Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Krufning fortíðar og lærdómur til framtíðar

Jæja, það er komið að því að hleypa út hugsunum sínum um ástand þjóðmála undanfarna 100 daga og aðdraganda þess.  Maður hefur verið hálf orðlaus yfir þessu öllu saman og reynt að fylgjast vel með og draga lærdóm af þessari rússibanaferð sem nú er niðrí myrkvuðum göngum þó eitthvert ljós sé framundan.  Ég vil reyna að setja fram hugmyndir um það hvernig þetta ljós getur skinið skærar og gefið fallegri birtu og meira gefandi til allra, en áður.

Óheft frjálshyggja og bræðralag valda

Nú er 17 ára valdatíð Sjálfsstæðisflokksins lokið og loksins möguleiki á því að lifa í þjóðfélagi sem telur það ekki æðst dyggða að verða ríkari og ríkari.  Þjóðin vaknaði upp við vondan draum, sem var í raun afneitunarástand blindra frjálshyggjumanna og áhættusækinna auðmanna.  Trekk í trekk voru viðvörunarbjöllurnar ekki teknar nógu alvarlega og bankarnir fengu að rúlla yfir fjármálaeftirlit ríkisins.  Í byrjun árs 2006 var ljóst að lausafjárkreppa var skollin á og þá stofnaði Landsbankinn Icesave reikningana í Englandi.  Það var þensluaðgerð ofan á þenslu.  Í stað þess að stofna dótturfyrirtæki var Icesave bara útibú bankans og þannig var auðveldara að færa gjaldeyri milli landanna.  Í byrjun árs 2008 var ljóst að alþjóðleg bankakreppa var að skella á, en þá var leyfð stofnun Icesave í Hollandi!!! Vextir á þessum innlánsreikningum voru hærri en skynsamlegt gat talist.  Skýrsla Danske bank var hunsuð og forysta Sjálfsstæðisflokksins, hneykslaðist á henni og öðrum sambærilegum skýrslum.  Við þekkjum þessa sögu og framhaldið.  Hrokafull framkoma og léleg dómgreind Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra gerði svo illt verra.   Það litla sem eftir var af trausti erlendra lánadrottna í garð íslenskra fjársýslumanna og stjórnun fjármála hjá hinu opinbera, hrundi með hroðalegum aflæðingum.  Davíð jós móðgunum yfir fréttamenn og þóttist búa yfir leyndarmálum líkt og örvinglaður krakkaormur sem er búinn að missa virðingu leikfélaga sinna.  Fóstbróðir hans, Geir Haarde hélt svo verndarhendi yfir honum þrátt fyrir að fá sinn skerf af niðurlægjandi ummælum hans.  Ljóst var að enginn töggur var í Geir, en hann reyndi að láta mannalega með því að beina athygli sinni að ómenninu Gordon Brown.  Hann og ríkistjórn hans skyldi lögsækja fyrir að snúa litla Ísland niður á asnaeyrunum.  Nokkrum vikum síðar kom sú aumingjalega tilkynning í fréttum að slíkt myndi ekki borga sig, þó ríkið myndi aðstoða Kaupþing til að fara í mál.  Aftur var Geir orðinn skólastrákur sem slegið hafði vindhögg.  Hann kunni ekki að reita arfann í eigin garði og réði ekki við tréð í garði nágrannans, sem hann taldi orsök alls skugga og uppskerubrests hjá sér. 

Jafnaðarflokkur annar stýrimaður í sökkvandi skipi

Þáttur Samfylkingarinnar var aðeins til þess fallinn að taka þátt í dauðateygjunum, með vel hugsandi viðskiptamálaráðherra, sem með sína heimsspekimenntun gerði hvað hann gat og hafði vit á, en var auðvitað bara lítilsmegnugur farþegi um borð í skemmtisnekkju sem gerð var úr glópagulli og var komin því sem næst á enda ferðar sinnar.  Björgvini G. Sigurðssyni tókst ekki að snúa við atburðarrásinni og var bundinn því líkt og allir í þessari ríkistjórn að fylgja hrifningu forsætisráðherrans á burðum og getu hins íslenska efnahagskerfis og snjallra stjórnenda og eigenda bankanna, sem hann og tveir forverar hans höfðu svo rækilega rutt brautina fyrir.  

Samstaða íhaldsins um vald og gott útlit

Sjálfstæðismenn krefjast þess að út á við syngi allir sama lagið og inná við er því auðvelt að eiga við þá sem ógna þeim sem stækka kökuna.  Samkvæmt hugmyndafræði sjálfstæðismanna kallast það að "eyða fé" að gefa gamalmennum betra líf með auknum ríkisútgjöldum, en að "stækka kökuna" að gefa fjármálageiranum frjálsar hendur til að afla fjármuna og búa við lægstu skattprósentuna.  Allt skal vera keppni "því samkeppni getur ekki leitt til annars en góðs" segja þeir vatnsgreiddu með fallegu bláu augun sín.  Eftir hrunið í október mátti sjá á könnunum Gallups á fylgi flokkanna að almenningur kenndi ekki Samfylkingunni um ófarirnar og Sjálfstæðisflokkur (xD) og Framsókn (xB) komu illa út.  Fylgi xD var í sögulegu lágmarki.  Ljóst var að Samfylkingin (xS) hafði spil í hendi og varð nú að leika þeim rétt út, en hvað gerðist? Eftir nokkrar vikur þar sem Geir leitaði m.a. til Guðs og mikilvægar neyðaraðgerðir voru framkvæmdar, stóð enn eftir að sækja lykilpersónur í lykilstöðum til pólitískrar ábyrgðar.  Geir og sjálfstæðisflokkurinn lét sem bankahrunið væri "smámál" líkt og pólitísk skipan vina í dómskerfið.  Fólkið og fjölmiðlar skyldu bara kyngja því án þess að nokkur sem að málum hefði komið þyrfti að segja af sér og hleypa öðrum að. 

Samfylkingin sogaðist með en vaknaði aftur til aðgerða

Ekkert gerðist og Ingibjörg Sólrún fór að hljóma samdauna þrátt fyrir varfærin orð um að Davíð ætti að segja af sér.  Hún hafði hlaupið vonlaust og illa til stofnað hlaup Halldórs Ásgrímssonar og fyrri ríkisstjórnar í átt að sæti Íslands í Öryggisráði SÞ með engum árangri og niðurlægjandi niðurstöðu.  Miklu fé hafði verið sóað.  Hún var þannig samviskusamlega að reyna að spila úr vonlausum spilum sem hún fékk í hendurnar og hélt svo áfram að gefa Geir tíma til að átta sig.  Þessi tími var dýrkeyptur því að eftir deyfingu fjöldans um jól og áramót sauð bara upp úr.  Hún gat ekki lengur sagt að fólkið sem hrópaði á borgarafundum í Háskólabíói eða barði á potta og pönnur á Austurvelli, væri ekki endilega fulltrúar þjóðarinnar.  Hún hafði sogast með í afneitun og óviðunandi værð Geirs, að því marki að hennar eigin vaska sveit baráttumanna og kvenna var við það að springa á limminu.  Það þurfti svo fund Samfylkingarfélagsins í Reykjavík til þess að vekja upp Ingibjörgu Sólrúnu.  Hún var að missa frumkvæðið en rétt náði að bjarga sér og flokknum fyrir horn.  Þetta kostaði það að sjálfstæðismenn fengu höggstað á Samfylkingunni að því leyti að gamla sundrungarlumman fékk endurnýjun lífsdaga.  Í huga sjálfstæðismanna eru skiptar skoðanir opinberlega innan sama flokks það sama og "sundrung", nema skyldi vera hjá þeim sjálfum.  Þá heitir það opinberlega "uppbyggileg gagnrýni" en hlýtur harða refsingu innanbúða.  Það getur orsakað pólitíska dauðarefsingu að tala opinberlega gegn formanninum eða fyrrum formanni og almennt séð er fólk sem skipt hefur oft um skoðun um ævina, hvað þá um stjórnmálaflokk, talin alger viðrini í augum klassískra sjálfstæðismanna af gamla skólanum (og e.t.v. þeim nýja einnig).  Hin hugrakka Þorgerður Katrín á greinilega erfitt uppdráttar þessa dagana innan flokksins eftir að hún lét Davíð heyra það eftir fall bankanna. 

Valdaelska sjálfstæðismanna

Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldsamur flokkur sem elskar völd og tangarhöld.  Hann passar uppá aðra valdastofnun, þjóðkirkjuna og gætir þess að hún haldi sérréttindum sínum og óhóflegum greiðslum úr ríkissjóði.  Þjóðin fær aldrei að kjósa um það hvort hún vilji hafa þjóðkirkju.  Málið hefur aldrei fengið að fara á dagskrá fyrir kosningar.  Í borginni ríkti valdagræðgi sjálfstæðismanna í jafnvel meira mæli en í ríkisstjórn.  Sá farsi sem boðið var uppá þar með aðstoð fyrrum sjálfstæðismanns, Ólafs F með Vilhjálm í löskuðum fararbroddi, verður minnst sem eitt af smánartímabilum íslenskrar stjórnmálasögu.  Þar horfði Geir á án nokkurs bætandi innleggs eða inngrips líkt og svo rækilega kom í ljós að var einkennandi fyrir hans stjórnunarhætti, eða öllu heldur vanstjórnun. 

Mjúkur ráðherra sem skynjaði ekki harða framtíð 

Á tímum þegar þjóðin þurfti verulega kjarkaðan og harðraunsæjan og varkáran stjórnanda, sem þyrði að skipa fyrir og byrja óþægilegar og víðtækar varnaraðgerðir fyrir íslenskt efnahagslíf árið 2005 eða hið síðasta í byrjun árs 2006, þá var aðeins ríflegt meðalmenni í aksturssætinu.  Allt árið 2006 og fram til maí 2007 fór í að mýkja upp landsmenn fyrir kosningar.  Nær alger yfirhylming var í gangi og milljónum lofað hægri vinstri.   Mottóið var að fólk og millistýrendur stýrðu sér sjálfir.  T.d. mátti menntamálaráðherra ekki skipta sér af starfi skólastjóra, sem fengu að túlka klásúluna um að "skólar eru ekki trúboðsstofnun" á sinn eigin máta.  Engar skýrar línur mátti draga og það átti greinilega einnig við um fjármálageirann.  Hann var jú sjálfstæður, en ef hann félli um koll yrði þjóðin að borga.  Það gleymdist þó, að í valdatíð forvera Geirs, Ólafs Thors, á árunum fyrir seinni heimstyrjöld hefðu stóru útgerðarfyrirtækin staðið á barmi gjaldþrots og við blasti að þjóðin þyrfti að greiða ef þau myndu hrynja.   Þá kom stríðið og hruni var forðað.  Við vorum ekki í fyrsta sinn með ofvaxin fyrirtæki í sögu okkar.  Við þurftum framúrskarandi ríkisstjórn sem hefði hlustað á raunsæja hagfræðinga, en Geir og hinn leiðandi flokkur hans reyndist ekki betri en meðaljóninn.  Það er "sök" þeirra og í ljósi aðstæðna, ástæða falls þeirra. 

Lærdómurinn og hugmyndir fyrir betra Ísland 

Í kjölfar þessa þarf friðsama byltingu í íslenskum stjórnmálum.  Einstakt tækifæri býðst nú til að læra af öllum þeim fjölda fagmanna á sviði siðfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og fleiri, sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum og á opnum fundum undanfarna mánuði.  Tilmæli forsetans um að huga að því að byggja upp "nýtt lýðveldi" eða einhvers konar "nýjan sáttmála" ættum við öll að taka alvarlega.  Vandi okkar á sér djúpar rætur í því hvernig við lítum á siðfræði í stjórnmálum, förum með vald, veljum fólk til forystu, skipuleggjum dreifingu valds, skömmtum sumum sérréttindi, gerum feril í stjórnmálum óaðlaðandi, forðumst að sæta ábyrgð sem auðmenn, kjósendur eða foringjar og vanrækjum kennslu í gagnrýnni hugsun, hugmyndasögu, rökleiðslu og grundvallaratriðum mannréttinda á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.  Við þurfum að læra að stjórnmál eru ekki íþróttakeppni, líkt og svo margir stjórnmálamenn virðast líta þau.  Valdið er ekki lokamarkmiðið, heldur samfélagslega framþróunin.  Hæstu sæti í flokkstarfi eru ekki æðstu verðlaunin, heldur heildar mannauðurinn og sanngjörn dreifing valda innan tiltekins flokks.  Markmiðið á að vera það að hæfasti flokksmaðurinn leiði starfið og fólk á að kunna að víkja og styðja við þá sem hafa forskot t.d. í formi þekkingar, reynslu, mikilla tengsla við fólk og hæfileika til tjáningar og samskipta við fólk.   Þroskaður stjórnmálamaður bíður síns tíma og nýtur leiðarinnar hver sem svo vegsemdin verður á endanum.  Vegur sem varðaður er af heiðarleika, velvilja, mannvirðingu og frjálsri hugsun er ávallt virðingarverður og þjóðinni til gagns. 

Val fulltrúa þjóðarinnar 

Í ljósi þessa leyfi ég mér stórlega að efast um gildi prófkjara til að velja fólk til forystu innan flokka.  Í fulltrúalýðræði eru prófkjörin ákaflega afdrifarík og fela í sér mikilvægi sem ég held að þau standi ekki undir.  Hvort sem að þau eru "lokuð" eða "opin", misheppnast þau oftast.  Í lokuðum prófkjörum er það stundað að smala utanaðkomandi fólki sem þekkir ekki til manna eða málefna í viðkomandi flokki nema yfirborðslega og skrá það í flokkinn svo það fái kosningarrétt.  Hið sama gerist í opnum prófkjörum nema hvað skráningin er óþörf.   Útkoman er sú að sá aðili sem er duglegastur að smala og leggur mest í auglýsingar, vinnur eða hlýtur sæti mun ofar en stjórnmálalegur þroski segir í raun til um.  Ég met það svo að prófkjör séu afleit leið til að finna hæfustu leiðtogana og eru oft á tíðum völd af misklíð, deilum og sundrung innan flokka.  Finna þarf betri lausn á þessu t.d. með lýðræðislegu samráði miðstjórna og kjördæmastjórna um ágæti frambjóðenda eftir skipulegt umsóknarferli þar sem fagmennska og nærgætni ráði ríkjum.   Hinn almenni kjósandi gæti svo haft áhrif með útstrikunum eða endurröðun frambjóðenda, skv. nýjum reglum þar sem meirihluti kjósenda tiltekins flokks geti breytt röðuninni.  Ég hef ekki úthugsaða lausn, en það hlýtur að vera hægt að finna betri lausn á vali frambjóðenda en prófkjör og allt það smalræði og vinsældabrölt sem því fylgir.

Út með flokka - inn með einstaklingsframboð? 

Nú heyrist oft í umræðum fólks á kaffistofum vinnustaðanna að flokkskerfið sé úrelt og kjósa eigi óháða einstaklinga til alþingis.  Þetta er því miður algerlega óraunsær draumur.  Það er í órjúfanlegu eðli mannsins að leita félagsskapar og hópmyndunar um mikilvæg málefni.  Í stað stjórnmálaflokka yrðu því óhjákvæmilega til faldar klíkur og leynimakk hópa sem í raun yrðu duldir flokkar.  Það er því betra að hafa flokkana á yfirborðinu og reyna frekar að þroska starf þeirra og afstöðu til innri og ytri mála.  Auðvelda mætti veg minni framboða þannig að þau þurfi ekki að yfirstíga þröskuld fylgis uppá 3 þingmenn, heldur fengju að koma einum manni að fái hann til þess hlutfallslega nóg fylgi.  Þetta getur greitt veg einstaklinga sem hafa fengið rangláta úthlutun í stórum flokkum og kæmist því nær því að vera kerfi einstaklingsframboða, en gallinn við svona lítil framboð er að þau geta komist í aðstöðu þar sem þau fá óeðlilega mikil völd, vegna kreppu í myndun stjórna.   Hugsanlega má semja lög til að hindra slíkt á einhvern máta, þ.e. að oddamaður í stjórn sem á ekki mikið fylgi að baki á landsvísu (eða sveitarfélagi), geti ekki farið fram á eða þegið valdamestu stöðuna.  Þetta þarf að skoða gaumgæfilega af sérfræðingum á sviðum stjórnmálafræði, siðfræði og lögfræði.

Mörg fleiri svið stjórnmálanna þarf að bæta og mun ég koma með fleiri tillögur í komandi bloggfærslum.  Þessi færsla fer að líkjast kafla í bók haldi ég áfram.  Hlusta þarf á hagfræðingana og orð siðfræðinga eins og Vilhjálms Árnasonar.   Fólk á kosningaraldri þarf á nýrri upplýsingu að halda og tileinka sér miklu meiri þekkingu á stjórnmálalegum málefnum en það hafði fyrir síðustu kosningar.  Allir þurfa að læra og líta á stjórnmál í nýju og jákvæðu ljósi.  Við þurfum okkar hæfileikaríkasta fólk við stjórnvölin og það er þjóðarinnar að skapa þá umgjörð sem laðar að farsæla leiðtoga. Umfram allt þurfum við að læra að hlusta á hvort annað og þiggja góðar hugmyndir, sama hvaðan þær koma.  Þjóðin og mannkynið er sá "flokkur" sem við viljum í raun að beri sigur úr býtum og sigurinn felst í því að reyna að hámarka hamingjuna fyrir sem flesta úr öllum kimum þjóðfélagsins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband