Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Orð merkra kvenna til varnar skynseminni

Í síðustu bloggfærslu minni birti ég tilvitnanir nokkurra manna af tegundunni karl og var það algert slys að birta eftir þá eina því heimildir mínar voru troðfullar af orðum þessara testósterón hlöðnu fyrirbæra.  Nú bæti ég fyrir þetta og birti nokkrar tilvitnanir merkra kvenna til varnar skynseminni.  Konur eru jú hryggsúla samfélagsins, því þær kunna að tengja okkur öll saman yfir öðru en íþróttum og bjór.  ;-)

Helen Keller (1880-1968) hin dáða baráttukona sem barðist til mennta og þjóðfélagslegra umbóta þrátt fyrir blindu sína, sagði:

Það er margt í Biblíunni sem hver einasta eðlisávísun tilveru minnar rís upp á móti, svo sterkt að það er með mikilli eftirsjá að ég fann mig knúna til að lesa hana alla frá upphafi til enda.  Ég tel ekki að sá fróðleikur sem ég hef fengið frá henni bæti fyrir þau óhuggulegu hluti í smáatriðum sem hún hefur neytt mig til að leiða hugann að.

Leikkonan og óskarsverðlaunahafinn Whoopi Goldberg sagði:

Trúarbrögð hafa gert meira til að liða í sundur mennskuna en nokkuð annað

Leikkonan Gypsy Rose Lee (1911-1970) sagði í skemmtilegri myndlíkingu:

Iðkun bæna er eins ruggustóll - hún tryggir að þú hafir nóg fyrir stafni, en kemur þér ekki á neinn áfangastað.

Ein mesta baráttukona sögunnar fyrir réttindum kvenna,  Elisabeth Cady Stanton (1815-1902)sagði:

Hamingjusamasta fólkið sem ég hef þekkt er það sem hugar ekki að eigin sál, heldur gerði allt hvað það gat til að létta undir vesæld annarra.

Rithöfundurinn Susan Jacoby (1945-) skrifaði:

Ég trúi því að það sé skylda okkar að bæta lífið því að það er skylda okkar við hvort annað sem manneskjur, en ekki í tengslum við verðlaun eilífðarlífs eða refsingu vítisvistar. 

Kvenréttindakonan Margaret Sanger ritaði þessi kjörorð á kvenréttindablað hennar "The Woman Rebel" (Uppreisnarkonan). 

Engir Guðir, engir þrælahaldarar! [No Gods, No Masters!]

Upphaflega sáust þau á mótmælendaskilti iðnverkamanna í verkamannafélaginu Industrial Workers of the World (IWW), í verkfallsgöngu í borginni Lawrence í Massachusetts fylki BNA árið 1912 og voru í heild svona:

Rísið upp!!! þrælar heimsins!!! Enginn Guð! Enginn þrælahaldari! Einn fyrir alla og allir fyrir einn!

Skáldkonan George Eliot (Mary Anne Evans 1819-1880) var snemma sjálfstæð sem barn og neitaði að fara með guðhræddri fjölskyldu sinni í kirkjuferðir.  Hún hafði agnostíska afstöðu til trúar og vegna þess var henni neitað um að vera grafin í "Skáldahorni Westminster Abbey" kirkjugarðsins.   Hún sagði:

Guð, ódauðleiki og skylda - hversu óhugsandi hið fyrsta, hversu ótrúlegt hið næsta og hversu ófrávíkjanlegt og algert hið síðasta.

Það er ekki úr vegi að enda á skörungnum, rithöfundinum og listfrömuðnum Gertrude Stein (1874-1946) (sem ég lærði um í Prisma námi Bifrastar og LHÍ nýlega) en hún hafði sinn sérstaka ritstíl og húmor.  Ég býst við að hún hafi verið að hugleiða það sama og vinur minn Kristinn Theódórsson var að blogga um nýlega þegar hún sagði:

Það er ekkert svar.  Það verður ekki neitt svar.  Það hefur aldrei verið svar.  Það er svarið. 

Þetta er alveg yndislegt.

Hafið það gott - Svanur

 

 


Nokkrar tilvitnanir til heiðurs skynseminni

Það er gott að orna sér stundum við hnyttin eða skörp orð fólks sem vissi hvað það söng, ekki síst nú á tímum þegar þrátt fyrir allt upplýsingaflæðið, vaða hindurvitnin og sjálfsblekkingarnar um allt.  Hér fara nokkrar tilvitninar í merka menn sögunnar.

Thomas Jefferson, 3. forseti Bandaríkjanna er í miklu uppáhaldi hjá mér.  Hann skrifaði í bréfi einu til yngri manns sem hann var að gefa ráðleggingar:

Með djörfung skaltu draga í efa jafnvel tilveru guðs; því ef slíkur er til, þá hlýtur hann að halda í heiðri notkun skynseminnar, frekar en að blinda hana með ótta.

Rithöfundurinn George Bernard Shaw skrifaði:

Sú staðreynd að hinn trúaði sé hamingjusamari en efahyggjumaðurinn er engu nær lagi en sú staðreynd að drukkinn maður er hamingjusamari en sá allsgáði.

Stærðfræðingurin, heimspekingurinn, sagnfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Bertrand Russell sagði:

Eftirsóknarverður er ekki viljinn til að trúa, heldur löngunin til að finna út um hlutina, sem er alger andstæða þess.

Hér er eitt snoturt frá Charles Darwin, sem átti 200 ára fæðingarafmæli fyrr á árinu:

Ég get ekki sannfært sjálfan mig um að góðviljaður og almáttúgur Guð hefði með hönnun skapað ... það að kettir skuli leika sér að músum.

Rokkarinn kunni og háðfuglinn Frank Zappa sagði:

Munurinn á trúarbrögðum (religions) og sértrúarsöfnuðum (cults) ræðst af því hversu miklar fasteignir þeir eiga.

Ég gef svo Benjamin Franklin einum af "landsfeðrum" Bandaríkjanna, síðasta orðið:

Eina leiðin til að opna augun fyrir trú er að loka augum skynseminnar

 

Góðar stundir!

Svanur


Af EES, IceSave reikningum og ábyrgð

Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði á dögunum ágætis grein um þann fjárglæfraleik sem IceSave ævintýrið var og setur hlutina í ákveðið samhengi - samhengi við fjármálaglæpamenn sem nú sitja fyrir dómstólum í Bandaríkjunum. 

Ég er langt kominn með lestur bókarinnar "Sofandi að feigðarósi" eftir Ólaf Arnarson og mæli ég hiklaust með lestri hennar.  Af þeim upplýsingum sem þar eru og því sem ég hef fengið annars staðar frá þá er það ljóst að IceSave innlánsreikningarnir voru bara hálmstrá sem náði ekki að bjarga Landsbankanum frá þeim offjárfestingum sem hann var kominn í.  Viðskiptamódel hans virkaði vel í gnægð lausafjárs en jafn illa í lausafjárskreppu sem hafði skollið á upp úr byrjun árs 2005. 

Davíð Oddsson seldi bankann mönnum sem kunnu að reka fjárfestingarfélag, en ekki viðskiptabanka sem á endanum væri uppá ábyrgð þjóðarinnar kominn.  Í stað erlendrar þekkingar inn í landið fékkst aðeins íslensk tilraunamennska í útrás þegar stærsti banki landsins var einkavæddur með því að selja hann Íslendingum en ekki erlendum aðilum í bland við dreifða íslensks eignaaðild. 

Með EES samningnum sem JBH og Davíð höfðu tryggt landinu sköpuðust skilyrði til að hreyfa fjármagn og afla sér menntunar og starfa um alla Vestur-Evrópu.  Það var var og er mikils virði.  EES samningurinn veitti frelsi, en er ekki orsök þess glapræðis sem fjárfestingarbankarnir leiddust út í.  Það er álíka vitlaust að segja að það að veita þræl frelsi sé hið sama og gera hann að glæpamanni, geri hann svo eitthvað af sér.  Frelsið gerir það að verkum að við berum ábyrgð á því sem við gerum, en það er svo siðferðisþroskinn og siðferðisþrekið sem segir til um það hvort að frelsið sé nýtt til góðra eða slæmra hluta.  Ásakanir sumra á blogginu og athugasemdum við grein Jóns Baldvins Hannibalssonar um að hann beri ábyrgð á hruninu með því að hafa verið forvígismaður þess að Ísland gerðist aðili að EES er því alger rökleysa.

Það eru fyrst og fremst fjárfestarnir sem bera ábyrgðina þó ekki beri þess merki eftir hrunið.  Eftirlits- og taumhaldsskylda stjórnvalda er einnig réttmætt skotmark gagnrýni, sérstaklega eftir að skýrslur hagfræðinga og stofnana báru þess merki að stormur væri í aðsigi.  Reynsluleysi og afneitun ráðamanna ásamt því að á lokastigunum fékk stjórnarformaður Seðlabankans að vaða yfir allt með sínum valdhroka og óvarkárni, setti svo punktinn yfir i-ið.  Tilraunin stóra hafði misheppnast og þjóðin þurfti nú að blæða fyrir sukkveisluna hrikalegu.  Verðum við að borga? Já, hvort sem okkur líkar betur eða verr.  Við verðum öll að bera byrðarnar.  Hlutverk stjórnvalda er einfaldlega að reyna að jafna þær yfir á sem flest bök og að enginn sleppi við að taka ábyrgð.  Einfalt hugtak en verulega flókið í framkvæmd.


Hið sammannlega og hamingjan - Dalai Lama, Barack Obama, A.H. Maslow og Aristóteles

Það er búið að vera athyglisvert að fylgjast með heimsókn Dalai Lama og horfa á það sjónvarpsefni sem bæði RÚV og Stöð 2 hafa boðið uppá um þennan merka mann.  Hann er vel að þeim heiðri kominn sem Parísarbúar eru nú að veita honum.

Í viðtali við hann í þætti RÚV sagði Dalai Lama eftirfarandi (endursagt):

Ég [Dalai Lama] er ein manneskja af 6 milljörðum sem byggja jörðina.  Mitt hlutverk í þessari röð eDalai_Lama_RUVr:

  1. Að öðlast innri frið og hjartahlýju.  Sýna samhygð (empathy) gagnvart öðru fólki.  Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra.
  2. Að vera búddisti.
  3. Að rækta skyldur við þjóð mína, Tíbet og að vera þjóðinni Dalai Lama.  Ef í framtíðinni verður ekki þörf fyrir stofnunina Dalai Lama fyrir Tíbet þá verður hún lögð af, annars ekki.  Ég ákveð það ekki.

Það virðis í fljóti bragði að þetta séu sjálfsagðir hlutir, en svo er ekki og viskan í þessum orðum Dalai Lama felst fyrst og fremst í því hver forgangsröð þessara atriða er.  Hann setur manneskjuna fremsta og þann mikilvæga eiginleika að finna til samhygðar og hjartahlýju.  Leitin að innri gildum, frið og sátt við aðra er mikilvægust.  Þar á eftir koma hans eigin trúarbrögð, búddisminn og loks skyldur hans sem Dalai Lama gagnvart Tíbet.  Hann skynjar að staða hans er ekki endilega eilíf og sýnir þá auðmýkt og raunsæi að hugsanlega verður ekki embætti Dalai Lama í framtíðinni.  Hann setur því velferð annarra fram fyrir þörfina fyrir að viðhalda því embætti sem hann gegnir.  Þá sagði Dalai Lama að mikilvægt væri að láta skynsemina ráða í öllu því sem við gerum.

Í bók sinni: "The Dalai Lama, A Policy of Kindness" Dalai Lama 1990 bls. 52, segir hann:

Ég trúi að í sérhverju lagi samfélagsins - í fjölskyldunni, ættinni, þjóðinni og jörðinni - sé lykillinn að hamingjuríkari og árangursríkari heimi vöxtur væntumþykjunnar. Við þurfum ekki að verða trúuð og við þurfum ekki heldur að trúa á ákveðna hugmyndafræði. Það eina sem þarf er að hvert okkar þrói með sér okkar góðu mannlegu eiginleika.

Annað sem er sláandi (fyrir trúarleiðtoga), er að hann viðurkennir að fjárhagslegar þarfir (ytri gildi)eru eðlilegar, en á sama tíma vill brýna fyrir fólki að það megi ekki vanrækja hin innri gildi, sem nauðsynleg eru til að öðlast lífsfyllingu.  Hugsa þurfi allar ákvarðanir út frá stóru samhengi hlutanna, ekki aðeins þeim fjárhagslegu. 

Þetta er í samræmi við þann boðskap sem Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur flutt, en hann talar um að ekki þurfi einungis að stoppa í fjárlagagatið heldur þurfi ekki síður að leiðrétta "samhygðarhallann" (empathy deficit) í heiminum.  Lykillinn að betri heimi er að setja okkur í spor annarra.  Sjá umfjöllun á baráttuvefnum change.org

Bandaríski sálfræðingurinn Abraham Harold Maslow (1908-1970) var þekktur fyrir kenningar sínar á sviði húmanískrar sálfræði og var valinn húmanisti ársins árið1967 Abraham_maslowaf Húmanistafélagi Ameríku (Am. Hum. Assoc.).  Hans þekktasta tillegg er kenningin um þarfapýramídann 800px-Maslow's_hierarchy_of_needs_svgsem lýsir þörfum hverrar manneskju í 5 stigum þar sem fyrsta skrefið lýtur að þörfum líkamans fyrir fæði og vatn, annað stigið þörfin fyrir öryggi og húsaskjól, þriðja stigið þörfin fyrir ást og að tilheyra, fjórða stigið þörfin fyrir sérstaka virðingu og að afreka eitthvað, og loks fimmta stigið að öðlast lífsfyllingu (self-actualization, sjálf-raungervingu) gegnum siðferðilegan þroska, getu til sköpunar og lausnar á vandamálum, sátt við staðreyndir og hugsun án fordóma.  Mikilvægasta þörfin sé hin fimmta, en bæði fjórða og fimmta stigið lýsa fólki sem hugsa ekki síður um velferð annarra en sína eigin.  Síðari kennimenn hafa bent á að þessi röðun sé ekki endilega til staðar í lífi fólks, en hvað sem því líður, þá er þarfapýramídi Maslows athyglisvert módel til að skilja betur mismunandi ásigkomulag manneskjunnar og e.t.v. hvar hamingjuna er að finna. 

Forn-Grikkir; Sókrates sagði: "Hið órannsakaða líf er ekki þess virði að lifa" og Aristóteles sagði að hin vel ígrundaða manneskja sem ræktaði gáfur sínar ætti mestan möguleikann á hamingju.

Í fjallræðunni á Jesús að hafa sagt að kærleikurinn sé trúnni meiri.  Þetta er í raun það sem Dalai Lama er að segja, en vandi kristninnar er að þessi orð Jesú eru í mótsögn við margt annað sem stendur í Biblíunni.  Í henni er ítrekað því haldið fram að Guð sé kærleikurinn og aðeins í gegnum hann sé elskan möguleg.  Martin Luther (1483-1546), faðir mótmælendatrúarinnar sagði eitt sinn: "Tortíma skal allri skynsemi úr kristnu fólki".  Sem sagt manneskjan er ekki fær til að meta sjálf hvað sé henni fyrir bestu og allt þurfi að skoðast fyrst í gegnum gleraugu trúarinnar á guð.  Frjálslyndir mótmælendaprestar í dag lifa eftir kærleiksboðinu og leyfa sér að nota skynsemina í formi óyfirlýstrar manngildishyggju (t.d. Bjarni Karlson og Hjörtur Magni Jóhannsson), en biskupar á borð við Karl Sigurbjörnson hafa átalið manngildið og í ræðu sem hann nefndi "undan eða á eftir tímanum" og flutti í Hallgrímskirkju 2. desember 2007, sagði hann:

Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.

Þrátt fyrir ýmis orð í Biblíunni þar sem kristnir eru hvattir til að hugsa ekki, heldur treysta á Guð, vilja kristnir menn gjarnan eigna sér einum skynsemina einnig og þær framfarir sem vísindin og þróun félagslegs réttlætis sem áttu sér stað með tilkomu Endurreisnarinnar (1450-1550)og Upplýsingarinnar (upp úr 1650).  Karl Sigurbjörnsson skrifaði grein þess efnis sem hann nefndi "Sigur skynseminnar" 17. október 2006 og má lesa á tru.is ásamt fjölmörgum andsvörum, m.a. frá Steindóri Erlingssyni vísindasagnfræðingi.  Þessari eignun íslensku lútersku kirkjunnar á sögulegum áhrifum og siðferðisgildum, sér m.a. merki í útlistun fagsins "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" í aðalnámsskrá grunnskólanna frá 2007, því þar stendur í inngangi fagsins (bls. 5) (og á bls. 7 í inngangi núgildandi aðalnámskrár frá 14. febrúar 2009):

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.

Takið eftir að engar aðrar rætur grundvallargildanna eru nefndar, svo sem ásatrúin og  manngildishyggjan (eða mannhyggjan), en hin síðarnefnda braut smám saman aftur valdakerfi konunga og biskupa og átti mestan þátt í því að réttindi einstaklinga, hinna almennu borgara fengu að líta dagsins ljós.  Á síðu íslensku wikipediunnar um Endurreisnartímann má sjá eftirfarandi umsögn um mannhyggjuna (húmanismann):

Ein mikilvægasta heimspeki tímabilsins var mannhyggjan eða „húmanisminn“ sem fólst í aukinni áherslu á mannlífið í stað þess að álíta heiminn fyrst og fremst áfanga á leið til handanlífs kristninnar.

Dalai Lama sagði að öll trúarbrögð heimsins hafi í sér möguleika á því að gefa af sér innri frið, en væntanlega gerist það ekki nema að hið sammannlega, samhygðin og hjartahlýjan sé sett í fyrsta sætið. 

Jákvæðni Dalai Lama er aðdáunarverð og eflaust má finna sannleikskorn í þessari túlkun hans á trúarbrögðunum, en því miður er það álíka markvisst að nota heybagga til að reka niður nagla í vegg, eins og að styðjast við trúarbrögð í siðrænni ákvörðunartöku, sérstaklega þeirrar flóknu á sviði stjórnmála, heilbrigðismála, viðskipta, alþjóðasamskipta og laga- og réttarkerfis.  Baggi hins óþarfa og óheilbrigða í stóru trúarbrögðum heimsins er það stór að hinn sammannlegi kjarni samhygðar og velvilja mannkynsins verður oft útundan í ákvörðunartöku trúaðra þrátt fyrir góðan ásetning. (T.d. vanþóknun páfa á notkun getnaðarvarna).

Af öllu þessu fólki má draga þann einfalda og áhrifamikla lærdóm að hin hugsandi manneskja (sbr. homo sapiens), sem metur samhygð og velvilja gagnvart samferðarfólki sínu á jörðinni, æðst allra gilda, sé sú sem líklegust er til að verða hamingjusöm og stuðla um leið að hamingju annarra. Hamingjan er lykillinn að friði og velferð (í víðasta skilningi þess orðs) í heiminum og því þurfum við öll að líta ábyrgum augum til þess sem Dalai Lama setur fremst í forgangsröðunina. 


mbl.is Dalai Lama heiðraður í París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband