Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framfaraspor til fyrirmyndar!

Samþykkt þessara samskiptareglna er eitt mesta framfaraspor sem stigið hefur verið lengi í þróun mannréttinda á Íslandi.

Með þessu hefur stærsta bæjarfélag landsins sýnt að skilningur á mannréttindum fleygir fram. Í þessu tilviki er grunnur skólastarfs styrktur þannig að öllum foreldrum (ekki bara kristnum) líði vel með að senda börn sín í skóla borgarinnar og þurfi ekki að hafa áhyggjur að því að þar fari fram starfsemi ætluð til að snúa börnunum þeirra til lífsskoðunar sem þau aðhyllast ekki.

Einn megin lærdómur upplýsingarinnar og þróun lýðræðis á þeim tíma var aðskilnaður trúarlegra og veraldlegra þátta þjóðfélagsins. Ríkið og lögin varð að hafa veraldleg og vera óháð trúarsetningum valdamikilla kirkna. Tryggja þurfti að ríkið meðhöndlaði alla jafnt. Hér erum við 350 árum síðar og eigum enn í erfiðleikum með að framkvæma þetta sómasamlega. Mannréttindaráð og borgarstjórn Reykjavíkur hafa nú aukið þroska hins siðaða samfélags með þessari ákvörðun og sett gott fordæmi. Þetta er heillaspor og það sýnir sig á þeim jákvæðu viðbrögðum sem ákvörðunin hefur fengið (t.d. yfir 2 þúsund like á frétt mbl.is um efnið) að mikill hljómgrunnur er með þessu merkilega skrefi.

Til hamingju Reykjavíkurborg!


mbl.is Banna trúboð í skólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í átt til aukins jafnréttis og jafnræðis

Það er fagnaðarefni að nú skuli vera unnið að frumvarpi í Innanríkisráðuneytinu sem miðar að því að veraldleg lífsskoðunarfélög fái sömu þjónustu frá ríkinu og þau trúarlegu. Hvað er annars lífsskoðunarfélag?

Lífsskoðunarfélag er það sem á enskunni er kallað "life stance organization" og er félag sem hefur það að megin verkefni að fjalla um siðfræði og siðferði og skapa í kringum það sinn lífsmáta eða menningu. Það birtist aðallega í því að á vegum slíks félags fara fram hugvekjur og tímamótaathafnir fjölskyldna. Sum þessi félög hafa einnig stefnur á sviði þekkingarfræðinnar, stundum nefnt við heimsmyndina og er þar skýrasta dæmið útskýringar á tilurð heimsins og mannsins.

Hin trúarlegu lífsskoðunarfélög sækja jafnan siðfræði sína að hluta eða alveg í trúarrit sem útskýra vilja almættisins og stundum er einnig trúað á útskýringar á heimsmyndinni þar.

Hin veraldlegu lífsskoðunarfélög sækja aftur siðfræði sína í aðferðir heimsspekinnar og þá þróun sem varð í siðfræði með skrifum hugsuða upplýsingarinnar og síðar. Heimsmyndin byggist á vísindalegri þekkingarfræði.

Bæði trúarleg og veraldleg lífsskoðunarfélög vilja gjarnan fagna hlutum saman og hafa sínar athafnir, hugvekjur og hátíðir á sinn máta. Þó ólík séu er ljóst að þarna eru sömu viðfangsefnin á ferðinni og því er hægt að setja þau undir þetta sama heiti: lífsskoðunarfélög.

Ríkið á í raun ekki að veita skattfé til þessara prívatfélaga, nema að þjóðin hafi tekið málið til rækilegrar umfjöllunar og vilji veita einhvern smá grunnstyrk til þeirra allra. Það er of dýrt að reka ríkissjóð til þess að við förum að útdeila miklu fé í þessa sjálfstæðu starfsemi sem er mikilvæg en í raun ekki neitt sem hinn sameiginlegi vettvangur þarf að standa undir.

Fyrst að við erum enn að bera arfleifð einokunartrúar sem heimtaði beintengingu við skattkerfið eftir að tíundin var lögð niður og fær ótal aðrar sérgreiðslur, þá þarf að reyna að laga ójafnvægið.

Eftirfarandi þarf að gera:

1. Losa fornu einokunarkirkjuna (Þjóðkirkjuna) undan spenanum og hætta launagreiðslum og veitingu sérstyrkja til hennar (nema til að varðveita viss menningarverðmæti). Gera upp "jarðamálið" í eitt skipti fyrir öll.  

2. Losa þjóðina undan sóknargjaldakerfinu (best) eða laga það á eftirfarandi máta:

  • Börn séu ekki skráð sjálfkrafa í lífsskoðunarfélag móður
  • Fullveðja einstaklingur (að lágmarki 16 ára) þurfi að skrá sig í lífsskoðunarfélag hafi viðkomandi áhuga á því. Það megi haka við það á skattskýrslunni eða skrá sig í Þjóðskrá.
  • Sem fyrr að sóknargjöld miði aðeins við 16 ára (eða 18 ára) og eldri.
  • Að sóknargjöld séu aðeins greidd þegar skráður einstaklingur hefur nægar tekjur til að greiða tekjuskatt, sem nær að minnsta kosti hálfri milljón króna yfir árið. (óeðlilegt að t.d. sóknargjald upp á 10 þús. kr. x12 mán, samtals 120 þús kr sé greitt þegar heildarskatturinn rétt nær þeirr upphæð.  Meirihluti skattfés á að fara í aðra þarfari hluti.)
  • Að sóknargjald sé ekki greitt fyrir þá einstaklinga sem lifa eingöngu á bótum frá ríkinu (fyrir utan ellilífeyri).  Slíkt sóknargjald kæmi aðeins úr vasa þeirra sem greiða skatta af eigin vinnu.
Smám saman er þjóðin og stórnmálamenn hennar að gefa þessu meiri gaum og sjá að núverandi fyrirkomulag er orðið úrelt sérréttindafyrirkomulag sem þjónar bara trúarlegu lífsskoðunarfélögunum og þá sér í lagi einu þeirra, þeirri fornu einokunarkirkju sem kallast Þjóðkirkja.  
 
Það er kominn tími á tiltekt og útdeilingu sleikipinnanna til allra barnanna.  Það er ljótt að skilja eftir útundan, segjum við við börnin og við fullorðna fólkið þurfum að sýna þeim að við séum virkilega til eftirbreytni.
 
Góðar stundir. 

 


mbl.is Jafna stöðu lífsskoðunarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veraldlegar lífsskoðanir í sókn

Þann 6. júní 2011 gerði Gallup opinberar helstu niðurstöður úr síðasta þjóðarpúls sem í þetta skiptið innihélt einnig spurningar um lífsskoðanir.  Gallup kallar það reyndar trúmál því að líkt og með svo marga hefur fyrirtækið ekki gert sér grein fyrir því að þeir sem trúa ekki hafa nafn yfir sínar skoðanir.  Samheiti trúarlegra og veraldlegra skoðana um siðferði er lífsskoðanir (life stance).  Það snýst ekki allt um trú.

Hér er helsta niðurstaða könnunarinnar:

----

ÞJÓÐARPÚLSINN

TRÚMÁL

06.06.2011

Trú á æðri máttarvöld, framhaldslíf og himnaríki/helvíti

Meirihluti Íslendinga segist trúa á guð eða önnur æðri máttarvöld. Hátt í 13% aðspurðra tóku ekki afstöðu til þess hvort þeir tryðu á æðri máttarvöld eða ekki, en af þeim sem tóku afstöðu sögðust rúmlega sjö af hverjum tíu trúa á æðri máttarvöld á móti tæplega þremur sem sögðust ekki trúa. (71% og 29% samkvæmt grafi).

Niðurstöður sem hér birtast um trúmál eru úr netkönnun Capacent Gallup gerði dagana 5. til 19. maí 20 11. Heildarúrtaksstærð var 1.380 einstaklingar 16 ára eða eldri af öllu landinu ogsvarhlutfall var 57,7%.  Í úrtakinu voru einstaklingar valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.

----

Mig langar nú að bera saman þessa niðurstöðu við dálítið stærri könnun sem var gerð í febrúar-mars 2004 hjá Capacent Gallup fyrir Biskupsstofu.  Í þeirri könnun voru 1428 í endanlegu úrtaki og fjöldi svarenda 60.4% (862). Könnunin frá 2004 er því mjög svipuð að stærð og könnunin í ár.

Áður en ég fer í niðurstöðurnar frá 2004 þarf ég að setja tölurnar frá 2011 í sömu tölfræðilegu framsetninguna, sem tekur tillit til þeirra sem tóku ekki afstöðu:

Ertu trúaður?

2011:  13% taka ekki afstöðu, 61.8% segjast trúaðir en 25.2% segjast ekki trúa á æðri mátt.

2004: 12.9% tóku ekki afstöðu, 68.3% sögðust trúaðir en 18.8% sögðust ekki trúa á æðri mátt.

Reyndar kemur fram í nákvæmri skýrslu með könnuninni 2004 að hópnum sem gaf ekki afgerandi svar var skipt í óákveðna (11.5%) og tóku ekki afstöðu (1.4%).  (Þessi "tóku ekki afstöðu" hópur var tekinn útfyrir í prósentureikni niðurstaðna en ég hef reiknað þann hóp inn aftur hér).  Það eru samtals 12.9% þannig að hlutfallið er nánast hið sama og núna 2011, sem ég geri ráð fyrir að sé þessi sameinaði hópur.

Hlutfall trúaðra hefur því lækkað úr 68.3% í 61.8% eða um - 6.5%

Hlutfall fólks með veraldlega lífsskoðun (trúa ekki) hefur því hækkað úr 18.8% í 25.2% eða + 6.4%

Ef að við skiptum aftur yfir í hlutfall af þeim sem gáfu ákveðið svar kemur út að:

2011:  71% trúa á æðri mátt en 29% ekki.

2004: 78.5% trúðu á æðri mátt en 21.5% ekki.

Meðal ákveðinna hefur trúuðum fækkað um 7.5% prósentustig en trúlausum fjölgað um 7.5%.

Hvað segir þetta okkur?

Mér sýnist að sú þróun sem mér fannst að væri til staðar í kjölfar aukinnar umræðu um lífsskoðanir, að trú á æðri mátt væri á undanhaldi, sé raunin.  Það er ámælisvert að birta niðurstöður í sjónvarpi með einungis 71/29 prósentuviðmiðin því að þau er endurútreikningur þegar búið er að henda út þeim óákveðnu (13%).

Það eru ekki 71% þjóðarinnar trúaðir, heldur 61.8% og 25.2% eru trúlausir, ekki 29%.

Það er réttlætanlegt að tala um ákveðna kjósendur í könnunum um fylgi flokka því að það eru aðeins þeir ákveðnu sem munu ráða um úrslitin, en í könnun sem þessari um ákveðnar skoðanir, er það ekki réttlætanlegt (nema sem algert aukaatriði).

Aldursmunur

Áberandi er einnig að hópurinn undir 30 ára er í vaxandi mæli fylgjandi veraldlegri lífsskoðun, eða 47.9% (55% ákveðinna) nú en var um 29% (18-24 ára) árið 2004.  Þetta er að gerast þrátt fyrir aukna sókn Þjóðkirkjunnar inn í skólana síðustu 20 ár.

Kynjamunur

Þá er merkilegt að bilið milli kynjanna hvað trú eða trúleysi varðar hefur stækkað.

2004:  konur trúðu í 77% tilvika, voru trúlausar í 13% tilvika en 11% voru óákveðnar. (86.5 % ákveðinna trúa)

2004:  karlar trúðu í 61% tilvika, voru trúlausir í 26% tilvika en 13% voru óákveðnir.  (70.1% ákveðinna trúa)

Nú hef ég ekki tölur um hlutfall óákveðinna hjá konum og körlum fyrir 2011 og verð að notast við það hlutfall ákveðinna kvenna og karla sem var gefið upp.

2011: 84% ákveðinna kvenna eru trúaðar. (74.8% ef 11% kvenna eru óákveðnar líkt og 2004, niður 2.2%)

2011: 58% ákveðinna karla eru trúaðir. (50.5% ef 13% karla eru óákveðnir líkt og 2004, niður 10.5%)

Af þessu sést að á meðal þeirra sem gefa ákveðið svar hefur trúuðum konum fækkað um 2.5 prósentustig, en trúuðum körlum um 12.1 prósentustig.  Munurinn milli kynjanna hefur aukist úr 16.4 í 26 prósentustig. Aukning trúleysis er því mun hraðari hjá körlum en konum á Íslandi.

---

Af þessum könnunum og tölum Hagstofunnar yfir sömu ár er ljóst hvert stefnir.  Trúuðum fækkar og fólki í Þjóðkirkjunni hlutfallslega mest.  Fríkirkjusöfnuðirnir sækja þó á samkvæmt skýrslu Hagstofu í byrjun apríl (fyrir árið 2010).

Trúlausum fjölgar stöðugt og eru nú um 1/4 þjóðarinnar.   Aðeins 4.14% eru þó skráð utan trúfélaga.  Tæp 50% ungra fullorðinna (undir þrítugu) aðhyllist veraldlegar lífsskoðanir.  Elsta fólkið trúir mest.  Merkir þetta að ungt fólk verði einfaldlega trúað þegar það eldist eða er um raunverulega breytingu að ræða.  Hlutfall trúlausra undir 30 ára fór hækkandi milli 2004 og 2011 þannig að hér virðist vera um raunverulega breytingu að ræða.

Af þeim 61.8% sem segjast vera trúaðir vitum við ekki hversu margir telja sig kristna, en árið 2004 voru það um 3/4 hlutar trúaðra.  Um 1/5 hluti trúaðra sögðust eiga sína persónulegu trú.  Ef við gefum okkur að hlutfall kristinna hafi ekki lækkað að marki eru það (3/4 * 61.8%) aðeins um 46% þjóðarinnar sem telja sig kristna.  Samt eru 77.6% hennar skráð í Þjóðkirkjuna.

Viðhorfin eru að breytast frekar hratt en mikið af fólki sem trúir ekki á hinn kristna guð (eða engan guð) er samt skráð í Þjóðkirkjuna eða aðra kristna söfnuði.  Þetta fólk virðist sætta sig við að hlusta á kristna presta tala um guð sinn og frelsarann Jesú án þess að trúa á þá.  Liggja praktískar ástæður að baki? skeytingarleysi? tímaleysi? sjálfvirk skráning kornabarna í trúfélag móður?  Svörin eru eflaust mörg og eru efni í aðra í grein.

Ég læt hér staðar numið og vona að þessi greining sé lesendum hjálpleg.

---

PS: Vinsamlegast látið mig vita ef að þið teljið að einhverjar villur séu í þessu.


Þúsundir vitringa vakna

Formáli:

Ég hef nær algerlega hætt að blogga á mbl.is en ætla að gera nokkrar undantekningar á því þetta árið.

Blogg um lífsskoðanir eru af einhverjum ástæðum betur niður komin hér en t.d. á Eyjunni. Kannski er það af því að rauða letrið fyrir ofan mig í rithamnum sem segir:

"Bloggfærslan er alfarið á ábyrgð skrifanda en endurspeglar ekki á neinn hátt skoðanir eða afstöðu mbl.is og Morgunblaðsins.", sem gerir það meira krassandi að skrifa um þessi mál hér. Það er ljóst af áratugalangri ritstjórnarstefnu og yfirbragði Morgunblaðsins að það er nánast hægri hönd Þjóðkirkjunnar.

Hins vegar má segja blaðinu til hróss að af og til hafa blaðamenn þess fengið að birta hlutlægar fréttir um trúmál. Aftur þegar biskupar og prestar telja sig í neyð og er mikið mál að verja kristina hafa þeir jafnan fengið feitt pláss í blaðinu með opnum í lesbókinni eða greinar birtar á ritstjórnarsíðunni, næst hjá pabba. Dæmi um þetta hrönnuðust upp t.d. þegar prófessor Richard Dawkins heimsótti Ísland sumarið 2006. 

Nú hafa þúsundir Íslendinga vaknað af þjóðkirkjusvefninum langa. Nánar tiltekið 5092 manns! Ég vil kalla þetta fólk vitringa nútímans. Þetta fólk tekur það alvarlega þegar það uppgötvar að leiðtogar þeirrar kirkju sem það var skráð í sem ómálga börn gera uppá bak af ósiðlegum feluleik og yfirhylmingum á kynferðisofbeldi fyrrum biskups apparatsins.  

Þetta fólk hefur gert sér grein fyrir því að það á ekki heima í trúarlegu lífsskoðunarfélagi sem telur sig njóta leiðsagnar ofurveru á himnum um hvað sé rétt og rangt, kærleikur eða illska, en getur í leiðinni ekki valið sér jarðneska leiðtoga sem hafa óbrenglaða siðferðiskennd eða hugrekki til að koma fram með sannleikann.

Þetta fólk hefur líklega vaknað við það að það nægir ekki að vera í félagi sem er ríkt af eignum, aðstöðu, fornri hefð, fallegu líni, söngvum og hljómfögrum orgelum.  Það þarf meira til, til þess að félag sem fjallar um siðferði, sé þess virði að bakka upp.   Úldið ket í fallegum umbúðum er bara úldið ket og það lyktar langar leiðir. Þó að saltað sé með þeim brotum í bókinni ofmetnu sem brúkleg eru, þá sleppur enginn við lyktina.  Þó þeir prestar sem bera þá gæfu til að nota fyrst og fremst skynsemi sína frekar en bókstafinn, klóri í bakkann fyrir þjóðkirkjuna, þá er það bara sem gegnsætt plast utan um skemmdina.  

 núverandi fyrirkomulag

 

Skematísk skýringarmynd af núverandi skipan mála.

Kirkja eða félag sem sýnir ekki meiri siðferðisþroska en lítið barn sem sér ekki út fyrir eigin þarfir er sem eitrað epli. Þjóðkirkjan situr á forréttindum sínum eins og ormur á gulli. Þrátt fyrir að um 70% (Capacent 2009) almennra meðlima hennar hafi þann siðferðisstyrk að vilja slíta hin óeðlilegu hagsmunatengsl hennar við ríkið, kýs forystusveit hennar að hunsa þennan vilja og halda áfram að verja óréttlætið með alls kyns þrætubókarlist.  Einn sá ósvífnasti fyrirslátturinn er sá að halda því fram að ríki og kirkja séu nú þegar aðskilin af því að Þjóðkirkjan hafi gert samning við ríkið sem tryggi henni sjálfstæði og eilífum greiðslum úr ríkiskassanum fyrir jarðir sem hún fékk flestar gefins af landsmönnum fyrr á öldum.  

Fjöldi fólks er bara menningarlega tengt kirkjunni, en er annað hvort trúlaust eða óvissusinnað (agnostic).  Því þykir gott að geta fengið þjónustu hennar þegar athafna er þörf.  Þessi tenging er nú óþörf því að Siðmennt, félag siðrænna húmanista hefur athafnarstjóra á sínum snærum sem hjálpa fólki að gera daginn sinn sem eftirminnilegastan.  

Í raun eru bara um 8-10% þjóðarinnar sem trúa á kjarna Kristinnar trúar, þ.e. upprisu Jesú, himnavistina og aðra yfirnáttúru.  Aðrir í kirkjunni virðast láta yfir sig ganga að þetta sé bara goðsögn líkt og um Óðinn og Seif.  Merkilegt nokk þykir þessu fólki í lagi að láta prest messa um þessar ofurhetjur; þríeininguna og englana á hátíðlegustu stundum lífs síns.  Heilinn er bara settur í eitthvern dí-dí-da-da-da ham þegar presturinn þusar og fer með bænir, ritningalestur og blessanir. Faðirvorið og trúarjátningin er svo þulin með álíka "sannfæringu" líkt og í trans.  Eins konar æfing í deyfingu skilningarvitanna og svæfingu gagnrýninnar hugsunar.

Sóknargjaldakerfið er ekki einföld miðlun félagsgjalda heldur trúarskattur 

Mismununin sem er látin viðgangast með lögum og stjórnarskrárákvæðum er lagaleg, fjárhagsleg og félagsleg.  Þjóðkirkjan nýtur mikilla fjárhagslegra sérkjara, lagalegrar verndunar og forréttinda í aðgangi að ríkisfjölmiðlum.  Hin trúfélögin fá sóknargjöld en veraldleg lífsskoðunarfélög fá ekkert.  

Þeir sem tilheyra veraldlegum lífsskoðunarfélögum (Aðeins eitt hér starfandi: Siðmennt) eru skráðir "utan trúfélaga", en þar eru líka þúsundir einstaklinga sem eru ekki í neinum lífsskoðunarfélögum.

Í fyrra ákvað ríkisstjórnin að jafnvirði sóknargjalda fyrir þennan hóp rynni ekki lengur til Háskóla Íslands, heldur gæti ríkið ráðstafað fénu eins og það vildi.  Hvað hefur þetta í för með sér?

 

  1. Trúlausir (fólk "utan trúfélaga) fá ekki að njóta sóknargjalda til félags sem þeir kunna að tilheyra og greiða því hærri skatta en trúað fólk. 
  2. Trúlaust fólk sem greiðir skatt, tekur þátt í því að greiða trúfélögunum sóknargjald fyrir þá meðlimi trúfélaganna sem eru með tekjur undir skattleysismörkum.  Trúlaust fólk í vinnu er því skyldað til að hjálpa við viðhald og uppbyggingu trúfélaga á meðan þeirra félag fær ekki að njóta neins.

 

Lítum aðeins á tölurnar í þessari töflu sem ég gat fengið hjá Hagstofu Íslands:

hagst-08-11-gj

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tölur frá Hagstofu Íslands.  

Taflan sýnir að 1. janúar 2011 voru 77,64% (-1.54%) í Þjóðkirkjunni en 4,42% (+1,17%) utan trúfélaga. Ástæðan fyrir því að fjöldi þeirra sem greiða sóknargjöld (194 þús) er hærri en fjöldi fólks 18 ára og eldri (186 þús) í Þjóðkirkjunni, er sá að sóknargjöld eru miðuð við 16 ára og eldri.  

Hversu margir má maður ætla að séu lágtekjufólk eða á bótum ríkisins á meðal Þjóðkirkjufólks?  Það er langtum stærri tala en sem nemur þessum 4,4% sem eru utan trúfélaga, líklega um 15-20% fólks (t.d. 8% atvinnulausir).  Það er því ljóst að jafnvirði sóknargjalda trúlausra fer allt í að greiða Þjóðkirkjunni sóknargjöld fyrir það fólk sem greiðir ekki skatt af ýmsum orsökum.  Trúlausir skattgreiðendur eru því skyldaðir til að taka þátt í því að viðhalda trúfélögum.  Þeir ríflega 300 á meðal þeirra sem eru Siðmennt greiða að auki þangað félagsgjald (kr 4.400) til að reka félagið.  Það er líklegt að fleiri gætu komið til liðs við Siðmennt ef að það nyti sömu kjara og trúfélögin hjá ríkinu, en þess í stað fá siðrænir húmanistar að finna að þeir séu settir skör lægra en trúaðir. 

Getur þetta kallast réttlæti og jafnræði?  Er þetta í anda jafnaðarstefnu? Að vísu er ekki gert upp á milli háskóla lengur, en er það skárra að enginn háskóli fái ígildi sóknargjalda trúlausra?

   samfelagssattmali

 

Skematísk mynd af þeirri skipan mála (secular) sem tryggir jafnræði.

Þessu ójafnræði þarf að linna.  Það verður aðeins gert með því að allir fái það sama og Þjóðkirkjan eða það sem skynsamlegra er, að útgjöld ríkisins til lífsskoðunarmála verði færð niður á einn lítinn grunn, t.d. helming þeirra sóknargjalda sem nú eru við lýði og gildi jafnt fyrir þau öll.  Félagsleg forréttindi verði jöfnuð út að sama skapi.  Ákvæði um þjóðkirkju tekið út úr stjórnarskrá (en til þess þarf þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 79. grein).  

Í maí í fyrra var lögð fram þingsályktunartillaga um jafnræði lífsskoðunarfélag og nú í apríl 2011 var lögð fram þingsályktunartillaga um aðskilnað ríkis og kirkju.  Þetta eru fyrstu skrefin á Alþingi en nú þarf að spýta í lófana og koma þessum mikilvægu réttlætismálum í verk.  Ofríki hinnar evangelísk-lúthersku kirkju þarf að linna.


mbl.is Fækkar í þjóðkirkjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í framboði til stjórnlagaþings

Ég nota ekki lengur þetta blogg en þar sem það er enn til staðar vegna gamalla skrifa sem enn eru heimsótt, vil ég vekja athygli á því að ég er í framboði til stjórnlagaþings 2011.

Frekari upplýsingar um framboðið eru á vefsíðunni svanursig.is

Kveðja - Svanur


Tími til að jarðtengja

Rómantík og öryggi eru ekki sami hluturinn.  Það sem kemur fram í rannsókninni eru staðreyndir málsins óháð tilfinningum og óskhyggju fólks.  Þó að það sé vinalegt að fæða heima hjá sér er það minna öruggt en á sjúkrahúsi.  Þessi Cathy Warwick, formaður félags ljósmæðra í Bretlandi er í ruglinu ef marka má þessa frétt.  Hún bendir á að með þessu sé verið að koma því að sjúkrahúsfæðingar séu áhættulausar en það er rangt hjá henni.  Það er verið að segja að þær séu áhættuminni.  Heimafæðingarstefnan hefur einkennst af því að halda því á lofti að fæðingar séu náttúrulegar og því ekki sérlega hættulegar.  Því miður er staðreyndin sú að fæðingar eru varasamur partur í lífsferlinu og gildir einu um náttúrlegheit þeirra.  Barnshafandi kona ætti alltaf að velja mesta öryggið fyrir ófætt barn sitt.  Heimafæðingar geta átt rétt á sér þegar um er að ræða heilsuhrausta konu sem hefur fætt áður og gengið mjög vel, þ.e. þegar áhættan er sem minnst.  Fæðingar eru þó alltaf óútreiknanlegar og barnshafandi kona þarf að gera sér grein fyrir því að hún og sérstaklega barnið eru öruggari með fæðingu á sjúkrahúsi.  Reiði þessarar Cathy Warwick yfir rannsóknarniðurstöðunni er óskiljanleg.  Það er eitthvað orðið að þegar forsvarsmaður heilbrigðisstéttar er farinn að halda í einhvern einn veg til að gera hlutina út frá tilfinningasemi í stað þess að vinna glöð út frá því sem hlutlaust er fundið út að er öruggast og best að gera. 

"Mamma, af hverju er ég lamaður í handleggnum?  Jú, drengur minn það er af því að ég vildi hafa það kósý og vinalegt og fæða þig heima!"


mbl.is Deilt um heimafæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segi upp Morgunblaðinu og hætti bloggi hér!

Þetta eru verulega slæm tíðindi.  Með fækkun blaðamanna og starfsfólks með áratuga reynslu við blaðið er vart von á bættum vinnubrögðum hjá því.  Mér sýnast þær blikur á lofti að Morgunblaðið sé að "lúta í gras" og það geti átt sér stað miklar breytingar á íslenskum dagblaðamarkaði næstu mánuðina.  Tap Morgunblaðsins mun varla minnka við þessa leikfléttu sem er í raun aðför að orðspori blaðsins.  Davíð Oddsson er maður sem beitir groddalegu máli og framkomu til að fá sitt fram hvarvetna sem hann starfar og hann er sá einstaklingur sem ég síst vildi sjá sem ritstjóra blaðs sem hefur gefið blaðamönnum sínum þó nokkuð frelsi í skrifum sínum undanfarna áratugi.  Með komu Davíðs litast blaðið af hinum afturhaldssama harðlínuvæng Sjálfstæðisflokksins og miðað við þær orðræður sem hann hefur flutt undanfarin ár, er ekki von á miklu öðru en ærumeiðandi skítkasti í allar áttir. 

Sterkustu hlutar Morgunblaðsins hafa verið þjónusta þess við lesendur með fréttum, aðsendum greinum, minningargreinum og fræðandi lesbókargreinum.  Það hefur haft á sér stílhreinan blæ og ljósmyndarar þess hafa getið sér gott orð.  Það hefur sérhæft sig í pólitískri umræðu en haldið í ljóta siði eins og skot úr myrkri dálka eins og Staksteinum og ritstjóragreinar hafa ekki verið merktar nafni þannig að lesendur hafa þurft að giska á hvort að Styrmir eða Matthías hafi skrifað.  Kannski ekki erfitt fyrir suma lesendur, en ósmekklegt eigi að síður af blaði sem síðan hefur bannað nafnlaus blogg við fréttir á vefmiðli blaðsins.  

Fréttir og umfjöllun blaðsins af heilbrigðismálum og heilsuvernd hefur verið ömurlega léleg undanfarin ár og æsifréttamennska og lúff fyrir auglýsendum gervilausna verið mjög ríkjandi.  Síðasta sérblað Mbl. um heilsu var hreint hræðilegt utan 3-4 greina (af tugum) sem eitthvað vit var í.  Sumar greinarnar voru hreinar auglýsingar þó að þær væru ekki merktar sem slíkar. 

Þá hefur ritstjórnarstefna þessa bloggs farið dálítið úrskeiðis með því að banna suma einstaklinga hér en leyft öðrum að vera, sem hafa sýnt af sér mikinn dónaskap.  Það hefur ekki gætt samræmis, þó að ég geti sýnt því skilning að slíkt sé erfitt í framkvæmd.

Ég get ómögulega stutt dagblað sem setur mann eins og Davíð Oddsson í ökumannssætið og því hef ég ákveðið að segja upp áskrift minni að blaðinu frá og með næstu mánaðarmótum.  Ég ætla að hætta að blogga hér einnig og finna mér annan vettvang. 

Ég vona að einhver góður hópur fólks í þjóðfélaginu rísi nú upp til að stofna nýtt dagblað sem hefur virðingaverðari sjónarmið að leiðarljósi en þau sem nú munu stýra Morgunblaðinu.  Það er þröngt á dagblaðamarkaði í jafn fámennu landi og Íslandi, en einhvern tíma verður betri sýn á hlutverki blaðs að ná fótfestu hér.  Ég skora á atvinnulausa blaðamenn og hugsuði í þjóðfélginu að nota nú hugvitið og skapa betra blað.  Nú er bæði þörf og nauðsyn!

Mér þykir leitt að skilja við Morgunblaðið, því að ýmislegt í gerð þess hefur verið ágætt í gegnum áratugina, en nú tók steininn úr og þessu vil ég ekki una. 

Ég þakka samfylgdina og þjónustuna hér hingað til.  Þá þakka ég sérstaklega þeim fjölda fólks sem hefur heimsótt blogg mitt og lagt orð í belg, bæði með og á móti mínum skoðunum. 

Verið sælir kæru bloggvinir.


mbl.is Davíð og Haraldur ritstjórar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleyg orð Helga Hóseassonar

Í fyrradag fór útför Helga Hóseassonar (sem skrifaði eignarfall nafns síns með þremur essum "Hóseasssonar") fram og var hún haldin á veraldlegan máta í anda manngildis. 

Eftir að hafa kynnt mér ýmislegt það sem Helgi sagði og ritaði eru það eftirfarandi orð hans sem mér finnast einna best:

Ég reyni að nota glóruna.  Ég trúi ekki því sem ég get ekki fellt mig við eða skilið.  Ég leitast við að viðurkenna takmörk mín og fer ekki að búa til skáldskaparrauðgraut í það bil sem ég ekki skil í tilverunni.  Trú er forkastanlegt hugtak; ég leitast við að mynda mér skoðun á hverju og einu og haga mér samkvæmt henni.

Í senn eru þetta ákaflega hógvær og rökrétt orð.  Þau lýsa einnig miklum heiðarleik hans og samkvæmni.  Helgi var maður orða sinna og lifði eftir sannfæringu sinni.  Það og þrautsegja hans eru mikilvægar dygðir sem eru til eftirbreytni.  Hinn mikli baráttumaður er allur, en orðin lifa.

---

Sjá stuðningsmannasíðu á Fésbókinni


Styðjum baráttumál Helga Hóseassonar!

Nú er hinn aldni baráttumaður og hugsjónamaður Helgi Hóseasson allur.  Í lifanda lífi fékk hann blendnar móttökur og þótti undarlegur.  Nú vill fjöldi fólks reisa honum minnisvarða.  Hvers vegna?

Ég held að flestir vilji heiðra minningu manns sem gafst ekki upp og mótmælti allt til enda því ranglæti sem hann taldi sig hafa verið beittan.  Fjöldi fólks dáðist að baráttuþreki hans, burt séð frá því hvort að það væri sammála málstað hans eða ekki.  Helgi fékk síðan aukna athygli og fólk skyldi betur manninn eftir að um hann var gerð heimildamyndin "Mótmælandi Íslands".  Hann varð einhvers konar lifandi goðsögn hins ódrepandi mótmælanda, en sökum þess að hann var einfari og var sérlundaður var hann aldrei opinberlega viðurkenndur né fékk hann opinbera lausn á sínum umkvörtunum.

En var eitthvað vit í baráttumálum hans? 

Eitt helsta baráttumál Helga var að fá skírnarsáttmála sínum rift af yfirvöldum eða Þjóðkirkjunni, því að hann taldi sig "svotil blautur úr móður minni" hafa verið beittur órétti með því að vera skírður.  Hann tók skírnina alvarlega, nokkuð sem fólk mætti gera áður en það ákveður að viðhafa slíka athöfn, því að í henni felst innganga í kristinn söfnuð og sáttmáli við Guð.  Helgi var trúlaus og vildi ekki vera bundinn þessum sáttmála, sem hann hafði ekki haft tækifæri til að ákveða nokkuð um.  Hann bað því yfirvöld um að fá skírnarsáttmálanum rift. 

Ólafur Arnarson hagfræðingur skrifaði á Pressunni í fyrradag um þessi málaferli Helga í minningargrein um hann.  Ég leyfi mér hér að vitna í grein hans (sem má lesa alla hér):

Helsta baráttumál hans, lengst af, var að fá að rifta skírnarsáttmála sínum við guð. Helgi taldi sig ekki hafa gert þann sáttmála og því bæri að rifta honum. Ríkisvaldið og Þjóðkirkjan voru á annarri skoðun og aldrei var fallist á að Helgi fengi að rifta sáttmálanum. Ekki var talið að heimild væri í lögum stil slíkrar riftunar. Verður það að teljast einkennileg afstaða af hálfu ríkisvaldsins, að hafna því að almennur samningaréttur gildi um skírnarsáttmálann svo sem aðra samninga.

...

Ég þekkti ekki Helga Hóseasson, en hann leitaði til föður míns heitins, Arnar Clausen hæstaréttarlögmanns, í raunum sínum og baráttu við kerfið. Þá munaði litlu að lausn fyndist, sem Helgi hefði orðið ánægður með og engan hefði meitt.

Ráðuneytisstjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var á þessum tíma Baldur Möller, skákmeistari, húmoristi og mannvinur. Pabbi og Baldur fundu lausn á málinu, sem fólst í því að ráðuneytið gæfi út yfirlýsingu svohljóðandi: „Dóms- og kirkjumálaráðuneytið staðfestir hér með að Helgi Hóseasson hefur tilkynnt ráðuneytinu að hann hafi fyrir sitt leyti rift skírnarsáttmála sínum.“

Lagalegt fordæmisgildi slíkrar yfirlýsingar var að sjálfsögðu ekkert, enda ekki hægt að rifta samningum einhliða. Ráðuneytið var ekki að staðfesta riftun. Þetta var hins vegar lausn, sem Helgi var sáttur við.

Þá brá svo við að Biskupsstofa, fyrir hönd Þjóðkirkjunnar, setti sig upp á móti þessari einföldu lausn, sem hefði róað mann, sem sannarlega taldi sig beittan ranglæti. Pólitísk yfirstjórn ráðuneytisins vildi ekki ganga gegn vilja kirkjunnar í málinu og því neyddist Helgi til að mótmæla til dauðadags.

Þessi saga kemur manni því miður ekki á óvart.  Þjóðkirkjan er ekki vön að láta eftir neitt af sínu og forystumönnum hennar hefur sjálfsagt þótt beiðni Helga í hæsta máta óvirðuleg og óviðeigandi.  Hann gat jú skráð sig úr Þjóðkirkjunni eins og aðrir, sem undu ekki hag sínum þar.  Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að gefa yfirlýsingu til Helga um að hann væri ekki lengur bundinn skírnarsáttmálanum?  Hvers vegna ekki, spyr ég á móti? 

Ef að prestar hennar trúa því virkilega að þarna sé um heilaga athöfn að ræða þá ættu þeir að skilja að Helgi hafi viljað afhelgast.  Það sést nefnilega að þegar Þjóðkirkjunni hentar, getur hún afhelgað hluti, en það gerir hún þegar gamlar kirkjur eru teknar úr notkun.  Fyrir trúfrían mann eins og mig er það frekar hláleg athöfn, svona líkt og þegar wodoo prestar taka svartagaldur til baka.   Hvað sem mínu áliti líður, þá er þarna fordæmi um að Þjóðkirkjan afhelgi.  Hvers vegna mátti það ekki gilda einnig um fólk? Sérstaklega fyrir aldraðan mann sem tók skírnina svona alvarlega.  Mátti ekki kveðja hann úr loforði við skírnina með handabandi og orðum um aflausn sáttmálans?  Mátti ekki sýna þá mannvirðingu, frekar en að hunsa hann sem óguðlegan og skrítinn sérvitrung? 

Þetta baráttumál Helga á sér hliðstæðu í dag hjá okkur sem eftir lifa, en það er nefnilega baráttan gegn því að nýfædd börn séu skráð sjálfkrafa í trúfélag móður.  Með því að gera slíkt er verið að gera nákvæmlega það sama þessum börnum og gert var við Helga, þ.e. að skrá börn í félag sem þau hafa ekkert vit á og stimpla þau þannig með lífsskoðun móðurinnar.  

Þann 1. desember 2008 sendi Jafnréttisstofa frá sér svohljóðandi tilkynningu um efnið: 

Jafnréttisstofa telur annmarka á þessu ákvæði laganna um skráð trúfélög. Í fyrsta lagi er það tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn þ.e. móðerni ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Löggjafinn hefur ekki fært fyrir því rök, eftir því sem best verður séð, af hverju nauðsynlegt er að barn sé skráð í sama trúfélag og móðir þess við fæðingu. Í öðru lagi er það sem Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli sem er a ðekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir,hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Miklu eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga,sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, væri að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.
 
Niðurstaða Jafnréttisstofu er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið í 2. mgr. 8.gr. laganna brott, og breyta fyrirkomulagin í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráninu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa.

Minning Helga Hóseassonar yrði best heiðruð með því að afnema þessi lög um sjálfkrafa skráningu barna í trúfélag móður.  Það á ekki að viðhafa skráningu barna upp að 16 ára aldri hjá ríkinu í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög. 

Fyrir þessu berst Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi og það gengur með góðu fordæmi með því að skrá ekki börn í félagið. 

 

Helgi og Siðmennt 

Helgi grúskaði talsvert í ritum um lífsskoðanir og trúmál. Hann hafði kynnt sér siðrænan húmanisma á erlendum tungum þar sem talað var um "human etik" og "ethical humanism".  Reynir Harðarson einn af stofnfélögum í Siðmennt átti í samskiptum við Helga um það leyti sem stofna átti húmanískt félag í kringum Borgaralegar athafnir.  Hann kom auga á eina athugasemd í úrklippusafni Helga þar sem stóð: "Eftirtaldir menn aðhyllast siðmennt:...".  Reyni fannst þetta bráðsnjallt orð og stakk uppá því að félagið yrði kallað Siðmennt, og gekk það eftir. Um stuttan tíma uppúr stofnun Siðmenntar árið 1990 kom Helgi nokkrum sinnum á fundi hjá félaginu en svo skildu leiðir hans við félagið enda einfari mikill.

 

Ekki aðeins minnisvarða!

Mótmælandinn mikli er nú allur og hans baráttuþreks verður lengi minnst.  Hann barðist fyrir frelsi og gegn kúgun, en átti alltaf erfitt uppdráttar.   Ég votta aðstandendum hans og vinum samúð mína og vona að um hann rísi ekki einungis minnisvarði, heldur einnig varanleg bót á mannréttindum í anda þess sem hann barðist fyrir, þ.e. frelsi fólks til að hafa sína eigin sannfæringu og vera ekki innvígður opinberlega í trúfélag sem barn. 


mbl.is Vilja minnast Helga Hóseassonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannir ameríkanar eru enn til!

Hverjum þykir sinn fugl fagur og nú hef ég fundið fallegan amerískan örn sem talar undurfagra tónlist í mín eyru.  Hlustið kæru! Hlustið!

Húmanistinn Pete Stark er fyrsti þingmaður Bandaríkjanna til að lýsa því yfir opinberlega að hann sé guðlaus.  Þetta er greinilega hinn vænsti maður og amerísk hetja í sinni sönnu mynd.  Hann veit hvað landsfeðurnir, Thomas Jefferson og félagar áttu við með aðskilnaði ríkis og kirkju.  Verst að íslensk stjórnvöld hafa aldrei skilið það fyllilega, en það er ekki öll von úti. ;-)

Eftir að hafa lesið um viðbjóðsleg sæmdarmorð í Jórdaníu (og Norðurlöndunum þar áður) og séð kvenhatara og ofbeldisseggi í sænsku krimmamyndinni "Karlar sem hata konur", voru það Leifur Geir og Pete Stark sem björguðu deginum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband