Nei, hann er það alls ekki - einföldum lífið!

Guð er ekki nauðsynlegur frekar en snuð ungabarni eða tálsýn týndum manni.  Hugmyndin um guð flækist bara fyrir fólki og býr til gerviheim sem er líkt og að synda í grjónagraut. 

Franski stjörnufræðingurinn og eðlisfræðingurninn Pierre Laplace (1749-1827) fékk athugasemd frá Napoleon Bonaparte keisara eftir að honum var kynnt bók LaPlace, Himnesk gangverk, sem útskýrði alheiminn algerlega út frá náttúrulegum forsendum án þess að minnst væri einu orði á guð.  Napoleon hafði gaman að því að koma með athugasemdir sem gætu komið flatt upp á fólk eða það átt í vandræðum með að svara: 

"Þeir segja mér að þú hafir skrifað þessa stóru bók um alheiminn, en hvergi minnst á Skaparann í henni" sagði Napoleon

Laplace svaraði: "Ég hafði enga þörf fyrir þá tilgátu!" 

Napoleon hafði gaman af svarinu og sagði ítalska stærðfræðingnum og stjörnufræðingnum Lagrange frá þessu.  Lagrange sagði þá: "Ah, það er fín tilgáta.  Hún útskýrir svo margt".   Þ.e. tilgátan um að engin þörf sé fyrir guð, útskýri margt.

Þetta fellur að öðru heimspekilegu hugtaki sem kallast Rakvélablað Occams, (William Occam 1285-1349) sem útskýrir að óþarfa viðbætur við tilgátur gera þær ekki réttari eða betri en þær sem innihalda einungis kjarna málsins.  T.d. bætir það ekki neinu við skilning okkar á eðli siðferðis eða sporgöngu himintunglanna að bæta við einhverri veru í útskýringuna, þegar tilgátur byggðar á náttúrulegu eðli nægja fyllilega. 

Í þessari umræðu er mikilvægt að skilja á milli guðshugmyndarinnar og trúarsamfélags sem inniheldur margvíslega mannlega og félagslega þætti sem koma að gagni.  Þeir þættir þurfa ekki raun guðinn þegar betur er að gáð.  Samhjálp, samhugur, samhyggð, samábyrgð, stuðningur við hvort annað og velvilji er allt sem þarf.  "All you need is love" sungu Bítlarnir.  Höldum þessu einföldu takk! Wink


mbl.is Er Guð nauðsynlegur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

What if God is Love?   ...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.11.2008 kl. 00:52

2 Smámynd: Óli Jón

Í mínum huga er Guð algjörlega ónauðsynlegur enda bara uppfinning óupplýstra og stjórnsamra manna í grárri forneskju. Í nútíma samfélagi er alls engin þörf fyrir Guð eða það sem hann stendur fyrir. Fólk getur alveg verið gott hvort við annað án þess að vænta himnavistar í staðinn. Jæja, altént flestir.

Hins vegar er það svo að sumir virðast þurfa á honum að halda og ef hann gerir þeim gott, þá er það vel. Í því tilfelli geri ég kröfu um að það hafi ekki áhrif á aðra en þann trúaða. Eftirfarandi eru dæmi um slíkt:

  • forskráning hvítvoðunga í trúfélög
  • örvæntingarfull íhlutun Ríkiskirkjunnar í leik- og grunnskólastarfi
  • þráhyggja kirkjunnar, sér í lagi þeirrar kaþólsku, vegna kynlífs og kynhegðunar fólks
  • þrúgandi áhrif trúar á daglegt líf, t.d. varðandi opnunartíma verslana suma daga ársins
  • almenn árátta kirkjunnar í að eigna sér almenn siðleg lífsgildi

Höldum trúnni sér, þá geta allir verið sáttir.

PS. Og hvað er með þessar kirkjubjöllur sem hringja í tíma og ótíma? Er ekki betra fyrir alla að senda tölvupóst, SMS eða hringja bara í þá fáu sem mæta í kirkju og leyfa okkur hinum að njóta kyrrðar og næðis? Er í raun hægt að hugsa sér freklegri yfirgang? Veigaminni hlutir hafa verið settir í umhverfismat :)

Óli Jón, 12.11.2008 kl. 01:03

3 identicon

Sæl verið þið.

Ég velti því fyrir mér hvað margir eru ekki Guðs börn,og firrast við sé minnst á hann.

Auðvitað eru allir frjálsir hverju þeir trúa en er maðurinn svo fullkominn ? að hann geti nú leyft sér að kryfja sköpunarverkið. þá finnst mér að menn séu komnir yfir lækinn að ná sér í vatnið.

Ég einfaldlega vel mér Algóðan Guð föður skapara himins og jarðar sem elskaði okkur svo heitt að hann gaf son sinn Jesús Krist til þess  að að hann tæki á sig allar syndir okkar.

Þð er mín Trú.

Ég þakka ykkur svo vel fyrir og sendi ykkur hér um leið Kærleikskveðjur um ókomna daga.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 04:15

4 identicon

Á einhverjum tímapunkti í framtíðinni verður trú á guði skilgreind sem geðsjúkdómur.
Menn hljóta að sjá þetta í hendi sér.. við sjáum td Þórarinn og Jóhönnu, þau segja: Guð er ást og kærleikur, algóður skapari..... hver sá sem les biblíu með opin augu sér að þetta fær ekki staðist, þvert á móti er meintur guð miklu verri en nokkur einræðisherra raunheima...
Ef guð er til... það væri það versta sem hægt væri að ímynda sér...
Í besta falli er fólk að tilbiðja fornan keisara, keisara eða tribal foringja sem var titlaður sem guð.

DoctorE (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:02

5 identicon

 strax 33 fyrir krist voru komin sterk rök gegn tilvist guðs

Is God willing to prevent evil, but not able?
Then he is not omnipotent.
Is he able, but not willing?
then he is malevolent.
Is he both able, and willing?
Then whence cometh evil?
Is he neither able nor willing?
Then why call him god?
~ Epicurus

Og ekki reyna að koma með eitthvað "God works in mysterious ways"útúrsnúninga

Jóhannes H. Laxdal (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:24

6 identicon

skemmtilegur pistill Svanur

Ég vil líka nýta tækifærið og senda kærleik á Þórarinn - við hin trúlausu getum það líka sko

Elín (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 12:05

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Jóhanna

Þú spyrð "What if God is love?".   Svar 1:  "What if God is a bluff?"  Svar 2: Þar sem hugtakið Guð er svo augljóslega aðeins hugarburður þá er augljóst að hægt er að leika sér með hugtakið að vild út fyrir allan náttúrulegan veruleika.  T.d. segir maður ekki um manneskju, tré eða steina að þau "séu ást" því ást er viðhorf og hegðun sem á sér stað milli tveggja eða fleiri einstaklinga.  Manneskjan er manneskja, ekki ást, þó að hún geti sýnt af sér ást.  Hægt er að sýna ást og vera ástrík manneskja án þess að hafa nokkurn tíman heyrt um hugmyndina Guð. 

Sæll Óli Jón

Ég tek undir þetta nær allt.  Hið opinbera á ekki að taka þátt í því að skrá börn í lífsskoðunarfélög (trúarleg eða veraldleg).  Siðmennt tekur ekki við félögum undir 16 ára aldri.  Það þýðir ekki að það geti ekki verið barnastarf.  Það þýðir bara að ekki eigi að binda auðkenni (identity) barna við félög sem fjalla um þróaðar hugmyndir eins og stjórnmálaflokka eða trúfélög.  Allir eiga rétt á því að taka sínar eigin sjálfstæðu ákvarðanir hvar í flokki eða lífsskoðunarfélagi þeir/þær vilja vera þegar fullveðja aldri er náð og vera ekki klínt í félög foreldra sjálfkrafa.  Þetta með kirkjuklukkurnar er spurning um umburðarlyndi gagnvart smá hávaða en auðvitað ættu þær ekki að glymja eldsnemma á morgnana eða með miklum látum.

Sæll Þórarinn

Þú ýjar að því að það sé hroki í manninum að leita skýringa á lífinu út fyrir það sem "Algóður Guð" segir þér.  Það er aftur hroki slíkrar bókstafstrúar að leita ekki sjálfstæðra svara og ætlast til þess að menn stöðvi við eina bók.  Það er enginn að segja að maðurinn sé fullkominn og fullkomleiki er ekki forsenda þess að leita megi svara um himinngeiminn.  Þú talar um "sköpunarverkið".  Trúir þú á sköpunarsöguna sem staðreynd eða tekurðu bara svona kærileysislega til orða af því að þú ert kristinn?  Kennimenn Þjóðkirkjunnar hafa sagt að trúin sé ekki í samkeppni við vísindin (sbr. kennslubókina Kristin Fræði - ljós heimsins, eftir Sigurð Pálssson og Iðunni Steinsdóttur) og að sköpunarsagan sé forn leið manna til að útskýra heiminn sem ekki þurfi að taka bókstaflega.  Þrátt fyrir þetta er kirkjunar mönnum tíðrætt um "sköpunarverkið", rétt eins og þeir/þær tryðu bókstaflega á það.  Þetta er mótsögn og hugarfarsleg slepja, svona álíka eins og að segjast fara með hugarburð (lygi) og staðreynd (sannleika) í sama hlutnum, þegar aðeins annað hvort getur verið rétt.  

Sæll DoctorE.  Svona álíka "sjúkdómur" og trú á álfa.  Þetta verður gamansaga, en í leiðinni harmleikur.

Sæll Jóhannes H.   Þessi orð Epicurus eru einnig í uppáhaldi hjá mér.  Fyrsta virkilega "upplýsingin" átti sér stað hjá Forn-Grikkjum.  Endurreisnin (1450-1550) átti sér stað þegar að lærðir menn fóru að kynna sér bókmenntir Forn-Grikkja.  Það er skömm að því hversu lítið vægi heimspeki þeirra og saga fær í skólakerfinu.  Hún er mun mikilvægari og ríkari að uppbyggilegu innihaldi en kristinfræði.   Það vita fáir því Íslendingar hafa verið sviknir kennslu í þessum fræðum alla tíð.  Þannig hefur skólakerfið ekki uppgötvað Endurreisnina og við stöndum uppi með þjóð sem er nú vart fær að útkljá deiluefni sín eða taka ábyrgð á gerðum sínum við stjórnvölinn.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 12:15

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Elín

Já auðvitað kærleikur og ást til allra.  Varla er hún minna virði frá okkur sem þurfum ekki Guðstrú til að skila henni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 12:20

9 identicon

Það koma lyf við þessu... þetta er jú "all in the mind"... meira að segja hægt að búa til trúarlegar upplifanir hjá trúlausum með ýmsum aðferðum :)

DoctorE (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 18:16

10 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Guð er jafn ónauðsynlegur og upphaf er alheiminum.

kreppukveðja heim á Frón,

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 20:02

11 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll nafni

Já þá er bara spurningin hvort að manni þyki upphaf alheimsins nauðsynlegt he he.  Mér finnst það ekki nauðsyn því í mínum huga er ekki til ástandið "ekkert" og ef það er ekki til þá er vart til eitthvað upphaf.  Auðvitað er þessi hugsun háð mínum takmarkaða huga en annað sé ég ekki í bili.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.11.2008 kl. 23:02

12 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það eru almenn viðurkennd vísindi að alheimurinn eigi sér upphaf, orðið "ekkert" er ekki vísindalegt hugtak.

Reyndar er það vaxandi skoðunn að "vísindi" séu ekki það alsherjarsvar sem vænta mátti sérstaklega í "lífvísindum".

Kristján Sigurður Kristjánsson, 12.11.2008 kl. 23:20

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég er sammála þér að "ekkert" er ekki til. Við vitum, hvernig sem það gerðist, varð það sem við þekkjum og skiljum sem hinn efnislega "alheim" til við stórahvell. En af því að við erum sammála um að "ekkert" er ekki til, er spurningin um hvað var fyrir stóra hvell, jafn mikilvæg.

Þar set ég það sem við getum kallað upphafsorsökina sem svo sannarlega er ekki "ekkert" þótt hún tilheyri ekki alheiminum sem varð til eftir stóra hvell. Hún er ekki "náttúruleg" í þeirri merkingu sem við þekkjum það orð. Hún hlýtur þess vegna að yfirnáttúruleg. Sumir kalla hana Guð, aðrir geta kallað hana "ekki ekkert" en við "nafnarnir" erum greinilega sammála um að hún er til, ekki satt.

Svanur Gísli Þorkelsson, 12.11.2008 kl. 23:24

14 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Nafni, hvað meinaru með síðustu málsgrein þinni?

Hvað um það. Mér finnst alltaf jafn fyndið að því þegar trúmenn reyna að færa fót fyrir tilvist guðs síns að það sé ætíð fyrir Jahve, Allah eða Seif (á sínum tíma); þ.e. þeim guð sem þeir trúa á. Ekki dettur neinum í hug að þræta fyrir það hvort Óðinn sé til eða ekki, þessar umræður ættu frekar að snúast um hvort æðri máttur sé til eða ekki. Ef hann er til er hann í það minnsta annað hvort ekki almáttugur eða algóður, rétt eins og Epikúrus sagði á sínum tíma. Hvers vegna erum við ekki að þræta um teketil Russels?

Kristján Hrannar Pálsson, 12.11.2008 kl. 23:40

15 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Kristján Hrannar.

Epikurus spyr; hvaðan kemur hið illa? Bæði hugtökin illt og gott heyra aðeins til mannlegum heimi og skilningi. Náttúran er hvorki ill eða góð og þótt þjáning tilheyri henni er merkingarlaust að segja að hún sé ill. Hugtökin illt og gott eru gildishlaðin og afstæð, rétt eins og allar aðrar skilgreiningar sem aðeins heyra til siðferðislegum skilningi og mati mannskepnunnar á tilveru sinni.

Þegar allt það er krufið og skilgreint sem maðurinn kallar illt, kemur í ljós að það tilheyrir allt heimi náttúrunnar. Sjúkdómar, náttúruöflin og ásókn í efnisleg gæði, (en undir það fellur misskipting auðlinda og græðgi og eigingirni) allt eru þetta hlutir sem heyra undir náttúruna og eru án aðkomu mannsins hvorki ill eða góð.

Skilningur okkar á hvað sé "gott" tekur mið af hvað við teljum að sé "illt." Hugtakið "illt" er merkingarleysa án hugtaksins "gott". Að gera ráð fyrir tilvist Guðs felur hins vegar í sér tilgang þar sem skilgreining á góðu og illu er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg vegna þess að tilgangurinn er sagður vera þroskaferill "sálarinnar" (svo ég notist við orð sem Epikurusar notar sjálfur) sem felst í því að sigrast á náttúrulegum (dýrslegum) hvötum sínum af frjálsum vilja og gera það sem er gott. Þess vegna er þessi rökleiðing Epikurusar rökleysa í sjálfu sér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 13.11.2008 kl. 00:55

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll nafni á ný.

Það hjálpar mér ekkert að setja orðið Guð í stað upphafs.  Þú gefur þér ansi margt hér - byrjar á "upphafsorsök" (sem þarf engin að vera) og leiðir af því að hún sé ekki náttúruleg í venjulegum skilningi og þ.a.l. hljóti hún að vera "yfirnáttúruleg".   Hvers vegna ekki bara náttúruleg á þann máta sem við höfum ekki þekkt, kynnst eða uppgötvað áður?  Ef við uppgötvum eitthvað nýtt orkusvið eða nýja uppsprettu orku og efnis, þá er ákaflega ólíklegt að það verði þessi æðri máttur sem fólk þykist vera í sambandi við hér á jarðríki.  Ef að þú vilt kalla slíkt æðri mátt gætir þú alveg eins kallað vetnissprengjuna æðri mátt. 

Ég er sammála þér um skilgreininguna á góðu og illu, en líkt og með "nothingness" er ég ekki sammála þeirri ályktun þinni að það þurfi að útskýra tilgang góðs og ills með Guði.  Fyrir mér er tilgangurinn ofur einfaldur.  Hið góða hámarkar hamingju sem flestra en hið illa gerir hið gagnstæða.  Svo má auðvitað deila um það hvað er hamingja en ég læt það í friði.  Það er þroski að sigrast á eigingjörnum hvötum af frjálsum vilja en það þarf enga guðstilgátu til að gæða slíkt tilgangi.  Rökleiðing Epicurusar er ekki rökleysa því hún sýnir bara hvernig þeir eiginleikar sem hinn Algóði guð á að hafa geta ekki staðist. 

Bestu kveðjur út - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 13.11.2008 kl. 01:50

17 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Kristján Sigurður

Vísindi eru aðferðir, en ekki svörin sjálf.  Vísindalegar aðferðir eru þær aðferðir sem skila hlutlægum niðurstöðum og eru gríðarlega fjölbreyttar.  Óvísindalegar aðferðir geta hitt á rétt svar fyrir tilviljun en svarið verður ekki staðfest nema með vísindalegri rannsókn, þ.e. hlutlægri aðferð.

Hvað áttu við með því að "ekkert" (nothingness) sé ekki vísindalegt hugtak?  Það hlýtur að skipta talsverðu máli í grundvallarfræðum um himingeiminn og efnisheiminn.  Hér er síða á wikipedia um "nothing og nothingness". 

Svanur Sigurbjörnsson, 13.11.2008 kl. 01:58

18 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

 Þakka svarið Svanur.

"Hægt er að sýna ást og vera ástrík manneskja án þess að hafa nokkurn tíman heyrt um hugmyndina Guð." 

Vissulega er ég sammála þessu. En samt höfum við nú flest heyrt hugmyndina um Guð, og meira að segja margar hugmyndir um Guð. Hugmyndir okkar um Guð eru öruggleg óteljandi, og að hluta til er vandamálið fólgið í því. Guðshugmyndin hefur, sem betur fer, fært mörgum styrk í erfiðleikum. Margir telja sig finna návíst hans/hennar/þess í gleði og sorg - og öllu þar á milli. Spurning hvort að það geri nokkuð til að þessi Guð/snuð sé til og að á meðan hann/hún/það gerir gagn; huggar  t.d. eins og snuð sé bara ekki allt í lagi að hann/hún/það sé "present" .. ?

Vandamálið er þessi endalausa misnotkun á Guði, sama má kannski segja um ástina.  "I did it for love" /"I did it for God" ... segir kannski einhver sem nýlega hefur framið morð. Það er hægt að misnota allt.

Ég held að hver og ein/n verði að svara því fyrir sig hvort að Guð er nauðsynleg/ur/t eða ekki. Ég skil trúleysingja en á erfitt með að skilja bókstafstrúarfólk í anda Söruh Palin og held að yfirlýsingin í Bandaríkjunum frá trúleysingjunum sé nú aðallega til að svara þeim armi trúaðra.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 10:16

19 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

p.s.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.11.2008 kl. 13:04

20 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ Svanur.

Margir trúa á hið góða og jákvæða og kalla það guð. Þegar fólk biður til þess guðs, talar við, hugsar til etc. er það bara að reyna að byggja upp jákvæðari hugsunarhátt og fá styrk þannig. Mér finnst allt í lagi að fólk hafi eitthvað sem það vill biðla til eða nota sem haldreipi.  Allt öðru máli gegnir um bókstafstrúarfólk.  Guð biblíunnar er ekki góður   Mér finnst að guð hvers og eins eigi að vera hans persónulega eign/hugmynd/upplifun og ekki að mynda um hann/hana fylkingar og stofnanir, kirkjur og söfnuði, þar sem guð er skilgreindur út frá ákveðnum forsendum, þá væntanlega biblíunnar hjá kristnum og ákveðið hvernig hann/hún álítur lífið og tilveruna eftir túlkunum á trúarversum.Versum sem eru svo trúarhugleiðingar og pælingar fólks sem var uppi fyrir þúsundum ára og vissi ekki einu sinni að jörðin var kringlótt.

Það eru margir sem upplifa sig sem andlegar verur á jafn sterkan hátt og líkamlegar og andlegi þátturinn í þeim finnur fyrir upplifun sem það fólk vill oft kalla guðlega eða sitt æðra.  Ástand sem veldur þeim vellíðan og gefur þeim traust og trú á hlutskipti sitt og tilgang í lífinu. Þennan þátt hefur fólk oft samband við eða kallar fram í sjálfu sér og kallar það guð Þetta ástand biðlar fólk líka oft til í umhverfi sínu þegar það upplifir gott ástand og mikla fegurð.  Oft þegar fólki líður illa reynir það að kalla fram þetta ástand þessa upplifun til að þola við á erfiðum tímum.  Mér finnst ástæðulaust að taka það frá fólki. 

Með hugrækt og hugleiðslu er oft hægt að upplifa ótrúlega gott ástand og þjálfa sig upp í að það ríki meira í lífi manns frekar en annað ástand sem veldur manni vanlíðan. 

Til að draga þetta allt saman í eina setningu, þá heitir þetta "að lyfta andanum" Trúleysingjar gera þetta líka en kalla það ekki guð

Hættan er að þegar fólk heldur að á bak við þetta ástand/upplifun sé misvitur guð í formi gamals manns með grátt hár og skegg, sem mismunar og blessar sitt á hvað og í raun fólki stendur stuggur af.  Það er blekkingin. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 18.11.2008 kl. 00:07

21 Smámynd: Erna Friðriksdóttir

HMMMMMMMMM   er eittthvað að því að ég fylgi Samf ???????? Guð......... kanski Satan ??? Kanski einhverjir aðrir Guðir

Kanski ætti ég að leita að öðrum trúarflokkyum ?????? sem leiða mig að VG ???????????

Mér finst þetta ssvolítið bull :(        amk sem Samfylkingin boð'ar

Erna Friðriksdóttir, 24.11.2008 kl. 16:21

22 identicon

Kæri Doctor.

 Guð er ekki nauðsynlegur, en góður þrátt fyrir það.

Svipað eins og það er okkur ekki nauðsynlegt að sjá í lit, það er aftur á móti gott.

 Ég skil aftur á móti lítið í húmanistanum sem fer að tala um "ást".

Ást er heimspekilega ómögulegt að sanna, þar sem ást er eitthvað sem þú túlkar með trú þinni. T.d. er ómögulegt fyrir hvern sem er að sanna ást á öðrum án þess að hinn semi TRÚI einnig.

Decartes tekur síðan svo þunnt á því í "ég hugsa, því er ég til".

Raunhæfara er að "ég trúi, því get ég hugsað og þar með staðfest tilveru mína".

Trú á gott-illt er með okkur öllum þó að við skilgreinum það ekki öll sem trú á himnaríki og Jesú Krist. Við trúum t.d. nær undantekningalaust því sem læknirinn okkar segir. Hann (og þar með þú) er "boðberi ljóssins", leið okkar úr myrkrinu á því að feta "þröngan stíg".  Fæstir spá mikið í Hippókratesar-eiðnum ,þar sem siðfræði rekst harkalega á "sannleikann".

Við tölum kannski betur um það þegar ég læt kíkja á hnéð á mér á miðvikudaginn.....

Óskar (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband