Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Dularfull óvissuferð

Eldsnemma í fyrramálið fæ ég og mín kjereste símtal.  Ég veit að við fáum símtalið en ekki frá

Í dimmu Drekagili - eintóm hamingjahverjum.  Okkur verður sagt hvert við eigum að fara.  Fyrir mánuði síðan fengum við ómerkt og óundirritað boðskort um að okkur væri boðið í óvissuferð.  Dagurinn er runninn upp og við höfum ekki guðmund um það hver bauð okkur.  Spennandi... eða e.t.v. dálítið krípí.  Hvað ef þetta er bara hrekkur eða einhver brjálæðingur ætlar að ræna okkur?  Hljóma ég paranoid? Crying

Á maður að fara í svona ferð vitandi ekki neitt hver lagði á ráðin og hvað er í vændum?  Jú, annað væri púkó.  Við tökum stökkið.  Ég lofa ferðasögu komist ég aftur heim.  dadodado...darumdarumm..twilight zone...

 

 

 

Farskjótinn

 

 


Frá mér numinn af hrifningu!

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi, já gæfu, að fá miða á opnunarmynd alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF), sem heitir SigurRós - Heima og fjallar um hringferð SigurRósar um landið í fyrrasumar.  

Myndin er óður til landsins og íslensku þjóðarinnar sem höndluð er að þeim blíðleika, næmu auga fyrir náttúrufegurð og mannlegu innsæi ólíkt nokkru því sem ég hef séð fyrr á hvíta tjaldinu.  Tónlistin var yndisleg.  Í mínum augum og í mín eyru er þessi fallega kvikmynd hreinlega tær snilld - fullkomið listaverk.

Þess þarf vart að geta að auðvitað hvet ég alla til að sjá SigurRós - Heima


mbl.is Alþjóðleg kvikmyndahátíð hefst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 grænir þingmenn

Fylgjendur Sri Chinmoy á Íslandi fengu undirskrift 50 íslenskra þingmanna til stuðnings þeirri tillögu að Sri Chinmoy fengi friðarverðlaun Nóbels.  Þessir þingmenn virðast hafa gert þetta í trausti þess að sá sem mælti með Sri Chinmoy vissi sínu viti og að Sri Chinmoy væri friðarhetja.  Af mikilli velvild og okkar séríslenska græningjahætti gagnvart óviljandi misnotkun skrifuðu 50 fulltrúar lýðveldisins undir.

Vissulega lítur maðurinn friðarlega út í kuflinum sínum og hugleiðsla er jú ákaflega friðsæl.  En hafði hann gert eitthvað annað en að vera gúrú?  Hefur Sri Chinmoy skilað einhverju markverðu til friðarmála annað en tala um frið á samkomum?  Ég hef ekki séð neitt sem sannfærir mig um slíkt og talsmaður hans í kastljósinu í vikun bar ekki fram neinn sannfærandi vitnisburð um slíkt.  Það gæt þó verið að hann hefði stuðlað að friði einhvers staðar.  Ég ætla ekki að útiloka það.

Hins vegar er það umhugsunarefni að Sri Chinmoy er leiðtogi samtaka sem að mörgu leyti minna á trúarkölt.  Ýmsar reglur sem hann leggur fólkinu sem aðhyllist kenningar hans eru óeðlilegar, eins og þær að kynlíf sé slæmt og það er erfitt að yfirgefa hópinn án þess að sæta miklum ámælum.  Þá eru kraftasýningar hans brandari og ákaflega barnalegar.  Þá á hann að hafa málað 13 milljónir blómamynda á 13 árum og ort ótrúlegan fjölda ljóða.  Það er nánari lýsing á þessum atriðum á þessari síðu Vantrúar og vitnað þar í heimildir til frekari upplýsingar um Sri.  Einnig má sjá umfjöllun á síðu Rick A Cross en hann er með gagnagrunn um varasöm költ.

Mér finnst ekki verjandi að mæla með manni sem gasprar um frið um allar trissur en lætur svo eins og einhver heilagleiki, heldur fáránlegar kraftasýningar, ýkir gróflega afköst sín í listum og hvetur fólk í samtökum sínum til alls kyns heftandi hegðunar.  Maður sem maður mælir með til friðarverðlauna hlýtur að þurfa að sýna af sér fyrirmyndar hegðun og búa yfir persónuleika sem hægt er að bera virðingu fyrir mörgum sviðum.  Viðkomandi þarf að hafa víðtæka skírskotun til fólks og geta með samræðum og jákvæðum áhrifum sínum á stríðandi aðila haft raunveruleg áhrif til friðar og bættra samskipta.   Það er ekki hægt að kjósa menn út á friðelskandi ímynd eina saman.

Eigum við ekki frekar að stinga uppá Ástþóri Magnússyni, fyrrverandi forsetaframbjóðenda?  Maðurinn elskaði jú friðinn.  Halo


Tímamót: Siðmennt giftir í fyrsta sinn

Það gleður mig að tilkynna hér að í dag lagardaginn 22. september verður brotið blað í sögu siðræns og veraldlegs húmanisma á Íslandi. 

Eftirfarandi fréttatilkynning var send frá Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi á dögunum í tilefni þess að í fyrsta sinn á Íslandi verður par gefið saman í hjónaband af athafnarstjóra Siðmenntar. 



Þann 22. september verða gefin saman ___ og ___ kl 14:00 í Fríkirkjunni í Reykjavík, af Jóhanni Björnssyni athafnarstjóra Siðmenntar. Þetta er í fyrsta sinn sem veraldleg gifting fer fram á vegum Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi og er hún haldin í Fríkirkjunni í Reykjavík þrátt fyrir að ekki sé um trúarlega athöfn að ræða.
Siðmennt er lífsskoðunarfélag og hefur boðið uppá borgaralegar fermingar undanfarin 19 ár. Félagið er nú í óðaönn að útvíkka þjónustu sína og mun fljótlega bjóða uppá veraldlegar giftingar og útfarir allt árið um kring. Þessar veraldlegu þjónustur við félagslegar athafnir fjöldskyldunnar eru góður valkostur fyrir fólk sem telur sig trúlaust, efahyggjufólk eða húmanista og eru í örum vexti víða um heim.

Parið mun fá borgaralega giftingu hjá sýslumanni rétt fyrir hina veraldlegu hjá Siðmennt.  

Ég útskýrði þetta og fleira á Morgunvakt rásar 1 í gærmorgun í stuttu viðtali en ég er fyrir nefnd hjá Siðmennt sem sér um uppbyggingu veraldlegra athafna félagsins.

Sjá einnig á heimasíðu Siðmenntar


Fríkkaður viðbjóður

Börn eru hvött til að lesa biblíuna og það eru sérstakar barnabiblíur til með vinalegum myndum af fallegu fólki með ávölum og þægilegum útlínum.  Móses er mikil hetja, flytur hina helgu þjóð út úr Egyptalandi eftir að Guð sendi 10 plágur á þjóð Farósins, m.a. ein sem drap öll ungabörn.  Hrikalegt en einhvern veginn svo eðlilegt... eða hvað?   Abraham fær boð um að sanna trú sína með því að fórna syni sínum á altari.  Hann ætlar að gera það en Guð sendir honum engil sinn og segir að hann hafi sannað sig... "allt í plati... bara að prufa þig góði Abraham" virðist þessi Guð hafa hugsað.  Hollt lesefni fyrir börn.  Styrkir fórnfýsi og hlíðni býst ég við... eða hvað? 

Í sumar sagði ónefndur 12 ára drengur mér frá þessum sögum sem hann var að læra í skólanum.  Ég varð forvitinn og spurði hann:  "kennir kennarinn þinn þér þetta sem sannleika... að þetta hafi gerst í alvörunni?"  Drengurinn vissi ekki hverju hann ætti að svara en fann inná að ég trúði þessu ekki og spurði á móti: "Trúir þú ekki á guð?",  "Nei" svaraði ég að bragði án frekari útskýringa.  Þá kom nokkuð sem ég átti ekki von á frá 12 ára dreng.  Hann sagði: "Þú ættir að skammast þín!".   Ég gat ekki annað en brosað af ákveðni hans en þessi viðbrögð sögðu meira en hafði spurt um.

Svo fá unglingarnir okkar, okkar fallegu ungmenni fá að lesa fullorðinsbiblíu þegar á fermingaraldurinn kemur, fullra 13 ára.   Skyldu þau nokkuð nenna að lesa alla Biblíuna?  Hún er svo andskoti löng.  Jæja, tæpast nema örfá þeirra færu að lesa hana.  Það hlýtur nú að vera forvitnilegt að lesa þessa bók sem virðulegir prestar klæddir valdsmannlegum kuflum halda svo mikið uppá.  Pabbi og mamma horfa á þessa menn með dreymnum augum og þeir halda svo fallega utan um bókina miklu.

Best að kíkja einhvers staðar í Biblíuna.  Blaðsíða 281, í Dómarabókinni, kafli 21 sem heitir "Meyjarrán í Jabes í Gíleað".  Skrítið og skrítnir staðir.   Í 10. málsgrein stendur:

(10) "Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Galíað sem sverðseggjum, ásamt konum og börnum.  (11)  En þannig skuluð þér að fara:  Alla karlmenn og allar konur er samræði haf átt við mann (..ehm, semsagt alla homma og eiginkonur), skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda."  Þeir gjörðu svo.  (12) Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.  (13) Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið.  (14) Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þei höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað.  Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim."

Næsti kafli Dómarabókarinnar heitir svo "Meyjarrán í Síló".  Það vantaði konur fyrir karlana í ætt Benjamíns og því var þeim ráðlagt af öldungum Ísraela að ræna sér konum í Síló.  Einhverra hluta vegna máttu ekki aðrar ættkvíslar Ísraela gefa Benjamínítum konur.  Það var greinilega mun betri kostur að ræna konum frá öðrum.  Kaflanum líkur svo þannig að "Benjamíns synir gjörðu svo" og komust upp með það án eftirmála. 

Ótrúlegt.  Hvílíkir barbarar!  En samt allt með blessun öldunga og í nafni Guðs.  Benjamínítarnir voru greinilega bænheyrðir enda af Guðs útvöldu hljóð.  Aumingja fólkið í Síló, en hverjum er ekki sama? og þetta er bara saga..., reyndar í Biblíunni sem á að leiða börnin okkar til siðsamara lífs.

Skemmtilegur lestur og uppbyggilegur Frown.  Er ekki svona efni bannað innan 18 ára í kvikmyndum?  Er þetta handbókin fyrir 13 ára ungmenni á 21. öldinni?

Ég fór að lesa þetta því ég var að glugga í bók Annie Laurie Gaylor - Woe to the Women The Bible Tells Me So, The Bible, Female Sexuality & the Law.   Þar er vitnað í manngæsku hinnar guðs útvöldu þjóðar og afstöðu til kvenna. 

En viti menn!  Ég sem fullorðinn að lesa þetta rakst á eftirfarandi.  Við samanburð á enska texta Biblíunnar og hinum íslenska rak ég augun í það að búið er að fegra íslensku útgáfuna.  Lesum nú enska textann sem vantar í Dómarabókina 21; 11-14:

"Take her home, pare her nails, shave her head, have her bewail her parents for one month, then go in onto her, and be her husband"  Þýðing mín:  "Færðu hana heim til þín, klipptu neglur hennar, rakaðu höfuð hennar og láttu hana syrgja foreldra sína í einn mánuð, hafðu þá samræði við hana og vertu henni eiginmaður" 

Sem sagt hér eru leiðbeiningar um það hvernig Benjamínítarnir áttu að halda nauðugum, leyfa að gráta í 1 mánuð, niðurlægja svo með rakstri og nauðga þeim hreinu meyjum sem þeir rændu í hernaði.   

Hvers vegna skyldi þýðandinn / þýðendurnir hafa sleppt þessum hluta úr íslensku þýðingunni?  Var þetta e.t.v. of svívirðulegt? of óhugnalegt? of viðbjóðslegt? til að hafa í hinni heilögu bók?  Var það of freistandi að loka augunum augnablik og hreinlega gleyma að þýða þessar setningar?  Vissulega hlaut að vera nóg að hafa lýst því að Benjamínítarnir ættu að drepa konur og börn.  Úff, ekki vildi ég vera þýðandi þessarar bókar. 

Bíðum nú aðeins hæg.  Woundering  Kannski er ég að missa af einhverjum tilgangi.  Kannski er þetta einhverjum lexia.  Kannski er í lagi að hafa "leiðarbók lífsins" uppfulla af morðsögum og nauðgunum?  Fullt af fullorðnu fólki segir ekkert um þessa hluti. 

Nei... Á meðan ég get ekki talið það réttlætanlegt að hafa svona efni í leiðbeiningarbók að lífinu ætla ég að ráðleggja öllum að halda þessari bók frá börnum og ungmennum.   Það eru svo margar góðar bækur sem hægt er að lesa í staðinn. 

____

Viðbót:  Það er víst skýring á þessu ósamræmi á milli ensku og íslensku útgáfunnar.   Hjalti bendir á í færslu 4 að það sem vantar sé í 5 Mósesbók í íslensku biblíunni.   Þetta er því ekki "fríkkaður viðbjóður" heldur "færður viðbjóður".


Lífsskoðanir – hvað er húmanismi?

Húmanistar eru þeir einstaklingar sem aðhyllast svokallaðan húmanisma (manngildishyggju) en hann hefur í raun fylgt manninum frá örófi alda þó að skilgreiningin sjálf sé ekki nema um 150 ára gömul.  Húmanismi birtist t.d. í því að manneskjan hefur þurft að reiða sig á rökvísi sína, fyrirhyggju og jákvætt samstarf við annað fólk til þess að komast af.  Þegar við lýsum tegundinni manninum (homo sapiens) sem „hinum viti borna manni“ erum við í raun að höfða til kjarna húmanismans.  Það er geta mannsins til að skoða umhverfið og finna í því eiginleika sem eru jafnvel utan beinnar skynjunar skilningarvitanna og nota þá sér í hag.  það er hin greinandi hugsun og getan til að búa til verkfæri og flytja þekkinguna á milli kynslóða.

Lífsskoðanir  (life stance) eru samansafn þeirra hugmynda sem líta að því hvernig við horfum á heiminn, hvernig við útskýrum lífríkið og náttúruna og hvaða aðferðum við viljum beita til að afla nýrrar þekkingar (þekkingarfræði) og vita hvernig við eigum að hegða okkur gagnvart hvert öðru og umhverfi okkar (siðfræði).   Þá eru menningarlegar hugmyndir um framkvæmd mannfagnaða vegna persónulegra lífsáfanga og tryggðarbanda oft samofinn hluti af lífsskoðunum fólks.  

Þekkingarfræði húmanista byggir á því að notast einungis við rökfræðilegar (vísindalegar) aðferðir og tilraunir á hinum þekkta efnisheimi til að afla staðreynda um heiminn, lífið og tilveruna.  Húmanismi (manngildishyggja) byggir á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma. 

lífsskoðunarfélögum má skipta í annars vegar trúfélög og svo aftur veraldleg félög sem ekki trúa á guð eða guði eins og Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi.   Hin almenna skilgreining á trú er sú að fylgjandinn trúi á einhvers konar æðri mátt eða guðlegan anda.  Húmanistar eru því ekki trúaðir og eiga það sameiginlegt með trúleysingjum  (non-believers) og guðleysingjum (atheists).   Guðleysi og trúleysi eru hins vegar mun afmarkaðari hugtök en manngildishyggja því þau skilgreina í raun einungis að manneskjan sé ekki trúuð, burt séð frá öðrum lífsskoðunum hennar.  Það eru því til trúleysingjar sem gætu ekki talist til húminasta þó trúleysið sé þeim sameiginlegt.  

Á meðal lífsskoðana má einnig telja skoðanir fólks á stjórnmálum þó svo flest lífsskoðunarfélög (þ.m.t. trúfélög) taki oftast ekki sterka pólitíska afstöðu.   Það er þó ljóst að trúfélög hafa áhrif á stjórnmál  því siðferðislegar hugmyndir eru nátengdar pólitík og lagagerð.   Húmanistar styðja lýðræðislega skipan þjóðfélaga, jafnrétti kynjanna, trú- , tjáningar- og lífskoðunarfrelsi, jafnan rétt til náms og afnám dauðarefsingar.    

Þá telja húmanistar að veraldlegur (secular) grunnur laga, stjórnskipulags, dómskerfis, menntunar og heilbrigðiskerfis verði að vera fyrir hendi til að tryggja jöfnuð og trúarlegt hlutleysi hins opinbera.   Sagan hefur sýnt að trú og stjórnmál eru ákaflega ófarsæl blanda sem leitt hefur til alls kyns ójöfnuðar og tíðra stríða milli þjóða eða þjóðarbrota.  Í Tyrklandi nútímans má sjá baráttu hins veraldlega og betur menntaða hluta þjóðarinnar við hin trúarlegu afturhaldsöfl sem hafa náð þar völdum.  

Í mörgum samfélögum hafa  „veraldleg“ og „húmanísk“ viðhorf í flestum tilvikum farið saman.   Á því eru þó undantekningar og það má segja með nokkru réttu að kommúnisminn hafi verið veraldlegur þar sem hann byggði ekki á trú.  Hann var hins vegar alls ekki húmanískur því hann gekk á móti mikilvægum siðferðisgildum eins og lífsskoðunarfrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.   Það þarf því meira en veraldlega skipan (skipulag án trúar) hins opinbera til að skapa réttlátt og siðferðislega þroskað þjóðfélag.   

Veraldleg skipan verður þó alltaf hornsteinn þess að vernda þegnana gegn kreddufullum trúarkenningum og trúboði.  Ísland öðlast ekki fyllilega veraldlega skipan fyrr en við hættum að halda þjóðkirkju og afnemum forréttindi trúarbragða úr lögum og stjórnarskrá landsins.  Aðskilja ber ríki og trú, opinbera starfsemi og kirkju.

  Þessi grein var birt í Fréttablaðinu 13. september en í styttri útgáfu án samráðs við mig.  Ég kann Fréttablaðinu því 2/3 þakkir fyrir birtinguna.  Wink  Hér geta áhugasamir lesið greinina alla. 


Hvað höfum við lært?

Eins og hjá svo mörgum er 11. september 2001 mér ógleymanlegur.  Atburðirnir voru svo ótrúlegir, svo grimmir og hörmulegir að maður átti erfitt með að virkilega trúa sínum eigin augum. 

Ég bjó í New York borg þennan dag, nánar tiltekið talsvert norðarlega á Manhattan, móts við 171. stræti á 26. hæð turnbyggingar.  Rétt eftir kl 09 þennan morgun stoppaði umferðin á hraðbrautinni og lögreglan tók að blikka ljósum sínum.  Í útvarpinu var þáttastýrandi sem lýsti í hálfgerðri vantrú að flugvél sem líktist e.t.v. herflugvél hefði flogið inn í annan Tvíburaturninn og hann stæði í ljósum logum.  Íbúðin mín snéri í norður og ég sá að hin risavaxna G.Washington brú var auð, auð í fyrsta sinn frá því að hún var opnuð.  Lögreglan hafði lokað útgönguleiðum af Mannhattan. Tilkynnt var að önnur vél hefði flogið inn í hinn turninn og ég fór yfir til nágranna sem sá til turnanna í fjarska um suðurglugga.  Við vissum ekki hvað við áttum að halda.  Ég tók nokkrar myndir með 200 mm linsu.

WTC loga

Á innan við einni stundu hrundu svo turnarnir en á því átti ég ekki vona á.  Ég hafði farið að horfa á sjónvarpsútsendinguna og kom til baka og tók þessa mynd hér að neðan.  Ég teiknaði útlínur turnanna þar sem þeir stóðu.  Reykmökkurinn var ógurlegur, nærri því eins og við eldgos.

 WTC turnarnir fallnir

Fljótlega varð ljóst hvað hafði gerst eða laust eftir kl 10.  Hið óhugsandi hafði átt sér stað og í fyrsta sinn í sögunni höfðu Bandaríki nútímans orðið fyrir meiriháttar árás á þeirra eigin grundu.  Það var þó ekki fyllilega ljóst hverjir stóðu að árásinni fyrr en síðla dags.  Mig grunaði strax að lítið væri hægt að hjálpa til því annað hvort hefði fólk komist t.t.l. heilt út eða dáið undir byggingunum.  Ég fór þó og skráði mig á lista blóðgjafa á St. Lukes spítala á 115. stræti.  Annað gat maður ekki gert og ekki vildi ég fara að snuðra í kringum staðinn og vera fyrir því fólki sem stóð í björgunarstörfum.  Á setustofu stúdenta við Columbia háskóla sátu allir stjarfir og hljóðir af óhugnaði.   Ég vonaði að ég myndi vakna daginn eftir og að allt hefði verið slæmur draumur.

Ættingjar heima reyndu að ná í mig en það náðist ekki samband í nokkrar klukkustundir vegna álags.  Loks náðist það gegnum landlínu og það var andað léttar.  Auðvitað var ekki mikill möguleiki á því að maður hefði verið í WTC og farist en samt ekki útilokað.  Veturinn áður hafði ég sótt fyrirlestur þar og átt góðan kvöldverð á veitingastað efstu hæðar syðri turnsins sem hét "Windows on the World".  Maturinn og þjónustan var í meðallagi en útsýnið,... já útsýnið var ólýsanlegt.

Næstu dagar og öll vikan ætlaði aldrei að líða.  Allt farþegaflug lamaðist í nokkra daga.  Maður fylgdist með angist ættingja og ástvina þeirra sem fórust reyna að finna þá en enginn fannst utan einhverjir örfáir í byrjun.  Langar biðraðir mynduðust við gömlu aðal lögreglustöðina í Lower East. Fólk tók að safnast saman ofan við 14. stræti þar sem miðbærinn var girtur af og hugga sig með söng og listrænni tjáningu um allt Union torg.  Áberandi voru myndir um allt sem fólk hafði dreyft um hverfið í þeirri veiku von að einhver myndi þekkja ástvini þeirra á þeim og tilkynna að þeir væru á lífi.  Dag og nótt hélt fólk sig á torginu og miklar kertaborgir urðu til í kringum ljósastaura.  Allar stéttir voru þaktar krítarmyndum  og styttur alsettar álímdum miðum, myndum og áletrunum.  Aðra eins allsherjar sorg og opinbera tjáningu tilfinninga hef ég aldrei séð fyrr né síðar.

Sorgarvaka á Union Square

Óttast var að æstur múgur myndi ráðast á múslima í USA en bandaríkjamenn sýndu mikla stillingu og aðeins fá atvik komu upp þar sem múslimar eða einhverjir sem líktust þeim (t.d. shikar) urðu fyrir árásum.  Rudy Giuliani borgarstjóri stóð sig vel í að sefa fólkið og telja í það kjark og velja uppbyggjandi leiðir fyrir reiði sína og tilfinningu um hjálparleysi.  Skyndilega var fólki ljóst að það var ekki lengur öruggt fyrir hryðjuverkamönnum handan við höfin miklu.  Ekkert var öruggt lengur.  Sýn Bandaríkjamanna á heiminn var breytt endanlega.

Höfum við lært eitthvað af þessum viðburðum?  Höfum við gert okkur grein fyrir alvarleika þess að milljónir manna, ríkra og fátækra eru aðhyllendur og auðsveipir þjónar trúarbragða sem kenna fyrirlitningu, kúgun, réttdræpi og sjálfsögð yfirráð yfir þeim sem ekki þjóna guði þeirra eða ógna útbreiðslu kenninga spámanns þeirra?  Gerum við okkur grein fyrir því að fólk alið í sterkri trú hegðar sér eftir bókstafnum, ekki eftir því sem okkur vesturlandabúum þykir skynsamlegt og sjálfsagt?  Gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að verja veraldleg siðferðisgildi okkar umfram allt annað?

Lítum á þessa mikilfenglegu sjón sem ég fangaði sumarið 1999 á siglingu niður Hudson fljót og spyrjum okkur hvað við þurfum að gera til þess að slíkir hlutir verði ekki teknir aftur frá okkur í framtíðinni.

WTC og kennsluskúta á Hudson fljóti 1999


mbl.is Þess minnst að sex ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til útskýringar á hugtökum og orðum

Undanfarin blogg hafa mörg hver innihaldið myndbönd þar sem umræða um trúarbrögð (religion) og hinar ýmsu lífsskoðanir og hugtök þeim tengd hafa komið fram á ensku.  Fyrir þá sem eru ekki vanir að hlusta á ensku sem tengist þessum málum getur verið erfitt að skilja öll þau orð og hugtök sem notuð eru í þessum myndböndum.  Ég ætla því að setja hér nokkrar þýðingar og útskýringar á nokkrum þeirra.

Religion - trúarbrögð, faith - trú

Life stance organization - lífsskoðunarfélag, þ.e. félag sem hefur ákveðnar stefnur í lífsskoðunum eins og hvað sé gott siðferði, hvernig heimsmyndin sé (útskýring á lífríkinu og stöðu jarðarinnar í alheiminum) og hvernig þekkingu sé best aflað (vísindalega eða með öðru móti), hvort yfirskilvitegar verur eða æðri verur / guðir / guð sé til og hvernig fagna eigi ýmsum áföngum í lífinu (nefning, ferming, gifting) og kveðja / minnast hinna látnu (útför).  Lífsskoðunarfélögum má skipta í tvo megin flokka, annars vegar trúfélög og hins vegar veraldleg félög með sömu viðfangsefni.  Siðmennt, félag siðrænna húmanista, er dæmi um hið síðar nefnda.  Lífsskoðunarfélög eru ekki valdafélög eins og stjórnmálaflokkar en geta haft talsverð áhrif á lífssýn fólk hvað stjórnun og lagagerð varðar.  Það er því talsverð skörun á sviði stjórnmálaflokka og lífsskoðunarfélaga.

Islam - Íslam, þ.e. annað hvort hin íslamska trú sem slík eða samheiti yfir öll þau landssvæði í heiminum þar sem íslömsk trú (múhameðstrú) er iðkuð.  Á arabísku þýðir orðið "undirgefni" eða alger hlýðni við Guð múhameðs spámanns.  Fylgjendur Íslam eru kallaðir múslimar.

Islamist - Íslamisti, er komið af orðinu islamism eða íslamshyggja sem byggir á því að áhrifa Islam eigi ekki bara að gæta í trúarlífinu heldur einnig í pólitík og stjórnarfari íslamskra þjóða.  Íslamistar eru þeir/þær því kallaðir sem fylgja slíku og vilja halda uppi trúarlögum Íslam í stað veraldlegra þingsettra laga.  Lög Islam kallast sharia.  Íran er dæmi um land þar sem sharia lög eru við lýði.  Tyrkland hefur aftur haldið þeim að mestu frá.

Hijab, burka - arabísk orð yfir trúarklæði kvenna á meðal múslima.  Burkan hylur allt nema augun.  Veil - blæja eða hula.

Intimidation - það að draga kjark úr með hótunum eða ógnunum

Secularism / secularity - veraldarhyggja, þ.e. sú stefna að trúarbrögð og kirkjudeildir séu aðskilin frá hinu opinbera og hafi ekki pólitísk völd í þjóðfélögum.  Sönn veraldarhyggja kveður á um að trúarleg starfsemi fari ekki fram í menntakerfinu, dómskerfinu, heilbrigðiskerfinu, lagakerfinu, þinghaldi og öllum opinberum rekstri. 

secular - veraldlegur.  Lýsingarorð yfir starfsemi, stofnanir, þjóðfélög, lífsskoðanir og aðra þá hluti sem eru ekki trúarlegir og byggja ekki á trú.  Dæmi: secular funeral - veraldleg jarðarför.  Secular socitey - veraldlegt þjóðfélag.   Secular þjóðfélög eru ekki endilega án starfandi trúfélaga en eru alveg eða að mestu byggð á stjórnskipan og valdakerfi sem starfa óháð trúarbrögðum eða kirkjudeildum. 

Transgression - brot gegn ríkjandi lögum. 

misogynist religion/society - trúarbrögð eða þjóðfélög sem beita konur misrétti

Apologist - Afsakandi eða verjandi, þ.e. persóna sem heldur uppi vörnum fyrir stefnu, trú eða lífsskoðanir sem sæta mikilli gagnrýni.  Orðið er jafnan notað af þeim sem heldur uppi gagnrýninni.

Atheist - Guðleysingi eða trúleysingi.  Manneskja sem trúir ekki á tilvist æðri máttarvalds.  Það er algengt á vesturlöndum að trúleysingjar séu einnig húmanistar en það fer ekki alltaf saman.

Humanist - húmanisti, manngildishyggjumaður, þ.e. persóna sem er trúleysingi en jafnframt fylgjandi lífsskoðunum sem byggja á mannvirðingu, einstaklingsfrelsi, samábyrgð, lýðræði og vísindalegri aðferðafræði.  Skynsemishyggja (rationalism) og veraldarhyggja (secularism) eru ríkir þættir í húmanisma.  Maryam Namazie er húmanisti og virkur meðlimur í Breska húmanistafélaginu.   Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi.  Hope Knútsson er formaður þess.

Cultural relativism - Menningarleg afstæðishyggja, eða moral relativism - siðferðisleg afstæðishyggja, þ.e. sú skoðun að siðferði fari eftir menningarheimum og að það sé afstætt hvað sé rétt eða rangt á hverjum stað.  Fylgjendur þessarar stefnu eru oft á móti því að gagnrýna aðra menningarheima og segja að það sé t.d. ekki okkar í hinum vestræna heimi að skipta okkur af venjum og lífsmáta t.d. austurlandabúa.  Það sé jafnvel ekki okkar að hafa nokkuð um það að segja hvernig menningarhópar í sérstökum hverfum hér hagi sínum málum, svo lengi sem það hafi ekki áhrif út fyrir þeirra raðir.  Þessi stefna er oft kennd við svokallaðan póstmodernisma.

Universal values, universal rights, natural rights - algild siðferðisgildi eða réttindi um allan heim, eða náttúruleg réttindi allra manna.  Þessi hugtök þróuðust í upplýsingunni og boðuðu að allt fólk óháð stétt eða stöðu ætti ákveðin réttindi.  Afkvæmi þessa voru mannréttindin.  Þessi stefna er ólík afstæðishyggjunni því hér er talið að allir eigi ákveðin grundvallarréttindi óháð menningu, þjóðerni eða trúarsamfélagi.   Húmanistar (þ.á.m. Maryam Namazie) eru þessu fylgjandi.

Þetta eru mikilvægustu hugtökin en sjálfsagt má bæta eitthvað við.  Vonandi kemur þetta einhverjum að gagni t.d. við lestur greina í The International Humanist News, en það er geysilega gott rit um baráttu húmanista um allan heim fyrir bættum mannréttindum og brotthvarfi hindurvitna.  Í marsblaði 2006 eru margar greinar um Islam og í nýjasta blaðinu, ágúst 2007 er fullt af greinum um mannréttindamál kvenna, m.a. grein Maryam Namazie um blæjuna.


Spurningar til Maryam Namazie í Odda 6. sept 07

Hér fer video frá fyrirspurnartímanum eftir fyrirlestur Maryam Namazie í Odda þann 6. september s.l.  Þar ber margt á góma og var ánægjulegt að sjá að hún fékk stuðning á meðal Írana sem voru þar að hlusta á.  Í lokin svaraði hún spurningunni "Er nokkur von?" á skemmtilegan máta.  

Þetta er síðasta myndbandið frá heimsókn Maryam Namazie hingað.  Hún er að mínu viti en merkasta baráttumanneskja fyrir mannréttindum sem ég hef séð hin síðari ár og það gladdi mig mikið að fá að njóta þess að hlusta á hana hér heima.  Heimurinn í dag þar sem trúarbrögð eru álitin yfir gagnrýni hafin kann eflaust ekki fyllilega að meta hana en ég á von á því að það muni breytast talsvert á næstu 5-10 árum.  Kynnið ykkur boðskap þessarar merku konu.


"Berjum eiginkonuna létt til hlýðni!"

Ég starfaði á spítala í New York borg í 6 ár (1998-2004) og vann þar meðal heilbrigðisstarfsfólks úr öllum hornum heimsins, þar á meðal múslimum frá Jórdaníu, Írak, Sýrlandi, Íran, Indlandi, Pakistan og nokkrum Afríkulöndum.   Flestir múslimarnir á minni deild (lyflækningar) voru karlmenn en ein kona var frá Íran og önnur frá Jórdaníu.  Hvorugar þeirra báru höfuðblæju en tvær konur sem voru læknar á barnadeild huldu hár sitt.   Sú Jórdanska á minni deild var eiginkona umsjónarlæknis unglæknanna og var hann einnig frá Jórdan.  Þau sögðu sig reyndar vera frá Palestínu upphaflega en foreldrar hans höfðu misst sitt land þar.  Aðspurð um lausn deilunnar við Ísraelsmenn sagði konan að það ætti að reka Ísraelsmenn á haf út.  Engin málamiðlun þar.  Eiginmaðurinn hét Ryan og sökum hversu strangur og ósveigjanlegur hann var við unglæknana fékk hann viðurnefnið "Private Ryan", þ.e. hermaðurinn Ryan.  Það voru allir fegnir þegar hann hætti og fékk stöðu á öðrum spítala.  Á meðan hann var við lýði fékk konan hans næturvaktir yfir Ramadam (föstumánuðinn) tímann þannig að þá gat hún borðað á nóttunni og sofið af sér föstuna á daginn.  Þetta komust þau upp með tvö ár í röð. 

Árið eftir að Ryan hætti var konan hans (vil ekki nefna nafn hennar) áfram í prógramminu að ljúka sínu síðasta ári.  Einn daginn fréttum við að því að hún hafði tilkynnt sig veika en hún átti að starfa á gjörgæsludeildinni og það var slæmt að missa af læknum þaðan vegna mikils vinnuálags.  Hún kom aftur til vinnu tæpri viku síðar.  Þegar ég sá hana brá mér en því miður var ég ekki alls kostar hissa á því sem ég sá.  Hún hafði glóðarauga kringum bæði augu og hægri handleggurinn var í fatla.  Hún sagðist hafa dottið en það var deginum ljósara að hún hafði verið barin í spað.  Hún var ólík sjálfri sér, var hljóð og hélt sig út af fyrir sig.  Ég hugsaði eiginmanni hennar þegjandi þörfina en ég var ekki nógu hugaður til að skipta mér af þessu eða reyna að tala við hana um þetta.  Mér fannst að það myndi ekki breyta neinu í lífi hennar.

Ástæða þess að ég er að rifja þetta upp er að vinur minn Steindór J Erlingsson benti mér á myndbandið sem fér hér að neðan og sýnir þá óskammfeilni sem talsmenn Kóransins sýna með því að bera upp á borð kvenhatandi ritningar þeirrar bókar í sjónvarpi án þess að blikna.  Þessi vel klæddi íslamski karlmaður lítur út eins og nútímamaður en trú hans er vel framreidd villimennska.

Þessi maður gæti rétt eins verið Dr. Ryan

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband