Hvað er kukl?

Hér ætla ég að koma með skilgreiningu á því hvað kukl er, því það er mikilvægt að ekki skapist neinn misskilningur um það hvað talað er um í þessu sambandi.  Fyrst ætla ég þó að lýsa aðeins hluta af þeim viðbrögðum sem ég hef fengið frá verjendum "óhefðbundinna lækninga" eða kukls því að þar kennir ýmissa grasa sem er vert að huga að.

Undanfarnar vikur hefur talsvert gengið á hér í athugasemdum við blogg mín um detox og annað kukl.  Iðkendur þessara "óhefðbundnu lækninga" hafa sumir hverjir orðið ári sárir yfir skrifum mínum og kallað mig dóna, yfirlýsingaglaðan eða hrokafullan.  Sumir þeirra hafa komið með langar athugasemdir þar sem miklu púðri er eytt í að benda á ófullkomleika læknastéttarinnar, rétt eins og það bæri í einhver bætifláka fyrir þau gervifræði sem ég kalla kukl.  

Kona ein, Agný að nafni, taldi ástæðu til að spyrja mig hvort að ég teldi mig vera í hópi "löggiltra, vestrænna" kuklara og sagðist bera ör eftir þá.  Hún þakkaði mér fyrir (í kaldhæðni) að kalla hana kuklara, en hún sagðist vera cranio"kuklari" (aftur í kaldhæðni), þ.e. höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari.  Þá taldi Agný iðkun sinni (m.a. að reyna hreyfa heilahimnur) til málsbóta að lýsa því yfir hversu svakalegt það væri hvernig læknar færu með höfuð barna í fæðingu með beitingu sogklukkna.  Sýnishorn frá Agný:

Hvað þá með helvíts sogklukku/drullusokkinn sem sogar sko heilabúið með og togar mænuslíðrið líka upp..jafnvel það mikið ( að ég tel) að hásinarnar verði stuttar....og tengurnar sem kreista saman höfuðkúpuna valdi ekki skaða..

Heilabú-hásinar!  Hvað ætli komi næst? Heila-hásinaréttingar?  Hún benti á grein skólastjóra "cranio"kuklsins sem hún þýddi og birti á blogginu sínu.  Þar fer skólastjórinn í gegnum "fræðin" og telur loks upp þann aragrúa sjúkdóma eða kvilla sem meðferðin á að hafa gagnast við.  Fjöldinn er svo mikill að mér er spurn í að vita hvað hafi hindrað hann í að bæta svona 50 sjúkdómum til viðbótar.  Kannski skortur á fjölbreyttari batasögum einstaklinga? 

Haraldur Magnússon osteopati reis upp til varnar nuddi og sagðist hafa áreiðanlegar rannsóknir fyrir því að það hefði meiri áhrif en að vera aðeins til þæginda.  Ég hef ekki kallað venjubundið nudd kukl, en talið það meðal meðferða sem hafa ekki sannaða virkni.  Samt uppskar ég hálfgerð bókarskrif Haraldar í athugasemdafærslu hjá mér og þar sem eftirfarandi perla leit dagsins ljós:

Mér er það algjör ráðgáta afhverju stór hluti lækna hér á landi (takið eftir að ég alhæfi ekki með því að segja allir) séu svona hatrammir gagnvart óhefðbundnum aðferðum. Þetta er ekki svona í mörgum öðrum löndum.

Svo gaf hann dæmi m.a. frá Bretlandi þar sem læknar störfuðu með hómeópötum á sérstökum hómeópataspítölum.  Það er mér mikill léttir að slík starfsemi skuli ekki vera hérlendis. Það er athyglisvert að Haraldur tali um hatramma afstöðu, þegar afstaðan byggir á gagnrýni á tilgátur og aðferðir hómeopata, en ekki persónuleika þeirra og engin hatursfull orð eru látin falla. Íslenskir læknar hafa að mestu látið hómeópata í friði með kukl sitt nema þá helst ég, Magnús Jóhannsson og nokkrir aðrir.  Er það hatrammt að kalla það sem maður telur byggt á gervivísindum kukl?  Kannski er það hart fyrir þá sem stunda það sem ég kalla kukl, en tæpast hatrammt.  Aftur myndu e.t.v. einhverjir kalla þau orð (dóni, hrokafullur, yfirlýsingaglaður o.fl.) hafa fallið úr munni verjanda þessara gervivísinda um mig sem hatrömm, en ég lít ekki á það þannig.  Kannski eru þau dálítið andúðarfull en ekki hatrömm gagnvart mér og mínum skrifum. 

Gagnrýni mín á kuklgreinar stýrist ekki af andúð við fólkið sem iðkar þær heldur áhyggjum af því að kerfi blekkinga nái að fanga fleira fólk og að mikil vinna og tími fari í að nema og ástunda gagnslausa hluti.  Að sjálfsögðu lítur það ekki þannig út í augum hins sannfærða kuklara og gagnrýni mín túlkast sem árás á það og vinnu þeirra.  Þegar fólk er gjörsamlega sannfært um að nýju fötin keisarans séu í raun hin fallegustu og nytsamlegustu föt, þá hljómar sannleikurinn um að það standi í raun nakið, ákaflega særandi. 

Hvað er þá kukl?  Hér er skilgreining mín á kukli:

  • Meðferð sem boðin er fólki (gegn gjaldi eður ei) til þess að lækna kvilla/sjúkdóma eða bæta líðan og byggir á eftirfarandi:
    1. Sú hugmyndafræði sem að baki þeirrar meðferðar (eða meðferða) sem boðin er, er ekki reist á viðurkenndum þekkingargrunni raungreina og stangast á við hana að einhverju eða öllu leyti.  T.d. tilgátur á bakvið heilun og hómeópatíu ("líkt lækni líkt").
    2. Hugmyndafræði þessara meðferða er betur útskýrð með ímyndun eða óraunsæjum tilraunum upphafsmanna til að finna einhverjar lausnir á heilsufarsvanda.  Engar rannsóknir sem fjöldi óháðra aðila hefur getur stutt liggja fyrir. 
    3. Meðferðin sjálf og aðferðafræði hennar stenst ekki skoðun í ljósi viðurkenndrar þekkingar í raunvísindum og á mannslíkamanum.  Það vantar rökvíst samhengi, verkunarmáta eða mekaník sem hægt er að sýna fram á með rannsóknum.  T.d. ganga remídíur hómeópata þvert á alla þekkingu um það hvað þarf til svo að efni hafi áhrif á lífræna ferla í líkamanum og komi því einhverju til leiðar. 
    4. Það eru ekki neinar vandaðar rannsóknir sem sýna fram á virkni meðferðarinnar umfram lyfleysuáhrif (óskhyggja mannsins).  Ath: Jafnvel þó að tiltekin meðferð passi við skilgreiningu á kukli skv. liðum 1-3 hér að ofan, má í sumum tilvikum réttlæta það að gera svokallaða klíníska meðferðarrannsókn á henni ef að einhver sannfærandi vitnisburður fjölda fólks sé fyrir hendi um að meðferðin virki.  Þetta á sérstaklega við um meðferðir með jurtalyfjum eða einhvers sem þó hefur einhverja mögulega efnafræðilega eða mekaníska (t.d. nudd) verkun á líkamann.  Þetta eru mjög vandasamar rannsóknir og þarf að gera eftir hæstu stöðlum.  Leiði slíkar rannsóknir ekki í ljós virkni umfram lyfleysu eða óvirka samanburðarmeðferð, þá á að hafna meðferðinni.  Fólk í kukli neitar oft að horfast í augu við þetta.
    5. Sala eða iðkun á meðferð sem passar við liði 1-4 hér að ofan og það gefið í skyn, sagt líklegt eða lofað að meðferðin skili bata eða lækningu á kvillum eða sjúkdómum.  Dæmi: gefið í skyn að "detox" lækni sykursýki eða liðbólgur eða að remidía hómeópata lagi eyrnabólgu. 
    6. Sala eða iðkun á meðferð sem liðir 1-3 eiga EKKI við um og það er ekki ljóst hvað klínískar meðferðarrannsóknir hafa leitt í ljós (t.d. nudd) varðandi gagnsemi fyrir afmarkaða hluti (t.d. vöðvabólgu), en samt alls kyns læknandi áhrifum haldið fram af hálfu meðhöndlarans. Dæmi: Kírópraktor sem segist geta hnykkt út asthma barns.

þetta er svolítið flókið en mannleg hegðun er sjaldnast einföld þannig að það er ekki úr vegi að setja smá púður í þetta.  Til einföldunar má taka þetta saman nokkurn veginn í þessari setningu:

  • Kukl er iðkun meðferðar sem á sér ekki stoð hugmyndafræðilega út frá viðurkenndri þekkingu á lífheiminum, stenst ekki aðferðalega skoðun raunvísindanna og hefur ekki verið rannsökuð með vönduðum klínískum meðferðarrannsóknum eða ekki staðist þær. 

Þetta er skilgreiningin, en kuklari mun gjarnan gagnrýna hana fyrir þá sök að hin "viðurkennda þekking" sé í raun ekki nógu góð og það eigi ekki að útiloka neitt.  Kuklarann vantar samt rök fyrir þvi hvers vegna maður eigi að taka meðferð hans alvarlega.  Hann fer einfaldlega fram á það við fólk að honum sé trúað og að því sé óhætt að prufa.  Hann bendir gjarnan á hvar þekkingu raunvísindanna sé ábótavant, en getur ekki hrakið þá þekkingu sem er til staðar.   Hann horfir fram hjá þeim mikla grunni sem er búið að byggja og hefur oftast litla þekkingu á honum, þ.e. lífeðlisfræði, lífefnafræði, líffærafræði, sjúkdómafræði og svo framvegis.  Það eru ýmsar undantekningar á því en þá er eins og viðkomandi hafi blokkerað út þá varnagla sem þarf að hafa þegar ályktað er um það hvort að tiltekin meðferð standist skoðun eða ekki.  T.d. það litla hlutfall lækna sem virðast gleyma þeirri staðreynd að sönnunarbyrðin liggur hjá þeim sem kemur með undarlega tilgátu en ekki þeim sem gagnrýna hana og trúa ekki. 

Það má aldrei gleymast að mannskepnan er fær um að ímynda sér alls kyns hluti og er fær um að blanda ímynduninni við veruleikann eða skipta veruleikanum út fyrir ímyndunina.  Stundum er þessi ímyndun komin fyrir góðar meiningar einar saman eða óháð meiningu, en stundum er hreinlega um pretti að ræða í von um ágóða og/eða upphafningu.  Stórir hópar fólks, m.a. heilu þjóðfélögin hafa orðið fyrir því að taka ímyndanir upp á sína arma og gengið á þeim um tíma í mikilli hamingju, en síðan rekið sig harkalega á raunveruleikann.  Óhlutdrægni, greinandi hugsun og vísindaleg vinnubrögð eru besta trygging okkar fyrir því að verða ekki fórnarlömb hugmyndakerfa sem aðeins á yfirborðinu virðast góðar lausnir en eru í besta falli gagnslaus tímaeyðsla og í versta falli hættuleg og skaðleg iðkun.  Kukl er fyrirbæri sem fellur undir þetta.  Því fyrr sem við áttum okkur á því að það er heilmikið kukl í gangi og lærum að þekkja það, því betra og því fyrr sem við lærum að nýta mesta auð okkar, fólkið í landinu, til raunsannra starfa til uppbyggingar heilsu og annarra góðra þarfa, þá mun okkur vegna betur. 

Látum engan segja okkur sem kemur fram með eitthvað ótrúlegt og á skjön við viðurkennda þekkingu, að það sé okkar að afsanna orð viðkomandi.   Sönnunarbyrðin liggur hjá honum/henni.

Munum einnig að aldur hugmyndakerfa eða fjölda iðkenda hefur ekkert með sannleiksgildi þeirra að gera.  Við þurfum að vera auðtrúa sem börn, en sem fullorðnir einstaklingar verðum við að axla ábyrgðina sjálf og gera strangar kröfur til þess sem við trúum.  

Góðar stundir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Billi bilaði

Það þarf lítið, ef þá nokkuð, til að þessi greining smellpassi fyrir fleiri en eina hagfræðikenningu, sem eiga að lækna fjárhagslega sjúkdóma.

Billi bilaði, 20.8.2009 kl. 05:55

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Eitt dettur mér í hug að setji ákveðinn svip á kuklaraumræðuna.

Það er það að fólki finnst dálítið spennandi og sérstakt þegar það fær bót meina sinna með því að fara fram hjá heilbrigðisgeiranum og til kuklara. Þegar slíkt virkar talar það vilt og galið um lækninguna, því það er spennandi saga fólgin í að meðferðinni "ég gafst upp á lækninum mínum og fór til kuklara sem gerði x - það var frábært".

Á hinn boginn tala fólk ekkert um það þegar kuklið ekki virkar, því það átti jú hálft í hvoru von á því fyrir að það myndi ekki virka, og það því ekkert spennandi frá að segja.

Þannig myndast mun meira umtal um kukl sem virkaði, en kukl sem gerði ekkert.

Hjá opinbera heilbrigðisgeiranum er þessu öfugt farið. Því það er álitið sjálfsagt að fá lækningu á tiltölulega skömmum tíma, og aðeins í frásögur færandi ef lækningin fékkst ekki og læknirinn uppfyllti ekki væntingar.

Ég þekki þessa hegðun hjá sjálfum mér. Þegar ég var unglingur fékk ég eitt sinn frekar harkalegt þursabit eftir körfubolta og gekk allur skakkur og aumur. Ég prófaði hnykkja sem gerði ótrúlega mikið fyrir þetta á skömmum tíma eftir nokkurra mánaða ástand á mjóhrygg mínum. Síðan sendi móðir mín mig til einhvers bresks bonesetter sem tók á móti mér í heimahúsi og rétt svo þuklaði á mér hrygginn.

Einhverju síðar jafnaði ég mig, en veit ekki hverju það er að þakka. En vegna þess að ég var með takmarkaðar væntingar til hnykkjans og bonesettersins tala ég ýmist ekkert um þá, eða gef þeim jafnvel heiðurinn af því að hafa reddað þessu í sameiningu.

Niðurstaðan verður gott umtal fyrir kuklið. (þó hnykkjar séu nú ekki kukl).

Það er á brattann að sækja ;)

mbk,

Kristinn Theódórsson, 20.8.2009 kl. 07:30

3 identicon

Góð grein og þörf umræða :)

Sol (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 11:21

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Frábær grein. Hafðu þökk fyrir.

Kristján Hrannar Pálsson, 20.8.2009 kl. 12:26

5 identicon

Það er svo skrítið að fólk er tilbúið að dissa sprenglærða sérfræðinga.. heimtar ofursannanir, sem það svo fær en trúir ekki.

Síðan kemur einhver amatör með farout sögur og fólk gleypir við því eins og ekkert sé.
Ef við tökum bænir: Milljónir manna biðja bænir, að þessi og hinn læknist, menn  hrynja niður þvers og kruss.. svo kemur einhver 1 sem læknast, eins og gerist fyrir jafnt trúaða sem og aðra... BANG kraftaverk, it totally works; Magic is real.

DoctorE (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 12:51

6 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Billi.  Það er mikið rétt.  Það er "kuklað" á fleiri stöðum en heilsugeiranum og núverandi kreppa er af völdum blekkingarvefs sem spunninn var til að hámarka gróða fólks í fjárfestingargeiranum. 

Sæll Kristinn.  Þetta er góð lýsing hjá þér á því hvernig vilhöll (biased) hugsun eða væntingar getur lokað augum fólk fyrir því að þeirra eigin reynsla er ekki endilega marktæk eða að hún er ekki endilega dæmigerð fyrir ákveðið meðferðarúrræði.  Það hvort að við séum spennt fyrir einhverju nýju hefur ekkert með það að gera hvort að það hafi raunverulega virkni eða ekki.  Vinsældir eru ekki það sama og árangur.  Það er kúnst að kunna að hugsa greinandi og óhlutdrægt.  Það þarfnast þekkingar á því hvernig marktæk þekking verður til og hvernig við mannfólkið getum leitt okkur sjálf í gildrur með óskhyggju og sjálfmiðuðum reynsluheimi.   Bestu þakkir.

Takk Sol.  :-)

Svanur Sigurbjörnsson, 20.8.2009 kl. 12:57

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég þakka frábæra grein.  Ég er ein af þeim sem er mikill sjúklingur og hef verið allt mitt líf, hef þó alltaf náð því að hugsa mér sjálfa mig sem heilbrigða og er það mun betra en allar therapíur.  Ég hef prófað allan fjandann vegna áeggjanna samferðamanna minna, því allir vilja gefa manni lausnina.  Ég hef komist að því að það eina sem raunverulega virkar er jákvæð hugsun og svo lyfin sem ég fæ hjá læknunum, allt annað er peningaplokk, þetta er bara spurning um að hugsa vel um eigin líkaman og ver svolítið harður við sjálfan sig, gera það sem er hollt og gott og hreyfa sig reglulega.  Allt kukl virkar í smátíma, þ.e.a.s. rétt á meðan þú trúir því.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.8.2009 kl. 13:36

8 Smámynd: hsj

Frábær og þörf grein!

hsj, 20.8.2009 kl. 14:00

9 identicon

Títtnefnd ´viðurkennd þekking´ hefur flaskað nægilega oft til að ekki er hægt að nota hana sem einhvern gæðastimpil.

Eins og þú bendir sjálfur á, er fjöldi áhangenda ekki endilega staðfesting á sannleiksgildi.

Þegar fólk lendir ítrekað í því að hin ´viðurkenndu vísindi´ virka ekki - þá neyðist það til að setja stórt spurningarmerki við gildi þessara ´viðurkenndu vísinda´(ó, hve næs ef þau hefðu virkað!), og prófa eitthvað annað.
Þetta bendir ekki til heimsku, heldur þvert á móti skarprar gagnrýninnar hugsunar.

zoa (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 15:54

10 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Kristján Hrannar og DoktorE.  Já það er "svo skrítið að fólk er tilbúið að dissa sprenglærða sérfræðinga" eins og þú segir DoktorE.  Á meðan fólk hefur ekki grunnþekkingu til að meta hvað er rétt og rangt í læknisfræðilegum efnum ætti það að treysta læknum best til að fara yfir málin og fá meðhöndlun frá þeim.  það þýðir að sjálfsögðu ekki að fólk eigi að taka öllu frá læknum án umhugsunar, heldur að það eigi að treysta á þann staðal sem er búið að byggja upp okkur öllum til heilla.  Ekkert kerfi er fullkomið og stundum þarf að fá álit fleiri lækna en eins eða tveggja, en það er að fara úr öskunni í eldinn að leita eftir kukli til lækninga.

Sæl Ásdís Sig.  Þakka sömuleiðis fyrir jákvætt innlegg, fullt af baráttuhug og skynsemi.  Það skortir einmitt hjá mörgum að vera "svolítið harður við sjálfan sig" eins og þú segir.  Heilbrigður agi og dugnaður til æfinga getur leyst fjölmargan vanda og lyft upp geðinu.  Gangi þér vel!

Takk fyrir hsj.

Svanur Sigurbjörnsson, 20.8.2009 kl. 15:58

11 identicon

Auðvitað á fólk ekki að treysta einu áliti í mikilvægum málum.

Ef læknir segði mig með eitthvað alvarlegt og eða mér finnst læknir ekki hlusta á mig, þá myndi ég mjög líklega fá 2nd opinion.. og gramsa sjálfur á netinu, fletta upp öllum lyfjum og svona.... og auðvitað að passa sig á kuklinu og lyfjafóbíuliðinu ;)

Það er ekki merki um gagnrýna hugsun að fara út í kukl zoa, lækningar í kukli byggjast á random chance.. ekki á kuklinu sjálfu

DoctorE (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 18:22

12 identicon

uhh set "random chance" í gæsalappir.. því ég er ekki viss um að það sé til(tilviljanir) :P

DoctorE (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 18:25

13 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Dokksi segir

"..og auðvitað að passa sig á kuklinu og lyfjafóbíuliðinu"

Það er nú alveg til eitthvað sem kalla mætti of mikil lyfjagleði. Stundum hljómar svona osteódæmi (minni inngrip) bara nokkuð vel i samanburði við lyfjasúpuna sem sumt fólk er á.

Kristinn Theódórsson, 20.8.2009 kl. 18:26

14 identicon

Þú segir að nudd hafi enga sannaða virkni...ég veit nú ekki betur en að nudd hjálpi nú talsvert við þegar um ýmiskonar stoðkerfisvandræði er að ræða...nema auðvitað sjúkraþjálfarar séu líka kuklarar, en þeir nota nudd oft ásamt öðru í sínu starfi...

Rún (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 18:35

15 identicon

Kristinn.. ég er bara að tala um að nota common sense.. enga öfga :)

DoctorE (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 20:18

16 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Varðandi nuddið (og nuddið um nuddið ;-)

Það eru rannsóknir sem benda til mögulega fljótari eða meiri bata af vissum stoðkerfisvandamálum með nuddi en með óvirkri (sham) meðferð.  Nudd er því ósönnuð meðferð en ekki endilega gagnslaus, því rannsóknirnar gefa a.m.k. einhverjar jákvæðar vísbendingar.  Þannig niðurstöður benda til að rannsaka þurfi meðferðina betur. 

Er nudd kukl eða ekki samkvæmt þeim skilmerkjunum sex sem ég setti fram í þessu bloggi?  Mátum venjubundið nudd við þau:

  1. Hugsanlega eykur nudd blóðflæði um vöðva og örvar þá óbeint án þess að til vöðvavinnu komi.  Nuddið gæti einnig haft áhrif á vökvajafnvægi í vöðvunum gegnum þann þrýsting sem nuddið veldur. Sé nuddað með stefnu blóðflæðis í bláæðum vöðvanna (til hjartans), er hugsanlegt að það hjálpi við losun bjúgs úr vöðvum eða húðbeðsins yfir vöðvanum.  Nuddið hefur því ýmis mekanísk áhrif á vöðvana og bandvefinn í kring, en ekki er ljóst hvort að það dugir til að hafa einhver raunveruleg áhrif og aðferð nuddsins gæti skipt máli.  Út frá þessari hugsanlegu verkun sem er í samræmi við viðurkennda þekkingu í lífeðlisfræði blóðrásar líkamans er ekki hægt að segja annað að nudd hafi hugsanlega gildan fræðilega tilgátu á bak við sig og því vert að skoða það nánar.
  2. Verður tilkoma nudds betur útskýrð með ímyndun eða óraunsæjum hugmyndum upphafsmanna þess?  Nei, því við höfum ekki neina upphafsmenn og við erum ekki að tala um einhver furðunudd með prikum eða sársaukafullum fingurborunum í holdið (ekki satt?).  Bara klassískt strokunudd.
  3. Aðferðarfræðin.  Sé nuddið í átt með blóðflæðinu og hugsanlega útfært á annan þann máta sem telja megi með rökréttri hugsun að hafi áhrif á vefi líkamans, t.d. til minnkunar á bjúg eða örvunar vöðva, þá erum við með einhverja byrjun í höndunum.  Hins vegar skiptir verulegu máli að við vitum hver áhrifin eru og þau séu rannsökuð sérstaklega áður en farið er út í meðferðarrannsóknir.  Það fer nefnilega eftir þeim áhrifum sem við erum að fylgjast með, hvað við megum búast við að telja megi mögulega gerð útkomu, þ.e. hvers eðlis hugsanlegur árangur af meðferðinni er.  T.d. má búast við minnkun á bjúg, minnkun á vöðvabólgu eða einhverju allt öðru?  Aðferðarfræði nuddsins og þau áhrif sem við teljum að þau hafi á vefina verða að stýra því hvað við mælum sem meðferðarútkomu.
  4. Klínísk meðferðarrannsókn á nuddi.  Hér vandast virkilega málið og það þarf að hafa pottþéttan undirbúning sem byggir m.a. á því sem ég lýsi í (3) og svo tölfræðilega rétt upp settri rannsókn með slembiröðuðum samanburðarviðföngum.  Rannsóknirnar hingað til hafa verið misvísandi en skoða þarf hverja fyrir sig til að mynda sér nánari skoðun. 
  5. og 6.  Svo lengi sem svona "venjubundið" nudd er ekki seld sem lækning við einhverju allt öðru og óskyldu en því sem það hefur líffræðilegan möguleika á að virka á, þá er ekki um sölu á meðferð í anda kukls.

Samantekið, þá er útkoman með nuddið ekki á hreinu enn og það hefur mekanísk áhrif á líkamann sem út frá vökvafræði og hugsanlega taugafræði og lífefnafræði (boðefni o.fl.) gæti mögulega haft áhrif á líkamann.  Spurningin er svo hvort að þau áhrif geri einhvern gæfumun og hvort að það gagnist sumum lítið eða ekkert en öðrum (t.d. fólki með bjúg) umtalsvert. 

Notkun á nuddi og varleg túlkun á rannsóknum á því í anda ofangreinds tel ég því ekki kukl, heldur áhugaverða aðferð sem kanna þarf nánar og læra meira um. 

Vonandi útskýrir þetta nánar um afstöðu mína varðandi nudd.

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 20.8.2009 kl. 20:40

17 identicon

Hvernig geta læknar komist að mismunandi niðurstöðum, ef það er til einhver ´staðall´ (... sem menn eiga að treysta ... okkur öllum til heilla LOL)?

Finnst mönnum þetta meika sens?

(DoctorE: Ertu svo forlagatrúar?! ;) )

zoa (IP-tala skráð) 20.8.2009 kl. 22:16

18 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Því læknar, líkt og aðrir zoa, eru misvitlausir, misvel menntaðir og hafa mismikla reynslu líkt og annað fólk. Ekki svona treg!

Páll Geir Bjarnason, 20.8.2009 kl. 23:09

19 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Rannsakendur úr röðum lækna eða annarra faga geta komist að mismunandi niðurstöðum af mjög mörgum ástæðum og þær þekkja allir sem hafa lært eitthvað um rannsóknir.  Ég sé ekki að þú sért að spyrja í einhverri einlægni hér zoa með þitt "LOL" og "meika sens?" rétt eins og þú vitir svarið við spurningunni sem þú lagðir fram.  Ef þú hefur ekkert betra til málanna að leggja hér eða hefur engar einlægar spurningar, þá vil ég biðja þig um að setja ekki inn fleiri færslur hér. 

Svanur Sigurbjörnsson, 20.8.2009 kl. 23:32

20 identicon

Takk enn og aftur Svanur, frábær grein og ekki síður pistillinn um nuddið,

þessi umræða er svo löngu tímabær og þetta þyrfti að birtast víða,

ég hef fengið aldeilis að heyra það þegar maður er að reyna skjóta 

þessar kukl og kraftaverkasögur í kaf. Þá er maður sagður neikvæður og

allt of jarðbundin, sem er bara ágætt enda hef ég aldrei trúað á nein

loftbóluvísindi  þó ég sé nú bara leikmaður og hef ekki hundsvit á

heilbrigðisvísindum.

Heiður (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 00:14

21 identicon

Minnsta málið :)

zoa (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 00:23

22 identicon

Nei zoa.. ég er ekki forlagatrúar... þó ég segi að "tilviljun" sé bara til í hausnum á okkur..

DoctorE (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 09:40

23 identicon

Sæll Svanur.

Ég hef ekki lesið öll þín blogg en er sammála því sem að ég hef séð.  Ég veit ekki hvort að þú hafir séð málið um Simon Singh en ef ekki þá er það beintengt þinni umræðu.

Simon singh er velþekktur rithöfundur/blaðamaður sem að gerði þau mistök að gagnrýna breska kírópraktora í blaðagrein í breska blaðinu " The Guardian".  Í blaðagreininni kallaði hann á sannanir þeirra fullyrðinga kírópraktaranna að þeir gætu læknað allt frá kvefi til asma.  Svarið kom í formi lögsóknar fyrir meiðyrði, sem að félag kírópraktóra í Bretlandi höfðaði gegn honum.

Þarna kemur fram ástæða þess að læknar í Bretlandi starfa með þessum kuklurum.  Þeir eiga í hættu að verða lögsóttir að lobbíistunum þeirra.  Og við erum ekki að tala um smáaura.

Það er hjartahlýjandi að sjá að stór hópur lærðra manna og frægra skemmtikrafta er að berjast fyrir hönd Símonar, sem að hefur óskiljanlega tapað í "héraðsrétti" Bretlands.  Þessi hópur af stuðningsmönnum telur t.d. Richard Dawkins, Stephen Fry og hundruði annara virtra manna sem að telja að með þessu máli sé verið að vega að vísindahyggju og rökréttri hugsun.

Meira um þetta.

http://richarddawkins.net/article,3925,UPDATE-6-16-Support-Simon-Singh,Richard-Dawkins

http://www.senseaboutscience.org.uk/index.php/site/project/340

Síja.

Ólidanski (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 19:22

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Heiður.  Gott að heyra að þú lætur ekki segja þér hvað sem er.  Við þurfum sem flest að vara við þessu og ekki láta þetta vaða uppi.

Sæll Ólidanski.  Ég kannast aðeins við málið hans Simons Singh.  Það er argasta hneyksli að héraðsréttur í UK skuli dæma svona og sýnir einna best hversu blekkingarvefurinn er orðinn þéttur.  Stephen Fry er húanisti og er að gera góða hluti í Brétlandi og víðar.  Það þarf að mennta almenning um þessa hluti áður en vitleysan gengur lengra.

Svanur Sigurbjörnsson, 23.8.2009 kl. 02:42

25 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Frábær grein Svanur. Ótrúlegt mál þetta Singh mál. Það sýnir hversu fáránlegt réttarkerfi Bretar búa við nú um stundir.

Magnús Óskar Ingvarsson, 23.8.2009 kl. 20:33

26 identicon

Sæll, setti þetta inn á slóðina "kukl fyrir ungabörn" og finnst hún geta einnig átt við hér............. 

"Ég hef fylgst með þessari umræðu sem leikmaður og finnst hún fróðleg.

Mér blöskrar ákveðin orðanotkun hjá sérstaklega Svani sem stöðu sinnar vegna ætti ekki að notast við gífuryrði þau sem hann hefur sett fram. Gagnríni er góð og mikilvæg, orðhengilsháttur og staðhæfingasláttur á ekki við.

Ég vil þakka Haraldi fyrir innleggið og sérlega málefnalega umræðu.

Mig langar að henda inn athugasemd varðandi orðið ´kukl´sem Svani og Kristni er tíðrætt um.

Úr fyrsta bloggi Svans: ´Það fólk sem hefur hve best gert sér grein fyrir þessu undanfarnar aldir hefur þróðað aðferðir til að greina á milli þessarar ímyndunar (sem er oft hjálpað verulega af óskhyggjunni) og raunveruleikans svo að við gætum séð hvað virkar í formi greiningaraðferða og meðferða og hvað er bara plat. Þessar aðferðir eru kallaðar vísindi og fólkið klára vísindamenn, en aftur þeir sem hafa haldið áfram í ímyndunarlandinu stunda kukl og eru kuklarar. Kuklarar eru oft hið besta fólk, bara fáfróðir eða blindir á vísindalegar aðferðir.´

Þetta er ódýr skilgreining á mismun vísinda og kukls. Sagan segir okkur nefnilega að án þess að maðurinn leiti út fyrir rammann, leiti út fyrir hinn viðurkendu gildi þá þróast þekkingin ekki og framfærist. Yfirkuklari þess tíma, Galileó Galilei var árið 1632 dæmdur af vísindum þess tíma sem kukklari og skipað að afneita kenningum sínum opinberlega ella hljóta verra af. Í dag er Galileó Galilei oft nefndur faðir nútíma vísinda og án efa einn af frægustu raunvísindamönnum nýaldar.

Vísindi verða aldrei sannleikur. Einfaldlega geta það ekki. Þau eru verkfæri til að leita nýrrar þekkirnar, kanna hið óþekkta og nýta til framdráttar mannkyninu. Viðhorf þín Svanur til þeirra sem leita út fyrir vísindalegan skilning þinn bera vott um að þú teljir að vísindin hafi gefið þér ´sannleikan´og því sért þú í stöðu og hafir leyfi til að kalla alla aðra kuklara vegna þess að þú þekkir ´sannleikan´. Það er kannski tilviljun, eða kannski ekki að þetta voru einmitt viðhorf rannsóknarréttarins til Galileós. Það viðhorf átti eftir að breytast. Ég óska þínum viðhorfum þess sama.

Kærar þakkir fyrir umræðuna! "

Ingvar Eyfjörð (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 15:02

27 identicon

Ingvar: 

"Yfirkuklari þess tíma, Galileó Galilei var árið 1632 dæmdur af vísindum þess tíma sem kukklari og skipað að afneita kenningum sínum opinberlega ella hljóta verra af."

Þetta er auðvitað rangt, Galileó var ekki dæmdur af "vísindum þess tíma" heldur af kuklstofnun sem kallast kaþólska kirkjan. Galíleó setti fram kenningar í stjörnufræði og gat rökstutt þær með athugunum sínum. Þess vegna var hann vísindamaður en ekki kuklari. Ríkjandi kenningu kirkjunnar um eðli sólkerfisins var hinsvegar ekki hægt að staðreyna. Hlutunum er því rækilega snúið á haus með því gera Galíleó að kuklara og þau öfl sem kúguðu hann að vísindum. Ég hugsa að maðurinn myndi hringsnúast í gröfinni ef hann vissi af því að tæpum 500 árum síðar er persóna hans dregin fram af stuðningsmönnum kukls sem rökstuðningur fyrir því að kuklarar séu undanþegnir kröfu um vísindaleg vinnubrögð.

Bjarki (IP-tala skráð) 25.8.2009 kl. 12:10

28 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk Bjarki - ég er algerlega sammála svari þínu við athugasemd Ingvars.

Sæll Ingvar

Ég setti svar við þessari færslu þinni við bloggið "kukl fyrir ungabörn", en færi það inn hér einnig:

Sæll Ingvar

Þú ert andvígur einhverjum "gífuryrðum" sem að þú segir mig nota, en nefnir hvorki hver þau eru né hvers vegna þér finnst þau svo óviðeigandi.  Vinsamlegast færðu rök fyrir þessu. 

Ef ég gef mér að þú sért að gagnrýna notkun mína á orðinu "kukli" yfir iðkanir sem fylgjendur þeirra vilja kalla "óhefðbundnar lækningar" þá hef ég við því að segja að ég hef rökstutt að ég tel slíkt alls engar lækningar, hvorki hefðbundnar né óhefðbundnar.  Þetta slær örugglega skökku við í þínum huga en ég vil ekki gengisfella orðið lækningar með því sem með réttu er bara kukl.  Hugtakið kukl hef ég skilgreint ítarlega í blogggrein nýlega sem ég kalla "Hvað er kukl?".

Varðandi virðingu fyrir því sem fyrir utan hinn hefðbundna læknageira liggur, þá beinist gagnrýni mín ekki að kukli vegna þess að það er utan læknageirans, heldur af því að það er kukl.  Gæði hlutanna markast ekki endilega af því hvort að þeir eru innan kerfis eða utan, þó að nú á dögum séu mun meiri líkur á því að vönduð vinnubrögð komi frá háskólamenntuðu fólki innan viðurkenndra háskóla en ekki.  Hvert dæmi þarf að skoða fyrir sig og ég fagna öllu sem eitthvað vit er í, hvort sem að það er frá rafvirkja, skúringarkerlingu eða lækni.  Málið er bara að ég get ekki gefið afslátt af vísindalegum kröfum og þær fara ekki manngreiningarálit ef svo má segja.  Allir sem vilja láta taka vísindastörf sína alvarlega þurfa að standa skil á alvöru aðferðafræði og ef að aðferðafræðin er ný þarf að færa fyrir henni verulega góð rök og sýna fram á með sérlega vandaðri vinnu.  

Eins og Kristinn segir þá þarf kukl ekki endilega að vera hræðilegur áfellisdómur því fólk er sjaldnast í kuklinu af slæmum ásetningi.  Prettir og loddaraskapur er mun verra og það eru vissulega til mörg dæmi þess innan kuklsins eins og plataðgerðirnar sem voru stundaðar á Filipseyjum um árið og flett var ofan af svo skemmtilega af Baldri Brjánssyni.  Það er neyðarlegt að hafa látið blekkjast og ástunda kukl án þess að hafa góð betur að sér, en ég get ekki í umræðunni farið í einhvern orðaleik um það hvað þetta er.   Hafi einhver aðferð eða meðferð mögulega einhverja verkun er ég tilbúinn að kalla það einhvers konar læknismeðferð, eins og t.d. ákveðinn hluti náttúrulyfja og má þá kalla það náttúrulækningar, en t.d. homeópatíu og lithimnugreiningu og fleira í þeim dúr mun ég ekki kalla annað en kukl. 

Það er ekki þannig að ég leyfi mér að kalla alla aðra kuklara "vegna þess að [ég] þekki sannleikann".  Auðvitað veit ég ekki alla hluti, en ég hef þekkingu og þjálfun í að skoða það sem er borið fram með gagnrýnni vísindalegri hugsun.  Ég kalla það kukl sem stenst ekki vísindalega skoðun og hefur engan fót fyrir sér samkvæmt þeim skilmerkjum sem ég setti í greininni "Hvað er kukl", þ.e. hvorki hugmyndafræðilegur, þekkingafræðilegur né aðferðafræðilegur grunnur sem stenst skoðun liggur fyrir viðkomandi aðferð eða "meðferð". 

Hneykslastu eins og þú vilt Ingvar á beinskeyttu orðavali mínu, en væri ekki nær að hneykslast á þessum ímyndunarheimi sem halar inn milljörðum út á trúgirni fólks og saklaust traust?

Kveðja - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 25.8.2009 kl. 13:04

29 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Því má bæta við að e.t.v. má nota orð eins og "gervilækningar" yfir kukl, en "óhefðbundnar lækningar" á ekki við um kukl því það felur ekki í sér lækningu. 

Svanur Sigurbjörnsson, 25.8.2009 kl. 13:06

30 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hæ Svanur.

Þetta er frábær pistill!   En við þurfum bara í raun að efla aðhlynningu fyrir fólk og eftirfylgni þegar það hefur lent í erfiðleikum.   

Stundum leitar fólk í eitthvað óhefðbundið af því að það hefur ekki nægan stuðning eða fær ekki næga aðhlynningu.

Það er þó margt í svokölluðum óhefðbundnum fræðum sem hefur verið uppgötvað þar og síðan nýtt af hefðbundna greiranum.  Sem dæmi:  Gluccosamine........ sem hefur reynst mjög vel við uppbyggingu á slitnum liðum. Einnig Jónsmessurunni við vægu þunglyndi.  Nú eru þessi efni bara seld í apótekum.

Bestu kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 28.8.2009 kl. 17:06

31 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Margrét

Hugsanlega er það rétt hjá þér að það vanti einhvern þátt í heilbrigðisþjónustuna sem skapar tómarúm þannig að kuklarar fá tækifæri til að koma sínu að.  T.d. mætti setja þjónustu sálfræðinga inn í heilbrigðiskerfið (og hætta með presta á launum á móti) og efla almennt þátt geðheilbrigðisþjónustu.  Hins vegar virðast margar þessar komur til kuklara ekki vera vegna hugarfarslegarar vanlíðunar heldur vegna alls kyns kvilla sem hrjá fólk.  Í slíkum tilvikum þarf fólk að vita að það er ólíklegt að einhver hókus pókus lækni það og það þarf að þekkja hvað er hókus pókus til að geta varast það.  Þess vegna þarf að efla rökfræði og kennslu í þekkingarfræði í skólum, þ.e. hvað er greinandi hugsun og hvernig virka vísindalegar aðferðir og hvers virði eru þær okkur.  Bestu kveðjur - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 1.9.2009 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband