Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Manngildi og siðferði mannsins vegna er nóg

Í prentútgáfu Morgunblaðsins í dag 30. desember bls 44, birtist eftir mig svargrein sem fer hér að neðan.  Ég sendi með greininni mynd sem Mbl birti ekki (líklega vegna plássvanda).  Myndin verður því með hér en hún er tekin af Matthíasi Ásgeirssyni og kann ég honum þakkir fyrir að leyfa birtinguna.

----

Þann 21. okt. s.l. birtist svargrein Sigurðar Pálssonar fyrrverandi sóknarprests Þjóðkirkjunnar við grein minni frá 30. sept. „Húmanismi – lífsskoðun til framtíðar“. Það er ánægjulegt að Sigurður tekur undir með mér um mikilvægi húmanismans, en hann skrifar hins vegar greinina til að mótmæla því sem hann kallar að „[ég] spyrði saman guðleysi og húmanisma“. Honum sárnar greinilega að ég nefni ekki einhverja trúmenn sem jafnframt hafi verið málssvarar húmanískra lífsgilda.

Sigurður segir: „Að skilgreina húmanismann eða manngildisstefnuna fyrst og fremst sem guðlaust lífsviðhorf er fölsun“. Hann vísar svo til þess að í mannkynssögunni sé „fjarri því að allar greinar [manngildisstefnunnar] hafni trúarlegri sýn á tilveruna“.


Fyrst vil ég nefna að hvergi í umræddri grein sagði ég að kristnir gætu ekki tileinkað sér húmanísk gildi eða hefðu ekki gert það fyrr á öldum. Hins vegar hafa ekki nema örfáir trúarleiðtogar verið í forsvari fyrir manngildishyggju og miklu oftar barist gegn straumum frelsis og manngildis. Þannig var það með trúfrelsi, aðskilnað ríkisvalds og dómsvalds frá kirkjunni, afnám þrælahalds, kosningarrétt kvenna og nú síðast réttindi samkynhneigðra.

Forysta Þjóðkirkjunnar hefur ekki enn áttað sig fyllilega á rökréttum nútímaviðhorfum gagnvart samkynhneigð. Hún barði lengi vel hausnum við stein í aumkunarverðri tilraun sinni til að halda í bókstafinn og hvatti Alþingi til þess að skerða réttindi annarra trúfélaga til að taka sjálfstæða ákvörðun um hjónavígslu samkynhneigðra þar til nýlega.


Þau alþjóðasamtök sem s.l. 56 ár hafa borið nafn húmanismans, International Humanist and Ethical Union (IHEU), hafna hindurvitnum og þ.á.m. trú á guði. Almennt þegar talað eru um samtök húmanista og húmanisma er átt við IHEU og þann húmanisma sem þar er haldið á lofti. Siðmennt er aðildarfélag að þeim. Hinn venjubundni húmanismi nútímans er trúlaus og þar liggur mín skírskotun.


Vissulega hafa húmanísk lífsviðhorf verið til innan trúarbragða og fyrstu húmanistar endurreisnarinnar eins og t.d. Desiderius Erasmus frá Rotterdam voru trúaðir. Þeir fengu viðurnefnið húmanistar árið 1589 vegna þess að skrif þeirra lögðu meiri áherslu á frelsi mannsins en áður þekktist. Þeir grófu þannig óbeint undan guðdómleikanum og því óskoraða valdi sem kirkjan hafði tekið sér á hugum og líkamlegu frelsi fólks. Þjóðfélög þessa tíma voru gegnsýrð af kristinni bókstafstrú og það var ávísun á dauðann að segja sig trúlausan. Thomas Jefferson, sem var uppi um tveimur öldum síðar var einarður gagnrýnandi trúarbragða og taldi að siðferði væri ekki komið frá guðdómi heldur eðlislægri dómgreind mannsins.


Sigurður sagði svo: „Guðlaus lífsviðhorf fæddu ekki af sér manngildishugsjónina.“ Þessu er ég algerlega ósammála. Manngildishugsjónin hefur enga þörf fyrir guðshugmyndina og stendur algerlega sjálfstæð án hennar. Þó að bæði trúaðir og ótrúaðir hugsuðir sögunnar hafi komið fram með húmanískar skoðanir, þá byggðu þær ekki á guðfræði eða trúarlegum innblæstri. Þau trúarbrögð sem í dag teljast hófsöm og skynsamari öðrum eru það vegna þess að þau hafa fjarlægst nákvæma trú á orð trúarrita sinna og skilið eftir þann kjarna sem hvað helst samræmist húmanískum gildum og skynsemi. Þannig skiptir trúin á upprisuna og hina heilögu þrenningu ákaflega litlu máli fyrir megin hluta kristinna Íslendinga. Samkvæmt stórri Gallup könnun sem var gerð hérlendis árið 2004 trúa aðeins 8.1% því að þeir fari til himna eftir sinn dánardag. Siðferðislegt, lagalegt og menningarlegt umhverfi okkar er fyrst og fremst húmanískt, þ.e. óður til frelsi mannsins, hugvits og mannúðar, en ekki trúarlegrar náðar eins og forysta Þjóðkirkjunnar básúnar við hvert tækifæri.


Svo hneykslaðist Sigurður yfir því að ég vogaði mér að segja að hófsöm trúarbrögð búi í haginn fyrir hin öfgafullu heittrúarbrögð. Það er langt mál að færa fyrir því full rök en hér vil ég nefna eitt dæmi sem er okkur nærri. Á dögunum fór fram svokölluð Bænaganga sem margir kristnir Baldur Freyr messartrúarsöfnuðir stóðu að, þ.á.m. Þjóðkirkjan. Gengið var niður á Austurvöll og beðið um aukna kristinfræði og trúarlega starfsemi í skólum. Aðalskipuleggjandi göngunnar var maður sem vitað er að talar mjög niðrandi um samkynhneigða opinberlega. Í göngunni voru svo hermannaklæddir karlar sem báru fána og yfirbragð göngunnar varð því mjög þjóðernislegt (sjá mynd). Á meðan forgöngumaðurinn predikaði böðuðu þátttakendur út örmum líkt og öfga-evangelistar gera í Bandaríkjunum (Sjá grein Brynjólfs ÞorvarðarsonarGengið gegn gleðinni“ í Mbl, 18.11.07 bls 50). Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi hefur beðið skólayfirvöld undanfarin ár að gæta hins hlutlausa veraldlega grunns í menntastofnunum landsins og gæta þannig mannréttinda barna, sem voru dómfest í Mannréttindadómstóli Evrópu í sumar. Í stað þess að virða þennan dóm er Þjóðkirkjan tilbúin að ganga með öfgatrúuðum í baráttu fyrir auknum trúarlegum afskiptum í skólum. Hvað segir þetta manni um húmanisma Þjóðkirkjunnar og með hverjum hún stendur?


Veraldlega grunnskóla takk!

Menntamálaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir Alþingi á haustþingi 2007. Í frumvarpinu er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um kristilegt siðgæði barna er ákvæði um að efla almenna siðferðisvitund þeirra. Í frumvarpi til laga um grunnskóla er lagt til að í stað ákvæðis í 2. gr. gildandi laga um að starfshættir skólans skuli mótast af kristilegu siðgæði verði ákvæði um umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegt samstarf, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.


Ég er mjög ánægður með lagatillögu Þorgerðar Katrínar því hún tekur nú mjög mikilvægt skref til enn betri veraldlegs grunns í íslensku laga- og menntakerfi. Sem betur fer er sjaldgæft að lagagreinar hafi skírskotun í einhver ákveðin trúarbrögð og fyrir því eru góðar ástæður. Á síðustu 5 öldum eða svo hafa hin vestrænu þjóðfélög smám saman skilið mikilvægi þess að skilja að trú og stjórnmál því trúarleg íhlutun í veraldlegt vald endaði alltaf með hörmungum. Í dag hefur fólk trúfrelsi en hinn sameiginlegi lagalegi og stjórnarfarslegi grunnur þjóðanna verður að vera óháður trú og laus við slíka merkimiða. Öðru vísi var og er ekki hægt að útfæra jafnrétti og koma í veg fyrir sérréttindi fjölmennra trúarhópa á kostnað annarra.


Þróun í siðferði síðustu alda átti sér stað vegna aukinnar áherslu á sjálfstæði manneskjunnar og rétt hennar til að hafa áhrif á stjórnarfar og val til menntunar og atvinnu. Manngildishyggja og veraldlegt siðferði, sem hefur það eitt að marki að hámarka hamingju og lágmarka þjáningar með rökfræðilegri nálgun olli straumhvörfum. Bandaríkjamenn stofnuðu ríki með aðskilnaði ríkis og kirkju, sigruðust á þrælahaldi og verkamenn fengu verkfallsrétt og vinnutímavernd. Baráttukonur beggja vegna Atlantshafs áunnu konum rétt til fjárhagslegra eigna og svo kosningarétt þrátt fyrir mikla andstöðu íhaldssamra stjórnmálaafla og kirkjuleiðtoga. Byltingin gegn alræðisvaldinu var löng og ströng en náði loks stórum áfangasigri með lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og stofnun Sameinuðu Þjóðanna. Þær byggja sína mannréttindasáttmála á algildum siðferðisverðmætum óháð trúarbrögðum eða menningarheimum og því eru þeir leiðbeinandi fyrir allar þjóðir, allt fólk á jörðinni.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg í sumar var skýr og fordæmisgefandi. Trúarlegt starf í opinberum skólum á ekki að eiga sér stað og lög um opinbera menntun geta ekki dregið taum ákveðinnar trúar eða ríkjandi kirkjudeildar. Tíma barna og kennslu í opinberum skólum verður að vernda frá trúboði eða pólitískri innrætingu. Kennarar eða leiðbeinendur barna geta ekki yfirfært sín persónulegu trúarbrögð á skólastarfið og eiga að halda bænum, ritningarlestri, kirkjuferðum eða heimsóknum presta frá reglubundnu skólastarfi. Það á að láta hverri fjölskyldu það eftir í sínum einkatíma hvert uppeldi barna þeirra verður hvað varðar lífsskoðanir og trúarbrögð. Hlutverk skóla er að mennta en ekki innræta. Þannig skal fræða um trú, heimsspeki, húmanisma, trúleysi, efahyggju og samanburð lífsskoðana á hlutlausan máta með námsefni sem er tekið saman af fagfólki en ekki ákveðnum trúar- eða lífsskoðunarhópum.


Þann 10. desember s.l. átti Mannréttindayfirlýsing SÞ 60 ára afmæli og því væri samþykkt þessa frumvarps á Alþingi nú eitt það besta sem ráðamenn þjóðarinnar geta gert til að heiðra yfirlýsinguna og tryggja betur mannréttindi barna í landinu. Ég vona að um þetta náist þverpólitísk samstaða. Styðjum frumvarpið!


Fögnum 60 ára afmæli Mannréttindasáttmála SÞ!

Í dag 10 desember á Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 60 ára afmæli!

Í tilefni þess er vefsíðan www.KnowYourRights2008.org hleypt af stokkunum á vegum SÞ.

60 ára afmæli MRS SÞ

Þetta er mikill gleðidagur því mikilvægi sáttmálans verður seint ofmetið.  Á þessum árum hafa hundruðir mannréttindamála unnist vegna þeirrar fyrirmyndar sem sáttmálin hefur sett öllum þjóðum heims.  Sáttmálinn er viðurkenning á því að um heim allan gilda algild siðferðislögmál sem taka tillit til hvers einasta einstaklings og réttar hans til að lifa sómasamlegu lífi og eiga rödd sem hlustað er á án tillits til uppruna, kynþáttar, kyns, þjóðfélagsstöðu o.s.frv.

Sáttmálinn hafnar því að munur á menningu réttlæti t.d. kúgun og ofbeldi gegn konum eða minnihlutahópum. 

Þá er það mikilvægt að sáttmálinn hafnar mismunum byggða á lífsskoðunum, þannig að trúarskoðanir og lífsskoðanir án trúar eigi að njóta sömu tækifæra og meðhöndlunar af opinberum aðilum.  Börn eiga þann skýlausa rétt að njóta skólagöngu án afskipta utanaðkomandi félaga sem boða lífsskoðanir eða pólitískar stefnur.   Menntun barna á að vera á faglegum forsendum eingöngu og í höndum menntaðra kennara.

Þessu hefur Siðmennt talað fyrir og verið sjálfstæður verndari og stuðningsaðili Mannréttindasáttmálans á Íslandi.  Félagið er hluti af alþjóðlegum samtökum siðrænna húmanista sem kallast International Humanist and Ethical Union (www.iheu.org) en þau eru bara 5 árum yngri en sáttmálinn (stofnuð 1952).  IHEU hefur átt náið samstarf við SÞ og verið ráðgefandi aðili frá stofnun þess.  Fyrsti forseti alþjóðaþings IHEU, þróunarlíffræðingurinn Julian Huxley varð síðar fyrsti framkvæmdarstjóri UNESCO við stofnun þess.  UNESCO er Mennta-, vísinda- og menningarmáastofnun SÞ.  Stefnumál IHEU og Siðmenntar eru í anda Mannréttindasáttmálans.

Það er von mín að biskup Þjóðkirkjunnar, Sr. Karl Sigurbjörnsson sjái að sér og beri til baka ummæli sín um að Siðmennt séu "hatrömm samtök".   Slík ummæli varpa skugga á baráttuna fyrir viðurkenndum mannréttindum og eru ekki til þess fallin að effla vináttu eða mannvirðingu á meðal fólks. 

Siðmennt hefur vaxið mikið undanfarna 10 daga og það er fagnaðarefni að félagafjöldi hefur aukist um 15% á þeim tíma.  Það er ljóst að margir hafa skilið mannréttindabaráttu þess og vilja búa börnum landsins menntakerfi sem hefur góð og algild siðferðisgildi að leiðarljósi án trúarlegra merkimiða, sérréttinda, boðunar, iðkunar eða trúarlegrar starfsemi í skólum.  

Sem manneskja og húmanisti fagna ég þessum merkilega áfanga í "lífi" Mannréttindasáttmálans og segi:  Skál! Megi hann lengi lifa! húrra! húrra! húrra! HÚRRA!! Wizard


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staksteinum sunnudagsins 2. des 07 svarað

 

Í Morgunblaðinu í dag, sunnud. 2. des, voru skrif Staksteina að venju.  Í þetta skipti ákvað höfundur pistilsins að gagnrýna Siðmennt þó að hann/hún passi að nefna félagið ekki á nafn.  Höfundurinn getur þó vart vikið sér undan því að hann á við Siðmennt því ekki hefur verið talað um annað en Siðmennt í samhengi þeirrar gagnrýni og lyga sem hann kemur fram með. 

Staksteinar dagsins byrja svona:

Fáránlegar deilur hafa verið að skjóta upp kollinum varðandi það hvað megi og hvað megi ekki í trúarbragðafræðslu í skólum. Til eru þeir, sem vilja banna kennslu kristinna fræða í skólum landsins og ganga svo langt að það eigi að banna að halda litlu jólin í skólunum! [feitletrun mín]

Hér að neðan fer svar mitt sem ég setti í athugasemdafærslu Staksteinabloggsins.   

---

Sæll höfundur Staksteina

Eðlilegt væri að vita nafn þitt.   Er það rétt skilið hjá mér að Styrmir Gunnarsson sé höfundur þessa skrifa í Staksteinum?  Skrifaðir þú þetta Styrmir?

Samrýmist það siðareglum Blaðamannafélagsins að skrifa hvassa gagnrýni á vegum fjölmiðils undir dulnefni?

Ég er Svanur Sigurbjörnsson, húmanisti og stjórnarmaður í Siðmennt. 

Á fimmtudaginn fóru af stað hroðalegar árásir á ákaflega gott frumvarp Katrínar Þorgerðar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra í kjölfar kynningar á frumvarpinu og einkafundar Karls Sigurbjörnssonar biskups með henni.  Frumvarpið tók út merkimiða eins trúfélags úr lögunum og setti í staðinn almennt orðalag um siðferðisgildi sem allir geta verið sammála um óháð úr hvaða trúfélagi þeir/þær eru. 

Þetta er í fullu samræmi við úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg frá í sumar og ályktanir Mannréttindanefndar SÞ undanfarin ár.   Mikilvægi þessa er að gæta þess að lög séu ekki trúarleg (eins og þau nánast öll eru) en samt leiðbeinandi um almenn siðferðisverðmæti. 

Frá því að ljóst var að trúarleiðtogar gætu ekki haft dómsvald eða lagalega íhlutun og vestræn þjóðfélög komu á veraldlegri (secular) stjórnskipan smám saman síðustu 4-5 aldir hafa orðið gífurlegar framfarir og réttindi og hamingja einstaklinga þessara landa hafa stóraukist.  Hlutlæg hugsun skilaði þannig miklum pólitískum framförum og jafnfram geysilegum tækniframförum og þekkingu á mannlífi og lífrænum ferlum.  Úr varð bylting í læknisfræði og sóttvörnum og mikil fólgsfjölgun fylgdi í kjölfarið.  Aðskilnaður beinna trúarafskipta frá stjórnarfari og menntun var og er lykilatriði þeirrar velgengi sem vestræn þjóðfélög búa við.  Einn stærsti viðburður sögunnar í þá veru var samþykkt Bandarísku stjórnarskrárinnar við stofnun þess lýðveldis.

Við megum ekki gleyma eðli þess veraldlega stjórnskipulega grunns sem forfeður okkar fórnuðu oft á tíðum lífi sínu fyrir eða var kastað í fangelsi um lengri tíma.  Ekki sér maður setningar eins og "í Jesú nafni" á eftir lagagreinum, um t.d. refsimál eða bílbeltanotkun.  Lögin okkar eru veraldleg til að halda hlutleysi og einbeita okkur að markmiðunum einum.  Þannig eru Mannréttindasáttmálar Evrópu og SÞ skrifaðir.  Lög geta ekki dregið taum eins trúfélags eða einnar trúarhugmyndar þó að hún sé í meirihluta meðal þjóðar. 

Hér er ekki um það að ræða að "minnihluti sé að kúga meirihluta" eins og heyrist víða, m.a. hjá Karli Sigurbjörnssyni biskup.  Hér er farið fram á jafnrétti fyrir lögum líkt og fatlaðir einstaklingar njóta.  Ekki er spurt að því hvort þeir séu í minnihluta þegar setja á upp lyftur eða bæta aðgang fatlaðara í byggingar.   Er það "frekur minnihluti" þegar beðið er um textun fyrir heyrnarlausra hjá RÚV?

Varðandi lygar um Siðmennt. 

Á síðasta kirkjuþingi heyrðist frá einhverjum ræðumönnum að félagið væri á móti kristinfræðslu og kennslu í trúarbragðafræði.  Siðmennt er búið í gegnum árin að margítreka að svo er ekki en samt heldur þessi lygi áfram.  Svo tekur þú, höfundur Staksteina þetta beint upp án þess að hafa fyrir því að kynna þér stefnumál Siðmenntar á www.sidmennt.is eða það bréf sem við sendum ritstjórn Morgunblaðsins á föstudaginn til að leiðrétta þetta.  Leiðréttingin var birt á Mbl.is sama dag. 

Þá var það einnig leiðrétt að Siðmennt er EKKI á móti Litlu-jólunum eins og blaðamaður 24-stunda leyfði sér að túlka í föstudagsblaðinu.  Samt apar þú þetta upp eins og þú hefðir fengið gullið tækifæri til að níða félagið.  Vinnubrögð þín og ábyrgðarleysi við skrif þessa Staksteina í dag eru með ólíkindum og bera ekki þess vitni að þú hafir starfað við einn stærsta og áhrifamesta fjölmiðil landsins í tugi ára.  (Ég geri ráð fyrir að ég sé að skrifa til Styrmis Gunnarssonar).  Þetta er til skammar.

Ég vona að Morgunblaðið sjái að sér og bæti fyrir burð þessara lyga á félagið með því að birta alla fréttatilkynningu Siðmenntar í blaðinu á morgun eða þriðjudag á áberandi stað.  Svonalagað má ekki eiga sér stað í siðuðu þjóðfélagi.

Kveðja

Svanur Sigurbjörnsson, Stjórnarmaður í Siðmennt

---

Ég vil einnig benda á svar Sigurðar Hólm Gunnarssonar og skrif hans á www.skodun.is

Fréttatilkynnig Siðmenntar og umfjöllun um frumvarp menntamálaráðherra má sjá hér.

Þá vil ég einnig hvetja þig lesandi góður að horfa á Silfur Egils frá í dag en þar færir Matthías Ásgeirsson formaður Vantrúar og félagsmaður í Siðmennt ákaflega sterk rök fyrir afstöðu Siðmenntar og Vantrúar (hann talar þó ekki sem fulltrúi Siðmenntar, heldur Vantrúar).

Nú er mál að lygum um Siðmennt linni og fólk taki nokkra djúpa andardrætti og líti á heimildir áður en það skrifar um félagið og tímamótatillögu ráðuneytsins um breytingu á grunnskólalögum.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband