínar“.

Sumir sagnfræðingar (Watts og fleiri) hafa afsakað þetta og sagt að þar sem Zaynab var orðin 35 ára hafi ekkert kynferðislegt átt sér stað í þessu heldur hafi þetta verið pólitískur ráðhagur hjá spámanninum.  Bókmenntir múslíma sjálfra túlka söguna á kynferðislegum nótum, þ.e. fegurð hennar lýst og að hún hafi verið lítið klædd og vindur feykt hári hennar til.  Múslíminn Muhammad Hamidullah, kom með þá túlkun að sterk orð Múhameðs um fegurð Zaynabs hafi aðeins verið til þess að undirstrika undrun hans á því að Zaid og Zaynab hefði átt að koma vel saman, en sagnfræðingurinn Rodinson telur að slíkt passi alls ekki við þá meiningu sem upphaflegi textinn skili.

[tilvitnun í bók Warraqs lokið]

 

Mér sýnist að sá sem skrifaði sögu Múhameðs í Sögunni allri hafi viljað afsaka spámanninn og gefa einungis túlkun Hamidullah á þessum atburðum.  Samkvæmt bók Warraqs var ekki venja meðal araba þessa tíma að stunda fjölkvæni en samt eignaðist Múhameð 13 konur ef marka má þann fjölda sem talinn er upp í Sögunni allri. 

Tilgangur skrifanna

Til hvers ætti ég að skrifa þessa grein og vekja athygli á mismunandi frásögnum um Múhameð spámann?  Til þess að draga upp dökka mynd af honum?  Nei til þess að draga upp þá mynd sem samkvæmt frumheimildum virðist vera sönn eða a.m.k. upprunaleg um hann.   Er maður með þessu að slá sleggjudóm um Íslam?  Nei, þó að Múhameð hafi farið með hernaði og útbreiðsla Íslam hafi  náðst að miklum hluta til með sverðinu, þá er ekki þar með sagt að múslímar í dag séu fólk sem vill með ofbeldi breiða út trú sína eða fyrirlíta fólk annarrar lífsskoðunar.   Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan.  Hins vegar ef maður spyr sig þeirrar spurningar; Hvers vegna eru svona margir hryðjuverkahópar til á meðal múslíma og hvers vegna virðast svo margir múslimar í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs telja að vopnaskak og stríð leysi vandamál þeirra?, þá hlýtur maður að leita að því hvort að helsta fyrirmynd þeirra og siðferðilegur leiðtogi, Múhameð spámaður hafi gefið ástæður til slíks hugsanagangs og verka.   Maður spyr sig einnig hvort að sú kvennakúgun sem á sér stað í þeim löndum þar sem sharia lög eru við lýði, eigi sér fyrirmyndir í lífi Múhameðs?  Eru múslímar að gera nokkuð annað en það sem Múhameð hefði talið rétt þeirra og skyldu?  Svari nú fróðir takk!

PS:  Ég vil taka það fram að eftir trúarbragðafræði í grunnskóla vissi ég að Múhameð var spámaður múslíma, guð þeirra héti Allah og að helgasta borg þeirra væri Mekka, sem þeir færu í pílagrímsferðir til.   Annað ekki. 

*leiðrétting eftir ábendingu Svans Gísla.  Sjá athugasemd hans og svar mitt við henni.


Með bíblíuna í pontu - orð Árna Johnsen á Alþingi stuðandi

Um breytinguna frá orðalaginu „kristið siðgæði“ yfir í „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ sagði Árni Johnsen á Alþingi Íslendinga nú á dögunum: 

Þá er látið undan dekurrófum, trúleysingjum og stjórnleysingjum víða um heim, fólki sem hugsar mest um sjálft sig en síður um að sinna náunganum af kærleik og góðvild.  Fólki sem hugsar ekki mikið um það að rækta lítillæti, þakklæti og auðmýkt, sem er nú grundvallaratriði í því að maður sé manns gaman án þess að nokkur skemmist.   Þetta er millileið og ég vil taka undir orð háttvirts þingmanns Guðna Ágústssonar, að það er miður að menn skuli slaka á klónni.

...

Kristindómur er okkar ankeri.  Við erum ankeri annarra þjóða sem hafa önnur trúarbrögð.

...

Við eigum ekki að hafa neina afsökun á grunni okkar siðfræði og siðgæði [kristnin].

...

Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um.

...

Ræða Árna fór út um víðan völl og barst tal hans að kristniboði.  Um kristniboð sagði Árni:

Hið eina sem voru trúarbrögð í Konsó áður en íslenskir kristniboðar komu þar til starfa, það var að trúa á hið illa.  Það var bara misjafnlega mikið illt sem gat hent fólk og þetta eru einfaldar staðreyndir. 

Og þetta [kristniboðið] olli því að nú er þar fólk sem líður betur.  Stærstur hlutinn kannski af þessari kristindómsfræðslu var heilbrigðisfræði – að kenna hreinlæti, að kenna ræktun, að kenna einfalda hluti sem bættu kjör og bættu líf.   ... Og við eigum að læra af þessu og standa vörð um það sem hefur reynst okkur vel og gæta þess að þynna það ekki út.

Við þurfum að styrkja kristnifræðina í skólum landsins, þó að við getum kennt líka um önnur trúarbrögð, en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það.

 

[feitletrun er mín, en höfuðstafir lýsa hækkaðri rödd Árna]

Það má hlusta á alla ræðu Árna á vef Alþingis hér.

 

Það hryggir mig óumræðanlega að Árni Johnsen skuli slá svona sleggjudóma um fólk sem er Höfundur með Árna á Lundaballi 2006trúlaust því ég tek það til mín og þess góða fólks sem er trúlaust í kringum mig.  Árni þekkir mig persónulega og ég veit ekki betur en að hann viti að ég er trúlaus.  Viðskipti mín við Árna hafa einkennst af góðvild minni í hans garð og vináttu.  Ég er ákaflega sár yfir þessum orðum hans á Alþingi.  Ég er einnig sár fyrir hönd allra þeirra trúlausra á Íslandi sem ég hef ekki nema verulega góða reynslu af og tel alls ekki eiga þessi orð Árna skilið. 

Þá hryggir mig verulega þau orð sem hann hafði um fólk í Konsó.  Í öllum þjóðfélögum er fólk sem hefur velvilja og kærleik.  Öll trúarbrögð, líka þau sem sumir kalla frumstæð, hafa einhvern góðan boðskap.  Útkoman er misjöfn en þessi sleggjudómur Árna yfir þessu fólki og sú upphafning sem hann setur kristniboðið í, er það sem kalla má hroki.  Ef eitthvað er hroki þá er það þetta.  

Með þeirri tillögu að taka út orðin „kristið siðgæði“ úr lögunum var ekki verið að leggja til að taka út kristinfræðikennslu.   Sú tillaga kemur kennsluefninu í raun ekkert við.  Orðin voru í samhengi við gildi sem ætti að hafa að leiðarljósi í öllu skólastarfi.   Það er munur á skólastarfi og aftur námsefni.  Megin línur námsefnis eru ákveðnar í aðalnámsskrá, ekki með lögum nema að því leyti að setja umgjörðina.

Kristinfræði í skólum er nú þegar ríkjandi og kennd út frá sjónarmiði trúmannsins sem setur fram efnið eins og það er einnig sett fram í sunnudagaskólum Þjóðkirkjunnar.  Það er ekki tekið á því fræðilega með því að tala um að það skorti heimildir fyrir ýmsu og að Biblían hafi verið samin löngu eftir dauða Krists.  Það er ekki sagt frá mismunandi fylkingum gyðinga á tímum Jesú og ekki minnst á Dauðahafshandritin.  Það er ekki tekið fram að kristni tók og aðlagaði margt úr trúarbrögðum annarra, m.a. heiðingja.  Hvers vegna heitir sunnudagur sunnudagur?  Engin tilraun er gerð til að bera saman trúarbrögðin á þessum tímum.  Heimsspeki Forn-Grikkja fær sorglega litla umfjöllun en samt er hún helsti grundvöllur endurreisnarinnar, upplýsingarinnar og þróun nútíma siðferðis. 

Sú kristinfræði og boðun Þjóðkirkjunnar sem Árni Johnsen lærði hefur tekist fullkomlega í þeim tilgangi að boða hina „einu sönnu trú“.  Lyktin af yfirganginum, sjálfsánægjunni, valdníðslunni, tröðkun á rétti annarra til að hafa eigin sannfæringu og lifa í friði með hana á opinberum stöðum, rýkur af þingmanninum.  Hvernig er hægt að láta svona heyrast á Alþingi?  Orð Árna „en OKKAR STEFNA, OKKAR TRÚ ER KRISTIN TRÚ! og það er skylda okkar að verja það“ og „Þetta eru atriði sem ég tel að við eigum ekkert að semja um“, endurspegla manneskju sem hefur engan skilning á orðinu sannfæringar- eða trúfrelsi.  Svona talar fólk sem heimtar að beygja allt og alla undir sig.  Hann talaði um „... það er miður að menn skuli slaka á klónni“.   Hefur þjóðkirkjan kló?  Hefur Alþingi kló?  Af þessum orðum er það helst að dæma að hann vilji koma öðrum undir vilja sinn með aðferðum rándýrsins.  Talar hér maður af heilindum og samkvæmi sem sakar trúlausa um vöntun á auðmýkt?

Þannig virðist hann ekkert hafa lært í skólakerfinu eða lífinu um hvað sannfæringarfrelsi þegna landsins snýst.  Hann skilur ekki mikilvægi aðskilnaðar ríkis og trúar.  Hann skilur ekki hvers vegna 30 ára stríðin voru háð í kjölfar siðaskiptanna og endurreisnartímans sem lauk um miðja 16. öld.  Hann skilur ekki frekar en svo margir aðrir, af hverju ein mikilvægasta þjóðfélagbreyting upplýsingarinnar var aðskilnaður stjórnmála og trúarbragða.  

Ég get haldið lengi áfram en mér blöskraði verulega að hlusta á þessa ræðu Árna.   Sjálfsagt meinar Árni vel og reynir á sinn hátt en það fjarlægir ekki ábyrgð hans á orðum hans.  Hvílík vonbrigði eru það að þessi annars vinalegi maður sem gæddur er ýmsum hæfileikum skuli standa sem einn af fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi talandi þessi orð fordóma og skoðanakúgunar. 


Frumvarp laga um grunnskóla samþykkt á Alþingi í gær.

Svona hljóðaði breytingartillaga menntamálaráðherra sem var víst samþykkt í gær ásamt öllu frumvarpinu með 52 atkvæðum, engu á móti og 11 fjarverandi:

1.      Við 2. gr.
                a.      2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.

Ég man að það kom upp sú hugmynd eftir deilurnar í vetur að setja inn fleiri atriði til þess að allir yrðu ánægðir.  Mér sýnist þannig að "kristin arfleifð íslenskrar menningar" eigi þannig að friðþægja kristna og "virðingu fyrir manngildi" að friðþægja húmanista.  Þetta hefur þeim greinilega þótt verulega snjallt og Höskuldur Þórhallsson (xB) gaf þeim síðan í menntamálanefnd hina fullkomnu afsökun fyrir því að halda inni kristninni með því að segja að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu (MRDE) s.l. sumar hafi alls ekki fjallað um að ekki mætti hafa kristna áherslu.  

Gallinn við þetta er sá að hér er framkvæmd jafnréttis og veraldlegra laga algerlega sniðgengin og misskilin.  Maður gerir ekki lög hlutlaus í anda jafnréttis með því að hlaða inn merkimiðum þeirra sem gala hæst.  Hvernig yrðu mannréttindasáttmálar ef þeir ættu að innihalda alls kyns friðþægingar og eyrnamerkingar lífsskoðunarhópa, hvort sem þeir væru trúarlegir eða ekki?  Slíkir sáttmálar yrðu fljót bitbein mismunandi  þjóðarhópa, trúarhópa og pólitíkusa. 

Húmanistar báðu ekki um að bætt yrði inní þetta "virðingu fyrir manngildi" þó að það reyndar ætti að vera gildi sem allir ættu að geta virt og óháð trú.  Biskup Þjóðkirkjunnar hefur þó talað með fyrirlitningu um áherslu á manngildið í ræðum sínum t.d. um síðustu áramót.  Slíkt virtist ógna "guðgildinu hans".  Aftur orðin "...kristinni arfleifð íslenskrar menningar" eru greinilegur merkimiði einnar trúar og einnar trúarmenningar.   Með þessu er verið að mismuna annarri arfleifð í lögum t.d. arfleifð húmanismans, skynsemishyggjunnar, ásatrúarinnar eða búddismans.  Arfleifð húmanismans er stór á öllum vesturlöndum og Ísland er þar engin undantekning.  Ásatrúin hefur einnig haft sín áhrif þó hún verið kæfð niður að mestu árið 1000. Arfleifð búddismans er nýleg og trúlega ekki mikil en það skiptir ekki máli hver stærðin er. 

Jafnrétti í skólastarfi felur ekki í sér að meirihluti fái sínu framgengt.  Jafnrétti felur í sér að allir fái að senda börn sín í skóla landsins án þess að verða fyrir boðun eða áhrifum arfleifðar eins ákveðins trúfélags, sama hversu stórt eða lítið það er.  Fólk sem vill áhrif ákveðins trúfélags á börnin sín getur sent þau í trúarlega einkaskóla en vonandi verður það nú ekki raunin hér því sameiginlegur hlutlaus skóli er ákaflega dýrmætur fyrir kennslu umburðarlyndis og samlögunar fólks í landinu, sama frá hvaða uppruna eða lífsskoðun það er.   Reynslan af sérstökum skólum trúfélaga er herfileg erlendis því slíkt grefur undan umburðarlyndi og skapar gjá milli fólks vegna trúarbragða.  Ekkert barn á að stimpla "kaþólskt barn" eða "krstið barn" frekar en eftir stjórnmálaflokkum, "íhaldsbarn". 

Nú má vera að ýmsar nauðsynlegar og góðar breytingar hafi verið í frumvarpinu en þessi hluti þess breyttist úr hugrakkri tilraun til jafnréttis með því að taka út "..kristilegt siðgæði" og setja inn nokkur almenn siðferðisgildi, í að vera skrípaleikur til að friðþægja Þjóðkirkjuna, sem með hræðslu sinni um "siðferðilegt tómarými" og "úthýsingu kristinnar menningararfleifðar úr skólunum" gat sveigt menntamálaráðherra á endanum.  Það fólk sem getur neitað sjálfum sér og sínum um sérréttindi er jafnan það sterkasta siðferðilega.  Þorgerður Katrín virtist stefna á þá braut í vetur og svaraði væli Guðna Ágústssonar í Kastljósþættinum eftirminnilega með rökfestu og áræðni.  Þar kom fram að aðspurður taldi Guðni að "kristið siðgæði" væri að "vernda Þjóðkirkjuna".  Eftir hrakfarir Guðna kom annar framsóknarmaður, Höskuldur Þórhallsson lögfræðingur og alþingismaður, í staðinn fram á sjónarsviðið sem verndarengill kristninnar og hafði nú Þorgerði Katrínu undir með því að aftengja málið frá dóm MRDE.  Mál norsku foreldrana gegn norska ríkinu var flókið en megin niðurstaða þess var sú að ríkinu væri ekki stætt á því að skylda foreldrana til að fá bara undanþágur að hluta fyrir börnin sín frá kennslu um kristni, trúarbrögð og heimspeki, því námsefnið væri augljóslega of vilhallt kristni og framkvæmd hlutaundanþágu væri óraunsæ.  En skipti það í raun nokkru máli hvort að dómur MRDE hafi ekki nákvæmlega fjallað um markmiðalýsingu í lögum um starf í grunnskólum?  Getur ekki hver maður sem skilur hvert dómur MRDE stefndi, séð að hann var norska ríkinu í óhag vegna mismununar og ójafnréttis?  Augljóslega ekki Höskuldur og þingheimur virðist hafa trúað honum eða ekki haft nennu til að skoða málið nánar.

Það þarf ekki úrskurð MRDE til að sjá hversu rangt það er að blanda trúarbrögðum inn í lög um menntun barna.  Börn eru áhrifagjörn og þau á að vernda frá áhrifum utanaðkomandi aðila í skólastarfi.  Hlutverk skólanna er nær einungis að auka þekkingu barna og færni í margs kyns hugarfarslegri tækni auk líkamlegri í leikfimi.   Uppeldið fer fram á heimilinum þó auðvitað seti kennarar gott siðferðilegt fordæmi með framkomu sinni og faglegum kennsluháttum.  Það er ekki hlutverk kennara að siða nemendur sína þó því miður lendi þeir að hluta í þeirri aðstöðu þegar óstýrilát börn eiga í hlut.

Það er virkileg skömm að þessu orðalagi um arfleifð ákveðins trúfélags í grunnskólalögum.  Hver er réttlæting þingmanna á þessu?  Þreyta? Drífa þetta í gegn?  Skiptir ekki máli? Ahh, látum þetta flakka svo deilurnar hætti?  Mistök.  Nú munu deilurnar halda áfram.  Ég mun a.m.k. ekki þagna.  Þetta er verulega dapurt í ljósi þess að nú þykjumst við Íslendingar hafa þroska til þess að sitja í Öryggisráði SÞ.  Hvernig ætlum við að útfæra jafnrétti þar?


Tvennt verulega athyglisvert

Það er tvennt verulega athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ungra vinstri grænna.

Í fyrsta lagi er það hugrekki þeirra og ást á jafnrétti sem skín í gegnum mál þeirra því það eru fáir sem hafa hugrekki til að fjalla um mál lífsskoðana í stjórnmálum í dag.  Í síðustu kosningum voru þessi mál algerlega skilin útundan.

Í öðru lagi er það hugrekki þeirra og heiðarleiki að koma opinberlega fram með gagnrýni á afstöðu eða afstöðuleysi eigin þingmanna í þessu máli. 

Það er alltaf að koma betur í ljós sú vanþekking sem ríkir í þjóðfélaginu og á meðal margra þingmanna úr öllum flokkum á því hvert sé gildi veraldlegrar skipunar á menntakerfinu og hinu opinbera.  Þetta fólk virðist ekki geta skilið á milli þess sem er ríkjandi lífsskoðun eða ríkjandi hópur í stærð eða sögu trúfélaga og þess að leiðbeinandi gildi í skólastarfi (eða t.d. þingmennsku) geta ekki verið eyrnamerkt í lögum slíkum hóp eða hópum.  Lög geta ekki verið tileinkuð einni arfleifð umfram annarrar því annars er verið að mismuna og skapa sundrungu, alveg sama hversu stór við höldum að sú arfleifð sé.  Ekki dettur okkur t.d. í hug að tileinka og merkja lög um störf dómara ákveðinni nefndri hugmyndafræði eða lög um Alþingi ákveðnum stjórnmálaflokkum, þó stærstir séu. 

Skólar eru ekki trúarstofnanir, heldur trúarlega og stjórnmálalega hlutlausar menntastofnanir.  Það þýðir ekki þar með að skólastarf sé tómt hugmyndafræðilega eða villu ráfandi siðferðilega.  Við höfum almenn gildi til að fara eftir líkt og kveðið er á um í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og stungið var uppá að færi í lög um skólastarf í stað hins trúarlega mismunandi og óljósa orðalags "kristilegs siðgæðis".  Siðferðisgildin sjálf er allt sem þarf að nefna og lög án merkinga skapa frið um skólastarfið sem á að vera fyrir alla þegna landsins, ekki bara kristna.

Einnig má hér minna á að kristin arfleifð á sér bæði góðar og slæmar hliðar, þannig að hún er umdeild bæði í dag og alla hennar sögu.  Hún er heldur ekki eina arfleiðin og að mínu áliti og margra annarra ekki sú mikilvægasta.  Arfleifð lífsspeki Forn-Grikkja, endurreisnarmanna (1300-1550) og svo hugsuða upplýsingarinnar (u.þ.b. 1650-1850) er sú arfleiðs sem færði okkur einstaklingsfrelsi, kosningarétt, lýðræði, frjálsar ástir, jafnrétti kynjanna, tjáningarfrelsi, sannfæringarfrelsi og vísindalega gagnrýna hugsun.  Oft tíðum náðust þessi verðmæti þrátt fyrir harða andstöðu kirkjunnar (sbr Galilei Galileo og Vatíkanið) þó vissulega væru góðar undantekningar því meðal klerka eða guðfræðinga sem iðkuðu vísindi og færðu okkur nær einstaklingsfrelsi en áður var.  Nefna má þar t.d. guðfræðinginn Desiderius Erasmus frá Rotterdam sem síðar fékk þann heiður fá verk sín listuð á Skrá hinna bannfærðu bóka hjá Páfanum í Róm.

Þó að ég telji hina húmanísku arfleifð mikilvægari en hina kristnu, þá dettur mér ekki í hug að biðja um að nefna húmanisma eða arfleifð hennar í lögum.  Skólastarf mótast fyrst of fremst af faglegri nálgun og þekkingu kennara rétt eins og starf lækna mótast af faglegri nálgun þeirra og sérstökum siðareglum í starfi.  Siðareglur lækna bera ekki trúarlega merkimiða.  Það er algert aukaatriði hvaðan gildin koma, hvort að það var kristinn maður, búddisti, múslimi eða húmanisti sem kom með góðar siðferðishugmyndir.  Það skiptir mestu að gildin sjálf, sem eru sammannleg og algild séu höfð að leiðarljósi.  Þjóðfélag er samstarf og það geta ekki allir skrifað undir eða eignað sér heiður.  Hið sameiginlega, hið opinbera í lífi okkar þarf einfaldlega að virka og vera miðað að ákveðnum markmiðum og tilgangi óháð uppruna eða sögu. 

 


mbl.is Ung VG lýsa yfir óánægju með þingmenn VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref - fyrsta veraldlega útförin á vegum Siðmenntar

Þann 9. maí síðastliðinn stýrði ég fyrstu veraldlegu útförinni á vegum lífsskoðunarfélagsins Siðmenntar.  Þannig fetaði ég í fótspor Jóhanns Björnssonar sem hélt fyrstu veraldlegu giftinguna á vegum félagsins í september síðastliðnum.  Þessir tveir viðburðir marka upphafið af nýjum félagslegum valkostum fyrir fólk sem aðhyllist ekki trú á æðri mátt.  Ahöfnum Siðmenntar er stýrt af athafnarstjórum (enska: celebrant, officiant) og þær eru að flestu leyti sambærilegar kirkjulegum athöfnum hvað uppbyggingu varðar.  Efnistökin eru þó önnur því ekki er farið með ritningar, sálma eða annað trúarlegt innihald.  Farið er með hugvekju því þær geta jú einnig verið veraldlegar.  Tilgangur hugvekju er að vekja til umhugsunar og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.

Eins og er á Siðmennt ekkert húsnæði til að halda athafnir sínar í, þannig að félagið þarf að reiða sig á húsnæði sem reist hefur verið fyrir sameiginleg kirkjugarðsgjöld allra landsmanna.  Í Bænhúsinu í Fossvogi þar sem útförin var haldin er stór viðarkross á endaveggnum en hann er viðarlita og fellur inní bakgrunninn.  Fólkið í Siðmennt gerir sér grein fyrir því að þau húsnæði sem það mun eiga völ á Húmanísk minning - ljósm: Svanur Signæstu árin verða ekki alltaf fullkomlega í takt við lífsskoðun þess, en það pirrar sig ekki á því.  Aðal atriðið er að vera komin af stað með athafnir með því innihaldi sem samræmist lífsskoðun húmanista.  Fólk allra lífsskoðana, trúarlegra og veraldlegra þarf að lifa í sátt saman í landinu og sýna hvort öðru umburðarlyndi.  Vð þurfum alltaf að minnast þess sem við eigum sameiginlegt þó að við deilum og skiptumst á skoðunum einnig. 

Í lok maí mun Siðmennt tilkynna formlega upphaf athafnarþjónustu sinnar.  Í undirbúningi er kynningarefni í formi bæklinga og viðbótarefni við kynningarefni á vefsíðu félagsins.   Sá sem hér skrifar mun halda stutta kynningarfyrirlestra víða um land í framhaldinu. 

Sex athafnarstjórar hafa fengið þjálfun og skammt er í að fyrstu nafngjöfinni verði stýrt af einum þeirra.  Þá verða fyrstu skrefin stigin í öllum fjórum klassísku félagslegu athöfnum fjölskyldna hjá Siðmennt.  Það ver vel á því að þessi skref eru stigin nú þar sem Borgaraleg ferming Siðmenntar á 20 ára afmæli í ár.

Ástæða þess að ekki tókst að bjóða uppá veraldlegar/húmanískar nafngjafir, giftingar og útfarir fyrr er sú að félagið vildi ekki rjúka út í slíka þjónustu án góðs undirbúnings.  Fjármagn hefur einnig skort þar sem félagið nýtur ekki sömu fyrirgreiðslu og trúfélög hjá hinu opinbera vegna laga sem viðurkenna aðeins trúarlegar lífsskoðanir (lög um skráningu trúfélaga).  Í fyrra fékk Siðmennt tvo myndarlega styrki frá einkaaðilum og hefur það verið mikil lyftistöng. 

Í fyrravor fékk félagið kennslu og þjálfun fyrir verðandi athafnarstjóra hjá kennara frá systursamtökum Siðmenntar, Human Etisk Forbund (HEF) í Noregi.  Sú aðstoð var veitt ókeipis.  Ég var svo skipaður umsjónarmaður þjónustunnar og þess undirbúnings sem nauðsynlegur var.  Síðastliðið haust sótti ég ráðstefnu hjá British Humanist Association um húmanískar/veraldlegar athafnir og var það mjög gagnlegt.  Bæði Norðmenn og Brétar hafa áratuga langa hefð í framkvæmd þessara athafna og eiga mikið af bókmenntum um efnið.  Vefsíðu Siðmenntar var breytt til mikilla bóta var Sigurður Hólm Gunnarson umsjónarmaður þess verkefnis.  Allt kynningarefni um veraldlegar/húmanískar athafnir þar hefur verið uppfært og er þar m.a. útskýrt notkun á orðunum veraldlegur, húmanískur og borgaralegur, en það er ekki alveg sama hvernig þau eru notuð.

Ég vil þakka Siðmennt það traust sem það hefur sýnt mér í gegnum allt þetta ferli og fjölskyldunni að Hólastekk fyrir að treysta okkur fyrir útförinni.  Í annað sinn braut hún blað í sögu veraldlegra athafna (sonur þeirra var í fyrsta borgaralega fermingarhópnum 1989) með Siðmennt og er það ákaflega mikils virði fyrir félagið og fólk sem aðhyllist sömu lífsskoðun á Íslandi.  Húmanísk lífsmenning á Íslandi á bjarta framtíð fyrir sér. 


mbl.is Fyrsta útförin á vegum Siðmenntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf Einsteins

Nýlega kom fram í sviðsljósið bréf eftir Albert Einstein þar sem hann tjáir sig um trúmál.  Menn hafa lengi deilt um hvort að Einstein væri trúaður eða trúlaus.  Hann vitnaði stundum í guð en það hefur ýmist verið túlkað sem tilvísun í náttúruna eða sem trú á guð.  Bréfið sem nú er komið fram er skrifað 1954 og hefur verið í einkaeign frá 1955 en nú á að selja það á uppboði.  Þar skýrist talsvert afstaða Einsteins en e.t.v. má enn deila um meiningar hans. 

Bréfið eins og það er birt í The Guardian:

An abridgement of the letter from Albert Einstein to Eric Gutkind from
Princeton in January 1954, translated from German by Joan Stambaugh. It
will be sold at Bloomsbury auctions on Thursday

... I read a great deal in the last days of your book, and thank you very
much for sending it to me. What especially struck me about it was this.
With regard to the factual attitude to life and to the human community we
have a great deal in common.

... The word God is for me nothing more than the expression and product of
human weaknesses, the Bible a collection of honourable, but still
primitive legends which are nevertheless pretty childish. No
interpretation no matter how subtle can (for me) change this. These
subtilised interpretations are highly manifold according to their nature
and have almost nothing to do with the original text. For me the Jewish
religion like all other religions is an incarnation of the most childish
superstitions. And the Jewish people to whom I gladly belong and with
whose mentality I have a deep affinity have no different quality for me
than all other people. As far as my experience goes, they are also no
better than other human groups, although they are protected from the worst
cancers by a lack of power. Otherwise I cannot see anything 'chosen' about
them.

In general I find it painful that you claim a privileged position and try
to defend it by two walls of pride, an external one as a man and an
internal one as a Jew. As a man you claim, so to speak, a dispensation
from causality otherwise accepted, as a Jew the priviliege of monotheism.
But a limited causality is no longer a causality at all, as our wonderful
Spinoza recognized with all incision, probably as the first one. And the
animistic interpretations of the religions of nature are in principle not
annulled by monopolisation. With such walls we can only attain a certain
self-deception, but our moral efforts are not furthered by them. On the
contrary.
 
Now that I have quite openly stated our differences in intellectual
convictions it is still clear to me that we are quite close to each other
in essential things, ie in our evalutations of human behaviour. What
separates us are only intellectual 'props' and 'rationalisation' in
Freud's language. Therefore I think that we would understand each other
quite well if we talked about concrete things. With friendly thanks and
best wishes

Yours, A. Einstein

Því miður hef ég ekki tíma til að þýða bréfið en það er athyglisvert, m.a. að hann telur að

"orðið Guð sé ekkert meira en tjáning og afleiðing mannlegs veikleika og Biblían sé samansafn ærlegra, frumstæðra þjóðsagna sem eru samt sem áður talsvert barnalegar."

En hvers vegna er fólki svona annt um að finna út hvaða skoðun Einstein hafði á trúmálum?  Líklega vegna þess að hann er talinn einn mesti hugsuður 20. aldarinnar og álit hans hlýtur að skipta máli. Vægi orða hans hlýtur þó fyrst og fremst að skapast af rökvísi þeirra og innihaldi, ekki frægð hans sem eðlisfræðings.  Richard Dawkins fjallar heilmikið um Einstein í bók sinni "The God Delusion" og færir þar sannfærandi rök fyrir því að Einstein hafi stundum notað guðshugtakið í því skyni að tákna hið undursamlega og óþekkta í náttúrunni eða himingeimnum, en ekki til að trúa á í sama skilningi og guð kristinna eða gyðinga.  Þetta bréf hér sýnist mér ýta undir þá túlkun.  Þá er nokkuð ljóst að hann hefði ekki tekið þátt í ráðgefandi sérfræðingaráði alþjóðlegu húmanistasamtakanna www.iheu.org við stofnun þess árið 1952 ef að hann hefði verið trúaður.  Ég leyfi Einstein að hafa síðasta orðið:

"Í mínum huga er trú gyðinga rétt eins og öll önnur trúarbrögð, holdi klædd hjátrú eins og þær gerast hve barnalegastar."

 


Hvundagshetja: Esther Ösp Gunnarsdóttir

Kennari í Grunnskólanum á Egilstöðum, Esther Ösp Gunnarsdóttir komst í fréttir 24-stunda þann 1. maí s.l. (bls 38) af því að hún neitaði að dreifa kynningarbæklingi fyrir kristilegar sumarbúðir til nemenda sinna í 7. bekk.  Haft var eftir henni: "Ætlast var til þess að ég myndi dreifa þessum bæklingi til krakkanna í bekknum mínum.  Það harðneita ég að gera."

Esther Ösp Gunnarsdóttir kennari

Hér er greinilega kona með bein í nefinu sem þorir að standa við sína skoðun á því hvað er rétt og hvað er rangt.   Hún hefur einnig snarpan skilning á því hvernig vernda á börn í opinberum skólum frá mismunun.  Esther Ösp:

"Mér finnst þetta bara svolítið hæpið í ljósi þess að hér á að ríkja trúfrelsi og sífellt að verða lögð meiri áhersla á umburðarlyndi gagnvart öllum trúarbrögðum og fólki af hvaða uppruna sem er, sem er bara af hinu góða.  En þá stangast þetta á við það þegar skólinn er farinn að taka að sér að dreifa kynningarbæklingum um trúarlegt starf." [áherslubreytingar eru mínar]

Að hennar sögn sýndu stjórnendur skólans ákvörðun hennar fullan skilning.  Það er léttir að heyra það en í raun ættu þeir að ganga lengra og biðja hana og aðra kennara afsökunar á þessu og hætta allri dreifingu bæklinga um trúarstarfsemi strax.  Allir skólar landsins ættu að fara að hennar dæmi.

Esther Ösp sagði einnig:  "Ég veit ekki alveg hvort að þetta er fréttnæmt.  Ég hugsa að það hafi fleiri kennarar en ég gert þetta í gegnum tíðina".   

Góður punktur hjá Esther Ösp.  Þetta ætti ekki að vera fréttnæmt því það sem hún gerði á að vera hið viðtekna.  Það sem er í raun fréttnæmt við þetta er að stjórn skólans er að brjóta á jafnréttisákvæðum stjórnarskrárinnar og grunnskólalaga þar sem segir að ekki megi mismuna fólki eða nemendum í skóla eftir trúarbrögðum.  Að auki er verið á brjóta á siðareglum kennarara þar sem segir að þeir eigi ekki að stunda trúboð í skólum.  Í grunnskólalögum segir að skólinn sé ekki trúboðsstofnun. 

Þá bætti hún við að "sér finndist algjör óþarfi að kennarar sinni einnig starfi bréfbera.  Kennarar hafi nóg að gera þó þeir fari eki að taka að sér hlutverk póstburðarfólks líka, bara til þess að spara kirkjunni örfáar krónur". [áherslur eru mínar]

Þetta er enn einn vinkillinn og rétt athugaður hjá Esther Ösp.  Grunnskólinn er menntastofnun, ekki útibú trúarstofnana.  Til þess að skólinn geti gegnt hlutverki sínu óáreittur þarf hann að vera laus við ágang eða greiðasemi fyrir stjórnmálaflokka eða lífsskoðunarfélög, þ.m.t. trúfélög.  Það er lína sem þarf að draga bæði út frá praktískum sjónarmiðum og verndun barna skólans frá áhrifum félaga utan hans.  Öðru vísi verður heldur ekki tryggt að um mismunun hljótist ekki af vegna trúarskoðana foreldra barnanna og að friður skapist um skólastarfið.  Það er skýlaus réttur foreldra að sjá um skoðanalegt uppeldi barna sinna utan skólans.  Hlutverk skólans er að bera fram upplýsingar í kennsluefni og mennta börnin á hlutlausan máta.  Hann gefur börnunum þau tæki, tól og tækni sem þau þurfa til að gera upp hug sinn um hin ýmsu málefni síðar meir.  Hlutverk skólans er að bera fram staðreyndir á eins hlutlausan máta og hægt er.  Þannig þjónar hann best sannri þekkingu og framtíð barnanna án þess að mismuna uppruna þeirra.

Kennarinn Esther Ösp er hvundagshetjan mín.  Ég tek hatt minn ofan.

---

Sjá umfjöllun 24-stunda (bls 38), fréttablaðsins Austurglugginn og bloggsíðu Estherar Aspar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband