Í átt að jafnræði

Þó lítill tími væri til undirbúnings ákvað stjórn Siðmenntar að bjóða nýkosnum alþingismönnum valkost við trúarlega guðsþjónustu fyrir setningu Alþingis í dag föstudaginn 15. maí kl 13:30.  Á sama tíma geta þeir alþingismenn/alþingiskonur sem vilja, trítlað yfir á Hótel Borg og hlustað á hugvekju Jóhann Björnssonar, heimspekings og athafnarstjóra hjá Siðmennt um mikilvægi góðs siðferðis í þágu þjóðar.  Þessi stundi í boði Siðmenntar verður að mestu óformleg og frjálsleg.  Þingmennirnir fá léttar veitingar og geta spjallað saman eftir hugvekjuna þar til tími er kominn til að trítla inn í sal Alþingis á ný til setningar þingsins.  Þetta er því svolítið í anda þess að vera frjáls undan því að klæðast bindi í þingsal, þau auðvitað búist ég við að allir verði prúðklæddir við setninguna.

Samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár ríkir hér trúfrelsi og er það í raun svo, en það segir ekki alla söguna.  Ef við tökum dæmi úr öðru þá sést að það er ekki nóg að hafa atvinnufrelsi ef enginn vill ráða þig.  Það er ekki nóg fyrir konur að hafa sama rétt til sömu launa og karlar ef í rauninni er þeim mismunað.  Þannig er það með lífsskoðunarmálin (trúarlegar eða veraldlegar lífsskoðanir).  Við megum hafa þá sannfæringu að trúa ekki á guð eða annan æðri mátt, en ríkið, með lögum sínum, setur trúlaust fólk í 3. flokk á eftir trúuðu fólki í trúfélögum utan þjóðkirkjunnar sem er í 2. flokki á eftir 1. flokki sem er fólk í þjóðkirkjunni.  Þetta fyrsta flokks fólk fær gríðarlegan fjárstuðning til kirkju sinnar, sem er langt umfram það sem annars flokks fólkið fær og að auki fá prestar fyrsta flokks fólksins sérstök tækifæri til að messa yfir þjóðinni í ríkisfjölmiðlum og ganga við hlið forseta þjóðarinnar og leiða þingmenn inní kirkju sína fyrir hverja setningu Alþingis og boða þeim fagnaðarerindið.  Hin trúfélögin, 2. flokks þegnar í þessu tilliti, fá engin slík félagsleg forréttindi þó vissir söfnuðir hafi jú fengið að messa í útvarpinu öðru hvoru í gegnum árin.

Líkt og dalítarnir (lægst setta stéttin) í Indlandi, verða siðrænir húmanistar á Íslandi að þola óréttlæti og ójöfnuð þó ólíku stigi sé saman að jafna, en Siðmennt er eina lífsskoðunarfélagið sem fær ekki neitt frá ríkinu.  Eini styrkurinn sem Siðmennt hefur fengið frá opinberum aðila var húsaleigustyrkur vegna kennsluhúsnæðis fyrir borgaralega fermingu, frá Reykjavíkurborg í 3 ár, en hann var felldur niður í ár, án sérstakra útskýringa.  Það olli mörgum foreldrum barna í borgaralegri fermingu sárum vonbrigðum því kostnaðurinn dreifðist á þá.  Á meðan þetta gerðist var kirkju einni í bænum afskrifaðar skuldir upp á um 17 milljónir króna.  Ágætis bónus það ofan á jöfnunarsjóð og kirkjusjóð, sem þjóðkirkjan fær aukretis við sóknargjöldin.  Prestar eru á launum hjá ríkinu við sína fermingarfræðslu en foreldrarnir bera kostnað við hófleg laun kennara í fermingarfræðslu Siðmenntar.  Siðmennt gefur börnum val, en ríkið styður einungis við val þeirra sem "leitast til við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns". 

Nú mun Siðmennt veita þingmönnum val.  Smekkleg og hógvær veraldleg hugvekja um siðferðisleg málefni þjóðar verður flutt á Hótel Borg fyrir þá alþingismenn sem ekki eru kristinnar trúar og vilja eiga notalega stund án þess að hlusta á boðun trúar eða vera óbeint beðnir að biðja bæna eða syngja sálma, þ.e. taka þátt í athöfn sem hæfir ekki lífsskoðun þeirra.  Það er ljóst að sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar voru ekki að finna sig í hefðinni.  Birgitta Jónsdóttir, alþingiskona segir á bloggi sínu:

Ég ætlaði ásamt nokkrum þingfélögum að vera úti á Austurvelli í stað þess að sækja messuna - finnst persónulega ekki rétt að blanda saman trúarbrögðum og þinghaldi. Veit að þetta er hefð og allt það en mér ber að fara eftir minni eigin siðferðisvitund varðandi þingstörf.

Ímyndið ykkur að Alþingi er í raun samkvæmt venjuhefð að bjóða uppá trúarlega athöfn sem alls ekki passar öllum þingmönnum og jafnvel þó þeir væru kristnir gæti verið að þeir vilji ekki blanda saman þingstarfinu og trúarbrögðum, með réttu.  Ímyndið ykkur hversu neyðarlegt það er að setja þá þingmenn sem ekki eru kristnir í þá stöðu að þurfa að sitja eftir eða standa á Austurvelli til þess að fylgja sannfæringu sinni!  Hvernig ætli Birgittu muni líða, standandi í fámenni á Austurvelli, gagnvart hinum nýja vinnustað sínum, sem er "á mála" hjá einu trúfélagi, einni trúarskoðun og hefur þar forsetann í liði með sér einnig?  Líðanin er líklega ekki ósvipuð og hjá hjá barni sem sökum lífsskoðunar foreldra sinna þarf að sitja eitt þegar bekkjarfélagar hennar lesa valda kafla úr Biblíunni í kristinfræði eða hlusta á káta djákna spila og syngja Áfram Kristmenn krossmenn! fyrir hin börnin í leikskólanum. 

Ísland hefur aldrei stigið aðskilnaðarskref ríkis og kristinnar kirkju til fullnustu og þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um málið.  Það þarf reyndar ekki að kjósa um slíkt mál því að hér er um að ræða einfalda kröfu um að gera tvennt:

  1. Aðskilja vald í samræmi við þær kenningar um lýðræðisríki sem hugsuðir og framámenn Upplýsingarinnar (1650-1850) kenndu okkur.  Það nægir ekki að aðskilja bara löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, heldur þarf að aðskilja vel hið gamla kóngs-prests-vald með því að halda algeru trúarlegu hlutleysi og jafnræði innan hinna veraldlegu skipuðu ríkisstofnana.  Þessi aðskilnaður þarf að vera bæði fjárhagslegur og félagslegur.  Þetta skyldi Thomas Jefferson þegar hann og stofnendur Bandaríkjanna bjuggu til stjórnarskrá þar í landi sem innihélt ekki orð um guð og mismunaði ekki þegnunum eftir lífsskoðunum þeirra.
  2. Að algert jafnræði ríki í meðhöndlun ríkisins gagnvart trúarlegum og veraldlegum lífsskoðunarfélögum.  Ríkið á sem minnst að hafa afskipti af lífsskoðunarfélögum og nota fé skattgreiðenda fyrst og fremst í uppbyggingu mennta-, heilbrigðis- og félagskerfis.  Á lingói mannréttindafrömuða kallast þetta "krafan um jafna meðferð".  Hún hefur algeran forgang og ef ríkið/fólkið ákveður að styðja við lífsskoðunarfélög á að gera það þannig að öll fái það sama.

Þetta var lærdómur Upplýsingarinnar og nútímans eftir heimsstyrjaldirnar.  Með þessi sjónarmið í huga var veraldleg yfirlýsing um mannréttindi allra samþykkt af Sameinuðu Þjóðunum arið 1948.  Sum lönd eins og Frakkland tóku þessar hugsjónir alla leið en Norðurlöndin gátu ekki brotist undan áhrifamætti og fjárhagslegum ítökum hinnar evangelísk-lútersku kristnu kirkju og mynduðu með henni eins konar fyrirskipað hjónaband.  Norðmenn hafa bætt talsvert jafnræðismálin og Svíar hafa lagt niður þjóðkirkjufyrirkomulagið.  Með losun tabúa um umræður um trúmál undanfarin 10-15 ár eru þjóðirnar smám saman að sjálfmennta sig um þessi mál því ekki eru jafnræðismál kennd í skólum.  Brétar losuðu sig við guðlastslögin sín fornu í fyrra og þess sér víða merki að það eru að renna upp nýjir tímar.  Nú er svo komið að þjóðkirkjan hefur rétt undir 80% skráningu og samkvæmt könnun hennar via Gallup árið 2004 eru 19.6% þjóðarinnar trúlausir.  Ljóst er að sjálfkrafa skráning ungabarna í trúfélag móður stenst ekki siðferðislegar kröfur um að hér sé um meðvitaða ákvörðun að ræða, gerða af báðum foreldrum og að börn séu ekki stimpluð eftir skoðunum foreldra, ekki frekar en þau eru gerð það í tilviki stjórnmálanna.  Engum dytti í hug að segja:  "þetta er Sjálfstæðisbarn" eða "Samfylkingarbarn".  Báðir stjórnarflokkarnir hafa á stefnuskrá sinni að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga og því verður fróðlegt að fylgjast með þessum málum á Alþingi næstu misserin.  Aðkallandi efnahagsvandi útheimtir athygli þingsins, en það mun koma að því að mannréttindin fái sína daga. 

Til hamingju Siðmennt og allir þeir sem vilja eiga val um annað en ríkistrúnna!  Hvort sem nokkur þingmaður mætir eða ekki í hugvekju Siðmenntar þá er blað brotið í sögu landsins með þessu boði félagsins.  Ég veit að vinur minn Jóhann Björnsson, heimspekingur, kennari og athafnarstjóri hjá Siðmennt mun gefa þingmönnum gott hugarfóður blandað með nokkrum broskítlum í hugvekju sinni fyrir þau mikilvægu störf sem framundan eru á Alþingi.


mbl.is Hugvekja í stað guðsþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill, maður skilur ekki enn af hverju er ekki búið að gera þetta. Þetta er að mínu viti einn svartasti bletturinn á íslensku þjóðfélagi.

Rúnar Már Þráinsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 09:48

2 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Takk fyrir Rúnar Már.  Það er satt því það er vandfundinn sá blettur ójafnræðis í landinu sem er eins áberandi og ljótur eins og þessi.  Hann blasir við en samt hefur skort kjark til að taka hann burt.

Svanur Sigurbjörnsson, 15.5.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband