Færsluflokkur: Heimsspeki og siðfræði

Nokkrar tilvitnanir til heiðurs skynseminni

Það er gott að orna sér stundum við hnyttin eða skörp orð fólks sem vissi hvað það söng, ekki síst nú á tímum þegar þrátt fyrir allt upplýsingaflæðið, vaða hindurvitnin og sjálfsblekkingarnar um allt.  Hér fara nokkrar tilvitninar í merka menn sögunnar.

Thomas Jefferson, 3. forseti Bandaríkjanna er í miklu uppáhaldi hjá mér.  Hann skrifaði í bréfi einu til yngri manns sem hann var að gefa ráðleggingar:

Með djörfung skaltu draga í efa jafnvel tilveru guðs; því ef slíkur er til, þá hlýtur hann að halda í heiðri notkun skynseminnar, frekar en að blinda hana með ótta.

Rithöfundurinn George Bernard Shaw skrifaði:

Sú staðreynd að hinn trúaði sé hamingjusamari en efahyggjumaðurinn er engu nær lagi en sú staðreynd að drukkinn maður er hamingjusamari en sá allsgáði.

Stærðfræðingurin, heimspekingurinn, sagnfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Bertrand Russell sagði:

Eftirsóknarverður er ekki viljinn til að trúa, heldur löngunin til að finna út um hlutina, sem er alger andstæða þess.

Hér er eitt snoturt frá Charles Darwin, sem átti 200 ára fæðingarafmæli fyrr á árinu:

Ég get ekki sannfært sjálfan mig um að góðviljaður og almáttúgur Guð hefði með hönnun skapað ... það að kettir skuli leika sér að músum.

Rokkarinn kunni og háðfuglinn Frank Zappa sagði:

Munurinn á trúarbrögðum (religions) og sértrúarsöfnuðum (cults) ræðst af því hversu miklar fasteignir þeir eiga.

Ég gef svo Benjamin Franklin einum af "landsfeðrum" Bandaríkjanna, síðasta orðið:

Eina leiðin til að opna augun fyrir trú er að loka augum skynseminnar

 

Góðar stundir!

Svanur


Kauphöllin eða Laugardalshöllin?

Á myndinni sjáum við Teit Örlygsson fagna hressilega sigri Stjörnunnar í bikarmótinu nýlega.  Það er nokkuð á þessari mynd sem sker mig í augað.  Hvað með þig?  Er myndin tekin í Kauphöllinni eða Laugardalshöllinni?

Ég á við fötin sem þjálfarinn sigursæli skartar.  Um nokkurt skeið hafa íslenskir körfuboltaþjálfarar Teitur fagnar (mynd: Vilhelm)tekið um klæðavenju starfsbræðra sinna í NBA deildinni í USA, en það er sterkasta og vinsælasta deild heimsins í körfubolta.  Sjálfsagt er að læra af þeim merku þjálfurum sem þar eru en þurfa íslenskir þjálfarar að apa allt eftir þeim eins og páfagaukar?  E.t.v. voru þeir bara eins og aðrir í góðærinu að læra af Wall Street, kauphöll þeirra í USA.  Við vitum hvernig það fór.  Íþróttafélögin hafa undanfarin ár selt allt sem þau gátu til styrktaraðila sinna.  Íþróttahúsin og deildirnar sjálfar bera nöfn fyrirtækja og verðlaunin sömuleiðis.  En þurfa þjálfararnir að vera í klæðnaði fjármálageirans?  Sem betur fer hefur þetta ekki gerst í handboltanum.  Hugsið ykkur Guðmund Guðmundsson landsliðsþjálfara æpandi á hliðarlínunni á næsta EM í stífum jakkafötum! 

Ég vil hvetja þjálfara körfuknattleiksmanna að halda í íþróttahefðir og klæða sig úr jakkafötunum.  Maður tekur ekki svona villt fagnaðaróp í Höllinni klæddur eins og markaðsstjóri.  Höfum smekk og ofurseljum ekki íþróttir.


Hugsun út úr flækju fornalda

Það þarf jafnan sjálfstæða og þó nokkra hugsun til að kasta af sér hindurvitnum fornalda sem lúra enn á meðal okkar.  Myndbandið hér að neðan sýnir frá nokkrum slíkum sem jafnframt eru frægt fólk fyrir ýmis afrek sín.  Sum andlitin komu þægilega á óvart.  :-)


Krufning fortíðar og lærdómur til framtíðar

Jæja, það er komið að því að hleypa út hugsunum sínum um ástand þjóðmála undanfarna 100 daga og aðdraganda þess.  Maður hefur verið hálf orðlaus yfir þessu öllu saman og reynt að fylgjast vel með og draga lærdóm af þessari rússibanaferð sem nú er niðrí myrkvuðum göngum þó eitthvert ljós sé framundan.  Ég vil reyna að setja fram hugmyndir um það hvernig þetta ljós getur skinið skærar og gefið fallegri birtu og meira gefandi til allra, en áður.

Óheft frjálshyggja og bræðralag valda

Nú er 17 ára valdatíð Sjálfsstæðisflokksins lokið og loksins möguleiki á því að lifa í þjóðfélagi sem telur það ekki æðst dyggða að verða ríkari og ríkari.  Þjóðin vaknaði upp við vondan draum, sem var í raun afneitunarástand blindra frjálshyggjumanna og áhættusækinna auðmanna.  Trekk í trekk voru viðvörunarbjöllurnar ekki teknar nógu alvarlega og bankarnir fengu að rúlla yfir fjármálaeftirlit ríkisins.  Í byrjun árs 2006 var ljóst að lausafjárkreppa var skollin á og þá stofnaði Landsbankinn Icesave reikningana í Englandi.  Það var þensluaðgerð ofan á þenslu.  Í stað þess að stofna dótturfyrirtæki var Icesave bara útibú bankans og þannig var auðveldara að færa gjaldeyri milli landanna.  Í byrjun árs 2008 var ljóst að alþjóðleg bankakreppa var að skella á, en þá var leyfð stofnun Icesave í Hollandi!!! Vextir á þessum innlánsreikningum voru hærri en skynsamlegt gat talist.  Skýrsla Danske bank var hunsuð og forysta Sjálfsstæðisflokksins, hneykslaðist á henni og öðrum sambærilegum skýrslum.  Við þekkjum þessa sögu og framhaldið.  Hrokafull framkoma og léleg dómgreind Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra gerði svo illt verra.   Það litla sem eftir var af trausti erlendra lánadrottna í garð íslenskra fjársýslumanna og stjórnun fjármála hjá hinu opinbera, hrundi með hroðalegum aflæðingum.  Davíð jós móðgunum yfir fréttamenn og þóttist búa yfir leyndarmálum líkt og örvinglaður krakkaormur sem er búinn að missa virðingu leikfélaga sinna.  Fóstbróðir hans, Geir Haarde hélt svo verndarhendi yfir honum þrátt fyrir að fá sinn skerf af niðurlægjandi ummælum hans.  Ljóst var að enginn töggur var í Geir, en hann reyndi að láta mannalega með því að beina athygli sinni að ómenninu Gordon Brown.  Hann og ríkistjórn hans skyldi lögsækja fyrir að snúa litla Ísland niður á asnaeyrunum.  Nokkrum vikum síðar kom sú aumingjalega tilkynning í fréttum að slíkt myndi ekki borga sig, þó ríkið myndi aðstoða Kaupþing til að fara í mál.  Aftur var Geir orðinn skólastrákur sem slegið hafði vindhögg.  Hann kunni ekki að reita arfann í eigin garði og réði ekki við tréð í garði nágrannans, sem hann taldi orsök alls skugga og uppskerubrests hjá sér. 

Jafnaðarflokkur annar stýrimaður í sökkvandi skipi

Þáttur Samfylkingarinnar var aðeins til þess fallinn að taka þátt í dauðateygjunum, með vel hugsandi viðskiptamálaráðherra, sem með sína heimsspekimenntun gerði hvað hann gat og hafði vit á, en var auðvitað bara lítilsmegnugur farþegi um borð í skemmtisnekkju sem gerð var úr glópagulli og var komin því sem næst á enda ferðar sinnar.  Björgvini G. Sigurðssyni tókst ekki að snúa við atburðarrásinni og var bundinn því líkt og allir í þessari ríkistjórn að fylgja hrifningu forsætisráðherrans á burðum og getu hins íslenska efnahagskerfis og snjallra stjórnenda og eigenda bankanna, sem hann og tveir forverar hans höfðu svo rækilega rutt brautina fyrir.  

Samstaða íhaldsins um vald og gott útlit

Sjálfstæðismenn krefjast þess að út á við syngi allir sama lagið og inná við er því auðvelt að eiga við þá sem ógna þeim sem stækka kökuna.  Samkvæmt hugmyndafræði sjálfstæðismanna kallast það að "eyða fé" að gefa gamalmennum betra líf með auknum ríkisútgjöldum, en að "stækka kökuna" að gefa fjármálageiranum frjálsar hendur til að afla fjármuna og búa við lægstu skattprósentuna.  Allt skal vera keppni "því samkeppni getur ekki leitt til annars en góðs" segja þeir vatnsgreiddu með fallegu bláu augun sín.  Eftir hrunið í október mátti sjá á könnunum Gallups á fylgi flokkanna að almenningur kenndi ekki Samfylkingunni um ófarirnar og Sjálfstæðisflokkur (xD) og Framsókn (xB) komu illa út.  Fylgi xD var í sögulegu lágmarki.  Ljóst var að Samfylkingin (xS) hafði spil í hendi og varð nú að leika þeim rétt út, en hvað gerðist? Eftir nokkrar vikur þar sem Geir leitaði m.a. til Guðs og mikilvægar neyðaraðgerðir voru framkvæmdar, stóð enn eftir að sækja lykilpersónur í lykilstöðum til pólitískrar ábyrgðar.  Geir og sjálfstæðisflokkurinn lét sem bankahrunið væri "smámál" líkt og pólitísk skipan vina í dómskerfið.  Fólkið og fjölmiðlar skyldu bara kyngja því án þess að nokkur sem að málum hefði komið þyrfti að segja af sér og hleypa öðrum að. 

Samfylkingin sogaðist með en vaknaði aftur til aðgerða

Ekkert gerðist og Ingibjörg Sólrún fór að hljóma samdauna þrátt fyrir varfærin orð um að Davíð ætti að segja af sér.  Hún hafði hlaupið vonlaust og illa til stofnað hlaup Halldórs Ásgrímssonar og fyrri ríkisstjórnar í átt að sæti Íslands í Öryggisráði SÞ með engum árangri og niðurlægjandi niðurstöðu.  Miklu fé hafði verið sóað.  Hún var þannig samviskusamlega að reyna að spila úr vonlausum spilum sem hún fékk í hendurnar og hélt svo áfram að gefa Geir tíma til að átta sig.  Þessi tími var dýrkeyptur því að eftir deyfingu fjöldans um jól og áramót sauð bara upp úr.  Hún gat ekki lengur sagt að fólkið sem hrópaði á borgarafundum í Háskólabíói eða barði á potta og pönnur á Austurvelli, væri ekki endilega fulltrúar þjóðarinnar.  Hún hafði sogast með í afneitun og óviðunandi værð Geirs, að því marki að hennar eigin vaska sveit baráttumanna og kvenna var við það að springa á limminu.  Það þurfti svo fund Samfylkingarfélagsins í Reykjavík til þess að vekja upp Ingibjörgu Sólrúnu.  Hún var að missa frumkvæðið en rétt náði að bjarga sér og flokknum fyrir horn.  Þetta kostaði það að sjálfstæðismenn fengu höggstað á Samfylkingunni að því leyti að gamla sundrungarlumman fékk endurnýjun lífsdaga.  Í huga sjálfstæðismanna eru skiptar skoðanir opinberlega innan sama flokks það sama og "sundrung", nema skyldi vera hjá þeim sjálfum.  Þá heitir það opinberlega "uppbyggileg gagnrýni" en hlýtur harða refsingu innanbúða.  Það getur orsakað pólitíska dauðarefsingu að tala opinberlega gegn formanninum eða fyrrum formanni og almennt séð er fólk sem skipt hefur oft um skoðun um ævina, hvað þá um stjórnmálaflokk, talin alger viðrini í augum klassískra sjálfstæðismanna af gamla skólanum (og e.t.v. þeim nýja einnig).  Hin hugrakka Þorgerður Katrín á greinilega erfitt uppdráttar þessa dagana innan flokksins eftir að hún lét Davíð heyra það eftir fall bankanna. 

Valdaelska sjálfstæðismanna

Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldsamur flokkur sem elskar völd og tangarhöld.  Hann passar uppá aðra valdastofnun, þjóðkirkjuna og gætir þess að hún haldi sérréttindum sínum og óhóflegum greiðslum úr ríkissjóði.  Þjóðin fær aldrei að kjósa um það hvort hún vilji hafa þjóðkirkju.  Málið hefur aldrei fengið að fara á dagskrá fyrir kosningar.  Í borginni ríkti valdagræðgi sjálfstæðismanna í jafnvel meira mæli en í ríkisstjórn.  Sá farsi sem boðið var uppá þar með aðstoð fyrrum sjálfstæðismanns, Ólafs F með Vilhjálm í löskuðum fararbroddi, verður minnst sem eitt af smánartímabilum íslenskrar stjórnmálasögu.  Þar horfði Geir á án nokkurs bætandi innleggs eða inngrips líkt og svo rækilega kom í ljós að var einkennandi fyrir hans stjórnunarhætti, eða öllu heldur vanstjórnun. 

Mjúkur ráðherra sem skynjaði ekki harða framtíð 

Á tímum þegar þjóðin þurfti verulega kjarkaðan og harðraunsæjan og varkáran stjórnanda, sem þyrði að skipa fyrir og byrja óþægilegar og víðtækar varnaraðgerðir fyrir íslenskt efnahagslíf árið 2005 eða hið síðasta í byrjun árs 2006, þá var aðeins ríflegt meðalmenni í aksturssætinu.  Allt árið 2006 og fram til maí 2007 fór í að mýkja upp landsmenn fyrir kosningar.  Nær alger yfirhylming var í gangi og milljónum lofað hægri vinstri.   Mottóið var að fólk og millistýrendur stýrðu sér sjálfir.  T.d. mátti menntamálaráðherra ekki skipta sér af starfi skólastjóra, sem fengu að túlka klásúluna um að "skólar eru ekki trúboðsstofnun" á sinn eigin máta.  Engar skýrar línur mátti draga og það átti greinilega einnig við um fjármálageirann.  Hann var jú sjálfstæður, en ef hann félli um koll yrði þjóðin að borga.  Það gleymdist þó, að í valdatíð forvera Geirs, Ólafs Thors, á árunum fyrir seinni heimstyrjöld hefðu stóru útgerðarfyrirtækin staðið á barmi gjaldþrots og við blasti að þjóðin þyrfti að greiða ef þau myndu hrynja.   Þá kom stríðið og hruni var forðað.  Við vorum ekki í fyrsta sinn með ofvaxin fyrirtæki í sögu okkar.  Við þurftum framúrskarandi ríkisstjórn sem hefði hlustað á raunsæja hagfræðinga, en Geir og hinn leiðandi flokkur hans reyndist ekki betri en meðaljóninn.  Það er "sök" þeirra og í ljósi aðstæðna, ástæða falls þeirra. 

Lærdómurinn og hugmyndir fyrir betra Ísland 

Í kjölfar þessa þarf friðsama byltingu í íslenskum stjórnmálum.  Einstakt tækifæri býðst nú til að læra af öllum þeim fjölda fagmanna á sviði siðfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og fleiri, sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum og á opnum fundum undanfarna mánuði.  Tilmæli forsetans um að huga að því að byggja upp "nýtt lýðveldi" eða einhvers konar "nýjan sáttmála" ættum við öll að taka alvarlega.  Vandi okkar á sér djúpar rætur í því hvernig við lítum á siðfræði í stjórnmálum, förum með vald, veljum fólk til forystu, skipuleggjum dreifingu valds, skömmtum sumum sérréttindi, gerum feril í stjórnmálum óaðlaðandi, forðumst að sæta ábyrgð sem auðmenn, kjósendur eða foringjar og vanrækjum kennslu í gagnrýnni hugsun, hugmyndasögu, rökleiðslu og grundvallaratriðum mannréttinda á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.  Við þurfum að læra að stjórnmál eru ekki íþróttakeppni, líkt og svo margir stjórnmálamenn virðast líta þau.  Valdið er ekki lokamarkmiðið, heldur samfélagslega framþróunin.  Hæstu sæti í flokkstarfi eru ekki æðstu verðlaunin, heldur heildar mannauðurinn og sanngjörn dreifing valda innan tiltekins flokks.  Markmiðið á að vera það að hæfasti flokksmaðurinn leiði starfið og fólk á að kunna að víkja og styðja við þá sem hafa forskot t.d. í formi þekkingar, reynslu, mikilla tengsla við fólk og hæfileika til tjáningar og samskipta við fólk.   Þroskaður stjórnmálamaður bíður síns tíma og nýtur leiðarinnar hver sem svo vegsemdin verður á endanum.  Vegur sem varðaður er af heiðarleika, velvilja, mannvirðingu og frjálsri hugsun er ávallt virðingarverður og þjóðinni til gagns. 

Val fulltrúa þjóðarinnar 

Í ljósi þessa leyfi ég mér stórlega að efast um gildi prófkjara til að velja fólk til forystu innan flokka.  Í fulltrúalýðræði eru prófkjörin ákaflega afdrifarík og fela í sér mikilvægi sem ég held að þau standi ekki undir.  Hvort sem að þau eru "lokuð" eða "opin", misheppnast þau oftast.  Í lokuðum prófkjörum er það stundað að smala utanaðkomandi fólki sem þekkir ekki til manna eða málefna í viðkomandi flokki nema yfirborðslega og skrá það í flokkinn svo það fái kosningarrétt.  Hið sama gerist í opnum prófkjörum nema hvað skráningin er óþörf.   Útkoman er sú að sá aðili sem er duglegastur að smala og leggur mest í auglýsingar, vinnur eða hlýtur sæti mun ofar en stjórnmálalegur þroski segir í raun til um.  Ég met það svo að prófkjör séu afleit leið til að finna hæfustu leiðtogana og eru oft á tíðum völd af misklíð, deilum og sundrung innan flokka.  Finna þarf betri lausn á þessu t.d. með lýðræðislegu samráði miðstjórna og kjördæmastjórna um ágæti frambjóðenda eftir skipulegt umsóknarferli þar sem fagmennska og nærgætni ráði ríkjum.   Hinn almenni kjósandi gæti svo haft áhrif með útstrikunum eða endurröðun frambjóðenda, skv. nýjum reglum þar sem meirihluti kjósenda tiltekins flokks geti breytt röðuninni.  Ég hef ekki úthugsaða lausn, en það hlýtur að vera hægt að finna betri lausn á vali frambjóðenda en prófkjör og allt það smalræði og vinsældabrölt sem því fylgir.

Út með flokka - inn með einstaklingsframboð? 

Nú heyrist oft í umræðum fólks á kaffistofum vinnustaðanna að flokkskerfið sé úrelt og kjósa eigi óháða einstaklinga til alþingis.  Þetta er því miður algerlega óraunsær draumur.  Það er í órjúfanlegu eðli mannsins að leita félagsskapar og hópmyndunar um mikilvæg málefni.  Í stað stjórnmálaflokka yrðu því óhjákvæmilega til faldar klíkur og leynimakk hópa sem í raun yrðu duldir flokkar.  Það er því betra að hafa flokkana á yfirborðinu og reyna frekar að þroska starf þeirra og afstöðu til innri og ytri mála.  Auðvelda mætti veg minni framboða þannig að þau þurfi ekki að yfirstíga þröskuld fylgis uppá 3 þingmenn, heldur fengju að koma einum manni að fái hann til þess hlutfallslega nóg fylgi.  Þetta getur greitt veg einstaklinga sem hafa fengið rangláta úthlutun í stórum flokkum og kæmist því nær því að vera kerfi einstaklingsframboða, en gallinn við svona lítil framboð er að þau geta komist í aðstöðu þar sem þau fá óeðlilega mikil völd, vegna kreppu í myndun stjórna.   Hugsanlega má semja lög til að hindra slíkt á einhvern máta, þ.e. að oddamaður í stjórn sem á ekki mikið fylgi að baki á landsvísu (eða sveitarfélagi), geti ekki farið fram á eða þegið valdamestu stöðuna.  Þetta þarf að skoða gaumgæfilega af sérfræðingum á sviðum stjórnmálafræði, siðfræði og lögfræði.

Mörg fleiri svið stjórnmálanna þarf að bæta og mun ég koma með fleiri tillögur í komandi bloggfærslum.  Þessi færsla fer að líkjast kafla í bók haldi ég áfram.  Hlusta þarf á hagfræðingana og orð siðfræðinga eins og Vilhjálms Árnasonar.   Fólk á kosningaraldri þarf á nýrri upplýsingu að halda og tileinka sér miklu meiri þekkingu á stjórnmálalegum málefnum en það hafði fyrir síðustu kosningar.  Allir þurfa að læra og líta á stjórnmál í nýju og jákvæðu ljósi.  Við þurfum okkar hæfileikaríkasta fólk við stjórnvölin og það er þjóðarinnar að skapa þá umgjörð sem laðar að farsæla leiðtoga. Umfram allt þurfum við að læra að hlusta á hvort annað og þiggja góðar hugmyndir, sama hvaðan þær koma.  Þjóðin og mannkynið er sá "flokkur" sem við viljum í raun að beri sigur úr býtum og sigurinn felst í því að reyna að hámarka hamingjuna fyrir sem flesta úr öllum kimum þjóðfélagsins.


Nei, hann er það alls ekki - einföldum lífið!

Guð er ekki nauðsynlegur frekar en snuð ungabarni eða tálsýn týndum manni.  Hugmyndin um guð flækist bara fyrir fólki og býr til gerviheim sem er líkt og að synda í grjónagraut. 

Franski stjörnufræðingurinn og eðlisfræðingurninn Pierre Laplace (1749-1827) fékk athugasemd frá Napoleon Bonaparte keisara eftir að honum var kynnt bók LaPlace, Himnesk gangverk, sem útskýrði alheiminn algerlega út frá náttúrulegum forsendum án þess að minnst væri einu orði á guð.  Napoleon hafði gaman að því að koma með athugasemdir sem gætu komið flatt upp á fólk eða það átt í vandræðum með að svara: 

"Þeir segja mér að þú hafir skrifað þessa stóru bók um alheiminn, en hvergi minnst á Skaparann í henni" sagði Napoleon

Laplace svaraði: "Ég hafði enga þörf fyrir þá tilgátu!" 

Napoleon hafði gaman af svarinu og sagði ítalska stærðfræðingnum og stjörnufræðingnum Lagrange frá þessu.  Lagrange sagði þá: "Ah, það er fín tilgáta.  Hún útskýrir svo margt".   Þ.e. tilgátan um að engin þörf sé fyrir guð, útskýri margt.

Þetta fellur að öðru heimspekilegu hugtaki sem kallast Rakvélablað Occams, (William Occam 1285-1349) sem útskýrir að óþarfa viðbætur við tilgátur gera þær ekki réttari eða betri en þær sem innihalda einungis kjarna málsins.  T.d. bætir það ekki neinu við skilning okkar á eðli siðferðis eða sporgöngu himintunglanna að bæta við einhverri veru í útskýringuna, þegar tilgátur byggðar á náttúrulegu eðli nægja fyllilega. 

Í þessari umræðu er mikilvægt að skilja á milli guðshugmyndarinnar og trúarsamfélags sem inniheldur margvíslega mannlega og félagslega þætti sem koma að gagni.  Þeir þættir þurfa ekki raun guðinn þegar betur er að gáð.  Samhjálp, samhugur, samhyggð, samábyrgð, stuðningur við hvort annað og velvilji er allt sem þarf.  "All you need is love" sungu Bítlarnir.  Höldum þessu einföldu takk! Wink


mbl.is Er Guð nauðsynlegur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfærin hans Karls biskups í fullri sveiflu

Í þessari frétt Mbl.is af Kirkjuþingi unga fólksins hjá Þjóðkirkjunni segir:

Á þinginu kom einnig fram hvatning til að efla boðun kirkjunnar í framhaldsskólum, með vísan til mikilvægis þess að sjónarmið kirkju og trúar þyrftu einnig að heyrast þar.

Það er greinilega ekkert launungamál hjá þeim að boða á kristni í framhaldsskólum rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara í opinberum skólum allra landsmanna.  Það er ekki einu sinni reynt að sýna þá tillitssemi að nefna þetta fræðslu.  Nei það skal efla BOÐUN kirkjunnar í framhaldsskólum.

Svo segir í fréttinni:

Þá lagði þingið til að  Þjóðkirkjan marki sér stefnu í æskulýðsstarfi í minni söfnuðum, með það í huga að vinna í samvinnu við  sveitarfélögin og stofnanir þess. 

Ég beini athyglinni að: "...að vinna í samvinnu við sveitarfélögin og stofnanir þess".  Þetta er alveg makalaust.  Þetta þýðir ekkert annað en að Þjóðkirkjan vill nýta sér opinbera aðstöðu og fé annarra stofnana en sinna eigin til að boða trú sína.  Margir þjóðkirkjuprestar verða æfir ef sagt er að hún sé "ríkiskirkja" því hún þykist vera svo sjálfstæð og óháð ríkinu.  Hún er það vissulega en algerlega á sínum skilmálum, þ.e. hún þiggur sóknargjöld, full laun handa prestum sínum (og ekki af verri endanum), menntun og húsbyggingar auk stjórnarskrárlegrar verndar og sérstakrar heiðursstöðu við upphaf hvers þings Alþingis.  Fleira mætti tína til en á móti hlýtur að vera lágmarkskrafa stjórnvalda og opinberra stofnana að kirkjan komi ekki með virkt trúboð inní þær.  Um 20% þjóðarinnar "trúa ekki" á æðri mátt (Gallup 2004) og að megin uppbyggingu er þetta land byggt upp á veraldlegan máta þannig að mennta- og heilbrigðisstofnanir, dómskerfi og framkvæmdavald þurfi ekki að lúta kirkjulegu valdi eða áróðri við sín störf. 

Ósvífni Þjóðkirkjunnar við að brjóta á þessari megin reglu sem er í fullum takti við ákvæði mannréttindasáttmála um "jafna meðferð" allra þegna innan hins opinbera geira, er með ólíkindum og ætlar ekki að taka enda þrátt fyrir mótmæli víða að síðastliðin ár.  Í krafti stærðar sinnar, peninga og vissu um réttmæti boðunar sinnar inní alla kima þjóðfélagsins ætlar Þjóðkirkjan sér að vera allsráðandi.  Siðmennt hefur mótmælt þessari stefnu Þjóðkirkjunnar og fyrir það fékk félagið einkunnina "hatrömm samtök" úr munni Karls Sigurbjörnssonar biskups, boðara kærleiks Krists, fyrir um ári síðan.  Slík orð eru ekkert grín fyrir félag sem hefur borðið ábyrgð á kennslu um þúsund ungmenna fyrir Borgaralega fermingu undanfarin 20 ár og hefur ábyrga umfjöllun um siðfræði sem eitt af sínum megin markmiðum. 

Nú furða sig eflaust margir yfir því hvers vegna maður fettir fingur út í boðun kristinnar trúar í framhaldsskólum.  Ástæðan er tvíþætt. 

  • Í fyrsta lagi tel ég að lífsskoðunarfélög (bæði trúarleg og veraldleg) eigi að tilheyra einkageiranum því um þau verður aldrei nægilegt samkomulag um eina skoðun eða lífssýn, til að taka megi eitt eða nokkur þeirra út fyrir og gefa forréttindi innan opinbera geirans.  Hér gildir einu hvort að eitthvað félag er í meirihluta eða ekki því mannréttindi eru gerð til að vernda hag minnihlutahópa.  Mannréttindi eru samin til að tryggja öllum jafnan aðgang og frið frá áróðri og boðun utanaðkomandi hópa innan kerfa eins og hins almenna menntakerfis. 
  • Í öðru lagi tel ég að það sé til betri lífsskoðun en sú trúarlega og því finnst mér slæmt ef prestar fá að boða og innræta trú sína í opinberum skólum.  Að sama skapi skil ég að prestum þætti slæmt ef ég fengi að boða lífsskoðun mína í opinberum skólum og því er best að hvorugur fái aðgang að skólunum nema rétt til að kynna einstöku sinnum skoðanir á fræðslufundum utan skólatíma, fyrir börn ekki yngri en 13 ára. 

Ekkert lífsskoðunarfélag á að fá að dreifa boðunarritum sínum ókeypis í barnaskólum.  Skólar eru ekki vettvangur gjafa frá trúfélögum eða klúbbum tengdum þeim.  Ef foreldrar telja að börn sín hefðu gott af því að lesa eitthvað trúarrit þá er það þeirra að útvega þeim það eða biðja trúfélag um að gefa barninu það.  Skólar landsins eiga ekki að koma í staðinn fyrir það uppeldi foreldra sem þeir hafa val um að gefa barni sínu um siðferði, trú, lífsskoðanir og stjórnmál.  Hlutverk skólanna er að fræða á hlutlægan máta og sú fræðsla á að koma frá kennurunum og menntakerfinu en ekki hagsmunasamtökum úti í bæ. 

Nú á tímum naflaskoðunar á lífi okkar og siðferði í kjölfar efnahagslegs hruns stærstu fyrirtækja landsins og hagkerfisins, er einnig tími til að efla rökhyggju og raunsæi á öllum sviðum.  Þjóðin þarf ekki á aðilum eða samtökum að halda sem ýkja og tala upp ímyndað mikilvægi sitt og verðmæti, hvorki á efnahagslega sviðinu né hinu siðferðislega (andlega, trúarlega eða hugarfarslega).  Slíta þarf hin óeðlilegu fjárhagstengsl ríkis og kirkju og spara þannig milljarða á ári hverju.  Þegar Þjóðkirkjan er orðin bara hin Evangelísk-Lúterska kirkja á Íslandi, rekin af eigin verðleikum og félagsmönnum sem ekki lengur yrðu skráðir sjálfkrafa við fæðingu eða skírn, heldur þegar þeir taka upplýsta ákvörðum við 16-18 ára aldurinn óski þeir þess, þá kæmi í ljós hinn raunverulegi stuðningur við hana.  Ég efast ekki um að hann yrði talsverður því þrátt fyrir guðsþrugl þá gerir kirkjan margt gott en ég efast ekki heldur um að hún myndi missa umtalsverðan fjölda félagsmanna og yrði að komast af án launa til presta sinna sem eru hærri en margir sérfræðimenntaðir læknar fá hjá ríkinu.   Hún yrði að reiða sig á eigin fætur í stað þess að mergsjúga ríkið og allan almenning.   Af öllum viðbrögðum þjóna hennar virðist Þjóðkirkjunni er þó alveg sama um þetta því þó að hún þykist vera sjálfstæð og vera ekki "ríkiskirkja" nýtur hún þess að  maka krókinn líkt og áhættufjárfestar á meðan vel árar og seilist í meira en hún á skilið svo lengi sem aðstaðan er fyrir hendi og flestir þegja.  Hún gefur ekki neitt eftir þó að sumir innan hennar viti órétt hennar.  Slíkt er ekki siðaðra manna siður, en líkt og Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra sagði þegar hann var spurður að því hvað væri "kristilegt siðgæði" í Kastljósinu, þá virðist það einkennast helst að því "að vernda Þjóðkirkjuna".

Ólafur Stefánsson handboltakappi og heimspekipælari sagði nokkuð merkilegt í viðtali sínu við Evu Maríu í gærkveldi á RÚV.  Inntak orða hans var að valdafígúrur kæmust upp með slæma hluti á meðan fólk væri upptekið við afþreyingarefni ýmiss konar í stað þess að nýta tíma sinn til að öðlast þekkingu á þjóðfélaginu.  Hann sagðist frekar lesa Laxnes en að tala við hinn heimsfræga Djorkowitz handboltakappa. Þarna virðist mér að Ólafur vera að lýsa sinnuleysingjum þjóðfélagsins gagnvart pólitík og af mínum athugunum sýnist mér að hið sama eigi við um stóran hluta þjóðarinnar gagnvart trúmálum eða lífsskoðunarmálum.  Þjóðkirkjan nýtur þess að hafa alið upp margar kynslóðir Íslendinga (m.a. með valdi sínu á kennsluefni í trúarbragðafræði í skólum) sem hafa nær enga gagnrýna og hlutlæga þekkingu á hugmyndasögunni og tilurð trúarbragða eða þeim áhrifum sem órökræn trúarhugsun getur haft á gjörðir manna.  Fólk veit almennt t.d. ekkert um húmanisma og sáralítið um Upplýsinguna.  Í þessum málum ríkir nær algert naívitet í landinu og fólk lætur mata sig á Trúarjátningunni og Faðir vorinu líkt og heiladauðir svefngenglar, löngu eftir að afsökunin um eðlilega trúgirni í æsku er runnin út. 

Er ekki kominn tími til að stoppa þessum svefngengilshætti á öllum sviðum mannlífsins?  Er ekki kominn tími til að stefna svolítið hærra og um leið mannlegar?  Er ekki kominn tími til að hætta að láta mata okkur af barnalegum hugmyndum í pólitík, efnahagsmálum, heilsufræðum kuklara og aldagamalli hugsanalögreglu í nafni guða frá botni Miðjarðarhafs þar sem mönnum blæðir reglulegar og meira en víðast annars staðar allt frá uppfinningu þessa gerræðislegu stjórnkerfa?  Þjóðin á nú að segja nei takk við þessu og taka upp ábyrga siðferðisstefnu byggða á velvilja, mannvirðingu, ábyrgð, raunsæi og faglegri þekkingu.

 


mbl.is Ungt fólk þingaði um málefni kirkjunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegur aðskilnaður trúarbragða og stjórnmála

Myndskeiðið hér að neðan sýnir hvers vegna trúarbrögð og stjórnmál fara ekki saman og þ.a.l. hvers vegna trúarbrögð eiga ekki að njóta ríkisverndar. 

Konan sem hér situr fyrir svörum kýs McCain og Palin því að þau standa fyrir trú hennar burt séð frá stjórnmálastefnu þeirra.  Fyrir henni eru stjórnmálin aukaatriði.  McCain mun gera það rétta því hún telur að hann treysti á guð.  Hún trúir því blint að guð muni leiðbeina honum og þannig liggi hagsmunir hennar og McCain saman.  Hún hefur tekið sér varanlegt frí frá því að hugsa fyrir sig sjálfa í trausti þess að ímynduð vera á himnum beini öllu í réttan farveg.  Þannig afsalar hún sér í raun sjálfstæði sínu og því að vera hugsandi manneskja, án þess að gera sér grein fyrir því.  Slíkur er máttur trúarinnar.   Næsta vor munu þúsundir íslenskra barna játa því að gera "Jesú að leiðtoga lífs síns" við altari trúarlegra ferminga.  Að hvaða leyti á barnið að takmarka leiðtogahlutverk Guðs og Jesú?


Ákveðni eða yfirgangur - Þurfum við frussandi fréttamenn?

Fyrir fréttamenn í ljósvakamiðlum verður það að teljast mikill kostur að vera fylginn sér og sýna ákveðni, en það er talsverður munur á því að vera böðull í fréttamannslíki yfir í það að vera hnitmiðaður og faglegur í vinnubrögðum. 

Endurkastið

Undanfarið hafa sumir fjölmiðlamenn farið á nornaveiðar í kreppunni sem riðið hefur yfir.  Helgi Seljan hjá RÚV hefur að vísu hegðað sér mun verr áður en fékk fyrst nú á dögunum að heyra það eins og sagt er.  Forsætisráðherra kallaði hann dóna þannig að allir heyrðu þegar Helga hélt sig einan fréttamanna hafa leyfi til að halda spurningum áfram eftir að ráðherrann hafði sagt fjölmiðlafundi slitið.  Í atgangi funda sem þessa var þetta ekki stór sök en trúlega var þetta bara kornið sem fyllti mælinn hjá Geir Haarde, því Helgi hefur lengi iðkað það að koma fram með ótrúlegum fruntaskap í viðtölum sínum í Kastljósinu og er rödd hans oftar en ekki hlaðin tilfinningum vantrausts og fyrirlitningar, rétt eins og hann búist alltaf við því versta í fari viðmælenda sinna.  Spyrlar eins og Helgi virðast reyna að koma viðmælendum sínum úr jafnvægi með hraða og innígripum þannig að nær ómögulegt er að koma einhverju heilsteyptu til skila.  Þjóðin hefur kvartað yfir því að það vanti gott og hæfileikaríkt fólk á alþingi, en hver vill starfa við slíkt þegar umræður um stjórnmál í sjónvarpi ná ekki upp fyrir sandkassastigið?

Helgi Seljan er ekki sá eini sem hefur verið kallaður dóni af Geiri Haarde en síðasta vor fékk annar fréttamaður þann heiður þegar hann kom ómeldaður inní Stjórnarráð til Geirs og fór að spyrja spurninga á tröppunum.   Geir er heldur ekki sá eini stjórnmálamaður sem hefur gert athugasemdir við framkomu fréttamanna uppá síðkastið. 

Í viðtalsþætti nýlega ámynnti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra þáttastjórnendur og sagði ábyrgð þeirra væri mikil í svona erfiðum tímum.  Hún kvartaði yfir því að geta ekki lokið við setningar sínar og ekki að ósekju.  Það er óþolandi fyrir hvern sem er að vera truflaður í sífellu þegar talað er fyrir fram alþjóð og fá ekki frið til að skýra út sitt mál sem best maður má.  Hvernig er hægt að ætlast til að gæði svara stjórnmálamanna séu mikið meira en í lágmarki þegar samtölin líkjast meira orðaflaumskeppni í ætt við Skaftárhlaup frekar en vandaðri köfun í viðfangsefnið? 

 

Súrt silfur 

Egill Helgason reyndi hvað hann gat til að svínbeygja og logsjóða Jón Ásgeir Jóhannesson í Silfrinu sínu síðastliðinn sunndag.  Hann ætlaði sér svo innilega að vera Hrói höttur okkar Íslendinga og fletta ofan af útrásarhöfðingjanum.  Æsingurinn var gífurlegur.  Ásakanir í formi spurninga flæddu úr munni Egils og Jón Ásgeir þurfti að segja ítrekað "Egill, þú veist..." og horfa einbeittur í augu hans til þess að reyna að róa hann niður.  Egill virðist elska það þegar eitthvað niðurrif og upplausn er í gangi.  Ég man vel þegar hann ól á klofningi innan Frjálslynda flokksins fyrir tæpum 2 árum síðan með því að etja saman fólki og spá hinu versta.  Það hlakkaði í honum.  Hann hafði rétt fyrir sér á endanum, en hann lagði sitt á árarnar til að svo yrði.  Nú er ég ekki í aðstöðu til og hef ekki þekkingu til að dæma um það hvort að Jón Ásgeir eða aðrir stórfjárfestar eigi einhverja sérstaka sök á því hvernig komið er fyrir bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum Íslendinga, en sú bombardering sem Egill lét hrynja á honum færði mann ekki neitt nær því að vita sannleika málsins.  Jón Ásgeir á a.m.k. vissa virðingu skilið fyrir að koma fram í fjölmiðlum nú tvisvar til að útskýra það sem að honum snýr, sem er meira en aðrir stórfjárfestar hafa gert.  Hvort að allir eru ánægðir með svörin er annað mál en hann sýnir þó ábyrgð og svarar fyrir sig.  Spurningar Egils voru ómarkvissar og lýstu ekki þekkingu á málum.  Hann talaði um fjárglæframenn og var fullur af reiði og hefnd.  Skyldi hann hafa tapað fé á mörkuðum?  Spyr sá sem ekki veit.  Lét hann persónulegar ófarir ráða ferðinni eða er Egill Helgason bara ekki betur af manni gerður en þetta?  Hvers vegna er RÚV alla landsmanna með mann í vinnu sem spúir móðgunum yfir viðmælendur sína og hellir sér yfir þá með offorsi?  Er faglegur metnaður í þessari ríkisstofnun að nálgast frostmarkið?

 

Hvernig á að grilla?

Auðvitað þarf stundum að endurtaka spurningarnar þegar viðmælandinn reynir að forða sér með því að snúa út úr, ég er ekki að kvarta yfir vel ígrundaðri grillun þegar hún á við.  Grillun er hins vegar ekki mæld í hávaða eða talhraða heldur innihaldi.  Ætli fréttamaður sér að upplýsa eitthvað eða fá fram sannleika er hægt að nota alls kyns rökfastar nálganir og góður fréttamaður þekkir þegar verið er að komast undan ábyrgð með því að snúa útúr eða svara með allt öðru.  Helgi Seljan verður ekki ásakaður um að vilja ekki kafa ofan í málin en offorsið er slíkt að viðmælandinn fer í baklás.  Fréttmaður þarf að afla sér ákveðinnar virðingar til að öðlast traust og öfluga viðveru sem erfitt er að hunsa.  Fréttamaður þarf að sýna sjálfsöryggi þess sem hefur þekkingu á viðfangsefni sínu og með fagmennsku laðar fram fagmennsku í viðmælanda sínum.  Helgi hefur sýnt merki framfara undanfarið og þótti viðtal hans við forsetann nýlega vera með ágætum. 

 

Hvað er til ráða?

Vissulega þurfum við að finna hvar brestirnir urðu og hvar ábyrgð lykilmanna í fjármálageiranum lá, en það verður ekki gert með æsingi og flumbrugangi.  Þjóðin þarf ekki reiða fréttamenn með ómarkvissar árásir út í loftið til þess að gera þetta áfall subbulegra en það er.  Það er eðlilegt að fólk reiðist vegna ástandsins en þeirri reiði þarf að finna farveg til uppbyggilegrar rannsóknar, breyttra viðskiptahátta og framfara í fjármálastjórnun.  Líklega þarf að skipta í brúnni sums staðar og takast á við fólk sem hefur farið illa með fé og fjárfestingar, en því skal ekki gleyma að hér er um mjög flókið ástand að ræða og alhæfingar geta verið mjög varasamar.  Mikilvægt er að byggja upp betra viðskiptasiðferði og efla ábyrgðatilfinningu þess fólks sem tekur stóru ákvarðanirnar í fjármálageiranum.  Hugsunin um "að taka bara af því að ég get það" hefur sýnt sig að leiðir til hörmunga á endanum.  Þegar frelsi manna til athafna er mikið, er auðvelt að misnota það og því miður virðist stór hluti hins kapítalíska heims hafa gert einmitt það, með keðjuverkandi áhrifum.  Nú tala forystumenn stærstu iðnríkja heims um að það þurfi að herða á öllum reglum.  Það er ljóst að skepnuna þarf að temja.  Nú er bara spurningin; hversu oft þurfum við að hrasa á leiðinni áður en við lærum að byggja okkur ekki hallir úr sykri?


Fundur um kennslu í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði

Í júni í fyrra kvað Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg (MDES) upp dóm í máli nokkurra foreldra gegn norska ríkinu - svokallað Fölgerö mál.  Málið kom til vegna þess að foreldrarnir töldu að það hallaði verulega á aðrar lífsskoðanir en kristni í námsefni fagsins kristendomskunnskap med religions- og livssynsorientering (KRL, Kristni, trúarbrögð og lífsskoðanir) og þær hluta-undanþágur sem börn þeirra gátu fengið frá faginu útsettu þau fyrir mismunun.  Málið byrjaði í Noregi árið 1995 og tapaðist fyrir öllum dómstigum í Noregi.  Málið fór svo fyrir nefndarálit Mannréttindanefndar SÞ, sem ályktaði með foreldrunum.  Loks fór málið fyrir MDES og lauk í fyrra með því að dæmt var foreldrunum í vil.  Talið var að þessar hluta-undanþágur gengju ekki upp, námið væri of einsleitt af kristni og brotið væri á rétti barnanna til náms með því að setja þau í aðstæður sem brytu á rétti foreldranna til að ala þau upp samkvæmt eigin sannfæringu.

Í dag kl 16, í fundarsal Þjóðminjasafnsins mun Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi kynna þetta mál og hafa fengið hingað til lands í boði norsku húmanistasamtakanna, Human Etisk Forbund, lögfræðinginn Lorentz Stavrum, en hann flutti umrætt mál norsku foreldranna fyrir Mannréttindadómstólnum í Strasbourg.   Upplýsingarnar koma því hér frá fyrstu hendi og frá manni sem gerþekkir málið.

Mál þetta komst í hámæli fyrir ári síðan þegar menntamálaráðherra bar upp þá tillögu að orðalagið "kristið siðgæði" skyldi víkja fyrir nokkrum vel völdum orðum sem lýstu almennt viðurkenndum siðferðisgildum eins og umburðarlyndi og virðingu.   Ástæða þessa var m.a. niðurstaða þessa dóms í máli norsku foreldranna gegn norska ríkinu, en einnig vegna "fjölda ábendinga" aðila í þjóðfélaginu.  Þetta var rétt hugsað hjá ráðherra og ráðgjöfum hennar og þjónaði þeim tilgangi að eyrnamerkja ekki starfsemi skóla einhverri einni trú þó svo að hún væri stærst í landinu.  Þá þjónaði þetta einnig tilgangi þess að taka tillit til vaxandi fjölbreytileika í lífsskoðunum í landinu.

Það fór þó svo að varðmenn ítaka Þjóðkirkjunnar og kristni í landinu hættu ekki að nagast í ráðherra og menntamálanefnd fyrr en samþykkt var að setja "kristileg arfleifð" inn í lagatillöguna þannig að enn hefði kristnin sérstakan sess í lögunum.   Einn prestssonur, alþingismaður í Framsóknarflokknum sem átti sæti í nefndinni komst að þeirri "snilldar" niðurstöðu að Fölgerö málið hefði alls ekki fjallað um þess konar orðalag í lögum og að það væri viðurkennt að kristni ætti að skipa stóran sess í námsefni þjóða þar sem hún hefði haft mikil áhrif.  Strangt til tekið var þetta rétt hjá Framsóknarmanninum svona rétt eins og þegar þjófur finnur gat í skattalögum og telur sig hafa allan rétt til að notfæra sér það.  Málið er að tilgangur dómsins var að hnekkja á mismunun og gera börnum frá ólíkum heimilum þar sem mismunandi lífsskoðanir ríkja, kleift að sækja skólana.  Ef þingmaðurinn hefði skilning á því sæi hann e.t.v. að það þjónar akkúrat tilgangi jafnréttis að taka út orðalag í lögum um grunnskóla sem gerir eina trú rétthærri en aðrar.  Það er kannski ekki vona að þingmaðurinn hafi haft skilning á því þar sem formaður hans, Guðni Ágústsson sagði þegar hann í desember 2007 var spurður af stjórnanda Kastljóss að því hvað kristið siðgæði væri , að það "væri að verja hagsmuni Þjóðkirkjunnar".  blink blink

Í inngangi að Aðalnámskrá grunnskóla um nám í kristin fræði, siðfræði og heimsspeki segir m.a.:

Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið.  Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum.  Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. 

Þetta hljómar ekki illa en þó ber að varast að taka uppeldishlutverkið frá foreldrum.  Ég er algerlega sammála því að þjóðfélagið byggist á ákveðnum grundvallargildum, en næsta setning í námskránni er lygi:

Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur.  Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum ... [breiðletrun er mín]

Hér er algerlega sleppt að nefna framlag frjálsrar hugsunar, upplýsingarinnar og húmanismans sem í raun þurfti að berjast gegn kreddum kristninnar síðustu aldir til að fá fram mannréttindi og einstaklingsfrelsi.  Þessar stefnur sem áttu uppruna sinn í heimspeki Forn-Grikkja og Rómverja (t.d. stóisminn) höfðu mjög mótandi áhrif á kristnina sjálfa sem er nú nær óþekkjanleg miðað við kristni miðalda.  Þessi setning sem er svona sett fram í Aðalnámsskrá er því lygi þó svo kristnin hafi haft manneskjulegan boðskap inní annars mjög tvíræðu trúarriti sem fékk ekki að njóta sín fyrr en að upplýsingin hafði sigrað.

Það er fleira í Aðalnámsskrá sem er í þessum dúr.  Áróður Þjóðkirkjunnar fyrir eigin ágæti og nauðsynleika er allsráðandi í skránni.  Aðrir hlutir eru nefndir á hraðbergi.  Þessi námsskrá gefur verulega skakka mynd af því hvaða hugmyndafræði er í raun mest mótandi á vesturlöndum og það þarf að laga verulega til í markmiðum þessarar greinar.   Kristnin verður áfram stór hluti, en veraldlegri siðrænni hugmyndafræði þarf að gera skil með sanni.

Fjölmennum á fundinn í dag!

 

 


Hvernig verður guðshugmyndin til?

Á bloggi heimspekingsins Stephen Law (The War for Children's Mind) er velt upp spurningunni; Hvernig varð guðshugmyndin til?  gegnum bókarumfjöllun hans á bók Richard Dawkins, The God Delusion.  Í fimmta kafla bókarinnar kemur fram að Dawkins telur að guðshugmyndin verði til sem hliðarspor við ákveðna hæfileika mannsins.  Ég setti eftirfarandi pælingu á bloggið hans Stephen Law.  Afsakið en hún er á ensku.

Hi

I agree with Richard Dawkins that religion is a byproduct of certain qualities that we have.
I think it is the byproduct of our abstract thinking and imagination that makes us able to think ahead and visualise things in our mind. That is very useful in construction and many other skills.
Having this quality the god idea becomes attractive in order to:
a. Create a super leader that people become less jelous of than a human.
b. Create a mighty comforter that "never" fails.
c. Create a system of thought that keeps believers in place because breaking it will mean punishment.
d. The system can be tagged with some useful ethical message but also a harmful one.

The problem with this is, that there is no logical way to change the system of believe since it is set up as a sacred unchangeable system. It therefore becomes outdated almost the minute it is created (by man).
Thank - Svanur your Icelandic humanist

Hvað finnst ykkur lesendur góðir?  (Er þetta ekki tilvalið umshugsunarefni nú í svartnætti fjármálakreppunnar? W00t


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband