... og afeitrun Jónínu Ben flytur heim

Kæru vinir! 

Nú er runninn upp tími til að losa sig við allt eitrið í kroppnum.  Í alvöru!  Ég veit ekki hvaðan eitrið eða eitrin koma en náttúrlegt græðafólk hefur það fyrir satt að líkaminn sé nánast ein eiturtunna.  Mesta eiturstían er víst í ristlinum og skal mig ekki undra því salernisferðir mínar til að sinna Nr. 2 hafa aldrei lyktað vel.  Þá er næsta víst að þau líffæri sem vanhelg eru í heimi náttúrubarnanna, búlduleitu líffærin lifur og nýru, virðast ekki hafa neitt að segja gagnvart þessum eitrum sem krauma í ristlinum.  Þá dugir greinilega ekki lengur að klappa á koll ristilvina okkar í Hr. Lactobacillus fjölskyldunni, sem hefur greinilega misst mátt sinn og tiltrú heilunarbærra heilsufrömuða og er nú bara venjuleg hilluvara í Hagkaup. 

Í afeitrunarmeðferð, afsakið... detox-læknismeðferð Jónínu Ben skal borða nær eingöngu grænmeti og ávexti, um 500 hitaeiningar á dag (helmingi minna en strangur 1000 hitaeiningakúr) í tvær vikur og forðast alla vöru sem gæti innihaldið eiturefni eins og t.d. matur í áldollum, "diet" matur og geymsluþolinn matur.  Þá á að sleppa helst öllum sykri, kjöti, kartöflum og brauði.  Ég skil að það gangi ekki því nokkrir ávextir og handfylli af grænmeti duga til að fá 500 hitaeiningar á dag.  Svo er hvatt til þess að hætta reykingum og kaffi, gosdrykkir og áfengi mega missa sín.  Taka á Omega 369. Síðast en ekki síst er svo mælt með ristilskolun.

Mynd:  Dæmigert dæmi um eiturslöngu, nei smá grín - eitraðan ristilmassa úr offeitri manneskju, sem kom niður í ristilskolun.  Sjá á þessari flottu fræðisíðu um ristilhreinsun.

Afrakstur detox

Þetta er lausn allra lausna í mínum huga.  Hinn ógeðslegi íslenski matur sem er reyktur, brenndur, kæstur, pæklaður og geymdur stundum í áldósum er fullur af eitri.  Þá er nær alger fasta í 2 vikur með léttu grænmeti og smá ávöxtum og Omega 369 ákaflega hvílandi fyrir latar garnafrumur okkar og frí frá öllu eitrinu.  Þó heilinn verði svolítið pirraður og baðaður í niðurbrotsefnum fitu (ketónum) og manni líði eins og einhvers staðar milli svefns og vöku eftir 3 daga á hinum fræknu 500, þá er ekkert betra en að sýna heilanum að sykureitrun er ekkert grín og það þurfi að venja hann af sykursukkinu.  Þá er líka gott að venja hjartað við að nota vara-vara-eldsneyti sitt, ketónana sem finna má í blóðinu í ríku mæli á 3 degi lífsstílsbreytingarinnar.  Á þeim tíma fer líka líkaminn að brjóta niður vöðvana og senda amínósýrur (æ fyrirgefið þetta ó-óhefðbundna lífræna efnaheiti efnanna sem eru byggingarblokkir próteina og vöðva) til lifrarinnar til að búa þar til svindlsykur fyrir heilann.  Já helvítis heilinn (sorry ég bara get ekki annað en kennt honum um) er vitlaus í sykur og finnur leiðir til að ná sér í hann, jafnvel þó að vöðvadruslurnar þurfi að láta af hendi stuffið sitt í sykurgerð.  Ef það drepur mann ekki (kúrinn auðvitað) þá herðir það mann bara!  Minnumst þess! Þetta mottó má nota við nánast hvað sem er og passar eins og stólpípa við rass í tilviki detox programs Jónínu Ben.

Svo er það náttúrulega ristilskolunin sem er toppur tilverunnar í detoxinu.  Eftir nær fulla föstu í 1-2 vikur er vissara að skola út það sem eftir er og hver veit nema að Chad (skolarinn sæti) finni gömul leikföng eða peninga sem maður gleypti í ógáti eða reiðiskasti sem krakki, alls óafvitandi af öllu eitrinu í heiminum.  Chad sagði að þetta kæmi stundum fyrir og brosti í viðtali sem sýnt var á stöð 2 í vikunni.  Hvílíkt maður!  Hugsið ykkur að ganga með plastfisk eða lególögreglumann í afturendanum í kannski 40 ár (í mínu tilviki)!!!  Með afeitruninni sem skolunin tryggir væri góður bónus að losna við leikfang og endurheimta þannig gamlan leikfélaga.  Ráð Jónínu Ben "Hugsa jákvætt um sjálfan sig og brosa! :-D" á svo sannarlega við hér (breiðletrað vegna mikilvægis).

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því hvað ég geri alla hina daga ársins þegar ristilskolunarinnar nýtur ekki við (játning: pínu feginn þó líka því skolunin er ekki eins skemmtileg og heimsókn í Húsdýragarðinn) og nái ég ekki að fara alltaf eftir detox-mataræðinu, gæti eiturefnin hlaðist upp.  Ég sé fyrir mér hrukkurnar undir augunum hrannast upp, hárið þynnast, ótal kvefpestir næsta vetur og vöðvabólguna verða langvinna.  Lýsið köttar þetta hreint ekki eitt.  Hvað þyrfti ég margar ristilskolanir á ári hjá Chad?  4, 5, 6, 7 eða 12 á ári, þ.e. einu sinni í mánuði? Já, ég sé það fyrir mér þó ég eigi eftir að fá leiðbeiningar hjá pólsku læknunum.  Skyldi TR taka þátt?

Það er alveg ljóst að þetta virkar ótrúlega vel.  Venjulegir læknar og lyfjafyrirtæki sem eru bundin fáránlegum reglum kunna ekki að kynna læknisfræðina, en Jónína Ben og hinir þrautreyndu pólsku læknar kunna að koma vísindunum á framfæri.  Með bessaleyfi leyfi ég mér að vitna hér í vitnisburð hæstánægðs fólks úr meðferðinni. 

Einhver Sunna á orðið (hlýtur að vera dulnefni því vísindamenn koma ekki með svona persónuupplýsingar):

"Eftir meðferðina get ég gert allt sem ég vil vil" - Sunna 20 ára

Þetta eru frábær meðmæli því svo víðtæk áhrif er nokkuð sem venjulega lækna dreymir um að geta veitt sjúklingum sínum.  Pólsku læknarnir hafa unnið kraftaverk. 

Hvað sagði "Kata"?

"Jónína ég hef ekki fundið fyrir MS sjúkdómnum og held mig við ráð læknisins. MS inn er farinn" -  Kata 25 ára

Þetta er stórkostlegt.  Þó að þekkt sé að MS sjúkdómurinn geti komið og farið og legið niðri í fjölda ára er MS-sjúkdómur Kötu farinn því hún fann það algjörlega.  Er þetta ekki hennar líkami? Ég gaf smá pening í MS-söfnunina í kvöld.  Vonandi verður peningurinn notaður í svona lækningu. 

Lítum svo á þetta:

"Ristilinn minn vinnur loksins með mér en ekki á móti mér" - Sigrún 66 ára

Hugsið ykkur léttinn fyrir Sigrúnu sem er orðin 66 ára og finnur loksins að ristillinn vinnur ekki á móti henni.  Hún hefur nú sjálfsagt aðeins misskilið þetta því það var nátt'lega bara eitrið sem fékk ristilinn til að vinna svona á móti henni.  Samt - alveg frábært og gaman væri að vita hvort að ristillinn verði ekki ævarandi vinur hennar það sem eftir er.  Kannski fáum við framhaldsummæli frá henni á detox-síðunni eftir 3 mánuði og svo aftur á hverju ári.  Það væri magnað!

En hér er uppáhaldið mitt (sorry, ekki mjög vísindalegt af mér að segja svona, en wott ðe hekk):

"Sykursýkin hvarf eftir þrjá daga í meðferðinni, ég þarf ekki á lyfin, jibbí" - Anna 48 ára

Hvílíkur léttir fyrir Önnu.  Ég hef aldrei vitað af svo skjótri lækningu við sykursýki og samt hef ég talað talsvert við lækna og kynnt mér pínu sjúkdóminn.  Aftur verð ég að lýsa aðdáun minni yfir prógrammi pólsku læknanna.  Sé raunin að þeir lækni fullt af sykursjúkum á aðeins 3 dögum þegar öllum öðrum læknum tekst nær aldrei að lækna sykursýki, þá sé ég þá fyrir mér taka við Nóbelsverðlaununum fyrir afrek á sviði læknisfræðinnar innan skamms.  Sjálfsagt þurfa þeir bara að sýna þennan árangur í 2-3 ár í viðbót.  Góður orðstír aldrei deyr, (eða eitthvað þannig) sagði einhver flottur gaur í fyrndinni og þessi góðu ummæli og allra hinna í detox-meðferðinni munu svo sannarlega sjá til þess. 

Nú er bara að bíða þess að íslenskir læknar læri þetta og séu með í hitunni.  Hver vill ekki einn Nobba eða svo?  Til hamingju Jónína Ben!  Til hamingju Stöð 2! (flott frétt) og til hamingju Ísland!

Með bjartsýnina og brosið að vopni er Jónína Ben að setja fordæmi fyrir öll sprotafyrirtæki í landinu og er það enginn smá sproti! 

PS:  Ef til vill væri það eina sem kæmi í veg fyrir Nobba ef sprotinn færi óvart í gegn, úps! sorry! (afsakið en ég gat ekki annað en minnst á þetta fyrst að mér datt það í hug.  Gerist pottþétt ekki).

 


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jónína Ben sýgur gull úr endaþörmum fáfróðra íslendinga....
3000 íslendingar X hvað 140 þúsund á rass.


Til hamingju ísland, við förum alveg að ná titlinum sem fáfróðasta þjóð í heimi.
Jónína syndir í kampavíni, enn og aftur lætur landinn taka sig með buxurnar á hælunum

DoctorE (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 22:13

2 identicon

Smá auka... Gunnari Á Krossinum þykir rosalega gott að fá eitthvað í rassinn.. svona svona.. ;)
Hann og Jónína sameinast mjög líklega, Gunnar mun blessa stautinn áður en honum er stungið inn... svo sigla þau saman frá íslandi á Örkinni hans Gunnars Á krossinum, með fulla lest af peningum frá einföldum íslendingum

DoctorE (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 22:22

3 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

DoktorE - Er þetta nú ekki alveg óþarfi?  Fáfróðir hvað? Krossinn hvað? Íslendingar eru örugglega fljótastir að læra af öllum.  Manstu ekki eftir Mansjúríu-sveppnum eða hvað hann nú hét, sem hundruð áhugasamra Íslendinga lærðu að rækta í ísskápum sínum árið 1995?  Það þurfti nú fyrirhyggju og þolinmæði til þess.  Óli Ól yfir-yfir-læknir eyðilagði reyndar þá lækningu með því að koma með það ógeð að sveppurinn væri eitthvað í líkingu við það sem ræktaðist úr leggöngum kvenna.  Algert taktleysi. 

Svanur Sigurbjörnsson, 28.5.2009 kl. 22:44

4 identicon

Mér finnst það eigi að kæra svona poppsálfræðinga. Ég reifst við Jónínu Ben á eyjunni fyrr í vetur og hún hótaði að kæra mig fyrir atvinnuróg. Það eina sem ég sagði var að það væri ömurlegt að græðgin væri svo mikil að jafnvel veri níðst á veiku fólki til að hafa af því peninga. Eftir að hún hótaði að kæra mig þá sagði ég við hana að ef hún gæti komið með ritrýndar læknisfræðilegar greinar úr virtum vísindatímaritum þá myndi ég koma fram opinberlega og biðja hana afsökunar. Þess má geta að þetta urðu lokaorðin í samtali okkar Jónínu. þetta hyski svívist einskis, bæði Jónína, miðlar, spáfólk og ofsatrúarnöttar. Lofa fólki lækningu gegn PENING. Það á bara að taka fyrir svona dellu og best væri ef læknar tækju sig saman og krefðu Jónínu um vísindalegar sannanir og ef hún getur ekki komið fram með þær, þá eiga læknar að úthrópa hana sem fúskara sem getur gert veikt fólk enn veikara. Æi ég verð svo reiður þegar svona lagað er látið viðgangast.

Þannig er að það er búið að skera mig upp í bakinu fimm sinnum og í fimmta skiptið var ég spnegdur upp. En eftir þrjú skipti og langvarandi krónískan verk var ég tilbúinn að gera nánast hvað sem er til að finna lækningu. Þáverandi framkvæmdarstjóri Sjálfsbjargar hrindi í mig og sagði mér frá kraftaverkamanni frá Englandi sem gæti gert ótrúlega hluti með manipulation eða þessi maður notaði þumalfingurna til að þrísta á bakið á ýmsum stöðum. Ég fór til hans og hitti hérna í Reykjavík einu sinni, en hann sagði að hann þyrfti lengri tíma með mig af því ég væri svo slæmt tilfelli. Svo ég fór til Englands til hans og var hjá honum í einn mánuð. Ég er ekki frá því að ég hafi verið betri eftir nuddið og bakstrana, en er ansi hræddur um að ég hafi ekki þurft að fara alla leiðina til Englands til þess að fá sambærilegan árangur. Þessi maður var reyndar þannig gerður að hann tók nánast ekkert fyrir þetta. En þetta er dæmi um það hvað fólk getur gengið langt í leit sinni að lækningu. Þess vegna er þetta svo ljótur leikur hjá þessum fúskurum, að vera græða á fólki sem er lasið og á kannski ekki mikla peninga. Ég held að hálfur mánuður kosti 140-160 þúsund krónur og svo fær fólk það í kaupbæti að úrgangurinn er soginn úr afturendanum á því, þetta er algjört ógeð, og í raun ógeðslegasta dæmið sem ég veit um. Reyndar er dæmið um vasaklútana sem lækna krabbamein ljótasta dæmið, en það er önnur saga.

Valsól (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 23:23

5 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Valsól

Sorry, hélt alltaf áður að þú værir kona.  Gott að fá það á hreint.  Þú hefur greinilega verið hrikalega harður við hana Jónínu Ben.  Ótrúlegt að þú skyldir voga.. þora þessu.  Dáist að þér því þetta er pínu satt sem þú segir.  Samt máttu ekki vera of neikvæður og of svart-hvítur og rákaður (svona ofurskipulagður og með allt í rökhyggjunni hallærislegu) því þá gætirðu misst af mikilvægum hlutum.  Þetta er nú samt ekki neitt sem má ekki laga með 5 mínútna heilunartíma hjá mér, en ég fékk diplóma í heildrænni stofnfrumuheilun eftir seinna helgarnámskeiðið síðustu helgi.  Ég býð þér fyrsta skiptið ókeipis, en eftir nokkur skipti (þjálfun að hluta) kostar heilunin kr. 5.600 (ég er ekki dýrastur).  Ertu ekki heilunarbær annars?

Muna svo að brosa og hugsa ekki um "algjört ógeð".  Þú gætir fengið krabbamein með þessu áframhaldi.  Jákvæðni kostar ekkert!  :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 28.5.2009 kl. 23:39

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ aftur

Munið strákar að nota ekki GSM síma.  Við viljum ekki að all zzzzoðni á milli eyrnanna ha ha og þið verðið lifandi grænmeti um aldur fram. (Mikilvægt)

Svanur Sigurbjörnsson, 28.5.2009 kl. 23:41

7 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

rotflmao!!!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 29.5.2009 kl. 00:34

8 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Si Ave María kæra Hildigunnur!

Annars datt mér í hug snjallræði (get stundum ekki að því gert):  Hvernig væri nú að Chat hennar Jónínu Ben myndi nú bjóðast til að smeygja sogsprotanum upp í görn allra gesta Landsbankans gamla sem fóru til Milanó fyrir 2 árum og átu gullflögurnar? Hvílík afeitrun... sorry detox yrði það nú!  Losna við þungamálm úr iðrum og ná e.t.v. í varasjóð þarna til að selja upp í skuldir.   Er þetta ekki bara rakið dæmi?  Jónína Ben fengi endurnýjaða athygli fjölmiðla út á þetta þannig að þetta væri win-win staða samkvæmt leikjakenningunni. 

Svanur Sigurbjörnsson, 29.5.2009 kl. 00:51

9 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Meira um ristilskolun Jónínu Ben (frá síðunni hennar):

 aðferðafræðinni sem tengist detox-meðferðinni er talið nauðsynlegt og öllum hollt, að hreinsa ristilinn a.m.k. einu sinni á ári.  Því mælum við með 3 ristilskolunum samhliða mataræðinu í meðferðinni.  Á öllum meðferðarstöðum er boðið upp á ristilskolun.  Ristilskolun er einungis framkvæmd af hjúkrunarmenntuðu starfsfólki, læknum eða hjúkrunarfólki.

Mælt er sérstaklega með ristilskolun gegn eftirtöldum sjúkdómum:
Harðlífi, vindgangi og meltingartruflunum
Gigt
Húðsjúkdómum (Psoriasis, bólum og húðblettum)
Ofnæmi
Há- og lágþrýstingi og höfuðverk
Astma
Nikótín-, áfengis- og lyfjaeitrun
Sveppa- og candidasýkingum í ristli
Viðvarandi sjúkdómum í innri líffræðum
Nikótín- áfengis- og lyfjaeitrun
Fyrirbyggjandi afeitrun líkamans

Magnað ekki satt! 

Svanur Sigurbjörnsson, 29.5.2009 kl. 02:05

10 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Mikið finnst mér það mikið umhugsunarefni að staðsetja mig á þessari flóknu síðu ef flókna skal kalla...nei ef að betur er gáð er hún undarleg og full af húmoristum þeirra sem eiga um sárt að binda.  Jónína Ben verðskuldar ekki frá okkur löndum skít, hvorki þarmaskít né mannlegan.  þessi kona hefur opinberað allt sitt, gefið sitt og elskurnar mínar, hvað sagði þessi kona þessari þjóð?  Mér finnst að þeir og þær sem ætla að halla að þessari konu ættu að henda sér hiklaust í DETOX JÓNÍNU BEN og skola alles út.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 29.5.2009 kl. 03:23

11 identicon

Skemmtileg lesning, ég verð samt að segja í fúlustu alvöru að svona semi-fastandi kúr getur gert fólki gott, líklegast ekki útaf því sem þessar meðferðarstöðvar halda fram, en engu að síður er getur stutt fasta hjálpað fólki.

Hvað varðar sykursýkina, þá hefur þetta væntanlega verið áunnin sykursýki, sem er oft hægt að "lækna" (kannski ekki á 3 dögum!) með kolvetnasnauðu mataræði, og inntaka lýsis bætir einnig insúlín næmni.

Að þessu sögðu, þá er ljótt að græða á veiku fólki undir fölsku yfirvarpi, a.m.k. ef maður veit betur.

Steinn E. Sigurðarson (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 08:56

12 identicon

Hver veit nema detoxið lækni líka brjósklos í baki? Maður ætti kannski að skella sér ...

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 10:15

13 identicon

Jónína stefnir hátt, ætlar að vera forseti yfir fórnarlömbum sínum árið 2010 að mig minnir.
Hún er búin að afgreiða alla gagnrýni með: Ég er frábær kona og því á ég marga óivildarmenn sem sækja að mér úr öllum áttum.
Stundum finnst mér eins og það hafi verið sogið og mikið úr Jónínu... og þessu fólki sem til hennar fer, þetta fólk talar eins og það hafi verið læknað af Je$ú... eða amk Je$úínu.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 10:26

14 Smámynd: TARA

Sæll Svanur...ég las greinina þína og verð að segja að er ekki alveg viss um hvort þú ert að tala í alvöru eða að hæðast að Jónínu Ben og afeitrunaraðferðum hennar...

Greinin er hins vegar stórgóð en myndin ógeð...en ég er ekki tilbúin að kaupa þetta bull frá, vafalaust annars ágætri konu...ég er hlynnt heilsusamlegu líferni og grænmeti og ávextir eru góðir og hollir, en þegar á að ganga á vöðvana þá segi ég stopp.  

Ég held að þetta sé bara enn eitt gróðrabrallið og peningaplokkið sem útsjónaramt fólk nær út úr trúgjörnu fólki sem vill nota léttar og óþægindalausar aðferðir til að ná af sér auka kílóunum sem það hefur safnað af einstakri leti í gegnum árin, af því að það er svo miklu þægilegra að sitja kyrr á rassinum, heldur en fara út að skokka.

TARA, 29.5.2009 kl. 11:15

15 identicon

Auðvitað er Jónína að hafa íslendinga að féþúfu, hún er svona saltið í sárin.
Mér er fyrirmunað að skilja það að kastljós og stöð 2 ásamt fleiri fréttamiðlum skuli auglýsa þessar skottulækningar, það er glæpsamlegt af þeim..
Það er ekki mikill munur að senda peninga til Omega og að fara í skottulækningar Jónínu... nú eða að senda peninga til Nígeríu.. same thing

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 11:46

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Þakka þessa grein Nafni. Hún er fróðleg og fín fyrir utan háðið um Jónínu sem mér finnst vera til vansa og draga athyglina frá því sem skiptir máli. Eins og þú veist eru þessi detox fræði kennd um allan heim og margir vel kunnir læknar taka undir þau og eru með sínar eigin detox meðferðir sem þeir selja sem lækningu við óteljandi kvillum. Jónína hefur lítið gert annað en að apa eftir þessum læknunum og hefur meira að segja fengið til liðs við sig viðurkennda lækna í Póllandi við starfsemi sína þar.

Ég skil að það er erfitt fyrir þig að beina spjótum þínum að starfsfélögum þínum og að Jónína, eins og oft áður, liggur vel við höggi. En það sem skiptir máli er hversu óvísindaleg og ósönn detox fræðin eru. En það er ekki að furða að almenningur látist glepjast þegar að "virtir" læknar taka undir þau.

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.5.2009 kl. 13:03

17 identicon

Svanur háð er það besta gegn rugli og bulli, þú verður að athuga að það er til svo mikið af fólki sem tekur ekki rökum, skilja ekki rök.
Þarna fara íslendingar og láta einhvern Igor pumpa sullumbulli upp í óæðri endan á sér, það sem raunverulega er verið að gera er að sjúga peninga úr peningaveski hins auðtrúa.

Grín er mikilvægt í svona málum.. rétt eins og trú

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:12

18 identicon

Mér finnst þetta alveg frábær grein

Æðislegt hvað þú ert sniðugur og hnyttinn, Svanur !

Stórkostlegt... þú hefur örugglega skemmt þér nú vel að skrifa þetta, er það ekki?  Er ekki gaman að vera svona klár og með mikla rökhugsun, ha? Vildi að ég væri eins og þú... ohhh..

Mér finnst þetta líka svo fyndið vegna þess að þú ert A Læknir að eigin sögn og B Húmanisti

Mér finnst það svo fyndið vegna þess að ég er að hugsa um hvaða ráð þín læknavísindi hafa við ristilvandamálum... hahahahaha... það er svo fyndin ráð að þau voru næstum því búin að drepa frænda minn í fyrra (í orðsins...) Guð hvað ég skemmti mér vel..

Það er svo æðislegt að svona réttlátur maður, mannvinur mikill og veii já læknir líka skuli standa skottulæknavaktina fyrir okkur hin sem erum jú bæði vitlaus og illa upplýst og gætum óvart látið PLATA OKKUR af svona misvitrum gráðugum einstaklingum eins og allir eru sem ekki hafa prófskírteini frá þínum VIRTA skóla...

Takk Svanur. Þú ert æði! Ég dýrka þig. Ég dái þig. Takk..

p.s. Hef enga skoðun á detox meðferðar Jónínu þar sem ég þekki þá aðferð ekki neitt.

p.p.s. Þú ert dýrlingur Svanur, Vonarstjarna landsins.

Björg F (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:22

19 identicon

Ef þú hefur ekkert vit á þessu Björg.. hvers vegna ertu þá með svona stæla... .ertu kannski vinkona Jónínu?

Björg það er ekkert sem styður þettta rassapot Jónínu... get over it and please be more funny.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:37

20 identicon

Og aðdáendaklúbbur Svans var ekki lengja að bregðast við hahahaha...

Mikið er Svanur gæfusamur að eiga svona frábæran og málefnalegan stuðningsaðilla að eins og DoktorE .. sem er greinilega eitthvað viðkvæmur litla skinnið.

Hahahaha... ég pissa á mig í buxurnar af hlátri..

þið tveir! What a team.. Awww...

P.S. Svanur er læknir... já þið heyrðuð hvað ég sagði.. LÆKNIR ... svo það er alveg ástæðulaust að vantreysta heilbrigðiskerfinu með svona FRRRRÁBÆRA menn innaborðs.

Og þið skiljið kannski núna afhverju það er svona dýrt.. afhverju við borgum svona mikla skatta í þetta frábæra kerfi.. jú vegna þess að við eigum svona frábæran og æðislega fyndinn lækni, sem er svo gáfaður og veit ALLTAF BEST.. og er nota bene Mannvinur mikill.

Jú húú.. Halelúja..

Björg F (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 13:45

21 identicon

Ég er ekki í aðdáanda klúbb eins né neins, ég og Svanur erum ekki bloggvinir or nuthing.

En svona þér að segja Björg.. þá ertu að segja okkur hér að þú sért eitthvað tæp á því.
Fábjánalegt að ráðast að læknavísindum... ef þau væru ekki til staðar þá værir þú dauð fyrir löngu.... þá myndi Jónína kannski getað sparað þér jarðafararkostnað með því að sjúga úr þér skítinn... eh.

Ég vona að Jónína kæri allt og alla sem benda á ruglið í henni... það er frábær leið til að sýna ruglið í henni á opinberum vettvangi

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 14:03

22 identicon

Það er eitt sem ég velti fyrir mér og þú getur kannski frætt mig um það Svanur, hvort það er rétt.

Detoxið á að vera svo yfirmáta náttúrulegt og gott, verið er að virkja lækningamátt líkamans og svona, en er ekki málið að meðferðin getur valdið því að meltingarkerfið hættir að starfa og það var í raun upphaf ristilskolananna?

Ég las nýlega þýdda heilsubótarbók (skrifuð 1985) sem hét "Heilsa og vellíðan" eða eitthvað í þá áttina (er ekki með hana hjá mér). Þar kom fram að eftir ákveðið langa föstu (með föstu er þá líka átt við t.d. safakúra) þá hættir meltingarkerfið oft að starfa eðlilega og því þurfi skolunina.  Síðar hefur þá ristilskolunin hugsanlega færst að óþörfu yfir á hófsamari kúra með uppskálduðum fullyrðingum að meltingarkerfið geti ekki séð um sig sjálft.

Höfundinum fannst samt að föstur eða safakúrar væru alveg hreint lausn flestra vandamála heimsins og virtist hallast á það að þar gilti reglan, því lengri, því betri. Það var svo náttúrlegt fyrir líkamann að bjóða honum uppá öfgar þannig að meltingarkerfið hættir að virka á náttúrlegan máta og þarfnast því þessa skemmtilega inngrips sem ristilhreinsunin er (sem er svo í bónus hægt að græða einhverjar krónur á).

Höfundur bókarinnar lést hins vegar úr hjartaáfalli 64 ára gamall, svona til að undirstrika boðskap sinn.

Veistu sem sagt hvort það er rétt að föstur geti gert meltingarkerfið óvirkt?

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 16:00

23 identicon

Leiðrétting, það kostar víst 8000 að fá einhvern til að sprauta gumsi upp í endaþraminn hahahahaha
Jónína kemur í fréttir og segir að þetta sé aldagamalt dæmi sem virkar.. hehehe
Enda þetta með læknisráði úr biblíu; Slátra fugli og setja blóðið í fötu, stinga priki í blóðið og skvetta því 7 sinnum um íbúðina, sleppa svo öðrum fugli lausum.
Þetta er svona í takt við dæmið hennar Jónínu.. og ábending um að guð hafði ekki hugmynd um hvað bakteríur/vírusar eru, það er ekki það heilsusamlegasta að skvetta blóði um íbúðina :)

DoctorE (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 18:49

24 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Gaman að þessu Svanur. Finnst reyndar magnað að fólk kaupi þetta endalausa þvaður úr Jónínu.

Páll Geir Bjarnason, 30.5.2009 kl. 01:49

25 Smámynd: Róbert Björnsson

Gerir kjötfarsið hans Jóhannesar í Bónus ekki nokkurn vegin sama gagn á mun hagstæðara verði?

Róbert Björnsson, 30.5.2009 kl. 04:00

26 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Hæ öll og takk fyrir yndislegar undirtektir

Heyrst hefur að Jónína og Chad bjóði nú uppá kaffiinnhellingu í ristilinn og það að vera vatninu fremra á einhvern máta.  Ef rétt er þá er það frábær mótsögn við þá ráðleggingu að ekki eigi að drekka kaffi í detox kúrnum og lýsir best þeirri snilli sem pólsku læknarnir beita.  Það er nefnilega ekki sama hver leiðin er farin.  Kaffi "neðan í því" gæti nebbnilega virkað sem virkilegt trukk fyrir öll boðefnin.  T.d. er upptaka lyfja mun hraðari í gegnum endaþarminn þannig að kaffi þá leiðina yrði ólýsanlegra mun hjálplegra þeim megin í morgunsárið.  Ætli maður geti svo ekki bara stolist til að taka smá smakk í munninn og spýtt út svona rétt til að gleðja bragðlaukana líka.  Varla eru þeir pólsku og Jónína svo ströng á því - eða hvað?

Svanur Sigurbjörnsson, 30.5.2009 kl. 13:06

27 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mér finnst skorta á víðsýni hér, voðalega er þetta eitthvað ferkantaður hugsunarháttur.

Næ því aldrei hvers vegna ekki má nota óhefðbundnar lækningar ef fólk upplifir að þær virka þegar hefðbundnar hafa klikkað??

Ekki reyna að segja mér að læknar rukki ekki morð fjár fyrir sína þjónustu. Greiddi t.d.  8.500.- krónur fyrir 5 mín viðtal hjá sérfræðingi (og það er bara minn hluti - ríkið greiðir sitt) .. en það er náttúrulega ekki græðgi...hehe..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 30.5.2009 kl. 13:11

28 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Það væri kannski réttast að ræða þetta yfir kaffibolla

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 30.5.2009 kl. 13:13

29 identicon

Jóhanna er tilvalið fórnarlamb fyrir Jónínu hahahaha

DoctorE (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 13:34

30 identicon

frábært, gaman að lesa, einstakur bloggari á ferð!

Orgaði mig hása af hlátri... misskildi ekkert.. heheheheh

Drullutæknir Jónu Ben heitir BORIS, sá sem var á Mývatni amk. Ekki Chat,nema sá hinn sami chatti með pípunum!

Hvað er eiginlega að? org.... k

kristin Jonsdottir (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 20:09

31 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

mmm... Boris... B..o..r..i..sss.  Er hann ekki miklu betri en Chad? a.m.k. er nafnið meira traustvekjandi og ekki eins ferkantað.   

Svanur Sigurbjörnsson, 31.5.2009 kl. 00:17

32 Smámynd: Sigurjón

Sæll Svanur og takk fyrir góðan pistil (og fyndin... )

Það er með ólíkindum að fólk haldi að stólpípa sé eitthvað holl og góð og það oft á ári!  (Ég fer bara í þannig hjá SM-hjákonu minni...)  Það er að sjálfsögðu ekkert að því að borða ávexti og grænmeti (ætti reyndar að vera stór hluti af daglegri fæðu, ekki satt), en að lifa á því eingöngu er ekki góð hugmynd.  Fyrir utan það, þá getur varla verið hollt fyrir líkamann að innbyrða allt í einu innan við fjórðung af því sem venjulega er innbyrt, eða hvað?  Nú ert þú læknir Svanur og mig langar að spyrja hvort þetta er ekki rétt ályktað hjá mér?

Sigurjón, 31.5.2009 kl. 04:11

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Í den fuleste alvor:

Líkur eru á að reyktur, brenndur og pæklaður matur beri með sér krabbameinsvaldandi efni.  Fæði með aðeins 500 kkal/dag er nær svelti og fer að hætta að vera fyndið eftir 2-3 daga.  Eftir það fer líkaminn að brenna fitu, en jafnframt að brjóta niður vöðvana til að búa til sykur úr amínósýrum.  (Lífefnafræði 303). Þetta ferli og önnur samhliða heitir katabolismi og er niðurbrot vefja þegar orkujafnvægið er neikvætt.  Læknisfræðin hefur mikið fjallað um þetta og er talið að kúrar með um 1000 kkal/dag séu það lægsta sem megi fara umfram 2-3 daga, því of mikill katabolismi hefur margvísleg skaðleg áhrif.  Væri kúr þessa prógrams 900-1200 kkal (eftir fitulausri líkamsstærð) á dag í 2 vikur og svo 1300-1800 kkal/dag eftir það í þann tíma sem það tæki að ná kjörþyngd, þá væri hér komið prógram sem skyldi ekki eftir iðkandann vöðvarýran, kraftlítinn og viðkvæmari en áður fyrir því að fitna.  Vöðvinn er sá vefur sem brennir mestri orku og því megum við ekki missa of mikla vöðva við megrun.  Mikilvægt er að vera í styrktarþjálfun á meðan megrun stendur, en 500 kkal kúr (lengur en 3 daga) yrði það rýr að nánast engin þjálfun myndi þolast því þá færi allur sykur úr blóðinu og heilinn yrði sveltur.  Slíkt gæti haft verulega skaðleg áhrif á hormónabúskap líkamans, sérstaklega hjá konum. á barnseignaraldri. 

Þú hittir naglann Sigurjón.

Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 31.5.2009 kl. 09:19

34 Smámynd: Sigurjón

Takk fyrir það.

Hvað myndi læknisfræðin segja um stólpípu?  Hvað þá síendurtekna?

Sigurjón, 31.5.2009 kl. 14:21

35 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Í læknisfræðinni gildir sú regla að fyrst skal huga að því að skaða ekki.  Þess vegna eru ekki framkvæmdir rannsóknir eða meðferðir sem mögulega geta skaðað (jafnvel þó óvart sé) ef að ekki er klár og góð ástæða fyrir framkvæmdinni.  Engar rannsóknir (sem rísa undir nafni) benda til að ristilskolun hjálpi fólki og ef að maður vill forðast "eiturefni" er ráðið að borða þau ekki til að byrja með.  Það er of seint í rassinn gripið að ætla sér að dæla út eiturefnum neðan frá, sem eru búinn að fara í gegnum allan meltingarveginn og hafa fengið nægt tækifæri til að komast inn í líkamann. 

Svanur Sigurbjörnsson, 31.5.2009 kl. 22:32

36 Smámynd: Sigurjón

...eins og mig grunaði.  Takk fyrir þetta!

Sigurjón, 1.6.2009 kl. 03:21

37 identicon

Nokkrir hérna eru greinilega vel meðtækir fyrir því að fá sér í pípu hjá Jónínu. Magnaður andskoti!

Valsól (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 11:01

38 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

DoctorE - ég held að Jónína geti hefði ekki getað hreinsað burt krabbameinið mitt með detoxaðferðinni sinni, mikið ertu nú alltaf fyndinn annars.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 1.6.2009 kl. 22:02

39 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Svona, svona, hvað er að því að fá sér eina stólpípu við og við

Í "gamla daga" var notað eitthvað sull sem var "laxerandi" ef fólk var stíflað af einhverjum sökum.  Það var glært sull og ógeðslegt og það hreinsaði fólk út með stæl.  Það voru líka notaðar stólpípur á sjúkrahúsum og sjúklingar fengu þær gjarnan fyrir aðgerðir, síðan var farið að nota eitthvað í túpum sem heitir microlax að mig minnir.  Eftir aðgerðir fékk fólk ekki að borða fyrr en þarmahreyfingarnar voru orðnar merkjanlegar.  Enn er þetta svona að einhverju marki, nema að stólpípurnar eru ekki notaðar lengur og ekki stíf laxering, nema fyrir ristilspeglun.

Fólk getur bara tekið inn olíur (olívuolíu eða hörfræolíu) ef það er stíflað og líka borðað meiri trefja.   Þetta er allt spurning um hversu hentugt fæði maður borðar fyrir sína líkamsgerð og þarfir.

Mér finnst mjög varasamt að fara í þessar hreinsanir og þá án þess að nákvæm læknisrannsókn fari fram áður.  Það gefur alveg auga leið að fólk léttist og hreinsast út við þessar aðferðir, þar sem það er hálfsvelt og fær mjög einhæfa fæðu og svo líka stólpípurnar   Fólk getur bara borðað hollari mat svona yfir höfuð.   Við svona "hreinsanir" missir fólk mikið af söltum og steinefnum, alveg eins og það gerir þegar það fær slæmar magapestir og þá er ekki skrítið að fólk verði ringlað í höfðinu.  Það er að því að ég veit best mjög slæmt fyrir mann. Það sagði mér læknir sem ég talaði við eftir að ég fór að finna fyrir mikilli þreytu og verkjum í fótum eftir æfingar. Hann sagði mér að drekka svokallaða "íþróttadrykki" eftir æfingar og að þeir væru með söltum og steinefnum og það svínvirkaði.  

Þannig að það segir mér bara eitt að það sé afar slæmt fyrir líkamann að missa sölt og steinefni.  Það er líka ekkert gott fyrir fólk að éta bara drasl eins og sum matvæli eru sem fólk leggur sér til munns.  En nýrum og lifrin verða að fá eitthvað að gera en til þess eru þau. Líkaminn hefur sitt eigið hreinsunarkerfi að því ég best veit Það er óþarfi að ofbjóða því og það er líka óþarfi að gera það óstarfhæft.

Annars mjög skemmtilegur pistill hjá þér Svanur Bestu kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 4.6.2009 kl. 13:18

40 identicon

Úvvvvvvaaaaaaa.... þetta var svo ógeðsleg mynd að ég hef ekki þorað að lesa pistilinn. Manna mig kannski upp í það á morgun...

Eigðu góðan dag...

Þórunn Gréta Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 09:39

41 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét St   :-)

Sæl Þórunn Gréta - uss, bara mynd frá venjulegum degi í skolunarklínikinn.  "Drink up"!

Svanur Sigurbjörnsson, 11.6.2009 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband